Að vera maður…eða mús?

Það var þann 8.október að fréttir bárust af staðfestingu á ráðningu nýs stjóra hjá liðinu okkar.

Inn á sviðið labbaði brosmildur skeggjaður maður á fimmtugsaldri (sem er náttúrulega óaðfinnanleg blanda) og skipaði okkur að hætta að efast og fara að trúa. Þá gætum við saman átt í vændum skemmtilegt ævintýri.

KloppVæntingarnar til hans voru og eru miklar en eftir leik helgarinnar má segja að farið sé fyrir alvöru að hamast í honum. Alls konar fyrirsagnir á twitter heimum og fúlir Kopites-gaurar gripnir fyrir utan Boleyn Ground um helgina farnir að spyrja sig hvort að Klopp “sé eitthvað betri að mótivera menn en Rodgers var”…Telegraph fór í tölfræðirýni og dró það upp að þegar allt kæmi til alls væru eigendurnir ósáttir við stöðu fjárfestingar sinnar að hafa rekið Rodgers og ráðið Klopp.

Á blaðamannafundi í dag tókst Klopparanum svo að ergja ansi marga Poolara með því að lýsa enn og aftur yfir stuðningi við markmanninn okkar hann Simon minn. Það er synd að segja að þau ummæli hafi farið vel í twitterheim okkar rauðliðanna. “Fyrstu stóru mistök Klopp” voru trendið þar um sinn. Svo ég held að hægt sé að fullyrða að nú þremur mánuðum eftir ráðninguna sé andrúmsloftið eilítið eitraðra hjá kallinum en í byrjun og einstaka glott og glósur farnar að berast úr ranni andstæðinga okkar, sem munu gleðjast mikið ef þessi stjórabreyting mun mistakast.

Auðvitað var alltaf vitað að enskir myndu fara nákvæmlega eins að með Klopp og þeir hafa áður gert með aðra stjóra í deildinni. Þeim hefur þótt gaman að velta sér upp úr ummælum hans um veðrið og hvaða áhrif vindur hefur á það hvernig fótbolti sem íþrótt er stunduð, Bretarnir eru einstaklega hörundsárir blessaðir þegar einhver fer að velta fyrir sér þeirra heimi, ekki síst eins og þarna þar sem Klopp er að segja sama hraða í enska og þýska boltanum. Hann fór og fagnaði eftir WBA jafntefli með sínum mönnum líkt og langflest þýsk lið gera að loknum heimaleikjum með áhorfendum sem sitja stundum allt að hálftíma eftir að leik lýkur og syngja og tralla. Svo varð hann pirraður að fá ekki að fagna almennilega sigri á Leicester því of stutt var í næsta leik. Í dag talaði hann svo um það að ekki hefði verið hægt að hafa almennilega æfingu lengi til að sjá hver staðan á Sturridge er. Allar æfingar endurheimtaræfingar…og twitter fór aftur af stað og nú til að velta því upp að hann væri ekki að aðlaga sig að enska boltanum.

Hingað til hef ég verið að velta upp umræðunni en nú langar mig að breyta um kúrs og segja bara mína skoðun.

Allt það sem ég hef farið yfir hér að ofan er bara að sýna mér fram á það að Klopp er nákvæmlega sá maður sem ég taldi hann vera. Hann er fullur sjálfstrausts þó hann sé ekki að koma fram á arrogant máta þá er hann fullviss um það að hans skoðun sé sú eina rétta. Hann gleðst barnslega yfir góðum sigrum og er bara hundfúll eftir tapleiki. Svakalega sem hann var reiður um helgina, öskrandi allan tímann og sparkandi út í loftið auk þess að koma svo í viðtal og segjast vera reiður. Sem hann auðvitað átti að vera.

Þá kemur að hinum ágæta frasa um mótiveringuna á mannskapnum. Það er augljóst að persónueinkenni hans og allt charisma er á þann hátt að mönnum líður vel í kringum hann. Menn hafa sýnt viðbrögð þegar hann hefur steitt hnefann eins og þegar í kjölfar ömurlegs taps gegn Watford við fórum og unnum Leicester í kjölfar þess að hann skipaði mönnum að berjast og verða beinskeyttari í öllum aðgerðum. Það sama hefur hann sagt fyrir leikinn í Sunderland sem vannst og það sama í London. Hann er mjög nákvæmur í sínum undirbúningi og kemur sínum hlutum algerlega til skila, það hefur m.a. Gerrard talað um á undanförnum vikum og eitthvað sem aðrir hafa talað um áður. Hann kemur sínum skilaboðum áleiðis. Það er klárt.

Allt frá því hann kom til liðsins hefur hann unnið með leikmannahóp sem er vanur allt öðru uppleggi. Hann vill fara hratt upp völlinn í fáum snertingum og pressa hátt um leið og boltinn tapast en forveri hans keypti leikmenn sem eru góðir að halda boltanum og áttu að svæfa andstæðingana. Reyndar í krafti besta knattspyrnumanns heims var upplegginu breytt í beinskeyttara kerfi sem var svo slegið af um leið og við töpuðum þessum besta fótboltamanni. Því miður hafa margir horft (þ.á.m. ég) á verðmiðana á þeim leikmönnum sem við höfum keypt og höfuðið nærri dottið af manni. Í dag er það Benteke og Firmino sem hafa litið út fyrir allt annað en að vera 30 milljóna virði. En við getum líka bent á Joe Allen (15 millur), Lallana (25 millur), Ilori (7 millur) eða þá sem voru keyptir dýrt og svo sveiflað í burtu hratt fyrir pening eða lán (Aspas, Luis Alberto og Markovic).

Það sem mér hefur hins vegar fundist algerlega ljóst síðan Suarez fór er það hversu ofboðslega “linur” leikmannahópur okkar er. Við minnsta mótlæti bogna þessir menn hver af öðrum, láta ýta sér í burt og áræðið verður ekkert. Newcastle- og Watfordleikirnir sýndu þetta óskaplega vel þar sem líkamsstyrkurinn einn skipti öllu máli. Mikið var rætt um að “gott yrði að losna við Gerrard” því þá gætu aðrir stigið upp. Já…versogúð þá. Svoleiðis er það ekki, öll bestu lið sögunnar hafa átt marga leiðtoga, um allan völl. Í dag er mögulega einn slíkur í okkar liði í formi Hendo þó mér finnist Lovren og Sakho vera mögulega að stíga inní það hlutverk. Leiðtogi þarf ekkert alltaf að vera sá sem að stendur argandi allan völlinn á endann, en hann þarf að vera tilbúinn að stýra 11 manna liði með gjörðum sínum og vera reiðubúinn að fórna sér fyrir málstaðinn.

Ég hef notað frasann “músarhjörtu” um leikmenn sem mér finnst erfitt að stóla á í slíkum bardaga. Á Sigló í gamla daga var stundum sagt að maður “væri til í að grafa skurð með þér í norðanátt” og þar átt við að menn gætu tekið á hlutum við erfiðar aðstæður. Það er jú ekkert mál að grafa skurð í sól og blíðu sjáið til. Það sama á við inni á fótboltavelli, það er ógeðslega gaman þegar allt smellur saman og hlutir falla fyrir þig. Það er hinn endinn, þegar allt virðist erfitt og ómögulegt en þér tekst að breyta þar sem þú sérð hvar liggja gæði sem hægt er að stóla á. Því var Klopp að fagna með Kop í kjölfar marks Origi, ekki stigi á heimavelli gegn WBA.

Í okkar liði í dag finnst mér mikið um músarhjörtu. Það á við um Mignolet á margan hátt, hann þorir ekki mikið út í teiginn karlanginn en hefur þó verið að eiga betri leiki á línunni og að koma boltanum í leik, virðist taka mark á því hjá Klopp. Sakho og Lovren eiga að vera okkar hafsentapar af þessum ástæðum, með allri virðingu fyrir skrokknum á Skrtel þá er honum ýtt alltof auðveldlega út úr aðstæðum og Kolo er auðvitað ekki lengur tækur í PL leiki. Bakverðirnir tveir hafa átt góða leiki, sérstaklega er Clyne til í baráttunni en Moreno hefur verið mjög öflugur líka. Svo “músarvandinn” hefur minnkað í varnarleiknum.

En á miðjunni er hann ofboðslega augljós þegar Hendo er ekki með. Hann og Can virðast eiga vel saman, ég hef orðið meiri trú á Can en í haust, fyrst og fremst af því mér finnst hann hafa brugðist vel við góðri fyrirmynd Hendo og lagt sig meira fram. Hann var lengi að skila sér til baka fannst mér áður en með fyrirliðann sér við hlið var hann duglegri og áræðnari. Um helgina var hann með Lucas sem er því miður ekki lengur hægt að stóla á. Allra manna ánægðastur er ég ef að Lucas á framtíðarhlutverk í liðinu sem “rotation” spilari en miðja þar sem hann á að virka verður að innihalda mann sem berst. Joe Allen er auðvitað búinn að stimpla sig út eftir rúmlega 100 leiki þar sem hann kannski er minnistæður í 10 slíkum, Coutinho hefur ekki ráðið við hlutverk þarna út af því að hans vinnusemi er ekki næg og Milner karlinn er ekki músarhjarta held ég en hann á móti hleypur eiginlega of mikið.

Fyrir framan þessa miðju er svo aðalvígvöllur þeirra sem sveiflast með veðri og mótherjum. Þar er að finna Brazzana Coutinho og Firmino auk Lallana okkar. Frammistaða þessara leikmanna er kannski í hnotskurn það sem ég er að tala um. Þeir geta mætt í sólina og sumarið (semsagt leiki við góðar aðstæður gegn liðum sem að eru að spila svipaðan bolta og þeir vilja sjálfir) en þeir grafa ekki mikið í norðanáttinni (þegar litlir þröngir vellir mæta með vond veður og mikla líkamlega baráttu) eða þegar mótlætið birtist hraustlega. Þarna er hægt að bæta Ibe við sem ég held að eigi eftir að reynast okkur mjög vel en er hrár talent ennþá og þarf að vinna með.

Uppi á topp hefur Benteke svo virkað mjög linur þrátt fyrir að hafa skorað ágæta tölu af mörkum. Hann átti held ég t.d. 1 sigur í skallaeinvígi gegn West Ham og fer hratt niður þegar hann fær menn í sig af fullum krafti. Alan Shearer er sá nýjasti til að benda honum á að hann þarf að nýta skrokkinn betur því ef að hann er á fullri ferð þá er þarna algert heljarmenni að burðum sem á að hræða fólk. Danny Ings virkaði á mig sem ljón fyrir meiðslin, Origi allur nokkuð sprækur en þrátt fyrir að Sturridge sé frábær fótboltamaður er hann sennilega (understatement) linur við sig.

Þennan hóp er Klopp að vinna með, hóp sem Rodgers setti saman og menn báru sig saman við Arsenal og Barcelona sem staðalímyndir. Auðvitað ekki í getu, en hugmyndafræði. Þar sem fegurðin átti að felast í léttleikandi samspili og hraðabreytingum, svona gæðapoppi…eða sinfóníu.

Við vitum hvað Klopp stendur fyrir. Þungarokk.

Er það ekki bara hin fínasta samlíking til að horfa til. Þegar Sinfóníuhljómsveit Íslands er sett í að spila þungarokk koma mörg lög örugglega fínt út en önnur verða bara kjánaleg. Líkt og frammistöður okkar manna allt frá 8.október. Ef við horfum til slátrana eins og við sáum á Etihad og St. Mary’s annars vegar og svo frammistaðan gegn Watford og West Ham hins vegar er auðvitað ekkert skrýtið að Klopp hristi næstum af sér höfuðið. Áður en hann mætti til Watford talaði hann um það að hann hygðist breyta litlu í janúar. Ég er algerlega sannfærður um það að eftir síðustu vikur hefur sú skoðun hans breyst.

Við sjáum öll hvað hann stendur fyrir, eftir þrjá mánuði er hann strax lentur í rimmu við…jebbz, bæði Tony Pulis og Sam Allardyce og miðað við það sem leikmenn segja nú frá verið duglegur að benda mönnum á það að slæmar frammistöður séu fyrst og fremst útaf því að menn eru ekki að leggja sig nægilega fram. Til að vinna leik geturðu ekki mætt með 90 eða 95% einbeitingu. Þú þarft 100%.

Það er krafa Klopp á sjálfan sig og þjálfarateymið, ein ástæða þess að hann hætti hjá Dortmund var af því honum fannst hann ekki lengur hafa nóg fram að færa. Það sýnir styrk hans enn frekar. Sú staða er ekki uppi í dag þó að reynt sé að tala hann niður sem hraustlegast þessa dagana. Innkaupastefnan sem miðaðist að sinfóníunni (ef hún tók eitthvað mið) undanfarna glugga er ekki hans og hann er að reyna að kreista fram sínar áherslur…auk þess sem ágætur vöðvi (já eða sin) hefur spilað inn í það sem hann vill…með leikmenn sem eru ekki reiðubúnir til að leggja á sig það sem hann krefst af þeim í hverjum leik. Eru með “músarhjörtun” eins og ég kalla það.

Klopp ætlar sér að búa til flottan “skurð” í Liverpoolliðinu. Hann veit hver stefnan er og hvernig skurðurinn á að líta út. Á meðan mennirnir á skóflunum, járnkarlinum og hakanum eru ekki hans menn er ekki hægt að dæma skurðinn, vonandi gengur hratt fyrir sig að átta sig á hverjir verða menn í að grafa skurðinn…og þá líka enn hraðar að fá inn menn á þessi verkfæri!!!

In Klopp we trust.

15 Comments

  1. Menn verða átta sig á því í þessum samanburði að Klopp keypti ekki einn leikmann sem hann er að nota í dag, Rogers átti þá alla.
    Ef við getum haldið okkur ofarlega(helst í Meistaradeildarsæti), þá er það afrek útaf fyrir sig.
    Þegar Klopp er búinn að kaupa nokkra leikmenn, þá er hægt að gera alvöru samanburð á þessum tveimur stjórum.

  2. Ef þú ert eftir einungis þrjá mánuði í starfi búinn að fá Tony Pulis, Sam Allardyce og ensku pressuna upp á móti þér þá ertu klárlega að gera eitthvað rétt!

  3. Góður pistill Maggi

    Það er alveg ljóst að klúbburinn er í algjöru rugli. Það er eins og blindur maður hafi verslað inn leikmenn. Alltof margar tiur, engir kantarar o.s.frv. Siðan óskiljanleg lán til að toppa vitleysuna. Hvort sem þetta er BR sök eða samspil BR og þessar frægu leikmanna nefndar veit ég ekki, en þetta er svo víðáttu vitlaust og hreinlega óskiljanlegt hjá svona stórum klúbb.

    Klopp á allan minn stuðning svo lengi sem hann verður hjá Liverpool. Hans bíður erfitt verkefni að hreinsa óværuna út úr klúbbnum. Það virðist því miður hafa verið alltof mikið af óhæfu fólki í áhrifastöðum hjá klúbbnum síðustu 25 ár eða svo.

    Mikið óskaplega vona ég að hann láti til sín taka og þeir sem eiga klúbbinn styðji hann 100% alla leið. Fyrst þeir treystu óreyndum stjóra algjörlega blint að þá skulu þeir svo gjöra svol vel að ver klárir þegar herra Klopp biður um eitthvað.

    Ég er 100% viss að ef Klopp fær frið og fjármagn til að koma hugmyndum sínum fram að Liverpool FC verður í miklu betri málum þegar hann stígur til hliðar, sem verður vonandi ekki fyrr en eftir ca.20 ár.

    Herra Klopp alla leið.

  4. Sælir félagar

    Takk fyrir þetta Maggi. Þetta er svo vel gert hjá þér að ég hefi engu við að bæta.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  5. Ég er 100% sammála þér félagi Maggi. Það eru ekki margir til í að grafa skurðinn með Klopp. Menn með “músarhjörtun” eru of margir, benteke er átakanlega lélegur og virkar latur og áhugalaus, slíkir leikmenn fara óstjórnlega í taugarnar á mér, leikmenn sem eru að spila fyrir klúbbinn sem ég elska og fá í þolkabót hundruð milljóna fyrir það og leggja sig ekki fram fá mig bara til að æla. Benteke, firminho, lallana eru þeir þrír sem nenna bara ekki að leggja neitt á sig fyrir LFC. Ég vill svona leikmenn bara burt, verið áskrifendur af milljónum hjá aston villa eða newcastle. Ég vill 11 hermenn í slagsmálin gegn stoke, síðan gegn exeter, arsenal og manutd, ekki áhugalausa letingja.

  6. Frábærlega skrifaður pistill. Hló mikið þó málið sé vissulega grafalvarlegt.

    „Væri til í að grafa skurð með þér í norðanátt“ 🙂

    Það er vissulega hægt að gera mýs að mönnum á Sigló. Senda á Liverpool mýsnar í æfingabúðir á Sigló. Þar mundu þeir grafa skurði á í norðanátt á daginn en fengu síðan að fara upp í Hvanneyraskál með ungum fljóðum. Þar gæti einnig komið undir frábærir fótboltamenn eins og gerðist oft á síldarárunum en þar með urðu mýs að mönnum. Menn með mönnum.

    Hvanneyraskál í Pepsi Max.

  7. Flottur pistill. Eins og allir eru að segja þá þurfum við 11 stríðsmenn. Mignolet, Lallana, Benteke, Joe Allen og Jose Enrique mega allir fara hið snarasta. Benteke er alls ekki lélegur en hann passar alls ekki inn í leikstílinn sem Klopp vill hafa. Coutinho og Firmino mega síðan fara að taka til í hausnum á sér. Vil ekki losa okkur við Firmino alveg strax, gef honum út þetta tímabil til að klára að aðlagast. Lucas má síðan alls ekki vera meira en squad player. Þyrftum helst að fá inn menn eins og Bernd Leno, Nainggolan og Aubameyang til að leysa Mignolet, Allen og Benteke af hólmi. Leno yrði þá í markinu og vörnin myndi haldast óbreytt, þyrftum jafnvel að kaupa einhvern grjótharðan sem lætur í sér heyra við hliðina á annaðhvort Lovren eða Sakho, miðjan myndi samanstanda af Nainggolan, Henderson og Can og síðan myndi Coutinho spila fyrir aftan þá Aubameyang og Sturridge(þegar hann er heill). Síðan ættum við menn eins og Milner, Lucas, Firmino, Origi, Ings og fleiri á bekknum. Einfalt er það ekki? Okkur vantar svo nauðsynlega þessa týpu sem er dýrvitlaus og kveikir í öllum samherjum sínum því ef að allur þessi hópur myndi spila eins og líf þeirra lægi við í hverjum leik þá værum við eitt af bestu liðum í heiminum. Spilum því miður oftar en ekki með engan vilja og baráttu og þegar við spilum þannig erum við svipað góðir og meðal fyrstu deildar lið(næstefsta deild).

  8. Flottur pistill.

    En hvað er málið með álagið á liðinu þessa dagana. Það er ekkert lið sem er að lenda í eins kröppum leik dansi og við í auknablikinu. Spiluðum miðvikudag, laugardag og svo splum við þriðjudag og aftur á föstudag af öllum dögum ! 4 leikir á 10 dögum, leikur 3 hvern dag. Geri aðrir betur !

  9. Að koma með klopp out!! fyrr en ì fyrsta lagi eftir næsta tìmabil er að mìnu mati fràbær leið til þess að sýna hvað maður er afskaplega takmarkaður.
    Klopp þarf að venjast fullt af hlutum à englandi fyrir utan það að fà að bùa til sitt eigið lið.
    Mèr fynnst menn lìka gleyma þvì soldið að það eru bùinn að vera grìðaleg meiðsli hjà Lfc ì vetur! Annars skemmtilegur pistill ? takk fyrir að vera til kop.is

  10. Takk Maggi. Virkilega góðir punktar hjá þér og ég gæti ekki verið meira sammála.

    Mér gæti ekki verið sama þó svo að menn séu að gagnrýna eða gera grín að Klopp, það má alveg eins og við gerum grín að hinum köllunum 🙂 Hins vegar vitum við betur og að Klopp er gegnheill, heiðarlegur og hreinskilinn. Ég treysti honum 100% til að leiða okkar klúbb út úr þessum öldudal. Metnaðarleysi leikmanna og postulínsstuðningur er algjörlega ÓÞOLANDI ástand sem verður að breyta og það er furðulegt að það þurfi snilling frá Þýskalandi til að vinna í slíku.

  11. Frábær pistill og sammála hverju orði.
    En mikið djö… geta stuðningsmenn Liverpool stundum verið bilaðir, ætlast menn virkilega til að hann fari að vinna deildina eftir að hafa tekið við í október? Þessar kröfur eru ómanneskjulegar.
    Hef fulla trú á Klopp og hans hæfileikum, hann er því miður að vinna með mannskap sem hefur hvorki hæfileika né getu til að spila þann fótbolta sem hann vill og þarna eru allt of margar mýs en of fá ljón eins og réttilega er bent á.
    Eigum við ekki að draga aðeins andan og horfa á hlutina með sanngjörnum augum og í réttu ljósi og dæma Klopp þegar hann er búinn að búa til sitt lið með þeim mannskap sem hentar í þungarokkið.

  12. Flottur pistill og nákvæmlega það sem málíð snýst um! Annað hvort eru menn til í slaginn eða ekki. Það er ekki sami hluturinn að mæta á dekk í sól og blíðu eða í brælu! Ef menn höndla ekki bræluna þá hafa þeir heldur ekkert upp á dekk að gera þegar það er glampandi sól og spegilsléttur sjór!

    Hef alveg tekið eftir því að Klopp hefur aðeins verið að hnýta í aðstæður í Enska Boltanum. Hef hugsað hvort þetta væri klókt hjá Klopp”aranum” svona nýmættur á sviðið. Til dæmis þegar hann fór að tala um árangur Enska Landsliðsins væri ef til vill betri ef leikjaálagið væri ekki svona galið! Ef Englendingar eru viðkvæmir fyrir einhverju þá er það nákvæmlega Enska landsliðið!! En ég held að Klopp komi til með tækla Ensku Pressuna. Hef engar áhyggjur af honum. Hann er sem betur fer ekki að ritskoða sjálfan sig eins og hrædd mús!! Lætur ýmislegt flakka.

    Staðan er bara einfaldlega sú “í hundraðasta skipti” að það er kominn nýr þjálfari og hann er alltaf að fá alveg frítt spil þessa leiktíð svo lengi sem hann heldur okkur í deildinni! Það er mjög líklega framundan mikil uppstokkun á liðinu. Slíkt tekur tíma! Eina ferðina enn verða Liverpool áhangendur að bíta í skjaldarrendur og sýna að þeir þola mótvind!

    YNWA

  13. Flottur pistill, auðvitað lýsir stjórinn yfir stuðningi við markmanninn, hann hefur ekki marga aðra markmenn að velja úr sem eru betri í leikmannahópnum.

Þarfagreining – leikmannakaup

Stoke, nó djók