Liverpool 2 – Bordeaux 1

Evrópukvöld á Anfield og eftir 2-0 sigur Rubin Kazan á Sion í dag var það ekki bara ljóst að við færum áfram með sigri heldur myndum setjast í efsta sæti riðilsins fyrir síðustu umferð.

Klopp heldur áfram að stilla upp sterkum liðum í öllum keppnum, en þó með eilitlum útfærslum. Svona stillti hann upp:

Mignolet

Clyne – Toure – Lovren – Moreno

Lucas –
Allen – Milner
Ibe – Firmino

Benteke

Á bekknum: Bogdan, Lallana, Can, Origi, Skrtel, Brannagan, Randall

Taktíkskiltið okkar ekki alveg að gera sig en mér fannst þessi leikur vera stilltur upp sem 4-1-2-2-1, þó Allen aftar en Milner.

Ótrúlegt en satt þá eru ný meiðsli að stríða Sturridge okkar, nú á fætinum og myndataka á morgun. Það var víst kominn frí myndataka (er fimmta hver held ég). Coutinho var hvíldur en verður klár um helgina. Toure kom inn fyrir Skrtel og Allen inn fyrir Emre Can.

Þessi leikur var óskaplega skrýtinn. Við vorum alls ekki góðir fyrstu 33 mínúturnar. Leikurinn var flatur og við áttum mjög erfitt með að ná einhverjum samspilsköflum og við sköpuðum ekki margt. Það var afskaplega sérstakt því að fáránleg mistök markmannsins okkar virtust vekja okkur.

Skulum hafa það á hreinu að Mignolet hefur bætt miklu við sinn leik og er að mínu mati góður markmaður. En hann er ÖMURLEGUR að koma boltanum aftur í leik. Það að halda boltanum í 22 sekúndur er hlægilegt á allan hátt og lélegur dómari leiksins refsaði honum fyrir þá dellu (sem var rétt), ein fárra. Hann stillti svo upp vegg sem hann treysti ekki, skref í ranga átt og Bordeaux komnir yfir. Þurftu ekkert að hafa fyrir því og mikið óskaplega þarf að vera á hreinu að hann Simon læri þessa lexíu, hann þarf einfaldlega að stíga verulega upp í þessu atriði leiksins ef við erum að verða alvöru stórlið aftur!

En þetta vakti okkar menn af værum svefni og í hönd fóru u.þ.b. 30 mínútur í leiknum þar sem við hápressuðum, fórum agressívir á Frakkana og sköpuðum okkur fín færi.

Við jöfnuðum á 38.mínútu þegar dómarinn dæmdi víti sem verður umdeilanlegt. Benteke var þó vissulega haldið þrátt fyrir að eiga engan séns á að ná vondri fyrirgjöf og flautan gall. Fyrirliðanum James Milner urðu ekki á nein mistök, sendi þéttingsbolta niðri vinstra megin við markmanninn sem fór í hina áttina.

BentekeÍ uppbótartíma fyrri hálfleiks komumst við svo yfir, Clyne átti sendingu á vítateigslínuna þar sem Christian Benteke var með bakið í markið, sneri varnarmann af sér og dúndraði í netið, frábært mark og við 2-1 yfir þegar dómarinn flautaði til hálfleiks. Við byrjuðum seinni hálfleikinn sterkt, Benteke skoraði flott mark en það var dæmt af fyrir leikbrot sem ég er ekki handviss um. Ibe fékk svo flott færi en lét markmanninn verja frá sér.

Frá þessum tímapunkti, u.þ.b. eftir 65 mínútur þá byrjaði stress eða eitthvað annað að detta í koll drengjanna. Það sem eftir lifði leiks sagði þulurinn Bordeaux hafa haldið boltanum um 65%, við hættum að pressa og féllum aftarlega. Bordeaux náðu þó lítið að ógna fyrr en í lokin þegar Mignolet varði aukaspyrnu ágætlega í innkast og upp úr því fengu þeir annað gott færi sem þeir blöstuðu yfir slána sem betur fer.

Uppúr því kom lokaflautið og við hirtum þrjú stig og efsta sæti riðils. Við getum farið slakir til Sion í lokaleikinn og verðum í 32ja liða úrslitum Evrópudeildarinnar þegar þau hefjast.

Þegar við förum yfir liðið þá auðvitað fær Mignolet “Svarta Pétur” í þessum leik og verður að læra. Varnarlínan var fín allan leikinn, sérstaklega gott að sjá Kolo koma inn og spila vel, róaði mannskapinn niður og átti lykilvarnir í lokin sem gladdi mig. Lucas og Allen náðu ekki vel saman, Frakkarnir fóru meira í gegn á miðjunni en þeir ljósbláu um helgina og það er auðvitað fúlt að benda því á Allen, þeir náðu ekki vel saman held ég að sé bara málið. Milner er ég að fíla, hann hleypur endalaust fyrir þetta lið, skoraði úr vítinu og var óheppinn að fá ekki stoðsendingu í marki Benteke, þó auðvitað vanti eitthvað upp á boltatæknina. Firmino átti vondan leik í dag, tapaði mörgum boltum og náði ekki miklum tökum – en við lifum bara enn á helginni, hann virkaði örþreyttur í seinni hálfleik. Ibe var svolítið inn og út í þessum leik en er áræðinn og grimmur núna. Ég vel Benteke sem mann leiksins. Hann fékk þetta víti og markið hans verðugt sigurmark.

Semsagt við náðum þremur stigum þrátt fyrir að hafa ekki átt neinn stórleik sem er bara fínt mál og það vonandi brýtur aðeins niður það sem er eitthvað að angra okkur á Anfield.

Gleði

Nú er að nýta mómentið og vinna Swansea um helgina drengir mínir.

32 Comments

 1. Sælir félagar

  Það sem gleður mann eftir þennan leik er markið hjá Benteke og svo sigurinn sem slíkur. Annað var það nú ekki sem gladdi mig í þessum leik.

  Það er nú þannig

  YNWA

 2. vá hvað þessi dómari var hörmulegur ! hvað ætli hann hafi flautað oft í leiknum ? ég hélt að það mætti nú allveg snertast í fótbolta án þess að fá á sig gult spjald. ég ætla að giska á að þetta hafi verið ítali

 3. Ég veit það er ljótt að segja þetta en við tókum bara van gal taktíkina á þetta, spila svo leiðinlegan bolta að andstæðingurn sofnar og lauma svo einu inn í uppbótartíma… en að öllu ganni slept, það þarf að vinna ljótu sigrana líka, það hefur vantað.

 4. það hafðist en Simon M á að vita betur, og hætta þessu slóri. Flott mark(mörk) hjá Benteka og örugt víli hjá Milner. Takk fyrir mig.

 5. Nr. 4 ….. horfðir þú ekki á seinni hálfleik…. við sköpuðum okkur fleiri færi úr opnu spili en scum utd hefur gert í s.l. þremur leikjum !!! Henderson, Sturrige, Ings, Can, Lallana, Kútinjo ekki með…. eins og reyndar Mignolet…. Bogdan inn ??? Þetta er ekkert nema jákvætt, sammála að það sé gott að taka stigin 3… eins og alltaf, en okkar menn voru að berjast allan helv&%$ tímann. Blóð á tönnum, love it… YNWA !

 6. Markmaður Liverpool gerði mistök eins og aðrir liðsfélagar hans geta gert. Góð lið þola mistök og vinna leikina þrátt fyrir mistökin.

  Liverpool er kannski að verða gott lið.

 7. Ég hef orðið verulegar áhyggjur af okkar stuðningsmönnum á vellinum. Það má orðið heyra saumnál detta allan tíman sem leikurinn er í gangi og þetta er orðið þannig hvern einasta heimaleik nú orðið.

 8. Verkefni vel leyst komnir afram….Mignolet liklega fegnasti maðurinn i Liverpool. Það er kannski kominn timi a Bojan.

 9. Er ekki vita vonlaust að ætla Sturridge eitthvað tiltekið prógram áður en hann kemur inn á? Ef hann spriklar, setja hann þá inn. Þau telja frekar mörkin sem hann skorar í þeim stutta tímaramma heldur en mörkin sem hann skorar ekki í gifsi.

 10. Ég hef nokkrum sinnum minnst á það hér hve Mignolet er lengi að koma boltanum í leik – Ég verð að viðurkenna það að í þetta skiptið hló ég. Það er súrt, ég veit. En almáttugur drengur maður Jesús Kristur og allir hans vinir. Bruce gamli Grobbelaar náði þessum tíma ekki þótt hann mætti það samt 🙂

 11. Tók samt engin eftir því þegar Mignolet reyndi að gefa mark með einum versta skalla sem ég hef séð á ævi minni. Bara Kolo vinur okkar sem bjargaði marki þar. Simon var mjög óöruggur og þetta er allt furðulegt. Ekki í fyrsta sinn sem hann heldur svona lengi á boltanum og það var eiginlega orðið tímaspurs mál hvenær dæmt yrði á hann.

 12. Stend við það sem ég hef áður sagt, fyrstu kaup Klopp verður nýr markmaður !!!

 13. Þetta var virkilega góður vinnusigur og núna getum við mætt í lokaleikinn í þessum riðli afslappaðir og auðvitað mun Klopp nýta sér það til að þróa hópinn sinn betur.

  Nú reynir mikið á að afsanna það að við getum ekki unnið sunnudagsleik eftir Evrópuleik. Swansea eru í skítamálum og munu mæta dýrvitlausir, það er klárt.

  Ég tel reyndar að þetta CP tap hafi verið vinnuslys, formið mun verða svona meira og minna í allan vetur hjá okkar liði undir stjórn okkar elskulega Klopp.

  Svo styttist verulega í gluggann, hver vill ekki spila fyrir LFC núna og fá hlý og hressandi faðmlög eftir leiki.

  Þetta verður hrikalega spennandi vetur og ég er algjörlega handviss um að hver dagur sem líður vinnur með okkur, með eða án Sturridge.

 14. Þessi markmaður okkar er ekki að gera sig. Ég hef aldrei skilið af hverju Reina var látinn fara. Hann er varamarkvörður Spænska landsliðsins. Þegar þetta gerðist fór ég að efast um Brendan. Eitt af lykilatriðum Reina var hvað hann var fljótur að koma boltanum í leik og gerði það skynsamlega. Svo kaupir Liverpool mann sem er bara góður á milli stanganna. Maður fær alltaf fyrirkvíðaverki þegar andstæðingurinn fær horn og framkvæmir fyrirgjafir og Símon fer út úr markinu til að gera einhverjar rósir. Hvað höfum við fengið mörg mörk á okkur úr hornum og fyrirgjöfum? Til að vera sanngjarn þá hefur Símon oft bjargað á ótrúlegan hátt og þannig bjargað stigi eða stigum.

 15. Við skulum hafa það alveg á hreinu að Migs er EKKI góður markmaður!!

  Jújú hann hefur skánað frá því að verst lét en það er þó enginn samanburður.

  Bojan er ekki lausnin heldur og ég er viss um að menn sem tala um markmann sem fyrstu kaup Klopp verði sannspáir.

  Drullusterkt að vinna þennan leik þrátt fyrir misjafnt spil. Útivellirnir eru enn að gefa okkur vel og það er hið besta mál!

  Nú er það bara að ná upp heimaleikjaformi og drullast í þetta 4. sæti (eða vinna UEFA) =D

  Allt að koma !!!

 16. Losa okkur við Migno – þetta grínatriði í gær gerði útslagið – vantar alla tilfinningu fyrir leiknum hjá honum… ….en annars frábær vinnusigur þar sem Bordo skapaði sér í sjálfu sér ekki neitt en þetta var nú samt mjög leiðinlegur leikur þar sem sendingargetan var afar slæm….

 17. Eitt besta atriði leiksins fannst mér þegar að KingKolo tók sprettinn upp völlinn og sólaði mann og annan og endaði svo á því að fá boltann og skjóta. Var hápunkturinn á annars fáránlega daufum fyrsti 35~ mínútum

 18. Ég veit ekki hvað ég er að bulla. Auðvitað var þessi leikur á Anfield…

 19. Man að einhvern tímann var mér sagt að markvörður ætti ekki að skipta um skoðun, eða hætta við. Ef Markvörður fer í heimskulegt úthlaup þá er það betra að klára það en snúa við og fara aftur á línuna. Þetta sá maður ítrekað með Reina og Neuer er stundum við það að breytast í Striker í sínum úthlaupum.

  Svo höfum við Mignolet, maður sér hann skipta um ákvarðanir 2 til 3 sinnum í hverju einasta úthlaup og stökki. Þessi skalli í gær er gott dæmi, ætlar upp, hikar, ætlar til baka, hættir við. tekur svo eitthvað stökk sem dóttir mín 2 ára myndi skammast síðan fyrir. hikar við að skalla og reynir svo á niðurleið að flikkar hausnum eitthvað í boltan.
  Ætla ekki að vanvirða hugtakið með að kalla þetta skalla.

  Svo tökum við seinna atvikið 21 sekúnda með boltann í höndum, skoppar honum, sparkar í hann. Taldi um það bil 20 ákvarðanir sem hann hætti við á þessum tíma. Hvesu oft hefur maður ekki séð fína markmenn sparka boltanum eitthvað í burtu, öskra svo á miðjumennina fyrir að opna sig ekki.

  Að segja að þetta sé góður markvörður er alger fyrra. Hann kann að stoppa skot, sem nota bene hann myndi ekki þurfa að stoppa ef hann hefði gert það sem hann á að gera og gripið helvítis fyrigjöfina til að byrja með.

  Fyrir leikinn í gær var ég tilbúin að viðurkenna að hann væri slakur markvörður sem gæti mögulega lært og batnað.

  Eftir þennan leik er ég á því að hann sé slakur markvörður sem kann ekki reglurnar og á aldrei eftir að læra það sem þarf.

  Meðan svo er á hann aldrei eftir að fá vörnina til að treysta sér og þetta rugl heldur áfram, maður hallar sér ekki að ótraustum vegg.

  Það þarf að skipta þessum manni út og því fyrr því betra.

 20. Nokkrir miðlar hafa slúðrað um að Stegen sé fyrsti kostur Klopp, en talað er um að Stegen sé óánægður með spilatíma sinn með Barcelonda og Liverpool muni bjóða í hann í janúar. Ólíklegt þó að það gangi eftir.

  Bernd Leno er hinsvegar með 13 milljón punda klásúlu, svo það er bara tímaspursmál hvenær eitthvað stórlið virkjar hana.

 21. Smá léttir. Gat ekki betur lesið en meiðsli Sturridge hafi ekki verið alvarleg. Allavega var klopp að tala um að Sturridge þyrfti að þekkja muninn á alvarlegum meiðslum og meinlausri kvöl. Geri ráð fyir því að Sturridge hafi verið svo oft meiddur undanfarið að hann hafi haldið að hann væri enn eitt skiptið dottið ofan í ólukkupottinn en svo reyndist sem betur fer ekki vera.

  Þannig að það má gera ráð fyrir honum á næstunni.

 22. https://www.youtube.com/watch?v=rAqlanK8BMI Otto porter vinnur shaqtin a fool ársins í fyrra í nba boltanum.

  útfrá klúðri Mignolet þá mætti alveg gera shaqtin a fool vikunnar í fótboltanum…skil ekki afhverju er ekki búið að því….langvinsælasta innleggið á nba.com

 23. Þetta franska lið var ömurlega lélegt og leiðinlegt, en við unnum loksins heima. Bravó!!!
  Við verðum að fara að fá betri markvörð til að verða lið í heimsklassa. Er ekki einhver laus í Þýskalandi!!!!!!!!!

  Áfram Liverpool, þetta er allt að koma hjá Kloppanum!!!!!!

 24. Gerrard á að hafa talað um það að það hefði þurft að sannfæra Sturridge um að spila.

  Mér þykir það leitt, en það er bara eitt orð yfir þetta, vælukjói.

  Selja hann á meðan kostur er!

 25. Ef það kemur ekki markvörður í Janúar þá kemur hann í sumar. Migs er búið að full reyna, virðist ekkert vera að batna.
  Bara spurning hvort að hann verði Nr2 eða verður seldur. Þetta er bara tímaspursmál núna.

 26. Held að það sé alveg orðið ljóst að Liverpool þarf að fá annan og betri markmann.Þetta er búið að pirra mig lengi hvað Mignolet er hrikalega lengi að koma boltanum í umferð. Og reyndar var ég búinn að spá því að það kæmi að þessu hjá honum. Til hvers að hanga á boltanum eins og hundur á roði? Til hvers??

Byrjunarliðið komið

Swansea á morgun