Danny Ings mættur á svæðið (staðfest)

Svona í morgunsárið þennan ágæta júnídag hefur verið tilkynnt um næstu leikmannakaup klúbbsins okkar þetta sumarið.

DannyIngsÞað er hann Danny Ings sem hefur nú samþykkt að ganga til liðs við okkar menn og klæðast okkar yndislega alrauða búningi.

Strákurinn var runninn út á samning en fyrir hann munum við þó þurfa að greiða þar sem hann verður 23ja ára í sumar og því ber okkur að reiða fram upphæð sem talin er verða á milli 3 og 5 milljónir punda fyrir þjónustu hans.

Við förum nánar yfir feril þessa stráks á næstu dögum en þó má alveg byrja á að hrósa honum fyrir það að a.m.k. segja nei við Tottenham sem buðu Burnley miklu meiri pening fyrir hann og að mér skilst stærri samning. Það veit alltaf á gott þegar menn virkilega vilja spila fyrir klúbbinn okkar.

Í vetur lék hann 35 leiki í Úrvalsdeildinni með Burnley og skoraði 11 mörk í þeim.

Velkominn Danny Ings.

83 Comments

 1. Því miður enganvegin nógu góður fyrir LFC. En þetta sýnir vel hvar við stöndum dag. Höldum áfram að sanka að okkur miðlungsleikmönnum.

 2. Glæsilegt. Velkominn Danny! Til hamingju liverpool-menn og konur nær og fjær! Þvílíkar gleðifregnir svona við byrjun vikunnar.

  Með þessu eru herra Brendan og Innkaupadeild LFC heldur betur að stimpla sig inn í sumarið og sýna að Liverpool ætlar sér risastóra hluti á næstu leiktíð. Þvílík veisla sem þessi vika hefur verið! James Milner, svo fréttirnar af Adam Bogdan og loks rúsínan í pylsuendanum – staðfesting á komu meistara Danny Ings.

  Það er hiklaust óhugur og hræðsla í Lundúnum og Manchester-borg við þessar fréttir. Nú verður bitið frá sér eftir vonbrigðin og 6. sætið og ekki hægt að gera kröfur um minna en titilbaráttu.

  Jæja ætla á youtube að skoða fleiri Danny Ings tilþrif. *gæsahúð*

 3. Velkominn Danny ings megi þér ganga sem allra best í okkar fallega rauða búningi

 4. Held við poolarar getum fagnað þessu. Hann setur 11 mörk fyrir slakt lið Burnley og skorar töluvert fleira af mörkum en okkar framherjar á síðasta ári. Held að þetta sé maður sem muni standa sig betur en aðrir framherjar okkar í fyrra sem var lífsnauðsynlegt.
  Því tel ég þau kaup sem komin eru: Milner, Ings ( og Origi sem er eiginlega að koma núna þrátt fyrir að hafa verið keyptur í fyrra) seú betri en við gerum okkur grein fyrir því þessi kaup þýða í raun að leikmenn eins og R. Lambert og J. Allen eru aftar á forgangslistanum og munu varla spila mikið á næsta tímabili sem er vel.
  Tveir af þessum þremur leikmönnum tel ég að muni starta meira en 50% leikja okkar á næsta tímabili, keep up good work!!

  Einn world class striker og DM, við erum í toppmálum !!

 5. Fárbærar fréttir. Tel hann betri en Borini og Lambert og því klárlega styrking á hópnum. Svo er hann enn ungur á árum og á því vonandi enn eftir að bæta sig.
  Stóra spurningin er því hvort hann slái í gegn og verði að stórstjörnu. Ég tel hann hafa burði til þess en yrði samt alveg sáttur ef hann væri fyrst og fremst styrking á hópnum.

 6. Það jákvæða í þessu er að BR er að fá mann sem hann sækist eftir og það án þess að draga kaupin fram í September. Sama á við um James Milner.

  Ég þekki Danny Ings ekki nógu mikið til að mynda mér skoðun á því hversu vel hann passi í hópinn en verð samt að viðurkenna að væntingarnar eru ákaflega hófstiltar. Ætla þó að gera ráð fyrir að hann muni passa betur en Borini,Lambert og Balotelli, en það segir svo sem ekki mikið miðað við þeirra frammistöðu hingað til.

  En eru ekki allir sammála um að það vanti enn töluvert uppá til að hópurinn geti talist sterkari en á síðasta tímabili ?

 7. Bara jákvætt! Kemur líklega inn í stað Borini sem ung varaskeifa með möguleika á að hækka sig í tign með góðum frammistöðum og er með reynslu af því að vera aðalstriker í premier league. Ég er amk mjög spenntur fyrir honum og jafnvel þótt hann klikki þá fáum við alltaf þennan pening fyrir hann aftur ef við seljum hann, ég meina hann er enskur og sem slíkur þá er þetta engin áhætta nema að hann tekur pláss í hóp.

  Að þessu sögðu þá vona ég að næstu skref (fyrir utan markmannsdæmið sem mér lýst aðeins verr á) verði að ná í öfluga strikera amk einn en helst tvo.
  Ég hef enga trú á því að Tevez eða Ibrahimovic séu að koma einfaldlega af því að við erum ekki í CL en það má alltaf vona.

  Ég er mjög bjartsýnn fyrir sumrinnu einkum og sér í lagi af því að Liverpool er strax búið að keyra þetta í gang sem er eins og var með eina vel heppnaða glugga síðari ára þegar búið var að græja Sturridge fyrir opnun gluggans.

 8. Ings kominn og ef hann er titlaður sem 3/ 4 striker er það í fínu lagi.
  Þurfum samt sem áður að koma með inn amk 1 topp klassa striker og mitt val þar yrði klárlega Carlos Tevez, myndi allvena reyna það!

  Henti í pistil um það sem ég tel að hafi átt að fara fram frá á fundinum minni Rodgers og FSG
  endilega tékkið á því: http://www.kopice86.wordpress.com

  kopice86

 9. Persónulega finnst mér stemmingin í kringum leikmanna kaup liverpool soldið leiðinleg það er soldið þannig að út af lélegu tímabili í fyrra þá eru menn búnir að dæma öll leikmannakaup og hugsanleg leikmanna kaup sem léleg. Þegar menn eru að bíða eftir því að bæði Tevez og Benzema skrifi undir hjá liverpool þá eru töluverð vonbrigði að fá Danny Ings. Ef við skoðum núverandi leikmannahóp þá er hann klárlega styrking á honum og er hann að mínu mati orðin okkar næst besti framherji á eftir Sturridge sem er yfirleytt meiddur.

 10. ER ÞETTA METNAÐURINN HJÁ LIVERPOOL ÞESSA DAGANA? MÉR ER SLÉTT SAMA ÞÓ HANN KOMI Á FREE TRANSFER ÞVÍ ÞESSI DANNY INGS AUMINGI ER ALGJÖR MEÐALSKUSSI. ÉG ÞARF EKKI AÐ BÍÐA EFTIR AÐ SEASONIÐ BYRJI TIL AÐ KOMAST AÐ ÞVÍ. VIÐ ERUM BARA ORÐINN MEÐALKLÚBBUR SEM KAUPIR MEÐALLEIKMENN. VIÐ ERUM ALDREI AÐ FARA ENDA OFAR EN 10.SÆTI Á NÆSTU LEIKTÍÐ. GLASIÐ ER SKO EKKI HÁLFTÓMT HJÁ MÉR NÚNA, ÞAÐ ER FOKKING GALTÓMT. VONA HREINLEGA AÐ LIVERPOOL FALLI UM DEILD NÆSTA ÁR SVO MENN SKILJI HVAÐ ER AÐ GERAST HJÁ KLÚBBNUM OKKAR OG FSG MISSI ÁHUGANN OG FARI. DANNY INGS ER ÞESS MEIRA VERÐUGUR AÐ VERÐA HUNDAMATUR EN LEIKMAÐUR LIVERPOOL. FOKK HVAÐ ÉG ER BRJÁLAÐUR NÚNA!

  .

  .

  .

  .

  .

  .

  Langaði bara að taka af skarið strax svo Caps-Lock hermennirnir okkar hér froðufelli ekki yfir lyklaborðin sín…

 11. Eigum við ekki að slaka aðeins á, sumarið er rétt að byrja og það er búið að fá inn 2 leikmenn á free transfer og glugginn er ekki búinn að opna.
  Ég gef mér það að Borini og Lambert muni fara frá félaginu í sumar og inn koma þá Ings og Origi. Það finnst mér vera styrking frá því í fyrra.

  Ef að Balotelli fer líka þá efast ég ekki um að það verði fengið inn stórt nafn og betri leikmaður í staðinn.

 12. Hvaða lið er eiginlega búið að taka yfir umræðuþræðina á kop.is?

  Man eftir því fyrir c.a. 10 árum hætti maður að skrifa inná umræðuþræðina á liverpool.is þar sem umræðuþræðirnir voru orðnir svo ómálefnalegir og niðurdrepandi. Þá var mér bent á kop.is þar sem þar var samankominn hópur sé hélt sig á málefnalegum nótum.

  Því miður með auknum vinsældum kop.is þá virðist sem nettröllinn af liverpool.is hafi tekið yfir umræðuna á þessum vef líka.

  Þegar neikvæðnis- og kaldhæðniskomment gagnvart klúbbnum virðast fá langflest “like” þá veltir maður fyrir sér hvaða lið er komið inná þessa síðu. Fyrst dettur manni í hug að þetta séu stuðningsmenn annarra liða að rugla í mannskapnum hérna en því miður þá virðist sem svo að þetta séu líka einhverjir aðilar sem telja sig “stuðningsmenn” Liverpool.

  Menn þurfa ekki að vera sammála um innkaup á leikmönnum en að skrifa löng kaldhæðniskomment trekk í trekk eða drulla yfir leikmenn í hástöfum er eitthvað sem maður nennir ekki að eyða tíma í að lesa.

 13. Okkur vantar sóknarmenn og því er bæting þar bara besta mál.

  Fínt að sjá okkur fá tvo ágætis – fína leikmenn til okkur snemma. Reikna með því að meira og betra gerist í sumar. Trúi ekki öðru en að menn séu með eitthvað plan um hvernig liðið eigi að spila og hverskonar leikmenn vantar í það.

  Verst er, að persónulega hef ég ekki mikið álit á BR í dag. Tel að hann hafi ofmetnast allsvakalega í starfi og hafi ekki það sem þarf til í að reisa klúbbinn við. En hann verður hjá okkur eitt tímabil í viðbót amk og hefur þá sénsinn að afsanna það. Og auðvitað vonar maður það…

 14. Fagna þessu.

  Býst samt við fleiri og “stærri” kaupum.

  Hvet menn til þess að horfa á þessi tvö kaup með jákvæðni. Það sem ég sé fyrst og fremst eru tveir leikmenn sem VILJA og ÞRÁ að spila fyrir Liverpool. Gátu fengið meiri aur á öðrum stöðum en velja okkur.

  Nú er það klárt mál að Ings er hugsaður sem styrking á hóp, annað en Lambert hefur hann æskuna og hraða sem fellur betur að okkar plönum. Gerir 11 mörk fyrir slakt lið Burnley sem er slatti meira en Lambert, Borini og Sturridge saman í deildinni í ár.

  Komdu fagnandi herra Ings.

  FSG – boltinn er svo í ykkar hendi – komið svo með kaup sem fá kjálkann til þess að droppa niðrá ökkla. Surprise us 🙂

 15. Þið eruð að grínast er það ekki, Bjuggust menn virkilega við því að við værum að fara landa gaurum eins og Benzema eða Bale eða álíka gaurum ? kommon ppl við lentum í 6ta sæti deildar , með ömurlega spilamennsku á síðari hluta tímabils , enga meistaradeild og svo framvegis.
  Tala nú ekki um stjóra sem er sleipur í sæti sínu eins og er ,kafteinnin farinn og fleira . yep
  að fá Danny ings er bara ágætt meðað við aðstæður.
  þetta er engin meðalmennska þetta er bara staðreyndin hjá LFC í dag.

 16. Að drulla svona yfir mann sem skoraði yfir 10 mörk fyrir arfaslakt lið Burnley er bara djók. Hraður og aggressívur ungur enskur framherji fyrir 3-5 milljónir punda er mjög gott. Djöfull vona ég að hann troði sokk ofaní svona 80% félaga okkar hérna inná síðuni!

 17. Greinilegt að leikmannanefndinn er mun grimmari að landa leikmönnum og það ber að hrósa fyrir það, þeir hafa nún ansi oft dregið lappirnar og misst af mönnum fyrir framan nefið á sér.

  Ánægður með þetta, held að menn verði aðeins að slaka á hann er nú varla hugsaður sem byrjunarliðsmaður við þurfum líka að gera hópinn allann öflugri.

  Aftur á móti er ansi margir framherjar sem við höfum í okkar röðum.

  – Sturridge
  – Ings
  – Origi
  – Balotelli
  – Borini
  – Lambert

  Það verður fróðlegt að sjá hvernig okkur gengur að losna við suma af þessu köppum, því nokkrir af þessum upptöldu hafa ekki átt gott tímabil í rauðu treyjunni og efa ég að þeir fari í betra lið en Liverpool þannig að það er klárt að þeir taka ekki á sig launalækkun ef þeir fara frá borði.

 18. Sælir
  Var að kynna mér Danny Ings á Youtube:
  https://www.youtube.com/watch?v=Px_c7jfGSdk

  Þetta virðist vera kraftmikill og sprækur strákur og líklegur til að valda usla í vörn hvaða liðs sem er. Minnir svolítið á Borini að því leyti en hugsanlega með enn meiri sprengikraft og boltatækni. Tel hæpið að hann eigi eftir að salla inn 20+ mörkum í úrvalsdeildini og því nauðsynlegt að fá gott markanef með honum. Sturridge gæti verið sá ef hann helst heill.

  Annars fannst mér helsti vandi Liverpool á síðasta tímabili vera ójafnvægi í spili liðsins og að BR skipti of ört um liðsuppstillingu. Liðið náð því aldrei að spila sig saman og miðjan spilaði ekki rétt upp á framherja liðsins hverju sinni.

  Tímabilið 2013-2014 var meira og minna sama liðsuppstilling allan veturinn og í apríl-maí gátu leikmenn nánast leikið með lokuð augun. Þá litu leikmenn eins og Glen Johnson og John Flanagan út eins og stórstjörnur. Þetta er nokkuð sem BR þarf að hugleiða stíft.

  BP

 19. Uss flott kaup,
  Hann verður flottur í vængbakverðinum hjá rodgers í haust.

 20. Langar að taka það fram að ég er spenntur fyrir Ings en ekki jafn spenntur fyrir notkun rodgers á honum í haust.

 21. Fyrst aðeins um umræðuna í þessum þræði, eru margir að drulla yfir þessi kaup? Twitter er a.m.k. nokkuð meira brutal eins og vanalega og þessi kom með mjög góðan punkt.

  Persónulega lýst mér sæmilega á þetta og bíð a.m.k. með sleggjudóma þar til ég hef séð hann spila nokkra leiki. Ings er kannski ekki sá metnaður sem við viljum sjá hjá klúbbnum í þessa vandræðastöðu en sem 3-4 kostur sé ég ekki hvað er að þessum kaupum. Þetta er strákur sem hefur verið í U21 árs landsliði Englands undanfarin ár. Hann var leikmaður tímabilsins í Championship deildinni 2013/14, þá 21 árs. Hann skoraði næstum því þrefallt meira fyrir Burnely en öll framlína Liverpool skoraði samanlagt í vetur, hvað getur hann þá skorað mikið með Coutinho, Lallana o.fl. fyrir aftan sig?

  Mjög orkumikill leikmaður og hreyfanlegur sem vantaði gríðarlega hjá okkar mönnum í vetur. Hann hefur svo rétt eins og Milner mjög lítið verið í meiðslavandræðum enn sem komið er á ferlinum.

  Hef ágæta trú á þessum strák og fagna komu hans svo lengi sem von er á einum til viðbótar. Grunar að Ings eigi eftir að spila töluvert af leikjum á næsta tímabili.

  Ég hef lengi röflað yfir kaupum Liverpool á enskum meðalmönnum á uppsprendu verði. Ings gæti vel fallið í þann flokk varðandi meðalmennsku en þessi áhætta er no brainer fyrir 3-5m, rétt eins og Milner var í síðustu viku þó launin þar séu töluverð. Þetta er ekki eins og þegar hent var 35m í Carroll og 20m í Downing. Það voru mjög svipuð leikmannaviðskipti og félagið er að gera nú með Ings og Milner. Downing var 28 ára þrautreyndur enskur landsliðsmaður og Carroll var ungur U21 árs landsliðsmaður með eitt tímabil að baki í EPL.

  Þessi 50m pund sem munar á þessum viðskiptum fara vonandi í stærri nöfn sem styrkja byrjunarliðið strax.

 22. Var að sjá verðmiðann á honum. Er það rétt að við fáum hann á 3-5 milljón punda?

  Ef það er rétt, þá virka þetta sem kjarakaup. Ungur leikmaður, sem að öllum líkindum verður ekki á sjúkrahúsinu hálft tímabilið og nokkuð sprækur frammi.

  Er eitthvað neikvætt við þessi kaup?

 23. “Er eitthvað neikvætt við þessi kaup?”

  Það virðist vera miðað við mörg kommentin 🙂

  Ungur og góður slúttari, er að banka á landsliðsdyrnar (hefur verið í yngri landsliðum)
  Kjarakaup að mínu mati og bíð hann velkominn í fallegu rauðu treyuna.

 24. Milner og Ings eiga það báðir sameiginlegt að bæta hópinn og því tek ég þeim fagnandi. Vinnusamir leikmenn sem virðast vera með hausinn á réttum stað. Ég er sannfærður um að Milner muni verða fín viðbót strax frá byrjun. Hann er vanur þeirri andlegu pressu sem Lpool leikmenn búa við, það er hinsvegar stór spurning hvernig Ings mun ganga að tækla það??

 25. eina sem er neikvætt við þetta er að það verður ekki keyptur annar striker …Sturridge, balotelli, origi og ings…erum ekki að fara að vera með fleiri striker-a heldur en 4.
  charlie adams var lika frábær i liði blackpool sem féll um árið, just saying.
  svo kom hann til okkar og eg held að enginn muni eftir honum

 26. Velkomnir Milner og Ings!
  En!
  Liverpool á að bera sig saman við Barcelona, Real Madrid, Bayern Munchen, PSG o.s frv.
  Við eigum mjög langt i land!

 27. Sælir

  Ég er bara nokkuð spenntur fyrir Ings, hef fylgst með honum undanfarin tvö ár og að borga einhverjar 3- 5 milljónir punda er nú ekki mikil áhætta.

  Hverjir hefður verið spenntir fyrir Harry Kane í fyrra? Ekki ég vissi nú ekki hver það var einu sinni. En í dag þá væri ég alveg til í að hafa hann hjá Liverpool.

  Við skulum gefa Ings smá séns, kannski heppnast þetta kannski ekki sem á í raun við um öll kaup á leikmönnum. Það að kaupa eitthvað stórt nafn er ekki ávísun á titla.

 28. Liverpool er bara að tryggja sér 6-10 sæti á næstu leiktíð þvílíkur metnaður ætli það sé ekki hægt að næla sér í júsý bita úr championship deildinni núna eða jafnvel úr spænsku b deildinni. Er það kannski of metnaðarfullt?

 29. Skilaboð dagsins.

  Ekki dæma leikmenn áður þeir eru amk byrjaðir að spila með liðinu okkar”

  Ings er frábær kostur sem 3/4 striker, nú verður spennandi að sjá hver verður keyptur sem 1. kostur.

 30. Bæði Milner og Ingis koma með breidd í hópinn sem skorti í vetur, sérstaklega Ingis. Hann er ekki að koma í staðinn fyrir neinn nema þá Baló sem gat nú ekki blautan elskulegur.

  Til að lifa af í deildinni og Evrópudeildinni þarf breidd og það er bara gott að það er hægt að klára kaupin sem fyrst, þannig að menn fari inn í pre-season sem púllarar en ekki keyptir á lokametrunum.

  Er þó á sama máli og margir, það vantar að fá helst topp klassa stræker þar sem við getum ekki treyst á Sturridge, en ég er bara ekki til í hvern sem er þar.

  Er jákvæður eins og alltaf, mitt glas er hálffullt og bara bjart framundan.

 31. Já það er svosem ekkert hægt að kvarta yfir þessum díl sem slíkum. Ódýr, ungur og efnilegur leikmaður, getur orðið að stórum prófíl en getur líka klikkað. Ómögulegt að dæma um það að svo stöddu. Ég minni á að Borini skoraði t.d. 14 mörk ef ég man rétt fyrir arfaslakt lið Sunderland á þarsíðasta tímabili.

  En þetta með metnaðarleysið og það allt, þá get ég ekki séð að FSG séu sérstaklega metnaðarlausir. Þeir eru að byggja félagið allt upp til lengri tíma og hluti af því er að selja topp leikmenn og gera góð kaup í ungum og ódýrum leikmönnum sem þeir geta síðan selt dýrt.

  Sterling verður væntanlega seldur í sumar og svo Coutinho næsta sumar, báðir fyrir vonandi nálægt 50 milljónum punda. En liðið verður ekki meistari á næstu árum nema með einhverri svona geðveiki eins og í fyrra. Við þurfum að sætta okkur við stefnu félagsins og temja okkur þolinmæði.

 32. Vertu velkominn Hr Ings

  Ég bara skil ekki þessa neikvæði varðandi Milner og Ings og sérstaklega Ings.. Sumir hérna inni mæta og drulla yfir leikmenn sem koma eða eru orðaðir við okkur og fara svo að væla þegar tottenham stelur þeim frá okkur og hey þeir reyndu það núna en Ings VILDI bara koma til Liverpool og þá væliði líka.. kannski er ég of jákvæður en ég hef bara ALLTAF staðið á bakvið þá leikmenn sem klæðast treyjunni okkar og þjálfara og ég hef fulla trú á að hann á eftir að reynast góð kaup ég meina hann skoraði 11 mörk með Burnley þannig að ég hef fulla trú á að hann muni skora meira með Coutinho, Lallana, Henderson, Milner og fleirri á bakvið sig allir þessir menn sem ég taldi upp eru mun betri leikmenn en eru á bakvið Ings hjá Burnley…

 33. Þetta er lotto, hvaða striker úr topp 5-6 liðunum í EPL hefur náð að blómstra undanfarin ár sem kostar lítið sem ekkert, kannski er hann ekki hugsaður sem slíkur. Vonandi blómstrar hann bara.

 34. Flott kaup.
  Þetta er engin bévítans lufsa sem telur sig stjörnu og hugsar fyrst um launatékkann.

  Grimmur gaur með keppnisskap. Hvað haldiði að vanti í liðið okkar til að komast í gegnum ískaldan drullusvaðs jólatarnabolta og vera contenders um áramót? Erum við ekki annars að tala um að taka deildina áður en við förum að hugsa um restina af Evrópu?

  Hann er enginn Costa ennþá en hann er ungur og ákafur og með eitt og annað vænlegt í pokahorninu.

  Það má samt ekki einblína á eistun í þessum glugga, ein og ein fegurðardís mætti slæðast með.
  YNWA

 35. Ég er bara mjög sáttur við að gambla á Ings fyrir þennan pening.

  Miðað við það sem maður hefur séð er þetta ungur og orkumikill strákur sem nýtist vel í hápressu.

  Það mín skoðun að í sumar verða keyptir að mestu menn til að geta spilað og viðhaldið pressu á mótherjann og Ings fellur algerlega í það mót.

  Það er alger óþarfi að hrauna yfir mann sem ekki er búinn að spila einn leik fyrir liðið okkar,
  Þetta gæti alveg reynst vera okkar Hernandez, maður sem kemur inn og potar inn marki reglulega en svo gæti hann alveg verið Aspas version II og þá er það bara ódýrt gamble sem þýðir ekki að heimurinn sé á enda kominn.

  Vonandi losa menn sig svo við Lambert, Borini & Balo og fá inn einn proven scorer og þá erum við bara að dansa!

 36. ágætis viðbót við hópionn okkar en eg verð gersamlega brjalaður ef það kemur ekki annar striker einhver alvöru náungi.

  sturridge, ,Ings ,Origi og einn enn mjög öflugan stræker og þá er eg sáttur við framherjana okkkar.

 37. Spurning hvað mennirnir sem eru að drulla hér yfir að fá menn á “free transfer” (3-5 milljónir er ekki neitt) hefðu sagt ef við hefðum fengið Pogba á free transfer fyrir nokkrum árum. Hann var varla búinn að spila leik fyrir Utd.
  Er ekki að halda því fram að Ings sé sama efni. Ings er þó ungur með reynslu úr EPL. Hann gæti sprungið út hjá okkur í besta falli. Í versta falli verið á svipuðu leveli og Balotelli á lægri launum.
  Þetta er nánast risk free svo ég held að menn ættu að róa sig aðeins.

  Síðan má bæta við að menn kvarta hér gjarnan um að ná ekki þeim mönnum sem Liverpool er á eftir. Það er einmitt það sem Liverpool tókst núna þrátt fyrir mikla samkeppni frá öðrum topp klúbbum, amk í tilfelli Milner.

  Með öðrum orðum er eitthvað neikvætt við þetta? Ég sé ekkert slæmt við þessi viðskipti.

 38. Hvernig er hægt að kvarta yfir því að við munum fá meira fyrir Borini, Balotelli og Lambert heldur en Milner og Ings sem munu henta mun betur í okkar kerfi en fyrrnefndir leikmenn?

  Ings skoraði 11 mörk á seinustu leiktíð á meðan Balotelli + Borini + Lambert + Sturridge skoruðu samtals 8 mörk. Hann kostar okkur um 3-5m og ef þetta klikkar hjá honum að þá munum við alltaf ná að selja hann aftur fyrir svipað eða meira.

  James Milner skapaði 52 færi í deildinni á seinustu leiktíð, sem er meira en Di Maria (51), Mata (50), Ramsey (47), Rooney (45) og Oscar (36). Við fengum þennan leikmann “frítt” ef við tökum í burtu laun og undirskriftarbónus.

  Fyrst ég er sáttur með Ings og Milner, þá bjóst ég við að allir væru það líka þar sem ég hef verið hvað skeptískastur á Liverpool seinustu misseri.

  Það er ekkert nema gott hjá klúbbnum að styrkja hópinn snemma í júní og fara svo á fullt í stærri kaup í júlí – ágúst.

 39. Meðalmennska Liverpool í leikmannakaupum síðustu ár skína í gegn í þessum kaupum.Stefnir í rólegt sumar. Næsta tímabil verður erfitt eins og það sem nú er afstaðið Engin stjarna í þessum leikmannahóp, enginn leikmaður með karakter.

  Kv
  einn búinn að fá nóg

 40. “Liverpool have gone from SAS (Sturidge and Suarez) to ISIS (Ibe, Sterling, Ings, and Sturidge)”

 41. Sigurjón. Það þarf að losa um marga leikmenn og margir þegar búnir að ákveða að fara (Gerrard, Johnson, Lambert, Borini, Allen, Coates, Aspas, Alberto, Balo?, Sterling?)

  Gluggin er ekki opnaður og við erum búnir að fá tvo leikmenn sem sína 100% vinnusemi, dugnað og hörku. Annar er karakter, reynslubolti og City vildu ólmir halda honum. Hinn er gæji sem leggur allt í sölurnar og tók beinan þátt í 15 af 28 (11 mörk 4 assist) mörkum fallliðs Burnley.

  Það eru háar raddir að við séum að fá Clyne og Kovacic og er talið líklegt að annar hvor þeirra sé inn í vikunni. Og glugginn er ekki einu sinni opnaður. Fyrir mér er FSG og Liverpool að sýna mikinn metnað með að fá þessa leikmenn inn strax. Menn sem eru ekki endilega risanöfn en bæta núverandi hóp. Við erum ekki að spila FM.

  Það mun koma leikmaður inn sem bætir byrjunarliðið. Tímabilið kláraðist offically fyrir 2 dögum, róum okkur aðeins með dómana.

  Velkomin Ings.

 42. Mér er slétt sama hvað þeir heita svo lengi sem þeir gefa sig alla fyrir Liverpool FC.
  Ég hugsa að Danny Ings hafi töluvert meira vinnuframlag að bjóða heldur en báðir Ítalarnir okkar til samans.

 43. Sindri Rafn.
  Ég er bara ekki sammála. Við erum langt á eftir þeim klúbbum sem fóru í meistaradeildina hvað hópinn varðar og við erum að bæta við okkur leikmönnum sem eru á pari við þá sem við höfðum fyrir sem er ekki að fara að færa okkur nær meistaradeildinni hvað þá að gera okkur samkeppnishæfa þar.
  Síðasta tímabil var ekki Liverpool sæmandi. Ég hef aldrei séð klúbbinn minn hreinlega gefa frá sér leiki í meistaradeildinni áður en hann var flautaður á, svo ekki sé talað um skituna í evrópudeildinni.

  Mín skoðun er að Liverpool þurfi 3-4 heimsklassaleikmenn til að vera samkeppnishæfir á næsta tímabili miðað við hópinn eins og hann er núna.

  Milner og Ings eru ekki í þeim klassa , langt frá því.
  Ég ætla ekki að fara að hoppa á bjartsýnisvagninn eins og margir aðrir eftir leikmannakaup síðasta tímabils.

  kv
  Sigurjón

 44. Liverpool eru alveg a? toppa sig í me?almenskunni. Hvílíkir leikmenn sem þeir eru a? fá núna.

 45. Leikstíllinn minnir mig á Bellamy þegar hann var upp á sitt best hjá Newcastle. Vonandi kemur eitthvað gott úr þessum dreng. En þessir þrír leikmenn sem eru komnir eru ekkert að fá mig í bjartsýniskast. Líst þó engu að síður vel á þetta. Verðum vonandi með í baráttu um meistaradeildina á næsta tímabili.

 46. Skv. slúðrinu eru Liverpool farnir að spá í Trippier, bakverði Burnley í staðinn fyrir Clyne.

 47. Hörkuduglegir já. Ein og Borini þá, hann er voða duglegur líka. Frændi minn er líka mjög duglegur strákur, vinnur i frystihúsi og kvartar aldrei. Sáttur við launin og trúr útgerðinni.

  Verðum að fara að fá hæfileika inn i þetta lið okkar. Búinn að fá nóg af duglegum strákum.

 48. Allt eðlilegt við það að við séum ekki samkeppnishæfir klúbbunum sem fóru í meistaradeildina. Enda eru þau búin að vera með áskrift þar inn síðustu ára og eiga öll miklu meiri peninga en Liverpool. Við erum á svipaðri leið og Arsenal gerði fyrir nokkrum árum, nýr völlur, selja bestu leikmennina og það er núna búið að skila Arsenal tvem FA bikurum og 2.sæti á síðasta tímabili, enda gátu þeir loksins keypt heimsklassa leikmann sem bar liðið oft á tíðum uppi.

  Á meðan getum við ekki nappað bestu leikmönnum heims því höfum við ekki upp á að bjóða meistaradeildina á hverju ári, launaseðlana sem þeir fara fram á eða peninginn sem við þurfum að leggja út fyrir þeim.

  Það sýnir samt mikinn metnað að við séum búnir að styrkja hópinn um tvo leikmenn strax í byrjun júní. Séum á eftir besta hægri bakverði deildarinnar, sem var partur af einu besta varnarliði deildarinnar síðasta árs og viljum fá inn Serba á miðjuna sem er klárlega betri en Allen og Lucas. Styrking.

  Ég er alveg sammála þér um að Liverpool var ekki sæmandi á síðasta tímabili í bæði deild, meistaradeild og FA en vandamálið liggur ekkert í að við séum með svo slæmt lið. Erum með helling af gæðum í þessu liði. Á köflum voru þeir bara ekki að sýna þessi gæði og við vorum að fara illa með óeðlilega mikið af góðum færum. Það var enginn ástríða, vilji, vinnuframlag eða harka á löngum köflum. Sturridge var varla með og fíaskóið með Sterling og Gerrard var ekki að hjálpa.

  Pointið mitt er að eins og Siggi G segir, menn sem sýna metnað, vinnuframlag og ástríðu er eitthvað sem við þurfum í bland við gæðin sem við höfum og þá munum við dansa. Við erum búnir að fá tvo leikmenn sem flokkast undir það og erum líklega að fá tvo aðra sem flokkast undir að vera “styrking fyrir byrjunarliðið”. Sumarið er varla byrjað og dæmum ekki vinnuna of fljótt.

  Svo eru miklar hræringar í backroom staffinu sem við flest allir höfum góða tilfinningu fyrir held ég bara 🙂

  YNWA

 49. þetta eru dæmiger? 50/50 liverpool hafa fari? þessa lei? à?ur keypt eins àrs undur.

  êg er bara ekkert à mòti þessum kaupum svo framarlega a? þetta sèu ekki stòru framherja kaupin í sumar. þà er þetta stràkur sem getur alveg eins sanna? sig og ekki

  En fèlagi? mà ekki klù?ra þessari stö?u í sumar og þess er gott a? fà ings og origi inn um von um a? annar þerra standi sig

  En fèlagi? þarf líka nafn inn eitthva? sem sýnir ö?rum a? félagi? ætli sèr eitthva? og svolei?is kaup mun auka trù annara à verkefni?!

 50. Danny Ings og Origi eru að koma inn, sem þýðir að Borini og Lambert og jafnvel Balotelli eru að fara út. Tala nú ekki um ef þriðji framherjinn verður keyptur.

  Hvað Danny Ings varðar þá held ég að hann fitti mjög vel inn í hugmyndir Rodgers um hvernig framherjar eiga að vera . Hann er vinnusamur, teknískur og kann að hitta á markið miðað við hvað hann skoraði mikið fyrir Burnley. Svo er hann ekki jafn mikill meiðslapési og Sturridge og gæti því verið gríðalega sterkt að hafa þennan valkost til staðar.

  Ég er ósammála þeim sem segja að þetta er miðlungsleikmaður. Hann var besti leikmaður Burnley á síðasta tímabili og ef hann t.d bætti sig um fjögur, fimm mörk, þá erum við að tala um 15 marka mann og munar okkur um minna. Það ætti vel að vera raunhæft þar sem hann er spila með hæfileikaríkari mönnum en hann hefur gert nokkurn tíman áður.

  þetta snýst um hvernig hann minglar sig við leikmenn eins og Lallana og Coutinho, sem og aðra sendingamenn liðsins eins og t.d Henderson. Hvort hann skilji hreifingar þeirra og sé með staðsettningarnar í lagi þegar hann fær boltan til sín.

  Ég held t.d að hann fitti betur inn í þetta leikkerfi en Balotelli og tel ég hann því fínasta valkost fyrir okkur. Við megum ekki gleyma að ein af hugmyndum FSG er að kaupa leikmenn sem gætu tekið stóra skrefið hjá okkur. Það var t.d hugmyndin á bak við Marcovic og Emre Can. Að þeir yrðu stórstjörnur hjá okkur. Ég held að Ings eigi svipaða möguleika og þeir að koma sterkur inn á næsta leiktímabili á sínum forsendum.

  Auðvitað gæti hann klikkað líka, en miðað við við erum að fá hann nánast kauplaust þá held ég að þetta séu úrvalskaup, því hann styrkir allavega hópinn, þó hann verði ekki endilega einhver arftaki Suarez.

 51. Babu #21 er með þetta.

  Að fá ungan leikmann á 3-5 millj. punda sem er hreyfanlegri og meiri stríðsmaður en t.d. Balotelli á 16 millj. eða gamall og hægur Lambert á 4 millj. segir allt sem segja þarf. Hvað þá ef við náum að losa okkur við þá plús Borini á 20 – 25 millj. Góður bisness!

 52. Ég tel þetta bara kjarakaup og mér finnst Ings getað blómstrað með Liverpool. Hann mun fá betri þjónustu enn i hann fékk i Burnley. Hiklaus 15 plús marka maður fyrir. Það fer auðvitað eftir hvernig Liverpool nær að styrkja sig i öðrum stöðum.
  Ef við fáum Kovacic frá Inter væri það meirháttar. Bjóða Inter t.d. Borini plús skilding þá væri þetta tvær flugur i einu höggi.

 53. #21. Ég er fullkomlega sammála Babu hérna. Þetta eru sniðug kaup að öllu leiti, hann er það ungur og svo er hann nautsterkur og er bara alveg ágætur í fótbolta, gæti orðið okkar Rooney með tímanum, en ég er líka sammála fleirum hér inni að ég vona að við styrkjum vörn og sókn með stærri “nöfnum” og meiri reynslu.
  btw. ég er hrikalega ánægður með Milner kaupin, geggjað að fá þennan vinnuhest inn… þeir sem að eru að kvarta undan þeim þurfa að þvo sér um augun.

 54. Menn halda að það sé hægt að losa sig við menn strax aftur ef þeir standa sig ekki. Ó nei. Það er þvílík hrúga af average leikmönnum hjá Liverpool sem glotta bara ef þeir eru beðnir um að fara. Vilja bara klára sinn samning þó þeir spili ekki neitt.

  Það er ekki hægt að greiða Sterling sama kaup og Milner!

  Benitez: We have to improve. NFS: Is it always raining in Liverpool?

  Metnaðarleysi.

 55. Þegar klúbbar kaupa miðlungs leikmenn þá verður árangurinn bara miðlungs og ekkert annað.

 56. Þetta eru góð kaup, ef hann stendur sig ekki er hægt að selja hann með hagnaði. Ég hef samt áhyggjur ef það kemur ekki sterkari sóknarmaður heldur en Ings og Origi inn. En sumarið er rétt byrjað..

 57. Menn verða samt að muna það er ekki nóg að kaupa bara eitthvað stórt nafn hann verður passa í liðið. Sem dæmi voru margir stuðningsmenn Liverpool og Utd mjög spenntir að fá Balotelli og Falcao en samt reyndust þetta vera tveir af lélegstu framherjum deildarinnar. Sömuleiðis var Morientes eitt stærsta nafn sem við höfum keypt í framlínu liverpool og hann gerði ekkert fyrir okkur.

 58. Ég var nú aðallega að vonast eftir því að Brendan yrði látinn fara. En fyrst svo verður ekki, þá er bara um að gera að styðja við bakið á kallinum og vonast til að óánægjuraus mitt og annara hafi verið tilhæfulaust og það sé alveg nóg að skipta um menn með Brendan. Það er hinsvegar ljóst að Brendan fær ekki annan séns ef næsta tímabil verður eins slakt.
  Varðandi kaupin, þá er ég sáttur hingað til. Erum að kaupa ungann og upprennandi framherja og verðum þá með 2 unga graða og efnilega framherja til stuðnings við Studge. Veit ekkert hvað skal segja um Balo. Gaurinn er skemmtileg týpa en virðist skorta hugarfarið sem þarf til að ná árangri.
  Milner kaupin eru mjög góð. Þetta er duglegur baráttuhundur sem ásamt Hendo ætti að geta hlaupið yfir miðjumenn flestra liða. Með svona duglega menn á miðsvæðinu er hægt að spila hápressu og sækja hratt . Nú þarf bara að klára þetta Sterling mál, líst ekkert á að halda drengnum ef hann ætlar að vera með leiðindi, frekar selja hann fyrir góðan pening og fjárfesta vel.

 59. Kom ekki morientes frítt? En er Burnley núna liðið sem á að hirða leikmenn úr? Er það ekki skref niður á við fra Southampton. En mér finnst Danny Ings ekki mjög spennandi. Upgrade á Borini og Lambert ca. 10 árum yngri.

 60. Algjörlega ótímabært að hrauna yfir þessi kaup núna. Það verður að skoða öll kaup í samhengi við lok gluggans. Við vitum ekkert hver hin kaupin í sumar verða, eða hvort það verða nokkur, hvort það sé verið að spara allan peninginn í sóknarmann, eða hvort við vöðum í ódýra hlaðborðið.
  Ofan á allt vitum við ekki fyrirfram hvernig menn standa sig í hinum fallega Liverpool-búningi.

  Andið inn og út félagar svo þið springið ekki…

 61. Allir vilja sjá Liverpool að keppa um sömu leikmenn og Real Madrid, Barcelona, Chelsea, já og jafnvel ManUtd.

  Þess vegna vilja allir sjá Pogba eða Vidal, eða Benzema, eða Hummels, eða … [insert name].

  Og þess vegna líta kaup á Danny Ings alltaf illa út, og þess vegna bölva menn þessum kaupum í sand og ösku. Því, halló, hann var að spila með fokking Burnley! Sem féll úr ensku úrvalsdeildinni! Þvílík og önnur eins meðalmennska!!

  Okei, ég er samt ekki á þessum buxunum. Ég er bara nokkuð sáttur við svona kaup. Ings er aldrei eins góður leikmaður og Benzema. Eða Rooney. Eða Sanchez. Og hann er ALLS ekki jafn góður og Luis Suarez. Enda fáir sem komast með tærnar þar sem þeir eru með hælana.

  Ings er hins vegar betri leikmaður en Balotelli, Borini og Lambert. Þessir þrír eru allir á launaskrá LFC í dag. Ings skoraði meira en allir þrír til samans á síðustu leiktíð. Og hann spilaði með mun verra liði – þótt annað megi halda miðað við viðbrögð manna við þessum kaupum.

  Ings var meira að segja betri en Sturridge á síðustu leiktíð – þó það sé vonlaus samanburður – en hann var líka heilt yfir betri en Sterling, sem sumir vilja meina að sé besti ungi leikmaður heims.

  Þannig fyrir mér er hægt að horfa á þetta með tvenns konar hætti. Annars vegar geta menn bölvað því að Liverpool sé ekki í hópi þeirra bestu/ríkustu og sé að berjast um stærstu bita markaðarins. Hins vegar geta menn horft á þetta sem kaup á ungum og efnilegum enskum leikmanni, sem þó var betri en allir framherjar LFC á síðustu leiktíð.

  Annað sjónarhornið er úr takti við veruleikann, hitt sjónarhornið er sjónarhorn raunveruleikans. Ég veit hvernig ég ætla að horfa á þetta.

  Ings og Milner eru ekki leikmenn sem munu gera útslagið um það hvort LFC verður meistari á næstu leiktíð eða ekki. Þeir munu hins vegar bæta leikmannahópinn umtalsvert. Þeir munu koma með heljarinnar baráttu í liðið (Balotelli, einhver?), meiri gæði (Balotelli, einhver?), og bæta enska kjarnann í liðinu.

  Ings og Milner verða væntanlega ekki stærstu kaup sumarsins. Vonandi gengur eftir að kaupa Clyne, sem ég hef fulla trú á að gerist, og ég vona svo innilega að LFC beri gæfu til að kaupa Kovacic. Það, að mínu mati, gætu orðið stærstu kaup klúbbsins til lengri tíma litið, því Kovacic er ótrúlega efnilegur leikmaður.

  Menn hreinlega verða að stilla væntingum í hóf. Það er ömurlega leiðinlegt að lesa einnar línu komment um hvað allt sé ömurlegt því að liðið er ekki að kaupa stærstu nöfnin. Svona er bara raunveruleikinn, Liverpool getur ekki annað en starfað í samræmi við það.

  Homer

 62. Þetta er auðvitað bara meðalmennska. Af hverju er Liverpool ekki á eftir einhverjum þekktum nöfnum, eins og t.d. Balotelli? “Proven talent”, með reynslu úr úrvalsdeildinni?

  /s

 63. Það eru reyndar 84 dagar þangað til leikmannaglugganum verður lokað og því ættu menn að anda rólega. Það er tími til að gera ýmislegt á þessum tíma og algjörlega ótímabært að drulla yfir þessi kaup sem eitthvert dæmi um meðalmennsku. Ég lít á þessi tvö kaup sem töluverða bætingu á 18 manna hóp liðsins en ekki endilega bætingu á byrjunarliðinu þó svo að ég telji James Milner eiga eftir að spila flesta leiki. Ætli megi þó ekki færa rök fyrir því að Milner sé bæting á 2015 árgerðinni af Steven Gerrard? Helgispjöll segja kannski sumir…

  Hinsvegar þarf að gera tvennt til að ég sé ánægður með leikmannagluggann. Það þarf í fyrsta lagi að bæta bakvarðarstöður liðsins enda varla þokkalegur bakvörður á launaskrá liðsins og það þarf klárlega að bæta. Enginn raunhæfur valkostur er í hægri bakvarðarstöðuna en reyndar vil ég gefa Moreno tækifæri í þá vinstri. Hann er ekki fyrsti evrópski ungi leikmaðurinn sem á erfitt fyrsta tímabil í ensku deildinni.

  En aðalmálið er að það þarf nauðsynlega að kaupa allavega einn heimsklassa sóknarmann. Það þarf að yfirborga það kvikindi vegna samkeppni frá öðrum liðum sem geta greitt góð laun og boðið upp á titilbaráttu og Meistaradeildarbolta á næsta tímabili. Ég held að það séu ódýrar afsakanir að segja leikmenn ekki vilja koma til Liverpool vegna fjarlægðar frá London og skorti á Meistaradeildarbolta. Ég held að fjarlægðin frá Oxford Street sé ekki eins mikil hindrun eins og af er látið. Peningar tala og leikmenn fara þangað sem þeir fá besta pakkann. Liverpool þarf bara að borga þessum mönnum meira en FSG hefur verið að reyna undanfarin 2-3 ár. Nú kann vel að vera að FSG segist ekki hafa efni á að borga heimsklassa sóknarmanni samkeppnishæf laun. En ég segi að FSG hafi ekki efni á að gera það ekki. Liverpool FC þarf að fara með sannfærandi hætti inn í næsta tímabil með reynslumeira þjálfarateymi og þéttan 18 manna hóp leikmanna sem inniheldur mjög sannfærandi sóknarlínu. Þar eru meiddur Sturridge, Danny Ings, síveikur Balotelli og ískaldur Origi svo langt frá því að vera sannfærandi hópur sóknarmanna. Það þarf marquee signing í framlínuna til að stuðningsmenn hafi einhverja trú á verkefninu og fylki sér að baki Rodgers og FSG. Annars er voðinn vís fyrir stjóra og eigendur og það mjög fljótlega í haust.

 64. Mér finnst sú stefna undanfarinna ára að kaupa best manninn úr einhverjum skítaliðum ekki verið að ganga alveg nógu vel. Adam, Downing, Carrol, Lambert, Lovren osfrv.
  Burnley féll og við erum að fá sóknarmannin í því liði. Það var sagt um þá að ástæðan fyrir því að þeir féllu var sú að þeir skoruðu ekki nógu mikið af mörkum.
  Sem fjórði besti sóknarmaðurinn í liðinu þá kanski meikar þetta einhvern pínu sens, en ég er hræddur um að sú verði ekki raunin.

 65. Mikið væri ég til í eitt podcast í kvöld !

  Maður fær svona huggun úr því

  áttar sig á því að ganga fleiri í gegnum erfiða tíma

 66. Ég velti því fyrir mér það virðast allar pollýönurnar hérna vera sannfærðir um að Danny Ings sé 3/4 striker. Ég spyr því ef við gefum okkur sögu FSG frá því að þeir tóku við klúbbnum hvers vegna eru menn sannfærðir um það? Ég tek það fram að ég hef ekkert á móti Danny Ings og ef hann í raun er striker 4 þá er þetta alveg gamble sem er þess virði að taka í ljósi þess að hann kostar okkur ekki nema 3-5 milljónir punda. Vandamálið sem ég sé er að ég hef bara nákvæmnlega enga trú á því að hann sé keyptur sem 3 eða 4 striker. Ég er eiginlega bara alveg viss um það að þegar að gluggin lokar í ágúst þá verða framherjarnir okkar Sturridge sem 1 striker Ings/Origi striker 2-3(sem verður strikerstaða 1-2 mest allt tímabilið þar sem að Sturridge helst ekki heill i gegn um hnerra) og svo kannski verður Balo þarna enþá ef okkur tekst ekki að selja hann. Ég er bara skíthræddur um að metnaður FSG sé ekki meira en það. Ég verð bara að segja fyrir mitt leiti að þetta er ekki mjög spennandi framlína. Þegar ég segi metnaðarleysi þá er það ekki til að skíta yfir Danny Ings sem gæti hugsanlega mögulega alveg gert eitthvað gagn heldur vegna þess að ég því miður trúi því að FSG/Rodgers telji sig vera buna að leysa framherjavandamál klúbbsins með þessum kaupum. Hngnun Liverpool heldur því miður áfram sú staðreynd að Rodgers fær að vera áfram er sorgleg og þessi aumkunarverða tilraun til þess að slá ryki í augu stuðningsmenn með því að reka menn úr þjálfarateyminu hans er eins og að reyna að laga aflimun með litlum plástri.

 67. Gluggin er ekki byrjaður, þessir einstaklingar eru hugsaðir sem breydd í Ings og reynsla í Miller, en þetta eru ekki mennirnir sem koma okkur á toppin, þau kaup eru eftir og ég bíð spentur…

 68. Skil ekki þegar menn tala um meðalmennskukaup og þessháttar. Það er nú bara þannig að leikmannakaup verða að dæmast eftir smá tíma ekki fyrirfram. Sami Hyypia, Xavi Alonso og Luis Suarez voru lítt þekktir áður en þeir slógu í gegn hjá Liverpool. Síðan hafa fjöldi leikmanna komið úr lakari liðum í þau stærri og slegið í gegn. Frank Lampart, Shevchenko , Drogba, Ronaldo og fleiri og fleiri voru 20-22 ára þegar þeir fóru annað stærra lið. Það er bara ekkert gefið að leikmannakaup ganga 100% upp. Sjáið bara Man.Utd, ekki voru Di Maria og Falcao að gera dans á rósum samt miklu stærri nöfn en Ings og Milner. Balotelli var nú heldur betur stórt nafn þegar hann kom til okkar. Sá skeit hressilega á sig. Þegar maður lítur til baka þá er nú bara oftast litlu nöfnin sem spjara sig best hjá okkur. Liverpool hefur oft brennt sig á stóru nöfnunum………Morientes og Joe Cole…….I rest my case

 69. Það er ágætt að fá Ings inn en það verður að láta Boruna fara. Hann er arfaslakur arfi.
  Sakna frétta af þeim farþegum sem við þurfum að vísa úr LFC rútunni. Ekkert heyrist af
  spænska bakverðinum,sem ég nenni ekki að rifja upp hvað heitir. Ekkert heyrist af lambinu honum Lambert. …man það núna Jose Enríki. Losa okkur við þetta sorp og halda áfram að
  þétta raðirnar.

 70. Ég býð Ings velkominn til Liverpool FC. Vonandi að hann eigi eftir að bæta sig verulega sem knattspyrnumaður hjá okkur, og skora hundruð marka fyrir okkur, hann er enn ungur. Ef menn dæma svona kaup fyrirfram þá vill ég spyrja menn á móti , munið þið hvaðan við keyptum Kevin nokkurn Keegan ? Eða Ray Clemence ?

 71. #69 maður lifir i voninni. Er að reyna að halda mer jákvæðum það er ekki einsog maður fari að skipta um lið. Sama hvað gerist

 72. #70 þetta er ekki allskostar rétt hjá þér t.d. Suarez skoraði einhver 49 mörk í Hollensku deildinni þrátt fyrir að narta smá. Mikil spenna fyrir honum og hann stóðst allar væntingar strax á fyrsta ári. Þannig á það að vera. Það finnst engum gaman að bíða eftir Godot og horfa á málningu þorna á vegg.

  Mikið var maður stolltur af Suarez um síðustu helgi innbyrða þrennuna. 🙂

 73. Ákvað að kikja aðeins a youtube og skoða Kovacic frá Inter og bara já takk, kaupa þennan gæja i hvelli.

  Hendum i þa Borini uppí kaupverðið.

 74. Ég skil ekki alveg af hverju fólk er svona rosalega pirrað yfir þessum kaupum í vikunni. Milner er alltaf uppfærsla fyrir Gerrard eins og hann var orðinn á seinasta tímabili og Ings tel ég passa betur inn í okkar leikskipulag en flestir af þeim framherjum, sem við erum með í dag. Ég er sammála þeim að þessi kaup eru jákvæð fyrir okkar klúbb þar sem hér var gengið beint til verks og þessir menn tryggðir strax en ekki verið að dútla sér við þessi kaup langt fram eftir sumri með engum árangri í restina og setur okkur í “panikk mode”

  Einhver stórkaup sem menn eru að kalla eftir hér fyrir ofan munu að mínu mati ekki gerast í sumar. Þessi umræða um Tevez og Benzema finnst mér vera fáránleg. Mér fannst Tevez aldrei vilja vera á Englandi. Hann fór að minnsta kosti alltaf í fýlu eftir ákveðinn tíma hjá sínum klúbbum. Benzema er kannski raunsærri kostur en passar hann inn í okkar kerfi? Einnig tel ég ólíklegt að okkar staða sé þetta spennandi til að ná í svoleiðis nafn.

  Að lokum vona ég vara að þeir leikmenn sem við viljum losna við í sumar verði seldir en ekki lánaðir. Ég er kominn með hundleið á að hafa einhverja 10 leikmenn í “láni með möguleika á sölu” sem maður veit að verður aldrei. Selja þá þó svo að það verði með tapi.

  Er í heildina orðinn bara mjög jákvæður fyrir þessu og hlakka til sumarsins og næsta hausts.

 75. Auðvitað á að gefa öllum leikmönnum tækifæri og bjóða þá velkomna og vona það besta. Það þýðir þó ekki að innkaupastefnan sé hafin yfir létta gagnrýni. Síðasta sumar var ekki beint stórkostlegt.

  Þetta sumar er byrjað (og byrjar vissulega með krafti sem er jákvætt) og auðvitað er nóg af tíma eftir.

  Mergur málsins eru að liðin sem enduðu fyrir ofan okkur standa töluvert minna í þeim pakka að kaupa ágætisleikmenn sem kannski verða ‘næsti Ian Rush eða Kevin Keegan’. Auðvitað vona ég að Danny Ings verður stórkostlegur og raði inn mörkum fyrir Liverpol – ég verð fyrsti maðurinn til að fagna því. Haldiði samt að hann hafi samþykkt að koma hingað á þeim forsendum að verða 3/4 striker? Eins vona ég að James Milner sé ekki á niðurleið, 29 ára leikmaður getur átt slatta inni – hann hefur fína sendingargetu og ef hann aðlagar leikstílinn sinn með hrörnandi líkama (hann er jú bara nokkrum árum yngri en ég!!) gæti hann átt nokkur ágæt ár inni.

  Lítum á Chelsea í fyrrasumar. Þeir áttu fyrir frábæra miðju, en _bættu_ hana með kaupum á Fabregas. Svo fengu þeir Loic Remy (sem féll á læknisprófinu okkar en heldur betur skilaði nokkrum dýrmætum stigum inn fyrir þá undir lokin) og svo Diego Costa! Í Janúar glugganum keyptu þeir svo besta leikmann Fiorentina, Cuadrado – sem hefur hæglega getu til að verða einn besti leikmaður næsta tímabils þó svo hann hafi ekki náð að aðlagast Englandi nægilega vel í vetur.

  Ok ok, við getum auðvitað ekki borið okkur saman við hina mikilfenglegu Chelski. Við erum ‘bara’ Liverpool. Lítum þá á Arsenal. Alexis Sanchez, Mathieu Debuchy, Gabriel Paulista og svo auðvitað Mesut Ozil árið á undan. Þeir eru ekki endilega að kaupa mikið af leikmönnum, en leikmenn sem eru hrein styrking á hópnum og gera beint tilkall í byrjunarliðið.

  Man. Utd missti af meistaradeildasætinu, var í svipaðri stöðu og við í sumar. Fengu inn mjög fína leikmenn.. Herrera, Di Maria, Luke Shaw, Rojo og floppið Falcao á láni/forkaupsrétt. Þetta var allt hægt án þess að hafa meistaradeildina til taks.

  Ég nenni ekki að telja City með inn í þetta.

  Burt séð hvað leikmenn heita eða hversu miklar ‘stjörnur’ þeir eru eða hvað sem sumt fólk hefur gegn ‘proven’ spilurum á stóra sviðinu þá finnst mér bara að Liverpool eigi að setja fókus á að styrkja byrjunarliðið, því það núverandi gerði ekki gloríur á nýliðnu tímabili. Annars hef ég ekki meira um þetta að segja 🙂

 76. Er bara sáttur við þessi kaup, en hann er klárlega hugsaður sem striker nr. 3 eða 4, allavega vona ég svo sannarlega að svo sé!

  Þurfum klárlega a.m.k. einn toppsenter til viðbótar, þ.e. striker nr. 1 í þetta lið!

  Er sammála mörgum kommentum hér að menn mættu aðeins tóna niður neikvæðnina. BR verður áfram þjálfari liðsins hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Styðjum okkar lið, þjálfara og eigendur.

 77. Mér finnst svartsýnislestin eiginlega alveg ótrúleg! Það nær ekki nokkurri átt að vera fúll með kaup Liverpool á þessum tímapunkti.. Glugginn er ekki einu sinni búinn að opna!

  Við erum komnir með 2 fría (+uppeldisbætur) annar þeirra er efnilegur framherji með reynslu af því að vera nr.1 í úrvalsdeildinni og er líklega hugsaður sem 3-4 kostur en með möguleika á að sanna sig; og hinn er reyndur miðjumaður sem er þekktur fyrir fagmennsku vinnuframlag og góðan karakter.

  Báðir þessir leikmenn völdu Liverpool þrátt fyrir betri boð annar staðar frá, þeir trúa á verkefnið.

  Þetta eru ekki síðustu kaup sumarsins en þetta er góð byrjun til að bæta breiddina, það eru margir leikmenn að fara og það verða ekki keyptir heimsklassa menn í stað hvers og eins, að fá fría leikmenn skilur eftir pening fyrir stærri kaup.

  Kovacic og Clyne eru aftur á móti mjög metnaðarfull nöfn, við erum ekki í meistaradeild þannig að ég býst ekki bið Benzema eða Tevez en Kovacic er einn mest spennandi ungi leikmaður Evrópu og Clyne mjö spennandi ungur bakvörður. Þetta eru leikmenn sem ég hefði ekki búist við að Liverpool næði í, sérstaklega ekki Kovacic.

  Ég er bara mjög sáttur með að þetta fari svona hratt af stað þar sem það er margt sem þarf að gera.

  Ég er bjartsýnn fyrir sumrinu og met það svo í lok sumars hvort ég verð bjartsýnn fyrir tímabilinu.

 78. @AEG #10

  Þegar ég sá athugasemdina þá hugsaði ég ,,já góðan daginn, það hefur einhver stígið á líkþornin á honum” því þessi skrif eru ekki lík þér….. svo sá ég aðra málsgrein haha spot on dude 🙂

  Velkomin Danny Ings YNWA

 79. þessi kovacic er nokkuð flottur leikmaður. spilaði her með króatiska liðinu og sýndi takta
  a laugardalsvellinum. kaupa takk.

Breytingar í þjálfarateymi Liverpool

Danny Ings – verður hann óvænt hetja?