Arsenal – Liverpool 0-0

Okkar menn heimsóttu Arsenal á Emirates í kvöld í hörkuleik þar sem að liðin skyldu jöfn, 0-0. Þessi leikur hefði vel getað farið 3-3, kaflaskiptur og skemmtilegur leikur.

Liðið hjá Rodgers var svona í kvöld:

Mignolet

Clyne – Skrtel – Lovren – Gomez

Milner – Lucas – Can

Firmino – Benteke – Coutinho

Bekkur: Bogdan, Sakho, Moreno, Rossiter, Ibe, Ings, Origi.

Henderson og Lallana voru frá vegna meiðsla og Ibe settist á bekkinn. Inn komu Firmino, sem byrjaði sinn fyrsta deildarleik fyrir liðið, Lucas, sem fór úr því að vera utan hóps í fyrstu tveimur leikjunum í að byrja á Emirates, og Can. Liðið því að spila afbrigði af 4-3-3. Milner var fyrirliði í fjarveru Henderson.

Rodgers sagði í viðtali fyrir leik að Lucas væri besti afturliggjandi miðjumaður liðsins. Svolítið sérstakt að vera ekki í hóp fyrstu tvo leikina, svo er breiddin þannig að Henderson meiðist (Allen alltaf meiddur, tekur því ekki að taka það fram) þá er Lucas nánast orðinn fyrsti maður á blað í svona leik. Sakho kom einnig aftur inn í hóp og tók sér sæti á bekknum.

Það vantaði menn í öftustu línu Arsenal, en Mertesacker og Koscielny voru frá vegna meiðsla.

Fyrri hálfleikur

Leikurinn byrjaði heldur betur fjörlega. Benteke fékk boltann upp hægra megin, sendi boltann út á Coutinho sem átti skot í innanverða slánna, Cech stóð frosinn. Virkilega óheppinn.

Eftir þetta náðu Arsenal menn völdum á vellinum næsta korterið eða svo og Liverpool oftar en ekki með tvær 4 manna línur nánast inn í teig. Á 8 mínútu sendi Cazorla frábæran bolta bakvið Clyne á Ramsey sem skoraði á nærstönginni hjá Mignolet, en var ranglega dæmdur rangstæður. Sluppum með skrekkinn þarna.

Okkar menn tóku svo öll völd á vellinum síðustu 25 mínúturnar eða svo og hefðu vel getað verið búnir að gera út um leikinn í fyrri hálfleik. Virkilega sprækir fram á við en vantaði alltaf herslumuninn á því að sleppa inn fyrir flata vörn Arsenal. Það var svo á 38 mínútu sem að við unnum boltann ofarlega á vellinum, Coutinho stakk honum inn á Firmino vinstra megin sem sendi fastan bolta inn á markteig í fyrstu snertingu. Á ferðinni kom Benteke, skaut en Cech sýndi vörslu ársins (þá fyrri af tveimur í hálfleiknum). Auðvelt að segja að Benteke hafi átt að skora þarna, sem hann átti að gera, en hann skaut samt ekki í Cech, hann skaut í hornið, þetta var bara FRÁBÆR varsla.

Fimm mínútum síðar sendi Clyne boltann á Benteke sem flikkaði honum upp í hornið vinstra megin á Coutinho. Brassinn lét Bellerín taka hókí pókí þarna, er eflaust enn ringlaður. Lagði boltann á hægri fótinn þegar Bellerín var enn að hlaupa að hornfánanum, átti frábært skot sem Cech náði að setja löngutöng í sem gerði það að verkum að boltinn fór stöngin út í stað þess stöngin inn. Frábær varsla og hrikalega svekkjandi að fara ekki inn í hálfleikinn með 2-3 marka forystu.

Síðari hálfleikur

Síðari hálfleikur var talsvert frábrugðinn þeim fyrri. Mér fannst okkar menn alveg búnir á því. Þá sérstaklega Lucas og Milner. Innkoma Ibe var svo með þeim slakari sem ég man eftir og við vorum nánast manni færri eftir að hann kom inn á 60 mínútu í stað Firmino. Leikmenn Arsenal sköpuðu samt sem áður ekki mikið fyrr en fór að líða á síðari hálfleik. Á 69 mínútu kom líklega þeirra besta færi þegar Özil flikkaði boltanum á Giroud sem lét Mignolet verja frá sér, nánast á markteig. Frábær varsla.

Sanchez átti gott færi stuttu síðar en skaut í utanverða stöngina.

Tempóið var virkilega hátt og maður var eiginlega ekki að trúa því að þetta yrði markalaust. Það verður þó að segjast að Arsenal voru mun líklegri í síðari hálfleik, við áttum þó alveg okkar sóknir en ekki jafn góð færi og í þeim fyrri.

Fjórum mínútum var bætt við. Moreno komst inn í sendingu á 92 mínútu og brunaði upp völlinn. Hann hefði líklega átt að senda boltann til hægri á Ibe þegar þeir voru þrír á þrjá, en hljóp sig í vandræði og Arsenal menn unnu boltann. Ox átti skot fyrir utan teig sem að Mignolet varði. Úr horninu skallaði svo Gabriel yfir og þar við sat. Úrslitin 0-0 í líklega besta leik Liverpool í marga marga mánuði.

Maður leiksins og pælingar

Þetta er ekki sama lið og við sáum í fyrra. Það er himinn og haf á milli bæði sóknar- og varnarleik liðsins samanborið við spilamennskuna á síðasta tímabili. Ákveðnin, skipulag, baráttan o.s.frv.. Þetta er allt allt annað en við þurftum að þjást yfir í fyrra á stórum köflum. Það voru stór spurningarmerki í sumar yfir öllu liðinu og í raun klúbbnum eins og hann lagði sig. Við ræddum það nánast í hverju podcasti hve mörgum spurningum væri ósvarað og hvað við værum í raun að renna blint í sjóinn. Ein spurningin var t.d. hvort að Rodgers væri búinn að missa klefann. Liðið er búið að svara þessari spurningu! Það er hellingur spunnið í þetta lið og ef það heldur áfram á sömu braut þá erum við að fara gera harða atlögu að topp fjórum, það er alveg klárt.

Coutinho kemur frábærlega til leiks og ekki skemmir fyrir að við erum að sjá leikmenn eins og Gomez, Rossiter og Ibe fá tækifæri.

Þrír leikir, sjö stig, þrisvar haldið hreinu og andstæðingurinn nánast ekki skapað færi. Við erum að tala um að Arsenal skapaði afskaplega lítið en hápunktur síðustu ára á þessum velli er líklega þegar við fáum miðju (eftir mark eða byrjun leiks/síðari hálfleiks). Nú erum við búnir að mæta Stoke, sem unnu okkur 6-1 fyrir fjórum mánuðum síðan, og Arsenal sem unnu okkur 4-1 á síðasta tímabili. Sóknarleikur liðsins batnar vonandi bara (var frábær í kvöld, sérstaklega fyrri hálfleik).

Liverpool lið Rodgers þarf að fara að ná að sigra þessi topp 4 lið á útivelli, en þetta var leikur sem við hefðum tapað í fyrra. Í þrettán heimsóknum þangað höfum við unnið einu sinni, sem var jafntframt í eina skiptið sem við höfum haldið hreinu þarna þar til nú. Það er líka gríðarlega mikilvægt að þegar þú nærð ekki að vinna, þessi lið sem þú vilt vera að keppa við, að þú tapir ekki.

Eins og maður var hrikalega svekktur í hálfleik að vera ekki yfir, þá var manni létt þegar Michael Oliver flautaði þetta af. Eitt stig staðreynd sem hefðu hæglega getað verið þrjú.

Maður leiksins? Þrír báru af að mínu mati, Gomez var algjörlega frábær ásamt Lovren í vörninni. Coutinho lét okkur svo tikka frammi þó það hafi dregið af honum þegar leið á leikinn. Gomez fær mitt atkvæði. Strákurinn varð 18 ára í maí. Spáið í því.

Að lokum vil ég minna á (risa)hópferð Kop.is, sjá hér.

58 Comments

 1. 7 stig eftir 3 leiki, ég er sáttur með það.
  En djöfull var það svekkjandi að ná ekki að setja mark eða mörk í fyrri hálfleik þar sem við óðum í færum.
  Vörnin heldur 3 leikinn i röð og ég sé ekki Sakho komast í þessa vörn eins og hún er að spila í dag, þvílíkt sem að Clyne og Gomez hafa komið sterkir inn. Gomez er 18 ára kjúklingur sem spilar eins og varnarmaður sem hefur spilað í þessari deild í mörg ár og hann er réttfættur miðvörður.

 2. Einn skemmtilegasti 0-0 leikur sem maður hefur séð.

  Fín úrslit á útivelli sem hefur alltaf verið okkur erfiður.

  Við betri í fyrri hálfleik, Arsenal í þeim síðari.

  Getum verið sáttir við þetta.

  YNWA

 3. Stórmeistarajafntefli á mjög erfiðum útivelli. Hefði þegið það fyrir fram. Þrjú clean sheets í röð líka! Virkilega flottir taktar á köflum í fyrri hálfleik. Flott pressa og hættulegir fram á við, en liðið náði ekki að færa sér fjölmörg mistök Arsenal við að spila út úr vörninni í nyt. Því fór sem fór.

  Mignolet, vörnin, Coutinho og fleiri með frábæran leik. Fimm nýir menn í byrjunarliðinu, þar af báðir bakverðirnir. Því ótrúlegt hvað vörnin var að standa sig. Ekki átti ég von á slíku fyrir tímabilið a.m.k.!

  Það þarf að veðra storminn sem þessi erfiða útileikjahrina er, þá blasa við stórgóðir möguleikar á mikilli stigasöfnun í síðari umferðinni. Að svo búnu ætti sóknin líka að vera (vonandi löngu) búin að smella betur saman. En eins og ég segi, það er nóg að halda haus í gegnum komandi hrinu.

 4. Hundsvekktur að vinna ekki. Dauðfeginn að tapa ekki!
  Þvílíkur leikur. Lítur bara vel út og bara næsta leik takk.

 5. Þvílíkur leikur. Þvílíkur rússíbani ! Sterkt stig , skrítnar skiptingar. Ég hefði viljað sjá Origi eða Ings koma inná í nokkrar mínútur .

 6. Mikið innilega hefði maður þegið Sjö fyrir fyrstu þrjá þegar maður sá prógramið í sumar…

 7. Sælir félagar

  Allan daginn hefði maður tekið fagnandi við jafntefli í leik gegn Arsenal á þeirra heimavelli. Að minnsta kosti í upphafi leiktíðar. Ef til vill var þetta sanngjarnt þegar upp er staðið en eftir magnaðan fyrri hálfleik okkar manna hefði maður viljað sjá stöðuna 1 – 3 og það hefði verið sanngjarnt að mati óhlutdrægra manna ein og til dæmis mínu.

  Eftir köflóttan seinni hálfleik er maður bara sáttur við niðurstöðuna. Ég ætla ekki að fara að draga menn í dilka eftir leikinn. Allir lögðu sig 110% fram og er þar enginn undan skilinn. BR tróð hluta af sokknum upp í mig og vonandi nær hann að klára að troða honum öllum upp í kjaftinn á mér þegar fram líða stundir. Liðið kom feikna öflugt til leiks og BR á marga kosti í flestar stöður á vellinum. Það eykur pressuna á menn að standa sig og allir gerðu það í þessum leik og vonandi verður svo áfram.

  Það er nú þannig

  YNWA

 8. Bestu kaup sumarsins: Dómarar

  Annars skemmtilegur leikur, mjög opinn og við hefðum átt að klára þetta, 7 sig eftir 3 leiki og fyrir ofan man utd – sáttur

 9. Sá því miður aðeins síðasta korterið, og verð að viðurkenna að mér var mjög létt þegar flutað var til leiksloka. Mignolet var óöruggur í úthlaupum, miðjan búin á mví og Skrtel beið eftir að fá að gera stór mistök.
  Var hinsvegar ánægður með byrjunarliðið og hafði trú á liðinu og miðað við það sem ég les var þetta verðskuldað stig á erfiðum útivelli.
  7 stig úr fyrstu 3. Áfram Brendan Rodgers!

 10. Ef einhver hefði boðið mér 7 stig úr Stoke úti , Bournmouth heima og Arsenal úti þá hefði ég tekið því.
  Ánægður með liðið okkar í þessum leik. Virkilega sterkir varnarlega þar sem allir vita sitt hlutverk og hefðum átt að skora í þessum leik og þá sérstaklega í fyrirhálfleik. Það var líka gaman að sjá Rodgers henda inn unga stráknum þegar 15 mín voru eftir í 0-0 leik gegn Arsenal. Þetta sýnir að hann treystir ungum leikmönum og er öðrum ungum leikmönum hvatning.

  Minolet 8 – mjög solid leikur og nokkrar flottar vörslur en við sjáum samt að fyrirgjafir eru enþá pínu vandamál
  Gomez 8 – virkilega flottur leikur hjá stráknum gegn sterkum andstæðingum
  Lovren/Skrtel 8 – þetta miðvarðar par var ekki efst á óskalistanum en Lovren er búinn að svara gagnrínisröddunum og hefur liðið ekki fengið á sig mark.
  Clyne 8 – frábær leikur hjá Clyne sem er hægri bakvörðurinn sem við erum búnir að bíða eftir.
  Millner 9 – maður leiksins hjá okkur. Tók fyrirliða hlutverkingu alvarlega var sífelt að öskra men áfram, vinnandi boltan og gerði hlutina vel.
  Can 8 – virkilega flottur leikur en var greinilega ekki í leikformi því að hann virkaði sprungin síðustu 10 mín.
  Lucas 8 – virkilega flottur en vantaði leikform og var farinn að pústa mikið og fínt að taka hann af velli.
  Firminho 6 – náði sér eiginlega ekki alveg á strik. Var týndur meiri hlutan af fyrir hálfleik en var svo allt í einu næstum því búinn að leggja upp mark. það eru fullt af hæfileikum þarna og tel ég að hann nýtist best gegn liðum sem pakka í vörn.
  Coutinho 8 – stórkostlegur í fyrirhálfleik en við vorum lítið með boltan í þeim síðari og því ekki eins áberandi.
  Benteke 8 – átti að skora og fær því ekki meira en Arsenal réðu ekkert við hann .

  Ibe 5 – var eiginlega skelfilegur eftir að hann kom inná tapaði boltanum og vantaði grimmdina í hann.
  Rossiter -6 kom með solid leik
  Moreno – spilaði líta en hann átti að hjálpa Gomez og gerði það vel og átti svo flotta rispu í restina sem hann hefði kannski átt að senda boltan.

  Rodgers 9 – stillti liðinu vel upp. Liðið var þétt varnarlega og mjög ógnandi fyrirhálfleik og lítið hægt að setja út á skiptingar.

  Flottur leikur og núna er bara að klára West Ham í næsta leik og halda okkur í toppbaráttuni

  YNWA

 11. Sæl og blessuð.

  Þvottahúsið, Hrein lök heldur áfram starfsemi sinni.

  Ótrúlegar framfarir sem hafa orðið á öftustu línu. Hvað skýrir? Var það Jónsson sem við kvöddum þurrum hvörmum? Gleymdi Gerrard alltaf að renna fyrir? Fór Lovren í knattspyrnuskóla í sumar?

  Ég er svo aldeilis.

  En Benedikt karlinn minn kæri
  kanntu ekki að nýta þessi færi?

 12. Algerlega stórkostleg byrjun á tímabilinu, 7 stig úr fyrstu 3 leikjunum og við erum búnir með Stoke og Arsenal á útivelli!

  Frábær karakter í liðinu og ekkert nema stórkostleg frammistaða Tékkans í búrinu kom í veg fyrir sigur okkar í leiknum. Vorum auðvitað stálheppnir að mark Arsenal skyldi ekki standa. Seinni hálfleikur var auðvitað mjög erfiður en við héldum þetta út og lönduðum rosalega, rosalega mikilvægu stigi. Ef þessi úrslit gefa okkur ekki boost fyrir þá leiki sem framundan eru þá veit ég svei má þá ekki hvað þarf til.

  Það sem er líka ánægjulegt að sjá að það er komið meira stál í þetta lið.

  Bring on West Ham!

 13. Að mörgu leyti frábær frammistaða. Langmesti krafturinn fram á við hingað til á tímabilinu og gefur vonandi vísbendingu um það sem koma skal þegar allir eru komnir í fullt form. Augljóst að liðið hafði ekki alveg orku í pressuna í seinni hálfleik, skiljanlega.

  Mér fannst flestir spila vel og sumir frábærlega. Flott upplegg og gaman að sjá Liverpool dómínera líkamlegu hliðina – orðið nokkuð langt síðan það gerðist síðast.

  Skiptingarnar skiljanlegar – hann setur Ibe inn til að reyna að fá inn hraða og meiri möguleika á að breika, það gekk bara ekki alveg upp. Lucas hlýtur að hafa verið kominn með krampa eða stífnaður upp, Rodgers hefði aldrei sett Rossiter inn á í 0-0 á Emirates að öðrum kosti. MOreno setur hann svo inn til að hjálpa Gomez með Ox og til að halda núllinu – mjög skiljanlegt.

  Eina sem mér fannst kannski aðeins vanta var að við misstum boltann allt of oft fyrir framan eigin vítateig í seinni hálfleik og vorum heppnir að okkur var ekki refsað fyrir það. Eins og menn tækju sér aðeins of langan tíma í að hugsa málið, sem var ekki í boði hjá Arsenal í seinni hálfleik.

  Annar jákvæður punktur var hvað Can hélt vel út – var alveg viss um að hann myndi springa eftir 70-75 en hann hélt fínum dampi og var að bera boltann upp völlinn allt til enda.

  Snilld að vera ekki búnir að fá á sig mark – lofar sannarlega góðu. Ég er alveg til í að hanga á núllinu í mánuð í viðbót og svo, þegar erfiðu útileikjahrinuni slotar, vera komnir með fínpússaðan sóknarleik sem valtar yfir miðlungsliðin.

  Þetta lítur vel út.

 14. Það virðist vera eitthvað nígeríusvindl í gangi því við höldum áfram að herma eftir úrslitum man utd…

 15. Liverpool have already conceded 10 goals less than in the corresponding fixtures last season.

  Arsenal 4 -1 Liverpool
  Stoke 6 – 1 Liverpool
  Þess vegna er ekki hægt annað en að vera bara nokkuð sáttur með byrjun móts.

 16. Frábær fyrri hálfleikur og einn sá skemmtilegasti hjá liverpool sem ég hef séð í langan tíma. Vorum heppnir að það var dæmd rangstæða á Arsenal á 8 min. Fannst Couthino-Firminho ná virkilega vel saman og var gaman að fylgjast með þeim. Benteke var sterkur var að vinna fullt háloftaboltum og skila þeim á samherja óheppinn að skora ekki 2 yards away. Þetta var sterkt jafntefli á einum erfiðasta útivellinum plús Arsenal ætlaði sér að vinna á heimvelli eftir skelfilegan leik á móti West ham í fyrstu umferð.

  Fannst samt Brendan Rodgers gera skiptingar sem ég skildi ekki allveg. Firminho fannst mér vera búinn að vera nokkuð góður í þessum leik enn Ibe fékk að koma inn á 61 mins… Strákurinn átti skelfilega frammistöðu Var ónothæfur bæði í sókn og vörn.. Reyndar líktist hann meira 250 kg umferðakeilu í vörninni því hann var skrefinnu á eftir öllum og alltaf einn úti á túni þegar Arse sótti hart á kantinum hans. Rossiter innkoman var skrýtin fyrir Lucas enn eins og einhver fyrir ofan bendi á Lucas hlýtur að hafa verið með krampa eða þreyttu. Enn ég spyr mig samt munu Ings/Origi fá einhver séns í vetur? núna eru 3 leikir búnir og hvorugir hafa fengið tækifæri og það harðnar mikið þegar Sturridge mættir og á svæðið.

 17. Liverpool eru heldur betur komnir í gang með þetta tríó í sókninni. Fannst miðjan fúnkera miklu betur með þrjá þar.

 18. Verð bara að koma þessu frá mér, Neville er sennilega eitt mest skoffín sem hefur komið nálægt því að lýsa leik og vera álitsgjafi… “Arsenal spilaði vel og lokaði vel á Benteke og þetta var aldrei víti” en svo hinu megin voru hinar minnstu snertingar víti á Liverpool…

  Annars fínn leikur, vorum óheppnir að klára ekki leikinn. Verður spennandi að sjá Coutinho, Benteke og Firminho spila sig saman og hrella varnir andstæðinganna.

 19. Flott úrslit, þótt mér finnist við hafa átt skilið að vinna.
  Sumarkaupin líta virkilega vel út. En þvílíkur kraftur sem Millner gefur liðinu, það kemur virkilega þægilega á óvart.

 20. Jafntefli á mòti Arsenal: Mjög gott.

  Sigkarl kominn aftur: Stórkostlegt.

  YNWA – ÞENÞ
  You Never Walk Alone – Það Er Nú Þannig

 21. Ég vill aðeins benda á að í þessum leik voru tvær vítaspyrnur sem við hefðum átt að fá ekki dæmdar, en síðan hefði mark þeirra sjáfsagt á að standa líka, en það athyglisverðasta er að þótt við vorum síst grófari fengum við á okkur fjögur gul gegn einu og á okkur voru þrettán aukaspyrnur dæmdar gegn tveim, arsenal fékk aðeins tvær aukaspyrnur dæmdar á sig, það er enhver svakaleg fíla af þessu…

 22. Ef ég held áfram með pælingu Tura #17 hefur Liverpool þegar náð í sex stigum meira í leikjum í ár miðað við sambærilegar viðureignir í fyrra. Í þremur leikjum!

  Og ekki nóg með það. Liverpool hefur náð í einu stigi meira á þessari leiktíð en í sambærilegum leikjum tímabilsins 2013-14. Rámar ykkur í það tímabil?

 23. Ég verð að byrja á því að nefna Joe Gomez sérstaklega. Þessi strákur er nýorðinn 18 ára og spilar eins og hann sé með 200-300 leiki á bakinu. Að mínu mati efnilegasti leikmaður sem við höfum átt í háa herrans tíð. Gríðarlega spennandi strákur.

  Annars virkilega flott að sækja stig á Emirates og frábær spilamennska í fyrri hálfleik.

  Áfram svona í næstu leikjum!

 24. Ég er mjög sáttur að ná stigi gegn Arsenal og sá leikmaður sem kom mest á óvart að mínu mati var Emre Can, þetta var hans lang besti leikur með Liverpool að mínu mati.

 25. Þetta var flottur leikur og flott úrslit, hepnir að fá löglegt mark dæmt af okkur en óheppnir að chelsea hafi látið þennan snilling fara til annars liðs í ensku deildinni.
  Brendan er alveg að vera búinn að vinna mann á sitt band aftur.
  In Brendan we trust YNWA !!!!!!!!!!

 26. Frábær úrslit.

  Þessi byrjun sýnir kannski helst hversu hrikaleg mistök voru gerð í leikmannakaupum siðasta sumar.

  Það vantaði allt stál í liðið síðasta vetur en virðist heldur betur hafa verið lagfært nú í sumar.
  Liðið virkar virkilega massift og virðist loksins vera að sjást merki um að sé að koma jafnvægi á milli varnar og sóknar.

  Síðan BR tók við hefur þetta nánast verið on eða off. Þetta lítur stórvel út so far.

 27. Liverpool var að spila tveimur 18 ára guttum á móti Arsenal áðan hehe. Gaman að sjá hvað ungu strákarnir fá flott tækifæri í aðalliðinu ef þeir standa sig vel.

 28. Hefði tekið jafntefli fyrir leik svo maður er sáttiur en samt pínu svekktur að fa ekki öll stigin

  Flott að halda hreinu 3 leikin í röð.
  Coutinho okkar langbesti maður.

  Leleg innkoma hjá Ibe.

  En aðalatriði var að tapa ekki og nu bara halda áfram og vinna west ham næstu helgi. Held að þa komi mörkin a færibamdi og að okkar menn skori 5 stk þá.

 29. Best hefði verið að arsenal hefði skorað löglegt mark það ekki látið standa og Liverpool hefði skorað ólöglegt mark og það látið standa. Þá hefði fyrst verið gaman að hitta nallana á morgun. 😉

 30. Það væri allveg út í hött að selja Lucas ef við kaupum engan í stað. Það er allveg nauðsinlegt að hafa bakkup þegar einhver af fyrstu kostunum inná miðjunni detta út. Ég er viss um að ef að Can og Milner hefðu bara verið þarna tveir gegn her miðjumanna Arenal hefðu þeir rúllað yfir okkur. Lucas gaf okkur mjög mikið og að mínu mati er hann mjög mikilvægur, sérstaklega þegar við förum á útivelli gegn sterkari liðum deildarinna.

  Annars var þetta virkilega skemmtilegur leikur og það sem hreyf mig hvað mest var samvinna Lovren og Skrtel. Þeir stigu varla feilspor í leiknum með Mignolet mjög traustan fyrir aftan sig. Ef þetta heldur áfram verður þetta gulls í gildi fyrir okkur í baráttuni um meistardeildarsætin.

 31. Liðið hefur nú leikið í 270+ mínútur á þessari leiktíð án þess að fá á sig mark, það þarf víst ekki að rifja upp hversu mörg mörk liðið fékk á sig í síðasta leik síðasta tímabils.

 32. Ings og origi eru ekki að fá sénsa en samt er Sturridge ekki komin til leiks.

  Væri ekki snjallt að lána Origi til liðs i úrvalsdeildinni ?

 33. Erfitt að segja hver var bestur. Líklega Gomez, en Lucas var hestur. Verðum að hafa hann í vetur punktur. Lok, lok og læs hjá honum í dag. Það er svo erfitt að spila á móti Liverpool þegar hann spilar eins og hann gerði í kvöld. Can-inn flottur und alles. Tek þessu jafntefli fagnandi af því að við spiluðum vel. Verðum vonandi komnir í 10 punkta á laugardaginn. Eigum svo Sturrann inni, like á það.

  Var samt ekki að fíla þennan seinagang hjá Mignolet í útspörkunum, why ? Fengum bara aukamínótu á það.

  Over and out.

 34. Frábær úrslit miðað við hvernig seinni hálfleikur þróaðist. Miðað við síðasta tímabil að hafa tekið fjórum stigum meira út á móti Stók og Gunnurum og bætt markatöluna um heil 9 mörk frá þeim leikjum má segja að það séu batamerki.

  Og ef hann Emre Can hættir að klappa boltanum svona mikið alltaf þá er þvílík sóknarveisla í uppsiglingu hjá okkur. Ég veit ekki hversu oft ég öskraði á hann að gefa boltann, en því miður heyrði hann annað hvort ekki í mér, eða skilur ekki íslensku! Nú er bara að halda áfram að byggja ofan á þetta. YNWA.

 35. Fannst bakverðirnir helst vinna fyrri hálfleikinn, það átti að tvöfalda á þá en þeir tóku eiginlega frekar yfir leikinn þegar á leið

 36. velkominn Sigkarl gott stig ekki oft nýverið sem við náum í stig á the emiretes mikill munur á liðinu og leik þess come one you Reds.

 37. Rólegir strákar á þessari Lucas aðdáun. Hann er alltaf frábær gegn tæknilega góðum liðum eins og Arsenal, Man City og Chelsea í algjöru miðjukraðaki þar sem staðsetningar skipta öllu. Svo bara hverfur hann þegar við mætum minni liðum og hann fer að mæta mun líkamlega sterkari og hraðari mönnum.
  Verðum að fara selja hann og Allen og kaupa alvöru fjölhæfan miðjumann sem getur stjórnað leikjum.

  Annars er Milner klárlega búinn að vera kaup sumarsins eins og ég margtuggði í júní að hann yrði. Clyne einnig verið frábær kaup. Rosalega munur að fá alvöru agaðan mann eins og Milner á miðjuna, yfirferðin á honum er svakaleg og svo er hann yfirvegaður og mjög góður stjórnandi. Við spilum loksins eins og liðsheild þegar við höfum svona fyrirliða og leiðtoga. Rosamunur að sjá liðið núna og þegar Gerrard stjórnaði öllu öskrandi á menn. Menn spila ekki lengur í skugga ofurstjörnunnar heldur standa bara saman og berjast. Engar 50m Hollywood-sendingar útí buskann eyðileggjandi allan takt í liðinu. Gegn Arsenal á útivelli standa drengirnir bara í lappirnar og spila sig rólega upp völlinn sem er einmitt það sem þarf gegn Arsenal. Þor að halda boltanum innan liðsins og pirra þá með pressu. Við fórum á heimavöll Arsenal og “beat them at their own game” í fyrri hálfleik þar sem við áttum að vera allavega 2 mörkum yfir er honum lauk.

  Í seinni hálfleik var viðbúið að Liverpool þyrfti að verjast enda ansi erfitt að pressa svona stöðugt á blautum velli. Vörnin hélt þökk sé sjálfstrausti sem okkar menn sýndu og vinnusemi Milner og Lucas. Can var einnig mjög mikilvægur í að skýla boltanum, draga menn í sig og skila honum áfram. Tek nú undir að það hefði ekki verið vitlaust að setja Ings inná síðustu 15-20mín. Hann hefði geta komið með þá auknu vinnusemi frammi sem þurfti á þeim tíma. Allt í allt var þetta þó mikil framför og frábær að sjá hvað sauð á Wenger í fyrri hálfleik og eftir leik.

  Væri gaman líka að fá að vita þessa töfraformúlu sem Mezut Özil þóttist hafa fyrir leikinn þegar hann sagði 100% sigurviss að Arsenal vissi hvernig ætti að vinna Liverpool og þetta væri nánast bara formsatriði að spila þennan leik. Er ekkert viss um að Arsenal verði í neinni svakalegri toppbaráttu í ár. Þeir virðast hrokafullir fastir með hausinn uppí eigin rassgati og telja sig besta lið Evrópu þessa dagana. Jafnvel Walcott blessaður ræfillinn sagði að þetta lið væri betra en “Invincibles” liðið sem fór taplaust í gegnum deildina. Ég bara spyr eins og John Henry hér um árið…..”What are they smoking over there at Emirates?”

  Það er ekkert lið að fara vinna ensku deildina með dúkkulísu eins og Giraud frammi. Varðandi Liverpool veit maður ekki. Rodgers segir núna að við þurfum ekki að kaupa neina menn. Það er einfaldlega rangt. Fyrstu 2 sigrarnir voru ekki beint sannfærandi svo ekki sé meira sagt þó útisigur geng Stoke hafi verið rosa sterkt móralskt sérð. Maður veit ekki alveg hvar Liverpool stendur, þetta er enn rosa brothætt. Við gætum tapað gegn West Ham á einhverju sucker-punch marki og svo gegn Man Utd og þá er skyndilega allt orðið ömurlegt og Rodgers jafn fullkomlega glataður og ráðalaus gaur og hann var í vor. Þetta verður ekki marktækt fyrr en eftir svona 10-15 leiki hvort Liverpool verði í einhverskonar toppbaráttu.

  Þangað til nýtur maður þess að Liverpool er taplaust og ekki fengið mark á sig eftir mjög erfiða útileiki. Þetta verður svakalega löng og erfið ensk deildarkeppni þar sem nær allir geta unnið alla. (jafnvel miðlungs og botnlið eru að fá til sín mjög fína leikmenn) Deildin mun snúast rosalega mikið um viljastyrk og liðsheild. Að gefast ekki upp og vinna jöfnu leikina. Hingað til hefur Liverpool sýnt mikinn andlegan styrk og ég skrifa það mikið til á þá ró sem Milner hefur komið með í leik liðsins. Vonandi heldur þetta svona áfram. Coutinho, Firmino og Benteke eru að sýna merki um að ná frábærlega saman í framtíðinni. Leikskipulagið er að virka núna en spurning hvort að leikkerfið breytist þegar Sturridge kemur tilbaka og Rodgersdetti í að róta öllu til svo hann fitti inn. Fullt af spurningarmerkjum í gangi. Líka hvort að t.d. Origi, Ings, Moreno og Markovic fari ekki að ókyrrast mjög á bekknum fari þeir ekki að fá einhverjar mínútur.

  Ég er þó klárlega enn á því að við áttum að fara á fullt í að fá Jurgen Klopp. Þetta er þó að virka hingað til og það er frábært. Við eigum helling af gæðum inni sem geta og þurfa að bæta sóknarleikinn. (Enn að reyna skilja hvernig við eyddum 25m punda í Lallana á meðan Chelsea fær Pedro á 21m. Var ekki hægt að bjóða 25m punda í hann bara, allavega til að hækka verðið upp fyrir aðra? Var ekki hægt að fá Suarez til að selja honum hugmyndina að spila í Bítlaborginni? Hefði passað svo perfect í 4-3-3 leikstíl Liverpool)
  Við þurfum aðeins meira firepower eins og er þó Coutinho sé að brillera so far.

  Áfram Liverpool.

 38. #42

  “Gegn Arsenal á útivelli standa drengirnir bara í lappirnar og spila sig rólega upp völlinn sem er einmitt það sem þarf gegn Arsenal.”

  Þetta er nú ansi frjálsleg túlkun á leik kvöldsins, ef þú sást hann þá allan. Boltanum var örugglega lúðrað svona 60x fram völlinn í stöðum sem maður myndi ætla að hefðbundið BR plan gengi út á að spila boltanum fram. Benteke vann víst 16 skallaeinvígi (af 24). Það er ekki óháð því hvernig uppleggið/spilið var… 🙂

  En Milner er búinn að vera virkilega flottur, hvað sem öðru líður! SG hafði (og hefur!) viss gæði sem Milner hefur ekki, en síðustu ár er sá eiginleiki að geta hlaupið á fullu gasi í 95 mínútur skiljanlega ekki þar á meðal.

  BR hefur örugglega skoðað leikjaniðurröðun þessa tímabils, séð hroðalegu útleikjatörnina sem hófst í kvöld, og ákveðið að setja smá trukk í varnarleikinn og unnið í skipulagi sem tengist því. Það myndi a.m.k. meika ansi mikið sense. Eins og ég sagði ofar: veðra storminn, vona að nýir leikmenn og sóknin almennt fari að smella, jafnvel að fá Sturridge inn. Þá getur allt gerst í vetur! En það má einfaldlega ekki gefa helstu keppinautum um Meistaradeildarsætin þrjú stig í meira en 2-3 af þessum leikjum.

 39. Vanalega þoli ég ekki jafntefli en ég tek þessu stigi fagnandi. Mjög mikilvægt þegar Liverpool tapar stigum að lið eins og Arsenal geri það líka í sama leik. Ömurlegur árangur Liverpool á Emirates gerir það síðan auðvitað að verkum að maður tekur orðið alltaf stigi þarna þó Liverpool verði að fara vinna þá þarna líka.

  Klisjan segir að maður skapar sér sína heppni og á næstu blaðsíðu er talað um að dómaraákvarðanir jafnist út yfir tímabilið. Þannig hefur það svo sannarlega ekki alltaf verið hjá okkar mönnum frekar en öðrum liðum, það er því ákaflega skemmtileg tilbreyting að sjá þessar stóru ákvarðanir falla aðeins með Liverpool eins og þær hafa gert í fyrstu leikjum tímabilsins. Bæði þær sem reynast réttar (mark Bournemouth) og eins rangar (markið gegn Stoke og mark Arsenal í dag). Það hefur svosem ekkert breyst í þessu, dómarinn er partur af leikjum og á meðan ekki er notfært sér tæknina til að hjálpa honum koma vafaatriði upp í hverjum leik sem eru endursýnt marg oft og rædd út í hið óendanlega en sjaldnast sýnt þetta eina augnablik sem dómarinn hafði. Skil vel gremju Nallara (þó ég muni ekki eftir þeim ekki að röfla yfir dómaranum) og væri mjög pirraður í þeirra sporum yfir markinu sem var dæmt af. Það er samt ekkert eins og þetta hafi verið svona út úr kortinu heimskulegur dómur, þeir voru alveg samsíða og þetta gerist mjög hratt.

  Fyrir utan markið fannst mér okkar menn sýna merki um miklar framfarir frá síðustu leikjum og í raun ótrúlegt að ekki hafi tekist að skora. Það var ekkert ósanngjarnt að Cech væri maður leiksins, Arsenal menn hefðu flestir tekið jafntefli úr þessum leik er flautað var til leikhlés.

  Mignolet skapar ekki nærri því sömu taugaveiklun og allar hans aðgerðir gerðu fyrir nákvæmlega ári síðan. Hann komst í gegnum ákveðinn vegg eftir áramót og hefur verið einn besti markvörður deildarinnar síðan og er enn vaxandi finnst mér. Hann er samt rétt eins og allir markmenn eins góður og vörnin leyfir og það er helst það sem hefur stórlagast og gert honum kleyft að bæta sig svona.

  Gomez og Clyne koma fyrir samtals 14m sem er minna en Johnson kostaði 2009. Þjófnaður miðað við hvernig þeir byrja tímabilið og frábært að fá tvo nýja menn svona öfluga beint inn í liðið. Annar þeirra en 18 ára með um 30 mfl leiki að baki, hjá Charlton. Clyne virkar eins og gamalmenni í liðinu en væri einn af ungu leikmönnunum í flestum liðum. Þetta var sá leikur sem ég óttaðist mest hvað Gomez varðar og hann stóð sig mjög vel, hann hefur alveg líkamlegan styrk í þessa deild og það er enginn að fara stinga hann af á sprettinum.

  Lovren held ég að fagni tilkomi Gomez hvað mest. Hann hefur með þessu fengið auka varnarmann með sér og fær fyrir vikið miklu betra cover en hann fékk í fyrra er andstæðingurinn kom óhindrað á hann á 100km/h úr augljósu holunni sem Moreno skildi eftir sig eða þá í gegnum hripleka miðjuna. Lovren er að stjórna vörn Liverpool núna eins og hugmyndin var þegar hann var keyptur…og hann er að gera það vel. MNF tók þetta vel saman í dag. Vonandi er þetta það sem koma skal.

  Skrtel hefur einnig byrjað mótið vel og er ótrúlegt en satt elsti byrjunarliðsmaður liðsins, hann og Lovren eru að mynda efnilegt miðvarðapar og þó ég sé á því að Sakho sé töluvert betri leikmaður þá er mikilvægara að fá traust miðvarðapar sem helst missir ekki úr leik. Liverpool hefur ekki fengið á sig mark í þremur fyrstu leikjunum núna og fær alls ekki á sig mörg opin færi heldur, meira er ekki hægt að fara fram á. Höfum líka í huga að miðvarðaparið er að slípast saman með nýja bakverði sitthvorumegin og nýjan miðjumann fyrir framan sig.

  Hefur James Milner ekki örugglega verið leikmaður Liverpool sl. 7 ár? Virkar þannig á mann nú þegar og var þriðja leikinn í röð meðal bestu leikmanna Liverpool að mínu mati. Hann var í aukavinnu í dag enda með tvo með sér á miðjunni (Lucas og Can) í engu leikformi og aðra tvo (Coutinho og Firmino) þar fyrir framan sem ekki eru komnir í 100% leikform. Það sást best þegar draga fór af öllum fjórum er leið á leikinn. Mjög ánægður með þessa byrjun hjá Milner og held að hann verði bara betri þegar liðið slípast saman. Hefur einhver leikmaður Liverpool tekið fyrirliðabandið svona fljótt áður?

  Can spilaði 90.mínútur í dag sem er frábært. Hann fannst mér eiga erfitt á löngum köflum í leiknum og virtist oft brenna sig er hann kom við boltann. Náði sér svo á strik aftur undir lokin og kom að ég held heilt yfir vel frá leiknum þó Liverpool hafi alls ekki átt miðjuna í dag. Hann þarf nokkra leiki til að komast í 100% leikform, efa að hann fari mikið úr liðinu í vetur nema þá vegna meiðsla.

  Lucas er gott að eiga einmitt fyrir svona leiki og það væri ekkert frábrugðið þó Lallana eða Allen væru heilir. Fari Lucas áður en glugganum lokar veikir það Liverpool. Á móti finnst mér hann hafa misst mjög mikið úr sínum leik og vill fá betri varnartengilið á næstu árum. Lucas var farinn að spila sem miðvörður áður en hann fór útaf enda líklega alveg sprunginn en skilaði sínu í dag og mjög vel það.

  Rossiter sem kom inná fyrir hann held ég að sé hugsaður sem hans arftaki og það strax í vetur. Rodgers sagði í vikunni að hann ætli ekki að lána Rossiter og sýnir mikinn kjark með því að henda honum inná í dag 18 ára gömlum í fyrsta deildarleik á Emirates. Það sem meira er þá fannst mér Rossiter gera vel og koma okkar mönnum aðeins úr skotgröfunum undir lokin. Það er búið að tala um þennan strák sem alvöru gæði í mörg ár og fékk heldur betur svið þarna til að sýna það.

  Engu að síður saknaði ég Henderson mjög mikið í dag, sérstaklega í sinni hálfleik.

  Firmino finnst mér rosalega spennandi og þrátt fyrir að vera haugryðgaður var hann að skapa mest allra á vellinum þegar hann var inná og pressaði mjög vel. Hlakka mikið til að sjá þennan leikmann í 100% standi. Var samt farinn að kalla eftir að fá Ibe inná fyrir hann áður en það varð að veruleika enda Firmino sprunginn eftir klukkutíma. Innkoma Ibe var engu að síður mjög mikil vonbrigði og a.m.k. þrír samherjar hans höfðu öskrað á hann áður en flautað var af. Hann er 19 ára og verður misjafn áfram, það er alveg öruggt. Hvernig það er ekki pláss fyrir Markovic á bekknum hjá Liverpool er samt eitthvað sem ég næ ekki.

  Coutinho var rosalega óheppinn að skora ekki í sláarskotinu en því náði hann umkringdur fjórum leikmönnum Arsenal. Stangarskotið minnti á mark Suarez gegn Stoke og munaði þar líklega mest um markmann Arsenal í dag. Coutinho er klárlega í sama klassa og kollegar hans í sömu stöðum hjá Arsenal og hann sýndi það í dag.

  Moreno skiptingin fannst mér ekki eins varnarsinnuð og öðrum og raunar held ég að Liverpool eigi í honum óvænt vopn á kantinn sem hægt er að grípa til. Moreno er Gareth Bale fljótur nánast og getur vel skaðað andstæðinga Liverpool sem hætta sér of langt fram. Hann var nálægt því í restina að klára þetta fyrir Liverpool. Varnarlega er hann svo mikið betri nýkominn inná heldur en þreyttur Coutinho.

  Stjáni Benteke var svo hrikalega óheppinn að skora ekki í dag og hefur núna klikkað á tveimur færum (gegn Stoke og Arsenal) sem hann setur í netið í 9 af hverjum 10 tilvikum. Þegar Liverpool var að sækja réðu miðverðir Arsenal lítið við hann, frábært að eiga svona leikmann gegn liðum eins og Arsenal

  Þetta lið er augljóslega ennþá að stilla sig saman og á nokkuð í land ennþá. Frábært að tapa ekki stigum á meðan. Tveir útileikir nú að baki í þessari mjög svo erfiðu byrjun á tímabilinu og liðið enn taplaust. Nú er bara að halda dampi í næsta heimaleik og fara með 10 stig í landsleikjahléið.

 40. Babu: “Hefur einhver leikmaður Liverpool tekið fyrirliðabandið svona fljótt áður?” Paul Ince og Hyypia?

 41. Ahh

  Former Manchester United midfielder Paul Ince was signed by Roy Evans from Inter Milan in 1997 and was immediately installed as the new captain.

  Af öllum mönnum.

 42. Svo þarf auðvitað ekki að leita lengra en til síðasta tímabils, þegar Ricky Lambert var fyrirliði í sínum fyrsta leik í byrjunarliði, reyndar í deildarbikarnum.

 43. Ótrúlega skemmtilegur leikur á að horfa. Ég mætti á vitlausan bar og þurfti að hlaupa á réttan bar fimm mínútum fyrir leik. Mætti sveittur og hélt áfram að svitna allan leikinn því ég náði varla að setjast niður á millri allra atvika.

  Allt liðið var í raun að leika vel að mínu mati (fyrir utan kannski Ibe og það er spurning hvort að Markovic fái ekki tækifæri núna) – ótrúlega ánægjulegt að sjá hvernig menn einsog Clyne, Gomez, Milner og Firmino smellpassa inní þetta lið. Ég gæti hrósað Mignolet, Lovren, Skrtel, Can og fleirum.

  Vonandi er Rodgers að sýna okkur að tímabilið í fyrra var bara one-off rugl – ákveðinn þrekraun sem menn þurftu að fara í gegnum til að halda áfram að bæta sig. Ég hefði alla daga vikunnar tekið jafntefli á helvítis Emirates, maður hefði ekki sætt sig við það í hálfleik en í lok leiks var það ekki svo slæmt.

  Já, og Benteke er svo augljóslega að smellpassa inní þetta lið. Hann gefur okkur leið útúr þungri pressu með því að Mignolet getur sparkað beint á hann. Leikur Liverpool breytist ekki í kick-and-run við það eitt að hann sé þarna, en hann er frábær kostur ef það þarf að létta á pressunni.

  Núna þurfum við bara að taka West Ham og þá förum við inní þetta landsleikjahlé vonandi í 2.sæti í deildinni, sem er frábært.

 44. Sammála Einari Erni hér að ofan, þessi leikur var akkúrat það sem við þurftum. Það hefði verið gaman að ná sigurmarkinu en í raun fórum við á Emirates, lágum aftur og létum þá hafa boltann í fyrri hálfleik en vorum samt betri aðilinn (kunnum þetta ekki í fyrra) og í seinni hálfleik voru þeir betri aðilinn en okkar menn héldu samt haus og héldu hreinu.

  Við sáum ákveðið stál í gær sem var ekki til staðar í fyrra. Fyrir vikið er ég miklu, miklu bjartsýnni á tímabilið í dag en fyrir sólarhring.

  Vinnum West Ham á laugardag og förum inn í landsleikjahléð í topp þremur í deild, jafnvel ofar en það. Fáum Daniel fokking Sturridge inn í hléinu og sjáið þetta lið ná flugi.

  Einnig: tveir af sjö erfiðum útileikjum búnir og fjögur stig í húsi. Meira svona, takk. Þetta snerist ekki bara um að ná stigi, þetta snerist líka um að hindra Arsenal í að ná þremur gegn okkur. Meira svona, takk.

  Að lokum: hver fann Joe Gomez? Og af hverju er sá maður ekki kominn með Sir fyrir framan nafnið sitt?

 45. Mér hefði verið sama,(kannski ekki alveg), þó liðið hefði tapað leiknum, svo mikil og góð var frammistaðan, sérstaklega í fyrri hálfleik og varnarvinnan í þeim síðari var afburða góð. Þetta lið er liðið mitt!!

 46. Skemmtilegur leikur en mér fannst virkilega gaman að sjá þetta mentality sem er í kringum Firmino, hann reynir í ALLA bolta sem detta í 30 m radíus við hann, það sást varla í fyrra

 47. Ég var ekki alltaf 100% sáttur með það sem Firmino var að gera. En þegar hann var tekinn út af sá ég hvað hann hafði verið að vinna mikið fyrir liðið. Saknaði hans svakalega og blótaði meirað segja Ibe 2-3X sem ég er ekki stoltur af. Vonandi verður Firmino fastamaður í liðinu og setur 10 mörk +7 stoðsendingar. Var nærri því búinn að næla sér í stoðsendingu í fyrsta byrjunarliðsleiknum

 48. Flottur leikur og rosaleg skemmtun, ótrúlegt hreint að þetta hafi endað 0-0.

  Hef áhyggjur af Can, finnst hann alltof villtur, sérstaklega mv. leikmann sem ekki er kominn í alvöru form. Innkoman hjá Ibe var svo vægast sagt slöpp. Staðreyndin er sú að ekkert lið hefur efni á því að hafa tvo til þrjá menn inná vellinum í einu sem taka hver um sig 9-10 snertingar á boltanum áður en þeir losa sig við hann. Þannig að þegar Coutinho er inná vellinum þarf Ibe (og hinir) að gjöra svo vel og: “pass ‘n move”.

  Engu að síður gífurlega sterkt að ná í jafntefli á erfiðum útivelli.
  Verð að deila áhyggjum mínum með Babú, skil hreinlega ekki af hverju Markovic fær ekki sénsinn, var spilað út úr stöðu nánast allt síðasta tímabil ásamt því að vera mikið inn og út úr liðinu. Allir sem hafa vit á fótbolta sjá hversu mikið efni þessi strákur er. Láta hann bara spila 3-4 leiki í röð og hann mun blómstra.

  Hvað varðar dómgæsluna þá sjá menn það að markið hjá Sterling gegn City fyrir tveimur árum hefði tryggt okkur titilinn. Að sama skapi var mark dæmt af West Ham um helgina gegn Bournemouth (sem hefði orðið fyrsta mark leiksins), nánast copy/paste af markinu sem var dæmt af þeim gegn okkur.
  Arsenal spiluðu frábærlega á köflum en það gerðu okkar menn einnig og áttu ekkert minna skilið út úr leiknum en þeir.

 49. #50 Miðað við hvernig liðaði spilaði að þá hefði ég orðið brjálaður ef leikurinn hefði tapast.

  Frábært að sjá menn berjast um alla bolta. Annað sem mér fannst í þessum leik að skyndisóknir eru orðnar hættulegar. Menn voru öskufljótir upp völlin þegar boltin vannst á okkar vallarhelmingi og ég bjóst við að við mundum lenda þessu úr einni slíkri.

  Ps. Velkomin aftur SigKarl

 50. Hvað er málið með Joe Gomez. 18 ára piltur sem pakkar þeim bestu saman. Annað eins efni hefur ekki sést í langan tíma hjá LFC.

  Þetta lið virkar miklu heilsteyptara en við höfum séð. Þetta er miklu betra en ég þorði að vona. Ég spáði LFC í topp 4 og liðið er að spila algjörlega eins og topp lið og er ekki einusinn byrjað að nota öll vopnin.

 51. Sagði það í sumar að Clyne verði pússlið sem að betri og bættum varnarleik okkar vantaði. Hann hefur svo sannarlega heillað mig. Gerði mér hinsvegar ekki grein fyrir að það kom óvæntur töffari hinumeginn í bakvörðinn sem er að rústa allri tölfræði. Lovren hefur greinilega fundið fyrir ró með tilkomu þeirra og Milner á miðjuna og virkar eins og nýr leikmaður.

  Það fyrsta sem þarf að gera þegar liðið er í molum er að laga varnarleikinn. Ótrúlega ánæðgur að það sé aðeins búið að taka 3 leiki að sýna mér að það er nákvæmlega það sem mennirnir á Melwood eru að gera. Þetta mun smita út frá sér og það mun ekki líða á langt þangað til miðjan fari að domitera leikina og þá fer sóknin að tikka. Þetta er allavegana mín tilfinning fyrir því hvað er að gerast með þetta lið okkar.

  Ótrúlega mikilvægt að hleypa ekki Arsenal í gegnum okkur með 3 stig. Nákvæmlega sem þarf að gera til að verða með í toppbáráttunni. höfum ekki efni á að hleypa liðum sem er spáð fyrir ofan okkur 3 stigum lengra með hverri heimsókn á þeirra völl. Annað mikilvægt í þessu er að vinna liðin sem spáð eru fyrir neðan okkur bæði heima og úti, þannig.. so far so good.

  Get ekki beðið eftir að Sturridge komi inn í þetta með hlaup bakvið Benteke sem að… tapar ekki skallabolta í lífinu??

  YNWA

 52. sælir félagar

  Tek undir ánægjuraddir með úrslitin og frammistöður flestra leikmanna.

  Aðeins varðandi Markovic. Ég held að hann sé í ákveðnu frosti hjá BR, mögulega vegna lakrar frammistöðu og hinsvegar vegna þess að ég held hann sé að reyna að kveikja ákveðið hungur hjá honum. Það hefur sést áður en BR gerði þetta við Skrtel, Sterling og Can. Kannski gengur honum hægar að aðlagast og BR vill ekki spila honum fyrr en ákveðnir hlutir eru komnir á betra ról hjá honum. Persónulega býst ég við honum í fyrsta EL leika eða í bikarkeppnunum

  Varðandi Origi/Ings þá held ég að það hafi aldrei sérstaklega verið planið að gefa þeim mikinn spilatíma fyrir landsleikjahlé. Það er ágætis hlé milli allra leikja og meira en nóg að gefa Clyne, Gomez, Milner og Benteke sénsinn. Ég hefði alveg átt von á öðrum þeirra í Bournemouth leiknum ef það hefði verið örugg forysta en m.v. spennuna í þeim leik þá var BR aldrei að fara að taka Benteke útaf og því fór sem fór. Ings var á hliðarlínunni að leysa Coutinho af þegar hann setti markið góða á móti Stoke.

  BR sagði að eftir landsleikjahlé þá kæmu leikirnir “thick and fast” og gaf til kynna að menn fengju svo sannarlega tækifærið þá. Ég gæti vel trúað því að menn eins og Benteke, Coutinho, Milner verði hvíldir í leikjum sem séu ekki í PL, amk gegn minni spámönnum.

RISAhópferð Kop.is á Anfield / Liðið gegn Arsenal

Podcast: breyting á niðurhali