Stoke, nó djók

Ég viðurkenni það alveg fúslega að ég hef oft verið “peppaðri” fyrir að skrifa upphitun hjá okkar ástkæra félagi. Þetta ömurlega tap gegn West Ham fyrir alltof stuttu síðan, það var bara svo hrikalega slæmt að það hefur haft veruleg áhrif á fótboltalyst mína. Netrúnturinn hefur droppað og það er fátt sem togar í mann að lesa greinar eða umfjöllun um það sem tengist boltanum. Er það vegna þess að maður sé svo hrottalega óvanur því að tapa fótboltaleikjum að þegar það loksins gerist, þá sökkvi maður djúpt niður? Nei, svo sannarlega ekki. Því miður er maður alltof vanur þessu, en tap er ekki bara tap, þegar menn tapa leikjum út af öðru eins dugleysi, áhugaleysi og baráttuleysi, þá bara ristir það dýpra. Að horfa á unga menn sem fá milljónir í vasann í hverri viku en nenna svo ekki að vinna fyrir peningunum, það fer ekki bara í mínar fínustu taugar, það kemur hreinlega við þær allar. Miðað við framlagið á vellinum í síðasta leik, þá mætti frekar halda að þessir gaurar væru á atvinnuleysisbótum og verið hreinlega skikkaðir til að mæta á þennan völl og dvelja þar í um 90 mínútur. Já, þetta er bara þvílík skömm að svona frammistöðum.

Á morgun (þriðjudag) klukkan 20:00 fá menn smá tækifæri til að sýna að þeim sé ekki algjörlega sama um þetta allt saman. Þeir geta illa bætt upp fyrir skituna frá því á laugardag, því þau stig verða ekki aftur í boði fyrir okkur í deildinni, en þeir geta allavega gert eitthvað smávegis til að sýna fram á smá djörfung og dug. Hver einn og einasti leikmaður liðsins ætti svo sannarlega skilið að missa sæti sitt í liðinu, nema kannski Lovren og Moreno. En því miður, þá er ekki hægt að droppa þeim öllum, en mikið vona ég að Jurgen vinur minn Klopp geri þeim vel grein fyrir því að þeir séu ALLIR með TÖLU að berjast fyrir framtíð sinni hjá félaginu og þá skiptir andsk… engu máli hvenær menn voru keyptir til liðsins. Það skiptir líka akkúrat engu máli hvaða nafn þú berð. Ef þú mætir ekki til vinnu (til leiks) þá eru dyrnar þarna takk fyrir.

Þessi leikur gegn Stoke er næst síðasta skrefið í átt að Wembley og þar er titill í boði. Auðvitað eru titlarnir mis stórir og allt það, en stundum getur einn slíkur komið mönnum á bragðið. Við skuluð því ekki gera lítið úr hugsanlegum áhrifum af því að komast alla leið og fá pening á hálsinn. Andstæðingar okkar að þessu sinni eru Stoke, og hafa þeir verið á fínu skriði undanfarið, enda komnir með hörku lið alveg hreint. Ekki bara stórkallabolti þar á ferð, heldur fullt af fínum fótboltamönnum. Ég efast ekki um það í eina mínútu að Mark Hughes mætir til leiks með sitt sterkasta lið, enda það sama í húfi fyrir þá og getur reynst sama vítamínsprautan að komast alla leið í keppninni. Það er bara jákvætt að vera komnir svona langt, en það breytir ekki skoðun minni á því að það sé algjörlega galið að þetta sé eina keppnin sem er með leiki heima og að heiman í undanúrslitum. Enska knattspyrnusambandið hefur kvartað og kveinað yfir því að lið séu ekki að sýna þessari keppni næga virðingu, hvernig væri þá að laga uppsetninguna á bikarkeppnunum hjá þeim? Það er stór ástæða fyrir því að liðin eru ekki að bera nægilega virðingu. Miðað við leikjaálagið á Englandi, með engu vetrarfríi eins og tíðkast í öðrum deildum, þá er varla ofan á þetta bætandi. Leikið heima og heiman í undanúrslitum deildarbikars og svo aukaleikur ef jafntefli verður í FA bikarnum. Gjörsamlega galið og enn nú galnara að FA séu að skæla yfir því að liðin séu oft á tíðum ekki að stilla upp sínum sterkustu liðum í þessum keppnum.

En nóg um það, hvað á Jurgen til bragðs að taka þegar kemur að því að velja í liðið? Mun hann fara inn með sitt sterkasta lið? Hvað er hans sterkasta lið? Ég er nokkuð viss um hvað sé það sterkasta þegar kemur að 5 öftustu stöðunum á vellinum, en það er gjörsamlega á henni huldu blessaðri hvað teljist til sterkasta liðs þegar framar á völlinn er komið, sér í lagi þegar menn eins og Hendo og Sturridge eru meiddir. Við verðum samt að reyna að stilla einhverju upp, og hafa ber það í huga að við erum að fara að mæta Stoke. Ég vil sem sagt sjá öftustu 5 óbreytta, þ.e. að þeir standi þar áfram vaktina þeir Mignolet, Clyne, Lovren, Sakho og Moreno. Einna helst gæti ég séð hann setja Kolo inn fyrir Sakho, þar sem sá síðarnefndi er tiltölulega ný stiginn upp úr meiðslum og spurning hvort álagið á honum gæti farið að nálgast hættumörk. En þetta er stór leikur og því vil ég sjá sterkt lið. Jordan Henderson verður líklegast ekki klár í slaginn og ég efast stórlega um að Milner verði það heldur. Þar fyrir utan er Jordan Rossiter ekki leikfær. Það gerir það að verkum að við verðum að velja úr þeim Lucas, Allen og Can inn á miðsvæðið. Einhvern veginn þá hallast ég að því að Klopp velji þá bara alla í liðið, reyni að þétta miðjuna sem mest í þessum útileik. Svo vandast málið enn frekar, Sturridge er ennþá fjarri góðu gamni og það þarf varla að fara yfir stöðuna á þeim Origi og Ings. Hvað er þá eftir? Ryan Kent hefur verið að slá í gegn á láni hjá Coventry og ég vil bara sjá hann beint inn í liðið, bara á vænginn með hann og hafa Ibe hinum megin. Er svo sem ekki vongóður með það og á von á Coutinho áfram í liðinu. Mér er svo eiginlega nokkuð sama hver það verður sem verður efstur á toppnum, hvort það verði Firmino, Benteke, Lallana eða Coutinho, þeir eiga það allir jafn lítið skilið. Eigum við ekki að segja að Benteke fái enn og aftur sénsinn á að sýna að hann sé eitthvað meira en bara batti sem boltinn skýst af?

Spái þessu bara svona:

Mignolet

Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

Allen – Lucas – Can

Ibe – Benteke – Coutinho

Já ég veit, alltof margir sem engan áhuga sýndu í síðasta leik, en við verðum víst bara að vona að menn rífi sig upp á rasshárunum og fari að vinna fyrir laununum sínum. Menn þurfa að mæta algjörlega brjálaðir til leiks, allt minna en það getur skilað sér í því að við lendum bara út úr þessari keppni um að komast á Wembley, eftir þennan fyrri leik. Ég ætla að spá því að við náum fínu 1-1 jafntefli og að allt verði opið fyrir seinni leikinn sem fram fer á Anfield í lok mánaðarins. Eigum við ekki að segja að Ibe setji þetta eina mark fyrir okkar menn.

14 Comments

 1. Ég bara vona að þeir leikmenn sem byrja þennan leik leggji sig 100% fram og berjist fyrir LFC. Allt annað er óásættanlegt !

 2. lystarleisið mitt eftir helgina var nu bara svoo mikið að eg var buin að gleyma leiknum a morgun. Maður er gersamlega buin að fa uppi kok af þvi að halda trekk i trekk að nu se þetta að smella en alltaf er maður jafn harðan slegin fast í gólfið. Djofull er þetta að verða pirrandi. Eg er langt fra þvi að vera bjartsýnn fyrir þetta einvígi enda Stoke sennilega ekkert með lakara lið en við a pappir ef fyrsti 11 eru allir heilir. Það er alveg a kristaltæru að við verðum slegnir út með glans ef menn nenna þessu eitthvað minna en 100 prósent i 180 mínútur plús. Ætla að vona það besta en er ekkert bjartsýnn.

 3. Held það sé alveg klárt að Lallana kemur alltaf beint í byrjunarliðið og þrátt fyrir að hann eigi stundum misjafnlega er liverpool sterkara með hann í liðinu. Finnst Ibe ekki eiga skilið að byrja 2 leiki í röð hann er vissulega með ákveðin hraða en það er ekki velja hann bara út því hann verður að skapa einhver færi og hann þarf að skora einhver mörk,

 4. Ég ætla bara rétt að vona að menn mætti snældur vitlausir í þennan leik, ég er að fara út þann 15 til að sjá þá spila við manjú og það skal sko ekki verða fýluferð, nú vil ég að menn standi upp og sýna að þeim er 150% alvara og þeir eigi skilið að vera í okkar fagurrauða búning.

 5. Í gærkvöldi hefði ég spáð þessum leik 2-0 eða 3-1 Stoke í vil. Hinsvegar eftir að hafa séð fréttir þess efnis í morgun að Jurgen Klopp hafi kallað menn á liðsfund og rifið á þá nýtt rassgat þá er ég töluvert léttari á bárunni. Ég hallast einnig á 1-1 jafntefli í leiknum. Liggja djúpt, verjast vel og beita skyndisóknum. Taka þá síðan á heimavelli.

  YNWA

 6. Liverpool vinnur Stoke á morgun 2-1 og leggur grunninn af því að komast í úrslit í þessari keppni. Erum komnir það langt að það væri grátlegt að klúðra því annað árið í röð að komast í úrslit.

 7. Ef maður ætti að dæma út frá síðasta leik væri þetta tapað, en maður má það ekki og nýr leikur og nýjir draumar hahahaha. Áfram Liverpool!!!!!!!!!

 8. Þessi uppbygging hjá Klopp mun vissulega taka tíma,við munum tapa fleiri leikjum á leiktíðinni,en að sjá vinnuframlagið hjá vissum mönnum í síðasta leik var alveg skelfilegt og ég hreinlega hætti í hálfleik. Lucas gat betur í fyrsta markinu,í stað þess að horfa á manninn leggja hann inn í teiginn,fyrir utan það að vera sambandslaus í leiknum.Benteke er einn sá hægasti í bransanum og virkar voðalega svipaður í fari eins og Balotelli,eins hrottalegur og hann var hjá okkur.Roberto er algjört spurningamerki ennþá,en hann hefur átt 2-3 ágætis leiki,en það er allt og sumt. Ég gæti nefnt fleiri í hópnum og vonandi verður lagerhreinsun í vor og Jurgen finni menn sem eru peninganna virði.- Ciao 😉

 9. kæmi mér á óvart ef við myndum vinna ef ég á að segja það satt.

 10. Sælir félagar

  Ég á við sama vandamál að stríða og SSteinn, á í vandræðum með að gíra mig upp fyrir þennan leik. Þó vona ég að okkar menn vinni þetta og þessir drengir okkar sem eru á milljóna launum vinni nú fyrir kaupinu sínu, Annars bara góður.

  Það er nú þannig

  YNWA

 11. Aftur leikur! Þétt erða mar.
  Klopp hefur ekki tíma til að kíkja á markaðinn og verður því að nota það sem hann hefur.
  Hendo og Studge verða örugglega ekki með fyrr en á móti Ars og Utd enda ætlar Klopp að vinna þá leiki báða.
  Hann á ekkert varalið sem gæti haldið þessum djókurum í skefjum og verður því að lemja áfram á sama hópnum.
  Held þó að Lallana og jafnvel Milner spili í kvöld á kostnað Ibe og Allen.
  Ibe og Allen munu byrja á föstudaginn ásamt einhverjum unglingum. Sorrí Klopp, velkominn í FA, það mun ekki ganga upp.
  Ég hef illan bifur á þessum leik í kvöld og við vinnum bara með einu marki.
  YNWA

Að vera maður…eða mús?

Liðið gegn Stoke