Bjartara framundan á leikmannamarkaðnum?

Tvö stórlið hafa gefið verulega eftir undanfarin ár í enska boltanum, verulega úr takti við það sem hópar liðanna kostuðu eða ef mið er tekið af launaskrá, þessi lið eru Liverpool og Manchester United. Það er engin ein einföld skýring á þessu en þó er eitt sem þessi lið eiga sameiginlegt og hafa gert öðruvísi en þeirra helstu keppinautar í deildinni. Bæði hafa sólundað fáránlegum fjárhæðum í yfirverðsetta leikmenn með ofmetna reynslu af ensku úrvalsdeildinni á meðan önnur lið hafa byggt sín lið upp með öðrum hætti, skynsamlegar.

Það að Jürgen Klopp hafi tekið við Liverpool er eitt og sér gríðarlega jákvætt og gefur manni mjög mikla trú á liðinu til framtíðar en eins og ég sagði um leið og hann tók við þá er maður ekki síður spenntur fyrir þeim mönnum sem komu með honum, þá sérstaklega Peter Krawietz.

Með komu þessara manna lauk fimm ára valdaskeiði breskra þjálfara hjá Liverpool og þegar maður horfir til leikmannakaupa liðsins var meira en tími til kominn. Peter Krawietz er ekkert einum þakkað frábæran árangur Dortmund (og Mainz) á leikmannamarkaðnum, ekki frekar en Klopp og Buvac en þeir hafa síðasta orðið hvað leikmannakaup varðar og virðast hafa vit á því að velja þá leikmenn sem vantar í hópinn, menn sem þeir vilja vinna með.


Margt hefur verið skrifað um leikmannanefnd Liverpool, eitthvað sem er ekkert öðruvísi hjá Liverpool en öðrum sambærilegum liðum. En ef leikmannakaup sl. fimm ára eru skoðuð er ljóst að stjórinn hefur langoftast haft lokaorðið um þá sem eru keyptir og hverjir ekki. Mögulega þarf stundum að velja á milli fárra kosta en það er ekki tilviljun að þrír stjórar Liverpool undanfarin fimm ár hafa notað langmest af peningnum í þeirri deild sem þeir þekkja best. Deild sem er því miður dýrasti leikmannamarkaður í heimi með langversta value for money.

Ef eitthvað er að marka þá gagnrýni sem leikmannakaupanefnd Liverpool hefur fengið á sig í þeim tilvikum að leikmaður er keyptur meira fyrir tilstilli nefndarinnar heldur en stjórans þá er ég að skilja leikmannanefndina mun betur en stjórann í nánast öllum tilvikum.

Peter Krawietz tek ég sérstaklega fyrir hvað leikmannakaupin varðar þó hann sé ekki titlaður innkaupastjóri, njósnari eða slíkt. Hann er titlaður annar aðstoðarstjóri Liverpool. En ef ég skil þetta rétt keypti Dortmund ekki leikmann nema hann gæfi blessun sína og væri búinn að greina ítarlega, Klopp og Buvac þurfa auðvitað að gefa grænt ljós líka en það er takmarkað hvað þjálfarateymið getur sett mikinn tíma í að greina leikmenn og Klopp er sagður treysta Peter Krawietz 100%

Sjáum það best á því að það var aldrei spurning um að hann kæmi með til Englands og ferilskrá þeirra hvað leikmannakaup varðar talar sínu máli. Eins er ég jákvæður fyrir því að í þjálfarateyminu séu menn eins og Pepijn Lijnders frekar en t.d. Mike Marsh og Colin Pascoe. Hann er auðvitað ekki njósnari en það hjálpar líklega að hann þekkir boltann í t.d. Hollandi og Portúgal inn og út og hefur unnið í báðum deildum. Allir hafa þessir menn mikla þekkingu á evrópska boltanum öfugt við þjálfarateymi Hodgson, Dalglish og Rodgers. Englendingar virðast stundum halda að þeirra eyja sé alheimurinn hvað fótbolta varðar svipað og margir Bandaríkjamenn virðast halda að Bandaríkin séu alheimurinn, bókstaflega.

Annað sem Liverpool og United eiga sameiginlegt eru eigendur sem sjást nánast aldrei á Englandi og bæði félög eru rekin af viðskiptamönnum sem eru mjög sterkir á almennum markaði en hafa alls enga sérþekkingu á knattspyrnumarkaði. Tek þó fram að líklega taka bæði Ian Ayre og Ed Woodard gríðarlega mikið af þeirri sök sem njósnarateymið og stjórinn ætti frekar skilið. Það eru ekki Ayre eða Woodvard sem ákveða hvaða leikmenn eigi að njósna um og ekki meta þeir hvaða tegund af leikmanni liðinu vantar helst, þeir sjá um að klára dílinn. Þekki ekki nógu vel hversu mikilvægt er að hafa knattspyrnumann í þeim samningsviðræðum eða viðskiptamann.

Það er þó erfitt að skjóta niður það sem Brian Reade skrifaði í grein sinni í The Mirror í vikunni. Innihaldið var á þessa leið

Mediocrity is what you get when you let the ad men and the number-crunchers run the only side of a club that matters — the footballing one

That old Shankly doctrine about clubs having a Holy Trinity – the manager, players and fans – with the directors only there to sign the cheques, is as valid today as it’s ever been.

Hárrétt hjá Reade og mjög áhugaverður pistill hjá honum en með komu Klopp, Buvac og Krawietz bind ég miklar vonir við að nú séum við komin með alvöru fótboltamenn að sjá um þessa hlið mála. Þeir hafa sýnt það nú þegar í fyrstu leikmannakaupum sínum hjá Liverpool. Marko Grujic er samlandi Buvac og strákur sem þeir lögðu mikla áherslu á að fá. Joel Matip er leikmaður sem Klopp segist hafa hugsað til sem mögulegra leikmannakaupa meðan hann var atvinnulaus. Þessi kaup skrifast ekki á FSG eða Ayre nema hvað þeir lönduðu þessu, ok þetta fellur undir stefnu FSG hvað leikmannakaup varðar en ef þið berið saman leikmannakaup Liverpool á 20-24 ára gömlum leikmönnum vs leikmannakaup á 25-30 ára leikmönnum þá ættu allir að fagna þeirri stefnu.

Tomkins Times síðan er yfirburðar hvað svona pælingar varðar því þeirra stefna er alltaf að færa rök fyrir sínum fullyrðingum með því að rannsaka málefnin ofan í kjölin. Paul Tomkins hefur rétt eins og ég lengi verið á þeirri skoðun að reynsla af ensku úrvalsdeildinni sé stórlega ofmetin og að value for money í Englandi sé bara grín miðað við annarsstaðar. Hann skrifaði monster pistil í vikunni þar sem innihaldið var að sýna hvar Liverpool og United hefðu helst dregist aftur úr þrátt fyrir að eyða svipað miklum ef ekki meiri pening en þeirra helstu keppinautar.

Liverpool með leikmannamálin í umsjá Comolli var (nánast) búið að ganga frá kaupum á Suarez þegar Dalglsih tók við. Hvernig maðurinn sem t.d. keypti Suarez, Bale og Modric var rekin snemma frá bæði Liverpool og Tottenham er önnur saga en þegar Dalglish var tekinn við og farinn að móta sitt lið var keypt Andy Carroll, Downing, Charlie Adam, Jose Enrique og Henderson. Þetta voru ekkert leikmannakaup sem Comolli barði einn í gegn og allir hentuðu þeir ágætlega hugmyndafræði Dalglish. Fyrir utan Henderson hefur enginn þeirra spilað í grend við kaupverð eða laun og allir seldir með tapi, nema Enrique sem er ekki hægt að losna við. Tölum ekki um Hodgson sumarið og ofurlaunasamning Joe Cole eða kaupin á Konchesky.

Rodgers rétt eins og Dalglish er stjóri sem ég hef töluverðar mætur á og það verður ekki af honum tekið að Liverpool var rétt búið að landa titlinum undir hans stjórn spilandi frábæran fótbolta. Það var þó að mestu með leikmönnum sem hann hafði fengið í arf. Leikmannakaup Liverpool undir stjórn bæði Dalglish og Rodgers er eitthvað sem ég hef litla þolinmæði fyrir og er á því að vanþekking á markaðnum fyrir utan England hafi háð Liverpool undanfarin ár. Hvað þá þegar Rodgers virtist ekki vilja nota þá leikmenn sem hann er sagður ekki hafa stjórnað kaupum á og notaði þá oftar en ekki þannig að þeirra styrkleikar náðu enganvegin að skína í gegn.

Viðvörunarbjöllur hringdu þegar Rodgers sagði þetta áður en hann tók við Liverpool.

“My life’s work is trying to show that British players can play. I grew up being told British players weren’t as technically good as European players, which was the biggest load of tosh I’ve ever heard. My methods and ideas are a fusion between British mentality and European ways of working.”

Hann hafði vissulega náð góðum árangri á mælikvarða Swansea með breskan kjarna en þegar hann setti £15m í Joe Allen og £11m í Fabio Borini sem sína fyrstu kosti hjá risafélagi eins og Liverpool gaf hann kolrangan tón. Þetta voru einu leikmennirnir sem hann keypti áður en leikmannanefnd tók til starfa. Hann fékk einnig Nuri Sahin frá Real Madríd en hafði ekki hugmynd hvernig hann næði því besta út úr honum og treysti honum augljóslega ekki.

Kauptu bara það besta sem er í boði á markaðnum, reynsla af enska boltanum skiptir engu máli. Borini kom vissulega frá Ítalíu en var búinn að vera í 4 ár á Englandi og lengst af undir stjórn Rodgers.

Hann var ennþá að tala um reynslu af Úrvalsdeildinni síðasta sumar.

“Nathaniel Clyne has … experience of the Premier League. He is coming in with that experience, Christian Benteke has been here [in England] three years and understands the Premier League … These are guys who are coming in with a real good pedigree and experience.”

Þetta eru ekkert algalin rök hjá honum en hvað hefur reynsla Benteke af enska boltanum hjálpað honum í vetur? Hvað hjálpaði það Balotelli í fyrra mikið? Rodgers hefði betur leitað að leikmanni sem hentaði hans leikstíl frekar en að einblína á sóknarmenn sem höfðu þegar skapað sér nafn í Úrvalsdeildinni, burt séð frá því hvort þeir hentuðu hans hugmyndafræði eða ekki.

Balotelli, Benteke og Borini. Mögulega er hefur þetta ekkert með Úrvalsdeildina að gera eða leikstíl heldur leikmenn með eftirnafn sem byrjar á B.

Aðrir leikmenn sem Liverpool keypti eða fékk með reynslu af Úrvalseildinni voru Adam Lallana, Dejan Lovren, Rickie Lambert, Kolo Toure, James Milner, Christian Benteke, Nathaniel Clyne og Danny Ings. Aðeins einn af þeim (Clyne) hefur einhvern alvöru hraða eins og Tomkins kemur inná í sinni grein.

Höfum þó alveg á hreinu að ég hef ekkert á móti því að fá menn eins og Clyne, Ings, Toure og Milner. Clyne átti lítið eftir af samningi, er á fínum aldri og kom til þess að gera ódýrt. Sama á við um Ings. Toure er fínn kostur frítt og með góða reynslu sem hjálpar í ungan hóp. Milner er á launapakka sem væri kannski hægt að nota í meira spennandi leikmann í þessa stöðu en engu að síður góður leikmaður með töluverða reynslu. Skemmir ekki að hann hefur spilað marga stórleiki og unnið titla. Ekkert að því að fá svona leikmenn ef þeir kosta ekki úrvalsdeildar fjárhæðir, einmitt svona á Liverpool að vinna með markaðinn á Englandi.

Southamton með meginlandsþjálfara hefur undanfarin tvö tímabil gert lítið úr Liverpool á leikmannamarkaðnum. Lallana kostaði £25m, fyrir hann fengu þeir Tadic á um £10,9m og Sadio Mané á £11,8m. Tadic og Mané hafa báðir verið töluvert betri en Lallana síðan og eru báðir töluvert meira virði. Samanlagt kostuðu þeir minna en Lallana og líklega eru þeir samanlagt með svipað í laun og Lallana.

Lovren kostaði Liverpool £20m en kostaði Southamton aðeins £8m árið áður sem er nær hans raunvirði ennþá. Þeir vissu vel hver hans takmörk væru og keyptu hann vitandi að hann hentaði best með fljótum miðverði við hliðina á sér og höfðu tvo djúpa miðjumenn til að verja hann, Lovren blómstraði. Southamton fengu í staðin Toby Alderweireld á láni, leikmann sem margir veltu fyrir sér á þeim tíma afhverju Liverpool væri ekki frekar að reyna fá. Þeir voru óheppnir að missa hann til Tottenham þar sem hann er að brillera núna en fengu þá í staðin Virgil van Dijk á £13m. Aftur betri kaup en Liverpool gerði í Lovren.

Liverpool keypti svo Lambert á £3,5m til að toppa listann yfir kaup á lélegum framherjum. Leikmaður sem var aldrei fljótur en var núna 32 ára og orðinn ennþá hægari. Þeir styrktu liðið í sömu stöðu með Graziano Pellè á £8m og gerðu enn einu sinni lítið úr Liverpool.

Man Utd tóku einnig þátt og keyptu Luke Shaw á £30m sem er auðvitað galið verð, þeir hafa reyndar efni á að taka svona sénsa og mögulega kemur hann til en í dag líta þessu kaup hrikalega út. Southamton fékk í staðin Ryan Bertrand á láni og keypti hann svo í kjölfarið.

Þeir stórbættu hópinn hjá sér þökk sé Liverpool og United og komu út í bullandi gróða. Eins seldu þeir svo Chambers til Arsenal á £15m. Enn einn Englendingurinn á verði sem sambærilegur leikmaður annarsstaðar væri að fara á allt að þrefallt lægra verði, Southamton sannaði það í þessum glugga. Þeir áttu sitt besta tímabil frá upphafi í kjölfarið og það var ekki eins óvænt eftir á að hyggja og maður hélt.

Rodgers sem náði frábærum árangri með liðið 2013/14 hefur alltaf talað um mikilvægi þess að stjórinn ráði leikmannakaupum. Hann fékk að ráða mestu þetta sumar og hafði úr miklum pening að spila eftir söluna á Suarez. Það er ekki bara fáránlegt yfirverð á leikmönnum á Englandi heldur ertu í leiðinni að dæla peningum í lið sem þú ert í beinni samkeppni við. Það er alls ekki gott þegar þau svo hafa meira vit á því hvernig best er að eyða þessum fjárhæðum. Það er kannski vert að benda á það hérna að Southamton er í dag fyrir ofan Liverpool í deildinni. Þeir voru tveimur stigum á eftir okkar mönnum í fyrra en með 17 mörkum betri markatölu. Voru með næst bestu vörn deildarinnar þrátt fyrir að selja Lovren, Shaw og Chambers.

Svipað er hægt að segja (núna) um Tottenham. Þeir hafa selt sína bestu leikmenn undanfarin ár og voru aðhlátursefni fyrir að eyða Bale peningunum illa (sem þeir að hluta til gerðu). Þeir keyptu engu að síður ekki leikmenn úr ensku deildinni a la Harry Redknapp heldur alls staðar að. Af þeim glugga standa núna eftir þrír leikmenn sem allir eru lykilmenn, Eriksen, Lamela og Chadli. Liðið er í dag mun sterkara en það var þegar Bale fór. Enska leikmenn taka þeir upp úr yngri flokkunum eða kaupa unga frekar en að eyða í þá uppsprengdum úrvalsdeildar fjárhæðum. Samt eru Tottenham með einn besta kjarna af enskum leikmönnum í deildinni.

Leicester er alls ekki að eyða peningum í dýra enska leikmenn, Chelsea og Man City einskorða sig alls ekki við Úrvalsdeildarleikmenn (mættu gera meira af því enda ágætt að fá £50m fyrir Torres og £49m fyrir Sterling). Arsenal er að kaupa leikmenn eins og Özil og Sanchez á svipaðar fjárhæðir og Liverpool er að setja í Carroll og Benteke (án gríns því miður). Auðvitað smá ósanngjarnt að telja Sanchez með enda Liverpool á eftir honum.

Svipað reyndar og með Mkhitaryan, Willan, Costa, Konoplyanka, Salah o.fl. Því miður var alltaf sett nægan pening í leikmennina sem voru að spila á Englandi, ekki hina. Var það vegna þess að þetta voru leikmenn sem leikmannanefndin hafði sigtað út sem góða kosti fyrir ákveðna upphæð á meðan menn eins og Southamton tríóið voru menn sem Rodgers hafði lagt mikla áherslu á að fá? Allt eru þetta gæðaleikmenn og flestir með mikinn kraft og hraða sem vantar í mörg leikmannakaupa Rodgers. (Hversu mikið hefði bara einn af Mkhitaryan, Sanchez, Costa eða Willian styrkt okkar lið?).

Leikmannanefndin er sögð hafa haft meira að segja um kaupin á t.d. Sturridge, Coutinho, Firmino, Origi og Markovic sem falla undir svipaðan flokk og þeir gæðaleikmenn sem Liverpool hefur misst af undanfarin ár. Þetta er helsta ástæða þess að ég hef miklu meiri trú á nefndinni en Rodgers. Þó á sama tíma og aðeins í mótsögn við sjálfan mig trúi ég ekki að neinn þessara manna hafi verið keyptur án þess að Rodgers væri því að einhverju leiti samþykkur. Svo á móti hugsar maður út í það hversu fáránlega Rodgers var að nota t.d. Markovic og Firmino…

Auðvitað er hægt að gera góð kaup á Englandi, jafnvel fyrir háar fjárhæðir alveg eins og margir af þeim sem koma fyrir mikinn pening erlendis frá floppa alveg eins og aðrir. En það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að það skipti nokkru máli að hafa reynslu af Úrvalsdeildinni sem leikmaður Aston Villa og kosta þ.a.l. £32,5m (Benteke) frekar en ef menn standa sig vel í Hollandi og eru fáanlegir á £12m (Bony). Sjáið svo hvað Bony kostaði þegar hann fór milli liða í Úrvalsdeildinni. Þetta er galið og það eru mímörg svona dæmi. Tók eitt t.a.m. með Lovren áðan.

Enska deildin er bara brot af markaði sem nær yfir allar deildina í heiminum. Glætan að það sé besta value for money að kaupa 50%-60% leikmanna innan Ensku Úrvalsdeildarinnar, dýrasta markaðnum.

Benteke og Lovren eru báðir góðir leikmenn og litu mjög vel út hjá sínum fyrri liðum, maður sá fyrir sér að þeir myndu bæta sig enn frekar með betri samherjum. Hinsvegar áttuðu sig flestir á því að líklega væri hægt að finna sambærileg gæði annarsstaðar á mun minni pening eða töluvert meiri gæði á sama pening. (Það hjálpaði reyndar Lovren ekki að Rodgers stillti honum upp með hægari miðverði en hann er sjálfur og þeir fengu nákvæmlega enga vernd af miðsvæðinu, það hefði ekki nokkur einasti miðvörður komið vel út við þær aðstæður. Eins er hægt að velta því fyrir sér hvar Benteke átti að passa betur en t.d. Balotelli gerði árið áður?).

Pistill Tomkins skoðar nánar muninn á bestu leikmannakaupunum í Úrvalsdeildinni á leikmönnum yngri en 24 ára og leikmönnum eldri en 24 ára. Það þarf varla að taka fram hvor leiðin er vænlegri til árangurs. Ef ekki upp á að bæta leikmenn þá til að auka líkur á að selja þá ekki með 100% tapi. Rodgers er núna í fjölmiðlum undir rós að gagnrýna FSG fyrir að vilja ekki kaupa leikmenn þegar þeir eru orðnir x gamlir og kálar Tomkins því væli snyrtilega. Það besta við þann part færslunnar hjá Tomkins set ég hér inn beint.

Where is the evidence that Premier League experience is needed? Where, indeed, is the evidence that Britishness or even experience of our football at any level is a necessity? Rodgers spoke about “British character”, but isn’t this a bit of an insult to other nations? Is “British character” better than “German character”? What about Spanish character, with all those recent major tournament titles? Isn’t this just the kind of nonsense that Richard Keys and Andy Gray would lap up?

And what about South American character? – some of the hungriest players you’ll ever see are from that continent (although work permit issues limit their importation to the UK). Messi, Neymar, Suarez, Costa, Higuain, Sanchez, James, Tevez, Cavani and Aguero are all South American.

Benitez var stjóri Liverpool á sama tíma og Spánverjar voru að taka yfir boltann. Hann var ekkert bara að kaupa leikmenn frá Spáni en hann þekkti þann markað vel og keypti nokkra leikmenn sem urðu stórstjörnur hjá Liverpool. Alonso, Mascherano og Arbeloa hafa verið lykilmenn hjá Real, Bayern og Barca síðan þeir yfirgáfu Liverpool. Meira að segja Sterling kom á hans vakt en hann er besta dæmið um það hvernig haga á kaupum enskum leikmönnum. 30% þeirra leikmanna sem Benitez keypti komu frá öðrum úrvalsdeildarliðum og aðeins ein þeirra kaupa voru virkilega góð, Mascherano sem var búinn að spila heila fjóra leiki hjá West Ham.

Síðan þá hefur Liverpool eytt gríðarlegum fjárhæðum en aðeins náð að kaupa einn leikmann sem þróaðist í alvöru heimsklassa leikmann. Hann var það reyndar áður en hann kom og búinn að sanna sig á HM og rústa Hollensku deildinni.

Ef við núvirðum kaupverð á leikmönnum við daginn í dag og skoðum heildarkostnað á hverjum hópi toppliðanna kemur í ljós að 52.5% leikmanna Liverpool eru leikmenn sem voru keyptir innan Úrvalsdeildarinnar. Undir stjórn Rodgers fóru heil 58% af peningum til leikmannakaupa í leikmenn frá öðrum liðum í sömu deild. Er það furða að maður hafi stundum velt því fyrir sér hvort njósnarateymið færi bara erlendis þegar vildarpunktastaðan leyfði það?

Hópurinn hjá United er á núvirði 63,4% leikmenn keyptir innan Úrvalsdeildarinnar. Núvirði á Rooney skorar þar vissulega hátt sem og á öðrum leikmönnum en það gekk mun verr hjá Ferguson að kaupa innan Úrvalsdeildarinnar á seinni hluta ferilsins og arftakar hans hafa verið ennþá verri.

Fjögur lið af þeim sem nú verma efstu sex sætin í deildinni hafa verið að spila framar vonum undanfarið sé tekið mið af kaupverði leikmanna og launapakka. Tomkins hefur með ítarlegri rannsókn 13 ár aftur í tímann sýnt fram á að það er jafnan mikið jafnvægi milli heildarlaunapakka liðanna og þess hvernig lokastaðan er í deildinni. Þessi fjögur lið sem eru að spila yfir væntingum nú eru Leicester, Arsenal, Tottenham og Southamton. Ef við núvirðum kaupverð allra leikmanna þessara liða er Moussa Dembele sá eini sem fór milli Úrvalsdeildarliða fyrir meira en £20m. (Walcott væri þarna einnig nema hann kom frá neðrideildarliði). Það sem verra er þá hefur topplið Leicester einungis notað 9,8% af sínum leikmannakaupum innan Úrvalsdeildarinnar, mögulega skýrir það gengi liðsins?

Þetta dæmi má síðan víkka út og bæta við Stoke, West Ham og Watford sem öll eru í topp 10 í deildinni. Ekkert þeirra hefur keypt Úrvalsdeildarleikmann á £20m eða meira. Ekki einu sinni Chelsea hefur gert það með núverandi hóp.

Liverpool er með fimm leikmenn (Benteke, Henderson, Lallana, Allen og Lovren) sem fara yfir þetta £20m mark og aðeins einn af þeim vill maður ekki selja. Gleymum svo ekki mönnum eins og Andy Carroll, Downing og Robbie Keane sem hafa komið og farið.

United er með níu leikmenn (Rooney, Carrick, Mata, Fellaini, Shaw, Jones, Young, Valencia, Schneiderlin og Smalling) sem fara yfir þetta £20m mark á núvirði (og rétt rúmlega það). Það hefur ekkert verið að hjálpa þeim.

Lykilmenn City hafa allir komið utan Englands og jafnvel á mjög litlar fjárhæðir. Þrír í þeirra hópi færu í þennan £20m eða meira félagsskap, Sterling, Nasri og Bony.

Það er því kannski ekkert skrítið að maður fagni því rosalega að fá Þýskt þjálfarateymi núna og sjái fram á stórbættan árangur á leikmannamarkaðnum. Hjá Dortmund keyptu þeir nánast aldrei leikmenn eldri en 23 ára og eiginlega aldrei tilbúna stórstjörnu. Dýrasti leikmaðurinn sem þeir keyptu var Mkhitaryan.

Eins voru þeir óhræddir við að nota frekar það sem var til fyrir hjá félaginu í stað þess að kaupa leikmenn. Þetta er eitthvað sem ég held að við komum til með að sjá hjá Liverpool og er klárlega eitthvað sem FSG leggur mikla áherslu á. Rodgers var vissulega einnig á þessari línu og gaf mörgum ungum leikmönnum séns.

Önnur lið hafa verið að gera þetta með góðum árangri og erum við þá ekkert bara að tala um unga leikmenn. Það gætu leynst leikmenn innan herbúða Liverpool sem gætu stökkbreytt sinni spilamennsku á næstu mánuðum, þeir hafa langflestir svo sannarlega ekki verið að spila af fullri getu undanfarið, það er ljóst.

Harry Kane var alls ekkert traustvekjandi 21 árs framherji fyrir ekki svo mörgum mánuðum. Jamie Vardy gat ekki blautan skít lagt fram á síðasta tímabil og það hafði enginn heyrt um Mahrez. Mesut Özil var af mörgum talinn frekar dýrt flopp. Lengra aftur er hægt að horfa til þess að einu sinni var Bale mistækur bakvörður sem spilaði 20 leiki í röð án þess að liðið næði að vinna með hann í liðinu. Carragher var djúpur miðjumaður sem ekki var búist við mjög miklu af og í kjölfarið góður bakvörður til 25 ára aldurs áður en hann varð frábær miðvörður. Pires og Modric voru langt í frá sannfærandi fyrstu árin sín í Englandi og hver vissi að Flanagan gæti eitthvað í fótbolta?

Liverpool er með gríðarlega ungan hóp sem er núna að spila helling af leikjum undir stjórn Jurgen Klopp. Ég verð mjög svekktur ef það er ekki einhver þarna innan um sem á eftir að bæta sig um rúmlega helming á næstu mánuðum og árum. Fyrirfram er ég helst að horfa til Origi, Markovic, Can, Coutinho, Firmino, Ibe og Moreno. Fjölmargir aðrir gætu komið til greina en margir í okkar hópi eru komnir á kjöraldur til að springa út.

24 Comments

 1. Af þessum síðasta hópi er ég næstum búinn að missa vonina um Ibe. Margar rangar ákvarðanir sem hann tekur í leiknum. Fer gjarnan í að taka menn á sem misheppnast í annað hvert skipti og horfir ekki í kring um sig. Þjálfarinn hlýtur að vera búinn að leggja töluvert að sér að rétta hjá honum kúrsinn en það er ekki að ganga upp ennþá. Slæmt því hann er flínkur og sterkur leikmaður sem ætti að koma miklu meira út úr.

 2. Sæl öll.

  Frábær grein og mikið af upplýsingum í hliðargreinum sem ég hreinlega vissi ekki. Það er auðvitað galið af Rodgers að vera með þessa ófrávíkjanlegu fyrirfram ákveðna skoðun að “breskir leikmenn séu ekkert verri á neinum sviðum heldur en erlendir leikmenn”. Þetta er eitt af því sem ég vissi ekki um manninn og féll hann mikið í áliti hjá mér við þetta. Ég er nú bara sófaspekingur en hef þó þjálfað töluvert í gegnum tíðina og ég er algjörlega á öndverðu meiði. Mér finnst einmitt mjög áberandi hvernig ákveðin einkenni leikmenn hafa eftir því frá hvað landi eða heimsálfu þeir koma svo ég tali ekki um verðið. Í því ljósi er sorglegt til þess að hugsa hvernig Rodgers nýtti sér þá leikmenn sem nefndin keypti inn og eftir á að hyggja voru leikmannakaup Rodgers jafn skelfileg og Hodgson og, því miður og leiðinlegt að segja, hjá King Kenny (Daglish til varnar að þá skildi maður kaup hans því þeir leikmenn féllu algjörlega undir þá hugmyndafræði sem Daglish hefur um fótbolta) því undir stjórn þessara manna náði Liverpool aldrei að bæta sig gagnvart þeim liðum sem við höfum verið að keppa við síðustu áratugi.

  En af því að man.utd. er nefnt í þessari grein að þá er það mín skoðun að það er aðalega afturhaldsemi og íþyngjandi skipulag LvG sem dregur leikmenn man.utd niður. Ég óttast að þetta lið springi algjörlega út ef þeim ber gæfa til þess að fá “jákvæðan” stjóra því það eru leikmenn þarna sem eru stútfullir af hæfileikum en ná ekki að njóta sýn því það lýtur út fyrir að LvG neiti að þróast og aðlaga leikstíl sinn.

  Ef Rodgers ætlar í hvíld sinni frá fótbolta og finna lærdóm af veru sinni hjá Liverpool og þróast sem stjóri (eins og hann hefur sjálfur sagst ætla að gera), og sem stjórar verða að gera. Verður hann að átta sig á þessari bull skoðun að breskir leikmenn séu í öllum tilfellum á pari við leikmenn frá meginlandinu. Og þú verður að “leiðrétta” mistök á leikmannamarkaðinum strax (sbr. Benitez) með því að selja eða lána út ekki láta leikmanninn drallast niður og missa allt sjálfstraust.

  Ég er algjörlega sammála rauða þræðinum í greininni og er gríðarlega spenntur að sjá hvernig Liverpool kemur til með að spila á næstu leiktíð. Ég á von á 5-7 leikmönnum í sumar (2 þegar komnir) sem allir koma til með að gera tilkall í aðalliðið eða styrkja 25 manna hóp mikið. Ég er líka nokkur viss um að þetta verða leikmenn sem maður hefur ekkert heyrt mikið um eða fylgst eitthvað sérstaklega með. Ef ég væri í þjálfarateyminu á Anfield fengi Herr Klopp eftirfarandi lista frá mér með leikmönnum sem mættu fara í sumar: Caulker, Enrique, Bogdan, Sinclair, Alberto, Toure, Sakho, Balotelli og Allen. Listinn gæti verið lengri en þeir leikmenn myndu færast neðar í goggunarröðina með tilkomu annara leikmanna.

 3. Virkilega flottur pistill Einar. Staðreyndin er sú að síðustu 5-6 árin hefur í grunninn verið farið mjög illa með peninga. Það er hárrétt niðurstaða hjá Einari og flottur samanburður við Tottenham, að með ítarlegri vinnu er hægt að fá sömu gæði og í ensku deildinni fyrir miklu minni pening. Þannig hafa flest liðin í kringum Liverpool gert þetta. Reynsla úr ensku deildinni er ofmetin og þótt það taki nokkra mánuði fyrir leikmenn eins og Firmino og Suarez að finna fjölina sína þá er vel þess virði að bíða og gefa tækifæri þangað til svona leikmenn springa út frekar en að kaupa meðaljóna sem eru allan tímann jafn slakir eins og Downing sýndi.

  Varðandi hópinn núna þá get ég ekki tekið undir þá skoðun Sverris H #1 að Liverpool ætti að casha inn á Ibe. Ekki gleyma því að hann rétt nýorðinn tvítugur. Reynslan kennir honum að taka réttar ákvarðanir og að vera sem lengst með boltann er ekki það sem skiptir máli í fótbolta. Hann verður mjög góður leikmaður eftir 2-3 ár.

  Matip og Grujic munu þurfa sinn tíma næsta haust til að venjast hraðanum í deildinni. Ég efast ekki um að þeir munu koma liðinu verulega vel og eigi eftir að spila mikið á næsta ári auk 2-3 sterkra leikmanna sem koma í sumar. Eins og rætt hefur verið verða þetta engin risanöfn heldur þéttir leikmenn, duglegir og kraftmiklir, væntanlega 23-24 ára gamlir, sem Klopp mun geta unnið með og þróað eftir sínu höfði. Og bara plíííís kauptu nýjan markmann.

  Þeir sem yfirgefa hópinn verða örugglega Benteke, Balotelli og Enrique. Þeir sem eru líklegir til að fara líka eru Toure, Illori, Alberto, Wisdom, Bogdan og Mignolet. Spurningarmerkin eru Lucas og Allen.

  Ef liðið ætlar að komast í meistaradeildina á næstunni þurfa leikmenn eins og Skrtel, Lovren, Sakho, Henderson, Milner, Lallana og Ibe að spila minna hlutverk í liðinu en þeir hafa gert. Þessir leikmenn hafa verið mikilvægir í liðinu undanfarið en eru ekki nógu góðir til að spila lykilhlutverk í toppliði. Emre Can er aðeins 22 ára og á vonandi eftir að spila stóra rullu eftir 2-3 ár og í 7-8 ár í framhaldi af því. Sama gildir um Moreno, Clyne, Orgi og Sturridge, jafnvel Ings, þótt hann sé spurningarmerki, líkt og Markovic.

  En eins og Einar segir þá breytir Liverpool vonandi stefnu sinni í leikmannamálum og Klopp og teymi hans á eftir að gera góða hluti.

 4. Takk fyrir virkilega góðan pistil.

  Þegar Wembley sleppir vona ég að skapist færi á því að vera meira á æfingasvæðinu að pæla í liðinu frekar en að vera alltaf að recovera fyrir næsta leik.

  Held því að við eigum ekki að vera of dómhörð á einstaka leikmenn fyrr en í lok tímabilsins. Mér finnst við hafa séð breytingar á liðinu í hvert skipti sem hefur gefist tími til æfinga í vetur og jafnvel þó það hafi ekki alltaf verið byltingarkenndar breytingar sé það hluti af vegferð sem muni gera leikmennina að liði Klopp. Held að hann muni ekki síður meta virði leikmanna útfrá liðsheild og hvernig þeir virka innan hennar, samanborið við einstök gæði.

  Það verður ekki nóg að hafa hæfileika og forna frægð ef þú getur ekki nýtt hana til að spila þitt hlutverk í liðsheildinni.

  Í framhaldi af frábærum pistli verður spennandi og eflaust krefjandi að fylgjast með nýjum kaupum í sumar. Held við munum þurfa á mikilli trúfestu að halda þegar minna þekkt nöfn af meginlandinu fara að birtast (staðfest) á sama tíma og stjörnur þýska boltans ganga til liðs við Guardiola.

 5. Liverpool (og reyndar fleiri lið í úrvalsdeildinni) á aldrei að kaupa enska leikmann frá öðrum úrvalsdeildar félögum. Þeir eru því alltof alltof dýrir miðað við gæði. Liverpool á að ala upp gæða breska leikmenn sjálfir (og aðra af öðru þjóðernum að sjálfsögðu) og kaupa erlenda gæðaleikmenn sem passa í kerfi Þjóðverjana okkar…… 🙂

 6. 100% sammála Tomkins í greiningu hans á breskum leikmönnum og value for money á þeim… og þar af leiðandi 100% ósammála fyrverandi stjóra okkar trúðsins hann Rodgers. Þetta er spurning um að fá leikmenn sem passa í kerfið þitt óháð þjóðerni… Lítur út fyrir að Rodgers hafi haft þjóðernishroka eða minnimáttarkennd fyrir hönd breskra leikmanna eða bæði….

 7. Varðandi samanburðinn við Tottenham þá notaði Liverpool Suarez peningana verr heldur en Tottenham Bale peningana.
  Má ekki gleyma því að Tottenham var ekki í Meistaradeildinni þegar þeir seldu Bale, og það er þekkt að það gengur verr að fá toppleikmenn til liðs sem er ekki í Meistaradeildinni.
  Þar að auki hefur Liverpool meiri sögu á bak við sig og því meira spennandi kostur en Spursl

 8. Sælir félagar

  Frábær grein frá Einari M. og takk fyrir hana. Það er ekki ónýtt að hafa svona snillinga innan sinna raða eins og E. Mattías er. Tilvitnanir í Tomkins og fleiri góðar. Staðreyndir um enska leikmannamarkaðinn og ofmetna enska leikmenn sláandi. Vonandi á grauturinn í hausnum á Ibe #1 eftir að þykkna. Ekki veitir af. Hlakka til að fá Markovic aftur. Það er bjart framundan undir Klopp og co.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 9. Að mínum dómi er helsta vandamál Liverpool ekki að það sé verið að kaupa lélega leikmenn trekk í trekk. Félagið er hreinlega að kaupa sér ullarsokka og reynt að klæðast þeim á ströndinni og þegar það gerir ekkert gagn þá bregst félagið við með því að kaupa sér sandala og vaða í snjóskafla. Já, eða hreinlega setja ullarsokk á annan fótinn og sandalann á hinn í þeirri von um að þetta reddist.

  Félagið og stjórnendur þess eru bara alltof ákafir í að breyta áherslunum og aðferðunum við leikmannakaup. Í grunninn er þetta svo sem allt það sama, setja peningana í “yngri” leikmenn og leggja áherslu á það. Hins vegar þá breytist aðferðin í kringum þetta alltof hratt og oft hjá félaginu. Comolli, Dalglish, leikmannanefndin, Rodgers, Rodgers og nefnd, Rodgers vs. nefnd, Klopp. Þetta er alltof mikið af ólíkum nálgunum, löngunum, leikáherslum og rugli á skömmum tíma.

  Comolli stóð sig heilt yfir nokkuð vel fannst mér og var kannski nokkuð ósanngjarnlega rekinn of snemma. Að mestu held ég að það skrifist á þesa metfjárhæð sem eytt var í Carroll og því hve langan tíma leikmenn eins og Henderson, Downing og fleiri tóku í að sýna stöðugleika og góðar frammistöður. Það er svipað og hjá Tottenham því Bale, Modric og aðrir tóku sinn tíma til að finna sig og ná sínum hæðum.

  Hans talent virðist hafa verið að sjá langt fram í tímann. Suarez, Modric, Bale, Henderson, Berbatov – og svo má rifja upp tvö viðtöl við hann frá 2010-2011 þegar hann tekur fram að Blaise Matuidi sé öflugur varnarmiðjumaður (og hann er núna einn besti slíki í heiminum og lykilmaður í trilljónaveldi PSG) og segir að ungur Dimitri Payet sé stútfullur af náttúrulegum hæfileikum og jafnvel meira svo en Modric (hann er í dag einn af bestu leikmönnum Úrvalsdeildarinnar). Hann hefur ágætis auga og kunnáttu á tölfræði til að átta sig á svona hlutum, hann má eiga það. Kannski treystum við honum ekki nóg á sínum tíma og fókusum of mikið í það sem klikkaði hjá honum.

  Allavega þá verður tekin upp þessi frekar óskiljanlega kaupnefnd sem enginn virðist vita hvernig virkar. Við heyrum sögur af því að menn hafi misst áhuga á Sadio Mane vegna þess að hann sýndi ekki nægjanlega góða tölfræði. Christian Eriksen var ekki keyptur vegna þess að einhverjir töldu hugarfar og tölfræði hans í stórum leikjum ekki vera heillandi. Dele Alli var ekki keyptur því Liverpool var ekki tilbúið að borga aðalliðslaun og svo framvegis. Þetta eru yfirnjósnari, stjóri, yfirmaður félagsskipta, Ian Ayre, tölfræðigúru og svo einn eigendana. Hljómar ekkert óeðlilegt en hún virðist vera svakalega stór og virðist engin eiga eitthvað sameiginlegt með öðrum þarna sem skilaði sér í kaupum.

  Rodgers fékk að þrýsta einum af sínum manni í gegnum kerfið, njósnararnir fengu einn og tölfræðideildin fékk einn. Þessi helvítis málamiðlunarkaup. Horfið á síðustu glugga og reynið að segja mér að hópurinn sé ekki að miklu leiti settur saman af svona málamiðlunarkaupum. Þessi nefnd hefur unnið frekar skringilega, til dæmis að fara úr Suarez-Sanchez-Bony-Remy-Balotelli, hvað þeir eiga allir sameiginlegt veit enginn.

  Það virðist sem það sé nokkurs konar atkvæðakosning á þessum fundum þessara nefndar sem er hræðilegt þegar svo margir ólíkir aðilar eiga í hlut og sjá ekki hlutina með sömu augum. Hjá Dortmund voru mest megnis þrír leikmenn sem sáu um val á leikmönnum. Klopp sem þjálfari, Zorc sem yfirmaður knattspyrnumála og Watzke sem stjórnarformaður. Þeir hafa allir svipaðar hugmyndir að fótbolta og hafa skilning á leiknum. Þess vegna ræður Watzke Zorc sem ræður svo Klopp, og seinna Tuchel, sem passar inn í dæmið. Þetta er ekki Hodgson til Dalglish til Rodgers til Klopp og allar þessar ólíkur stefnur í leikmannavali ofan í þetta allt í þokkabót. Hjá Dortmund var þetta þannig að allir þrír þurftu að vera sammála, ef einn var ósammála þá þurfti að sannfæra hann eða þeir hættu við. Þeir ætluðu að forðast “óþarfa” kaup og kaupa eitthvað sem voru ekki líkur á að passi inn.

  Buvac, Krawietz og fleiri hafa pottþétt verið þarna innan handar og eflaust haft einhver innlegg í umræðuna en þetta á víst að hafa strandað að mestu á þessum þremur toppum Dortmund. Liverpool þarf að skera niður úr þessum hópi hjá sér, vanda valið og reyna að fá saman hóp sem reynir að ganga sömu leið. Það þýðir ekki að hafa reipitog á þessum fundum og ætlast til þess að ná einhverjum árangri.

  Liverpool hefur á síðustu árum verið að horfa til réttu leikmannana. Sumir hafa verið keyptir og aðrir ekki. Kannski er forgangsröðun peningana ekki rétt ða bara algjör óheppni, shit happens býst ég við. Mkhitaryan (hands down, einn besti sóknartengiliður heimsins í dag), Willian (einn besti leikmaður Úrvalsdeildarinnar), Costa (drullusokkur en frábær framherji), Salah (frábær á Ítalíu), Konoplyanka (nálægt því að vinna Evrópudeildina með Dnipro og nokkuð góður á Spáni) og svo framvegis. Coutinho, Sturridge, Firmino og svo framvegis. Það er klárlega verið að horfa í réttar áttir en hvar og af hverju strandar þetta svona oft?

  Miðað við hve mikið hefur klúðrast hjá Liverpool þá finnst mér ótrúlegt að þessi nefnd hafi ekki verið lögð niður eða breytt því þeir eiga klárlega sín mistök þarna líka. Þetta var ekki bara Rodgers, þetta var samspil tveggja eða fleiri þátta sem þarf að passa upp á að gerist ekki aftur. Nú þarf Liverpool að hætta öllu kjaftæði um að þessi sé kaup þjálfara eða nefndar, öll kaup þurfa að vera fyrir Liverpool en ekki til að friða einhvern ákveðinn hóp.

  Nú er kominn stjóri sem leggur orðspor sitt og erfiði að veði með að koma í erfiðar aðstæður hjá okkur þegar hann hefði getað gengið í flest öll störf í heiminum. Hann kemur úr liði með mjög, mjög, mjög gott record af góðum og sniðugum kaupum svo Liverpool þarf að leggja traust sitt á hann og leyfa honum að ráða ferðinni.

  Þegar Matip var nýlega staðfestur fyrir sumarið og orðrómar um Nordtveit, leikmann Gladbach, sem verður samningslaus í sumar fóru að skjóta upp kollinum sagði ég á Twitter að það væri mjög mikill Klopp-bragur af því ef Liverpool fengi Matip, Grujic og Nordtveit á samanlagðar fimm milljónir punda. Vonandi er hann með allra þyngsta vægið hvað leikmannakaup varðar og hinir þurfa allir bara að fóðra hann af upplýsingum sem hann þarf.

  Frábær pistill Einar!

 10. Frábær pistill Einar og skemmtileg lesning. Í raun alltaf áhugavert að lesa um leikmannapælingar.

  Þau viðtöl sem BR hefur farið í núna undanfarið hafa varpað örlitlu ljósi á þá vinnu sem fór fram bakvið tjöldin hjá leikmannanefndinni. Mér finnst í raun alveg galið ef satt reynist að þetta hafi verið nokkurskonar málamiðlunarkaup alltaf hreint þ.e. þessi maður í nefndinni fékk þennan en með því móti fékk næsti maður sinn mann. Slíkt er fáránlegt og endurspeglar jafnframt það ójafnvægi sem er í liðinu í dag. Einnig finnst mér það útskýra líka að hluta til að kaup klúbbsins hafi miklu frekar orsakast af löngun í tiltekinn leikmann fremur en stöður og þar af leiðandi margir leikmenn í sömu stöður og afar fáir í aðrar stöður (hóst, markmaður og varnarsinnaður miðjumaður, vængmaður, bakverðir).

  Markovich er eitt besta dæmið um ruglið sem var í gangi. Ungur efnilegur strákur sem heilt yfir fékk fá tækifæri og yfirleitt þegar hann fékk þau var honum spilað gjörsamlega út úr stöðu. Rándýr leikmaður sem kostaði gríðarlega mikið m.v. aldur.

  Ilori er annað dæmi, frekar dýr varnarmaður (m.v. aldur og reynslu). Í mínum huga þegar þið vantar alvöru varnarmenn í byrjunarliðið þá er frekar bjartsýnt að eyða 7-8mpunda í kornungan varnarmann sem stendur til að lána í 2 – 3 ár áður en kemur til greina að nota hann. Skrítin forgangsröðun fjármuna þar að mínu mati.

  Í grunninn er ég alveg sammála þeirri stefnu klúbbsins að horfa til 20-24 ára gamalla leikmanna við innkaup. Ég held hinsvegar að menn séu að hugsa á of mörgum vígsstöðvum. Við náum engan veginn að stilla upp eins sterku byrjunarliði og flesta stuðningsmenn dreymir um……yfirleitt spila peningar þar inní. Við tölum um það á hverju ári að kaupa fáa en góða leikmenn sem virkilega styrkja byrjunarliðið….meira að segja BR sagði þetta fyrir síðasta sumar. Reynslan virðist hinsvegar vera allt önnur. Við förum út um víðan völl og kaupum yfirleitt nokkra miðlungsmenn í byrjunarliðið og nokkra unga og efnilega fyrir hópinn og síðan einhverja sem eru hugsaðir fyrir útlán og yngri liðin. Einstaka sinnum er þó eitthvað afar spennandi og óvænt sem dettur inn, í síðasta sumar fannst mér það klárlega vera Firmino.

  Mér finnst mjög sorglegt að m.v. allt púður sem fer í Akademíuna hjá LFC að við séum ekki með möguleika á að veita meiri samkeppni. Ég hefði haldið að það ætti að vera hægt að finna hæfileika heimafyrir á sambærilegu leveli og leikmenn eins og Allen, lucas, lallana. Reyndar hefur Klopp mikið spilað ungum strákum í vetur og vafalaust að reyna að sjá hverjir geta komið varanlega inn í hópinn.

  Allt virðist stefna í enn einn leikmannagluggann þar sem óþægilega margar breytingar verða gerðar. Ég hef aldrei verið hrifinn af svona miklum breytingum milli tímabila. En i ljósi þess að liðið í dag virðist vera með því lélegra á síðustu áratugum þá græt ég svosem ekki mikið enn eina yfirhalninguna. Hitt er svo annað mál að mér hugnast ágætlega verðmiðinn á þeim tveimur leikmönnum sem búið er að semja við í sumar (matip og grujic).

  Áhersla og stefna BR á breskan kjarna virðist akkúrat hafa skilað okkur því sem Englendingar hafa staðið fyrir undanfarið…meðalmennsku. Ég vona að Klopp þurfi ekki að berjast jafn mikið fyrir sínum leikmannakaupum og BR og geti þar af leiðandi einbeitt sér meira að öðrum hlutum.

  Ráðningin á Klopp var metnaðarfyllsta move FSG hingað til, það væri afar gaman ef þeir myndu fylgja þeim metnaði eftir á leikmannamarkaðinum

 11. Kærar þakkir fyrir algerlega frábæra grein, Einar Matthías.

  Ég, líkt og þú og margir aðrir stuðningsmenn, hef mikla trú á að við séum að fara að sjá fram á mun bjartari tíma hjá okkar ástkæra klúbbi, þá ekki síst í leikmannakaupum. Klopp og þetta frábæra þjálfarateymi sem er með honum mun vanda vel til leikmannakaupa. Hvað maður er orðinn þreyttur á ofmetnum enskum leikmönnum, vá.

  Er samt ekki alveg sammála mati margra á Lovren. Jú vissulega var hann dýr en klúburinn þarf að læra nota hann rétt, þ.e. fá partner sem er fljótari en hann. Að mínu mati er hann besti miðvörðurinn sem við eigum í dag.

  Ég er líka sammála því að það væru ótrúleg vonbrigði og bara ótrúlegt yfir höfuð ef eittvað af þessum ungu leikmenn okkar sem þú nefndir eigi ekki eftir að styrkja sig og blómstra á næstu árum. En nota bene það verða bara nokkrir af þeim.

  Held líka að Klopp muni losa sig við fleiri leikmenn en margir halda úr núverandi leikmannahóp. Auðvitað verður ekki einhver allsherjar hreinsun á hópnum en hún verður engu að síður mun meiri en menn halda.

  Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að núverandi leikmannahópur sé einfaldlega alls ekki nægilega sterkur, þó vissulega séu margir ágætis leikmenn þarna á milli, til að berjast um topp4. Tel t.d. alls ekki nægilegt að bæta við 2 – 3 leikmönnum við núverandi hóp og allt verði mikið betra á næsta ári. Það þarf fleiri breytingar og sennilega eru 5 – 6 mjög sterkir leikmenn eitthvað sem við þurfum nauðsynlega á að halda til að vera samkeppnishæfir. Er samt ekki viss um að það muni gerast á einum leikmannaglugga.

  Ef við bara berum saman byrjunarlið okkar, það allra sterkasta sem við höfum þegar allir eru heilir, vs. t.d. sterkasta byrjunarlið Arsenal eða City, þá er sá samanburður ekkert sérstaklega þægilegur.

  In Klopp we trust.

 12. Frábær grein.Set allt mitt traust á Klopp og félaga. In Klopp we trust.

  YNWA

 13. Nr. 12
  Sammála með að Lovren er (líklega) góður miðvörður og hef lengi sagt að hann sem og aðrir miðverðir hafa litið mjög illa út með ekkert cover fyrir framan sig, eðlilega. En það er nákvæmlega ekkert sem bendir til þess að hann hafi nokkurntíma verið £20m virði, Southamton er tvisvar búið að fá meira virði fyrir mun lægri upphæð. Það var pottþétt hægt að nota þennan pening miklu betur (utan Bretlandseyja).

  Varðandi leikmannakaup þá verða líklega töluverðar breytingar á 25 manna hópi en ekki mjög margar á því sem við hugsum sem byrjunarliði Liverpool. En það gleymist smá að Klopp fær fimm nýja leikmenn sem vilja spila strax frá næsta tímabili.

  Marko Grujic og Matip eru komnir í hópinn en það gleymist að Klopp hefur ekkert unnið með Danny Ings, Lazar Markovic og Joe Gomez. Auðvitað vitum við ekkert hvernig Gomez og Ings koma frá meiðslunum en báðir voru í byrjunarliði Liverpool eða í hópnum á leikdegi áður en þeir meiddust og myndu báðir henta hugmyndafræði Klopp mjög vel. Það að lána Markovic var og hefur alltaf verið fullkomlega fáránlegt og það kæmi mér verulega á óvart ef Klopp skoðar hann ekki a.m.k. eitt tímabil.

  Þá eru ótaldir ungu leikmennirnir sem Klopp er að skoða núna og gefa séns. Hann hefur hingað til verið óhræddur við að nota slíka leikmenn með frábærum árangri. Það eina sem vantar í hópinn er alvöru gæði.

 14. Takk fyrir þessa fróðlegu grein Einar. Margar mjög þarfar hugleiðingar og staðreyndir. Einhvern veginn finnst mér að síðustu árin hjá Liverpool hafi einnkennst af allt of mörgum örvæntingarfullum kaupum. Má þar nefna Balotelli ofl. Þessi örvæntingarfullu kaup verða til þess að boginn er spenntur allt of hátt á leikmenn sem eru næstum því mjög góðir. Eins og það verði að kaupa einhvern á mikinn pening án þess að öll gæðin fylgi með. Allt of margir leikmenn hafa ekki sýnt eitt eða neitt nema í mesta lagi hálft tímabil áður en þeir komu. Síðan er það aldrei of oft sagt að hinir miklu peningar sem allkyns olíufurstar ofl hafa komið með inn í fótboltann hafa farið langleiðina með eyðileggja þessa annars fínu íþrótt. Það er gjörsamlega óþolandi.
  Hugleiðing með enska boltann og samanburð við meginlandið. Megum ekki gleyma því að hrunið mikla hjá ensku liðunum hefur gerst ótrúlega hratt og þarf ekki að fara mörg ár aftur í tímann þegar talað var yfirburði þeirra ensku. Árin 2007-11 voru 2-4 ensk lið á hverju ári í 8 liða úrslitum Meistaradeildarinnar, þar af tvö ár 4 lið. Hvað deild hafði þá yfirburði og til hverra var horft?

 15. Ég er í grundvallaratriðum sammála þessu og líklega hafa leikmannakaupin misheppnast lengur en bara undanfarin ár. Það hefur líklega verið meginreglan síðustu tuttugu ár eða svo. En ég er ekki viss um að samanburðurinn við Leicester eða Soto sé heppilegur. Það hefur alltaf einhverju liði tekist að ná árangri umfram fjárráð án þess að það hafi verið mjög varanlegt. Með öðrum orðum ef einhverju random liði tekst að ná 5-8 sæti með takmarkuð fjárráð einu sinni eða tvisvar er það líklega bara tilviljun frekar en að það sé til marks um ótrúlega útsjónarsemi. Að LFC hafi ekki uppskortið í samræmi við eyðslu er hins vegar líklega til marks um ítrekuð mistök í leikmannakaupum.

 16. Frábær umfjöllun. Það er smá von að hægt sé að ná í góða leikmenn án þess að eiga olíulindir til að baða sig í. Það hefur síðan ekki hjálpað til að þegar nýir stjórar koma og taka við passa sumir leikmenn ekki lengur i púslið.

 17. Mér þykir nokkuð leitt að sjá hversu fáir hafa skrifað undir þessa grein, en reikna með að fleiri hafi lent í því sama og ég. Þrátt fyrir að fyrirsögnin sé spurning, er henni svo hrikalega vel svarað að við greinina hef ég engu að bæta.

  Takk fyrir mig.

 18. Það sem gleymist kannski líka er sú ofurpressa sem leikmenn sem kosta gríðarlega peninga þurfa að bera. Það skal enginn segja mér að það sé ekki töluvert auðveldara að standast pressuna ef þú kemur frítt eða kostar 3-8 milljónir heldur en dúddi sem kostaði 30+ og ætlast er til að skili strax virði í formi marka á færibandi.

 19. Sá greinina stuttu eftir að hún var birt, taldi mig ekki hafa neitt við hana að bæta þar sem hún er gríðarlega vel skrifuð með áhugaverða punkta. Góðar tilvitnanir til að rökstyðja mál þitt.

  Ég hafði samt rangt fyrir mér, ég hef eitthvað við þetta að bæta.
  Það er einfaldlega: Kærar þakkir. Þetta var góð lesning.

 20. Nr.16

  Samanburður við Southamton undanfarin ár finnst mér mjög eðlilegur á þeim forsendum að þeir eru að selja sína bestu bita innan Englands (mest til Liverpool) á gríðarlegu yfirverði og fá í staðin menn sem eru í besta falli ekkert síðri leikmenn. Reyndar í nánast öllum tilvikum hafa þeir dottið á betri leikmenn. (Helst að þeir sakni Morgan Schneiderlin ennþá, en hann fór bara núna síðasta sumar og á góðan pening).

  Rétt líka sem islogi bendir á að það er töluvert auðveldara fyrir Mané og Tadic að koma til Southamton á £11m en það er fyrir Lallana að koma til Liverpool á £25m. Núna er samt langt liðið á hans annað tímabil og hann er kemur ennþá verr út í samanburði.

  Sama á við um Toby Alderweireld, mikið auðveldara fyrir hann að koma sem lánsmaður í lið með gjörsamlega enga pressu og nánast engar væntingar heldur en það er fyrir Lovren að koma sem £20m varnarmaður sem á að leiða vörn Liverpool frá fyrsta degi í takti við verðmiðann. Hvað þá þegar Alderweireld fer í lið sem spilar mikið upp á hans styrkleika með þétta miðju og stabíla varnarlínu á meðan Lovren fer í lið þar sem stöðugleikinn í varnarlínunni er enginn og nákvæmlega ekkert cover er í boði frá miðjunni.

  Hvort sem leikmenn koma til með að kosta mikið eða ekki trúi ég að Klopp nái mikið betur að kaupa nýja leikmenn sem passa í hans hugmyndafræði. Gleymum ekki að þó Matip komi frítt er hann alls ekkert ódýr ef eitthvað er að marka launin sem hann er sagður vera fá. Ótrúlegt hvað laun virðast aldrei vera með í umræðunni, Milner er á sama hátt ekkert ódýr þó Man City hafi ekkert fengið fyrir hann.

 21. Takk fyrir fræbáran pistil og skemmtilegar umræður allir saman.

  Við sjáum klárlega fram á bjartari tíð nú þegar loksins eru menn komnir sem horfa markvisst út fyrir ensku deildina. Manni svíður í kviðinn við að sjá öll þessi slæmu kaup sem hafa verið gerð undanfarin ár. Er algjörlega viss um að þetta muni snarbatna undir stjórn Klopps og Co.

 22. Er deildin búin? Engir leikir?
  Þessi viku pása er eins og heilt undirbúningstímabil. Hrikalega hefur liðið okkar þurft að leika þétt lengi.
  Mikil lærdómskúrfa fyrir Klopp.
  Hann mun búa sig undir slíka geðveiki næsta sumar þegar hann tekur inn nýja menn og pússar upp nokkra gamla og nokkra unga.
  Frábær grein(ing). Hausinn á Klopp stendur örugglega uppúr ensku þvögunni og hann horfir til allra átta.
  Ég er algerlega sannfærður að þetta tímabil fyrir Klopp er eins og doktorsgráða til viðbótar við masterinn sem hann hefur.
  Hann mun klárlega vera til í slaginn næsta haust með mannskap í jafnvægi en vonandi nær hann að kreista mannskapinn sem hann hefur núna til vorsins.
  Góður tímapunkur að fá núna viku undirbúningstímabil og taka næstu tvo leiki. Rest bara gleði.

  YNWA

Augsburg 0-0 Liverpool

Opinn þráður- Kevin Stewart fær nýjan samning