Spá Kop.is – fyrri hluti

Eins og síðustu ár ætlum við félagarnir að raða upp okkar spá fyrir deildina í heild komandi vetur.

Uppröðunin er orðin klassísk, við röðum liðum frá 1 – 20 og fá þau stig í öfugri röð miðað við sæti…semsagt lið sem hver spáir 1.sæti fær 20 stig en það neðsta 1 stig. Við fengum töluspár frá 6 pennum svo að hæsta mögulega tala liðs er 120 stig og lægsta mögulega er 6 stig. Ef að lið eru jöfn að stigum fer það ofar sem fær hæsta sætið í heildina af okkur sex.

Í dag ætlum við að fara í neðri hlutann og pistillinn lesist að ofan og niður, þ.e. 20.sæti fyrst og við endum á 11.sæti…svo á morgun kemur topp tíu.

20.sæti: Watford 11 stig

Sennilega kemur það ekki mikið á óvart að nýliðar Watford reka lestina hjá okkur. Þetta lið í úthverfi London hefur átt býsna skrautlega sögu af þjálfara- og leikmannaskiptum þar sem stór hluti leikmannahópsins er iðulega að láni annars staðar frá. Þeir koma til leiks með nýjan stjóra í Quique Flores og eru að safna sér minna þekktum nöfnum. Það er víst býsna skemmtileg stemming á vellinum þeirra og það eru fínir leikmenn þarna, Troy Deeney og Matej Vydra helst til að nefna, en þarna reiknum við með rússibana og mögulega allt að fjórum stjóraskiptum áður en fallið verður staðreynd næsta vor.

19.sæti: Norwich 19 stig

Það eru aðrir nýliðar, jójóKanarífuglarnir hennar Deliu Smith sem fá úthlutað næstneðsta sætinu hjá okkur. Eftir dapra byrjun síðastliðið haust drifu þeir í stjóraskiptum og réðu ungan og lítt reyndan Skota, Alex Neil að nafni, sem stjórann og reiknað var með að uppbyggingarfasi hæfist enn á ný. Skemmst er frá að segja að liðið rauk í gang og stóð uppi sem Úrvalsdeildarlið enn á ný. Okkur finnst stjórinn spennandi og það eru þarna leikmenn sem vert er að skoða eins og Wes Hoolahan, Ricky van Wolfswinkel og okkar eigin Andre Wisdom en við teljum einfaldlega deildina vera of stóran bita fyrir þá og jójóið haldi áfram.

18.sæti: Bournemouth 21 stig

Þá semsagt eins og stundum áður þá spáum við öllum nýliðunum falli en þó verði Bournemouth næst því að bjarga sér og sumir okkar telja það verði veruleikinn. Það er algerlega vegna stjórans Eddie Howe sem hefur náð frábærum árangri með þetta lið sem verður sannkölluð “Öskubuska” í þessari deild með sinn 12500 manna völl og fjárhagsáætlun sem talin vera um 3% af áætlun risanna í deildinni. Það er fátt um nöfn sem við þekkjum í dag enda liðið sannkölluð hópsál. Þeir hafa þó verslað nöfn í sumar sem þeir ætla stórt hlutverk í því að halda sér uppi. Menn eins og Max Gredel, Sylvain Distin og Christian Atsu. En sorry Babú okkar…þeir munu falla.

17.sæti: Leicester 27 stig

Það lið sem verður næst því að falla eru refirnir frá Leicester. Þeir áttu frábæran kafla frá síðustu áramótum sem tryggði veru þeirra í deildinni undir stjórn Nigel Pearson en á leiðinni rakst hann reglulega á eiganda félgasins (haldið ykkur) Vichai Srivaddhanaprabha og eftir ansi skrautlegt lokaferðalag liðsins sem endaði með brottrekstri þriggja ungra leikmanna ákvað Sri…. (þið vitið hvern ég meina) að nóg væri komið milli þeirra, rak Pearson og réð gamla refinn Claudio Ranieri til starfa. Breytingar hafa orðið í leikmannahópnum, þeir misstu mikið þegar Cambiasso kvaddi og þeir eru ekki búnir að ná þeim bitum sem þeir ætluðu sér en með leikmenn eins og Jamie Vardy, Wes Morgan og Marc Albrighton þá mun liðið spjara sig.

16.sæti: Sunderland 35 stig

Lærisveinar Dick Advocaat munu sigla lygnan sjó og halda sætinu enn eitt árið. Líkt og hjá Leicester var það endaspretturinn sem bjargaði þeim í fyrra og þeir hafa sagst ætla að halda áfram á sömu braut nú í haust. Sunderland er lið með fullt af þekktum nöfnum víðs vegar úr Evrópu sem virðast eiga erfitt með að mynda liðsheild. Þeir keyptu Coates frá okkur eftir lánið í fyrra og hafa nú bætt Yann M’Vila í sinn hóp ofan á nöfn eins og Pantimilion, Defoe, Rodwell, Larsson og fleiri slíkra. Hvort að þetta sæti mun duga til að gleðja þarna í norðaustrinu kemur í ljós en þeir munu verða áfram í deildinni haustið 2016.

15.sæti: Aston Villa 35 stig

Villamenn taka 15.sætið á markatölunni miðað við okkar spá þar sem þeir fá hærri spá en Sunderlandmenn. Taktíski Tim tók við þeim og náði fínu út úr liðinu, kom því í úrslit FA bikarsins og í örugga höfn en nú er að sjá hvað hann gerir í framhaldinu. Þeir munu verða í fallbaráttu og stærsta verkefnið þeirra verður að leysa af bæði helsta markaskorarann sem er nú nían okkar og síðan fór fyrirliðinn þeirra til City og það hjálpar þeim ekki. Kaup á Rudy Gestede og Micah Richards kannski segja okkur alveg hvernig stefnan á klúbbnum er og við höldum Tim ekki muni eiga inneign fyrir öllum hans frösum. Lykilmenn verða Agbonlahor enn eitt árið og svo Senderos og Westwood aftar á vellinum. Skemmtilegt verður þó að fylgjast með framþróun Jack Grealish í vetur.

14.sæti: West Ham 46 stig

Slaven Bilic kominn í stað Sam Allardyce en hvað annað mun breytast? Við höldum ekkert, hann hefur ekki alveg náð að heilla okkur heldur í fyrstu leikjum Evrópudeildarinnar og sú ákvörðun að ætla láta hann taka næsta skref virkar ekki traustvekjandi á okkur. Veturinn er tímamótavetur í sögu félagsins sem mun loka Upton Park vellinum í maí og halda á Ólympíuleikvanginn frá hausti 2016. Því miður höldum við að upp á lítið verði haldið í Austur London og þegar maður horfir á lykilmenn eins og Kevin Nolan, Marc Noble og Diego Poyet þá held ég að augljóst sé að sjá af hverju. Þó er töluvert slúðrað þessa dagana um “stór” leikmannakaup hjá þeim…og þá gæti mögulega horft til betri vegar. En annars ekki.

13.sæti: WBA 46 stig

Aftur er það markatalan sem skilur, nú hleypir hún lærisveinum Tony Pulis ofar en ella. Hann er auðvitað ástæða þess að við teljum liðið vera á lygnum sjó í deildinni, hann einfaldlega fellur ekki en fer ekki mikið upp miðjuna og það dugar klárlega á The Hawthorns. Kaupin á Lambert munu virka með Berahino og þeir munu skora mörk saman og Darren Fletcher, Joleon Lescott og Jonas Olsson munu sjá til þess að þeir fá temmilega mörg á sig. Árangursríkur og leiðinlegur fótbolti í boði Tony Pulis. Við hlökkum víst aldrei til leiks við hans lið.

12.sæti: Crystal Palace 54 stig

Talandi um lið sem við fílum ekki að spila við, þetta Lundúnalið er að verða heilmikill pirringshnútur í okkar fótboltaheila eftir vond úrslit undanfarin ár. Alan Pardew virðist vera algerlega smjörið á þeirra rúgbrauð og það eru einfaldlega margir hundgóðir fótboltamenn í þessu liði. Ofan á menn eins og Hangeland, Bolasie, Saha og Jedinak hafa bæst gæðaleikmenn eins og Yohan Cabaye, Conor Wickham og Patrick Bamford. Selhurst Park mun vera háværasti völlur deildarinnar þar sem stemmingin er mest og hún verður býsna oft ansi góð í vetur. Liðið verður um miðja deild og mun líklegra til að stríða toppliðunum en að dragast í fallströgglið.

11.sæti: Newcastle 57 stig

Nýr stjóri tekur nú við liði galgopans Mike Ashley. Þeir voru býsna nálægt falli síðasta vor og alltaf ljóst að þeir myndu breyta til. Þeir fengu fyrrum landsliðsþjálfarann Steve McLaren til að stýra skútunni og þar fer reynslumikill kappi sem hefur þó aldrei náð einhverjum alvöru árangri. Við höfum þó trú á því að hann nái að hnýta saman liðið sem er skipað mörgum fínum fótboltamanninum, mönnum eins og de Jong, Wijnaldum, Gouffran, Krul og Coloccini. Ashley hefur verið að reyna að fá til sín leikmenn frá Spáni og síðan auðvitað andlegs heimalands hans, Frakklandi og viðbúið er að þeir muni ná að sækja sér styrk þangað áður en glugginn lokar. Örugg sigling um miðja deild fyrir þennan risa í norðaustrinu.

Í fyrramálið munum við fara yfir efri hluta deildarinnar og þar með verður spá okkar fyrir vorn ástkæra klúbb, Liverpool FC!

8 Comments

 1. Hvaða bull er það að spá Norwich falli? Hat-Ricky van Wolfswinkel er ekki að fara að láta þá falla. Leikmaður sem gæti hæglega orðið annar eða þriðji striker hjá okkur.

 2. Ég reikna með Bournemouth á botninum, Watford og Leicester í hinum tveimur fallsætunum.

  Annars get ég ekki beðið eftir að lesa fyrstu upphitunina hjá ykkur.

 3. Ég er mjög ósammála spám ykkar um Bournemouth, ég held að þar verði eitt af spútnik liðum haustsins en eftir áramót muni svolítið draga af þeim, þó án þess að vera nálægt fallsæti. Þetta verður ævintýralið tímabilsins með mikla stemmingu.

 4. Claudio Ranieri er mjög einkennileg ráðning hjá Leicester og ef hann er ennþá í október þá kæmi það á óvart. Harry Redknapp tekur síðan við þeim og skilar þeim um miðja deild. Allardyce kemur örugglega sterkur inn hjá einhverju stjóralausu liði sömuleiðis. Crystal Palace, Stoke og WBA verða sterk lið í efri hlutanum tippa ég. Spái Everton og Swansea neðar.

 5. Svona raðaði ég þessu og auðvitað fellur Bournemouth ekki

  11 Southampton
  Spái að það komi smá bakslag eftir stanslausa velgengni undanfarið, Morgan Schneiderlin held ég að sé verri missir fyrir þá en allir fjórir sem fóru í fyrra. Clyne auðvitað líka töluverður missir ásamt Alderweireld.

  12 Swansea
  Held að þeir hafi spilað yfir væntingum í fyrra og komi aðeins til baka á eðlilegri stað í töflunni. Liðin í kringum þá verða betri á næsta tímabili.

  13 WBA
  Pulis verður með W.B.A fyrir utan botnbaráttu sem og baráttu um Evrópusætin.

  14 West Ham
  Efast um að Bilic fari eitthvað ofar með þetta lið en Allardyce var að gera og hvað þá að hann umturni spilamennsku þeirra.

  15 Sunderland
  Advocaat er ekki fæddur í gær og heldur Sunderland fyrir utan botnbaráttuna að þessu sinni.

  16 Aston Villa
  Annað hvort verður Sherwood með liðið í bullandi botnbaráttu eins og þeir hafa verið í undanfarin ár eða verður óvænta liðið í ár og endar í 7. – 8. sæti. Þeir misstu á einni viku sína langbestu leikmenn og það gæti reynst erfitt að fylla þau skörð.

  17 Bournemouth
  Eddie Howe vinnur ótrúlegt afrek og heldur Bournemouth uppi, það myndi rétt slefa á topp þrjá yfir ótrúleg afrek sem hann hefur unnið með það lið.

  18 Leicester
  Eftir að Pearson bjargaði þeim á ótrúlegan hátt skipta þeir honum út fyrir Ranieri. RANIERI af öllum mönnum? Hvað hefur hann gert undanfarin áratug til að gera þá ákvörðun skiljanlega? Missa svo Cambiasso sem er mikið áfall fyrir þá enda frábær á síðasta tímabili.

  19 Norwich
  Eru með mjög spennandi stjóra en ég held að Úrvalsdeildin sé of stór biti fyrir þá.

  20 Watford
  Vona að þetta fari allt til fjandans hjá Watford og spái þeim falli eftir fjögur stjóraskipti.

 6. Erum við ekki örugglega að tala um Jack Grealish? 🙂

  Innskot Babu: Ég lagaði þetta þegar ég las færsluna, korteri á undan þér. Útiloka samt ekki að Maggi sé að tala um bróðir hans (Toby) sem er kannski líka mikið efni.

 7. Gaman að þessu. Ég held að Newcastle muni koma hvað mest á óvart í ár – þeir hafa gert nokkuð góð kaup í Aleksandar Mitrovi? og Wijnaldum – spái þeim baráttu um evrópusætið.

  Stjörnuhrap ársins verður Southampton – það mun berlega koma í ljós hversu ótrúlega mikilvægur Schneiderlin var liðinu og ég held satt best að segja að þeir nái ekki inn á top 10.

  Ótengt.. Það lítur allt út fyrir að Fiorentina sé að ná í Borini.. fyrst lán og svo kauprétt upp á 4m. (skv. Gazzetta dello Sport). Það hefði verið betra hefði hann ákveðið að fara til Sunderland fyrir 14m (!) eins klúbburinn hafði samþykkt fyrrasumar.. frekar mikill verðmunur á einu ári.

 8. Hér er mín spá, svo því sé haldið til haga:

  11. Southampton. Þeir dala aðeins eftir frábært tímabil í fyrra enda þolir ekkert lið að missa sína bestu menn (Alderweireld, Clyne, Schneiderlin) annað árið í röð án þess að það sjáist á gæðunum (sjá einnig: Liverpool).
  12. West Brom. Tony Pulis er að vinna þarna, þeir verða lausir við fallbaráttuna. Ljótt en árangursríkt.

  13. Leicester. Þeir taka áhættu í sumar og ráða Claudio Ranieri til sín. Ég held að það muni koma á óvart. Verða safe.
  14. West Ham. Slaven Bilic mun missa starfið í vetur, hef litla trú á þessu. Þeir verða í fallbaráttu framan af en rétta svo úr kútnum eftir stjóraskipti.
  15. Aston Villa. Tim Sherwood ha ha ha. Blaðran springur og þeir verða í fallbaráttu.
  16. Crystal Palace. Pardew er vanur að vera góður og slæmur á tímabilum til skiptis og Palace voru góðir í fyrra. Verða í fallbaráttu í ár.

  17. Sunderland. Ég veit ekki hversu oft lið getur dansað á línunni áður en þeir detta niður en ég held að Sunderland séu líklegastir til að missa sæti sitt til nýliðanna næsta vor. Ótrúlegt andleysi yfir öllu þarna að því er virðist.
  18. Norwich. Ekki nógu góðir til að halda sér uppi.
  19. Bournemouth. Ekki nógu góðir til að halda sér uppi.
  20. Watford. Ég hef bara ekkert séð til nýliðanna þriggja til að fá trú á því að þeir lifi þessa deild af.

Allt undir

Spá Kop.is – síðari hluti