Evrópudeild – here we come!

Áður en lengra er haldið ætla ég að vara lesendur við því að þessi pistill er skrifaður af einstakling sem ætlar að líta á glasið sitt hálf fullt, reyna að sjá jákvæðan vinkil á vonbrigðum, fægja skítinn og eflaust má greina einhverja ákveðna pollýönnu hegðun hér.

Allt í góðu, þá höldum við áfram!

Nú er allt sem bendir til þess að Liverpool muni leika í Evrópudeildinni á næstu leiktíð eftir svekkjandi jafntefli við Chelsea í gær. Hinni ómerkilegu, skítafýlu, hundleiðinlegu og truflandi Evrópudeild þar sem félög fara og kveðja allar vonir og væntingar um nokkurn deildarárangur þær leiktíðir sem liðið er á meðal þátttakanda – ekki satt?

Ég verð að viðurkenna það að mér finnst afar leiðinlegur stimpill kominn á þessa Evrópudeild. Þessi keppni er ekki eins og Meistaradeildin, það eru engir Messi eða Ronaldo á meðal þátttakanda. Guardiola, Ancelotti, Mourinho og félagar eru ekki að stýra liðum í þessari keppni og peningarnir eru alls ekki eins miklir og á stóra sviðinu. Þetta er allt ömurlegt – ekki satt?

Orðspor keppninnar er ekki mikið. Satt að segja bara frekar lélegt – sérstaklega frá sjónarhorni fréttaveita, leikmanna og stuðningsmanna enskra liða. Þessi keppni er álitin drasl. Algjör tímasóun!

Ef maður vissi ekki betur þá mætti halda að ensku liðin gangi í gegnum þessa keppni á skítugum skónum. Fái enga mótspyrnu og vinna þessa keppni trekk í trekk. Easy, peasy, lemon squeezy. Það er nú alveg átakanlega langt frá sannleikanum. Frá sjónarhorni enska hluta knattspyrnunar er þessi keppni gífurlega vanmetin. Lið leggja lítinn sem engan metnað í keppnina og detta út afar snemma oft á tíðum.

Ensku liðin eru bara ekki of góð fyrir þessa keppni. Ef þau eru það þá er kominn tími til að þau sanni það!

Atletico Madrid, Sevilla, Dortmund, Benfica, Napoli og fleiri stór félög leggja mikinn metnað í þessa keppni. Af hverju ættu Englendingarnir ekki að gera slíkt hið sama?

Þetta reyndist frábær vettvangur fyrir Atletico Madrid og Dortmund til að næla í mikilvægt bragð af sigri og/eða geta sér gott orðspor áður en þau unnu deildir sínar. Sevilla eru að vinna sig upp virðingastiga knattspyrnunar með því að vera alltaf í baráttunni í þessari keppni, sem og Benfica og fleiri félög. Af hverju ekki ensku liðin?

Ég sá eftir leiki helgarinnar líklega skondnustu – ég veit ekki einu sinni hvað skal kalla þetta – kenningar eða afsakanir fyrir lélegu gengi Tottenham og Southampton undanfarið. Þau keppast sko við að ganga illa í þeirri von um að lenda í sjöunda sætinu og treysta á að Aston Villa vinni sér sæti í keppninni með því að vinna FA bikarinn. Einmitt… það er örugglega ástæðan fyrir því að þau tapi leikjunum. Af hverju í ósköpunum ætti Southampton, sem er búið að erfiða og púla við að koma sér aftur í hóp sterkari liða deildarinnar, að vilja ekki ná þeim áfanga að festa sig í sessi sem félag í Evrópukeppni? Sama með Tottenham, af hverju gera þeir ekki slíkt hið sama? Já, og að sjálfsögðu Liverpool.

Við náðum ekki Meistaradeildarsæti. Það er ógeðslega gremjulegt. Nei, annars – gremjulegt er ekki nógu sterkt orð. Það var f**king ömurlegt! Að horfa upp á erkióvininn tryggja sér sætið á afar ósannfærandi hátt, gefandi endalaust af tækifærum á sér en sjá liðið okkar grípa þau ekki. Ömurlegt, sorglegt, grátlegt! Við náðum ekki sætinu og erum þar af leiðandi ekki Meistaradeildarlið. Hvað eigum við þá að gera?

Að sjálfsögðu eigum við að sanna erindi okkar í Meistaradeildina og verða lang besta Evrópudeildarliðið – ekki satt?

Við þurfum að spila fimmtudags- og mánudagsleiki næsta vetur. Við þurfum líklega að ferðast til Austur-Evrópu, Tyrklands, Ísrael eða eitthvað álíka til að spila þessa leiki. Ferðaþreytan, tímamismunur, stuttur tími milli leikja – það er allt hluti af þessum pakka og við verðum þá bara að díla við það einhvern veginn.

Ég sé tvær leiðir fyrir okkur til að nálgast keppnina á næstu leiktíð:

Búa til reynslu

Síðast þegar Liverpool var í þessari keppni fyrir þremur leiktíðum síðan notaði Brendan Rodgers keppnina – þá sérstaklega riðlakeppnina – til að gefa ungum leikmönnum liðsins mikilvæg tækifæri. Strákar eins og Raheem Sterling, Suso, Jonjo Shelvey, Andre Wisdom, Flangan og líklega einhverjir fleiri fengu þarna alvöru leiki til að sýna sig fyrir þjálfaranum og næla sér í mikilvæga inneign í reynslubanka sinn.

Með þetta líka þvílíka magn af bráðefnilegum leikmönnum á mála hjá félaginu gæti keppnin orðið góður vettvangur til að reyna að koma þessum leikmönnum inn í aðalliðið. Leikmenn eins og Cameron Brannagan, Jordan Williams, Jordan Rossiter, Jerome Sinclair og Sheyi Ojo hafa allir á einhverjum tímapunkti spilað og/eða verið á bekknum hjá aðalliðinu í vetur en kannski ekki fengið margar mínútur enda liðið verið í stífri keppni á mörgum sviðum og í óþægilegri stöðu í deildinni. Það hefur því verið erfitt að finna réttu tækifærin fyrir þessa stráka – Evrópudeildin gæti aftur á móti bjargað því.

Lið Liverpool er svakalega ungt – og stefnir í að það verði jafnvel yngra ef eitthvað er á næstu leiktíð og því afar mikilvægt að leikmenn fái nauðsynlega reynslu. Umræddir leikmenn gætu nælt sér þarna í reynslu í alvöru leikjum og aðrir ungir en ögn reyndari leikmenn eins og Jordon Ibe, Lazar Markovic, Javier Manquillo og Divock Origi gætu einnig fengið góð tækifæri þarna.

Þetta hafa lið oft verið að gera. Sevilla hafa getað gefið ungum leikmönnum, eins og t.d. Alberto Moreno, mikilvæga reynslu í þessari keppni og Benfica líka sem nota mikið unga leikmenn þar sem leikmannavelta þeirra er afar mikil. Tottenham gerðu þetta afar vel síðustu ár með leikmenn eins og Harry Kane, Ryan Mason og Nabil Bentaleb sem hafa núna fest sig í sessi sem byrjunarliðsmenn hjá þeim.

Evrópudeildin á næstu leiktíð gæti því haft afar mikil og jákvæð áhrif á næstu ár hjá Liverpool ef félaginu tekst að búa til aðalliðsleikmenn úr unglingastarfinu í gegnum keppnina. Það væri rosalega öflugt.

Það virðist flest benda til þess að Rodgers verði áfram knattspyrnustjóri Liverpool á næstu leiktíð hvort sem fólki líkar það betur eða verr og hann þykir fremur reynslulaus í Evrópukeppnum og það sást ágætlega í Meistaradeildinni í ár og keppnin á næsta ári er góður vettvangur fyrir hann til að sanna erindi sitt með Liverpool í Evrópuboltann.

Að sigra þessa f**king keppni!

Hin leiðin sem Liverpool gæti ákveðið að taka í þessari keppni á næstu leiktíð er að fara nokkuð all in í þessa keppni og freista þess að vinna hana. Ekki fara inn í keppnina með vanmati og einhverjar svakalegar tilraunir í gangi, stilla upp að mestu eins sterku liði og hægt er og leggja allt í sölurnar.

Af hverju ekki?

UEFA hefur ákveðið að reyna að gefa keppninni aukið vægi og freista þess að gera hana stærri og flottari. Í verðlaun fyrir sigur er sæti í Meistaradeildinni árið eftir, sem sagt ásamt því að vinna Evróputitil þá getur liðið unnið sér þátttökurétt í Meistaradeildinni. Samkeppnin um sætin í þá keppni er gífurlega hörð í Englandi og verður líklega enn harðari á næstu leiktíð þar sem Arsenal munu styrkja gott lið sitt, Manchester City ætla að hrista upp hjá sér, Chelsea verða alltaf sterkir og Manchester United mun líklega eyða hellings pening í sumar. Tottenham er líka alltaf þarna í kring, Southampton eru að vinna sig upp stigan og svo eru það auðvitað Liverpool líka.

Evrópudeildin á sinn hátt gæti þegar uppi er staðið orðið líklegri vettvangur til að tryggja þátttökurétt í Meistaradeildinni fyrir okkur á næstu leiktíð en í gegnum Úrvalsdeildina. Maður er svo sem ekkert að gefa upp vonina áður en næsta leiktíð hefst en svona er það, önnur lið í deildinni eru fyrir ofan Liverpool og munu líklega eyða meiri pening en Liverpool í sumar – þetta gæti orðið strembið.

Ég vil sjá Liverpool vinna titla og bikara. Ég vil fá spennuna og kvíðan fyrir úrslitaleiki og ég vil gleðina við að sjá liðið mitt vinna slíka leiki. Ég vil sjá þá fara alla leið. Ég vil sjá Liverpool vinna báðar bikarkeppnirnar, Evrópudeildina og þó það sé afar langsótt þá vil ég sjá Liverpool vinna deildina. Ég vil sjá Liverpool aftur á meðal fremstu liða, berjast um titla á hverju tímabili og vita til þess að fyrirliði liðsins sé kominn með slæma vöðvabólgu í axlirnar við að lyfta svo mörgum titlum.

Af hverju ekki bara að byrja á Evrópudeildinni? Liverpool mætir til leiks sem líklega eitt stærsta félagið í þessari keppni og ætti jafnvel að vera með eitt besta liðið – án þess þó að ég hafi hugmynd um hvaða önnur lið koma til með að vera í keppninni – en Liverpool ætti fyrirfram að teljast einna sigurstranglegast. Það finnst mér allavega.

Evrópudeildin gæti verið góður vettvangur fyrir liðið til að vinna titil, gefa ungu liði mikilvæga sigurreynslu og í leiðinni tryggja bikar og þátttökurétt í Meistaradeildinni. Er það svo galið? Spyrjið mig hvort ég vilji frekar sjá Liverpool lenda í 5.sæti deildarinnar og vinna Evrópudeildina eða ná 4.sætinu á næstu leiktíð – ég þarf ekki að hugsa mig lengi um til að vita hvað ég myndi vilja.

Ef við gætum fundið milliveg þessara leiða og unnið keppnina með unga leikmenn liðsins í einhverjum hlutverkum í keppninni þá yrði ég afar sáttur – þá myndi allt ganga upp!

Já – eða liðið gæti hreinlega gefið algjöran skít í þessa keppni og reynt að detta út sem fyrst til að geta einbeitt sér að öðru.

17 Comments

  1. Í desember í fyrra setti ég eftirfarandi komment inn í umræðu um þessa umdeildu deild og ég held að það standi alveg enn:

    “Árið 1973 vann Liverpool UEFA Cup í fyrsta sinn í sögu liðsins en það árið unnum við deildina líka. Þetta voru fyrstu titlar LFC frá 1966 og fyrsti Evróputitill liðsins. Shankly þótti sú keppni ekki orkusuga eða tímasóun og áhangendur voru í skýjunum með árangurinn. Árið eftir hætti Shankly með sigri í FA Cup og þetta var því eini Evróputitillinn hans á ferlinum.

    Árið 1976 unnum við UEFA Cup aftur með okkar nýja stjóra, Bob Paisley, en samhliða því þá unnum við deildina líka en þetta voru fyrstu titlar Paisley og skiptu miklu máli fyrir hann sem arftaka Shankly. Þessir tveir UEFA Cup titlar gáfu tóninn fyrir hina fjóra Evrópumeistaratitla sem komu í kjölfarið árin 1977, 1978, 1981 og 1984. Liðinu varð ljóst að það gat keppt við þá bestu í sterkustu heimsálfunni og haft betur. Velgengni og titlar ala af sér meiri velgengni og fleiri titla. UEFA Cup átti sinn sögulega þátt í því.

    Árið 2001 unnum við UEFA Cup í þriðja sinn (sigursælastir ásamt Juventus, Inter og Sevilla) og sælla minninga unnum við einnig deildarbikarinn og FA Cup líka. Enginn kvartaði yfir orkusugu og þetta er mér eitt eftirminnilegasta tímabil sem ég hef upplifað. Var alltaf með freyðivín á klaka tilbúið til að fagna næsta bikar! Náðum 3.sætinu það tímabil og þar með CL árið eftir (komumst í 8 liða úrslit 2002). Nokkrir lykilmenn fengu þarna mikla reynslu sem átti eftir að koma þeim til góða í CL árið 2004-05. Og velgengnin og titlarnir í UEFA Cup bjó til vinningshefð sem kom liðinu á æðri stall.

    Segið svo að þessi keppni skipti ekki máli.

    Respect!

    YNWA”

    Mín skoðun er óbreytt hvað Evrópudeildina varðar. Þrátt fyrir minni peninga sem hún skapar og fleiri leiki þá finnst mér þetta keppni sem er vel þess virði að keppa í og stefna á sigur. Til hvers er LFC að spila fótbolta nema til þess að safna silfurbikurum hvar sem þeir bjóðast?? Í þokkabót þá býðst sigurvegaranum sæti í CL sem gerir þetta enn eftirsóttara sem markmið. Stórfín reynsla fyrir unga og efnilega leikmenn og ekki síður æfing fyrir Rodgers sem hefur takmarkaða reynslu og velgengni í Evrópu- og bikarkeppnum.

    Sigur og silfur. Ávallt.

    PB7

  2. Frábær pistill um framtíð Liverpool.

    Menn verða (og er þar undirritaður enginn undantekning) að gefa þessu sjens og tíma…já ég veit að ekkert fer sennilega í taugarnar á fólki en að heyra að það þurfi að gefa þessu tíma. Ég hef sagt það áður, og margir sammála því eflaust, að árangur liðsins á síðustu leiktíð bítur nú fast í stjórann og félagið. Brostnar vonir eftir síðasta season er staðreynd. En þá er um að gera og líta á björtu hliðarnar.

    Við göngum út frá því að Brendan Rodgers verði áfram stjóri, þó svo að einhverjir miðlar séu að bendla Kopp-arann við okkur og þá verður spennandi að sjá hvernig Liverpool liðið verður þegar flautað verður til leiks undir lok ágúst-mánaðar. Liðið verður árinu eldra og enginn sem getur kvittað upp á annað en að þarna fer alveg hreint geysilega efnilegur hópur af strákum en það er í verkahring Rodgers að fá þá til að smella.

    Evrópudeildin ætti auðvitað að vera skotmark hjá Liverpool þrátt fyrir að þessi textavarps-keppni sé auðvitað ekkert skemmtilegust í heimi, því þetta er jú auðvitað b-deildin af meistaradeildinni og eins og pistlahöfundur kemur inn á, er það óþolandi staðreynd að júnæded hafi komist þangað inn með hreint út sagt bæði lélegu og leiðinlegu liði.

    Lykilatriðið – Leikmannakaup. Það er lífsspursmál fyrir félagið að fara að veðja á rétta hesta þar og hætta að kaupa einhverja hæpaða englendinga í liðið en þess í stað að snúa sér inn á þjóðverja-markaðinn eftir leikmönnum. Ég hef reyndar aldrei skilið hvers vegna við horfum aldrei (ok, sjaldan) þangað inn. Heimsmeistararnir eru þaðan og eflaust skynsamari kostir þar en annarsstaðar.

    Leiðin í úrslitaleik evrópudeildarinnar er bæði löng og ströng, en ég vil að félagið berjist fyrir því að komast sem lengst þar, því Liverpool er í dauðafæri við að taka þá keppni en sem fyrr segir, er þetta löng ganga.

    Að þessu sögðu spái ég okkur inn í 8-liða úrslit þar og leikmannakaupin í sumar muni heppnast svona 70% (sem yrði þá viðsnúningur frá 10%-unum) og félagið tryggir sér 3.sæti í deildnni á næsta tímabili á eftir Chel$ea og Arsenal.

    ….já og júnæded mun ekki komast inn í meistaradeildina eftir næsta tímabil.

  3. En er Rodgers búinn að sanna það að hann geti eitthvað í evrópu hingað til?
    Fyrsta árið komst hann með liðið í 32 liða úrslit og núna gat hann ekkert í riðlunum sem og í leikjunum á móti Besiktas. Ég veit ekki hvort hann sé maðurinn til þess að koma okkur langt í þessari Evrópudeild í alvörunni talað. En ég er þó sammála þér í því að þetta væri flott tækifæri fyrir ungu leikmennina til að sprikkla og fóta sig.

  4. Frábært comment hér fyrir ofan #1 . Var að lesa um Jurgen Klopp á thisisanfield og sá þetta snilldar comment

    ´´Stop! Klopp won’t flop on the Kop, he would avoid the drop and prop Liverpool up on the #1 spot. Plant the seeds, the football will grow like crops, so we can wipe the floor with our rivals like a mop. If he comes, Jurgen would leave his mark! ´´

    Held að menn séu spenntir fyrir þessu og það er möguleiki að þetta gerist.

  5. BR er búin að sanna það rækilega fyrir okkur að hann getur ekki náð árangri í neinni evrópukeppni.

    Ég vill annaðhvort nálgast þessa keppni með RAFA við stjórnvölin, eða þá einhvern við hlið BR sem er sigurverari og með reynslu í Evrópu.

    Blauti draumurinn er RB með BR, en ég veit að það verður aldrei.

  6. Orð í tíma töluð hjá Óla Hauk og Peter B. Kominn tími til að rífa sig upp úr galtómu glasi.

    Svo er Guardiola að gefa það út að hann á bara eitt ár eftir að samningi þannig að það er um að gera að krækja í hann ef illa fer hjá BR.

  7. Ég veit ekki með ykkur en ef að BR verður áfram stjóri Liverpool við upphaf næstu leiktíðar þá er ég bara nákvæmnlega ekkert spenntur fyrir því að sjá hvernig liðið verður eftir sumarið því að ég veit það. Liðið verður uppfullt af ungum og kannski efnilegum og svo meðalmönnum eins og eftir síðasta sumar. BR hefur nefnilega ekkert aðdráttarafl og engir háklassa leikmenn sem eiga sér þann draum að vinna undir honum. Það hjálpar heldur ekki til að herra prúttari hann Ian Ayre er að sjá um að reyna að prútta út í óendanleikann um alla leikmenn um bæði kaupverð og laun alveg þangað til einhver kemur og borgar uppsett verð og við missum en og aftur af lestinni. Það er mín skoðun að það verði stórslys ef við losnum ekki við BR í sumar og ef hann fær að stýra liðinu áfram eigum við bara eftir að hellast lengra aftur úr lestinni. Ég er ekki mjög spenntur fyrir framtíð Liverpool nema eitthvað mikið breytist. En ég er samt ekki á því að það eigi að reka Rodgers bara til að Reka hann það VERÐUR þá að fá einhvern proven vinner til að taka við ekki annan miðlungsstjóra. Ef liverpool ætlar að vera metnaðarlaust miðlungslið með miðlungs stjóra getur það alveg eins verið BR eins og einhver annar.

  8. Til viðbótar við ofangreind atriði þá verður að bæta við þremur mikilvægum atriðum sem rökstyðja metnaðarfulla þátttöku í Evrópudeildinni.

    Í fyrsta lagi þá eru flestir ef ekki allir sponsorship-samningar LFC og annarra liða þannig upp byggðir að við berum meira úr býtum ef við erum í Evrópukeppnum og fáum skertar greiðslur ef við erum utan þeirra. More games, more TV, more money! Einnig er LFC í sterkari stöðu varðandi hversu auðvelt er að laða nýja aðila til klúbbsins eða að kreista hærri upphæðir úr núverandi samstarfsaðilum ef við erum að gera góða hluti í Evrópu. Standard Chartered og aðrir tengdir okkur vilja geta boðið sínu starfsfólki og kúnnum á toppleiki í EPL og líka stórleiki á hinum frægu Evrópukvöldum á Anfield. Það er því klárlega í hag LFC að komast í Evrópudeildina og gera góða hluti þar.

    Í annan stað þá skiptir máli hversu mörg stig LFC skorar í UEFA rankings. Í dag erum við einungis með 47.078 stig yfir síðustu 5 ár og í 42.sæti í Evrópu sem er ansi slappt í okkar glæstu sögu. Næsta lið fyrir ofan okkur er Anderlecht og til samanburðar þá er Tottenham í 20.sæti með massíf 37 þús. stigum meira en við. Þetta skiptir máli þegar raðað er í styrkleikaflokka fyrir drætti í riðla í bæði EL og CL (næst þegar við komumst þangað inn). Færri stig þýðir erfiðari róður gegn sterkari andstæðingum sem þýðir minni líkur á velgengni. Einfalt.

    http://www.uefa.com/memberassociations/uefarankings/club/

    Í þriðja lagi er í stærra samhengi mikilvægt að ensk lið séu ekki það hrokafull og vanhugsuð að þau skjóti sig í fótinn með slæmu gengi í Evrópu því að það gæti á endanum kostað EPL sitt fjórða sæti í CL. Einungis þrjár sterkustu deildir Evrópu fá fjögur sæti í CL og á þessu tímabili þá eru ítölsk lið að standa sig mun betur og geta enn bætt um betur í stigasöfnunni með Juventus og Napoli í góðum málum. Ensk lið hafa verið að dala síðustu ár í báðum Evrópukeppnunum og verða að fara að bæta sig ef ekki á að fara illa. Platini og fleirum þætti fátt skemmtilegra en að sparka hraustlega í England.

    http://www.uefa.com/memberassociations/uefarankings/

    Það er því að fleiru að hyggja en bara því hvort að manni þyki fimmtudagsleikir leiðinlegir, peningasumman of lág eða andstæðingarnir í EL ekki jafn spennandi og í CL. Þetta er einfaldlega mikilvæg keppni fyrir LFC á margan hátt og það væri afar vanhugsað að vanrækja hana eða vanvirða.

    YNWA

  9. Europa League – Champions League -FA cup – League Cup – Premiership. Við viljum vinna þetta allt. Það verður hinsvegar að horfa afar raunhæft á hlutina, okkar mesti séns á titli eru bikarkeppnirnar – amk eins og málin standa. Þar er CL ekki meðtalin, eðlilega.

    Félagið okkar var í algjöru dauðafæri eftir síðasta tímabil að “stabílera” sig sem eitt af topp liðum Englands. Endum í öðru sæti og á einhvern óskiljanlegan hátt erum við ekki meistarar. Þrátt fyrir það þá voru menn eðlilega bjartsýnir á framhaldið, talað var þannig að loksins nú þegar CL sæti væri í höfn gæti Liverpool trekkt að “háklassa” leikmenn, réttara sagt “prooven players”.

    Þetta byrjaði ekki gæfulega, Suarez fór en miklir peningar fengust. Við náum ekki að tæla Sanzches yfir, eitthvað sem að mínu mati sýnir það “máttleysi” sem klúbburinn okkar hefur boðið uppá í leikmannakaupum síðustu árin. Þarna áttu menn að vera grjótharðir við Barca, Sanzches fylgir með annars fer Suarez ekkert (eða fyrir meiri pening).. þetta fannst mér amk vera klúður. Hvað gerist? Alexis fer í keppinauta okkar og lyftir leik þeirra á annað plan. Ef það hefur ekki sannað sig með suarez hvað einn svona world class, game winning leikmaður getur gert mikinn gæfumun þá sannaði Sanzches það líka. (24 mörk á tímabilinu sem er meira en Gerrard og Sterling saman hjá okkur)

    Greinilegt er að illa var að ganga á markaðnum, Rodgers virkaði oft kjánalegur á blaðamannafundum og sem dæmi þá þvertók hann fyrir Balotelli (sagan segir að hann hafi aldrei viljað hann) en svo “í algjörri neyð” þá verður hann að taka hann. Mikið hlegið af okkur en við vonuðum það besta, sem gerðist ekki. Balotelli er eitthvað mesta flopp Liverpool frá upphafi.
    Lallana, fín kaup en 26m…… hvenær ætlar okkar ástkæri klúbbur að læra.

    Hvað gerist í sumar?

    Held bara að við eigum að vera sáttir með Europa League, sammála höfundi það er okkar mesti séns að ná inní CL – þá vilja loksins ALLIR koma til okkar.

    Ekki satt?

  10. Það þýðir ekkert að panta vælubílinn eftir þetta tímabil…hvernig hefur það þá eiginlega verið eftir öll hin tímabilin. Hvet alla svartsýnisbelli að skoða stigatöflur undangenginna ára. Þetta tímabil er líklega fyrir ofan meðaltal hjá okkur.

    Við erum með stjóra sem leikmönnum líkar vel við, það er jákvætt ( hefur ekki alltaf verið þannig ). Það er framtíðarsýn hjá klúbbnum, en það sem hrjáir kannski mest er að það vantar herslumuninn peningalega.

    Við erum í 5.sæti þegar kemur að því að bjóða fegurðardrottningum á ballið og þurfum stundum að bjóða einhverjum misfallegum út þegar úrvalið er lítið. En núna er nýtt sumar og nýtt upphaf og þótt að ég hafi tapað hressilega í veðmálum þetta árið við Unitedmenn og verið helvíti harðorður hvað liðið okkar var lélegt, þá er það allt gleymt og grafið núna.

    Danny Ings vertu velkominn á svæðið!

  11. Afhverju erum við ekki frekar að ræða nýjan stjóra hérna?

    Hér eru ansi margir sáttir við lítið. Finnst meirháttar klúður að hafa ekki náð 4. sæti.
    Þrátt fyrir að stjórinn hafi fengið nánast alla þá leikmenn sem að hann vildi er árangurinn óásættanlegur.

    Það er nú bara þannig.

  12. ég er að bíða eftir að rodgers verði rekinn áður en hann rústar liverpool endanlega.

    hvað varðar þessa evrópudeild.. ég vona að við dettum út strax því að þessi deild er bara brandari og eina sem hún skilar er of miklu leikjaálagi og rústar öllum vonum að gera eitthvað í deildinni.

    skil ekki hvað er verið að bíða eftir.. ætti að vera búið að reka hann nú þegar.

  13. Ég segi nú bara eins og gamli boli sagði við ungnautið.
    “Við skulum rölta niðureftir í rólegheitum og taka þær allar”

    Þetta tímabil var lærdómsríkt og kannski nauðsynlegt reality check fyrir leikmenn, BR og eigendur.

    Það er línulegt plan í gangi uppá við. Skoruðum aðeins fyrir ofan línu í fyrra og aðeins fyrir neðan línu núna en línan er uppá við.

    Grunnurinn í liðinu núna er ótrúlega ungur.

    En nú er komið að næsta stigi. Tveir til þrír byrjunarliðsmenn og tveir squad players mættu bætast við. Við vitum hverjir fara.
    Og við tökum þær allar í rólegheitum.

    YNWA

  14. Sælir,
    ég hef séð það nokkuð oft að Liverpool menn hafi átt að vera grjótharðir á því að fá Sanchez eða meiri pening þegar Suarez fór. Þetta er ekki alveg svo einfalt sérstaklega þar sem það var “buyout clause” í samningnum eftir því sem ég best veit fyrir 75 milljónir.
    Sanchez vildi heldur fara til Arsenal en Liverpool. Liverpool menn hefðu eflaust mátt gera betur þar en samningastaðan við Barcelona var ekki svo sterk að þeir gætu heimtað að fá Sanchez.
    Það er engin tilviljun að Liverpool samdi við Suarez seinasta vetur, þeir vildu auðvitað verðlauna hann fyrir góða frammistöðu en líka losna við þessa 40 milljón punda buyout clause sem var í gamla samningnum hans.Vildu að sjálfsögðu fá hærri pening, settu 75 milljónir. Þeir bjuggust við því/vissu að hann myndi fara, hvort sem það var í fyrra sumar, sem varð raunin, eða nú.

  15. Maður er ekkert of spenntur fyrir næstu leiktíð. Missum markahæstu mennina okkar, Gerrard og Sterling. Kaupum svo örugglega tvo eða þrjá frá Aston Villa á yfirsprengdu verði.

  16. Sterling að kaupa hús í London, hver ætti svosem að ljá honum það, þegar metnaður hjá Liverpool er ekki meiri en Sóknamaður úr neðsta liði deildarinna.

  17. Miðað við hvað það eru fá komment við þessari færslu mætti ætla að doði væri yfir mannskapnum… held það segi mikið um hvernig okkur líður með þetta blessaða fimmta sæti. Svo er spurning hvort það bætist ekki við að margir eru hreinlega að melta þessa hörmung sem þessi vetur var…ég er allavega að því, er í raun steinrunninni. En mikið er gaman að sjá Peter Beardsley aftur á Kop ritvellinum. Melt, melt, melt…

Chelsea 1 Liverpool 1

Hvíl í friði Benjamín Nökkvi