Ferðasaga Kop.is: maí 2015

Um nýliðna helgi fór fjórða hópferð Kop.is og Úrval Útsýnar til fyrirheitna landsins. Í þetta skiptið voru ferðalangarnir 40 talsins og ansi stórt hlutfall þeirra var að fara á sinn fyrsta leik með Liverpool FC. Það þótti okkur sérlega ánægjulegt.

Fimmtudagur

Ekki byrjaði ferðin vel, á þriðjudagskvöldi kom tilkynning frá Icelandair um að vegna „tæknilegra örðugleika“ yrði að færa flugið til Birmingham frá fimmtudagsmorgni þar til síðdegis. Þar með var fimmtudagurinn að mestu úr sögunni hvað varðaði Liverpool-borg. Við gerðum þó það besta úr þessu. Hópurinn hittist í Leifsstöð og átti gott flug út, sem og stutta og skemmtilega rútuferð milli Birmingham og Liverpool þar sem bræðurnir Óli Haukur og Víðir unnu Pub-quiz Kop.is nokkuð örugglega með 29 stig af 35 mögulegum.

Hópurinn var kominn upp á Titanic Hotel í Liverpool-borg um ellefu að kvöldi en hressleikinn var slíkur að í stað þess að fara snemma að sofa eftir ferðalagið hoppaði meirihlutinn í leigubíla og beint upp í Chinatown þar sem veitingastaðirnir eru alltaf opnir. Menn skáluðu svo yfir hrísgrjónaskálum á góðum veitingastöðum fram eftir nóttu, frábær endir á þægilegu ferðalagi út.

Föstudagur

Fyrsta opinbera verkefnið var að fara með hópinn í skoðunarferð um Anfield-túrinn en við áttum bókaðan einkatúr kl. 11:15 um morguninn og mættu flestir úr hópnum í það. Með svona marga „nýliða“ í ferðinni var ómissandi að fara í skoðunarferðina og fá góða tilfinningu fyrir mannvirkinu Anfield Stadium. Eins höfðu undirritaður og SSteinn, fararstjórar þessa hóps, mjög gaman af því að ganga umhverfis stækkun Main Stand-stúkunnar sem stendur yfir á fullri ferð. Það er skemmst frá því að segja að þetta mun gjörbreyta öllu svæðinu, ekki bara færa vellinum stærri og nýrri stúku heldur breyta nágrenninu í kringum völlinn einnig svo að ég býst við að svæðið umhverfis Anfield verði óþekkjanlegt eftir þrjú ár. Mjög fróðlegt.

Að Anfield-skoðun lokinni var frjáls tími það sem eftir lifði dags; sólin brosti við okkur og flestir nýttu tækifærið og luku skylduverkunum í verslunum Liverpool-borgar, áður en haldið var á mörg af betri veitingahúsunum. Fararstjórnin hitti meistara Babú sem hafði komið á föstudeginum frá Lundúnum á eigin vegum við annan mann og fórum við með þremur öðrum úr hópnum á Chaopraya, einn besta stað borgarinnar. Þar tókst Babú að ruglast á vínseðlinum og matseðlinum og við hlógum allir svo mikið að það var erfitt að melta matinn á eftir.

Laugardagur

Leikdagur. Eins og hefðin hefur skapast fyrir í hópferðum Kop.is fór hópurinn upp á The Vines bar til að hita upp fyrir leikinn. Þar var morgunverður snæddur, vökvinn innbyrtur og gamla hetjan Alan Kennedy kom og hélt stuðinu gangandi. Hann sagði sögur af mörkunum sem hann skoraði í tveimur úrslitaleikjum Evrópukeppnarinnar (geri aðrir betur, sérstaklega verandi vinstri bakverðir) og svoleiðis hraunaði yfir dekraðar, ofborgaðar ungstjörnur nútímaknattspyrnunnar. Þetta var virkilega skemmtileg og fróðleg upphitun áður en hópurinn hélt upp á Anfield og hitaði upp um og í kringum völlinn fram að leik.

Leikurinn var síðan bráðskemmtilegur. Liverpool byrjaði illa, tók yfir eftir svona kortér og virtist ætla að kaffæra gestina í QPR. Coutinho kom okkur yfir með frábæru marki en liðsfélagar hans gátu ekki nýtt fjölmörg dauðafæri til að auka forskotið svo að það fór um mann þegar QPR jöfnuðu stuttu fyrir leikslok. Ekki skánaði skapið þegar Steven Gerrard, í næstsíðasta heimaleik sínum, lét verja frá sér vítaspyrnu. Gerrard bætti þó fyrir það með frábæru skallamarki á lokamínútunum og það var algjörlega frábært augnablik fyrir hópinn að verða vitni að.

Við þökkum Gerrard frábærlega fyrir að redda ferðinni fyrir okkur (sem og West Brom, en við skemmtum okkur vel við að fylgjast með velgengni þeirra á laugardagskvöldinu).

Eftir leik fór fólk í bæinn og aftur á veitingastaði borgarinnar áður en menn komu saman á Bierkeller og fleiri góðum stöðum sem rokkuðu fram eftir nóttu. Frábær laugardagur.

Sunnudagur

Sunnudagurinn var frír fram að kvöldmat. Margir fóru aftur í bæinn en sólin sneri aftur eftir að hafa vikið fyrir rigningu á leikdegi. Fararstjórnin hitti Babú og vini á Café Rouge í hádeginu og þar drakk undirritaður kókglas en aðrir drukku meira af öðru:

Svo mörg voru þau orð. Menn voru hressir á því á köflum um helgina.

Áfram naut fólk dagsins í blíðunni og um kvöldið hittist allur hópurinn að venju á Bem Brasil, frábæru steikhúsi með hlaðborði dauðans, þar sem borðað var eins og í gat látið. Ég fékk alla skipulagninguna í hausinn þegar þjónninn kom með reikning upp á fimmtán hundruð pund fyrir hópinn og það tók 40 mínútur af sveittum útreikningi til að finna út hver átti að borga hvað. Ég mæli ekki með því. Engu að síður gekk reikningurinn upp og það voru fegnir og glaðir ferðalangar sem nutu síðasta kvöldsins í Liverpool-borg (í bili) á rölti um bæinn og/eða ölstofurnar.

Mánudagur

Á sunnudeginum hafði ég fengið þau skilaboð að rútan yrði fyrr á ferðinni en áætlað var. Það reyndist algjör björgun fyrir hópinn því ekki vildi betur til en svo að það hvellsprakk á afturdekki rútunnar um þriðjung leiðarinnar frá Liverpool til Birmingham. Senda þurfti eftir annarri rútu og eftir klukkustundartafir komumst við aftur af stað í rétta átt. Þökk sé flýttri brottför um morguninn var þó nægur tími, við komum til Birmingham rúmlega klst. fyrir flugið sem var nokkuð þægilegt á leið heim, fyrir utan það hve margir sjónvarpsskjáir frusu í blessaðri vélinni þetta skiptið (ég á ennþá eftir að sjá seinni helminginn af The Judge með Robert Downey Jr. – takk Icelandair!).

Þannig lauk frábærri, viðburðarríkri og áfallalausri helgi í Liverpool. Að undanskilinni seinkun á brottför og hvellsprungnu dekki í heimför gekk allt upp sem gat gengið upp um helgina og við fararstjórarnir munum vart eftir jafn vel heppnaðri ferð.

Fyrir hönd mín og Steina þakka ég hópnum fyrir frábæra helgi. Við sjáumst í næstu hópferð í haust!

Steini og Drífa voru í ansi góðum sætum!
Steini og Drífa voru í ansi góðum sætum!


Hópurinn hlustar af athygli á Alan Kennedy á The Vines.
Hópurinn hlustar af athygli á Alan Kennedy á The Vines.


Ásgeir lögga umkringdur skuggalegum ferðalöngum.
Ásgeir lögga umkringdur skuggalegum ferðalöngum.


Óli Haukur, Víðir og Tómas faðir þeirra voru hressir fyrir leik.
Óli Haukur, Víðir og Tómas faðir þeirra voru hressir fyrir leik.

25 Comments

  1. Ég tek undir það og þakka þessum frábæru ferðalöngum fyrir ferðina.

    Mér finnst þó algjörlega út úr korti að gleyma að segja frá því að Babú fékk lag um sig á The Park fyrir leik. Hann mætti þar í sinni skelfingar Cissokho treyju, sem sagt með Cissokho á bakinu. Allt í einu fóru félagar okkar að kyrja lag um hann, og í kjölfarið tók The Park undir. Söngurinn var þannig að allir bentu á Babú og sungu saman: “…spell Steven Gerrard, he couldn’t spell Steven Gerrard…spell Steven Gerrard, he couldn’t spell Steven Gerrard…”

    Verulega fyndið og eftirminnilegt og ég held hreinlega að Babú hafi komist á topp frægðartindsins þarna og því voru þessar 32 Stellur teknar í hádeginu daginn eftir.

  2. Ég þakka kærlega fyrir mig og hlakka til að mæta í aðra ferð (og sitja þá vonandi ekki upp í næst efstu röð út í horni). Góðar minningar og frábær fyrsti leikur til að sjá.

    Mikið vonar maður líka, af hreinni eigingirni, að þetta hafi verið síðast mark kafteinsins fyrir Liverpool (hann má leggja upp mörk í staðin 🙂 ). Bara svo maður geti montað sig af því til lífstíðar.

    Nú er það bara að krossa fingur út leiktíðina og vonast eftir kraftaverki, að Liverpool komist yfir Manchesthair svo maður geti jafnvel kíkt á einn Evrópuleik eða svo!

  3. Gátu menn ekki hrist betur uppí þessu þarna um helgina 🙂 En frábær ferðasaga…… að öðru
    Enn og aftur sést pung og dugleysi eigenda okkar…. United að kaupa Depay – nánast staðfest á Twitter. Leikmaður sem Liverpool hefur verið orðað við, amk áhugasamir og óskuðu eftir leyfi á að tala við pilt. FSG geta EKKERT á leikmannamarkaðnum.

    New owners please. Komið gott

  4. Memphis Depay var aldrei að fara að koma til Liverpool. Umboðsmaður notaði aðeins okkar nafn til að geta sett fram sterkari launakröfur fyrir sinn mann hjá united. LVG valdi hann í landsliðið í fyrr, þeir eru báðir Hollenskir og þekkjast vel, Untied er United þetta var allltaf að far að gerast Depay í United. Við þurfum ekki einu sinni að velta okkur upp úr því. Það verða keytpir 2-3 leikmenn í sumar en Depay verðu ekki einn þeirra.

  5. Vissulega.

    En Liverpool voru orðaðir við hann og hefði verið gaman að sjá okkur “stela” honum fyrir framan nef United. Við erum bara því miður ekki á þeim stað og höfum ekki verið lengi því miður. United enda í 7 sæti í fyrra en samt trekkja að heimsklassa leikmenn. Falcao (er heimsklassa og var einn sá eftirsóttasti þrátt fyrir dapurt gengi i vetur) Di Maria…

    Það sem hefir okkur er margt, t.d sú staðreynd að Rodgers trekkir ekki heimsklassamenn að + ekki sambærileg laun.

    Þessi Transfer gluggi er “make or brake” fyrir LFC. 3-4 alvöru leikmenn inn eða við höfum hent inn hvíta handklæðinu til frambúðar. Sad but true.

  6. Eins mikið og maður hefði viljað fá Depay þá eins og menn hafa nefnt hér að ofan þá var það aldrei séns. Hollendingur sem vill spila undir Hollending hjá félagi sem í dag er því miður bara stærra en okkar ástkæra Liverpool (og hafa verið lengi).

    Peningarnir tala líka, og félagið á ekki eins mikið af þeim og félögin fyrir ofan okkur, við getum ekki eytt jafn miklu og sannarlega ekki boðið sömu laun.

    Ætla eins og undanfarin ár að gefa mér hóflegar vonir um góðan glugga og verða fyrir minni vonbrigðum ef hann endar illa og glaðari ef hann kemur vel út.

  7. Skulum ekki svekkja okkur á Memhpis. Fáum Yannick Bolasie fyrir sambærilega summu.

  8. Ég er virkilega vonsvikinn yfir Depay. Ég hef séð hann í nokkrum leikjum hjá PSV í vetur og þetta er gríðarlegt efni sem við áttum góðan séns á að fá til okkar. Liverpool átti fund með honum og umboðsmanni en væntanlega bara boðið honum lakari kjör en United. Auk þess eru ekki miklar líkar á meistaradeildinni (þó ekki sé von úti enn!) svo það hefur ekki hjálpað.

    Fólk strax komið í bullandi afneitun og afsakanir um að það sé Hollendingur í brúnni hjá scums. Ég held að þjóðernið skipti Depay ekki öllu máli. Ekki myndi ég ráða mig í vinnu til fyrirtækis á þeim forsendum að yfirmaður minn kæmi frá Íslandi. Ég held bara því miður að Van Gaal hafi bara gert betur í að sannfæra Depay um að United væri rétti straðurinn heldur en Rodgers. Rodgers hefur bara ekki sama aðdráttarafli og Benitez, Mourinho, Guardiola.. það er bara þannig.

    Enn eitt leikmannaklúður og það er ekki einu sinni kominn júní!. Í fyrra ‘misstum’ við A. Sanchez til Arsenal, en það var nú bara af því því hann vildi frekar búa í London. Lol.

  9. Það var talað um að hann væri TOP PRIORITY hjá BR í sumar. Samt náum við ekki að landa honum. Við erum bara hættir að geta fengið þessi nöfn til okkar eins og staðan er í dag. Sé okkur kaupa Bolasie á uppsprengdu verði.

  10. Þetta er svo ömurlegt þessi gæji hefði verið fullkomin fyrir okkur, en nei hann verður í treyju óvinanna næstu ár

  11. Hélt einhver í alvöru að Depay væri að fara að skrifa undir hjá Liverpool ? Einn heitasti bitinn á markaðnum að fara að spila utan meistaradeildar þegar hann getur fengið meiri pening, meistaradeildarbolta og hollenskan þjálfara annarstaðar ? Þetta var svo klassískt umboðsmannaplott og aldrei að fara að gerast.

    Svona verður þetta fram á haust, hver leikmaðurinn á fætur öðrum orðaður við LFC og fer síðan eitthvað annað. Rodgers kaupir einhverja stráka sem eru ekki orðnir að alvöru playerum í þeirri von að hann geti látið þá springa út, a la Coutinho.

    Kannski gengur það upp, kannski ekki.

  12. #8

    Held nú að þú sért í meiri afneitun heldur en við, held það sé engin tilviljun að margoft kjósi menn sér að fara til liða þar sem stjórinn er samlandi þeirra. Auðvitað eru margir þjálfarar sem sækjast mikið í leikmenn frá sínu heimalandi. Verst að Norður-Írar eru ekki að framkalla topp fótboltamenn á brettum, þá væru við eflaust í ágætis málum.

    Auk þess sem val atvinnumanns í fótbolta á “vinnustað” er ekki í neinni líkingu við að velja sér starf sem manneskja í hefðbundnu starfi.

    En burt séð frá þjóðerni þá hefur LVG mun meira aðdráttarafl en Rodgers og United hefur mun meira aðdráttarafl en Liverpool. Sorgleg staðreynd, en staðreynd samt sem áður. Sama hversu mikið við elskum klúbbinn hjálpar engum að vera í afneitun yfir þessari staðreynd.

    Auðvitað koma mun fleiri hlutir að félagsskiptum og þeir sem sjá um þau hjá Liverpool eru ekki starfi sínu vaxnir. En í grunninn er þetta (í mínum huga) einfalt: peningar, aðdráttarafl þjálfara, peningar, aðdráttarafl félagsins og leikmanna þess og svo auðvitað peningar.

  13. Sælir

    Tek undir þakkir fyrir frábæra ferð. Hótelið var mjög flott, leikurinn vannst, fararstjórarnir með allt á hreinu og veðrið ágætt miðað við árstíma.

    Það sakaði ekki heldur að hitta óvænt tvo gamla skólabræður í ferðinni. Við gátum talað ekki bara um Liverpool heldur þurfti líka að gera upp hverjir úr skólanum voru skildir, misskildir, vel heppnaðir eða fífl enn þann dag í dag. Allt ákaflega þjóðlegt.

    Fyrst Liverpool vinnur alltaf í ferðum kop.is þá er hins vegar kannski spurning um að gera atlögu að einhverju af sterkari liðunum í næstu ferð?

  14. @Aron Ég er alveg sammála þér með allt fyrir utan að ég sé í afneitun 🙂 En ok það má vel vera. Það má vel vera að ég sé í afneitun að halda að Liverpool, einn sögufrægasti og stærsti klúbbur Evrópu, eigi sér von um að krækja í góða og eftirsótta leikmenn.

    Þetta var ekki leikmaður sem er að spila í Real Madrid eða AC Milan og kostar 65m pund. Hann er ungur og að spila í hollensku deildinni er kaupverð er talið 22m. Ekkert óhugsandi við þetta. Súarez eitthver?! En það er svosem rétt að leikmanngluggar undanfarin 2-3 ár hafa ekki gefið manni mikla von um bjarta tíð í þessum málum..

    2013 – Reyndum að kaupa Diego Costa, enduðum með Aspas
    2014 – Reyndum að kaupa A. Sanchez, enduðum með Balotelli
    2015 – Reyndum að kaupa Depay, endum með… ?

  15. Hvers vegna í ósköpunum allir sem Liverpool ætla að kaupa rata í slúðrið veit ég ekki. Þetta virðist alltaf vera sama sagan. Einhver virðist auglýsa allt sem klúbburinn ætlar að versla og stóru orðin falla, t.d. fyrir viku áttum við að vera fremstir í kapphlaupinu en núna kemur United upp ur þurru og grípa hann.

    Bestu klúbbarnir þurfa ekki að auglýsa að þeir séu á eftir stóru bitunum. Þeir birtast bara og kaupa þá og búið á meðan að Liverpool með allar sínar kaup- og launastefnur guggna.

    Ekki veit ég hvers vegna allir í heiminum vita það þegar Liverpool er á eftir einhverjum, en ef að upplýsingarnar leka frá klúbbnum væri það yndislegt ef menn gætu grjóthaldið kjafti, stillt í leiðinni niður væntingarnar og keypt menn ef þeir ætla í alvörunni að gera það.

    Kominn með nóg af dúlleríinu við alla þessa stóru kalla sem leiðir bara að lokum til kaupa á Lambert, Aspas, Ings og co.

  16. Verð að tjá mig aðeins um yfirlýsingar nokkurra hérna inni um daginn varðandi meistaradeildina,hvað hún væri orðin ömurleg o.s frv.

    Ég spyr bara,sáu menn Barca-Bayern í gær,ÞVÍLÍKUR LEIKUR!!!

    Skil ekki alveg knattspyrnuunnendur sem segja að meistaradeidin sé orðin svo leiðinleg að menn séu hættir að horfa,allir,ALLIR fótboltafíklar hljóta að hafa haft gaman af þessum leik.

  17. Bara skipta á Aguero og Sterling, fá svo einn góðan miðjumann og þetta er nánast komið 🙂

  18. @Trausti Hugsanlega hefði Rodgers átt að tjá sig minna um þennan eltingarleik, veit svosem ekki, þetta sagði hann í síðustu viku:

    “The kid [Depay] is obviously a very talented player. It is clear we need a goal threat for next season. There are targets that have been identified as a priority. We will have to see if they are available. It would be for the players to decide whether we’re an attractive club”

    Brendan Rodgers will be gutted to lose out on Depay after meeting him personally, he thought at one point he had got him.— Graeme Bailey (@GraemeBailey) May 7, 2015

    Svo fór helvítis pressan á fullt og undanfarna daga hefur þetta verið svona:

    ‘LVG no go on Memphis: Man United losing race for Depay…to Liverpool,’ The Sun, 4. maí

    ‘Liverpool clear to sign Memphis Depay as Paris Saint-Germain pull out of transfer race’ – Metro, 5. maí

    ‘Liverpool FAVOURITES to land £22m Man Utd and PSG target Memphis Depay’ – Daily Express, May 6.

    ‘Liverpool News: Midfielder DONE DEAL, Barcelona bid, Depay move close’ – Daily Star, 6. maí
    ‘Liverpool transfer news and rumours: Reds in pole position to sign Memphis Depay from PSV’ – the Telegraph, 6. maí

    Þetta var í gær, og svo í dag:

    ‘Manchester United have reached an agreement with PSV Eindhoven & Memphis Depay for the player’s transfer, subject to a medical.’

    Það er þó ekki furða að maður hafi verið farinn að gera sér vonir. En falskar vonir. En það er alveg augljóst að við reyndum. Það skiptir allavega eitthverju máli.

    Jæja. Ætla hætta að svekkja mig á þessu og fara út. YNWA

  19. @Manstein

    Auðvitað vonar maður alltaf í hjarta sínu að leikmenn vilji koma til okkar sögufræga klúbbs. En í því felst kannski einhver hluti vandamálsin. Klúbburinn er risastór vegna sögunnar, en þar sem árangur okkar síðastliðin 25 hefur ekki alltaf verið upp á marga fiska þá dvínar aðdráttaraflið smátt og smátt. Fyrir utan allar hinar ástæðurnar, sem eru of margar.

    ps. trúi ekki að þú hafir vitnað í the S*n í commentinu hér að ofan. Þó það sem þú ert að segja eigi alveg rétt á sér 😉

  20. “Liverpool líklegasti áfangastaður Memphis Depay”… Þá vissi ég að hann væri ekki að fara að koma til Liverpool Punktur

  21. Skrtel viðræðurnar eru líka að stalla á laununum, elska þetta “model” hjá FSG.

  22. Það er ljóst að við förum ekki að vinna þessi kapphlaup fyrr en að FSG breytir hjá félaginu og losar sig við BR. BR hefur nákvæmnlega 0 aðdréttarafl væri fínt að fá inn þjálfar sem einhver annar en helmingur stuðningsmanna Liverpool hefur einhverja trú á leikmenn sem klúbburinn reynir að fá hafa amk enga trú á honum sem stjóra og hafa ekki mikinn áhuga á að vinna með honum endar er hann bara la la knattspyrnustjóri.

Opinn þráður

Sturridge frá fram í september!