Liverpool tekur skref í átt að Barcelona

Þessi titill greip og vakti athygli ekki satt? Engar áhyggjur þetta er ekki eins galið og þetta hljómar í fyrstu. Endilega lesið áfram.

Þessa dagana kemur Barcelona reglulega fyrir í slúðurdálkum fótboltatengdra fréttamiðla. Ekki að maður kippir sér eitthvað upp við það en þar sem farið var að orða Liverpool við einn leikmann þeirra í gær þá má maður til með að koma aðeins inn á þetta.

Staðan er sú að Barcelona er með alveg fáranlega gott fótboltalið. Í raun og veru bara svindl lið. Það er valinn maður í hverja stöðu á vellinum og varamannaskýli liðsins er fullt af leikmönnum sem myndu líklegast ganga í flest lið í heiminum. Staða spænsku risana, þrefaldra meistara á síðustu leiktíð, er orðin þannig að varalið þeirra er kannski komið í smá strand.

Leikmenn eins og Munir ná að troða sér inn í leikmannahópinn fyrir leiktíðina sem segir okkur hve góður ungur leikmaður er þar á ferð. Hversu lengi honum tekst að halda sér þar er aftur á móti annað mál – sjá Bojan, Gio dos Santos, Marc Muniesa og svo framvegis og svo framvegis.

Barcelona á aragrúa ungra leikmanna sem eru mjög góðir en ekki nógu góðir fyrir þá. Leikmenn eins og Sergi Samper, Gerard Deulofeu, Sergio Roberto, Marc Bartra, Alex Halilovic og Adama Traore meðal þeirra sem félagið gæti verið tilbúið að selja eða lána frá sér. Í einhverjum tilfellum jafnvel selja ódýrt og troða inn rétt á að kaupa þá aftur eftir ákveðinn tíma fyrir ákveðinn pening í samninginn.

Fjölmiðlar frá Spáni, sem einhverjir Twitter spekingar hafa sagt vera áreiðanlega, segja frá því að aðilar frá Liverpool hafi flogið til Barcelona með það að markmiði að koma Adama Traore í handfarangrinum á leiðinni heim – að sjálfsögðu ekki bókstaflega en þið skiljið hvert ég er að fara.

Ég ætla ekkert nánar út í þennan orðróm eða leikmanninn þannig séð. Það er hægt að gera það ef eitthvað meira heyrist eða gerist í þessum málum. Ég ætla að dásama aðeins það sem Barcelona er að gera og vona að við séum að sjá einhver merki þess að Liverpool sé að taka skref í þessa átt.

Barcelona með sitt frábæra unglingastarf fær góð evrópsk lið eins og Porto, Benfica og lið á efri helming ensku úrvalsdeildarinn svo einhver séu nefnd til að nudda saman höndunum og sleikja út um. Horfandi á leikmenn á sölulista Barcelona eins og svangur maður sem hangir yfir steikardisknum til að velja sér bestu steiina. [Ég fékk svo góða steik í gær og þaðan kemur þessi líking, nammi namm!]

Ég vona að Liverpool komist á þennan stað – og eins og ég segi þá erum við kannski farin að sjá fyrstu merki þess að unglingastarfið er farið að skila því sem við gætum viljað frá því.

Fyrst og fremst vill maður sjá Liverpool ala upp mikið af sínum eigin leikmönnum. Næsti Fowler, næsti Carragher, næsti Gerrard, næsti McManaman og næsti… hérna man ekki nafnið… hann var lítill, spilaði í treyju númer tíu og skoraði fullt af mörkum áður en hann tók röð heimskulegra ákvarðana og endaði í Manchester United.
Þetta er það sem við viljum, eða er það ekki? Að Liverpool eigi sína uppöldu leikmenn og allt það? Við viljum sjá fleiri Sterling-a koma upp úr unglingastarfinu og festa sig í aðalliðinu. Við viljum sjá Flanagan-a í bakvarðarstöðunni í titilbaráttunni og við viljum sjá Jordon Ibe verða að næsta Cristiano Ronaldo eða eitthvað í þá áttina. Ekki satt?

Ef þú fjárfestir í þessu starfi. Safnar að þér efnilegustu leikmönnum landsins og efnilega leikmenn frá meginlandinu, Suður-Ameríku og svo framvegis þá aukast líkurnar á því að maður geti fengið sína ’02 kynslóð eins og Manchester United tókst eða við sjáum aðra flóru uppaldra leikmanna eigna sér fast sæti í liðinu eins og þegar Fowler, McManaman, Owen, Gerrard og Carragher komust í aðallið Liverpool.

Liverpool hefur gert það hingað til. Við sjáum mikla fjárfestingu í þjálfarateyminu og miklu eytt til að fá bráðefnilega stráka í hópinn. Sterling, Ojo, Ibe, Sinclair og fleiri hafa kostað töluvert miðað við aldur og fyrri störf en með tímanum hefur sá peningur margfaldast. Sjá Sterling sem var keyptur á hálfa milljón punda og seldur á hátt í fimmtíu milljónir punda, Suso sem var keyptur á einhver hundruð þúsund punda en var seldur með hagnaði og svo framvegis. Þetta er fljótt að jafna sig út þó að hugsanlega verði tapað á einum og einum. That’s life.

Ég hef áður í pistlum á þessari síðu komið inn á lánstefnu félagsins á ungum leikmönnum sínum og virðist hún líka vera að skila tilsettu starfi. Ibe kom frábærlega út úr sínum lánssamningum hjá Derby og Birmingham, Ojo kom vel út úr láni hjá Wigan, Teixeira gerði vel hjá Brighton og Wisdom er að fara á þriðja lán sitt á þremur leiktíðum, þar á meðal hjá tveimur liðum í úrvalsdeildinni.

Suso var lánaður í spænsku úrvalsdeildina þar sem hann gerði vel og var seldur til AC Milan síðastliðinn janúar. Leikmenn Liverpool eru farnir að geta af sér gott orðspor og standa sig vel hjá þeim liðum sem þeir eru lánaðir til sem er mjög jákvætt. Við sjáum það til dæmis í því að Norwich var tilbúið að greiða Liverpool rúmlega milljón punda fyrir að fá Wisdom lánaðan til sín út leiktíðina, þar tekst Liverpool að mjólka pening úr honum og segjum sem svo að hann standi sig fínt og þeir vilji kaupa hann á næstu leiktíð á fimm milljónir þá hefur félagið kannski gætt hátt í sex til sjö milljónir fyrir hann sem er töluverður peningur fyrir uppalinn leikmann sem verður kannski aldrei á þeim standard sem leikmaður Liverpool þarf að vera.

Með jákvæðri framför í þessum málum gæti þetta orðið gullnáma fyrir félagið. Takist félaginu að búa til leikmenn sem eru nógu góðir fyrir það sjálft þá er það frábært og ef liðinu tekst að búa til enn fleiri leikmenn sem eru nógu góðir fyrir lið í efstu tveimur deildum Englands eða í efstu deildum annars staðar í Evrópu þá er það líka frábært.

Ef við horfum á efnilegan hóp Liverpool í unglinga- og varaliðinu og gefum okkur að þar eru kannski þrír til fjórir leikmenn sem gætu fest sig í sessi í aðalliðinu þá er það frábær árangur – þó þeir yrðu bara tveir þá væri það mjög gott. Nái félagið að gera fleiri leikmenn ‘nógu góða’ fyrir hin liðin þá getur það fært miklar auka tekjur inn í félagið. Ef tveir af fimmtán leikmönnum verða góðir aðalliðsmenn og sex til sjö þeirra verða nógu góðir til að verða seldir í fín lið í fínni deild og gætu verið seldir fyrir tvær til tíu milljónir hver þá væri félagið í mjög góðum málum.

Það eru kannski ekki sömu lið sem horfa á eftir ungviði Liverpool og horfa á ungviði Barcelona en á undanförnum árum getum við séð mjög jákvæð skref í rétta átt. Lengi vel gaf Liverpool nánast ungviði sitt í slakari deildir og lítið kom út úr þessu öllu saman. Í dag eru úrvalsdeildarlið og 1.deildar lið farin að horfa hýrum augum til þessara leikmanna. Það eru enn einhver ár í að Liverpool geti farið á sama stall og Barcelona í þessum málum – ef það er þá einhvern tíman hægt að komast í nálægð við það – en ég sé klárlega jákvæð skref í rétta átt í þessum málum.

4 Comments

 1. Flottur pistill.

  Fyrstu sáðu fræin hafa þegar náð því að verða að blómum og einn 24 karata gulltúlipani hefur þegar risið úr blómabeði unglingastarfs Liverpool. Sá túlipani endaði hjá Man City og Liverpol fékk ótal gullkistur fyrir hann.

  Ég verð að viðurkenna að ég hafði aldrei hugsað út í unglingastarfið út frá því að þetta gætu orðið að miklum peningagróða fyrir félagið. Hélt að hugmyndin væri að finna 1-2 leikmenn úr þessu starfi – á hverju ári sem ættu tilkall í byrjunarlið Liverpool eins og tilfellið er með Ibe og vonandi Texeira. Gerði mér ekki grein að það væri hægt að selja þá fyrir aðeins brota brot af því sem kostaði að kaupa þá og gera þannig unglingastarfið fjárhagslega burðugt.

  Gerði mér ekki grein fyrir því að það er hægt að fara út í plús með því að ala upp leikmenn með þeim hætti sem Liverpool er að gera.

 2. Ég vil nú bara segja frá því að Barcelona setur upp sína eigin fótboltaskóla í mörgum löndum og að mínu áliti er þetta dæmi þeirra komið út í algerar öfgar og er ekki neitt sem Liverpool á að reyna að apa upp eftir þeim.
  Þeir ætluð að setja upp svona skóla hér í DK úti í Ballerup en voru stöðvaðir með það af danska knattspyrnusambandinu og urðu hætta við.
  Hér sáu menn þennann skóla sem hreina ögrun við unglingstarf dönsku liðanna sem hafa jú sitt eigið unglingastarf alveg eins og stóru liðin og menn skulu líka vita að það er ekkert sniðugt fyrir alla efnilega fótboltastráka að vera settir í atvinnumennsku 10 ára og að lang flestir af þeim sem fara í svona skóla mjög ungir eyðaleggja barnæskuna sína þarna og ég held að Liverpool ætti að halda sér frá svoleiðis löguðu.

 3. Þessi Adama traore er all svakalegur af youtube að dæma. Sterling hvað segi ég nú bara! Ef við erum að fara fá þennan dreng á 10 m pund þá segi ég nú bara já takk.

 4. Ég held að það sé nú enginn að tala um að setja upp skóla í hinum og þessum löndum heldur aðeins að akademían skili einhverju í líkingu við það sem akademía Barcelona gerir.

  Adama Traore lítur vel út á þú-varpinu en 10m punda er 5 of mikið. Held að Ibe, Origi og Markovich séu honum allir framar í dag. Og ef einhver ætlar að benda á mörk og stoðsendingar í B-liði Barcelona þá bendi ég á móti á tölfræði ekki ómerkilegri manna en Luis Alberto með B-liði Barcelona í þeim efnum.

  10m punda fyrir dreng sem er í mesta falli efnilegur og hefur aldei spilað leik í efstudeild er ótrúlega mikið. Viðurkenni það fúslega að ég hef aldrei séð strákinn spila og kannski hann sé hverrar krónu virði en B-lið og efsta deild er eins og himin og haf. 10m pumda fyrir Origi var réttlætanlegt enda landsliðsmaður Belgíu.

  Pointið mitt er bara að ef akademían á að reka sig er þá skinsamlegt að kaupa dreng á 10m punda þegar við eigum allavegana þrjá unga drengi framar í goggunarröðinni og Traore hefur aldrei spilað alvöru leik.

  Nei bara pælingar.

Kop.is Podcast #90

Hópur í Helsinki – Lambert farinn (opinn)