Spá Kop.is – síðari hluti

Þá rennum við okkur í seinni hluta spárinnar okkar og nú eru það sætin sem öllu máli skipta, topp tíu.

Fyrir þá sem vilja rifja upp sæti 11 – 20 þá er sú umfjöllun einmitt hér. Munið að hæst er hægt að ná 120 stigum og minnst 6 stigum.

10.sæti: Swansea 65 stig

Walesverjarnir hans Garry Monk lækka sig um tvö sæti milli ára samkvæmt okkar spá og enda tíundu næsta vor. Monk er einn margra spennandi ungra stjóra í deildinni og hefur margoft lýst því yfir að hann hafi horft til Rodgers sem eins konar Mentors þegar hann tók við af Laudrup fyrir tæpum tveimur árum. Gylfi Sigurðsson verður án vafa áfram í lykilhlutverki á miðjunni hjá þeim og auk hans eru lyklarnir Ashley Williams í vörninnni og Jonjo Shelvey og Batefomi Gomis á toppnum. Stærsta nafnið sem þeir alhvítu hafa verslað í sumar er Portúgalinn Eder, þar fer kraftmikill strákur sem gæti sett mark sitt á deildina.

9.sæti: Southampton 67 stig

Eins og með Swansea teljum við Dýrðlinga Ronald Koeman lækka sig um tvö sæti milli ára. Þeir voru án vafa spútniklið síðasta árs eftir að hafa misst nokkra lykilmenn, allflesta til Liverpool, en ná samt upp býsna góðu fótboltaliði. Þeir missa aftur stóra hlekki úr sinni keðju, Clyne auðvitað til okkar en Schneiderlin og Alderweireld eru síst minni skörð í þeirra leikmannahópi. Enn sem komið er hafa þeir ekki raðað nýjum mönnum í staðinn og lyklarnir því áfram þeir Fonte, Pelle, Vanyama og Bertrand. Ein breytan hjá þeim verður svo auðvitað þátttaka þeirra í Evrópudeildinni, þeir hafa ekki ýkja stóran hóp og það mun líka hafa áhrif. Níunda sætið sem er ásættanlegur árangur á suðurströndinni.

8.sæti: Everton 71 stig

Við teljum Blánefina nágranna okkar ná aftur inn á topp tíu eftir fjarveru þaðan nú í vor. Nú er engin Evrópa að þvælast fyrir þeim og það kunna þeir auðvitað vel við. Martinez gekk í gegnum sitt fyrsta mótlæti sem stjórinn þeirra í fyrra og hann vill ná fyrri hæðum á ný. Það mun þó mjög mikið hvíla á því að þeir haldi Lukaku, Stones og Baines út þennan mánuð sem alls ekki er sjálfgefið að takist. Ef þessir kveðja mun Everton fara neðar. Þeir hafa enn bara keypt einn leikmann sem þeir munu nýta en það er hann Tom Cleverley sem verður enn einn leikmaðurinn sem hefur leikið með báðum okkar verstu vinum og mun hann pottþétt fá fínasta baul á Anfield.

7.sæti: Stoke 76 stig

Áfram munu Stoke bæta sig og eiga möguleika á Evrópusæti með þessari frammistöðu ef spáin okkar gengur eftir. Mark Hughes hefur einfaldlega stimplað sig inn sem einn af mest spennandi stjórum deildarinnar og er að sýna að QPR tímabilið hans var frávikið en Man City og Blackburn líkara því sem horfa ætti til. Stoke hefur bætt drjúgt við sig í sumar og þá leikmönnum sem vilja færa boltann hratt eftir jörðinni svo að nú er í raun óhugsandi að þetta lið hafi verið skapað sem Úrvalsdeildarlið af Pulis. Þeir munu breyta um markmann eftir að hafa misst Begovic til Chelsea og sennilega er tími Jack Butland kominn á milli stanganna. Shawcross, Walters, Ireland, Crouch og Adam eru þarna ennþá og í sumar bættust m.a. Mark Van Ginkel, Glen Johnson og Joselu í þeirra hóp. Við höldum að þetta muni styrkja liðið enn frekar og vera það besta utan risanna sex. Erfiður fyrsti leikur semsagt.

6.sæti: Tottenham 91 stig

Þá erum við komin í efstu sex sætin og þau skera sig talsvert frá. Við teljum Spursmenn falla um eitt sæti frá í fyrra og fara niður í það sjötta. Það ræðst nú m.a. af því að þeir eru enn varla komnir inn á leikmannamarkaðinn og ef svoleiðis verður áfram munu þeir færast neðar töfluna. Margir frambærilegir fótboltamenn spila á White Hart Lane. Þar mun mestu máli skipta fyrir þá að halda Hugo Loris og Harry Kane í ágúst og að Eriksen eigi annað gott tímabil auk þess sem yngri mennirnir eins og Bentaleb, Rose og Dele Alli þurfa að stíga upp. Við teljum töluverðan mun vera á þeim og liðinu fyrir neðan og með styrkingu í ágúst gætu þeir farið ofar.

5.sæti: Liverpool 98 stig

Þá er það staðfest. Við tippum á það að liðið okkar verði enn utan Meistaradeildarinnar haustið 2016 þó það sé auðvitað með súru bragði í munni. Það eru margir vafaþættir uppi núna í byrjun móts og við getum ekki litið framhjá því að liðið okkar er fimmta dýrasta og fimmta launahæsta lið deildarinnar og þetta því rökrétt skref. Ef nýju mennirnir koma vel inní leik liðsins og sett verður í lekann í varnarleiknum munum við anda duglega niður hálsmál liðanna fyrir ofan okkur en á sama hátt gæti erfið byrjun og margir nýjir leikmenn valdið niðursveiflu og veseni. Það mun mikið mæða á Coutinho, Henderson og Skrtel auk þess sem nýliðarnir okkar verða mikilvægir, helst þeir Milner, Benteke, Clyne og Firmino. Vonandi rætist spáin ekki og við förum hærra.

4.sæti: Manchester United 104 stig

United semsagt verða áfram í meistaradeildarsæti en munu ekki fara í alvöru titilbaráttu. Þeir hafa fjárfest duglega í sumar og þá sérstaklega inn á miðjuna með kaupum á Schweinsteiger og Schneiderlin en eiga örugglega enn eftir að bæta við sig framherja eða framherjum enda tveir stærstu sóknarbitar þeirra frá liðnu sumri farnir auk Van Persie. Þeir eru líka í vondri stöðu með markmanninn og allt þetta mun leiða til þess að þeir gera ekki alvöru atlögu að titli en munu þó áfram halda okkur utan þeirrar keppni sem við þráum svo heitt. Þátttaka þeirra í henni nú í vetur getur hæglega haft áhrif á framgöngu þeirra.

3.sæti: Manchester City 105 stig

Hitt liðið úr borginni vondu, það ljósbláa nær með naumindum að slá granna sína neðar í töfluna og ná í tryggt Meistaradeildarsæti. Pellegrino er ekki að heilla okkur og Yaya Toure hefur elst býsna mikið á síðasta ári. Á móti eru þeir með frábæra sóknarmenn með Kun Aguero fremstan í flokki og með innkomu Raheem Sterling eykst hraðinn í sóknarleik þeirra ennþá frekar. Þeir hafa átt erfitt með vörnina sína undanfarin ár og þar sem þeir virðast ekki ætla að gera mikið í því þá teljum við þá ekki gera atlögu að Englandsmeistaratitlinum þó við viljum heldur ekki draga upp Dómsdagsspár fyrir þeirra hönd. Kaup á sterkari varnarmönnum í ágúst myndi gerbreyta stöðunni.

2.sæti: Arsenal 113 stig

Við erum að tippa á alvöru atlögu lærisveina Wenger og einn okkar spáir þeim titlinum. Arsenal var besta lið Englands frá febrúar í fyrra og þó aðeins ein kaup séu komin í sumar er það mikil styrking. Markvarslan hefur verið þeirra vandi í áraraðir en nú hefur hann verið leystur með kaupum á Petr Cech. Sóknarlínan var mjög góð með Alexis Sanchez fremstan í flokki og Jack Wilshere og Coquelin eru að verða dýnamískir á miðjunni. Mertesacker bætir upp skort á hraða með leikskilningi og reynslu sem er lykilatriði í varnarleiknum þeirra. Ef að Özil hrekkur svo almennilega í gang aukast líkurnar enn frekar og við teljum liðið í raun bara einum heimsklassa framherja frá því að vera með besta leikmannahópinn. Já. Arsenal eru komnir þangað.

1.sæti: Chelsea 119 stig

Eins ömurlegt og okkur finnst það þá tippum við á að lærisveinar Mourinho verji titilinn. Þetta er enn best skipaða lið deildarinnar þó þeir hafi litlu bætt við sig enn í sumar og leikmannahópurinn er þess eðlis sem Mourinho vill vinna með. Líkamlega sterkir reynsluboltar með mikla sigurhefð og passlegan hroka til að stjórna mulningsvél sem skilar titlum. Þeir eiga besta leikmann deildarinnar í Eden Hazard og það mun skipta máli í titilvörninni að hann verði áfram í gírnum sem og að Terry eigi enn bensín á tanknum. Við höldum að þeir muni styrkja sig með einni sóknartýpu áður en glugginn lokar sem mun ekki draga úr líkum þess að plastflöggum verði veifað í London í maí 2016. Við vonum þó auðvitað að þær ýfingar sem verið er að reyna að blása upp milli eigandans og stjórans séu raunverulegar því þá gæti alveg ýmislegt látið undan á Brúnni. En svona er það, þeir eru að okkar mati bestir og vinna enn á ný næsta vor.

Þar með er spáin komin og deildin má byrja!

Eftir helgi hendum við inn nokkrum atriðum sem við spáum um auk röðunar í deildinni, s.s. markakóng og því hvaða stjóri fer fyrstur. Meira þá!

33 Comments

 1. Mín spá er hér, svo því sé haldið til haga. Ég kaupi ekki þessa bjartsýni kollega minna í garð Arsenal og held að United verði fyrir ofan þá í vetur:

  1. Chelsea. Mourinho lagði áherslu á stöðugleika í sumar og þeir eru enn með besta liðið og besta stjórann. Erfitt að líta framhjá þeim hér.
  2. Man City. Ég kaupi ekki dómsdagsspár annarra. Eina sem gæti afvegaleitt þá eru slæm meiðsli Aguero en breiddin er slík að þeir droppa ekki mörgum stigum.
  3. Man Utd. Þeir styrktu miðjuna mikið í sumar og eru ekki hættir að eyða. Van Gaal gæti sprungið upp eins og hann hefur gert hjá öðrum stórliðum en ég býst við þeim sterkum og jafnvel í titilbaráttu í vetur.
  4. Arsenal. Þeir gera bara það sem þeir gera, hirða 3.-4. sætið með sín 75-80 stig. Ekki meira, ekki minna.

  5. Liverpool. Við erum besta liðið utan topp-4 síðasta vor og ef eitthvað af liðunum fyrir ofan okkur misstígur sig ættum við að vera nógu góðir til að nýta það. Það eru þó of mörg spurningarmerki við liðið og stjórann og of margir nýir leikmenn til að ég þori að spá blússandi velgengni. Liðið getur endað ofar en það þarf margt að ganga upp til að það gerist.
  6. Tottenham. Þeir eru að eiga lúmskt gott sumar. Alderweireld er mikill styrkur og það er frábært hjá þeim að halda Lloris og Kane. Ef Kane skorar eins og í fyrra verða þeir þarna uppi.
  7. Everton. Ég held að þeir komi upp aftur í vetur, lausir við Evrópudeildina og hafa styrkt sig í sumar.
  8. Stoke. Mark Hughes hefur unnið gott starf þarna, þeir hafa ekki náð að styrkja sig eins og þeir vildu í sumar en verða góðir í vetur.

  9. Swansea. Á svipuðum stað og í fyrra, um miðja deild.
  10. Newcastle. Þeir hafa gert góð kaup í sumar og Steve McClaren verður ákveðinn í að sanna sig á ný í efstu deild.

  Annars virðist 5. sæti vera consensus milli Liverpool-stuðningsmanna í sumar. Síðast þegar við sem heild spáðum Liverpool utan topp 4 vann liðið næstum því titilinn. Vonum að það reki þessa spá jafn harkalega upp í okkur líka. 🙂

 2. For the record þá spáði ég Liverpool í 4. Sæti og City í 5. Sæti. Það eru hinir Svartsýnispennarnir sem draga LFC niður.

 3. Röðunin verður…
  1.Liverpool – liðið mun fara á run sem engan endir tekur
  2.Arsenal – komið að Arsenal loksins en þeir missa af lestinni í lokaumferðinni
  3.Man City – eiga liklega eftir að eyða 100 milljonum punda áður en tímabilið byrjar
  4.Chelsea – það fer allt í baklás hjá Chelsea, rifrildi, framhjáhald, fyllerí og Roman fer í fýlu
  …aðrir minna

 4. Gaman af þessu og ég er sammála topp 6.

  Eins og vanalega gerist margt óvænt hverja leiktíð. Ég er nokkuð viss um að baráttan um titilinn verði milli Chelsea og Arsenal. Bæði lið eru að halda sama kjarna og í fyrra nema hvað að Arsenal styrkir þá stöðu sem er búið að vera veikleiki hjá þeim lengi, markamannsstöðuna. Ef Arsenal fær svo einn svaka framherja eins og Benzema þá er ég alveg tilbúinn að setja þá í topp sætið.

  Ég held að Manchester borg mun síðan bítast um 3-4 sætið. Bæði þessi lið gætu þó lent í veseni eða komið á óvart. Rétt eins og hjá okkar mönnum þá eigum við alveg eftir að sjá hvernig nýju kaup United koma inn í liðið. Einnig þykir mér forvitnilegt að sjá hvað þeir gera varðandi De Gea og einnig varðandi framherjastöðuna. Ef Rooney meiðist eru þeir ekki með nærrum jafn öflugan striker til að taka við keflinu. United gæti alveg barist um 1-4 sætið en þeir gætu líka alveg dottið í baráttu um þetta 4. sæti.

  City þykir mér líka forvitnilegt case. Ef orðrómurinn um Gardiola er sannur er spurning hversu “driven” Pellegrini verður í vetur. Einnig þykir mér þetta vera heldur gamalt lið, sérstaklega því aftar sem þú ferð á völlinn. Ef Aguero meiðist er spurning hver mun leiða framlínuna. Það að vera með fljúgandi vængmenn og David Silva mun ekki endilega eitt og sér skora mörk. Svo er spurning hvort Kompany og Yaya Toure ætli að nenna þessu í ár. Ef þeir gera það getur City unnið deildina, ef ekki gætu þeir lent í veseni.

  Svo er það Liverpool. Ég hef aldrei verið jafn svartsýnn fyrir leiktímabili og ég er núna. Ég sé okkur ekki enda ofar en 5. sætið nema þá að önnur lið fyrir ofan okkur floppi. Það verður ekki vegna þess að við vorum svo góðir.
  Þessi byrjun verður hrikalega erfið! Liðin sem þið spáið topp 7 eru þau lið sem við mætum á útivelli fyrst, ÖLL!! Stoke, Arsenal, United, Everton, Tottenham, Chelsea, City. Þess á milli eigum við 7 heimaleiki við Southampton, Villa, West Ham, Norwich, Bournemouth, Palace og Swansea. Við erum aldrei að fara vinna alla þessa heimaleiki en hinsvegar gætum við tapað öllum þessum útileikjum! Ég sé fyrir mér að við gætum verið með 21 stig í desember byrjun þegar 15 umferð er leikin, 6 sigrar, 3 jafntefli, 5 töp. Það þýðir að við verðum líklega í 7 til 10 sæti í desember.

  Verði þetta raunin mun pressan vera gífurleg á Brendan. Eins og við vitum þá skiptir momentum öllu máli og við megum ekki falla í grifju eins og í fyrra þar sem sjálfstraustið var lélegt og eftir fylgdi jafntefli heima við Hull, tap úti gegn Newcastle, tap úti gegn Real, tap heima gegn Chelsea og tap svo úti gegn Palace.

  En við vonum það besta og tökum einn leik fyrir í einu. Ég vona að Brendan fái vinnufrið allavega fram í Desember. Ef hann er með í brókunum þá vil ég sjá hvað Klopp segir í desember.

  Annars hlakka ég til að byrja. Þessi leikur gegn Stoke er svo fáranlega mikilvægur! Það er nauðsynlegt að vera með 6 stig þegar við mætum á Emirates ásamt því að hefna fyrir það sem gerðist í maí.

  Nú er KA búið að valda mér vonbrigðum í sumar og því komið að Liverpool að fylgja í kjölfarið.

  #YNWA
  #NeikvæðiVagninn

 5. Fuss og svei. Ég segi nú bara eins og hún amma mín. Fuss og svei. Hún amma mín sagði að maður ætti alltaf að spá sér og sínum í fyrsta sæti. Þannig öðlast maður trúna. Ég spái Liverpool 1. sæti. Fuss og svei.

 6. Samála top 6.

  Við erum á pappír 5.besta liðið og það er því rökrétt að spá okkur þar og halda væntingum á réttum stað. Við sem eru búnir að fylgjast með þessu í tugi ára vitum samt að allt getur gerst

 7. Sæl og blessuð.

  Þetta verður djúsí en dugir skammt þótt liðið okkar fái aukin bætiefni ef hinir stíga stór stökk fram á við.

  Arsenal hafa verið í púpunni í áratug en nú skríða þeir út úr henni og virðist fiðrildið til alls líklegt. Chelsea er eins og þýska landsliðið – eða öllu heldur, þýsk bílafabrikka. Þetta er allt svo sólídd og töff og auðvitað rándýrt. Svo þegar kemur að rauðu skröttunum er það þessi Sch-faktor, þar sem þeir eru í óða önn að reisa varnargarða og stíflur sem flókið verður að komast í gegnum. Er einhvern veginn ekki svo spenntur fyrir miðbæjarrottunum í mansésterborg. Held að þeir verði fölir hið innra sem hið ytra og ef sú verður raunin er aldrei að vita nema að fjórða sætið bíði okkar.

  Mögulega verður það okkur til framdráttar að liðin fjögur fyrir ofan okkur muni ná lengra í Meistaradeildinni en þau gerðu í fyrra. Þetta var nú hvorki fugl né fiskur í fyrra og lýsir vel ástandinu á PL, hversu léleg liðin voru í hinu evrópska samhengi. En þau voru þá ekki eins lúin undir það síðasta. Við verðum svo sem ekki á neinni sólarströndu.

  Æ, ég vona að nú taki við bjartari tímar. Ég trúi ekki öðru en að Evrópudeildin okkar bjóði upp á sjálfstraustsaukandi sigra og að bikarmótin eigi eftir að skila einhverju gylltu og gljáandi.

  Ég bæti því við spána sem hljóðar svo:

  4. sætið bíður okkar í deildinni. Arsenal vinnur, Chelsea verður nr. 2 og MU nr. 3.
  Dettum út í undanúrslitum gegn DnoprGnip (eða eitthverju slíku) í Evrópudeildinni
  Vinnum litla bikarinn, sem við unnum þarna um árið í úrslitaleik við Bournmouth.

  Ekki amalegt tímabil þar?

  Hvar góna annars kop-verjar á leiki í höfuðborginni þetta tímbilið?

 8. Einar Örn (#2) segir:

  For the record þá spáði ég Liverpool í 4. Sæti og City í 5. Sæti. Það eru hinir Svartsýnispennarnir sem draga LFC niður.

  For the record þá var ég nær því að spá okkur niður í 6. en upp í 4. Finnst Tottenham nær okkur en við nálægt 4. sætinu.

  En það er bara ég. 🙂

 9. My 5 cents.

  Ég spái því að Arsenal standi uppi sem sigurvegarar í vor, næsta örugglega.

  Mér fannst Chelsea vera oft ansi heppnir í fyrra, mjög margir 1-0 sigrar og byrjunin var ævintýralega góð með Costa í rugl formi. Ég held að þeir verði ekki svona heppnir í vetur og berjist við ManU um 2 sætið. City tekur svo fjórða.

  Við rekum BR í Desember eftir verstu byrjun í manna minnum. Það stendur ekki steinn yfir steini og klopp tekur við um áramót.

 10. Liverpool aðdáendur verða allavega ekki sakaðir um að halda því fram að þetta tímabil sé “okkar tímabil”.

 11. Mér sýnist að spá manna á Kop.is sé ansi raunhæf. Þó held ég að Arsenal verði fyrir ofan þá dökkbláu á Stafnfurðubrú og Þeir ljósbláu í Manstekkieftir borginni verði þar fyrir ofan. Grasmaðkurinn Eden Hazard mun ekki ná vopnum sínum en það mun hinn grasmaðkurinn Kun Aquero gera og Pellegrini verður brosmildur og kyssir Sterlingspundið sitt.

  Baráttan um fjórða sætið mun verða hörð og öllum til undrunar verður Everton inni í þeirri baráttu langt fram eftir vetri en þröngur hópur mun að lokum eyðileggja möguleika þeirra. Totten ham mun byrja vel og vinna MU í fyrstu umferð. Barátta Liverpool um þetta sæti verður því við Everton, Tottenham og MU og vandséð hver hlýtur hnossið.

  Þó ég hafi viljað losna við Brendan í vor vona ég að hann geri okkur alla að fíflum í vetur, þá sem vildu hann burtu. Ef okkar menn vinna Stoke djókið (sem vel að merkja er ekkert djók lengur) í fyrstu umferð þá eru allar líkur á að við hreppum hnossið. Ef hinsvegar við töpum þeim leik verður liðið í 5. til 8. sæti í des. og veru BR hjá LFC lokið fyrir jól. Takið eftir þetta er spádómur sem þið félagar skulið hafa í huga alla leiktíðina því tap á sunnudaginn þýðir að við náum ekki meistaradeildarsæti.

  Góðar stundir

 12. Er það spádómur að taka meðaltal síðustu ára og segja að við lendum í meðaltalinu þetta árið? Er það ekki bara einhver tölfræði fremur en fótboltaspekúlasjónir?

  Já já ég veit fimmti dýrasti hópurinn aka Tomkins og allt það. Finnst menn verða horfa í fleira heldur en hráa tölfræði. Ég vona að þetta sé flóknara samspil en menn halda annars er bara varla gaman af þessu.

  Bara smá pæling.

  Ég spái Liverpool í topp 4 og þetta er galopið.

 13. Ég vona að þetta sé flóknara samspil en menn halda annars er bara varla gaman af þessu.

  Ég held að við séum nánast alltaf eins langt frá því að spá rétt og hægt er mögulega.

  Daníel heldur utan um þá tölfræði og jarðar okkur þannig árlega.

 14. Við erum svosem ekki á neinni byltingarkenndri línu, mér sýnist hreinlega allir spá okkur þessu 5.sæti núna í haust. Hef eiginlega ekki séð annað sæti úthlutað okkur í spám.

  Ég byggði mína spá á því að mér finnst leikmannahóparnir fyrir ofan okkur allir vera sterkari og ekki síður, betur samstilltir frá byrjun móts. Þó viðurkenni ég aukna bjartsýni með hverjum deginum að starfsaðferðir Louis Van Gaal séu bara alls ekki að virka hjá United og þá er innkoma að komast uppfyrir þá.

  Við höfum verið á allskonar slóðum með þessar spár okkar, við vorum allar í Meistaradeildarsætinu í fyrra og sumir spáðu titlinum svo að ég held nú að við séum ekki endilega að horfa bara á tölfræði heldur bara miklu frekar pæla í því hvað “maginn” segir okkur í hvert sinn.

  Svo auðvitað skiptir það máli að við séum búnir að vera einu sinni í Meistaradeildarsæti síðustu fimm ár. Hefðin er ekki lengur með okkur og það hjálpar manni ekki í bjartsýninni einhvern veginn.

  Ég ítreka vonir mínar um að öll “ef” – in hjá klúbbnum fari í jákvæðu áttina og þá er margt mögulegt.

 15. Er vitanlega á 5 sætis vagninum ásamt flestum. Það helgast frekar af því að ég hef takmarkaða trú á Brendan Rodgers frekar en að andstæðingarnir séu svona ógurlegir.

  Nú fylgist ég óreglulega með fótboltafréttum yfir sumarið og glugginn er vitanlega galopinn en er ekki punktstaðan ekki einhvern veginn svona?

  Lítið að gerast hjá Chelsea nema að þeir styrktu sinn helsta keppinaut, Arsenal, myndarlega með því að gefa þeim einn besta markmann heims. Jú, svo er Diego Costa illa meiddur og John Terry verður 35 ára bráðum.

  ManCity keypti vonarstjörnuna Sterling sem þrátt fyrir ungan aldur lækkar meðalaldurinn í City ekki að neinu ráði. That’s about it nema ef menn telja Fabian Delph gera einhvern gæfumun. Er einhver á því? Hefur virkilega einhver trú á City til afreka innst inni með þessa hjörð málaliða sem eru kannski ágætir í fótbolta en hafa litla sem enga ástríðu fyrir félagið sitt?

  ManU hrúgar inn fínustu miðjumönnum sosum en tveir af bestu leikmönnum heims, De Gea og Di Maria, færu heldur til Sindra á Hornafirði en að spila lengur fyrir félagið. Jú, svo á Rooney gamli að skora 30 mörk í vetur af því að sóknarmennirnir eru flestir farnir eitthvað. Mér er nákvæmlega sama per se en væri ég ManU dúddi litist mér ekkert sérstaklega á blikuna nákvæmlega núna.

  Nú á margt eftir að gerast en er virkilega svo mikið að óttast ef Liverpool nær vopnum sínum?

  Arsenal er liðið sem virðist vera að gera allt rétt. Frábært jafnvægi í liðinu með Chech og Benzema sem kemur líklega um helgina.

  Önnur lið eru ekki að gera sérstakan glugga held ég enn sem komið er og alls ekki umfram Liverpool.

 16. Skil ekki alveg þessa ofurtrú á United af flestum spekingum, að missa De Gea verður algjör blóðtaka fyrir þá og svo er varnarleikurinn hjá þeim slæmur ennþá. De Gea hélt þeim á floti seinast. Eins og er eru þeir frekar fámannaðir fremst en þeir eru alltaf að vera kaupa einhvern alvöru framherja. Annars held ég EF Arsenal ná Benzema verði þeir meistarar.

 17. Lúðvík Sverris, þú getur alveg drepið mann. 🙂

  Liverpool kemur á óvart og verður í toppbaráttu, ekki spurning.

 18. Smá útúrdúr…

  James Milner orðinn vara-kafteinn.
  Kemur ekki á óvart.

 19. Auðvitað eru okkar menn líklegastir til að enda í 5 sæti. Finnst okkur vanta einn 20 -30 milljon punda miðjumann i viðbót til að gera harða atlogu að hinum liðunum fyrir ofan okkur en auðvitað getur allt gerst.

  Eigum svakalega erfitt utivallarprogramm fyrstu 7 leikina og ef okkar menn skita a sig þar þa er seasonið ónýtt að minu mati.

  Maður er samt spenntur eins og alltaf og okkar menn verða að byrja a sigri gegn stoke og ekkert annað kemur til greina.

 20. Hvernig er það, spáðu þið snillingar okkur ekki titlinum í fyrra? Það fór helvíti vel….vonandi verður þessi spá jafn vitlaus.

 21. Örn nr. 22 – Liverpool var í öðru sæti skv. spá kop.is fyrir 2014/15.

  Hvað varðar mitt atkvæði þá var þetta á þessa leið:

  1) Chelsea

  Óþolandi frábært lið með óþolandi frábæran þjálfara. Voru langsterkasta liðið í fyrra og það þrátt fyrir að Costa væri mikið meiddur. Sé þá ekki gefa titilinn frá sér.

  2) Arsenal

  Arsenal er hætt að selja sína bestu menn á hverju sumri. Farnir að kaupa stórt og það kalla sem labba inn í þegar sterkt byrjunarlið. Nú hafa þeir bætt um betur og (loksins) keypt heimsklassa markvörð einnig, að fá Cech fyrir aftan þá þegar einu sterkustu vörn síðasta tímabils er ótrúlegt sterkt. Sýndu það á síðustu leiktíð að þeir geta vel unnið stóru leikina eitthvað sem hafði verið stórt spurningarmerki eftir leiktíðina 2013/14. Þeir verða í titilbaráttu allt til loka.

  3) Man Utd

  Spái þeim þriðja sæti en það er byggt á því að þeir klári kaup á alvöru sóknarmanni og hugsanlega miðverði. Þeir fara aldrei inn í tímabilið með Rooney sem nánast eina striker-inn og munu kaupa stórt áður en glugginn lokar. Komnir með eina bestu miðju deildarinnar, LVG er með eina leiktíð undir beltinu og allt stefnir í að þeir haldi De Gea. Verða mun nær toppsætinu en því fimmta.

  4) Man City

  Hef bara ekki trú á Pellegrini. Virðist vera mjög þrjóskur á 4-4-2 sem varð honum að falli í fyrra. Toure er árinu eldri, virkar ekki á mig sem líkamstýpan sem getur spilað á hæsta stigi lengi eftir þrítugt. Toppaði 2013/14, slakur í fyrra og mun ekki ná sömu hæðum aftur. Sterling verður flottur þarna en það dugar ekki til. Verða í fjórða sæti og Pellegrini missir starfið.

  5) Liverpool

  Enn og aftur kaupum við hálft byrjunarlið. Það eru stór spurningarmerki við liðið okkar, leikmenn og þjálfara. Leikmenn sem spiluðu frábærlega 2013/14 voru hörmulegir í fyrra – hvor spilamennskan er nær þeirra getu? Höfum selt þrjá af fjórum markahæstu leikmönnum okkar síðustu tveggja tímabila á s.l. 2 árum og sá fjórði er alltaf meiddur. Það er ekki hægt að kaupa X marka menn hjá klúbbi Y og halda að þeir skili sama fjölda marka hjá Liverpool. Ég er ekkert seldur á Benteke ennþá, Milner er flottur en Firmino er spurningarmerki.

  Sóknarlína okkar mun líka samanstanda af nýjum leikmanni í Benteke sem hefur aldrei spilað fyrir stærra félagslið en fallbaráttulið í EPL (Aston Villa), Firmino sem er að spila fyrir langstærsta félagsliðið á ferlinum og það í nýju landi. Coutinho sem er frábær á sínum degi – gallinn er bara að hans dagar eru ekki nægilega margir, þarf að fara sína stöðugleika. Næstir inn? Lallana sem var flottur hjá Southampton, Ibe sem er bara krakki og Markovic sem ég er tilbúin að leggja ansi mikið undir að meiki það aldrei í Liverpool treyju.

  Það sem hræðir mig mest er að það eru jafnvel stærri spurningarmerki við vörn liðsins en sókn. Lovren stefnir á að verða einn slakasti miðvörður Liverpool síðan Kvarme var í Bítlaborginni. Skrtel er bara Skrtel, samnefnari í skelfilegri vörn síðustu ára, Sakho er örlítið skárri en Sturridge í meiðslamálum, Moreno getur ekki varist og Clyne er að spila fyrir sitt langstærsta félag á ferlinum. Þar fyrir aftan? Mignolet. Get ekki svarað hvort það sé ágætis Mignolet eða sá skelfilegi.

  Það er margt sem þarf að ganga upp hjá okkar mönnum svo við förum ofar. Alls ekkert útilokað. Eigum alveg inni að 50%+ af kaupunum okkar slái í gegn eftir hörmung síðustu ára.

  6) Tottenham

  Hef trú á Pochettino, held bara að liðin fyrir ofan séu sterkari. Erfitt bil að brúa. Eru engu að síður með frábært lið – maður spyr sig samt, getur Kane þetta aftur? Ef ekki, hver á þá að skora mörkin?

  7) Everton

  Trúi því ekki að þeir verði aftur jafnóheppnir með meiðsli og á síðustu leiktíð. Eiga Lukaku, Barkley og Mirallas nánast alveg inni frá því í fyrra. Komnir með betra cover fyrir Barry/McCarthy í Cleverly. Verða mun sterkari í ár.

  8) Swansea

  Monk að gera flotta hluti. Eru skynsamir á markaðnum og virðast ávalt bæta sig á milli ára.

  9) West Brom

  Tony Pulis klikkar ekki. Nær ávallt árangri.

  10) Crystal Palace

  Búnir að kaupa stórt, voru flottir undir stjórn Pardew þó ég hefi nú ákveðin spurningarmerki við hann sem stjóra. Eru að byggja upp nokkuð skemmtilegt lið.

 22. Svona úr því maður er spurður – þá ætla ég að koma með top 6.

  1. City
  2. Chelsea
  3. Arsenal
  4. Man Utd
  5. Liverpool
  6. Tottenham

 23. Ekki líst mér á þetta maður !!! Ef enginn hefur meiri trú á Liverpool en þetta ! ! 5 sæti ?? Common búnir að versla flottan mannskap og trúin er ekki meira en þetta !! Spáir segja að Liverpool ná ekki meistaradeildarsæti. Ja hérna. Eiginlega var ég að vonast eftir meiru. En sjáum til hvernig þetta endar vorið 2016.

 24. Hinn afar jákvæði og bjartsýni ég skellti Liverpool í 3.sætið á undan Manchester United sem endar í 4.sætinu og City í 5.sætinu. Hef óþægilega góða tilfinningu fyrir okkar mönnum. Við leystum að mér finnst okkar vandræða stöður nokkuð vel í sumar. Fáum mikinn og spennandi sóknarkraft í liðið og það stefnir í að Sturridge verði klár fyrr en seinna. Við getum því verið með tvo brasilíska sóknartengiliði, spennandi unga sóknarmenn, miðjumenn með mörk í sínum leik og tvo framherja sem gætu náð 15-20 mörkum ef þeir spila nógu mikið – af hverju á maður ekki að vera bjarstýnn yfir því?

  United og City voru ekki það langt á undan Liverpool í fyrra og fannst mér loka staðan í deildinni ekki gefa rétta mynd af bilinu á milli. Við vorum í dauðaséns á að ná og komast jafnvel yfir bæði liðin en höfðum ekki púðrið í það. City fá öflugan bita í Sterling en hafa verið að selja og ekki bæta það miklu við sig á meðan að United hefur styrkt miðjuna sína mjög mikið en sókn og vörn kannski enn spurningarmerki – tala nú ekki að þeir missa Di Maria og hugsanlega De Gea svo þeir gætu alveg farið one step forward, one step back.

  Er bjartsýnn með kannski smá votti af óraunsæi og of miklum væntingum en so be it. Southampton endar í 6.sætinu á undan Tottenham og Stoke, West Ham og Swansea verða þar rétt á eftir.

 25. Ég hata það þegar Livepool er spáð svona slæmu gengi. Ég set Liverpool á toppinn. Í vor kemur í ljós hvort það verða vonbrigði eða fagnaðaröskur fram á næsta haust.:)

 26. Èg skal lofa ykkur því að Liverpool endar ofar en í 5 sæti ! ! ! !:-)

 27. Liverpool mun vinna deildina með 114 stig, ekki fá á sig mark í allan vetur með Dejan Lovren sem stifbónaðan kóng í vörninni og enda tímabilið með markatöluna 88-0. Einnig mun Brendan Rodgers leysa deiluna milli Palestínumanna og Ísraela með einni af sinni afburða frábæru ræðum.

  Þið lásuð það fyrst hér.

 28. Jæja, ég verð að byrja á að biðjast afsökunar á að hafa ekki komið með samantekt á spádómsgáfum Kop.is manna eftir tímabilið 2013-2014, en nú er ég búinn að taka það saman, ásamt niðurstöðum síðasta tímabils.

  Ég byggi á gögnum úr bloggpistlunum og kommentakerfinu, og ákvað núna að bæta við tölfræði hjá einstökum Kop.is pennum, svona eftir því sem þau gögn eru til fyrir 2 síðustu ár (ég var víst búinn að lofa að vera ekkert að skoða þær tölur í eldri spádómum….)

  Niðurstöður fyrir tímabilið 2014-2015 eru þær, að spá Kop.is penna í heild sinni er með frávik upp á 2.6. Mesta frávikið var á Crystal Palace, eða 7 sæti. Það náðist að spá rétt fyrir um Chelsea og Swansea.

  Einstakir pennar raðast á eftirfarandi hátt:

  * Kristján Atli: 2.8
  * Ólafur Haukur: 2.8
  * Babu: 2.9
  * SSteinn: 3.2
  * Eyþór: 3.2

  Þá að tímabilinu 2013-2014. Spá Kop.is penna í heild sinni var þá með frávik upp á 2.8. Crystal Palace hafði þar aftur mestu neikvæðu áhrifin, með frávik upp á 9. Hins vegar náðist að spá rétt fyrir um sæti hjá City, Arsenal, Tottenham og Southampton sem var óvenju gott. Einstakir pennar voru með eftirfarandi frávik:

  * Babu: 2.6
  * SSteinn: 2.9
  * Kristján Atli: 3.0

  Samtíma heimildir er ekki að finna um spár hinna pennanna.

  Þess má einnig geta að gögnin er að finna hér:

  https://docs.google.com/spreadsheets/d/1ATWJ7OfiwCffto9hCMwAO-0nE5MxR7kR8iyZsUFeOAc/pubhtml

  Lesendur mega endilega rúlla yfir gögnin og benda á allar þær villur sem þar kunna að leynast. Svo er aldrei að vita nema það sé hægt að veiða fleiri áhugaverðar tölur út úr þessum gögnum.

 29. Já þið segið þetta…

  “ef”-in eru náttúrulega ótal mörg. Mér hefur þótt Brendan Rodgers heldur naívur á útivöllum gegn sterkum liðum og ekki náð í mörg stig þar. Ef það heldur áfram þá er spá Birkis Arnar KA-manns ansi líkleg. Að þetta verði erfið byrjun á snúnu tímabili.

  Lið Rodgers hefur alltaf náð góðu rönni á tilteknum hlutum tímabila. Við megum ekki gleyma því að á þessu slæma tímabili í fyrra var miðkafli þar sem liðið vann allflesta leiki sína og lagði þó grunn að 6. sætinu. Ef liðið nær að lengja slíkt rönn, t.d. frá umferð 16 – 38, ná kannski að vinna 17 leiki af 22 á seinni hluta tímabilsins, þá bætast við 51 stig við þau 21 sem Birkir Örn spáir, alls 72 stig. Og kannski 3 jafntefli, 75 stig. Hvert það fleytir okkur verður annað hvort fjórða eða fimmta sæti deildarinnar.

  Ég tek líka undir með mönnum að City og United eru í meiri vanda en Arsenal og Chelsea, en Chelsea og Moaninho eru þeirri gáfu gæddir að allt getur sprungið í loft upp á no time. Vonum bara að það gerist.

  Hitt er svo annað, hvort Brendan Rodgers nái að halda trú stjórnenda og stuðningsmanna á sér og hópnum eða hvort hann verði rekinn fyrir jól eins og sumir hérna telja.

  Þegar allt kemur til alls þá mun kvíðahnúturinn losna á morgun, hvort hann breytist í gleði eða pirring kemur í ljós, en leikurinn á morgun er allavega ofboðslega mikilvægur fyrir framhaldið.

 30. EF ÉG MÁ ! Þá held ég að Arsenal muni vinna deildina á þessu ári. Kveðja Spesfróður. Sá sem telur sigur Arsenal vísan.

 31. Mín spá:

  1. Chelsea
  2. Arsenal
  3. Manchester city
  4. Liverpool
  5. manchester united
  6. Southampton
  7. Swansea
  8. Tottenham
  9. Stoke
  10. Everton
  11. Crystal palace
  12. West ham
  13. Aston villa
  14. WBA
  15. Bournemouth
  16. Newcastle
  17. Leicester
  18. Sunderland
  19. Norwich
  20. Watford

  Ég get ekki ímyndað mér að þetta united lið komist í Meistaradeildarsæti þannig að Liverpool hlýtur að ná fjórða sætinu. Reyndar spái ég að Liverpool verði bara með 1 stig eftir þrjár umferðir en síðan fer að rætast úr þessu.

  Gaman að segja frá því að þegar ég raðaði liðunum niður á blað eftir minni, þá gat ég ekki með neinu móti munað nema nítján lið. Þegar ég googlaði það fann ég það loksins – það var Everton sem vantaði.

Spá Kop.is – fyrri hluti

Stoke á sunnudag