Sion 0-0 Liverpool

Liverpool heimsótti Sion í lokaleik riðlakeppninar í Evrópudeildinni í kvöld og líkt og í flest öllum öðrum leikjum riðilsins þá endaði hann með jafntefli. Shocker!

Klopp stillti upp sterku liði í kvöld enda var alveg töluvert í húfi bæði andlega og líkamlega fyrir leikmenn og upp á framhaldið í keppninni. Efsta sæti í riðlinum tryggir að liðið mætir ekki þeim sem koma nú í keppnina eftir að hafa fallið úr Meistaradeildinni og fyrir áframhaldandi göngu í keppninni þá er fínt að sleppa við það.

Mignolet

Clyne – Toure – Lovren – Smith

Milner – Can – Henderson
Lallana – Origi- Firmino

Bekkur: Bogdan, Randall, Skrtel, Rossiter, Brannagan, Coutinho, Benteke

Henderson byrjaði fyrsta leik sinn síðan í haust einhvern tíman, Brad Smith byrjaði sinn fyrsta leik og Origi var uppi á topp. Svo sem ekki mikið óvænt í liðsuppstillingunni í dag og ekkert út á liðsuppstillinguna að setja.

Leikurinn var afsakplega leiðinlegur. Maður var óspart farinn að rífa upp símann og athyglin farin gjörsamlega í eitthvað allt annað – þetta var meira að segja svo ljótt að það kom varla augnablik í leiknum að maður þyrfti að líta upp úr tækinu.

Snemma í leiknum fékk Liverpool nokkuð gott færi þegar Brad Smith átti mjög flotta fyrirgjöf fyrir markið en Origi náði ekki að stýra boltanum að marki, og hvað þá yfir línuna. Kannski hefði hann átt að gera betur, kannski hefði hann átt að reyna að skalla hann en so what, frábær fyrirgjöf og hann kom fætinum í boltann en náði ekki góðri snertingu. Life goes on og manni fannst þetta alveg gefa smá tón.

Sá tónn var ekki lengi að verða ekki neitt. Hvorugt liðið átti eitthvað alvöru marktækifæri í leiknum og báðir markverðirnir höfðu það afar náðugt í leiknum. Þarna voru klárlega lið sem bæði högnuðust af jafntefli og voru ekki að leggja mikið á sig við að ná einhverju meira úr leiknum. Þetta voru tveir saddir menn á hlaðborði sem fengu sér smá á diskinn í kurteisisskyni.

Ég er að reyna að kreista út einhver orð um þennan leik til að þessi skýrsla hafi eitthvað kjöt á beinunum en 0-0 segir bara allt um þennan leik sem segja þarf.

Mér finnst ekki ástæða til að stökkva eitthvað sérstaklega í neikvæðnina og hrauna yfir spilamennskuna. Það er afar freistandi að taka eitthvað rant um að þarna erum við aftur farnir að sjá gömlu vandamálin sem við sáum fyrir nokkrum mánuðum og að þessi og hinn sé ekki nógu góður og þess háttar. Eftir síðasta deildarleik, sem var nú alls ekki góður, þá finnst mér slíkt eiga fullan rétt á sér en í dag er manni bara nokkurn veginn alveg sama. Leikmönnum og þjálfurum beggja liða var nokkurn veginn alveg sama. Hvorugt liðið ætlaði að tapa og hvorugt liðið tapaði, báðir unnu með þessum úrslitum og leikurinn spilaðist þannig.

Sóknin var algjörlega bitlaus. Hlutirnir gengu hægt, miðjan var allt í lagi og munar alveg um Can á miðjunni eins og við sáum gegn Newcastle og frábært að Henderson gat spilað 75 mínútur í kvöld. Það reyndi ekki mikið á Mignolet og varnarmennina svo það er hvorki hægt að færa þeim lof eða last.

Maður leiksins í kvöld var alveg klárlega Brad Smith í mínum augum. Strákurinn var í einhverjum frystiklefa fyrir nokkrum vikum, óvissa var með samningsmál hans og framtíð hans ekki sérstaklega björt. Hann hefur nú skrifað undir nýjan samning og komið inn á sem varamaður og byrjað leik undir stjórn Klopp á síðustu dögum og skilaði af sér mjög góðri frammistöðu í dag. Nær allt merkilegt, sem var nú svo sem ekki mikið, í sóknarleik Liverpool í dag kom eftir fína rispu frá honum upp vinstri vænginn og góðar fyrirgjafir. Það er fínt að sjá heimalingana Randall, sem er líka búinn að framlengja samning sinn, og Smith sýna fínar frammistöður í bakvarðarstöðunum þegar þeir fá séns og gott að vita af þeim þarna. Sömuleiðis var jákvætt að sjá Rossiter koma til baka eftir meiðslin og Brannagan koma inn á þó aðeins nokkrar mínútur voru eftir.

Þá beinast spjótin að næsta leik sem er heima gegn WBA á sunnudaginn. Liðið er nú strand í Austurríki og kemst ekki heim fyrr en einhvern tíman annað kvöld eða eitthvað og verða af dýrmætum tíma í undirbúningnum fyrir deildarleikinn. Við sjáum hvað setur en eitt er víst að það var nær enginn í dag sem á að hafa unnið sér inn bókað sæti í næsta leik.

32 Comments

  1. Vælukjóar á leiðinni, jafnvel 1-2 sem munu kalla Klopp trúð o.s.frv. Ykkur er ekki viðbjargandi. Við tryggðum okkur efsta sætið í riðlinum. Ekki ætlar maður að dvelja á þessum leik neitt lengur.

    Hins vegar hefur maður áhyggjur af leiknum á sunnudaginn. Ef einhver leikur gefur frá sér fnyk um að það verði 0-0 leikur þá er það hann. Tony Pulis með sína leiðinlegur taktík kemur til þess eins að sitja aftur og bjóða okkur að halda boltanum.

  2. Sælir félagar

    0 – 0 segir einmitt allt um þennan leik. Allir leikmenn fá 0 í einkunn og leikurinn líka.

    Það er nú þannig

    YNWA

  3. Það var svona æfingarbragur á þessu.

    Bæði liðinn voru sátt með 1 stig svo að þau opnuðu sig hvorug enda engin ástæða til þess.
    Vallaraðstæður mjög erfiðar harður völlur(frosinn)
    Henderson spilaði 75 mín
    Couthinho kominn aftur og spilaði 15 mín.
    Smith var maður leiksins hjá mér, lét finna vel fyrir sér og var áræðinn í sínum aðgerðum.
    Ungu strákarnir Brannagan og Rositer fengu að spila.
    Það fór ekki of mikil orka í leikinn.
    Liverpool enda í 1.sæti í riðlinum.
    Engin meiddist(nema Sturridge sem tognaði heima hjá sér við að baka pipparkökur)

    Ég er bara nokkuð sáttur 🙂
    Já spilamennskan var ekki frábær og lítið af færum í leiknum en Evrópuleikir eru stundum svona og menn eru ótrúlega fljótir að gleyma að meiri segja gullaldarlið Liverpool 80s áttu svona evrópuleiki.

    Nú er bara að komast aftur í gang og klára næsta deildarleik og því að veislan fer núna á fullt og fullt af leikjum á skömmum tíma.

  4. flott úrslit, sá fyrri hálfleikinn a kef airport og er að sja úrslitin núna i 30 þus fetum á leið til Noregs, sáttur við úrslitin 🙂

  5. Geysp….. Europa Legue ala Lfc, bjóst ekki við neinu og fékk ekki neitt. En unnum riðilinn sem er hið besta mál. Smith mjög spennandi reyndar

  6. Ég og sex vikna gömul dóttir mín skiptumst á að sofa yfir þessum leik. Mjög kósý, hápunktur leiksins var þegar ég ullaði á hana og hún brosti út að eyrum!

  7. Það er náttúrulega bara vitleysa að vera að pirra sig eitthvað mikið yfir þessum leik enda erfiðar aðstæður og lið sem varðist með nánast öllum fyrir aftan miðju.

    Að bjóða upp á gaddfreðinn völl er náttúrulega fáránlegt og býður upp á meiðsli auk þess að ekki er hægt að spila boltanum almennilega á milli manna þegar hann skoppar á glerhörðu grasinu. Firsta touch’ið feilaði oft hjá mönnum bara útaf vellinum auk sendinga. Það er einfaldlega Sion til skammar að bjóða upp á þetta, svona aðstæður sjást ekki einu sinni á Laugardalvelli á verstu tímum. Hvernig getur svona gamalt og rótgróið félag í efstu deild í sínu landi ekki verið annaðhvort með hita undir grasinu eða hæfa vallarstarfsmenn sem tækla svona.

    En svona til að hafa eitthvað jákvætt í þessu innleggi, þá segi ég bara eins og lýsandinn, maður er bara pínu skotinn í Smith eftir þessa spretti sem hann tók og oft á tíðum baneitruðu fyrirgjafir. Ágætis vinstri fótur þarna á ferð og gott að hafa backup fyrir Moreno þó hann sé kannski ekki alveg kominn í þann klassa að geta verið byrjunarliðsmaður þá gæti hann vel orðið það á næstu árum ef áfram heldur sem horfir og þá á móti kannski aðeins öflugri andstæðingum.

  8. Klopp hefur sagt að ef að menn hafa ekki getu til þess að skjóta milli stanganna þegar þeir ætla að skjóta á markið, þá eiga þeir að láta það vera að skjóta á markið.

    Getraun: Hvað hefur Lallana skotið oft á milli stanganna?

  9. Bjóst nú ekki við neinni flugeldasýningu og Klopp hefur hægt mikið á tempóinu fyrir þennan leik enda engin ástæða til þess að leggja of mikið á menn í leik sem skiptir litlu máli. Völlurinn var frosinn og maður sá að það var erfitt að spila boltanum á milli, leiðinlegur leikur en ég vill nú ekki ganga svo langt að gefa öllum 0.

    4 jafntefli, 2 sigrar og ekkert tap færði okkur efsta sætið í riðlinum. Smith og Rossiter fengu séns, Hendo var að koma inní byrjunarliðið í fyrsta skipti í langan tíma, Coutinho kom inná eftir meiðsli, Origi er enn að aðlagast og Firmino hefur enn ekki fengið tvo leiki í röð með sömu mönnunum frammi, svo Klopp er enn að slípa menn saman en ætlaði greinilega ekki að taka sénsa í kvöld heldur bara sigla efsta sætinu þægilega heim.

    YNWA

  10. flott að klára þennan riðil mér finnst samt slakt af leimönnum liðsins að sætta sig við jafnteflið áður en leikurinn hefst gegn slakara liði. stuðningsmenn útum allan heim eru að borga fyrir að horfa á leikina, traveling cop, fjárhættuspilararnir og fleiri eiga betra skilið

  11. Litlu við að bæta nema kannski eitt.
    Brad Smith er ekki bara áræðinn og með góðar fyrirgjafir með vinstri. Hann getur sent boltann líka með hægri og það geta sannarlega ekki allir vinstri fótar menn.

    Firmino ákveðin vonbrigði með fyrsta tödds en hann var bara beinfrosinn og vonandi þiðnar hann fyrir sunnudaginn.

    Dráttur á mánudaginn og þá fer þessi keppni að verða skemmtileg.

    YNWA

  12. Þetta er sá lélegasti og leiðinlegast leikur sem ég hef á ævinni séð. Ekki boðlegt frá rándýrum atvinnumönnum!!!! Skítt með völlinn það er engin afsökun. Bara ekki boðlegt!!!!!!!!!

  13. Ég efast reyndar um það að dagurinn hafi verið mjög náðugur hjá markvörðunum, það getur verið algjört helvíti að standa mikið til hreyfingalaus í kulda í 2×45 mínútur.

    Úrslitin voru ásættanleg, en leikurinn ekki mikið fyrir augað. Skil það bara mjög vel í leik þar sem bæði lið höfðu hag af jafntefli og með frosinn völl.

    Eitthvað segir mér samt að megnið af leikmönnunum verði látnir spila á sunnudaginn. Skrtel, Moreno og Coutinho koma sjálfsagt inn í byrjunarliðið, kannski Benteke og Lucas.

  14. Sá ekki leikinn og er greinilega ekkert að fara að horfa á hann. Takk fyrir að tala frá hjartanu drengir, ég nota þessar níutíu mínótur í að skrifa jólakort.

  15. Fyrir mér var Lovren langbesti maður vallarins. Hann er farinn að spila rosalega vel eftir að Klopp tók við.

    Held að Sakho komist ekki í byrjunarliðið aftur, nema á kostnað Skrtel.

    Annars var þetta hundleiðinlegur leikur en hvað getum við sagt ? Liverpool vann riðilin og er komið áfram. Skiptir það ekki öllu þegar á botninn er hvolft ?

  16. sælir félagar

    Það voru nokkrir punktar jákvæðir.

    Brad smith sýndi ágætis takta og mér finnst full ástæða fyrir þennan strák að fá fleirri mínútúr, svona leikur og þessi keppni er fullkominn vettvangur fyrir þessa drengi til þess að fá mínútur. Rossiter hefði líka fengið fleirri ef ekki hefði verið fyrir sín meiðsli. Ibe hefur þegar látið til sín taka í þessari keppni.

    Bæði Henderson og Coutinho fengu mínútur til þess að skerpa á leikforminu, í tilfelli Henderson var það nauðsynlegt.

    Eitthvað var þó neikvætt:

    Mér þótti miður að leikmaður eins og Clyne sem hefur spilað gríðarlega mikið í vetur þyrfti að spila allar 90min í þessum leik, hefði helst viljað gefa honum algjöra hvíld.

    Þrátt fyrir að verðlaun fyrir sigur í þessari keppni séu vissulega vegleg þá verð ég nú bara að segja að hún er alveg á mörkunum að gjaldfella sig amk með þessum liðum og leikjum sem maður hefur séð í riðlakeppninnni. Þetta eru svo óspennandi lið að það nær engri átt og að vera að spila á hálffrosnum velli er til háborinnar skammar fyrir UEFA og ekkert nema lukka sem gerði það að verkum að meiðslalisti LFC stækkaði ekki í kvöld. Ég neita því ekki að hinsvegar gætu 32 liða úrslitin orðið alveg töluvert skemmtilegri þar sem liðin sem þar eru eru heldur betur í sterkari kantinum.

    Nú býður maður bara spenntur eftir sunnudeginum. Ég vonast til þess að við sjáum svipað lið og spilaði á móti City

  17. Þetta var það alleiðinlegasta sem ég hef horft á í ca 10 ár. Ég vil þessa tæpu tvo tíma til baka. Takk.

  18. Ekki við miklu að búast kannski í þessum leik en það var auðvitað ekki horfandi á þetta. Líf mitt styttist um 105 mínútur meðan á þessum leik stóð og það var ekki þess virði en svona er þetta nú stundum.

    Brad Smith klárlega ljósið í leiknum en sem fyrr er Firmino alveg hræðilega slappur – er þetta ekki maður sem átti að vera tilbúin í ensku deildina, einn besti tæklari í Evrópu o.s.frv. Hann er búin að vera slakur í öllum leikjum sem hann hefur spilað nema City leiknum þar sem hann var ágætur og það var mikið Coutinho að þakka. Reyndar sullaði hann nokkrum góðum marktækifærum þar út í veður og vind þar sem afgreiðslurnar voru ekki sannfærandi.

  19. Leikurinn algert svefnmeðal og í raun ekki mikið meira um hann að segja. Völlurinn var líka beinlínis hættulegur og alveg með ólíkindum að það sé boðið upp á svona á þessu leveli.

    Ekki alveg rétt sem fram kemur í leikskýrslu að í 32 liða úrslitum sleppum við öll liðin sem koma úr UCL. Við sleppum hins vegar við fjögur sterkustu þeirra skv. uefa-ranking lista, þ.e. Porto, Olympiakos, Man.Utd. og Leverkusen en gætum hins vegar mætt Sevilla, Valencia, Galatasaray og Shaktar. Sleppum líka við öll hin liðin sem unnu riðlanna sína í Evrópudeildinni. Sjá nánari upplýsingar hér:

    http://kassiesa.home.xs4all.nl/bert/uefa/seedel2015.html

  20. Styrmir Gunn og LFC 123. Það er nákvæmlega málið, maður hefur samviskubit yfir að hafa eytt 2 klst í þennan viðbjóð. Úrslitin í sjálfu sér allt í lagi en það verður að vera skemmtilegt að horfa á liðið. Veit að völlurinn var ömurlegur en LFC voru líka skelfilegir síðasta sunnudag á fínum velli. Hef áhyggjur af leiknum á sunnudaginn kemur, alla vega út frá skemmtanagildi. Erum við að breytast í Man.Utd? Guð forði okkur frá því.

  21. Takið inn róandi svona einu sinni, héldu þið virkilega að allir leikir færu 3-0 eða 4-0 það sem eftir væri bara útaf Klopp er nýmættur? Hann er ennþá að koma sinni hugmyndarfræði í leik okkar manna og hefur ekki einu sinni keypt sjálfur einn einasta mann í liðið. Við töpuðum ekki núna á fimmt, bragðdaufur leikur já en þetta var nóg!

  22. Sjitt hvað ég er heppinn að hafa misst af þessum leik, miðað við kommentin. Klopp mun koma okkur á toppinn, þetta er bara rétt að byrja.

  23. Enginn meiddist. Það er sigur í sjálfu sér. Auk þess fengu nokkrir lítt æfðir að tækifæri til að teygja úr skönkum. Það er svona aukabónus.

  24. Þar sem að þetta var svona rólegur leikur má ég þá kannski nota tækifærið og biðja um að fá þumlana aftur?! 🙂

  25. Sá raunar ekki leikinn svo ég ætti vitanlega ekki að vera að þenja mig. En mér heyrist sem að Klopp sé trúr uppruna sínum og hafi látið lið sitt gera það sem þurfti að gera en ekkert meira en það.

    Fáir þýskir þjálfarar láta menn sína eyða orku að óþörfu. Það er nákvæmlega eftir þýsku bókinni að spila göngubolta í dag til þess að geta spilað pressubolta á morgun.

    Eins og ég segi; sá ekki leikinn en tel ekki sérstakt tilefni til að hafa áhyggjur af WBA þó að lítið hafi verið að gerast í Sviss.

  26. Sælir félagar

    Já það er þetta með þumlana Baldvin Heiðar. Í svona rólegheitum ætti að vera hægt að koma þeim á. Maður fær ekkert að vita um þumlamálið og hlutaðeigandi þegja þunnu hljóði. Síðuhaldarar hafa manni í algerri óvissu um þessa blessuðu handarparta og það er í sjálfu sér afar afar spennandi.

    Það er nú þannig

    YNWA

  27. Þumlar – þeir eru að reynast okkur erfiðari en við sáum fyrir. Leitin að rétta þumlinum heldur áfram en hann snýr aftur einn góðan veðurdag. Lofum því.

    Podcast – á þriðjudögum eins og venjulega þannig að … væntanlega næsta þriðjudag.

    And that’s the way the cookie crumbles…

  28. Höfðum við engann áhuga á Lukaku þegar hann var fáanlegur? Andskotinn hafi það.

  29. Sælir félagar

    Félagi KAR hefir tjáð sig um stóra þumlamálið. Sál mín hefir róast og mér líður betur í öllum kroppnum eftir það. Fowler sé lofaður.

    Það er nú þannig

    YNWA

Liðið gegn Sion

Liverpool – WBA