Chelsea á morgun

Síðasta upphitun mín á þessu stórfurðulega tímabili. Það hefur oft verið talað um að það að vera stuðningsmaður Liverpool FC sé hálfgerð rússíbanareið, en því er ég ósammála. Þetta er algjör rússíbanareið. Við erum búin að horfa upp á liðið okkar taka tvær afar djúpar og leiðinlegar dýfur, en þess á milli að lyfta sér upp í hæstu hæðir og virka nánast ósigrandi. Það er full stutt á milli hláturs og gráturs í þessu. Hláturinn er mun skemmtilegri, þó svo að ég sé á því að gráturinn styrki menn líka til lengri tíma en í hæfilegu magni þó.

Þetta tímabil á Englandi hefur reyndar í heild sinni verið nokkuð furðulegt og staðan er bara þannig að mótherjar okkar á morgun, Chelsea, eru búnir að vinna mótið þótt svo að nokkrar umferðir séu eftir. Hversu seinheppnir eru okkar menn samt að stigatalan sem þeir náðu um síðustu helgi, stigatalan sem tryggði þeim titilinn, hún var lægri en stigatala okkar manna á síðasta tímabili. Þetta Chelsea lið er sterkt, en ég er þó á því að lið eins og Man.City, klúðruðu sínum málum all svakalega í vetur. Þetta hefði átt að vera skemmtileg keppni um titilinn, milli þessarra tveggja öflugustu liða Englands. En svo varð ekki, þeir Chelsea menn renndu þessu bara í hlað og það örugglega. Liðin hans Mourinho hafa seint verið sökuð um að spila skemmtilegan fótbolta, eða öllu heldur áferðafallegan, en þau skila árangri og það er það eina sem telur þegar tímabilin eru gerð upp. Það eru engin aukastig gefin fyrir skemmtilegheit, enda fengi hann sjálfur prívat og persónulega, þrjá sekki af mínusstigum ef slíkt væri við lýði.

En hvað, eru menn bara ekki hálf þunnir eftir öll fagnaðarlætin hjá þeim bláu? Ekkert eftir til að spila fyrir og tímabilið þeirra bara búið hreinlega? Eru þessir síðustu 3 leikir ekki bara töf á Barbados ferðinni hjá leikmönnum? Jú, ég er á því, en þess ber þó að hafa í huga að þótt þú sért þunnur og sért ekki hæfur til að keyra rútu, þá er ekkert mál að vera í henni parkeraðri. Motormouth mun svo sannarlega ekki koma með liðið sitt á Anfield til að gefa okkar mönnum einhverjar gjafir, síður en svo, hann ætlar að ná sér í öll þau stig sem í boði eru. Lögðust þeir á grúfu fyrir ári síðan og biðu þess að þeir yrðu flengdir? Þeir höfðu að engu að keppa þá, frekar en núna. Nei, heldur betur ekki. Þetta Chelsea lið er ekki að fara að láta borða sig á eigin heimavelli, það er algjörlega ljóst.

En er að einhverju að keppa hjá Liverpool? Er tímabilið ekki bara búið eins og hjá mótherjum okkar? Heldur betur ekki, þessir síðustu þrír leikir skipta bara verulegu máli. Auðvitað er það langsóttur möguleiki að komast upp fyrir nágranna okkar í ManU þar sem 4 sig skilja liðin að og aðeins 3 leikir eru eftir (þessi freaking Hull leikur verður verri og verri eftir sem líður á). Það þýðir að þeir þurfa að misstíga sig tvisvar á meðan við megum bara ekki við því. Ég hef ennþá trú á verkefninu, en sú trú er ekkert öfga sterk neitt. Bæði lið eiga erfiða leiki eftir og allt getur gerst, en því miður hef ég alveg trú á að þeir fokki þessu upp, en hef reyndar trú á að við gerum slíkt hið sama. Lítum á leikina sem eftir eru:

Crystal Palace – Man.Utd & Chelsea – Liverpool

Fyrirfram er þetta auðvitað fáránlega erfitt hjá Liverpool og ætti að vera nokkuð létt verk fyrir ManU. Það að Chelsea hafi tryggt titilinn gæti dregið örlítið úr ákveðninni hjá þeim og við vitum líka að þetta Palace lið lætur ekkert rúlla neitt yfir sig á sínum heimvelli.

Man.Utd – Arsenal & Liverpool – Crystal Palace

Verulega erfiður leikur fyrir Manchester mennina, þar sem Arsenal er líklegast það lið sem hefur spilað hvað best undanfarna mánuði og eru í bullandi baraáttu um annað sætið í deildinni. Á meðan fáum við Crystal Palace á Anfield, mun hressara að taka á móti þeim en að kíkja til þeirra. Allt opið fyrir góðum úrslitum þá helgina.

Hull – Man.Utd & Stoke – Liverpool

Við sáum það fyrir ekki svo löngu síðan, hvað fallbaráttulið geta gert þegar þau eru á miklu hættusvæði. Í þessari stöðu myndi ég allavega alltaf vilja frekar mæta Stoke (sem hefur að engu að keppa) en liði sem er í bullandi fallbaráttu. Allt opið bara.

Eins og menn sjá hér að ofan, þá er þetta langsótt, en langt því frá að vera útilokað. Þegar vonin er ennþá til staðar, þá heldur maður bara í hana. Skilyrði fyrir þessu öllu saman er þó að leggja þetta Chelsea lið á morgun. Það er bara verkefni sem þarf að fara í og þrátt fyrir að ég hafi sagt hér að ofan að þeir muni selja sig mjög dýrt, þá held ég nú engu að síður að þetta sé besti tímapunktur sem hægt er að hugsa sér til að mæta þeim.

En hvernig ætlar Brendan nú að stilla þessu öllu saman upp? King Flanno er aldrei þessu vant meiddur, Sturridge verður ekki meira með á tímabilinu og ég efast um að við eigum eftir að sjá mikið af Sakho það sem eftir lifir tímabils. Annars held ég að það séu engar nýjar meiðslafréttir. Ég á því að þetta sé leikur sem Lucas VERÐI að spila til að eiga von á sigri, það bara verður einhver að hreinsa upp það sem dettur til á milli miðju og varnar. Sem sagt, ég spái óbreyttu byrjunarliði þó svo að ég sé langt því frá sammála þeirri uppstillingu.

Mignolet

Can – Skrtel – Lovren

Johnson – Gerrard – Henderson – Lallana

Coutinho – Lambert – Sterling

Við þurfum að láta reyna á þetta Chelsea lið, keyra á þá með hraða og krafti strax í byrjun og gera þá ringlaða. Það þýðir ekkert að fara í einhverja taktíska skák, það þarf að taka þetta á hörku, krafti og hraða. Ekkert dútl og ekkert hálfkák, mæta bara brjálaðir til leiks og leggja sig 110% fram. Því miður hefur maður séð alltof oft undanfarið að menn séu ekki á fullri keyrslu. Þessir drengir eru 3 leikjum frá sumarfríi og nú er að eyða þessum síðustu lítrum sem á tanknum eru, hann verður fylltur aftur fljótlega. Ég ætla að vera bjartsýnn og segja að við sigrum þennan leik með tveim mörkum gegn einu. Eigum við ekki að segja að Ricky Lambert setji eitt og Coutinho kóróni flott tímabil með því að setja hitt markið.

Yfir og út og takk fyrir veturinn í upphitununum kæru lesendur.

25 Comments

  1. Er SSteinn þunnur eftir ferðina á Anfield um síðustu helgi,Chelsea er ekki að koma á Anfield,Liverpool er að fara á Brúnna!!!

  2. Ansi hræddur um að það verði engin rúta hjá Chelsea mönnum á morgun, nú fá þeir loksins að leika lausum hala og það gæti þýtt hörmungar fyrir okkar menn…

  3. Mourinho gaf leikmönnum sínum 4 daga frí til að skemmta sér og fagna titlinum. Ef Liverpool getur ekki unnið lið sem er búið að vera á þjóðhátíð þá á liðið ekkert erindi í Evrópukeppni punktur.
    Stuðullinn á Liverpool sigur í þessum leik er 3,1 og ég er all in 15.000 á sigur. Koma svo rauðir kominn tími til að kickass and chew bubblegum!!

  4. Takk fyrir ábendingarnar félagar, vissi vel að hann væri á útivelli, enda listaði ég honum upp þannig í leikjunum aðeins neðar. Skil því ekki af hverju ég tróð inn Anfield nafninu þarna 🙂 Átti ekkert skylt við þynnku.

  5. Alltaf gott að láta sig dreyma. En í þetta sinn rætist draumurinn ekki.

    Já, já, komið þá með hattana í lok leiktíðar og ég skal éta þá alla!

  6. Man utd að komast yfir gegn Palace gegn gangi leiksins. Þarna fór litli sénsin á 4.sæti. Palace voru ný búnir að klúðra dauðafæri og De gea maður leiksins.

  7. Mér verður flökurt á horfa á þetta Fellaini mark, þvílík gjöf frá Palace.. sama lið og hálfpartinn eyðilagði titil-lokarunnið hjá okkur í fyrra. ÉG HATA CRYSTAL PALACE

  8. Röggi minn, það voru nú bara við sjálfir sem eyðilögðum titil-lokarunnið í fyrra, eins og í ár.

  9. Manure fær gefins vítaspyrnu og svo þetta mark,, En skiptir svosem engu þar sem við drullum upp á bak sjálfir hvort sem er…

    Þetta er orðið svo þreytt og erfitt.
    Þetta sumar transfer þarf að vera gott!!!!

  10. hvorugt mark utd hefði átt að standa, þetta var aldrei víti of falkao ytti varnamanni palace á markmanninn sem gerði skalla aumingjans auðveldan, ég er að fara út í garða að æla.

  11. Ég tel að það sé meiri þörf að fara út í garð á morgun og slá hann (þeas ef þú ert ekki í jólasnjónum heima) en að horfa á þennan leik. Ég er að pæla í að taka TalkSport radio á þetta á meðan grasið fær að kenna á því.

    Annars tel ég þetta endi í markaleik þar sem við gætum komist yfir á sjálfsmarki eða snilldartöktum frá Kúti (Coutinho). Öðruvísi skorum við ekki í dag. Siðan koma þrjú Chelsea mörk eftir varnarmistök og við töpum 3-1.

    Annars eru næstu vonbrigði á leikmannamarkaðnum að verða að veruleika. Danny Ings á að vera nánast formsatriði sem þýðir að hann kemur ekki.

    Við þurfum ekki gott transfer sumar. Við þurfum kraftaverkasumar til að eiga einhvern séns á að halda í við “stóru” liðin.

  12. Hugsa að þessi ósanngjarni sigur united breyti engu; þar sem ég hef akkúrat enga trú; á að Brendan “Hroki” Rodgers mæti með réttu taktíkina; til að vinna þennan leik; á móti langlanglangbesta og hundhundhundleiðinlegasta þjálfara heims.

    Eins og hinn glöggi og skarpi penni, Sigkarl, myndi orða það: Það er nú þannig.

    Áfram Liverpool!

  13. Samkvæmt fréttum hafa Chelsea menn víst legið á galeiðunni að fagna deildinni. Það er kannski helst núna að við náum að taka eitthvað úr þessum leik. Ég er ekkert sérstaklega bjartsýnn þó. Ég ætla þó að vera jákvæður einsog Jamie Carragher sagði áðan á twitter

    “Only consolation is De Gea has two games left to play for Man United.” Get ekki beðið eftir að hann fari í Real Madrid

  14. Þetta CL sæti klárast endanlega á morgun þar sem Chelsea liðið mun leika lausum hala og vinna öruggan 3-0 sigur á Liverpool. Ég get ekki beðið eftir sumrinu og er aldrei þessu vant feginn að þurfa ekki að horfa á fótbolta í nokkrar vikur.

  15. Sigur á morgun og það er ennþá allt gersamlega galopið í þessu!

    Manjú er alltaf að fara að tapa á móti Arsenal í næstu umferð.
    Við tökum Palace á heimavelli.

    Staðan eftir 37 umferðir…
    Manjú 68 stig
    Liverpool 67 stig

    Lokaumferðin, manjú á snarklikkaða Hullara á útivelli sem eru að berjast upp á líf og dauða að halda sæti sínu í deildinni. Við klárum Stókara sem hafa að engu að keppa.

    Ennþá séns, algjörlega!!! Við eigum þetta svo innilega skilið eftir tómt þunglyndi síðan í september.

    Komaso vinnum þetta á morgun og höldum lífi í þessu.

    YNWA

  16. Èg sé okkur ekki vinna neinn af síðustu þremur. Kannski tvö jafntefli.

  17. Hvusslags endalaus svartsýni og bölgangur er þetta alltaf hreint, hefur engin lært það ennþá að þetta er ekki búið fyrr en síðasti leikur er flautaður af og í þessari frábærustu deild í heimi þá getur allt gerst…… ég hvet mína menn fram á lokasprettinn í blíðu og stríðu án þess að æpa úr mér lungum að þriðjungur liðsins verði seldur og þjálfarinn rekinn með skít og skömm…. Y.N.W.A

  18. Keyrum ekki með hraða ef Lambert er þarna, eða þannig. 🙂

  19. Hættum þessum svartsýnisrausi, klárum þetta tímabil með stæl, 9 stig úr 3 leikjum. Svo kemur bara í ljós hvað Júnæted gerir. Við getum engin áhrif haft á hvað þeir gera. Þetta Chelsea lið er ekkert ósigrandi og eru þegar búnir að tryggja sér titilinn. Ekki gleyma því að EF við klárum okkar þrjá leiki þá verða Júnæted að ná 2 stigum úr tveimur erfiðum leikjum (Arsenal heima og Hull úti).

    Ég met það líka svo að BR er að berjast fyrir lífi sínu hjá klúbbnum og það er því mikil pressa á honum að klára þá leiki sem eftir eru með sóma. Slæmt tap á Brúnni í dag gæti orðið korninn sem fyllir mælirinn hjá eigendum.

    Djöfull vona ég að Carragher sé að lesa rétt í spilinn, þ.e. að langbesti markvörður deildarinnar sé á leiðinni til Real.

  20. Vonbrigðatímabil þegar á heildina er litið. En, þetta er bara fótbolti.

  21. Í alvöru…. eruð þið að horfa á leiki Manchester United !!!!!
    …..Þa ba sonna …..heima hjá ykkur………..

    Notið frekar tíman og lesið tomkinstimes.com, margar frábærar greinar sem eru opnar fyrir alla.

    T.d. þessi. http://tomkinstimes.com/2015/04/what-wins-league-titles-here-is-the-answer/

    Þrátt fyrir mjög erfitt tímabil þá er Liverpool nær öruggt með 5. sætið og á næsta tímabili spái ég CL sæti með þessu unga hæfileikaríku liði.

    Glasið er næstum fullt.

    Baráttukveðja, Sveinbjörn.

  22. Ef þessi leikur væri bara jafn mikilvægur og í fyrra. Vinnum þennan leik og komum okkur vel fyrir í 5. sæti, koma svo!

Íslensk bók um Steven Gerrard

Liðið gegn Chelsea