Newcastle á morgun

Hversu gaman er það að leikirnir koma í löngum bunum þegar liðið er jafn skemmtilegt og það er í dag? Líklegast álíka skemmtilegt og það er lítið spennandi að bíða eftir leikjunum þegar ekkert er í gangi og ekkert að ganga upp. Það er alveg frábært hvað það er eitthvað góður andi í kringum allt tengt félaginu þessa dagana, alveg sama hvert litið er. Maður hefur séð stuðningsmenn annarra liða vera farna að gera grín að því að við Poolarar séum farnir yfirum í bjartsýni og að titillinn sé í sjónmál. Ég held að það sé nú óskhyggja hjá andstæðingum okkar, því ekki hef ég hitt eða talað við einn einasta sem telur leiðina að titlinum vera greiða. Það breytir því samt ekki að það er ógeðslega gaman að vera Poolari í dag og það er fyrst og fremst einum manni að þakka, Jurgen Klopp. Hann hefur rifið hreinlega allt félagið upp á rassgatinu og í rauninni staðið við það sem hann talaði um í byrjun, þ.e. að breyta öllum yfir í Believers.

Eigum við von á sigurhrinu alveg fram á vorið, að það standist okkur enginn snúning? Hell no, svo fjarri lagi. Til dæmis er þessi leikur á morgun svo fjarri því að vera auðveldur að það hálfa væri hellingur. Illa sært Newcastle lið sem er með fullt af sterkum leikmönnum innan sinna raða. Liverpool liðið í dag er ekki jafn vel skipað og lið eins og Manchester City og Chelsea. Enda hvernig mætti það vera miðað við muninn á liðunum þegar kemur að launum leikmanna. Liverpool eru í fimmta sæti yfir þau lið sem borga mest í laun og það hefur oft verið farið yfir samhengi þess og svo árangurs. Það er í rauninni þannig að allt yfir 5. sætinu er yfir raunstöðu. Það skemmtilega í þessu er að akkúrat þetta er það sem Jurgen hefur gert áður, hann hefur farið með brot fjármuna FC Bayern og sigrað þá. Ekki bara einu sinni, heldur tvisvar á tiltölulega stuttu tímabili. Núna sér maður alveg af hverju þessum manni tókst það. Svei mér þá, mann hlakkar til blaðamannafunda með honum. Blaðamannafundir og viðtöl almennt hafa yfirleitt gert mig pirraðan og stjórar hafa fallið í áliti hjá manni vegna þeirra. En þessi? Hann fer bara hærra og hærra, enginn leikaraskapur, bara hreinn og klár og svarar frá hjartanu.

En skoðum aðeins þetta Newcastle lið. Það er alveg magnað að þeir hafa skorað heil 6 mörk í einum leik, í 6-2 sigri á Norwich, en samt hafa þeir bara skorað 14 mörk í heildina í þessum 14 leikjum sem þeir hafa spilað. Í heilum 7 af þessum 14 leikjum hafa þeir ekki náð að skora mark. Þeir hafa svo afrekað það að fá á sig heil 30 mörk í þessum leikjum. Það er því óhætt að segja að Steve McClaren sé ekki að gera neitt sérlega gott mót þarna í norðri. Þeir eru með sóknarsinnaða leikmenn eins og Cisse, Perez, Mitrovic, Wijnaldum, Gouffran og Sissoko, allt fínir fótboltamenn. En það virðist illa ganga að fá þessa einstaklinga til að spila sem lið inni á vellinum og leggja sig fram fyrir stuðningsmenn sína. Þeir hafa yfirleitt lagt sig fram við sinn stuðning og er ótrúlegt hreinlega að það takist ekki betur að koma upp frambærilegu fótboltaliði í þessari borg. Þeir eru með stóran hóp leikmanna, en þessi franska stefna þeirra síðustu árin hefur samt ekki verið að skila þeim miklu.

Newcastle eru reyndar ofarlega á einu sviði, meiðslalistinn þeirra er talsvert langur. Hann samanstendur reyndar mest af mönnum sem eru lítt þekktir og teljast seint til lykilmanna, en þar er þó að finna mikilvæga pósta eins og markvörðinn Krul og varnartengiliðinn Tiote. Aðrir á þessum lista eru menn eins og Williamson, Lascelles, Haidara, Aarons, Obertan, Taylor, Riviere og Good (hann hlýtur reyndar að teljast lykilmaður, nema að bróðir hans, Very Good, sé heill heilsu og spili í staðinn). Enginn í banni hjá þeim.

Það er orðið ferlega erfitt að ráða í það hvernig liðið okkar verður uppstillt í leikjum. Yfirleitt hef ég átt frekar auðvelt með að stilla upp liðum, oft á tíðum eru stjórarnir svolítið fyrirséðir, en ég hreinlega hef ekki hugmynd um það hvernig Klopp stillir upp sínu liði. Meiðslalistinn er reyndar búinn að minnka talsvert, en reyndar einhverjir sem eru að koma tilbaka og kannski ekki alveg klárir í heilan leik. Coutinho er víst mjög tæpur fyrir leikinn og er það nú aldeilis skarð sem erfitt er að fylla. Annars eru þetta bara long term gaurarnir Sakho, Flanno, Ings og Gomez sem eru fjarverandi og eins verður Emre Can í leikbanni vegna 5 gulra spjalda. Allt þetta skiptir samt engu máli, það sem skiptir höfuðmáli er að menn haldi áfram að berjast eins og brjálæðingar, haldi áfram þessari pressu sem hefur verið að skila okkur þessum flottu úrslitum.

Mignolet hefur svo sannarlega fengið trausts yfirlýsingar frá Jurgen og verður í markinu. Það er svo algjörlega á tæru hvernig bakvarðarstöðurnar eru skipaðar, en þeir Clyne og Moreno sitja hreinlega einir að þeim. Toure er okkar eina backup í miðvarðarstöðurnar eins og er og hann var meira að segja fjarverandi í síðasta leik og því verða þeir Skrtel og Lovren á sínum stað (hefðu reyndar verið það hvort sem Kolo væri heill eða ekki). Þar fyrir framan mun svo Lucas sitja, enda kominn aftur úr banni. Það eina í viðbót sem er alveg á tæru er það að Milner mun spila þennan leik. Restin getur svo verið hvernig sem er, þeir Lallana, Allen, Henderson, Ibe, Firmino, Coutinho, Benteke, Origi og Sturridge gætu allir byrjað þennan leik. Það er ljóst að 5 af þessum mönnum mun ekki hefja leikinn. Ég held að Allen verði við hlið Milner, enda staðið sig með prýði í þessum tveim leikjum undanfarið þar sem hann hefur fengið tækifærið. Eigum við bara virkilega að fara að trúa því að Klopp geti komið honum á braut? Það er freistandi að setja Henderson þarna inn, en ég held bara að hann sé ekki kominn í stand ennþá til að byrja leiki. Restin byggir svo rosalega á því hvort Coutinho verði klár eða ekki. Ég giska á að hann verði ekki með frá byrjun og að Klopp setji sterka framlínu í þeim Firmino, Benteke og Sturridge. svona ætla ég að giska á þetta:

Mignolet

Clyne – Skrtel – Lovren – Moreno

Milner – Lucas – Allen
Sturridge – Benteke – Firmino

Það er óhætt að segja að breiddin sé að aukast í þessu liði ef við erum með bekk sem er skipaður af þeim Bogdan, Toure, Henderson, Lallana, Ibe, Coutinho og Origi. Randall fær líklegast sæti eins þeirra til að hafa eitthvað bakvarðar backup á bekknum, en þetta er engu að síður farið að verða ansi þétt og ekki veitir af þegar jólatörnin er framunda.

Í rauninni er margt sem segir mér að vera varfærinn í þessari spá, því þetta er hættulegur leikur. Ég bara get ekki reynt að vera svartsýnn þessa dagana, þetta er bara of skemmtilegt til að ég geti það. Ég ætla að spá því að við keyrum yfir þetta Newcastle lið og gerum vont markahlutfall þeirra, enn verra. 0-3 verður lokaniðurstaðan og það verða þeir Sturridge, Benteke og Milner sem setja mörkin. Mikið væri nú gaman að halda áfram að þokast upp töfluna. En svo gamla klisjan sé nú notuð, þá er best að taka bara einn leik fyrir í einu. Þetta er næsti leikur og það eina sem ég fer fram á eru 3 stig. Meira var það nú ekki að þessu sinni.

47 Comments

  1. Takk fyrir góða upphitun og very good fimmaurabrandara sem fékk mig til að flissa.

    Ef Klopp getur virkilega dregið það besta úr Allen þá erum við allt í einu komnir með heilsteypta miðju, það breytir öllu ef Allen er allt í einu orðinn góður leikmaður. Lucas kemur inn eftir góða hvíld og þegar hann er fyrir framan vörnina fer mótherjinn ekkert að skapa hættu, alveg pottþétt ekki. Gamli góði Lucas er mættur aftur.

    Sóknarlínan verður vonandi eins og þú stillir henni upp, væri gott að hafa Coutinho á bekknum ef við þurfum á honum að halda.

    Segi 1-4. Benteke setur þrennu til að halda sínu sæti í liðinu.

  2. Þessi leikur er all -in fyrir Mcclaren,enda eru hans dagar fljótlega taldir ef hans menn tapa þessum leik – kannski hangir hann í snörunni fram yfir jólatörnina.

    Ég sè fram á að þeir sitji aftarlega,jafnvel á sínum velli og þétti miðjuna og beiti skyndisóknum til að byrja með.

    Ef við náum 3 punktum í þessum leik erum við komnir í meistaradeildarbaráttu og engin lið geta gengið að okkur vísum.

    Ég verð bara að segja að ég heyri á mínum vinnustað að stuðningsmenn annarra liða telja okkur gríðarlega heppna með ráðningu Klopp og að hann muni koma okkur á þann stað sem LFC á að vera,segi èg auðvitað.

    3-1 fyrir Liverpool og Sturridge setur þrennu.

  3. Held að Lallana byrji á kostnað Benteke og Sturridge verði fremstur. Mest megnis sammála öðru en spyr mig hvernig staðan er á Henderson. Hann víst með eitthvað ólæknandi í löppinni en virðist samt vera fær til að getað spilað. Það væri gaman að sjá Henderson á fullu farti. Hann er svo mikill prímusmotor. En líklega er það óraunhæft að hann sé fær til þess, eftir að hafa verið svona lengi frá.

  4. #2

    Frekar ósanngjarnt ef framtíð Mclaren fer eftir úrslitum þessa leiks, þó svo að formið hefur verið skelfilegt.

  5. Sammála með að velja liðið, það er mjög erfitt orðið að ráða í þetta. Við erum að tala um að Origi sem skoraði þrennu í þessari viku er ekki öruggur í hóp í næsta leik.

    Það er freistandi að setja Henderson inn, hann er örugglega mjög nálægt því að byrja en hvort sem hann verður með frá byrjun eða ekki tippa ég á að Klopp haldi áfram á þeirri braut sem hann hóf gegn Southamton og spili með tígulmiðju. Við höfum lengi furðað okkur á því afhverju í veröldinni Rodgers gaf það kerfi upp á bátinn eftir að hafa rústað fjölmörgum leikjum með einmitt því kerfi. Núna prufar Klopp þetta í einum leik með hálfgerðu varaliði og Liverpool rústar honum 1-6!

    Hversvegna í veröldinni ætti hann að breyta þessu fyrir þennan leik? Stjóri Newcastle er enginn bjáni þó illa gangi og er líklega búinn að nota vikuna í að bregðast við leik Liverpool undir stjórn Klopp. Því held ég að líklegustu byrjunarliðin og upplegg liðanna sé ca. svona.

    Helsta óvissan hvort Mitrovic verði frammi eða hann þétti aðeins vörnina frekar.

    Ef Henderson er ekki klár tippa ég á að Lallana komi inn í miðjutríóið mun frekar en Allen, hann held ég að verði mest í þessum bikarleikjum á næstunni meðan hópurinn er þetta þéttur á miðjunni. Hvað þá þar sem þetta byrjunarlið inniheldur ekki Can, Henderson, Coutinho og Rossiter. Sé ekki alveg hvar Allen á að koma til skjalana.

    Ef Allen byrjar yrði það á kostnað einhvers af sóknarmönnunum, Sturridge er auðvitað tæpur til eilífðar og besta staða Firmino er ekki endilega í holunni fyrir aftan tvo sóknarmenn, hann er frekar annar af þessum sóknarmönnum. Við það færi Lallana auðvitað upp í sína bestu stöðu.

    Maður er hóflega bjartsýnn, þori ekki meiru enda Liverpool ekki unnið þarna í tvö ár.

  6. sos #3
    Þú getur plantað þér á annan hvern pöbb í Osló og séð leikinn, en ef þú ert að leita að Liverpool bar þá er Andy´s Pub góður. Vel skreyttur rauðu og ódýr öl yfir leik. Stortingsgata 8, 0161 Oslo. Ef þú ert langt frá er Liverpool klúbburinn í Osló með góðan lista yfir staði til að horfa á Liverpool leiki :
    http://www.liverpool.no/zonepg.aspx?zone=79&MenuNode=633895546024677497

    3-1 fyrir LFC, Benteke X 2 og Moreno
    YNWA

  7. #3 Kíktu endilega á Andy’s fyrir framan þinghúsið. Við verðum þar nokkrir á sunnudaginn, það er àgætt að mæta tímanlega þvi staðurinn er ekki svo stór 🙂

  8. Ég er sammála með liðið að mestu en ég held að Sturridge byrji ekki tvo leiki í röð heldur komi hann inn á eftir svona klukkutíma. Ibe eða Lallana held ég að byrji frekar. Henderson gæti vel byrjað held ég þó ég sé ekki viss. Það er gaman og spennandi að vita ekki nákvæmlega hvað er sterkasta byrjunarliðið hverju sinni! YNWA #Makeusdream

  9. Mikið er loksins gaman að sjá að Klopp gæti verið í vandræðum að velja í liðið og ástæðan sé ekki vegna meiðsla heldur að það eru margir að spila vel og erfitt að henda á bekkinn.
    Það er allavega klárt mál að úrvalið á bekknum ætti að vera ansi gott og það ætti að halda mönnum vel á tánum.

    Ég ætla að vera nokkuð bjartsýnn og spá okkur þægilegum 3 marka sigri.

  10. Var að horfa á þátt um J Vardy. Rosalega held ég að hann myndi henta í okkar lið og leikaðferð Klopp.

  11. Ég vona að Sturridge byrji frammi með Origi á kostnað Benteke. Þeir eru heitir saman og svo getum við alltaf notað Benteke seinna í leiknum. Lykilatriði er að halda hreinu í þessum leik.

    Vona að við rekum síðasta naglann í kistu Maclaren sem stjóra newcastle.

    Tökum þetta annað hvort 0-2 eða þá 0-6 🙂

  12. Virkilega erfiður leikur framundan. Ég er frekar smeykur við þennan leik, enda má líkja Newcastle við sært dýr sem er búið að króa út í horni.

    Það verður sko ekkert gefið í þessu og það eru nánast 0% líkur á því að það verði ekki skoruð mörk í þessum leik. Treysti því bara að okkar menn mæti dýrvitlausir og vel motiveraðir í þennan leik. Hef enga trú á því að það verði eitthvað vanmat í gangi. Þetta verður erfiður leikur, engin spurning. Hlakka samt mikið til leiksins og spái okkar mönnum að sjálfsögðu sigri.

  13. Djöfull er maður spenntur! Sammála uppstillingunni, nema mig grunar frekar tígulmiðju með Firmino fremstan…

  14. Ég á mér draum….og hann er ekki sá sem þið haldið, þ.e. að vinna deildina, allavega ekki á þessu tímabili(raunhæft)
    Nei draumurinn þetta tímabiliið (þessi raunhæfi þ.e.) er að ná a.m.k. fjórða sætinu og á kostnað Man city

    Pælið í sælunni ef Liverpool endaði í meistaradeildarsæti á kostnað Man city og Sterling karlinn fengi að spila í evrópudeildinni á næsta tímabili 🙂 🙂 🙂

    Draumurinn byrjar ágætlega með sigri Stoke á City 🙂

    Bónus við það væri auðvitað ef litla liðið í Manchester og Chelsea næðu heldur ekki meistardeildarsæti 🙂

  15. Va hvad thad væri gaman af vinna thennan leik, spai fjorugum leik 3-2 fyrir okkar monnum og Lallana byrjar a kantinum/amc ef thaf verdur tigulmidja. Go Lfc!!

  16. Alltaf batnar þessi dagur.
    City steinliggja á móti Stoke.
    Man Utd fá stig á móti West Ham
    Tottenham fær 1 stig á móti WBA

    Kjörið tækifæri á morgun að nálgast þessi lið.
    Vonandi mæta menn með hausinn réttan á og krækja í dýrmætu 3 stigin.

  17. United, City, Spurs, Hamrar og Saints öll að tapa stigum. Sigur á morgun gríðarlega mikilvægur.

  18. Snýst eingöngu um þrjú stig, þau mega vera ljót.

    City tapar þremur, scums og Tottarar tapa tveimur.
    Yrði þrep uppávið á þessum stairway to heaven.

    YNWA

  19. sigur á mrg þýðir 1 stig í meistaradeildina vonandi standast þeir pressuna og valta yfir þetta arfaslaka newcastle lið koma svoooo djöfull er maður orðinn mikið spenntari yfir leiknum a mrg eftir þessi úrslit

  20. Allt í einu er þessi leikur á morgun orðin mjög mikilvægur. Sigur á morgun og við nálgumst lið eins og scum,tottenh og shitty.

    Við bara VERÐUM að vinna á morgun !

  21. Það þarf auðvitað bara að vinna með 11 mörkum til að komast upp fyrir Tottenham á morgun.

    En já, ég vona bara að Klopp haldi áfram að strá galdraduftinu sínu, og að menn verði á tánum allan tímann. Þetta er sýnd veiði en ekki gefin. Ég yrði mjög ánægður með 0-1 sigur.

  22. En hvað er að frétta með þetta Leicester City lið, þvílik sigling á þessu liði og þessi Riyad Mahrez virkar sem hörku leikmaður.
    24 ára kantmaður sem ég væri alveg til í að sjá hjá okkur í jan.

  23. ég held að Origi hljóti að hafa unnið sér inn byrjunarlisðsæti með þrennunni, annars væri ég til í að sjá Hendo og Lugas á miðjunni Cutinio í holunni með Lala og Firmino sitt hvoru megin við sig.

  24. #19 Kristján Atli

    Skemmtilegt spjall á fotbolti.net. Mæli með því að allir púlarar hlusti á það.

    Sérstaklega er ég sammála Kristjáni með að menn haldi sér niðri á jörðinni. Við erum EKKI að fara að vinna deildina þetta tímabil! Enda sagði Klopp í viðtali að menn væru brjálaðir að láta sér detta það í hug, enda á sínu fyrsta tímabili með liðið.

    Tökum einn leik fyrir í einu. Koma svo rauðir, pökkum þessum KR-ingum saman á morgun!

  25. Bíð spenntur eftir úrslitunum úr seinasta leiknum, það myndi fullkomna daginn ef að chelsea gerðu jafntepli eða töpuðu fyrir Bournemouth!

  26. Ef BR væri ennþá stjóri liðsins þá væri maður hræddur um að first að það er komin pressa á að vinna á morgun þá komi liðið til með að choke-a á þessu og klúðra þessu… eeeennn… Klopp virðist vera búinn að mótivera liðið þannig að það sé allt mögulegt og að allir séu orðnir belivers í staðinn fyrir doubters.

    Ég hef verið þeirrar skoðunar lengi að fótbolti snúist að 80-90 % um sjálfstraust leikmanna. Ef menn hafa ekki sjálfstraust þá gengur ekkert hjá mönnum. Það sem Klopp hefur gert síðan hann tók við er að blása sjálfstrausti í leikmenn og menn hafa trú á sjálfum sér og liðinu í heild. Að því sögðu þá ætla ég að vona að liðið vinni leikinn á morgun og vonandi verður það sannfærandi en eins og menn hafa sagt þá þarf það ekki að vera fallegt svo framarlega sem það skilar þremur stigum í hús.

    Klopp á við lúxus vandamál að stríða þar sem nánast allir leikmenn virðast vera með gott sjálfstraust og hann ekki öfundsverður að velja í liðið. Varðandi sóknina þá er spurning með Benteke, Sturridge eða Origi og varðandi miðjuna þá er meira að segja Allen búinn að vera að spila frábærlega sem segir meira en margt annað um stöðuna.

    En ég er og hef verið believer og kem til með að halda því áfram þar sem ég hef tröllatrú á Klopp og liðinu.

    You´ll never walk alone

  27. coutinho ekki búinn að jafna sig og klopp sagði í gær að það yrði ekki tekinn neinn séns með hann þannig að ég les það þannig að það sé ekki séns að hann verði með í hóp um helgina.

    clyne sktrel lovren moreno
    hendo lucas milner
    ibe firmino
    sturridge

    gæti verið að origi væri þarna í stað ibe.. en ég hugsa að byrjunarliðið verði nokkurnveginn svona.

    þessi umferð í dag gæti ekki hafa farið betur fyrir okkur.. verðum við að taka newcastle á morgun.. vona að sturridge komi með þrennu 🙂

  28. HAHAHAH Bournemouth með verðskuldaðan sigur á chelsea, við verðum að vinna á morgun!

  29. Skil ekki af hverju menn eru að fylgjast með úrslitum Chelsea. Það er ekki eins og að liðin í 16 sæti séu við það að ná okkur að stigum. Hefur annars meistaralið einhverntíman áður byrjað tímabil svona hroðalega illa?

  30. Svona smá positiv fyrir þá sem finnst Mignolet afleitur markmaður

    No Premier League goalkeeper has kept more clean sheets than Simon Mignolet (14) in 2015.

  31. Menn verða algerlega tilbúnir.
    Ef Newcastle koma einhvern veginn á óvart og ná yfirhöndinni þá er Kloppinn vakandi á línunni og bregst við. Ekkert hrip í minnisbók.

    Helsta áhyggjuefnið ef Toons bakka algerlega en strákarnir eru að slípast þarna frammi og leysa það.

    Oft eru þetta með skemmtilegri leikjum. Hlakka til.
    YNWA

  32. Chelsea er langt komið með því að segja bæ við 4 sætið i vor. chelsea a 23 leiki eftir, vinni þeir þa alla þa enda þeir með 84 stig. Til að komast i meistara deildina þarftu allavega 70-74 stig svo chelsea ma ekki tapa meira en sirka 10-12 stigum ut seasonið til að na 4 sæti

  33. Gaman að fylgjast með deildinni núna og mikið væri gaman að fá enn einn sigurleikinn í röð. Margt að falla með okkur, nema kannski þetta ofurgengi á Vardy og Mahrez sem eru komnir með samtals 21 mark fyrir Leicester, þremur meira en Liverpool. Höfum ekki séð annað eins síðan SAS voru upp á sitt besta. Geta þeir haldið áfram?

  34. Aðdáendur Leicester þurfa örugglega að klípa sig í handarbakið og snúa upp á, á tíu mínútna fresti þessa dagana! 🙂 Ótrúlegt gengi… sannkallað öskubusku ævintýri.

    Ef Liverpool vinnur á morgun þá er bara virkilega komin alvöru spenna í þetta season!! Hver hefði trúað því fyrir mánuði síðan… 🙂 Koma svo Liverpool og taka þetta Newcastle lið.. alveg kominn tími á sigur á heimavelli þeirra!! -_-

    YNWA

  35. #37 Jafnvel þó svo Chelsea myndi taka 2.3 stig að meðaltali í leik út tímabilið (sem er betra en þeir náðu að meðaltali allt tímabilið í fyrra þá myndu þeir enda með 67-68 stig sem dugar sjaldan í 4.sætið. Þetta fer að verða tölfræðilegur ómöguleiki hjá þeim 😉

    Við völtum yfir Newcastle, við lekum inn einu marki en skorum 4.

  36. Sælir allir púllarar. Ég er ný fluttur til Fredrikstad í Noregi.veit einhver ykkar hvar hægt er að horfa á okkar ástkæra lið í Fredrikstad eða Sarpsborg? Ps.við vinnum leikinn 1-4. 🙂 YNWA

  37. Sælir félagar

    Sigur og ekkert nema sigur er ásættanlegt. Ég er sammála því að þetta verður erfitt og Newcastle mun spila fast og gróft. Það er í raun það sem ég hefi helst áhyggur af að einhver endi í meislum fyrir vikið, En hvað um það þessi leikur verður að vinnast því við erum í dauðafæri við að koma okkur í þétta efsta pakka eftir leiki gærdagsins. Ég tippa á 1 – 3 í hunderfiðum leik.

    Það er nú þannig

    YNWA

  38. Gríðarlega sáttur við Pirlo-lúkkið hjá Welska-Xavi. Hann hlýtur að byrja inn á.

  39. Tekið af rawk:
    Confirmed #LFC team v @NUFC: Mignolet, Clyne, Skrtel, Lovren, Moreno, Lucas, Allen, Milner, Ibe, Firmino, Benteke

  40. Bekkurinn: Bogdan, Toure, Randall, Henderson, Lallana, Origi, Sturridge

Kop ferð – síðasta útkall og dagskrárdrög

Liðið gegn Newcastle