Viljið þið gjöra svo vel að…

Það má svo með sanni segja það að þessi heimaleikur í Evrópudeildinni, sem fram fer á Anfield fimmtudaginn 10. mars klukkan 20:05 sé ekki hefðbundinn Evrópuleikur. Jú, það mun allt verða gjörsamlega sturlað í stúkunum hjá stuðningsmönnum beggja liða. Þetta er í fyrsta skipti í sögunni sem erkifjendurnir Liverpool og Manchester United mætast í Evrópukeppni. Gerist það þegar bæði lið eru á algjöru blómaskeiði og á blússandi siglingu? Uhhh, nei. Þetta eru 16 liða úrslit í EVRÓPUDEILDINNI, ekki Meistaradeild Evrópu. Í rauninni vill hvorugt liðið keppa í þessari keppni, en á þessum tímapunkti, þá er þetta RISA viðureign og hreint út sagt, allt undir. Þótt þessi tvö lið væru að keppa í utandeildinni á Englandi, þá væri mikið undir, bara vegna sögunnar, rígsins og stuðningsmannanna. En þessi fyrsta Evrópuviðureign í sögunni, jahh, hvað haldið þið?

Það eru ansi margir sem hafa ekki verið par hrifnir af þessu Evrópudeildar ævintýri hjá liðinu okkar. Það má alveg færa góð rök fyrir því að hún trufli fókus á deildina, auki hættu á meiðslum leikmanna vegna álags og ferðalaga og skili óþarflega litlu í kassann. Maður hefur líka heyrt góð rök fyrir að fara langt í þessari keppni, sem er jú Evrópukeppni. Til að mynda má koma inn með það að sigur í henni gefur sæti í Meistaradeildinni. Önnur rök eru þau að þótt hún gefi ekki nærri jafn mikinn pening og Meistaradeildin, þá gefur hún engu að síður fínan pening fyrir liðin sem fara langt í henni. Það má líka taka það inn í myndina að ef ensku liðin standa sig ekki í báðum Evrópukeppnunum, þá getur þetta marg fræga fjórða sæti, fallið Ítalíu í skaut. Það eru því fullt af rökum með og á móti því að fara langt í þessari keppni. En það er alveg gjörsamlega sama hvaða rökum er beitt, það munu ALLIR stuðningsmenn Liverpool vilja það heitast af öllu fótboltatengdu, klára þessa viðureign gegn Luis Van Gaal og hans mönnum. Þessi tvö lið eiga það líka sameiginlegt að vera búin að tapa jafn mörgum stigum í deildinni á tímabilinu og það eru miklu fleiri stig en stuðningsmenn félaganna kæra sig um. Þau eiga það því líka sameiginlegt að Meistaradeildarsæti í gegnum deildarkeppnina er afar fjarlægur möguleiki og að þeirra stóri séns felist í sigri í Evrópudeildinni. Í þokkabót bætist það við að leikmenn Rauða Hersins hljóta hreinlega að vilja sýna það og sanna að þetta Liverpool lið sé ekki það eina í heiminum sem Luis Van Gaal geti bókað sigur gegn.

En hvernig er staðan á leikmannahópum liðanna? Jú, liðin hafa bæði átt í mesta basli í vetur með að ná að halda mörgum leikmönnum heilum í einu. Það hefur engu að síður verið mein fyndið að fylgjast með fjölmiðlum undanfarið (og galna manninum) vera að þusa um það að 17-18 leikmenn séu meiddir hjá liðinu, svo þegar maður skoðaði listann, þá voru þar slatti af nöfnum sem meira að segja stuðningsmenn rauðu djöflanna þekktu ekki. Það er einfalt að búa til lista yfir meidda menn ef við tökum alla yngri flokkana með. Spurning um að tékka stöðuna á undir 8 ára liðinu hjá Liverpool, ætli allir séu heilir þar? Hjá þeim verða þeir Rooney, Young, Schweinsteiger og Shaw pottþétt ekki með. Aðrir verða klárir í slaginn eða mjög nálægt því samkvæmt nýjustu fregnum. Þeirra tveir sterkustu menn, De Gea og Smalling, verða því báðir á sínum stað á Anfield. En þessi leikur vinnst eða tapast ekki á því hvort einn leikmaður til eða frá úr liðunum sé meiddur eða ekki, þetta mun bara ráðast á þessu gamla góða marg tuggna orði, dagsforminu. Þetta ræðst ekki heldur á búningalitnum, alveg sama þótt Man.Utd hafi keypt hvítan búning á alla þá sem fara á leikinn í útivallarhólfið.

Það er hálf furðulegt að hugsa til þess að Liverpool sé búið að vinna þrjá leiki í röð í deildinni undanfarið með markatöluna 11-1, slegið Augsburg út úr Evrópukeppninni og tapað fyrir Man.City í vítakeppni í deildarbikarnum. Manni líður einhvern veginn ekki þannig með stöðuna, svei mér þá, staðan á liðinu akkúrat núna er bara betri en maður gerði sér grein fyrir. Núna eru tveir leikir framundan, tveir leikir gegn Manchester United. Það er ekkert, EKKERT, sem ætti að geta truflað fókus okkar manna. Hann hlýtur að vera algjörlega á þessum tveim stóru verkefnum sem framundan eru. Menn geta í þokkabót lagt allt sitt í leikina báða, það þarf ekkert að hugsa um hvern skuli hvíla og hvern ekki. Það mun vera heil vika til að jafna sig á milli leikja. Það er reyndar munaður sem andstæðingar okkar hafa ekki. Ég er því á því að úrslitin í þessum fyrri leik skipta öllu máli, því það verður góður tími til að leggja seinni leikinn upp taktískt lega séð og hamra á réttum hlutum.

Leikmannahópurinn í vetur hjá Klopp hefur verið þannig að það hefur verið tiltölulega einfalt mál að giska á uppstillingar hjá honum. Kannski eitt til tvö atriði sem einhver vafi er um, en 8-10 manns öruggir inni. Það er bara ekki staðan lengur, núna veit maður varla neitt um þetta mál, þ.e. hver kemur til með að byrja inná í leikjunum. Flanno er kominn tilbaka og er búinn að spila í hægri bakk undanfarið. Ég reikna nú samt með ferskum Clyne þar í næsta leik, þar sem Flanno átti langt því frá sinn besta dag gegn Palace. Kolo var búinn að spila vel í miðverðinum, en núna er Skrtel orðinn klár, sem og bæði Lovren og Sakho. Ég man varla þá tíma sem við höfðum úr öllum miðvörðum okkar að velja í leik. Persónulega finnst mér þeir Lovren og Sakho vera okkar besta par, og þeir voru fínir í síðasta leik. Vonandi fá þeir bara tækifærið áfram. Ég sé svo fátt annað í stöðunni en að Moreno verði vinstra megin í vörninni, þar sem ég held að Flanno spili ekki þriðja leikinn í röð.

Hendo og Can hafa svo verið inni á miðri miðjunni undanfarið og voru bara fínir í síðasta leik og hafa almennt verið bara ágætir undanfarið, sér í lagi Can. Ég sé því varla ástæðu til að sprengja þeirra samband upp í bili, en við höfum Milner, Allen og svo Coutinho til taks líka. Ég efast um að Einar Matthías fái ósk sína uppfyllta í næsta leik með að Coutinho verði inni á miðjunni. Firmino var í holunni í síðasta leik, mér fannst hann mjög slakur, en hann skilaði engu að síður marki. Hann er yfirleitt góður í annan hvern leik, þannig að væntanlega verður hann góður í þessum fyrri leik. Þá snýst þetta um hvaða tveir af þeim Lallana, Coutinho og Milner byrji þennan leik. Ég held að Milner komi alltaf til að með byrja, hann er bara leikmaður sem hættir aldrei og þrátt fyrir afburða heimskuleg spjöld í síðasta leik, þá sýndi hann gegn City í deildinni hversu mikilvægt er að vera með svona Duracell kanínu sem pressar allt og alla og gefur engan frið. Man.Utd liðið vill halda bolta og dúlla sér með hann, þá þarf pressu og hver er öflugri í henni en Milner? Nú mun ég henda mér beint í þversögn við sjálfan mig, því ef þessi rök sem ég notaði með Milner myndu eiga við í öllum tilfellum, þá værum við alltaf að tala um að Lallana væri hitt “pikkið”. Sá kann líka að hlaupa og það mikið og pressa út um allt. Ég held þó að Klopp muni setja Coutinho þarna inn, bara upp á sköpunarhæfninnar. Þessir þrír fyrir aftan framherjann munu svo eiga að skila mikilli yfirferð og skipta oft og títt um stöður við hvern annan. Sturridge hlýtur svo að koma upp á toppinn, úthvíldur og í topp formi.

Ég ætla sem sagt að spá þessu svona:

Mignolet

Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

Henderson – Can – Milner

Firmino – Sturridge – Coutinho

Bekkur: Ward, Skrtel, Flanagan, Allen, Lallana, Origi, Benteke

Já, ég viðurkenni það fúslega að það er kominn fiðringur í magann fyrir þessar viðureignir. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda að tapa enn einu sinni fyrir þessu liði, þessu slakasta Man.Utd liði í áratugi. Liverpool hafa sjálfir verið með mun slakara lið og lagt mun sterkara lið Manchester United að velli og það stundum auðveldlega. Það sýnir bara og sannar enn og aftur að staða liðanna hverju sinni skiptir litlu máli, það er hvernig menn geta keyrt sig í gegn og hverjir ná að peppa sig betur upp fyrir viðureignirnar. Þetta Liverpool lið þarf að mæta til leiks eins og það gerði gegn City í deildinni, gjörsamlega band brjálaðir og pressuðu andstæðinga sína þannig að þeir vissu vart sitt rjúkandi ráð. Þannig þarf þessi leikur að vera. Það þarf að vera hraði og aftur hraði, það má ekki detta niður í eitthvað bölvað dúllerí því það vilja mótherjar okkar. Náðuð þið þessu? Hraði, hraði, hraði?

Ég er skíthræddur við þetta en samt einhvern veginn bjartsýnn. Ég ætla að spá okkur 2-1 sigri í þessum fyrri leik og það muni duga okkur því jafntefli verður á útivelli. Eigum við ekki að segja að Sturridge setji eitt mark og Coutinho hitt. Martial grísar einu hinum megin. Þetta eru að sjálfsögðu ágiskanir, en eitt get ég fullyrt og þar er ekkert verið að giska neitt út í loftið, að taugar verða þandar og neglur nagaðar yfir þessar rúmlega 180 mínútur af fótbolta sem framundan eru. Stundum er sagt að megi betra liðið vinna, mér er skítsama um það og sigurinn má koma hvernig sem er, ég vil bara slá þetta Manchester United lið úr keppni, meira fer ég ekki fram á. KOMA SVO.

35 Comments

 1. a) Flanno er ekki í hóp, því hann var ekki skráður í keppnina. Hann kemur því örugglega ekki við sögu.
  b) Eitthvað var verið að slúðra um að Milner hefði verið sendur heim með einhvern vírus í dag. Sel það ekki dýrara en ég keypti. Einar Matthías fær því kannski ósk sína uppfyllta með að fá Coutinho inn á miðjuna, nema Allen fái sénsinn. Hver veit, kannski verður svo Chirivella á bekknum?

 2. Var Flanni ekki skilin eftir í Evrópuhópnum og hefði því aldrei mátt spilaþessa leiki hvort eð er?
  Annars flott upphitun. Get varla beðið eftir morgundeginum!

 3. Ég var bara orðinn brjálaður við það eitt að lesa þetta… væri fínt ef við drulluðumst nú til að rúlla yfir þetta u****d lið, stjörnur og lágstafir… þeir fá ekki meira frá mér!

 4. Milner vist sendur heim með einhvern virus í gær er tæpur fyrir leikinn.

 5. Flott upphitun alveg það sem manni vantaði til þess að kveikja smá eld í brjóstinu!

  Ég held að þetta verði alveg drepleiðinlegur leikur af Scumm hálfu…bara vegna þess að þetta eru þeir, ekki vegna þess að þetta eru tveir leikir. Þeir spila alveg hrútleiðinlegan fótbolta.

  Ef að Milner verður ekki með held ég að Allen komi þarna inn enda spilaði hann bara alveg þokkalega þegar að hann var seinast með, var eiginlega maðurinn sem keyrði miðjuna áfram í þeim leik.
  Annars reiknar maður með liðinu eins og þú leggur það upp hér að ofan.

  Eigum við ekki að setja 2-0 á þennan leik þar sem Studge setur annað og Martial setur sjálfsmark eftir hornspyrnu…aldeilis hræddur um það!

 6. Ég held þessi leikur verði annað hvort í ökla eða eyra. 3-0 og einvígið klárað eða 0-1 tap. Þetta er mín tilfinning, ekkert meira vísindalegt á bak við þessa spá 🙂

 7. Ég spái mörgum spjöldum af hinum ýmsu litum í stórsigri okkar manna 4 null

 8. Þetta einvígi verður alltaf “to the wire” og ekki séns að við náum að klára eitthvað í kvöld. Naumur sigur eða jafntefli finnst mér líklegast í kvöld. Spái 1-1 og allt í járnum fyrir seinni leikinn.

  Annars leit ég svo á að víst að leikurinn gegn Palace væri að tapast þá hlyti næsti leikur að vinnast, það var svona þemað í vetur. En svo unnu þeir Palace og þá er það plan út um gluggann :/

 9. United á ekki eftir að skora mark í þessum leik. Ég er búinn að sjá tvo síðustu leiki þeirra og þeir voru stálheppnir að stela sigrinum gegn Watford. Þetta fer 4-0 fyrir okkar menn.

 10. Vinnum þennan leik 2-0 með mörkum Coutinho og Firminho.
  Meiðslunum fjölgar hjá manu þar sem galinn rennur til í einni dýfunni og tekur með sér hálfan varamannabekkinn.

 11. Ég man eftir einhvern af leikjunum sem Van Gaal var að spila við Liverpool. Talaði hann um að hann hafi verið að vinna í því alla vikuna fyrir að peppa menn niður. Taka þetta algjörlega bara eins og hvern annan leik og vera ekkert að gíra sig upp á móti Liverpool. Spila með hausnum en ekki hjartanu.

  Þannig finnst mér leikirnir undanfarið hafa verið á móti manu… Liverpool hafa verið peppaðir og tilbúnir að hlaupa og berjast eða eitthvað. Meðan þeir hafa verið bara að drolla leikinn niður og eyðileggja alla stemningu. Ég veit svosem ekkert hvað ég er að tala um en hugsa að það geti komið í bakið á manni að vera of æstur og kannski stressast upp við það eða eitthvað.

  En hugsa að menn viti alveg við hverju er við að búast núna og bara vinni þennan leik sama hvernig manu spila.

  Kapp er best með forsjá.

 12. Hörkuleikur er ósámmala þér um byrjunliðið væri að mínu mati slæm mistök ef hann byrjar ekki með lallana inni

 13. Sækja til sigurs, ekki þetta 7 miðjumanna væl eins og við fengum í síðasta leik gegn þeim og spiluðum upp í hendurnar á þeim. Coutinho við stýrið á miðjunni.

  Gera í rauninni þetta við þá!

 14. Hef mikla trú á að við keyrum yfir þetta manjút-lið í kvöld… Erum orðnir hungraðir í að vinna þá og Klopp nær að öskra menn saman, rétt eins og hann gerði á móti sjittí í deildinni í síðustu viku.

  Fjögur fokkings núll í kvöld. Alveg sama hverjir skora en trúlega verður það Studge og Firmo!

  Liverpool FC ?@
  #OnThisDay in 2009, #LFC beat @realmadrid 4-0 at Anfield…

 15. Tek algerlega undir með Svavar Station. Ég hef verið mjög hæfilega bjartsýnn undanfarið en liðið okkar er mjög einbeitt núna og mér finnst loksins kominn Klopp stimpill á liðið. Ég trúi því að við sjáum ,,breakthrough performance” hjá liðinu okkar á Anfield eftir nokkra tíma.

  Einvígið verður einfaldlega klárað í kvöld því ManUnited munu ekki sjá til sólar!

 16. Sælt gott fólk,

  Veit einhver um góða bari til að horfa á leikinn í Kaupmannahöfn? Ég er á hóteli nálægt Tivoli, og mér sýnist Southern Cross vera góður, en The Globe helvíti langt í burtu.

 17. Sammála, þetta er lakasta United lið sem við höfum séð í mörg ár og með vonlausan þjálfara undir pressu. Í þokkabót eru þeir með eitthverja 10-15 leikmenn á sjúkralistanum.

  Get ekki beðið og er í raun mjög sigurviss, held þetta verði stór 5-1 sigur, aðeins De Gea að þakka að það verði ekki stærra

 18. Takk fyrir þessa upphitun SSteinn. Hvar hefur það komið fram að Liverpool vilji ekki taka þátt í þessarri keppni. Evrópudeildin er flott keppni en með allt of mörgum leikjum og þar af leiðandi allt of mikið leikjaálag fyrir lið sem komast langt. Nú er bara að standa í lappirnar og leggja MU.

 19. Verður erfitt framan af. Lallana mun koma inná í seinni og með sinni baráttu og hæfileikum mun hann breyta leiknum.

  Sturridge mun ekkert geta (enda búinn sem toppleikmaður) og Benteke mun koma inná og verða hetja.

  Vinnum 2-1, Lallana & Benteke.

  Áfram Liverpool!

 20. Í kvöld er rosalegur leikur á Andfield. En þessi tvö lið hafa alltaf háð mikið stríð. Liverpool og Man.Utd. hafa oftast verið betri en nú, en rígurinn mun varða að eilífu. Sem betur fer valdi ég Liverpool 1963 er ég sá þá spila sinn fyrsta Evrópuleik við KR á Laugardalsvelli og unnu náttúrlega létt. Ég var gerður að heiðursfélaga Íslenska Liverpools-klúbbsins það sem að ég og pabbi prentuðum allt frítt fyrir klúbbinn þegar hann var að þróast og nú er það sonur minn Rósmundur sem prentar Liverpoolblaðið af snilld eins og honum er lagið, hann er líka sannur Púllari og FH-ingur. Ég er og verð alltaf stoltur af mínum mönnum í Liverpool þó ég gagnrýni þá líka, þetta eru jú mínir menn!!!!!
  ÁFRAM LIVERPOOL AÐ EILÍFU!!!!!!!!!!!!!!

 21. Dortmund gæti verið 3-0 yfir í hálfleik á móti Tottenham. Dortmund að spila mjög vel en Tottararnir eru varla með leiknum og Dortmund líta vel út og verða að teljast með sigurstranglegri liðunum í þessari keppni.

  Liverpool vs Dortmund á St Jacob Park í Basel 18 maí lets do this!

 22. Liverpool XI: Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho, Moreno, Can, Henderson, Lallana, Coutinho, Firmino, Sturridge.

  Substitutes: Ward, Toure, Smith, Allen, Ojo, Benteke, Origi.

 23. Risarnir í Manchester United munu yfirspila okkur og vinna okkur nokkuð örugglega 0-2. Eigum að pakka í vörn og vona það besta. Er hræddur við Martial sérstaklega og nýju stjörnuna þeirra.

 24. Liverpool: Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho, Moreno, Can, Henderson, Lallana, Coutinho, Firmino, Sturridge. Subs: Ward, Benteke, Toure, Allen, Origi, Smith, Ojo.

  United: De Gea, Varela, Smalling, Blind, Rojo, Schneiderlin, Fellaini, Memphis, Mata, Martial, Rashford. Subs: Romero, Darmian, Riley, Carrick, Schweinsteiger, Weir, Herrera.

 25. Miðað við hvað þessi tvö lið eru í mikilri lægð þá eru þetta bara nokkuð spennandi byrjunarlið. Líst vel á Liverpool. Spá, 2-0 sigur. Koma svo!

Kop.is Podcast #112

Byrjunarliðið komið