Sunnudagsmolar

Mikið er knattspyrnan skemmtileg íþrótt. Hér eru nokkrir sunnudagsmolar:

 • Langar ykkur ekki að sjá þetta lið taka United á Anfield eftir tæpa tvo mánuði? Það eru enn nokkur laus pláss í Kop.is hópferðina í janúar. Skellið ykkur með, allar frekari upplýsingar á vef Úrval Útsýnar. Þetta er síðasta vikan áður en lokað verður á skráningar! Nú eða aldrei!
 • 1-3 á Stamford Bridge og 1-4 á Empty-had Stadium. Og Liverpool spilaði báða þessa leiki með Benteke, Sturridge, Ings etc. á bekknum eða utan hóps vegna meiðsla. Stóra spurningin er í raun þessi: er liðið svona gott með falska níu eða er Bobby Firmino svona óvænt góður striker? Eitt mark og tvær stoðsendingar. Frammistaðan hans í gær minnti mig ískyggilega mikið á annan mann sem skoraði einmitt tvö mörk sjálfur í enn stærri leik. Þið vitið hvern ég meina. Allavega, á meðan liðið spilar svona með Bobby Firm í fremstu víglínu léttir það pressunni á Big Ben og Studge (ókei, nóg með uppnefnin) talsvert. Það er bara jákvætt.
 • Brendan Rodgers vann aðeins einn útileik gegn topp 5 og Everton í 23 tilraunum. Jürgen Klopp er núna með tvo sigra og eitt jafntefli í þremur fyrstu útileikjum sínum gegn þessum sex. Hver sem skoðun ykkar á Rodgers var er nokkuð augljóst að við vorum að uppfæra. Þetta er sama lið og var nánast bókað að myndi spila ömurlega á Old Trafford fyrir tveimur mánuðum. Hver er munurinn? Þetta lið trúir núna, trúir á sjálft sig og heldur haus undir pressu.
 • Nú eru þessir sjö skelfilegu útileikir búnir, það sem við óttuðumst að myndi rústa tímabilinu áður en það hæfist. Og hver er afraksturinn? Þrír sigrar, þrjú jafntefli og bara þetta eina ömurlega tap á OT. Það er einfaldlega frábær árangur! Verst að liðið er bara með 8 stig af 18 mögulegum á Anfield yfir sama tímabil. Ímyndið ykkur ef þetta lið færi nú að vinna heimaleikina líka …

Hér eru að lokum nokkur bestu tístin frá því í gær:

Hehe.

Heheheheheheheheheheheheheeh.

Can er 22 ára í janúar og gekk í gengum það sama og Sagna og Mangala hjá City, svona áður en einhver fer að reyna að gera lítið úr þessu með því að segja að Frakkarnir í liði þeirra hafi gefið Liverpool forgjöf. Can var ótrúlegur í gær.

Lithgow! Og að lokum eitt frá sjálfum mér þar sem ég útskýri hvers vegna þetta var ekki óvæntur sigur í gær:

Það er 22. nóvember, þriðjungur mótsins búinn og Leicester City eru í efsta sæti. Nei svona án djóks.

Eigið góðan sunnudag öll sömul!

YNWA

28 Comments

 1. Verður ferðin í janúar lengd? Því það er búið að færa leikinn yfir á sunnudag..

 2. Flottur sigur í gær. Eitt þó til varnar Brendan Rodgers. Sé ekki betur en að þú eigir við Tottenham leikinn hjá Klopp (þ.e. jafnteflið í “tveir sigrar og eitt jafntefli”). Til að gæta alls jafnræðis og sanngirnis væri kannski eðlilegt að hafa sigurleiki BR gegn Spurs (tveir á útivelli) með í talningunni.

 3. Hafþór (#3) – Ferðin lengist ekki; flogið út föstudagsmorgun, heim sunnudagskvöld. Það er skemmtilegur föstudagur í borginni (með Kop.is dagskrá), frjáls laugardagur og svo fer sunnudagurinn í sigurleik á Anfield og flugið heim um kvöldið. Gerist ekki betra.

  Brúsi (#4) – Rétt athugað. Tökum það jafntefli af Klopp í samanburðinum við Rodgers.

 4. Þetta var vissulega frábær sigur í gær. Ég ætla að fá að halda mér á jörðinni eftir þennan leik og álykta sem svo að þessi sigur þýði 3 stig og ekkert meira, alveg eins og ég er ekki að halda að allt sé farið til fjandans þegar liðið tapar.

  Fyrir mér sýnir leikurinn að þetta er lið sem hefur mikla möguleika, og er fært um magnaða hluti. Ekki svosem að maður hafi verið í neinum vafa um það, en þetta er bara enn ein staðfestingin. Sérstaklega virðist liðið hafa hæfileikann til að spila sig í gegnum varnir andstæðinga þar sem einhverja veikleika er að finna.

  Aðal vandamálið hefur hingað til verið að sigrast á liðum sem mæta aftarlega og eru vel skipulögð varnarlega. Þetta höfum við séð aftur og aftur, síðast bara á móti CP. Ég hef hins vegar fulla trú á því að Klopp finni lausnir á því. Það tekur tíma. En það er greinilegt að liðið er með svoleiðis mörgum sinnum meira sjálfstraust en það var bara núna í september.

  Nú verður áhugavert að sjá leikina á móti Bordeaux á Anfield og svo Swansea um næstu helgi. Líklega hjálpar það að vera fyrir ofan Bordeaux í riðlinum og þeir verða helst að vinna, og því minni líkur á að það þurfi að slást við parkeraða rútu. Swansea hefur síðan verið frekar sókndjarft frekar en hitt, en maður veit nákvæmlega ekkert hvernig það mun spilast. Líklegast mun Sturridge spila annan þessara leikja. Svo er ljóst að það er skarð fyrir skildi með Lucas, en vonandi verður Henderson kominn á ról um næstu helgi. Það gæti þó orðið tæpt.

  Bottom line: það er gaman að fylgjast með liðinu núna!

 5. Höfum það alveg á hreinu að það var BRENDAN sem keypti þessa menn sem yfirspiluðu chelsea og city!!! Það var alltaf tímaspursmál hvenær þetta myndi smella!
  DJÓK!

 6. Rosalega mikilvægur sigur á svo marga vegu, sérstaklega eftir síðustu umferð. Sigurinn á Stamford Bridge var svipað hressandi en öfugt við Chelsea er City búið að vera langbesta lið deildarinnar það sem af er móti og því virkar þessi sigur stærri núna. Eins var Liverpool bara mikið sterkara gegn City heldur en gegn Chelsea.

  Liverpool skoraði ekki bara fjögur mörk heldur settu okkar menn tvö mörk inn til viðbótar sem dæmd voru (réttilega) af vegna rangstöðu sem munaði sekúndubrotum að væri innan skekkjumarka. Þar fyrir utan hefði bara Firmino getað skorað 3-4 mörk til viðbótar í þessum leik. City var vissulega án mikilvægra leikmanna en þeir eru á móti með miklu sterkari hóp og helmingi dýrari. Ofan á það vantaði mikilvægari leikmenn í lið Liverpool en vantaði í lið City í þessum leik. Hvort sem við horfum til varnar, miðju eða sóknar.

  Þetta sagði ég um Firmino í upphitun fyrir leik og tek því ekki undir að hann hafi verið óvænt góður sem framherji

  Verði Firmino ekki í byrjunarliðinu í þessum leik er ég endanlega hættur að skilja, hann er búinn að æfa á Melwood í tvær vikur og spila æfingaleik þar sem hann skoraði. Leikur sem var klárlega liður í undirbúningi fyrir þennan leik. Núna hlýtur hann að vera kominn í 100% leikæfingu eftir stopult undirbúningstímabil og meiðsli. Firmino sem spilaði með Hoffenheim færi a.m.k. beint í byrjunarliðið hjá Liverpool og yrði líklega stórstjarna á Englandi rétt eins og hann var af flestum talinn einn besti leikmaðurinn í Þýska boltanum. Aðlögunartíminn fer vonandi að verða búinn hjá honum. Ég tippa á hann í byrjunarliði fram yfir Ibe, Lallana og Can. Raunar væri hann í mínu byrjunarliði fyrir þennan leik þó allir væru heilir.

  Þetta var sá leikmaður sem spilaði hjá Hoffenheim undanfarin ár. Það er ekki annað hægt en að líkja honum við Suarez eftir þennan leik enda frammistaðan í þeim klassa. Hann gjörsamlega slátraði varnarlínu City og stoðsendingin í öðru marki leiksins er vanmetið frábær. Hvort hann hafi sama hungur og getu til að viðhalda þessu er annað mál en það er alveg ljóst að við kepytum heldur betur alvöru leikmann í Firmino, langlíklegastur í liði Liverpool í dag til að verða í heimsklassa. Hann held ég að hafi samt ekki of mikil áhrif á endurkomu Benteke og Sturridge heldur verðri frekar notaður með þeim. Allt sem dregur úr mikilvægi Sturridge er frábært.

  Coutinho var reyndar að spila í sama klassa og Firmino í þessum leik og við höfum séð hann spila svona áður, það hefur bara liðið of langt á milli þessara leikja. Dæmigert að hann meiðist núna þegar hann er að komast í 100% leikform, það er saga þessa tímabils hjá okkar mönnum.

  Lallana fellur síðan smá í skuggann á Brössunum því ef hann væri samlandi þeirra væri líklega verið að tala um hans leik á svipuðum nótum og talað er um Coutinho og Firmino gegn City. Það var rosalega klókt hjá Klopp að hafa svona marga og hreyfanlega miðjumenn gegn City á kostnað sóknarmanns og Pellegrini átti engin svör við frammistöðu Liverpool og missti hausinn smá í viðtali eftir leikinn, þetta er án gríns í fyrsta skipti sem ég hef séð það gerast hjá Pellegrini, Klopp tók hann svo sannarlega illa í gær.

  Það var síðan gjörsamlega frábært að sjá Emre Can í þessum leik, þetta er sá leikmaður sem maður vonar að hann verði hjá Liverpool. Hann var rosalega fyrirferðarmikill á miðjunni og yfirferðin mjög mikil, góður bæði varnarlega og sóknarlega. Þessi hælsending er svo bara bönnuð innan 18 ára. Eins gott að þetta endaði með marki. Krafturinn á miðjunni hjá Liverpool gæti orðið mjög erfiður viðureignar haldi Can áfram á þessum nótum og við fáum Henderson þarna með honum.

  Milner fannst mér vera að spila sinn besta leik fyrir Liverpool og var heldur betur kominn tími á svona frammistöðu, hann er mikið betri en hann hefur sýnt í upphafi þessa tímabils og það sáum við í gær. Lucas fannst mér einnig mjög góður og hann er að vinna eitt vanmetnasta og mikilvægasta starf liðsins. Það er ekki tilviljun að vörnin er farin að virka mikið meira solid sama dag og liðið fór að spila með djúpan varnartengilið. Þetta eru ekki geimvísindi þó Brendan Rodgers hafi aldrei keypt þessi rök (sjáið hvað Arsenal gekk vel þegar þeirra DM meiddist í gær). Engu að síður vona ég Klopp uppfæri þessa stöðu flótlega þó ég haldi töluvert upp á Lucas. Hann er bara ekki með sama kraft og þeir allra bestu í þessu hlutverki og það kostaði m.a. mark í þessum leik. Hann var búinn að ná sér í skyldu gula spjaldið í þessum leik og þorði ekki að brjóta er City skoraði.

  Tek í raun 100% undir þetta.

  Þessi sigur gefur bæði stuðningsmönnum og leikmönnum alvöru trú á framhaldið og leikjaprógrammið á pappír er þannig að nú er gríðarlegt tækifæri til að bæta stigasöfnunina og saxa forskotið á liðin fyrir ofan. Það er glatað að vera í 9 sæti og næstu sex leikir segja okkur allt um hvað þetta lið ætlar að gera í vetur.

  Það eru mikilvægir leikmenn að koma til baka eftir löng meiðsli, það er ekki leikur gegn þessum venjulegu topp 6 liðum fyrr en um miðjan janúar og við erum að sjá þá sem kepytir voru sl. ár bæta sig undanfarið sem eru merki þess að þessi hópur er að slípast saman.

 7. 15 stig af 27 mögulegum hjá Klopp, en 17 af 33 mögulegum hjá Rogers á þessu tímabili, þetta er merkilegt í ljósi þess að nýjum framkvæmdastjóra fylgja nyjar áherslur, og breytingarnar eru töluverðar, þannig að ná þessu hlutfalli með lið sem hann átti engan þátt í að byggja og þarf að taka upp nyjar áherslur er gefur manni tilefni til að verða bjartsýnn.

 8. Hefur eitthvad lid gert það gott i deildinni og europa league a sama tima?

 9. Sælir félagar

  Þó við verðum að varast að ofmetnast eftir leikinn góða þá er samt full ástæða til bjartsýni. Framfarir liðsins eru ótrúlegar. Það skrifast alfarið á Klopp.

  Leikur liðsins er allur annar og hver maður er að spila í sinni bestu stöðu svo fremi að meiðsl og/eða leikbönn neyði ekki til annars. Einnig er ljóst að sjálfstraust leikmanna og leikgleði ásamt trú á verkefninu er með allt öðrum hætti en áður.

  Sú staða sem liðið er í í dag er því sú að leikmenn geta sagt hverjir við aðra að ekkert verkefni sé þeim ofviða. Að enginn andstæðingur sé það góður að þeir geti ekki unnið hann. Þetta er afar breytt ástand frá því fyrr í haust þegar maður hafði beinlínis áhyggjur af hverjum einasta leik.

  Það er nú þannig

  YNWA

 10. Ég er enn í sigurvímu enda var þetta sennilega einn stærsti sigur hjá okkar ástkæra liði í ansi langan tíma.

  Tek undir hins vegar með Daníel hér að framan að við verðum að halda okkur niðri á jörðinni því þegar allt kemur til alls eru þetta bara 3 stig. Klopp á enn eftir að sýna okkur að við getum brotið lið þegar þau parkera rútunni í teignum sínum á móti okkur.

  Leikmenn eins og Can og Lallana voru frábærir á móti City en hafa heilt yfir ekki átt neitt sérstakt tímabil. Vonandi var þessi leikur í gær byrjunin á því sem koma skal frá þessum leikmönnum.

  Verður fróðlegt að fylgjast með framhaldinu. Evróupuleikur á fimmtudaginn. Hann hlýtur að hvíla a.m.k. 5 – 6 leikmenn, enda gríðarlegur mikilvægur leikur heima á móti Swansea. Ef allt er eðlilegt eigum við að klára þetta franska lið þó við hvílum nokkra lykilmenn.

  Bíð spenntur eftir næsta leik. Vissulega spennandi tímar framundan og erfitt að vera með báðar fætur á jörðinni eftir svona fótboltaveislu.

 11. Finnst eins og við höfum fengið heimsklassa vinstri bakvörð í Moreno eftir að Klopp tók við. Það er bara aftur orðið gaman að horfa á þetta lið og greinilega að innblástur Klopps er mjög ferskur fyrir félagið.

 12. Nr. 15

  Merkilegt hvað þetta gerist líka á nákvæmlega sama tíma og það kemur einhver vottur af holningu á miðjuna hvað varnarleik varðar.

  Varðandi Europa League þá sáum við vel í þessari umferð hvað þeir voru ferskir sem ekki voru að ferðast með sínum landsliðum núna um helgina. Vonandi spila eins fáir á fimmtudaginn og mögulegt er af því byrjunarliði sem lagt verður upp með á sunndaginn. Sérstaklega þar sem það meiðist a.m.k. einn í hverjum leik hjá Liverpool þetta árið.

 13. heil og sæl, smá puntkar um allt og ekkert.

  Ég skal bara viðurkenna það að ég var orðlaus þegar ég horfði á leikinn. Þetta var í raun ein af betri frammistöðum sem ég hef séð hjá lfc og alveg á pari við nokkra af stórsigrum þarsíðasta tímabils. Það sem stóð upp úr er að hér vorum við á útivelli á móti besta liði deildarinnar.

  Mikið afskaplega er ég ánægður að sjá Firmino spila svona framarlega, hvort sem það er sem striker eða bakvið hann. Hann heillaði mig ekki á köntunum þ.e. það litla sem ég hef séð hann spila þar sem leikmaður lfc. Frammistaðan í gær gefur manni von um að hér sé komin ákveðin lausn/leikaðferð sem dregur úr vægi Sturridge og/eða valkostur sem ástæða er til að óttast. Með langtímameiðsli Ings og Sturridge ásamt því að Origi er ansi óslípaður þá var maður farinn að óttast að Benteke yrði ansi takmörkuð lausn fyrir lið sem er að spila í 4 keppnum.

  Ég ber gríðarlega mikla virðingu fyrir Lucas, hann hefur í gegnum tíðina mátt þola endalausa gagnrýni, suma sem hefur rétt á sér en aðra ósanngjarna. Það er hinsvegar leitin að öðrum eins fagmanni hvað “prófessjonalisma” varðar og hefur hann ávalt verið til taks og mér hefur fundist hann leikmaður sem hefur náð sér vel á strik í “stóru” leikjunum og er klárlega þörf á slíkum mönnum hjá lfc. Hann er besti varnartengiliður klúbbsins án vafa en eins og Einar Matthías kom inn á þá er hann ekki heimsklassa og til að liðið komist nær þeim bestu þá mun það þurfa betri leikmann í þessa stöðu ásamt nýjum markmanni, ég myndi alla vegna vilja sjá þannig styrkingu áður en það væri farið að kaupa enn einn nýjan miðvörð. Ég vona samt að lucas verði áfram hjá klúbbnum enda er hann ekki gamall og getur nýst á margan hátt sem liðsmaður.

  YNWA
  al

  Mér finnst ansi líklegt að Allen kallinn fái ekki mikinn spilatíma í vetur og kæmi mér hreinlega ekki á óvart ef hann færi í jan, hann virðist vera á eftir milner, henderson, can, lucas og í raun kannski að berjast um spilatíma við jordan rossiter. Hann fær væntanlega bikarkeppnir og evrópudeildina til þess að gefa Klopp ástæðu til þess að færa sig ofar í goggunarröðina. Miðað við hvað hann hefur sýnt undanfarin þrjú ár þá á ég ekki von á að slíkt muni duga til sannfæringar. En vonandi nær hann líkt og margir aðrir að nýta sér þessa auknu orku sem fylgir stjóranum og færa leik sinn upp á hærra plan.

 14. Ágúst (#15) segir:

  “Finnst eins og við höfum fengið heimsklassa vinstri bakvörð í Moreno eftir að Klopp tók við. Það er bara aftur orðið gaman að horfa á þetta lið og greinilega að innblástur Klopps er mjög ferskur fyrir félagið.”

  Það er ekki nógu mikið talað um frammistöðu Moreno á laugardaginn. Clyne gerði okkur greiða og hélt Sterling niðri allan leikinn en Moreno slátraði Jesus Navas svo illa að hann var tekinn út af í hálfleik. Albi litli er alltaf hættulegur fram á við en eins og Einar Matthías (#16) bendir á er allt annað að sjá varnarframlag hans síðan Klopp setti fastan varnartengilið í liðið. Það er engu líkara en að bæði Moreno og Lovren séu rólegri og yfirvegaðri þegar þeir vita að það er maður á miðjunni sem kóverar fyrir þá ef þeir fara út úr stöðu. Ótrúlegt en satt!

 15. #20 – Hahaha, of gott 🙂

  Hvað varðar leikinn um helgina, þá fyrir utan þá augljósu þá eiga bara allir hrós skilið fyrir þennan leik. Eina alvöru feilsporið sem var stigið var sending Milner til baka á Mignolet sem lukkulega endaði ekki með marki sökum góðrar varnarvinnu strax í kjölfarið. Og meira að segja ef Mignolet hefði ekki náð til boltans á var Lovren beint fyrir aftan hann og hefði náð honum.

  Þeir sem menn sem ekki hafa mikið verið nefndir i umræðunni um þennan leik:

  Skrtel: Var eins og herforingi í vörninni og hélt Aguero niðri nánast allan tíman sem hann var á vellinum. Auk þess náttúrulega að halda upp á 6 ára afmæli fyrsta marksins síns fyrir Liverpool sem kom á móti City með því að skora á móti þeim með þessum líka ágæta þrumara.

  Lovren: Steig ekki feilspor og er farinn að líkjast meira þeim varnarmanni sem við keyptum. Hvort sem það er Lucas að þakka eða ekki er gott að þurfa ekki að vera stressaður allan leikinn þó hann sé í liðinu.

  Ibe: Þó hann hafi ekki spilað mjög margar mínútur þá stóð hann sig með príði bæði sóknarlega og varnarlega. Lagði upp dauðafærið fyrir Benteke t.d.

  Ég er sammála öðrum sem hafa nefnt að maður þurfi að halda sig á jörðinni og er það alveg rétt. En maður má ekki gleyma því að gleðjast innilega þegar vel gengur og hvað þá á móti liði eins og City. #SterlingWHO?

  Nú er það bara að halda áfram sama striki fram að áramótum til að byrja með og fagna svo nýju ári með enn betri frammistöðum. Ég er viss um að ef einhver getur fundið leið til að sigra “litlu” liðin sem hanga til baka þá er það Klopp!

 16. Snilldarleikur á flestan hátt. Ótrúlega gaman að upplifa svona ástríðu, taktíska snilld og að sjá bestu hliðar þessara leikmanna okkar. Hins vegar full ástæða til að halda sér á jörðinni. Höfum bara fengið 8 stig á heimavelli og eins vel og taktík Klopp hentar á útivelli á móti betri liðum eigum við ennþá í stökustu vandræðum með að brjóta minni lið á bak aftur heima á Anfield. Oft vantar bara eitthvað uppbrot í þessa leiki – skora fyrsta markið, ná liðunum út úr skotgröfunum.

  Þar held ég að við söknum Gerrard meira en við gerum okkur grein fyrir. Hversu oft náðum við ekki að brjóta ísinn eftir hættulega horn- eða aukaspyrnu frá honum á móti liðum sem lágu djúpt?

  Í því sambandi velti ég fyrir mér hvort Liverpool ætti ekki að reyna að kaupa einhvern spyrnusérfræðing í janúarglugganum, segi ekki að það þyrfti að vera Gylfi Sig (sem þó gæti hafa lækkað eitthvað í verði eftir dauft haust) en einhvern sem fittar í þann prófíl – frábærar spyrnur, mikil vinnusemi, góð ákvarðanataka og mikill taktískur skilningur.

  Hvað haldið þið um það og hverjir myndu fitta inn í þann prófíl?

 17. Ein lítil spurning ótengd Liverpool, ætlið þið alfarið að hætta með Like hnappinn? Ég sakna hans og rauðu commentana 🙁

 18. Ef við vinnum Júnæted með stæl í Janúar þá hugsa ég að ég verði bara eftir í Liverpool. Djöfull er manni farið að hlakka til þegar við erum að spila svona á móti City og Chelsea úti!

 19. “Beating City like that will give us a lot of confidence but we need to play like that consistently.

  Þetta komment kemur frá Skrtel og er eiginlega það sem ég hef beðið eftir að komi frá leikmönnum og stjóra eftir þennan sigur. Þetta eru allt góðar og skynsamlegar greiningar hér að ofan, bæði í pistli og kommentum. Liðið er allt annað að sjá en við höfum samt ekki séð neinn stöðugleika í leik liðsins. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Klopp dílar við næstu tvo leiki. Ég hef grun um að hann spili á sterku liði í tveimur næstu leikjum þótt eflaust einhverjir fái pásu.

  Varðandi Lucas þá er hann algjörlega ómissandi og hefur verið lengi. Líklega dýrustu mistökin sem Brendan Rodgers gerði var að halda honum utan við liðið. Hann vildi hafa ómennska miðjumenn sem gátu sótt og varist á fullu gasi í 90 mínútur en þeir miðjumenn eru einfaldlega fátíðir í nútíma fótbolta. Ég held það sé ekkert fyrsta verk að kaupa djúpan miðjumann af því að hann er ekki nógu góður. Hann er alveg rúmlega nógu góður í liðið eins og er en þegar liðið verður orðið nógu gott til að berjast um titil má alveg fara að huga að þessari stöðu. Núna er það markvarslan og breiddin í bakvarðastöðunum sem er áhyggjuefnið.

Man City 1-4 Liverpool

Erfiðasta afstaðið?