Spilað fyrir framtíð sinni

Nú fer að líða að lokum þessa tímabils hjá okkar mönnum og ekki ennþá ljóst hvort það verði metið sem gott tímabil eða ekki. Það er þó algjörlega ljóst að einhverjar breytingar verða á liðinu í sumar, þó svo að flestir vonist nú til þess að kjarninn haldi sér og það verði keyptir færri leikmenn en í háum gæðaflokki. Það hefur alltof oft gerst hjá okkar mönnum að það þurfi að bæta breiddina í liðinu og þar af leiðandi hefur það fjármagn sem hefur verið aflögu, dreifst á marga leikmenn. En hverjir eru það sem hugsanlega hverfa á braut í sumar? Ég ætla mér að telja fyrst upp þá leikmenn sem ég tel að séu algjörlega öruggir með að vera áfram, svo velti ég fyrir mér stöðunni hjá nokkrum sem ég tel einhver vafi með og að lokum verður yfirferð yfir þá sem annað hvort eru búnir að staðfesta brottför, eða mjög miklar líkur eru á að fari.

Þeir leikmenn sem ég held að séu engar líkur á að hverfi á braut eru Simon Mignolet, Jon Flanagan, Martin Skrtel, Dejan Lovren, Philippe Coutinho, Jordan Henderson, Daniel Sturridge, Mamadou Sakho, Alberto Moreno, Adam Lallana, Lucas Leiva, Emre Can, Joe Allen, Raheem Sterling, Jordon Ibe, Lazar Markovic og Divock Origi. Auðvitað er staðan á mönnum misjöfn og má alveg ræða hana hjá mönnum eins og Raheem Sterling og Jordan Henderson. Ég er alveg pottþéttur á að Jordan hripi undir samning fljótlega og því ekkert sem kemur í veg fyrir að hann spili með Liverpool um ókomin ár. Stærra spurningamerki virðist vera í kringum Raheem litla. Ég er þó alveg handviss um að þetta mál hans verði klárað í sumar og að hann verði settur á nýjan langtíma samning. Ef fréttir reynast sannar með að hann sé að hafna einhverjum risasamningi við liðið, þá er bara eitt að gera og það er að selja kappann í sumar, einfalt mál. Hann er svo langt frá því að vera ómissandi fyrir liðið í dag og hann á talsvert í að verða sá heimsklassa leikmaður sem hann gæti alveg orðið í framtíðinni. Einhverji reka kannski upp stór augu með þá Simon Mignolet og Dejan Lovren á þessum lista, en ég er nokkuð viss um að staða þeirra sé trygg. Simon hefur vaxið mikið og ég er alveg handviss um að við skiptum ekki út báðum markvörðum í einu lagi í sumar, frekar líklegt að það verði keypt inn samkeppni fyrir hann. Dejan fær svo klárlega annað tímabil til að sanna sig.

Þá að þeim leikmönnum sem ég tel að stór spurning sé um framtíð hjá Liverpool FC. Ég er ekkert að fara neitt sérstaklega út í unga leikmenn sem hafa verið í útláni, því staða þeirra er mjög misjöfn, sumir eiga bjarta framtíð fyrir sér hjá klúbbnum ef þeir spila rétt úr sínum spilum, en aðrir eru með það skrifað á ennið að verði látnir fara fljótlega ef ekki strax í sumar. Tökum þetta leikmann fyrir leikmann.

Jose Enrique
Svo sem ekkert alslæmur sem varamaður fyrir Moreno, en það er bara ekkert hægt að stóla á þennan dreng, sífellt meiddur og virðist hafa meiri áhuga á að spila FIFA í tölvunni, en fótbolta á vellinum. Örugglega bráðskemmtilegt eintak þessi gaur, en er það nóg til að halda sæti sínu í liðinu? Ef það væri einhver efnilegur strákur byrjaður að banka fast á dyrnar í þessa stöðu (hvort sem við tölum um vinstri bakvarðarstöðuna eða kantbakvörð í 3-4-3 kerfinu hjá Rodgers) þá myndi ég setja hann í næsta hóp á eftir. Gæti alveg trúað að menn myndu halda í hann í eitt ár í viðbót.

Rickie Lambert
Hann hefur nú ekki fengið marga sénsa blessaður, enda bjóst varla við öðru en að verða 3-4 framherji í röðinni. Hann hefur nú heldur ekkert verið að lýsa upp himininn þegar hann hefur fengið sénsinn. Honum bauðst að fara til Aston Villa í janúar fyrir 5 milljónir punda en hafnaði því sjálfur og vildi klára þetta tímabil og lifa æskudrauminn. Nú er hann búinn að því að vissu leiti og ég gæti alveg trúað því að ef það kæmi annað svipað tilboð í sumar, þá færi kappinn. Ef það kemur ekki, þá eru menn ekkert að flýta sér neitt að losa sig við hann, halda honum sem 4-5 valkosti.

Sebastian Coates
Spurningamerkið yfir honum er jafnstórt honum sjálfum. Klárlega gaur með hæfileika, en hefur verið að ströggla verulega vegna erfiðra meiðsla. Sá hann aðeins í leikjum með Sunderland þar sem hann var flottur og spurning hvort menn haldi honum í eitt ár til viðbótar ef t.d. Kolo er að hverfa á braut. Er samt alveg klár á því að ef það kemur inn áhugasamt félag, þá verði hann látinn fara.

Javier Manquillo
Aldurinn á þessum hjálpar honum og eins það að hann er bara á lánssamningi enn sem komið er. Liverpool hefur tækifæri á að kaupa hann í sumar eða halda honum á láni í eitt tímabil til viðbótar. Ég hef litla trú á því að hann verði keyptur í sumar, en hugsa að menn haldi honum í ár í viðbót. Hann byrjaði þokkalega, en hefur átt erfitt með að komast í lið eftir að leikkerfi var breytt og staðan hans lögð niður. Sterkur strákur engu að síður sem gæti styrkt hópinn. Taka verður inn í myndina að Jon Flanagan ætti að vera að koma tilbaka fyrir næsta tímabil og eins er Andre Wisdom líka samningsbundinn félaginu og á hann t.d. auðveldara með að hoppa inn í miðvarðarstöðu ef þörf er á.

Tiago Ilori
Ég verð að viðurkenna það að ég hef lítið sem ekkert heyrt af þessum strák eftir að hann var lánaður til Frakklands. Klárlega mikið efni en menn fljóta ekki endalaust á því og spurning í hvernig standi hann er og hvernig hann hefur staðið sig. Staðan á honum verður tekin í sumar og ákveðið hvort eigi að halda honum áfram hjá félaginu eða jafnvel lána hann út aftur.

Mario Balotelli
Ef einhver er að spila fyrir framtíð sinni hjá félaginu þá er það þessi fír. Ef hann fer ekki að detta í smá gír í restina, þá held ég að flest allir væru til í að sjá hann hverfa á braut. Það er samt ekkert ofur einfalt, það þarf að vera eitthvað lið tilbúið til að taka hann, borga fyrir hann, borga honum laun og slíkt. Það er ekki eins og að hann hafi aukið markaðsvirðið sitt þetta tímabilið. Hann er víst fínn í hópnum, ekkert út á hann að setja þar og því ekkert ólíklegt að besta í stöðunni sé að vona að hann taki næsta tímabil með trompi. Ég ætla þó ekkert að leggja aleiguna undir að það gerist. Hann hefur hagað sér hjá Liverpool, en um leið virtist hann gleyma því hvernig á að spila leikinn. Má ég þá biðja um óstýrlátan Balo sem er góður í fótbolta.

Andre Wisdom
Nú er þessi kappi búinn að vera 2 tímabil í Úrvalsdeildinni á láni og næsta tímabil ætti að vera make or break með það hvort hann verði hluti af þessu Liverpool liði í framtíðinni eða ekki. Ekki er hann þó neitt að falla á tíma vegna aldurs, en hann þarf að fara að taka næsta skref. Lítið hefur hann bætt sig síðan hann braust inn í liðið fyrir um 3 árum síðan. Gæti alveg séð fyrir mér að hann yrði bara seldur a la Martin Kelly í sumar. Hann er engu að síður fjölhæfur leikmaður sem gæti styrkt hópinn.

Luis Alberto
Hvað á maður að segja um þennan kappa? Er á láni hjá Malaga, byrjaði vel þar og hefur í vetur spilað um 20 leiki fyrir þá í deild og bikar og skorað 2 mörk. Ég einhvern veginn sé hann ekki fyrir mér koma tilbaka, hvort sem hann verði seldur eða lánaður út aftur. Maður veit þó ekki hvað Brendan ætlar sér með drenginn, hann er ennþá ungur að árum.

Auðvitað eru einhverjir sem ættu heima í einhverjum öðrum af þessum þrem flokkum og kannski helst þessir sem hafa verið í útláni frá félaginu. En það eru nokkrir sem ég tel að séu bara mjög líklgea á útleið.

Iago Aspas
Þetta er fínn fótboltamaður, engin spurning um það. Hann á þó enga framtíð fyrir sér hjá okkar liði og þó svo að ég sakni hornspyrnanna hans, þá verður maður bara að sætta sig við að hans tími kom bara aldrei hjá félaginu. Hann er einfaldlega númeri of lítill (er ekki að vísa í stærðina á honum). Hann hefur verið að standa sig vel á Spáni hjá Sevilla og því ætti að vera frekar einfalt að selja hann í sumar og fá alveg sæmilegan pening fyrir hann.

Brad Jones
Samningslaus og ég sé ekki af hverju ætti að semja við hann aftur. Við þurfum klárlega meiri samkeppni um markvarðarstöðuna og ég vil bara óska þessum góða dreng bara góðs gengis í framtíðinni.

Glen Johnson
Samningslaus í sumar og félagið virðist ekki hafa neinn áhuga á að semja við hann aftur. Er á stórum samningi núna og engar líkur á að Liverpool borgi honum eitthvað svipuð laun áfram. Hann gæti kríað út eitthvað álíka til skamms tíma með free transfer skiptum og er því nánast pottþétt á útleið.

Kolo Toure
King Kolo er samningslaus í sumar. Eitthvað hefur maður heyrt um að ætlunin sé að bjóða honum framlengingu til skamms tíma, en einnig hefur maður heyrt að hann vilji fara að snúa sér að þjálfun. Klárlega öflugur fyrir hópinn og myndi lítið skemma fyrir að hafa hans reynslu áfram, en ég hugsa þó að það sé komið að endastöð hjá honum.

Fabio Borini
Það var mikið reynt að selja þennan strák síðasta sumar, en hann neitaði að fara. Hann er á fínum aldri og ég bara trúi því ekki að hann vilji daga uppi utan hóps hjá Liverpool þrátt fyrir að vera á fínum launum, hann hlýtur að hafa fótboltalegan metnað. Brendan hefur greinilega enga trú á honum og því bara hlýtur hann að finna sér annað lið næsta sumar, annað væri bara fíflaskapur.

Steven Gerrard
Samningslaus og sá eini sem hefur staðfest brottför. Þarf ekkert að ræða meira þennan snilling, hans verður sárt saknað alls staðar og verður skarð hans hjá félaginu í heild sinni aldrei fyllt.

Þá er þessi yfirferð að baki og það þarf varla að taka það fram að það er enginn möguleiki á að félagið sé að fara að skipta öllum þeim leikmönnum sem eru í seinni tveim flokkunum út á einu sumri, ekki séns. Fyrir hvern sem fer, þarf að fá annann inn í staðinn (reyndar á það ekki við um þá sem hafa verið í útláni) og eins og ég kom inná í upphafi, þá vonast maður til að það verði fáir en afar góðir og öflugir menn sem bætast við sterkan kjarna í sumar. Það myndi til dæmis ekki kallast nein bylting ef Gerrard, Borini, Toure, Johnson, Jones, Aspas, Alberto, Wisdom, Lambert og Coates yrðu seldir eða látnir fara og í staðinn yrði keyptur öflugur markvörður, virkilega sterkur miðjumaður, fjölhæfur varnarmaður og svo einn sterkur framherji. Hópurinn í heild sinni myndi styrkjast við þetta að mínum dómi. Magn út og gæði inn án þess að það komi neitt niður á breiddinni.

Við skoðum svo hugsanleg target síðar.

28 Comments

 1. Held að Andre Wisdom sé sá eini á þessum lista sem á hugsanlega einhverja framtíð á Anfield.
  Fáum vonandi væna summu í kassann fyrir hina til að styrkja liðið enda verðum við að kaupa gæðaleikmenn í sumar til að fleyta okkur alla leið. Þá verðum við einnig að halda öllum okkar lykilmönnum.

  Það yrði sterkur leikur að krækja í Alex Song og Gylfa Sigurðsson á miðjuna. Báðir verið frábærir í vetur og ættu að vera raunhæf skotmörk. Finnst við þurfa alvöru varnarsinnaðann miðjumann og Alex Song uppfyllir allar þær kröfur sem slíkur þarf að hafa. Þá þurfum við alvöru spyrnumann fyrir SG enda höfum við engan frambærilegann eftir að hann yfirgefur liðið. Þar er Gylfi stórkostlegur kostur og vel rúmlega það.

  Framlínan hefur verið hræðileg í vetur og morgunljóst að Sturridge er ekki treystandi. Án alls spaugs væri ég til í að sjá okkur reyna við Carlos Tevez. Frábær leikmaður, með stútfullt vopnabúr, baráttuanda og sterkan karakter. Allavega ljóst að við þurfum alvöru mann í þessa stöðu enda mikilvægt að hafa mann sem skorar reglulega.

  Að lokum væri svo gott að bæta við varnarmanni og markverði sem myndi veita Mignolet samkeppni eða slá hann út úr liðinu. Auk þess að fá Danny Ings á frjálsri sölu.

 2. Gæti líklega ekki verið meira ósammála þér Stefán Hrafn með þá sem ætti að næla í, það var eiginlega mergur málsins hjá mér, nú þarf að versla gæði. Alex Song og Gylfi Sigurðsson eru bara alls ekki í þeim klassa að mínu mati. Þeir byrjuðu tímabilið flott báðir tveir, en svo fjarað undan. Gylfi er fínn leikmaður, en Íslendingar eru ansi blindir á hann almennt séð. Tevez er búinn að setja hausinn á sér heim á leið eftir Juventus og Danny Ings væri ekki að fara að berjast við Sturridge um startið í framherjastöðuna.

  Það er kannski einna helst Song af þessum gaurum sem myndu vera fín kaup, en við erum engu að síður með Lucas og Allen/Henderson í það cover.

 3. Þetta er hárrétt hjá þér með Tevez – var hreinlega búinn að gleyma því. Það er hinsvegar morgunljóst að við þurfum áreiðanlegan markaskorara þarna á toppinn með Sturridge. Gæti orðið vandi að finna hann en hann er einhverstaðar þarna úti. Ég hugsaði um Danny Ings sem varaskeifu vegna þess að Lambert, Borini og Balotelli eru líklegast allir á útleið.
  Strákurinn er ungur, eldfljótur, sterkur karakter og myndi kosta okkur lítið sem ekkert.

  Þá finnst mér Alex Song frábært akkeri á miðjuna. Það er alveg örugglega hægt að fá betri leikmann en ég sé okkur ekki henda himinhárri upphæð í slíkan leikmann. Ég hugsaði Gylfa fyrst og fremst sem spyrnumann. Enganveginn lykilatriði að fá hann – en við verðum hinsvegar að fá mann með alvöru spyrnugetu í föstu leikatriðin. Hver sem það nú er.

 4. Held að það séu mjög miklar líkar á því að Lucas Leiva fari frá liðinu í sumar. Það búið er að tala um að einhverjir vilja fara frá liðinu þá gerist það oftast.

 5. Verð er vera ósammála ykkur af hverju haldiði að Wisdom eigi einhverja framtíð hjá liverpool hann er búinn að vera vara maður West Brom og þegar hann var að spila þá var liðið hörmulegt. Er ekki kenna honum um slæmt gengi West Brom en sé samt ekki hvað við höfum að gera með varamann hjá West Brom

 6. Vil endilega sjá Balotelli áfram á Anfield. Þetta er hörku leikmaður og getur skorað mörk uppúr engu. Halda honum og nota hann í réttu leikina, og alltaf flott að eiga einn svona alvöru mann til að koma af bekknum í staðinn fyrir menn eins og Borini sem er algjörlega borin von að gera nokkurn skapað hlut inná vellinum.

 7. Það skiptir nú litlu máli þótt ungur leikmaður í láni hjá öðru félagi sé ekki að spila eins og einhver heimsklassaleikmaður þar. Wisdom var nú reyndar byrjunarliðsmaður hjá WBA þangað til að stjórinn var rekinn og nýr tók við. Þá fyrst fór hann á bekkinn.

  Wisdom er bara að næla sér í mikilvæga reynslu af því að spila í efstu deild í Englandi. Hann þarf ekkert að spila eins og besti hægri bakvörður í heimi þar, heldur bara að fá að spila. Satt best að segja gæti mér ekki staðið meira á sama hvort honum gengur vel þar eða ekki, bara að hann fái reynsluna. Það telur.

  Ég er annars sammála þessari upptalningu SSteina, að mestu leyti. Þeir sem eru pottþétt á leiðinni út eru:

  Gerrard
  Johnson
  Borini
  Aspas
  Enrique

  Set smá spurningarmerki við þessa eftirtöldu:
  Lucas
  Lambert
  Balotelli
  Toure

  Ég veit ekki með Toure, hann er flottur sem 4ji miðvörður inn, og sjálfur vil ég halda í þessa reynslu, sérstaklega miðað við að Liverpool missir tvo af sínu reynslumestu leikmönnum í sumar (Gerrard og Johnson. Annað mál er til dæmis með Lucas. Ég held að hann vilji fara, ég las það einhvers staðar einhvern tímann í vetur. Vantar nýja áskorun, og heldur sennilega á vit ævintýranna í draumalandinu Ítalíu.

  Balotelli er svo annar handleggur. Hann fer, en einungis ef eitthvert lið er tilbúið að kaupa hann. Og það er stærsti vandinn, að finna lið sem vill taka hann aftur og borga Liverpool fyrir hann.

  Lambert er leikmaður sem hefur ekki fengið þau tækifæri sem mér finnst hann hafa átt skilið í vetur. Það er með öllu óskiljanlegt að þegar Sturridge meiðist, að eini alvöru framherjinn í liðinu fái ekki tækifæri. Til hvers voru menn þá að kaupa þennan leikmann? Það er ekki eins og liðið hafi spilað samskonar bolta og í fyrra, og því kjörið tækifæri til að láta leikmann sem sannanlega kann að skora mörk, spila.

  Hvað aðra leikmenn varðar, Coates, Illori og aðra, er ég ekkert að velta vöngum yfir. Ég veit ekki nógu mikið um hvernig þeir hafa staðið sig eða hvernig orðspor fer af þeim á þessari leiktíð til að geta dæmt um það.

  Klúbburinn þarf virkilega að bæta leikmannahópinn í sumar. Sjálfur vil ég sjá stórar breytingar. Ég yrði ekkert ósáttur við að missa til dæmis Mignolet, Lovren og Allen úr hópnum, ef hægt er að fylla þeirra skarð með betri leikmönnum – sem ætti ekki að vera neitt ofboðslega erfitt.

  Hvað Sterling varðar, þá er hann ekki ómissandi. Sjálfur hefi ég meiri áhyggjur af því hvernig Liverpool ætlar að fylla skarðið sem Gerrard skilur eftir sig. Sá maður er ómissandi, enda besti leikmaður í sögu Liverpool FC. Sterling er efnilegur en langt frá því að vera heimsklassaleikmaður, og á að hafa vit á því að vera ekki að krefjast launa sem svara til heimsklassaleikmanns.

  Homer

 8. Ég skil ekki alla þessa rómantík í garð Balotelli. Menn hæla honum í sömu andrá og þeir drulla yfir Borini. Tek það fram að ég er ekki mikill aðdáandi þess síðarnefnda en hann er engu að síður með betri tölfræði en Balotelli í deildinni. Þ.e.a.s. mörk m.v. spilaðar mínútur.

 9. Ég skil ekki kaupin á Borini á sínum tíma, þetta var fyrsti leikmaðurinn sem fékk og síðan hefur hann ekki vilja að nota hann, undarleg kaup!

 10. Áhugaverðar pælingar og mjög spennandi sumar sem mögulega mótast mikið af því hvort liðið nái 4.sæti eða ekki. Þá sérstaklega er kemur að leikmannakaupum.

  Hópur 1 – Öruggir skv. færslu.
  Mignolet er væntanlega búinn að sanna sig og ég sé Liverpool ekki eyða miklu í varamarkmann, mun frekar reyndan ódýran mann til að veita Mignolet aðhald eða ungan (20-22 ára) mann sem á eftir að springa út. Jones verður varla nr.2 mikið lengur. Sammála með að Lovren fer ekkert enda yrði tap af slíkri sölu fáránlegt.

  Varðandi kaup á t.d. Alex Song eða álíka leikmanni þá held ég að Liverpool sé nú þegar búið að kaupa þann mann og eigi annan til vara aldrei þessu vant. Það er bara tímaspursmál hvenær Emre Can fer á miðjuna, þar vill hann spila og þróa sinn leik. Höldum honum ekki lengi sem miðverði á Anfield en hann mun búa vel að þessu tímabili í framtíðinni. Hinn er svo Lucas Leiva sem ég vona að fari ekki í sumar en framtíð hans veltur líklega því hvað verðir keypt inn. Hann er of mikið í meiðslum til að hægt sé að stóla á hann en hefur þó loksins komið nægjanlega vel til baka til að sanna að hann er ennþá nógu góður fyrir þessa deild og vel það.

  Raheem Sterling er svo klárlega orðið áhyggjuefni, ekki mikið en það má alls ekki útiloka að eitthvað Olíufélagið geri tilboð í hann í sumar. Arsenal hefur ítrekað misst leikmenn með svipuðum hætti og Liverpool virðist vera að gera nú með Sterling og jafnvel Henderson. Sterling færi þó aldrei nema fyrir gríðarlegan pening.

  Daniel Sturridge held ég að sé svo klárlega til sölu fyrir rétt verð ef einhver er nógu vitlaus að bjóða í hann. Vonlaust að treysta á mann sem spilar bara 50% leikjanna og skiptir þá litlu hvað hann er góður þegar hann er heill. Rosalegt klúður að treysta svona mikið á hann fyrir þetta tímabil, rándýrt. Fer þó ekki í sumar.

  Hópur 2 – Óvíst
  Jose Enrique – mögulega ekki hægt að losna við hann vegna samnings en hann verður farinn á láni fyrir næsta tímabil ef ekki tekst að selja hann. Löngu búinn sem leikmaður á þessu leveli og alltaf meiddur. Treysti honum ekki einu sinni sem varaskeifu.
  – Fæst líklega ekkert fyrir hann en hann losar líklega vænan launapakka

  Rickie Lambert – Ennþá áhugi á honum hjá EPL liðum og hann galin ef hann klárar ekki ferilinn á leveli sem hentar honum betur. Metnaður Liverpool þarf að stefna hærra en svona meðalmennska. Líka þegar við erum að tala um fjórða kost.
  – Líklega hægt að fá £2-4m fyrir hann.

  Sebastian Coates – Ef ekki næst að selja hann verður hann lánaður aftur. Endar mjög líklega einhversstaðar í S-Ameríku á næstu mánuðum. Synd hvernig ferill hans hefur farið en hann nær honum aldrei í gang hjá Liverpool.

  Javier Manquillo – Gæti trúað að þetta velti mest á honum sjálfum og framtíðarplönum Rodgers varðandi stöðu hægri bakvarðar.

  Tiago Ilori – Efa að hann verði seldur strax nema fyrir hærri upphæð en hann kostaði. Sé fyrir mér að annaðhvort verði honum eða Wisdom gefið séns í upphafi næsta tímabils.

  Mario Balotelli – Efa að hann fari og vona lúmskt að hann verði eitt tímabil enn a.m.k. Ég er þó kominn hring með álit mitt á honum og fer líklega annan áður en tímabilið er búið. Sé ekki að hægt sé að selja hann núna og efa að skipt verði um alla sóknarmennina í einu. Langar að sjá Origi og Balotelli berjast um stöðuna a.m.k. eitt tímabil, ekki setja bara allt traustið strax á Origi (þegar Sturridge meiðist …í ágúst).

  Andre Wisdom – Held að hann eigi framtíð hjá Liverpool og hef ekki áhyggjur þó hann sé í lægð núna undir stjórn Pulis. Þetta er mjög ungur og afar efnilegur miðvörður sem hefur öðlast töluverða reynslu. Hann er ekki meiðslahrúga eins og Kelly sem er helsti munurinn á þeim. Varnarmenn springa jafnan mun seinna út en sóknarmenn og ég held að Wisdom eigi 1-2 gíra inni í góðu liði. Hann hefði spilað slatta í vetur í núverandi leikkerfi.

  Luis Alberto – Kaupverðið gaf til kynna að menn hafa töluverða trú á honum og lánssamningar kom ekkert á óvart. Vonlaust að meta svona 20 ára leikmenn sem maður hefur ekki sé neinn leik hjá í vetur. Spilar þó stöðu sem er afar vel mönnuð hjá Liverpool.

  Hópur 3 – Fara að öllum líkindum
  Iago Aspas – Varð undir í samkeppni við Suarez og Sturridge og nýtti þau tækifæri sem hann fékk mjög illa. Sannarlega hægt að vorkenna Aspas sem fékk nánast ekkert að sanna sig og fer í sumar fyrst það tókst ekki i fyrra. Hefði líklega átt að bíða með að fara fyrir þetta tímabil og reyna að sanna sig, auðveldara án Suarez.

  Brad Jones – Eflaust hægt að semja við hann sem þriðja markmann en hvort sem hann fer eða ekki þá þarf betri samkeppni í þessa stöðu. Skil ekki varamarkmenn og menn sem sætta sig við að vera slíkir ár eftir ár.

  Glen Johnson – Fyrir mitt leiti töluvert síðan hann fór að gefa eftir, klárlega búinn að toppa og glætan að hann fái aftur samning m.v. það þegar hann var á toppnum. Spurning hvort hann hafi ekki verið á nægjanlega hvetjandi samningi undanfarin ár? Fínn leikmaður á sínum tíma en verður afar lítið saknað og skapar stórt pláss á launaseðlinum.

  Kolo Toure – Útiloka ekki eitt ár enn en held að nú sé kominn tími á Wisdom sem fjórða kost.

  Fabio Borini – Skildi vel hvað hann var að hugsa fyrir þetta tímabil, hann vildi frekar sanna sig hjá Liverpool frekar en að fara á lægra level. Hann náði ekki að gera það og hefur átt mjög pirrandi tímabil. Úr því hann náði ekki að festa sig í sessi í þessari sóknarlínu er útilokað að hann geri það nokkurntíma. Vonandi hægt að fá £8-10m fyrir hann.

  Steven Gerrard – Hér held ég að stóra fjárhæðin fari í sumar. Ekki beint í að finna arftaka Gerrard heldur alvöru miðjumann á kaliberi við Henderson og Can (eða hærra). Gerrard skilur a.m.k. eftir launapakka fyrir slíkan mann.

 11. Andre Wisdom er aldrei að fara vinna sér sæti í okkar liði. Ég væri hissa ef hann gæti haldið bolta á lofti oftar en 7 sinnum. Hann verður einn af þeim fyrstu sem verða látnir fara að mínu mati.

 12. Er orðin mjog þreyttur a þessu með Sterling og vill einfaldlega selja hann ef hann samþykkir ekki samning a bilinu 100 – 150 þus pund a viku.

  Vona að Borini, Lambert og Balotelli fari allir og við verðum þa með Sturridge , Origi hugsanlega Ings og einn alvöru skorara i viðbót, eg er meira spenntur fyrir Berahino en Ings en væri alveg til í þá báða bara með Origi og Sturridge.

  Þurfum alls ekki að kaupa marga leikmenn, 2 framherja, einn alvöru miðjumann og öflugan markmann til að berjast við Mignole, væri til i Cech fra Chelsea þott það myndi þýða að Mignole missti sitt sæti, Cech er með alla þessa reynslu og þekkir að vinna titla og okkar unga liði vantar klarlega lika menn með reynslu.

 13. Þetta verður liðið á næsta ári

  Reus Sturridge Sterling

  Can Coutinho Henderson

  Moreno Sakho Skrtel Flanagan

  Mignolet

  Vantar bara einn góðan mann frammi

  Við erum svo með Markovic, Lallana, Ibe, Allen, Lucas, Lovren….

 14. Hef sterka tilfinningu fyrir því að Balotelli fari til Napolí og við fáum Gonzalo Higuaín í staðinn, þyrftum eflaust að borga eitthvað á milli. Benitez fer í sumar og Napoli í peningavandræðum og Higuaín fer ef þeir spila ekki í CL á næsta tímabili.

 15. Ég hef það á tilfinningunni að Sterling verði farinn til liðs í London á næsta tímabili.

 16. Nú eru blöðin að tala um að Sterling vilji fara til Chelsea vegna þess að hann vilji spila uppi á topp.

 17. ehh,, vaknaði snemma og var ekki að muna dagsetninguna svo þessar fréttir eru væntanlega gabb.

 18. Mjög sammála tiltekt Babú hér að ofan – ég myndi ekki gráta þó allir úr hóp 2 og 3 myndu hverfa á brott.

  Ég er tiltölulega rólegur yfir samningamálum Sterlings og þessu gríni með Chelsea – ég held hann geri sér sjálfur fullkomlega greina fyrir því að Liverpool er langbesti staðurinn fyrir hann í dag. Þetta eru samningaviðræður og menn að semja um kaup og kjör næstu 5 ár og eðlilegt að (umboðs)menn reyni að hámarka þetta. Það hjálpar samt ekki Liverpool að vera spila honum í wingback.

  Fyrir sumarið er minn óskalisti svona.

  1. Memphis Depay. 21 árs og mesta vonarstjarna Hollendinga í dag. Góður á móti Spánverjum í gær. Hef reyndar bara séð 3 leiki með PSV í vetur en í þeim hefur þessi drengur staðið upp úr. Winger en hefur sett 17 mörk (í 24 leikjum) og lagt upp annað eins. Statistics úr hollensku deildinni oft ‘villandi’ um getu leikmanna en þennan vil ég sjá í Liverpool treyjunni á næstu leiktíð! Við misstum grátlega af A. Sanchez í fyrra, látum það ekki gerast aftur.
  2. Hummels. Skrtel/Lovren með þessum yrði fáranlega gott miðvarðarpar. Dortmund er í ruglinu og stefnir allt í að þeir missi af meistaradeildarsætinu. Synd og skömm en eins liðs dauði er annars liðs brauð og allt það. Það er fjárhagslega dýrt og enn verra varðandi leikmennina. Las að átrúnaðargoðið hans væri Steven Gerrard svo þetta er skrifað í skýjin.
  3. Reus. Sjá lið 2. Ég vona að okkur takist loksins að krækja í hann.
  4. Cech. Hann er að fara frá Chelsea, hann er einn af topp5 markmönnum í heiminum og yrði, þó eitthverjir hér séu mér ósammála, töluverð bæting miðað við Mignolet.

  Ekki meira um ‘average’ kaup – heimsklassa eða ekkert takk. Leikmenn sem bæta núverandi lið.

 19. Sæl og blessuð.

  Allt eru þetta góðar vangaveltur og ég verð að segja að um fýr eins og hinn unga Sterling þá leiðist mér mjög sú ofsagræðgi sem virðist hafa gripið hann og umba hans. Finnst einhvern veginn að við séum að taka niður fyrir okkur með að skríða fyrir svoleiðis fólki eins ánægður og ég hef oft verið með hann. Mörg dæmi má nefna um rísandi stjörnur sem kulnuðu skjótt og má vafalítið kenna þar um löstum eins og græðgi, hroka og öfund. Held við ættum að selja hann og pumpa svolítið upp verðið (græðgi?) og finna svo eðalfólk sem fyllir í hans skarð.

  Annars er ég enn að vakna með andfælum á næturnar þegar ég horfi á eftir boltanum renna framhjá stönginni hjá lalaleikmanninum Lallana. Öm-mur-rlegt alveg.

  Þetta fór alveg með spádóminn minn sem byggði augljóslega á því að menn myndu nýta slík færi sem þetta.

  Hvernig mun okkur svo ganga á móti Arsenal? púff.

 20. Slappur hópur sem Brendan er með. Og nú er maður farinn að trúa því að Sterling sé jafnvel að fara í sumar. Einn besti maður liðsins. Líst ekkert þetta.

 21. Sterling í viðtali við BBC: “If, at that point in time, I was offered a contract, I most definitely would have signed straight away, probably for far less money than being said now,” he said. “I just think the timing was a bit off.”

  Semsagt, ef honum hefði verið boðið samningur fyrr hefði hann tekið þessu boði. Þetta er það sama og Gerrard sagði og nú er maður orðinn hálfpirraður á þessum seinagangi sem virðist ALLTAF vera tilfellið undir núverandi eigendum. Hvers vegna biðu þeir svona lengi með að bjóða Sterling nýjan samning? Hverju er það að skila?

 22. Sá miðjumaður sem við ættum að reyna við í sumar er Schneiderlin. Svipuð týpa og Nemanja Matic, les leikinn gríðarlega vel, fín tækni og getur tæklað. Við getum hreinlega ekki treyst Allen og Lucas þar sem Allen er óstöðugur og Lucas meiðist yfirleitt þegar hann kemst í gang.

  Það er kominn tími á að Liverpool kaupi almennileg gæði þar sem klúbburinn klikkaði algjörlega seinasta sumar. Minn draumur væri að fá Schneiderlin, Pjanic og svo Firmino/Vietto í framherjastöðuna. Ástæðan fyrir því af hverju ég vill tvo miðjumenn er sú að ég tel Allen vera kominn á endastöð með klúbbnum. Keyptum hann á ágæta summu og hann hefur ekki staðið undir þeim væntingum sem bornar voru til hans í um það bil 3 ár.

  Menn eru búnir að væla í 4-5 ár að við getum ekki keypt hinn og þennan vegna þess að við erum ekki í CL, en um leið og við komumst í CL kaupum við ekki einn leikmann sem er í CL gæðum. Ef klúbburinn heldur sömu kaupstefnu og undanfarin ár áfram, þá getum við gleymt því að sjá liðið halda á stórum titli.

 23. Tel nokkuð öruggt að Sterling verði seldur í sumar. Hryllilegt að það sé ekki búið að klára þessi samningamál hjá honum og Henderson fyrir löngu síðan. Fari hann til Arsenal. Þá erum við að koma með risastóra yfirlýsingu um að við höfum hvorki getu, metnað né bolmagn til að synda í tjörninni með hákörlunum. Heldur kjosum frekar að vera stærsti fiskurinn í litlu tjörninni.

  Ég er ekki bjartsýnn á þessa uppbyggingarstefnu ef við missum menn um leið og þeir nálgast hátindinn á ferlinum. Hvað gerist með Ibe, Can, Markovic, Coutinho og fleiri þegar þeir verða fastamenn í landsliðum sínum og vilj stærri samning?

 24. plús það að þá er verið að auka tekjurnar töluvert hja þeim liðum sem ná CL sæti…þannig að ef við missum af CL sæti, þá gætum við verið að missa liðin fyrir ofan okkur LANGT framúr okkur og ef það er búið að vera erfitt fyrir okkur að kaupa topp leikmenn, þá er það ekki að fara að verða auðveldara ef við náum ekki CL sæti

 25. @21
  Bara svo það sé á hreinu þá á Sterling rúm 2 ár eftir af samninginum svo þetta er ekki sama ástæða og Gerrard hafði. Munurinn er sá að þá var Liverpool í 2. sæti deildarinnar á leiðinni í meistaradeildina, nú erum við í 5. sæti og óvíst með meistaradeildina. Það er ástæðan fyrir því að hann vill ekki semja núna en hefði samið ef honum hefi verið boðin samningur þá.
  Ef við náum ekki meistaradeildarsæti verður helvíti erfitt að halda honum, en ef við náum meistaradeildarsæti og jafnvel vinnum FA cup, þá trúi ég því að hann samþykki nýjan samning og verði áfram.

 26. Sammála nr 22. Þetta væri svo góður pakki og mikil styrking. Shneiderlin, Pjanic og Vietto. Sterling ekki vera heimskur.

 27. Sælir félagar

  Sterling virðist vera búinn að missa trúna á Liverpool tilveru sína. Það á því að selja hann fyrir stórfé og kaupa mann sem er orðin sú stjarna sem strákurinn heldur að hann sé. Menn sem ekki hafa trú á klúbbnum sínum eru einskis virði fyrir hann og eiga að fara burtu.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 28. Mjög furðulegt viðtal við sterling hann segir í viðtalinu eða hann vilji bara spila fótbolta og einbeita sér að því sem er mjög skiljanlegt en af hverju er hann þá í þessu viðtali. Algjör óþarfi hjá Sterling að gera þetta að enþá meiri fjölmiðlasirkus

Opinn þráður – Góðgerðarleikurinn

Sterling er ekki framtíð Liverpool