Mánudagsmolar – Opinn þráður

Þá er æfingaleikjum liðsins formlega lokið. Næsti leikur liðsins er því á útivelli gegn Stoke, sunnudaginn 9. ágúst. Við komum til með að hita upp fyrir hann í podcasti í vikunni sem og með formlegri upphitun þegar nær dregur.

Annars skoraði Benteke auðvitað sitt fyrsta mark fyrir Liverpool í gær í leiknum gegn Swindon. Firmino átti einnig ágætis leik. Tel það nokkuð víst að við sjáum Big Ben í liðinu gegn Stoke, spurning hvort að Firmino verði orðinn klár.

Allen varð fyrir enn einum meiðslunum gegn Swindon í gær. Virðist hafa tognað aftan í læri og verður frá í einhvern tíma. Það hefur kannski fallið svolítið í skuggann á meiðslum Sturridge í gegnum tíðina en Allen er ótrúlega oft meiddur. Hann missti af 13 leikjum 2014/15 og 14 leikjum 2013/14 sökum meiðsla.

Eins og við komum inn á í podcasti okkar um daginn þá var Wisdom lánaður til Norwich út leiktíðina. Klúbburinn samdi auðvitað við Wisdom í vor en hann virðist hafa fallið aftar í röðina eftir komu Gomez. Hann er nú orðinn 22 ára gamall og finnst mér ólíklegt að hann verði leikmaður Liverpool til lengri tíma. Hann átti í basli með að halda sæti í liði WBA í fyrra og tapar í samkeppni við Gomez (18 ára) í sumar. Vonandi að hann fái að spila meira hjá Norwich en hann gerði hjá WBA og komi til baka sterkari fyrir vikið.

Persónulega finnst mér þetta svolítið sérstakt. Við erum afskaplega fáliðaðir í vörninni. Jose Enrique á klárlega enga framtíð á Anfield og því eru það bara Moreno (23 ára, 28 leikir í EPL) og Gomez (18 ára, 0 leikir í EPL) sem berjast um stöðuna vinstra megin og Clyne og líklega Gomez þeir sem koma til með að berjast um hægri bakvörðinn. Við erum að tala um 18 ára gamlan réttfættan miðvörð. Það segir okkur ansi mikið um Moreno ef Echo hefur rétt fyrir sér og Gomez byrjar gegn Stoke. Sáum það bara á leiknum gegn Swindon að næsti maður inn var hinn 16 ára Trent Alexander-Arnold. Kannski eigum við eftir að fjárfesta í einhverjum leikmönnum fyrir lok ágúst mánaðar. Við eiginlega verðum, annars erum við að fara sjá fram á Emre Can þarna eitthvað í vetur. Tala nú ekki um ef við förum eitthvað áfram í bikarkeppnunum og Europa League. Flanagan er enn frá vegna meiðsla og verður líklega ekki leikfær fyrr en 2016. Þá erum við að tala um 18 mánaða meiðsli, ekkert víst að við sjáum rauða Cafu aftur eins og hann var fyrir meiðsli.

Lambert gekk til liðs við WBA í síðustu viku. Það er svo sem lítið við það að bæta. Eins mikið og maður vildi að þetta myndi ganga upp hjá honum þá var það bara ekki svo. Hjartað var svo sannarlega á réttum stað. Ég held að ef hann hefði komið árinu fyrr, þ.e. verið backup fyrir Suarez og Sturridge eins og hann átti að verða þá hefði hans drauma endurkoma til Liverpool FC líklega farið á annan veg. Við óskum honum auðvitað alls hins besta hjá WBA. Þetta er flottur leikmaður sem á vafalaust eftir að standa fyrir sínu.

Klúbburinn staðfesti svo í dag það sem var svo sem vitað. Benteke tekur treyju númer níu, vonum að honum gangi betur en Lambert. Væri alveg ágætt að fá inn mann í svipuðum flokki og Rush, Fowler, Torres ofl. sem hafa spilað í níunni.

Wolves eru að reyna að fá Sheyi Ojo að láni út leiktíðna. Ekkert nema gott um það að segja. Strákurinn varð 18 ára í sumar og þarf að fara að fá leiki undir beltið.

Slúðrið hefur verið ansi sterkt síðustu daga að Liverpool sé við það að ganga frá kaupum á Adama Traore, leikmanni Barcelona. Þetta hefur þó ekki verið staðfest af neinum áreiðanlegum. Þvert á móti þá hefur James Pearce, blaðamaður Echo, ásamt Mirror sagt að það sé ekkert til í þessum fréttum.

Balotelli, Enrique og Borini æfa ekki með aðalliðinu og eiga enga framtíð á Anfield. Ótrúlegt að hugsa til þess að við hefðum getað fengið 14 milljónir fyrir Borini fyrir ári síðan. Fáum líklega ekki nema helminginn af því í dag, í mesta lagi. Ég ætla að skjóta á að Balotelli verði lánaður í lok ágúst, Borini verður seldur til Ítalíu á 7-8 milljónir og Enrique verði í FIFA allt tímabilið.

Spá kop.is fyrir tímabilið kemur svo inn síðar í vikunni. Annars er orðið laust.

30 Comments

  1. HVERJUM DATT Í HUG AÐ KAUPA BALOTELLI Á 16 KÚLUR?! Ja,sko, var ekki alveg vitað hvernig kauði er/var? Ég meina það var ekki eins og hann hafi verið rúllandi heitur i öðrum liðum.
    þegar lélega það er alveg ljóst að engin mun taka hann fyrir í mesta lagi helming af því
    sem við greiddum. Að visu er gæinn 24 ára og ætti kannski eitthvað eftir en ég get bara ekki ímyndað mér að miðað við það sem hann hefur sýnt á vellinum sl.2 ár eða svo að nokkur vilji borga mikið fyrir hann né greiða honum há laun. Verður þá næsti viðkomustaður enn eitt tækifærið til að sýna að hann getið eitthvað? Hvað er það sem menn sjá við þenna skóburstara?

  2. Það er reyndar ungur drengur sem heitir Illori sem virðist annsi oft gleymast þegar talað er um varnarmenn liðsins, alveg gæti ég trúað því að hann myndi fá séns í annarri hvorri bakvarðarstöðunni áður en hann verður settur í miðvörðinn, gríðarlega spennandi leikmaður þar á ferð en hann er víst eitthvað smávægilega meiddur núna og hefur þ.a.l. ekki getað tekið þátt í undirbúningstímabilinu.

  3. Ég reikna ekki með miklum varnarleik hjá okkar liði i vetur…við munum spila á vallarhelmingi andstæðinganna meira og minna. Mignolet tekur Golden Glove og fleiri bikarar dreifast á liðið, s.s. Benteke sem verður leikmaður ágústmánaðar.

  4. Ef Liverpool, skorar yfir 70 mörk og fær á sig minna en 40 mörk, þá er liðið líklegt til þess að vera í baráttu um meistaradeildarsæti.

    Tel ég það raunhæft ? Já, Liðið spilaði fínan varnarleik á köflum í fyrra þegar það var með þriggja manna vörn og í ár hefur það styrkt sig töluvert, með tilkomu Clyne og Gomez og svo er Lovren búinn að átta sig betur á hlutverki sínu innan liðsins. Þar að auki höfum Sakho og Moreno, þó ég sé reyndar sammála því að það mætti kaupa annan vinnstri bakvörð til að berjast um byrjunarliðssætið við Moreno.
    Sóknarlega erum við að mögulega að styrkjast með Firmino og Benteke, Ings og Origi og virðist Benteke vera þannig leikmaður að hann er alltaf líklegur til að skora eins og sannaði með sínu fyrsta marki fyrir Liverpool. Það er örugglega martröð að spila gegn honum. En það er vonlaust að spá. Þetta er nefnilega líka spurning um að lykilleikmenn haldist heilir og liðið haldi dampi þegar það kemst loksins á skrið.

    Ég held sat þetta sé spurning um að ná stigum í erfiðu leikjunum. t.d Jafntefli gegn Stoke og Asrsenal útivelli væri afbragðsgott , allavega skárra en að tapa 6-1 og 4-1 eins og við gerðum gegn þeim í fyrra.

  5. En hvernig er það vantar okkur ekki einn central miðjumann? Joe Allen meiddur, þá höfum við Hendo, Milner, Can og jú Lucas reyndar, en er þetta nóg í heilt season?

  6. Nr. 7

    Allen meiddist bara og verður frá í nokkrar vikur ef ég las þetta rétt, hann er ekkert hættur í fótbolta. Hvort hann sé svo nógu góður er allt annað mál.

  7. Jæja þá er innan við vika í fyrsta leik og prógrammið er:
    Stoke (úti)
    Bournemouth (heima)
    Arsenal (úti)
    West Ham (heima)
    Manc. U. (úti)
    Fyrir mér tæki ég 10 stig útúr þessum 15 stigum sem eru í boði. Ef við setjum QPR í stað nýliða Bournemouth þá fengum við 3 stig útúr þessum sömu leikjum á síðasta tímabili. Því held ég að þetta yrði góð niðurstaða.
    Hvað þarf að gerast til þess að þetta verði að veruleika?
    – Vinna Stoke, Bournemouth og West Ham og gera jafntefli við United eða Arsenal. Ef við töpum fyrir West Ham t.d. verðum við bara að vinna annan útileikinn gegn United eða Arsenal.
    – Verðum að spila 4-2-3-1 með Milner og Henderson aftasta í þeim leikjum sem við ætlum að vinna.
    – Fyrir mér VERÐA Skrtel & Sakho að vera í miðvörðunum reysti ekki Lovren.
    – Clyne & Gomez í bakvörðum, Gomez mikið sterkari varnarlega en Moreno + vörn Liverpool ræður ekki við að vera með báða bakverði sóknarsinnaða þar sem enginn djúpur miðjumaður er í liðinu sem ég treysti.
    – Þeir þrír sem ég vil sjá fyrir aftan framherjann (Benteke) í fyrsta leik eru Coutinho, Ibe og Firmino (Lallana)
    Gefum Lovren, Moreno, Lucas, Ings frí.

    Koma svo LFC 10 stig í fyrstu 5 leikjunum væri flott byrjun.

  8. Smá útúrdúr frá liðinu. Eru menn að fara að kaupa áskrift af stöð2sport í vetur til að sjá enska? Ég sé ekkert nema einhvern tilboðspakka á um 13. þús kr. með öllum sportstöðvunum, er ekki bara hægt að kaupa stod2sport hjá þeim, eða þarf maður að fara í allan pakkann, net og alles?
    Hvaða möguleikar aðrir eru á enska, eru menn að fara í gervihnattadisk eða einhver prófað þetta? http://ipsjonvarp.com/

  9. Hvað segja menn við spánni um það að Lovren og Skrtel munu byrja gegn Stoke og er miðvarðarparið sem rodgers vill helst nota í vetur?

    Mér finnst það hlægilegt, Sakho er töluvert betri en Lovren á öllum sviðum knattspyrnunnar og er ég hræddur um að hann fari að hugsa sér til hreyfingar ef þessar spár eru réttar.
    Ef svo er þá held ég að það muni verða “downfall” rodgers í vetur.

    Rodgers á greinilega sína uppáhalds leikmenn sem hann keypti og notar þá frekar en leikmenn sem eru ekki hans kaup og eru mikið öflugri.

    @RyanMcTrippy :
    2015-08-01 21:38:24
    @JamesPearceEcho: Jimmy baby please tell me you’re just having the banter Lovren won’t start vs Stoke will be

    @JamesPearceEcho :
    2015-08-01 21:43:09
    @RyanMcTrippy: Ryan baby it’s looking like Lovren will start.

  10. RH.

    Þess væri óskandi. Tel það afar ólíklegt samt. Bæði vegna þess að hann er lykilmaður hjá Real Madrid og svo er fjarri því sjálfgefið að hann vilji ganga yfir til Liverpool þó honum stæði það til boða.

    En mikið væri það nú glæsilegt ef það væri raunin. Þá væri Liverpool klárlega komið með alvöru lið. Henderson, Milner og Kross, á miðjunni hljómar eitthvað á móta og Gerrard, Alonso, Mascherano. Ekki verra að hafa Firmino, Coutinho og Benteke fyrir framan þá.

    Það má vel vera að það sé eitthvað til í þessu .Allavega talaði Rodgers að eini möguleikin að skipta út Gerrard væri að fá stóra alþjóðlega stjörnu til liðsins. Krooss fellur fullkomnlega undir þá skilgreiningu og hann er þar að auki á besta aldrei, eða aðeins 25 ára gamall.

  11. Þurfum meiri gæði. Það er alveg ljóst. Öðruvísi erum við ekki að fara að berjast um þetta 4. sæti. Frábærr viðbót að fá Kroos.

  12. Það koma varla fleiri leikmenn sem bit er í. Ian Ayre er nokkurn veginn búinn að taka fyrir það auk þess sem allt slúður sem berst er bersýnlega vitleysa. Mér sýnist Rodgers bara vera að velta því fyrir sér hvernig eigi að stilla upp liðinu enda virðist þetta ekki alveg velja sig sjálft núna.

  13. #10

    Ég held að það sé hægt að kaupa bara enska á ca. 8.000 kr.

    Sel það ekki dýrara en ég keypti það….

  14. #11 lovren er greinilega að sýna eitthvað a æfingarsvæðinu sem virðist ætla skila honum byrjunarliðs sæti. Við vitum ekkert hvernig mórall hja mönnum er hvernig þeir eru stemmdir né hvernig þeir æfa.

  15. Ég held að það sé ekki séns að Kroos sé að koma, því miður. Mér finnst sárlega vanta einn bakvörð. Bakverðirnir sem eru til staðar eru:

    Clyne – Bakvarðarstjarnan okkar, nær vonandi að aðlagast liðinu strax
    Gomez – 18 ára engin reynsla í PL
    Flanagan – Löng meiðsli
    Moreno – Ekki verið góður í fyrra eða á pre-season en nær vonandi að rífa sig upp
    Enrique – Fær ekki einu sinni að æfa með aðalliðinu

    Ég sé fyrir mér sama rugl og á síðasta tímabili með Can, Marcovic og hugsanlega fleiri setta í bakvörð og það mun ekki hjálpa Liverpool í CL

  16. Ég er á því að þetta verður ágæt tímabil.

    Liðið er líklega 5. sterkasta liði á pappír fyrir tímabilið og væri það því raunhæft sæti liðsins en svo veit maður aldrei hvað gerist. Kannski kemst liðið á run og nær að spila vel og kannski mun eitt af liðunum sem flestir spá ofar valda vonbrigðum og þá er séns í meistaradeildarsæti.

    Ég vona að men haldi í sangjarnar væntingar til liðsins í ár. Maður vill að liðið berjist um meistaradeildarsæti og helst nái því en það þarf allt að ganga upp svo að það gæti gerst.

    Ég vona að men fari ekki of hátt í sigrum og of lágt niður í töpum. Því að það er stundum pínu fyndið að sjá menn vera snillinga eina vikuna og helvítis aumingar þá næstu. Liðið okkar er enþá ungt og með unga leikmenn í lykilhlutverkum og ég tel að liðið sé á leið í rétta átt. Ef 2-3 af þessu ungu gaurum fara úr efnilegir/góðir í frábærir og jafnvel heimsklassa þá getur Liverpool farið að berjast ofar í deildinni en þangað til verður maður að horfa á þá þróast.

    Ég get varla beðið eftir fyrsta leiknum 🙂

    P.s Ef liðið tapar 5-1 gegn Stoke erum við að tala um framför hjá liðinu og að liðið sé að fara í rétta átt 😉

  17. Hvaða hvaða, vitiði ekki að sókn er besta vörnin 😉

    En hvernig er með Fantasy league? Á ekkert að koma Kop-deildinni í gagnið tímalega?

  18. Ekki beint útlit fyrir það, en gæti þetta bakvarðahallæri gefið í skyn þriggja manna vörn? Clyne og Moreno vængbakverðir, með vængmennina (Ibe, Markovic) sem backup.

    Lýst a.m.k. ekki nógu vel á þessa 4 manna vörn með engan sópara fyrir framan. En það er kannski bara útaf Lovren.

  19. Var einmitt að fara spyrja um kop.is Fantasy deild!!! Koma svo inn með tölurnar svo maður geti joinað deildinna 😀

  20. Sheyi Ojo var að gera langtímasamning við klúbbinn, og fer um leið á eins árs lán til Wolves. Held að þarna getum við alveg átt einn efnilegan upp á seinni tíma – er ekki orðið tímabært að fara að tala um næsta Ibe?

  21. Hef verið hingað til sáttur með kaupin. Verð þò ekki sáttur ef glugginn lokar og ekki fleiri bakverðir og miðjumaður keyptir. Gerrard farinn og Milner kominn. Allen ætti að vera meiddur nùna hjá öðru liði og erfitt að sannfærast að Lucas verði heill eða einfaldlega nògu gòður. Skil ekki af hverju Alex Song er ekki mættur á Melwood.

    Það er öllum morgunljòst að ef liðið ætlar sér að vinna titla á tìmabilinu þarf a.m.k vinstri bakvörð. Ì raun ætti Moreno að vera backup fyrir lykilmann ì vinstri bak. Maður er frekar vonsvikinn með kallinn. Fyrir 20 mills punda býst maður við betri varnarmanni. Hann verður allavega að bæta sig talsvert til að réttlæta byrjunarliðssæti.
    Skil ekki lánið á Wisdom. Maður hefur ekkert séð til Ilori, kannski er hann hugsaður sem backup fyrir Clyne.
    Finnst vanta smá bætingu á hòpnum til að maður getur talið lìklegt að liðið nái að hampa allavega einum bikar.

  22. Moreno kostaði 12m punda ekki 20 🙂 en já hann mæti vera sterkari varnarlega.
    En sóknarlega verður gaman að fylgjast með Clyne, Gomez og Moreno taka virkan þátt í sóknarleiknum en varnarlega hefði maður verið sáttur við Arbeloa týpu.

  23. Arnar #10
    Ég er búinn að vera að prófa þetta IPsjonvarp og lýst vel á. Best að prófa bara að kaupa einn mánuð og sjá hvort að þetta sé eitthvað fyrir þig. kostar ca 4.500 kr á mánuði og þú færð næstum allar sportrásir sem til eru 🙂
    En maður mun aldrei vita hvernig þetta kemur út nákvæmlega, fyrr en enski byrjar á fullu.

    En annars bíð ég bara spenntur eftir podcastinu 😀

  24. Einhver sem getur sagt mér e-h um þetta IPsjonvarp? Er þetta að virka? Hvernig er með gagnamagn í niðurhali o.s.frv.? Ef maður fjárfestir í svona, má maður þá búast við því á hverju stundu að það verði lokað á aðganginn?

Swindon 1 – Liverpool 2

Kop.is Podcast #91