Kop ferð – síðasta útkall og dagskrárdrög

Þá styttist í síðasta dag sölu þeirra ÚrvalsÚtsýnar manna á kop.is ferðinni á leik Liverpool og Man United um miðjan janúar.

Hlekkur á bókunarupplýsingar er hér hægra megin á síðunni en hér eru að neðan drög að þeirri dagskrá sem við félagarnir fjórir sem verðum í fararstjórn höfum sett upp. Með því að smella á “meira” hér að neðan kemur upp hvað við ætlum að bjóða uppá þessa þrjá daga í borginni dásamlegu við Merseyána.

Við hlökkum orðið mjög mikið til, nú þegar er ferðin orðin sú langstærsta sem við höfum farið og magnað gengi liðsins að undanförnu hefur nú ekki dregið úr vatnssöfnun í munnvikum manns. Núna ÆTLUM við að vinna Van Gaal-súran sem hefur farið alltof létt út úr þessum viðureignum hingað til!!!

Semsagt, að neðan er gróf dagskrá ferðarinnar. Það eru síðustu forvöð á morgun að bóka ferðina, í kjölfarið munum við svo fá nafna- og netfangalista fyrir ferðalanga og senda þeim endanlega dagskrá.

Föstudagur 15.janúar

Brottför frá Keflavík kl. 7:30 – lending áætluð 10:15 á John Lennon Airport í Liverpool

Förum í gegnum flugstöðina og út í rútur. Rúturnar flytja hópinn beint upp á Anfield þar sem ferðalöngum býðst að fara í Centenary túrinn sem hægt er að fræðast betur um á hlekknum hér. Við höfum tekið frá tvær tímasetningar, kl. 12:40 og 13:00 og við munum fylgja með leiðsögumönnunum og bjóða því upp á leiðsögn á íslensku.

Verð fer eftir þátttökufjölda og er ekki innifalið í verðinu á ferðinni í heild.

Þeir sem ekki hafa áhuga á túrnum geta nýtt tímann í Liverpool-búðinni á vellinum eða bara slakað á í nágrenni vallarins. Ekki verður hægt að tékka inn á hótelið fyrr en kl. 14:00 og því munu rúturnar bíða eftir hópnum þar til seinni ferðinni lýkur og aka þá á hótelið í inntékk.

Kl. 19:30 hefst pöbbkviss kop.is í miðborginni. Að þessu sinni ætlum við að útfæra kvöldið á þann hátt að hafa pöbbkviss í sal og í kjölfar þess munu tvær eldri hetjur (legends) koma og hitta hópinn. Að sjálfsögðu verða vinningar í boði og ÚrvalÚtsýn mun leggja til eitthvað snarl á borðin. Eins og með Anfield ferðina mun verðið á þennan viðburð fara eftir þátttöku og er ekki innifalið í verði ferðarinnar.

Verðinu á þessa viðburði verður að sjálfsögðu stillt í hóf og það er hvers og eins að velja hvort hann/hún vill taka þátt í þessu stuði sem öðru.

Laugardagur 16.janúar

Laugardagurinn verður frjáls tími. Einhverjar fyrirspurnir hafa verið um hvort hægt sé að ferðast til borgarinnar slæmu í austri og horfa á stærra liðið í þeirri borg etja kappi við Crystal Palace. Ef áhugi er fyrir því er það alveg möguleiki en þarf þá að láta vita af því hið allra fyrsta svo hægt sé að gera ráðstafanir með miða.

Borgin auðvitað býður upp á allt. Frábært að versla, fullt af skemmtilegum stöðum að skoða og endalaust af góðum veitingastöðum. Kvöldið svíkur svo vonandi engan, þar er fjölbreytt úrval skemmtistaða í boði, við höfum oft rennt í Cavern Club svona upp á Bítlanostalgíu og það kvöld hefur undanfarin ár gott “Tribute Beatles” band verið að spila. Ekki nóg með það hefur þá gestum sem treysta sér til þess verið boðið að taka eitt lag með sveitinni…sem allavega einn ferðalangur hefur tekið með þvílíkum stæl.

Allir ættu að finna skemmtun við sitt hæfi og við ættum að geta bent á eitthvað fyrir fólk að gera.

Sunnudagur 17.janúar

LEIKDAGURRRRR

Fararstjórarnir ætla að taka daginn tiltölulega snemma og setjast niður og undirbúa sig fyrir leikinn. Ekki síðar en um ellefuleytið verður farið að gera ráðstafanir til að taka þátt í leikdagsstemmingunni upp á Anfield, en eins og með allt er það undir hverjum komið hvort hann/hún vill taka þátt í því eða bara ráðstafa degi fram að leik.

Leikurinn á Anfield er flautaður á kl.14:05

Sigri verður svo fagnað kl. 16:00 áður en haldið er aftur á hótelið þar sem töskur verða sóttar og færðar í rúturnar sem flytja okkur út á völl kl 18:00

Við tökum svo á loft kl. 21:00 að staðartíma og lendum ekki síðar en kl. 23:45 í Keflavíkinni með stigin þrjú í pokahorninu.

Gleðin við völd.

Ennþá er möguleiki á að næla sér í miða í ferðina. Síðasti séns á morgun, föstudaginn 4.desember. Við viljum enn fjölga í þessum risa hópi!!!

Eins og ég sagði áðan þá munum við félagarnir svo fá í næstu viku nafna- og netfangalista ferðalanga og vera með nánari útlistun fljótlega upp úr því.

DAGAR TIL BROTTFARAR ERU NÚ 43

2 Comments

  1. Geðveik dagskrá en er ekki leiðinlegt að þurfa að fara heim nánast strax eftir leik? Sérstaklega ef hann vinnst?

  2. Þetta verður roooooooosalegt!! Tek undir slefið í munnvikunum, eins og liðið hefur verið að spila undanfarið þá verður þessi leikur alveg gjöðveikur. Og Anfield er að byrja að taka við sér á nýjan leik. Er eitthvað vitað um sætin á vellinum, ca. hvar við verðum?

    Tek undir að það er verra að þurfa að fara beint upp í vél eftir leik. Ekkert við því að gera svosem annað en að vera bara í góðu skapi og njóta dags og kvölds út í æsar í góðum félagsskap. Eru bara taxar til baka á hótelið eftir leik og hver fyrir sig eða á að safnast eitthvað saman í rútu frá Anfield?

Steven Gerrard – árin hjá Liverpool [auglýsing]

Newcastle á morgun