Southampton á morgun

Það er komið að tíundu umferð Úrvalsdeildarinnar og í þetta sinn koma Southampton-menn í heimsókn á Anfield á morgun, sunnudag og freista þess að neita Jürgen Klopp um sinn fyrsta sigur sem stjóri Liverpool. Bæði lið sitja um miðja deild með 13 stig eftir níu leiki, Dýrlingarnir með eru með betri markatölu og sitja því ofar.

Reyndar ber svo við að öll liðin fyrir ofan Liverpool, utan Tottenham, mætast innbyrðis um helgina og því er séns á að stökkva upp um þó nokkur sæti fyrir það lið sem getur innbyrt sigur á Anfield á morgun. Línur munu skýrast, eins og klisjan orðar það. Eða þá að allir gera jafntefli og ekkert breytist.

Kíkjum á mótherjana.

Southampton

Suðurstrandarliðið er endanlega búið að bíta af sér einhvern nýliðabrag eða spútnikstimpil. Það gerðu þeir með hvelli á síðustu leiktíð þar sem hver spekingurinn á fætur öðrum spáði ótímabærum dauða liðsins, til þess eins að fá spána blauta í andlitið þegar liðið náði sínum besta árangri í efstu deild í fleiri áratugi. Liðið var rótgróið efstudeildarlið lengi áður en fall og svo gjaldþrot hótuðu tilveru félagsins og dýfan náði alla leið niður í þriðju efstu deild. Þeir klóruðu sig þó á endanum upp og vorið 2012 tryggði félagið undir stjórn Nigel Adkins sér á ný þátttökurétt meðal þeirra bestu (og Sam Allardyce).

Síðan þá hefur uppgangur liðsins haldið áfram og varla hægt að segja að liðið hafi litið á sig sem einhvern falldraug síðan liðið snéri aftur í Úrvalsdeildina. Vorið 2013 náði liðið 14. sæti með 41 stig, þægilega fyrir ofan fallið og búið að skipta Adkins út fyrir Mauricio Pochettino. Árið á eftir náði liðið 8. sæti með 56 stig. Þessi velgengni kostaði þá stjórann Pochettino og haug af góðum leikmönnum sumarið 2014 sem varð eins og áður sagði til þess að menn vorkenndu þeim ógurlega. Það gleymdist þó alveg að þeir fengu fleiri tugi milljóna punda fyrir þessa leikmenn (aðallega frá Liverpool) og að það eru fleiri en einn góður stjóri þarna úti. Í stað Pochettino mætti Ronald nokkur Koeman á svæðið og hló að hrakspánum, notaði nokkuð sem nefnist útsendarar til að finna leikmenn eins og Dušan Tadi?, Sadio Mané og Graziano Pellé og niðurstaðan varð enn betra gengi, 7. sætið og 60 stig.

Þetta tímabil hafa þeir svo byrjað nokkurn veginn á pari við síðustu tvö; 13 stig í 9 leikjum gera 1,45 stig í leik sem myndu skila 55 stigum yfir tímabilið. Þeir hafa tapað tveimur leikjum, heima gegn Man Utd og Everton en eru hins vegar ósigraðir á útivelli, hafa unnið þar einn leik (gegn Chelsea, hvorki meira né minna) og náð þremur jafnteflum. Liðið hefur haldið hreinu laki í 3 leikjum af 9 og vann þrjá leiki í röð þar til Leicester náðu jafntefli á St Mary’s um síðustu helgi.

Þetta Southampton-lið er sem sé sterkt og fullt af góðum leikmönnum, leitt af hörkustjóra sem kallar ekki allt ömmu sína og hefur þann einstaka kost að vera sá maður í heiminum sem fer mest í taugarnar á núverandi stjóra Man Utd.

Nú, Liverpool og Southampton hafa mæst sex sinnum síðan þeir síðarnefndu komu aftur upp. Liverpool hafa unnið 4 leiki, Southampton 2 og ekkert jafntefli enn komið milli þessara liða. Á Anfield unnu okkar menn 1-0 sigur í desember 2012 þar sem Daniel Agger skoraði markið áður en Dýrlingarnir hefndu með 1-0 sigri á sama stað í september árið eftir. Í fyrra höfðu okkar menn 2-1 sigur í opnunarleik tímabilsins þökk sé poti Daniel Sturridge undir lokin.

Það má sennilega færa sigur Southampton á Anfield fyrir tveimur árum til bókar sem einn rándýrasta leik í sögu Úrvalsdeildarinnar. Þar voru í byrjunarliði Southampton þeir Nathaniel Clyne, Dejan Lovren sem skoraði sigurmarkið, Adam Lallana sem lagði upp og Rickie Lambert var fremstur. Auðvitað skoða menn fleiri leiki áður en ákveðið er að kaupa leikmann en þessi sigur Dýrlinganna lagði grunninn að hrifningu Brendan Rodgers sem fékk alla fjóra til sín næstu tvö sumrin fyrir hátt í sjötíu milljónir punda. Þrír af þessum leikmönnum eru enn hjá Liverpool og gætu komið við sögu á morgun.

Liverpool

Talandi um okkar menn þá er það helst að frétta að Sturridge er enn tæpur en Klopp sagði í gær að það væri enn vökvi á hnénu hans svo að það yrði að sjá til um helgina. Þekkjandi sögu Sturridge þýðir vökvi á hné á föstudegi nánast pottþétt að hann reimar ekki á sig takkaskó á sunnudegi, því miður. Það er gífurlega svekkjandi að vera með svona demant á launaskránni og fá nánast aldrei að nota hann, en svona er lífið.

Liðið hefur gert jafntefli í fyrstu tveimur leikjunum undir stjórn Klopp og alls 7 (!!) jafntefli í síðustu 8 leikjum, sá áttundi var reyndar sigurleikur svo að liðið er taplaust síðan 12. september. Þetta eru samt allt of mörg jafntefli og þau stafa af tvennu; vörnin er of brothætt og gefur ennþá ódýr mörk og þetta lið bara getur ekki skorað nema eitt í leik.

Byrjum á vörninni. Fyrrnefndur Lovren er að verða heill og Klopp hrósaði Mamadou Sakho í hástert í gær. Það leiðir mig að augljósri spurningu: af hverju ætti Martin Skrtel að vera heilagur í þessu liði? Hann er kominn yfir þrítugt, hefur aldrei verið hluti af virkilega sterkri og traustri vörn (yfirleitt voru það Hyypiä, Carragher eða Agger sem spiluðu frekar á bestu köflunum) og hann var enn og aftur úti að aka gegn Tottenham í síðasta leik, hvar Simon Mignolet bjargaði beikoninu hans oftar en einu sinni. Svo gerði hann sóknarmann Rubin Kazan réttstæðan á fimmtudaginn var. Síðast og alls ekki síst, þá set ég stórt spurningarmerki við að rúmlega þrítugur miðvörður sem er landsliðsfyrirliði Slóvaka og hefur verið á Anfield í átta ár skuli ekki einu sinni hafa komið til greina sem fyrirliði eða varafyrirliði í sumar.

Niðurstaða: það kæmi mér ekkert á óvart ef Klopp prófar Lovren hægra megin við hlið Sakho í næstu leikjum, á kostnað Skrtel. Ef/þegar það gerist ætla ég ekki að mótmæla, og ef Lovren er ennþá Lovren myndi ég setja nýjan, réttfættan miðvörð við hlið Sakho ansi ofarlega í goggunarröðina í næsta leikmannaglugga.

Hitt vandamálið er svo markaskorunin. Það er auðvelt að benda á vandamálið með Sturridge símeiddann og tvo dýrustu sóknarmenn sumarsins meidda en liðið hefur verið að ströggla með þá alla heila síðasta hálfa árið líka svo það eitt og sér útskýrir ekki allt. Það hafa verið klár batamerki á sóknarspilinu síðan Klopp tók við en betur má ef duga skal. Klopp talaði sjálfur um að liðið þyrfti að læra betur á það hvenær er rétt að senda og hvenær rétt að skjóta (hóstCoutinhohóst) en að mínu mati er annað vandamál jafnslæmt skotvali og það er fjöldi snertinga á miðjunni. Í hröðu uppspili Klopp er æpandi áberandi hvað miðjumenn okkar þurfa að klappa boltanum oft áður en þeir senda hann áfram.

Ég horfði á Tottenham-leikinn um síðustu helgi, svo sá ég Arsenal spila hraðar sóknir á eins góðan hátt og hægt er að gera það gegn Bayern í Meistaradeildinni á þriðjudag. Svo horfði ég aftur á Liverpool reyna að sækja hratt á fimmtudag og munurinn var alger; Arsenal-liðið á þriðjudag breytti vörn í sókn og færði boltann oft 40-60 metra upp völlinn í svona 4-5 snertingum alls. FC Bayern er eitt besta félagslið heims og varnarmenn þeirra fengu á tíðum hjartaáfall þegar Özil, Sanchez og Walcott komu í fluggírnum á þá. Þetta minnti mig ógurlega mikið á Suarez, Sturridge og Sterling vorið 2014.

Síðan horfir maður á Liverpool-lið Klopp sem er að reyna sama hlutinn, breyta vörn hratt í sókn svo andstæðingurinn nái ekki að stilla upp í varnarmúrinn, og það líður næstum því yfir mig af pirringi að sjá alla leikmenn þurfa að klappa boltanum 3-4 sinnum og horfa í kringum sig áður en næsti maður fær sendingu.

Lucas, Allen, Can, Milner, Coutinho, Lallana, Origi. Þeir hafa allir verið að gera þetta. Það var í raun hressandi að sjá góða innkomu Roberto Firmino á fimmtudag því hann var ekki eins mikið að þessu, enda skapaði hann strax usla og opnaði fyrir samherja sína.

Maður vonaðist eftir að nýr stjóri af þeirri gráðu sem Klopp er myndi lyfta öllu félaginu og liðið myndi bregðast við með því að vinna strax nokkra leiki en það fór ekki svo og það undirstrikar bara starfið sem bíður Klopp. Hann þarf að fá þetta lið til að sækja hraðar, hætta að klappa boltanum, hlaupa skynsamlegar til að ná að opna vörn andstæðinganna og meta svo betur hvenær er rétt að skjóta og hvenær ekki. Þetta mun ekkert allt komast í lag fyrir leikinn á morgun, höfum það á hreinu.

Hvað leikmannaval varðar langar mig til að sjá hann skoða aðeins breytingar núna eftir að hafa notað nánast sama liðið í fyrstu tveimur leikjunum. Ég vona að Benteke og Firmino séu báðir klárir í slaginn og myndi vilja sjá þá koma inn fyrir Origi, sem hefur unnið vel og staðið sig vel en er hrár og skapar ekki næga hættu einn frammi, og ég hugsa að ég myndi vilja sjá annað hvort Milner eða Lucas/Allen víkja líka. Að mínu mati má Milner alveg fá spark í rassinn og setjast á bekkinn á morgun enda langversti boltaklapparinn af þeim öllum en vegna þrotlausrar vinnusemi drengsins er líklegra að Allen/Lucas víki fyrir Firmino.

Þá myndi ég eins og fyrr segir ekkert gráta það ef Lovren fengi séns í bílastæðinu sem hefur hingað til verið merkt Skrtel.

Mitt lið:

Mignolet

Clyne – Lovren – Sakho – Moreno

Milner – Can

Firmino – Lallana – Coutinho
Benteke

Þetta lið á að geta skorað einhver mörk, fjandinn hafi það.

Mín spá

Ég hnaut sérstaklega um eitt í tölfræðivinnslunni fyrir upphitun: þessi lið hafa mæst sex sinnum í Úrvalsdeildinni síðan Southampton komu upp en ekki enn gert jafntefli. Southampton hefur hins vegar gert þrjú jafntefli í fjórum útileikjum á tímabilinu og okkar menn hafa gert sjö helvítis jafntefli í síðustu átta leikjum sem er alveg fáránlegt.

Það liggur því beint við að spá jafntefli á morgun, er það ekki?

Auðvitað ekki. Klopp er að rífa þetta lið upp afá rassgatinu, það bara tók aðeins lengri tíma en við vonuðum en nú er komið að því, nú bresta flóðgáttirnar. Liverpool vinnur þetta 4-1 og Benteke smellir í þrennu. Koma svo!

YNWA

24 Comments

  1. Hér sé ég að ég hef sennilega alltaf notað þetta orðtak vitlaust. Þ.e.a.s. að rífa upp af rassgatinu, ég hef hingað til haldið að hér ætti maður að segja að “rífa upp á rassgatinu” en það meikar kannski ekki beinlínis sens.

    Google finnur 1450 sem rifu sig upp AF rassgatinu en 4400 sem rifu sig upp Á rassgatinu. Ætla hér með í fyrsta sinn að taka ekki mark á google heldur nota kop.is sem minn íslenskumeistara.

    Ríf ég mig hér með upp af rassgatinu og sé fram á tveggja marka sigur á morgun.

    KOMA SVO!!

  2. Úbbs sé núna eftir örlítið meira gúggl að hið rétta er að rífa upp Á rassgatinu, það segir í það minnsta stofnun Árna Magnússonar og á hana verður maður víst að hlusta.

    Afsaka þetta “þráðrán”

    YNWA

  3. Ég hef trú á liðinu og stjóranum. Það tekur tíma að slípa þetta saman og vona að við sjáum framfarir leik eftir leik.
    Pressukerfið virkar spennandi en liðið er enþá í vandræðum þegar þeir sjálfir byggja upp sókn og eru ekki að vinna hann framarlega útaf góðri pressu. Þarna verða skapandi leikmenn eins og Coutinho/Lallana/Firminho að reyna að búa eitthvað til handa liðsfélögunum eða sjálfum sér.
    Þetta er mjög mikilvægur leikur á morgun þar sem við getum náð 5 stiga forskoti á Chelsea sem gefur okkur von á 4.sætinu í ár. Það er nokkuð ljóst að Man City, Arsenal og Man utd taka efstu 3.sætin en Chelsea virkar eins og hauslaus her og er það Klopp og hans mönnum að nýta það tækifæri og ná 5.stiga forskoti og svo er auðvita næsti deildarleikur útileikur gegn Chelsea(sem hægt væri að nota til þess að ná enþá stæra forskoti).

    Ég spái 1-0 sigri og verður það Lallana sem skorar markið í fyrihálfleik.

  4. Ég væri til í að sjá Lucas Can og Coutinho sem miðjumenn. Lallana og Firminho þar fyrir framan með Benteke á toppnum.

  5. þess ma svo geta að Kristján Atli var i hringborðinu a fotbolta.net i morgun.

    manni liður avalt vel að heyra i Kristjani tala um Liverpool. serstaklega þegar liður halfur man a milli podcasta 🙂

  6. Glæsileg upphitun ! þvílíkur skyldusigur framundan núna ætla ég að setja svartsýnið til hliðar og spá þessu 3-0 fyrir lfc Firmino með þrennu Takk.

  7. Gott að líta liðið jákvæðum augum eftir allt sem gengið hefur á i vetur. Meiðsli lykilmanna hafa sett verulegan strik í reikninginn og tafið verulega fyrir framförum liðsins auk alls umstangsins kringum BR. Liðið er því nánst á núllpunkti og liggja því allar leiðir héðan í frá upp á við.

  8. Liðið komið fyrir morgundaginn. Milner, Origi og Allen teknir út fyrir Benteke, Firmino og Lucas og minn maður Sakho gerður að el capitan. Djöfull er ég að fýla hversu óhræddur Klopp er að gera stórar breytingar eins og að taka Milner út úr liðinu og gera Sakho að fyrirliða.

    Damian
    ?@DamianLFCpl
    Mignolet – Clyne, Škrtel, Sakho (c), Moreno – Emre Can, Lucas – Firmino, Lallana, Coutinho – Benteke #Southampton

  9. sett helst athugasemd við að setja firmino á hægri kantinn hann er alls ekki hægri kantari og byrjar vonandi ekki þar. Síðan væri ég mjög hissa ef Lovren byrjar í miðverði hægri meginn við hliðana á Sakho þrátt fyrir að vera réttfættur þá spilar hann alltaf vinstra meginn í miðverðinum. Sem dæmi þá eru Terry og Vidic eru báðir réttfættir en spila alltaf vinstra meginn

  10. Sakho – ma man!

    Megi hann spila sem lengst og best fyrir Liverpool!

  11. Djöfull fer það í taugarnar á mér þegar menn eru að leka þessum liðum út. Það gerir liðinu nákvæmlega ekkert gagn! Ef að þessi leki reynist réttur þarf að fara að hækka veggina í kringum Melwood og taka einhverja Norður-Kóreu aðferð á þetta og auka eftirlit, sem yrði náttúrulega grátlegt. Þessi twitter gæi er líka Liverpool stuðningsmaður. Hvers vegna er hann þá að láta alla í heiminum vita hvert byrjunarliðið verður?

    Vonandi hefur hann þó rangt fyrir sér og er staddur á villigötum.

  12. Ok, látum vera þó að liðið leki ef einhver er að kíkja yfir vegginn. En að viðkomandi viti hver eigi að vera fyrirliði, hvernig stendur á því?

  13. skiptir litlu máli eg get líka nefnt ykkur þá 11 sem byrja a mrg hja southampton.. svona er bara heimurinn i dag það er engum treystandi og allir blaðra og kjafta frá öllu

  14. Flott upphitun en Milner verður því miður að sætta sig við 2. sætið í boltaklappskeppninni því þar trónir Lallana efstur með langt í næsta mann. En þetta er virkilega mikilvægur punktur í því að hraða spilinu eins og þú bendir á. Svo þegar maður horfði á Arsenal í vikunni, púff!

  15. Sælir félagar

    Þessi leikur lagðist fremur illa í mig en ef þessar breytingar hjá Klopp eru staðreynd þá fer þetta heldur betur að líta uppá landið. Spái að okkar menn vinni með einu marki. Það er að segja 1 -0, 2 – 1 eða 3 – 2. Helst hallast ég að miðtölunni sem er líklegust þó liðið hafi ekki skorað nema eitt mark í síðustu 2000 leikjum eða eitthvað.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  16. Það er himinn og haf á milli spilamennsku liðsins síðan Klopp tók við, þrátt fyrir jafnteflin. Þó er hann bara búinn að ná að leggja smávegis handbragð sitt á liðið enda maðurinn nýlentur í Bítlaborginni.

    Það er ekki spurning að við vinnum þennan leik, 3-1.

  17. Stuðningsmenn Dortmund nýbúnir að syngja You never walk alone fyrir leik þeirra í þýsku knattspyrnunni.

  18. Erum við þá að tala um svona uppstillingu ef satt reynist með byrjunarliðið.

    ————Benteke
    —-Firmino——-Lallana
    ———–Coutinho
    ——- Can——Lucas

    Þetta lið ætti vel að geta skorað einhver mörk.

  19. Sýnist hvorki Firmino né Benteke byrja, Sturridge ekki klár. Allen út fyrir Lucas.
    Vonum það besta þó gæðaleikmenn vanti.

CSS aðstoð

Liðið gegn Southampton