Blackburn – Liverpool 0-1

Okkar menn mættu Blackburn Rovers á Ewood Park í kvöld og voru án Steven Gerrard, Martin Skrtel and Emre Can sem allir voru í leikbanni. Balotelli var svo heima hjá sér, var með hita kallinn. Alveg merkilegt hvað maðurinn er mikið lasinn, er alveg að nýta þessa tvo daga í mánuði og vel það.

Rodgers breytti um kerfi í kvöld. Reyndar var uppstillingin slík að við gátum róterað vel innan liðsins, en liðið sem byrjaði leikinn leit svona út (4-3-3):

Mignolet

Johnson – Lovren – Sakho – Moreno

Henderson – Lucas – Allen

Coutinho – Sturridge – Sterling

Þetta hélst þó ekki lengi því Sakho tognaði aftan í læri og inn kom Toure. Varnarlínan okkar því nokkuð skrautleg.

Fyrri hálfleikur var hræðilega leiðinlegur. Má eiginlega að hann hafi verið endurtekning frá því í leiknum á Anfield. Heimamenn lágu til baka og við stjórnuðum leiknum að mestu, án þess að skapa neitt. Lítið um hlaup, Sturridge einangraður og lítið í gangi.

Blackburn voru líklega næst því að skora þegar Jordan Rhodes skallaði rétt yfir eftir fína fyrirgjöf. Var einn í teignum en náði ekki að stýra boltanum

Heimamenn byrjuðu af krafti í síðari hálfleik, Tom Cairney átti þá frábært skot rétt fyrir utan teig sem að Mignolet varði í horn. Það var einmitt úr því horni sem að Mignolet bjargaði marki, frábær skalli Ben Marshall í nærhornið. Mignolet sá boltann seint því Joe Allen var fyrir en náði að kasta sér niður verja frábærlega!

Eftir þetta tókum við öll völd á vellinum. Það var svo litli galdramaðurinn okkar sem að skaut okkur í úrslitaleikinn á 70 mínútu eftir þríhyrning við Henderson við hægra vítateigshornið, lék inn á vítateiginn og þrumaði boltanum niðri í fjærhornið, 0-1.

Við lönduðum svo þessum sigri tiltölulega auðveldlega þegar uppi var staðið. Markvörður Blackburn komst líklega næst því að jafna metin þegar hann átti skot úr miðjum teignum í uppbótartíma en beint á Mignolet.

Pælingar og maður leiksins

Þegar Sakho fór útaf og varnarlínan okkar samastóð af Johnson – Toure – Lovren og Moreno þá leist mér ekkert á blikuna, skal viðurkenna það. En þessir menn áttu fínan leik. Sérstaklega fannst mér þó Johnson og Lovren fínir m.v. hve lítið þeir hafa spilað undanfarið.

Henderson var frábær á miðjunni, ekki síst í ljósi þess að hann og kona hans eignuðust stúlku í nótt. Hefur því eflaust ekki fengið átta tímana sína. Átti sendinguna á Coutinho í markinu og vann vel fyrir liðið í kvöld, að vanda. Sterling og Sturridge fannst mér ekkert sérstakir í kvöld. Sturridge á þessu tímabili reyndar bara verið skelfilegur meira og minna. Helvíti langur tími sem það tekur hann að spila sig í form, kom til baka í lok janúar, í dag er 8. apríl.

Annars var Mignolet maður leiksins að mínu mati. Varði frábærlega í tvígang í upphafi síðari hálfleiks og hélt okkur inn í leiknum.

Þessir leikir eru alltaf erfiðir. Það voru nú ekki beint stórlið sem slógu City og Chelsea út úr keppninni, og þó þetta hafi verið ljótt þá hafðist þetta! Stöðvuðum þessa taphrinu, héldum hreinu og erum á leið á WEMBLEY þar sem að Aston Villa býður okkar.

Eins mikið og ég hata þetta tímabil, þá myndi ein dolla bjarga ansi miklu….

YNWA

39 Comments

  1. Flottur sigur og ég hef 3 punkta um leikinn.

    1. Hvernig var þessi Williams ennþá á vellinum, hvað þá ekki með spjald?
    2. Hvernig fengum við ekki víti fyrir brotið á Allen.
    3. Aldrei þessu vant þá var ég að hugsa hversu flottur G. Johnson var í þessum leik, er hann sá eini sem sýnir það að hann sé betri en leikmenn í miðlungsliði í Championship deildinni?

  2. Sælir félagar

    Erfiður sigur en hafðist þó.

    Það er nú þannig

    YNWA

  3. Frábært að komast á Wembley þótt við höfum þurft 180 mínútur til að slá þetta lið út. Ég verð að hrósa Lovren, en hann vann marga skallabolta og var bara nokkuð stabíll! Johnson var líka ekki í neinu rugli í kvöld! En það er kannski bara af því að þetta var lið í 1. deildinni… en hver veit, kannski eru þeir eitthvað að rífa sig í gang, elsku kallarnir.

  4. Frábær sigur, markmiðið náðist og um það snýst svona úrslitakeppni. Nú er bara að koma sér í úrslitaleikinn og væri gaman að sjá endurtekningu frá 2001.

  5. Sigur og liðið á Wembley, eina sem skiptir máli.

    Mignolet maður leiksins fyrir mér, Coutinho annar fyrir að skera úr um leikinn og Lovren þar á eftir.

    Mignolet verður líklega okkar besti og versti leikmaður þegar tímabilið verður gert upp.

    Hvernig Kevin Friend sá svo ekkert athugavert við þessa tæklingu á Allen undir lokin eru næg rök fyrir að fá myndavélar til að hjálpa til við dómgæslu, því miður. Minnti á þegar brotið var á Suarez gegn Norwich fyrir 2 árum.

  6. Leikmaður sem slær mann tvisvar, hnjáar leikmann í hnakkann og hleypur mann niður af aftan í vítateignum fer ekki spjald allan leikinn á meðan Sterling fer gult fyrir að rekja boltann lengra inn á völlinn eftir að gaurinn með flautuna var búin að blása í hana.

    Kevin Friend er með þeim alverstu dómurum sem fá að dæma á Englandi.

    Annars slakur leikur hjá okkar mönnum. Fýlaði Lögreglan solldid í þessum leik og Mignolet var flottur þegar á honum þurfti að halda. En mikið rosalega myndi ég hlægja ef einhver yrði svo vitlaus að bjóða 50 milljónir punda í Sterling eins og talað hefur verið um. Hann á svo langt því frá skilið að fá 100.000 pund á viku og hvað þá 150.000. Hendið þeim pening í Coutinho sem ítrekað er að bjarga leikjum hjá okkur.

  7. Ég þakka Mignolet og Coutinho fyrir þennan sigur, aðrir leikmenn liðsins voru frekar daprir í kvöld.
    Sturridge og Sterling voru þar fremstir í flokki og kannski gagngrýni ég þá að óþörfu en ég geri einfaldlega meiri kröfur á þessa svokölluðu lykilmenn liðsins.

    En hvað er að frétta af Lallana og blessuðum Balotelli, veit það einhver ?

  8. Í guðs bænum strákar (og stelpur) fagnið sigri,horfið á björtu hliðarnar og sleppið dómaratuði plÍs.

  9. Ég er sammála þér Davíð lögreglan stóð sig bara ansi vel í kvöld;)

  10. Gaman að sja fjögra manna vörn hjá okkur sem ekki var að kúka uppá bak. og maður lifandi, ef Lövern hafi ekki bara verið maður leikssinns, hann var allavega traustur og það er gaman að sjá, en vonadi Sako sé ekki alvarlega meiddur, þá væri orðið verulega þunnskipað liðið aftast.

  11. Ef til vill var ég að horfa á annan leik en aðrir hér en mér fannst okkar menn bara mjög fínir.

    Sterling og Sturridge voru hættulegir og Daniel var óheppinn að skora ekki fljótlega eftir markið. Kolo Toure var frábær í vörninni og Kátur litli skoraði mark og var hættulegur. Lucas og Lövren hirtu gríðarlegt magn af skallaboltum og dreyfðu spilinu vel. Þetta er bara rosalega erfitt þegar menn eru allan leikinn með 10 menn fyrir aftan bolta. Maður sá að eftir markið þá opnaðist þetta allt saman. Mignolet klárlega maður leiksins. Þrjár glæsilegar vörslur frá honum.

    Sem sagt: Engin flugeldasýning en bara job well done, brjáluð barátta í okkar mönnum og greinilegt að gæðin voru einfaldlega meiri hjá þeim rauðklæddu.

    Finnst fólk mega alveg slaka aðeins á neikvæðninni. En ég vil ekki dæma. Sumir upplifa þetta bara öðruvísi 🙂

  12. Fínn leikur. Það sem vantaði uppá var að skapa fleiri færi. Vorum ekki nógu góðir sóknarlega í fyrri hálfleik en það sem skiptir öllu í svona leik er að halda góðum tökum á leiknum og fá ekki á sig mark. Varnarlega vorum við að spila vel og létum ekki gróft neðri deildarlið ná tökum á leiknum. Fjagra manna vörnin lék vel.

    Og ég hafði rétt fyrir mér varðandi byrjunarlið 🙂 Fékk líka mína ósk uppfyllta um að hverfa frá 3-5-2 (3-4-3) afbrigðinu.

    Þetta var gríðarlega mikilvægur sigur fyrir framhaldið í deildinni og það að eiga enn von á bikar gefur leikmönnum kraft núna á síðustu metrunum.

  13. Þetta var vinnusigur, ömurlegt að missa Sakho út snemma en Kolo kom heldur betur með innkomu.

    Ég var hafði aldrei áhyggjur af því að Blackburn myndi skora, þrátt fyrir þessi hálf-færi hjá þeim.

    Ætla að vona að Rodgers haldi í þetta kerfi, fannst allt spil mun auðveldara og við nýtum mun betur breiddina á vellinum á þessu kerfi – vá hvað ég hef saknað over-lappana frá bakvörðum.

  14. Hraunaði réttilega yfir Rodgers eftir Arsenal leikinn. Hann á hinsvegar skilið hrós fyrir að hafa breytt leikkerfinu í 4-3-3. Þessi leikur var svosem engin fögur sjón að sjá en það er nú yfirleitt þannig þegar eitt lið sem reynir að spila fótbolta mætir liði sem spilar eins og rugby lið. Frært mark hjá Coutinho og mögnuð sending hjá Henderson. Mignolet átt frábærar markvörslur og er vel að því kominn að vera valinn maður leiksins.

  15. Hreint lak, sigur og WEMBLEY! Núna erum við að tala saman ????

  16. Frábær sigur og mikill léttir.

    Ég skal svo éta allt ofan í mig varðandi Rodgers ef hann skilar bikarnum í hús. Í mínum huga kemur sá titill næst á eftir deildarmeistaratitlinum og langt á undan 2-4 sæti.

    Koma svo Liverpool!

  17. Ég ætla að gerast svo djarfur að setja hausinn í gapastokkinn með þessari fullyrðingu: Mér þótti Sterling mjög góður í þessum leik. Hann var áræðinn, stöðugt ógnandi, var að skapa fyrir aðra og hélt bolta vel. Sá þetta virkilega enginn annar?

    Annars, frábært að sigra og þetta lið okkar langar í bikar, það er greinilegt.

  18. Gott: Liðið sýndi karakter, hélt haus þegar á reyndi, hélt hreinu á útivelli enn og aftur og tryggði sér farseðilinn á Wembley. Andstæðingarnir eru deild fyrir neðan en við skulum ekki halda í sekúndu að þetta hafi ekki verið risastór og erfiður leikur fyrir Liverpool. Langt því frá skyldusigur en þetta hafðist.

    Slæmt: Mamadou Sakho meiddist enn á ný og mögulega Daniel Sturridge líka, loksins þegar hann var farinn að ógna meira í leiknum. Helvítis.

    Gott: Vörnin hélt. Glen Johnson minnti á hvað hann getur og Dejan Lovren var frábær, steig ekki feilspor í allt kvöld. Hann fær sénsa núna í fjarveru Sakho sem verður vonandi ekki of lengi frá.

    Slæmt: Sóknarleikurinn var stífur í allt kvöld. Markið náðist, þetta hafðist en það þarf að ná að kveikja einhvern neista þarna.

    Gott: Mignolet átti aftur lykilmarkvörslur, sá er búinn að snúa tímabilinu við. Ég er ekki viss um að ég sé desperate lengur að fá markvörð inn í sumar, nema þá bara til að fá betri varamarkvörð en Brad Jones.

    Á þessum tímapunkti erum við að horfa á 5.-6. sæti í deild (með 5. stærsta launapakkann & 5. dýrasta leikmannahópinn), undanúrslit í báðum Englandsbikarkeppnum og afhroð í báðum Evrópukeppnum. Það er ekki eins gott og við vonuðum en það eru ekki afhroð heldur. Ungur stjóri og ungt lið geta byggt á slíku tímabili.

    Áfram gakk. Bjarga því sem bjargað verður í deild og 11 dagar í Wembley gegn Timmy Sherwood & The Villans. Tímabilið er dautt, það lengi lifi! Húrra!

  19. Í lok leiks, sást í nærmynd í þeim straumi sem ég horfði á þegar Rodgers þakkaði okkar mönnum fyrir leikin. Ekki var að sjá á viðbrögðum hvorki hans né leikmanna að eitthvað illvígt sæti í mönnum.

  20. Ég held ég hafi aldrei áður póstað Simon Mignolet highlights myndbandi eftir Liverpool leik, en nú er kominn tími á það: https://www.youtube.com/watch?v=9AWxs8FZ0UY

    Varslan sem er sýnd í kringum 0:50 til 1:10 er í algjörum sérflokki og síðasta sjónarhornið er sturlað. Vá!

  21. Asskoti lélegur leikur , liðið að falla í lítið uppbyggilegan leik, eða þannig.

  22. Er ekki rétt hjá mér að Liverpool – Aston Villa er 18.apríl?

    Það gengur varla upp að spila við Hull 18.apríl og Bikarleikinn 19.apríl.

  23. Fínn leikur mér finnst samt óþarfi að vera með Henderson, Lucas og Allen alla inná í einu. Myndi vilja bítta einum þeirra út fyrir Markovic eða Lallana. Þetta var skref í rétta átt.

  24. Frábært að vinna á útivelli og halda hreinu.
    Ekki sammála um að fyrri hálfleikurinn hafi verið döll, það er erfitt að spila gegn svona þéttri vörn þegar strikerarnir okkar eru eins kaldir og þeir hafa verið í vetur.

    Aníhú.
    Wembley here we come 🙂

  25. Hef ekki verið jafn stressaður lengi eins og núna í þessum leik…

    Beinlínis með lokuð augun síðustu tvær í uppbótinni og hefði örugglega ekki lifað af skot markmannsins sem Migno tók.

    Var alltaf á því að þetta yrði bölvað ströggl, bara eiginlega eins og þessi keppni allan tímann, en nú verður allavega ein heimsókn á Wembley þetta tímabilið og önnur tilraun okkar í Semi-Final í keppni. Það er skref fram á við.

    Gladdist mjög að sjá varnarlínuna standa af sér og halda hreinu þó auðvitað langstærsta ástæða þess hafi verið enn ein frábær frammistaða Simon Mignolet sem er að sýna það að hann er gerður úr einhverju góðu efni. Frammistaða hans í gær var nær fullkomin. Frábærar vörslur, góður í teignum, áræðinn og yfirvegaður. Djöfull sem ég vona að þetta sé hans rétta hlið, þá erum við með markmann til næstu tíu ára.

    Annars alveg sammála skýrslunni, Lovren og Coutinho mjög góðir, Johnson og Hendo fínir en aðrir alveg átt betri leiki.

    Hefði verið ÖMURLEGT að komast ekki í þennan undanúrslitaleik, þá verðum við orðnir betur mannaðir en í gær og þurfum að berjast við alvöru verkefni í Villa liði sem hefur verið okkur erfitt undanfarin ár. Þar er ekkert gefið en mikið undir…

    Hef trú á því að við sjáum þetta 4-2-3-1 kerfi áfram í næsta leik…

  26. Flottur vinnusigur hjá okkar mönnum og frábært að komast á Wembley!

    Sammála flestum hér varðandi þá menn sem stóðu sig vel, sérstaklega Mignolet.

    Menn hafa hins vegar ekki minnst mikið á Kolo Toure en hann átti flotta innkomu og mér finnst þetta akkúrat vera leikirnir sem hann á að spila, í svona leikjum vegur reynslan gríðarlega þungt og svo voru andstæðingarnir ekki of hraðir eða að sýna af sér stórkostleg gæði. Til samanburðar má líta á leikinn við Arsenal, þar sem hann þurfti að mæta aaaaaallt of hröðum leikmönnum, stútfullum af gæðum.

    Áfram Liverpool!

  27. Sem bjartsýnismaður þá var ég að skoða töfluna og láta mig dreyma. Nú er stórleikur í Manchester um helgina og munar einu stigi á liðunum. Þá er það stóra spurningin, hvað er best fyrir okkur, eða skiptir þetta engu máli. Ef að City tapar þeim leik og við vinnum Newcastle þá munar bara fjórum stigum á liðunum. En City eiga reyndar auðveldara program framundan en ManU.

    Svo get ég ekki með nokkru móti vonast eftir ManU sigri nokkurntíma þannig að ætli maður verði ekki bara að vona að City taki þetta.

  28. Styrmir, það er alltaf betra að Man Utd endi sem neðst á töflunni 🙂
    Utd á hræðilegt prógram eftir og Liverpool skal enda fyrir ofan þá þegar flautað verður til loka síðustu umferðarinnar 🙂

Liðið gegn Blackburn

Opinn þráður – Nýr búningur 2015/16