Crystal Palace á morgun

Fyrst: Síðan lá niðri vegna hýsingarvandamála um stund nú síðdegis og í kvöld. Fyrir vikið kemur þessi upphitun í seinna lagi inn. Við biðjumst velvirðingar á þessu.

Á morgun lýkur 29. umferðinni með tveimur leikjum. Í hádeginu heimsækja okkar menn grýluliðið sitt, Crystal Palace, á Selhurst Park. Þetta er reyndar aðeins 28. leikur okkar manna og við eigum inni leik gegn Everton síðar í mánuðinum en eftir fróðleg úrslit dagsins í dag er þetta tækifæri fyrir okkar menn að nálgast topp þrjá enn frekar og halda enn í veika von um að ná 4. sætinu. Eins er þetta síðasti deildarleikur okkar manna í tvær vikur og því nokkuð vel þegið að ná í þrjú stig.

Jürgen Klopp sagði nýjustu fréttir af leikmönnum fyrir helgina. Lucas Leiva verður frá í 4-5 vikur og hann talaði um að erfitt yrði fyrir Jon Flanagan að spila aftur svo stuttu eftir miðvikudag, það verði enn að fara varlega með hann vegna meiðslasögu hans. Aðrir ættu að vera heilir og miðað við frammistöðu liðsins á miðvikudag gegn City efa ég að hann þurfi að gera of miklar breytingar.

Ég ætla að spá því að Flanagan, Firmino og Origi víki fyrir Moreno, Coutinho og Sturridge. Þessir þrír hvíldu allir í miðri viku en koma á ný inn á meðan frábær frammistaða Lallana gegn City þýðir að hægt er að hvíla Firmino, sem hefur leikið skart undanfarið, og halda honum einnig ferskum fyrir United í miðri viku.

Liðið verður því svona:

Mignolet

Clyne – Touré – Lovren – Moreno

Henderson – Can – Milner

Lallana – Sturridge – Coutinho

Við getum svo átt Firmino, Origi, Benteke, Allen, Flanagan og Skrtel á sterkum bekk á meðan Sakho heldur áfram að gera sig kláran fyrir United-einvígið.

Mín spá: Ég ætla einfaldlega að fara fram á sigur gegn þessu Palace-liði. Þeir voru mjög góðir í deildinni á síðasta ári og voru lengi vel fyrir ofan okkar menn en hafa dalað svakalega undanfarið og eru nú á sveimi fyrir ofan fallbaráttuna. Þeir eru með 3 töp og 2 jafntefli í síðustu 5 deildarleikjum og hafa ekki unnið deildarleik síðan 19. desember. Það er því nokkuð ljóst að þeir keyra sig í gang fyrir uppáhalds mótherja sína á morgun en okkar menn einfaldlega verða að standast þá pressu.

Það er einfaldlega ekki hægt að taka þetta Liverpool-lið alvarlega ef það ætlar að flengja stórlið eins og City og fylgja því svo alltaf eftir með sjálfshýðingu gegn liði í neðri hluta deildarinnar. Á morgun skal þetta breytast. Það bara skal.

Ég er bjartsýnn, þrátt fyrir að mótherjarnir séu grýlulið Liverpool. Okkar menn vinna 3-1 sigur og setja tóninn fyrir einvígið við United.

Koma svo!

YNWA

11 Comments

 1. ja,en. pardew virdist elska ad spila gegn lfc og eiga frekar audvelt m ad motivera mannskapinn gegn okkur. sidan er þetta palace lid not halfbad lid. engu ad sidur er eg bjartsynn og segi 1-3. henderson-can og milner skora.

 2. Rökin hníga að Palace sigri ef við horfum á það sem Liverpool hefur gert í vetur. On – off – on – off – on – off. Voru on í síðasta leik og verða því væntanlega off í þessum.

  Hjartað hins vegar vonast eftir góðu rönni núna í deild og vonin snýst um að ná að lyfta sér upp um nokkur sæti fram á vorið. Vonin um 4. sætið er auðvitað mjög veik og margt þarf að falla með okkar mönnum. Eitt af því er að vinna svona leiki. Ef ekki þá er þetta tímabil í deildinni gjörsamlega off.

 3. Væri gaman að sjá alltaf tímasetningu á leikdegi í skýrslum…

  Svar (Kristján Atli): Það stendur stórum stöfum hægra megin á síðunni undir liðnum Næsti Leikur…

 4. Algjörlega sammála að þetta lfc lið má ekki gjaldfella góðan sigur á móti city í vikunni með því að tapa stigum á móti palace í dag. Vissulega er erfitt að ætla liðinu 4 sætið en eins og deildin hefur spilast í vetur þá væri það líka glapræði að gefast upp núna. Það er alveg grátlegt að horfa upp á töpuð stig t.d. á móti sunderland heima meðan spennan um 4 sætið er svona mikil.

  Fyrst og síðast finnst mér nú líka leikmenn skulda áhangendum að þeir geri sitt allra besta og reyni að koma klúbbnum ofar í töfluna. Að dóla sér í 8 – 11 sæti er afar dapurt og í mínum huga ætti ekki nokkur einasti leikmaður að vera öruggur með sitt sæti þegar gengið er þannig. Mér fannst jafnframt áhugavert viðtal við starfsmann fsg sem talaði um að þeir hefðu ekki gert sér grein fyrir því hversu lélegur hópurinn var sem þeir tóku við þegar þeir keyptu klúbbinn. Ég get tekið undir það að hann var ekki merkilegur en sá hópur endaði nú það tímabil á svipuðum stað í deildinni og lfc er núna…..hvað segir það um núverandi hóp?

  Varðandi byrjunarliðið þá væri ég mikið til í að flanagan fengi að halda sínu sæti. Mér fannst samvinna þeirra Origi, lallana, firmino og Milner með þeim hætti í síðasta leika að ég væri mjög spenntur að sjá það aftur en hinsvegar er erfitt að horfa framhjá coutinho og sturridge. Mér finnst samt að engin ætti skilið að víkja.

  YNWA
  al

 5. Held að það geti verið skynsamlegt að hvíla Flanagan. Strákurinn er nýstiginn upp úr erfiðum meiðslum og betra að hafa hann ferskan undir vorið. Þarf Firmino nokkra hvíld á þessu stigi. Núna er álag á miðjumönnunum þar sem Lucas og Allen eru frá. Held að Durasell Milner höndli það enda getur hann hlaupið endalaust. Hefði viljað sjá bakup fyrir Henderson sem hefur verið upp og ofan eftir meiðslin. Nú leggst maður á bæn með Lallana sem aldrei virðist geta átt nema einn og einn góðan leik. Hann er með endalaust af hæfileikum og einn sá besti í deildinni á góðum degi. Touré er klár í vörninni og hefur örugglega hug á sanna sig sem liðsmaður fyrir næsta vetur. Áfram Liverpool.

 6. Mjög spennandi leikur sem gæti hleypt smá lifi i lokasprettinn, með sigri auðvitað! Hef mikla trú á að við munum eiga góðan leik í dag og vinnum 0-2. Þvílíkur lúxus að hafa alla þessa leikmenn til staðar! Erum í 5.sæti yfir besta fönnið i síðustu 6 leikjum. Koma svo strákar!!

 7. Vonandi mæta okkar menn til leiks, frá fyrstu mínútu. Við bara verðum að “drepa ” þessa grýlu, þó það sé skrifað í skýin að markvörður þeirra eigi leik lífs síns. Ég spái þessu 1-2 fyrir okkur. Sturridge með bæði mörkin á 65 mínútum.

 8. Rökin hníga að Liverpoolsigri. Meiðslalistinn stuttur og liðið í betra og betra formi. Heppnin hefur ekki verið með á tímabilinu og það stendur ekki endalaust. Spái tveggja til þriggja marka sigri.

 9. Spennandi leikur í dag fyrir andlega stöðu liðsins. Mikilvægt að ljúka þessu tímabili á uppbyggingarnótum, sama hver staðan verður nákvæmlega í lokin.

  Hér er leikur sem sterkt lið sem á erindi í toppbaráttu á að vinna. Þurfum að senda okkur sjálfum þau skilaboð að við séum að stíga upp í okkar eðlilega styrk.

  Ef við stöndum okkur varnarlega í dag, vinnum við þennan leik. Undanfarnir leikir hafa gefið til kynna jákvæða þróun í vörninni, föst leikatriði ekki tekið jafn mikið á taugarnar og andstæðingarnir ekki skorað úr hverju skoti. Vonandi byggjum við ofan á það í dag.

Liverpool 3-0 Manchester City

Liðið gegn Palace