Liverpool og listin við að sigla í strand

Launakröfur. Samningar. Samningaviðræður. Samningstilboð. Sigla í strand. Viðræðum frestað. Þessi orð og setningar er eitthvað sem hefur birst í nær öllum fréttum tengdum ákveðnum hópi leikmanna Liverpool liðsins. Við höfum lesið þetta svo oft og svo lengi, eini munur á milli frétta eru nöfnin og tölurnar sem þarf að setja í eyðurnar.

“Samningaviðræður á milli Liverpool og _______________ virðast hafa siglt í strand eftir að launakröfur ___________ héldust ekki í hendur við samningstilboðið frá Liverpool og viðræðum hefur verið frestað þar til leiktíðinni lýkur.”

Geisp

Eftir frábæra leiktíð í fyrra heyrðist það fyrir lok þeirrar leiktíðar að margir leikmenn liðsins yrðu verðlaunaðir eftir frábærar frammistöður og framlag þeirra til liðsins í titilbaráttunni. Frábærar fréttir. Coutinho, Henderson, Sterling, Sturridge, Skrtel, Flanagan, Gerrard og fleiri voru allir á leið í samningaviðræður við félagið. Það var ekkert farið leynt með það. Ayre, Rodgers og jafnvel leikmenn sjálfir gáfu “hint” um það. Það hélt áfram inn í sumarið en ekkert virtist klárast.

Fyrsti lykilmaðurinn skrifaði undir samning í október þegar Daniel Sturridge gerði nýjan fimm ára samning við félagið og fékk myndarlega launahækkun frá félaginu enda hafði hann skorað mikið af mörkum frá því hann kom til félagsins. Fullkomlega verðskuldað og maður reiknaði með fleiri slíkum fréttum – og satt best að segja reiknaði maður með að á þessum tímapunkti hefði flest allt verið klárað.

Í ágúst í fyrra sagði Flanagan frá því að hann og Liverpool voru í viðræðum um samning sem myndi líklega klárast fljótlega. Mars árið 2015 er að klárast og enn er hann ekki búinn að skrifa undir nýjan samning og núverandi samningur hans rennur út í sumar.

Í upphafi árs komu fréttir sem líklega margir bjuggust aldrei við að sjá, Steven Gerrard var búinn að semja við annað félag. Herra Liverpool, Captain Fantastic, Stevie G eða hvað fólk við kalla hann var að fara. Ef það átti að vera auðvelt að semja við einhvern leikmann í liði Liverpool þá átti það að vera hann, ekki satt?

“If a contract had been put in front of me in preseason I would have signed it,” Gerrard told the Liverpool Echo. “I’d just retired from England to concentrate all my efforts on Liverpool. I didn’t want my club games to be tailored. My injury record had been fantastic for the past two and a half years and I had a great season from a personal point of view last season.”
He added: “It’s all ifs, buts and hindsight now. That period between the summer and the end of November gave me thinking time. There’s no blame and I’m not angry about it. There are other people in the squad and the club had other things to worry about. There is no finger pointing from me towards the manager or anyone else at the club.”

Liverpool dróg samningarviðræður sínar við Gerrard á langinn og endaði það með því að hann fékk tíma til að hugsa, skoða sín mál og tók ákvörðun um að best væri að fara á önnur mið. Hefja nýtt ævintýri einhvers staðar í nýju landi. Gott og vel en þetta fannst mér afar óheillandi punktur sem hann bendir á, Liverpool var á hælunum í þessum viðræðum og því fór sem fór.

Coutinho framlengdi sinn samning skömmu síðar eftir langar viðræður sem voru frábærar fréttir fyrir félagið. Sterling og Henderson, tveir af bestu leikmönnum liðsins á leiktíðinni, hafa verið “nálægt” samkomulagi í að því virðist tíu ár. Það eru augljóslega ekki tíu ár en hamingjan hjálpi mér þessar vikur og mánuðir líða þannig!

Samningaviðræður Liverpool og Glen Johnson eru í einhverju svakalegu haltu mér, slepptu mér sambandi og er afar ólíklegt að eitthvað verði úr þeim. Kolo Toure hefur verið boðin framlengin á sínum samning sem hann er að melta og Joe Allen og Jordon Ibe eru nú komnir á lista yfir þá sem eiga að fá nýjan samning. Guð má vita hvenær þau mál klárast!

Mig langar að fókusera aðeins á tvo leikmenn og þeirra mál. Mögulega tveir mikilvægustu samningarnir sem Liverpool þarf að gera á næstunni. Ef þið fylgist með boltanum í gegnum fréttir, leiki, spjallborð, kommentakerfi, Twitter eða hvað svo sem er þá eru tvö nöfn sem koma reglulega fyrir í þessum málum, Jordan Henderson og Raheem Sterling.

Raheem Sterling
Raheem Sterling hefur vaxið í að vera einn mikilvægasti og besti leikmaður Liverpool á undanförnum misserum. Hann er meira að segja talinn einn efnilegasti og besti ungi leikmaðurinn í boltanum í dag. Hvað hæfileika og heildarpakka jafnaldra hans varðar þá er kannski aðeins Paul Pogba sem stendur honum framar. Sterling er orðinn virkilega góður og hefur efniviðin til að verða alveg fáranlega góður. Liverpool er afar heppið að hafa hann í sínum röðum – það veit Sterling.

Frá hans sjónarhorni þá skil ég hann fullkomlega. Ég ætla ekki einu sinni að reyna að halda öðru fram. Hann er frábær leikmaður, er einn mikilvægasti leikmaður liðs síns, með bjarta framtíð og öll stórlið heims myndu vilja hafa hann í sínum röðum. Að sjálfsögðu vill hann fá laun í samræmi við allt þetta, hann gæti fengið það hjá öðrum félögum.

Hann horfir á marga leikmenn sem eru að afkasta svipuðu og hann sjálfur og eru í lykilhlutverkum hjá stórum félögum. Það er því kannski ekki óeðlilegt ef hann vill fá svipað og þeir eru að fá frá sínum félögum, hann getur meira að segja litið í kringum sig í klefanum á æfingasvæði Liverpool og horft á Sturridge með sín 150 þúsund pund á viku, Gerrard með 150-180 þúsund pund á viku, Johnson með sín 100+ þúsund pund á viku, Skrtel, Lucas, Lallana og fleiri einhvers staðar á 60-90 þúsund pund á viku. Hann er sjálfur á eitthvað í kringum 35 þúsund pundum á viku sem er bara klink miðað við framlag hans til liðsins á síðustu leiktíð og í ár.

Liverpool hefur boðið honum í kringum 100 þúsund pund á viku í nýjum samningi en talið er hann vilji fá hátt í 150 þúsund pund á viku. Þetta eru kræfar launakröfur frá svona ungum strák en ég skil það að hann vilji fá eitthvað í nánd við þessa tölu. Hann er góður núna og á næstu fimm árum verður hann líklega enn betri og 100 þúsund þá kannski of lítið miðað við möguleg gæði hans og framlag seinna meir.

Coutinho fékk launahækkun og framlengdi sinn samning fyrir skömmu síðan. Hann fór, miðað við það sem maður heyrir, ekki mikið hærra en í 75-90 þúsund pund á viku. Hvers vegna er hann tilbúinn að taka þessa tölu en ekki eitthvað í nánd við kröfurnar hans Sterling? Eru þeir svona ólíkir persónuleikar? Hefur uppeldi hans í Brasilíu gert hann þakklátari fyrir slík tækifæri og slíkan pening og er borgarbarnið Sterling (sem alltaf hefur verið yfirburða leikmaður í sínum aldursflokki) alltaf fengið hluti upp í hendurnar og er hreinlega bara ofdekraður og frekur? Kannski er umboðsmaður Coutinho meira með hagsmuni leikmannsins í huga en umboðsmaður Sterling hugsar meira um að fá sem hæsta prósentu úr hans samningamálum. Hver veit?

Sterling hefur vart misst úr leik yfir næstum eina og hálfa leiktíð. Einu leikirnir sem hann hefur misst af er vegna þess að hann var sendur í frí til að hvíla hann. Bikarleikir, deildarleikir, Evrópuleikir, landsleikir – alltaf, hann spilar alltaf. Hann er á tvítugsaldri en er búinn að spila 120 leiki fyrir Liverpool frá árinu 2012 en Glen Johnson hefur spilað 190 frá því árið 2009. Svona til samanburðar um það hve ótrúlega marga leiki hann hefur spilað á skömmum tíma.

Sterling er á klinki hjá Liverpool, hann hefur spilað frábærlega og skorað mikilvæg mörk yfir langan tíma. Liverpool skuldar Sterling smá að mér finnst og á að leggja smá á sig til að tryggja framtíð hans hjá félaginu.

Jordan Henderson

Ferill Jordan Henderson hefur ekki alltaf verið dans á rósum. Hann kom til félagsins fyrir mikla upphæð og gekk illa að finna taktinn. Kenny Dalglish hafði miklar mætur á stráknum og þó hann hafi spilað að miklu leiti á kantinum þá spilaði hann nokkuð mikið undir hans stjórn en Brendan Rodgers var ekki viss með hann í upphafi. Það átti að bjóða hann í skiptum fyrir Clint Dempsey frá Fulham en Henderson sýndi sterk karaktereinkenni, hann stappaði niður fæti sínum og gaf Liverpool hreint og skýrt NEI. Hann hafði ekki áhuga á að gefa upp gullið tækifæri hjá Liverpool og fara niður í meðalmennskuna í Fulham (sem fljótt breyttist í ströggl í 1.deildinni).

Henderson bretti upp á ermar sínar, beit á jaxlinn og gaf allt sem hann átti í það að láta feril sinn hjá Liverpool ganga upp. Eftir smá tíma varð Henderson orðinn lykilmaður í liði Brendan Rodgers og hlutverk hans var orðið stórt og mikilvægt í ólíkum hlutverkum í ólíkum leikkerfum.

Dugnaður, hlaupageta, barátta og liprir taktar í sóknarleiknum fóru að vera einkennismerki Henderson en á síðastliðnum mánuðum hefur hann sýnt fram á þá leiðtogahæfileika sem hann býr yfir. Það var nóg til þess að Rodgers gerði hann að varafyrirliða Liverpool og allt bendir til að hann muni taka alfarið við bandinu í sumar eftir að Gerrard hefur spilað sinn síðasta leik fyrir félagið.

Enn hefur ekki verið samið við Henderson og talið að hann vilji einnig fá aðeins meira fyrir sinn snúð en það sem Liverpool hefur boðið honum hingað til. Skiljanlega, þar sem allt bendir til að hann sé hinn næsti fyrirliði Liverpool þá er ekki ósanngjarnt að ætlast til þess að hann fái laun í samræmi við hlutverkið og pressuna sem því fylgir. Að mínu mati á fyrirliði Liverpool að vera einn af launahærri leikmönnum félagsins og því ekkert að því Henderson fari fram á að vera á meðal þeirra launahæstu í liðinu – ásamt því að framlag hans til liðsins frá upphafi síðustu leiktíðar verðskuldar kannski ögn hærri laun.

Ég er töluvert vissari með það að Henderson skrifi undir en Sterling ef út í það er farið en vonandi verða þeir báðir komnir með nýja samninga í hendurnar áður en ný leiktíð hefst í haust. Henderson er með samning til 2016 en Sterling til 2017 svo tíminn er orðinn frekar naumur.

Liverpool

Mikilvægasti hlekkurinn í þessu öllu saman er auðvitað vinnuveitandinn, Liverpool Football Club. Félagið, eigendur og stjórnendur þess hafa aldrei farið leynt með stefnu félagsins sem snýst um að fá jafnmikið eða meira fyrir það sem þú borgar. Value for money.

Við höfum horft upp á félagið ströggla í samningaviðræðum á milli félagsins og leikmanna og/eða annara félaga. Liverpool hefur ákveðið í huga, þú sem leikmaður ert bara X virði í þeirra augum. Það er oftar en ekki sanngjarnt mat en mat annara þarf ekki alltaf að haldast í hendur við þeirra. Liverpool metur leikmann á X, félagið sem á hann metur hann á X+5 því hann er mikilvægari fyrir þá en hann væri kannski fyrir Liverpool og þar eftir götunum.

Þarna hefur Liverpool strandað mjög oft og ekki oft sem maður hefur séð félagið tilbúið að kyngja stoltinu og láta undan kröfum þess sem situr hinu megin á borðinu. Oftar en ekki virðist félagið þá fremur snúa sér að öðrum kosti ef þeim finnst ólíklegt að komist verður að samkomulagi í nánd við þeirra kröfur, jafnvel þó þeir snúi sér að kosti sem gæti kostað meira en sá sem þeir skoðuðu áður.

Eina skiptið á undanförnum misserum sem manni finnst Liverpool hafa tekið extra skref í að verðmeta leikmann og hugsanlega brjóta sínar eigin reglur og gildi var þegar félagið “braut bankann” með því að gefa Luis Suarez samning upp á einhver 250 þúsund pund á viku eða eitthvað álíka. Þar sýndu þeir að þeir geta verið tilbúnir að eyða háum fjárhæðum í laun og kaupverð ef það skilar sér – og let’s face it, Luis Suarez var vel þetta virði fyrir félagið þegar hann var á mála hjá því.

Það er því spurning hvernig þeir vega og meta framlög og stöður leikmanna eins og Henderson og Sterling hjá félaginu. Það má vafalaust finna rök fyrir því af hálfu Liverpool að tvítugur Sterling hafi ekkert að gera með 150 þúsund pund á viku í dag en þeir séu til í að gefa honum þá upphæð eftir að hann hefur kannski náð meiri stöðugleika í sinn leik. Þeir séu þá líklega til í að gefa honum mjög góðan samning núna með möguleika á því að hann fái nýjan og betri samning seinna meir.

Stjórnendurnir og eigendur félagsins eru ekki týpurnar sem vilja láta umboðsmenn eða peningagráðuga einstaklinga spila með sig. Þeir stjórna leiknum, ekki umboðsmenn eða leikmenn og þeir hafa sýnt það áður með Liverpool og Boston Red Sox að þeir hika ekki við að taka stórar, umdeildar ákvarðanir ef einhver reynir að taka yfir þeirra leik.

Maður veit ómögulega hvað er satt í því sem maður heyrir og les á Twitter, spjallborðum eða í fréttaveitum en þær kenningar um að Liverpool hafi fyrst og fremst hugsað um að ná nýjum samning á Luis Suarez ganga nokkuð ágætlega upp. Bara til þess að losna við umrædda klásúlu eða að minnsta kosti hækka hana um helming og gera hann að feitari bita á markaðnum ef sú staða kæmi upp, ásamt því að verðlauna hann fyrir góða frammistöðu, er afar snjallt. Leikmaður með háa klásúlu, nýjan langtímasamning og í góðu formi er mikið feitari biti en leikmaður sem á lítið eftir af samningi sínum.

Ef Liverpool er að verða söluklúbbur áfram, það sem Arsenal hefur verið gagnrýnt mikið fyrir og Liverpool verið þvingað til að gera oft á undanförnum árum, þá myndi það vera afar vitur ákvörðun að gefa Sterling þennan langtíma samning þó hann væri á háu kaupi. Þó það væri bara til þess eins að hækka á honum verðmiðan ef það ætti að selja hann eftir einhvern tíma þegar félög eins og Real Madrid eða Barcelona gætu hafa stillt mið sín á hann sem sitt aðalskotmark. Ef hann heldur áfram að vaxa eins og hann hefur gert þá er bara tímaspursmál hvenær það gerist og líkurnar á því að hægt sé kreysta meira úr þeim félögum aukast ef leikmaðurinn er með háa klásúlu og/eða á langtíma samning.

Félagið vill kannski ekki gefa höggstað á sér með því að láta undan kröfum leikmanna og setja slæmt fordæmi. Ef þeir láta undan kröfum Sterling og Henderson gætu þeir lent í vandræðum seinna meir ef aðrir ungir leikmenn liðsins fara að spila vel og geta bent á þessi dæmi í þeirri von um að fá svæsnari launaseðla.

Þetta er nokkuð erfið staða fyrir Liverpool en fyrir okkur stuðningsmenn á lausnin að vera svo auðfundin, ekki satt? Á félagið bara ekki að borga þeim þessi laun, eða hvað?

14 Comments

 1. eitt sem ég skil ekki við þessa umræðu hvað er svona slæmt við að bíða eftir tímabilið til að klára þessi samningsmál það virðist vera að bæði leikmenninir og félagið virðast vilja bíða fram á sumar er þá ekki best að gera það þannig.

 2. Jan Martin það væri í raun ekki slæmt ef ekki væri fyrir þann punkt sem bent er á í upphafi pistilsins að þessar samningaviðræður byrjuðu fyrir svo löngu síðan og þá leit allt út fyrir þetta yrði bara drifið af.

 3. Oft hefur maður barið í borðið af pirringi þegar viðræður sigla í strand þegar er verið að kaupa leikmenn en FSG hafa sett stefnuna og reyna að halda henni.. no matter what.
  Getur ekki verið að hluti af því að vera ekki að semja við menn sem eiga nokkur ár eftir af samningi sé sparnaður hjá félaginu. Ef maður gefur sér að leikmaður sem er með 50.000 pund á viku og á t.d. tvö og hálft ár eftir að samningnum og vill meina að hann eigi að fá 100.000 pund á viku… ef félagið nær að draga undirskrift samnings í heilt ár hefur félagið sparað sér 2.6 milljónir punda. Veit ekki hvort þetta sé hugsað svona en þetta gæti verið hluti af útskýringunni.

 4. #4 Ágætis pæling.

  En kemur slík aðferðafræði ekki bara í hausinn á félaginu með tímanum?

  Menn á samning hjá liðinu sem búnir eru að taka byrjunarskrefin og finna að þeir eru aðeins byrjaðir að sanna sig, þeir láta ekki festa sig langt fram í tímann.

  Einnig myndi slíkt gera óleik þegar utanaðkomandi leikmenn bera saman framtíðarhorfur hjá Liverpool við önnur áhugasöm lið.

  Hætt er við að langtímaplön Rodgers yrðu í raun stutt.

 5. Já spurning sko… En hvenær á að endurnýja samninga við leikmenn… um leið og þeir fara að spila betur, sýna framfarir… á að miða við einhvern árafjölda? Semja við menn þegar þeir eiga 2 ár eftir af samningi eða? Á almennum vinnumarkaði er nú yfirleitt farið í samningaviðræður þegar núgildandi samningur er við það að renna út… og reyndar fulloft þegar samningur er runninn út og verkfallsaðgerðir hafnar.
  Mér finnst persónulega að leikmenn þurfi að vera búnir að sýna eitthvað og einhvern stöðugleika áður en farið er í að hækka menn í launum sem eru með langtíma samning en vilja hækkun. Þ.e. ef menn eiga 1-2 frábæra leiki en þess á milli prump þá finnst mér menn ekki verðskulda það að geta verið með frekju og óskað eftir hækkuðum launum.
  Ég kem ekki til með að gráta það að Johnson fari í sumar og vil frekar að samið verði við Flanno sem fellur mun betur að hugmyndum BR um ungt og hungrað lið.
  Ég treysti BR fullkomlega til að fá þá menn sem falla að hans hugsjón og því sem hann er að reyna að áorka.
  Varðandi lið Liverpool núna þá er hægt að segja að framtíðin sé björt og að við eigum ungt og efnilegt lið sem spilar skemmtilegan fótbolta og þó einhverjir fari að þá kemur alltaf maður í manns stað, því á leikdegi eru alltaf jafnmargir í hvoru liði við upphaf leiks. Þjálfarans er að stilla upp liði, skapa samkennd, liðsanda og búa til lið sem er tilbúið að fórna sér fyrir málstaðinn og okkur, stuðningsmenn LFC.
  YNWA

 6. Fyrr í vetur var klúbburinn til rannsóknar vegna mögulegs brots á Financial fair play reglum. Segir það okkur ekki eitthvað um getu hans til að kaupa leikmenn og borga laun??

 7. Það er náttúrlega ekki hægt að bera saman fótboltann saman við almennan vinnumarkað. Ég er ekki hrifinn af því að 20 ára strákur geti farið fram á þennan pening en að mínu mati er staða Sterlings bara ansi sterk. Hann veit vel að flestu stærstu lið Evrópu væru til í að fá hann og veita honum þessi laun.

  Ég sé hins vegar ekki hvernig það á að spara okkur pening, til lengri tíma, að halda honum ekki ánægðum og láta eftir þessum kröfum. Fyrir mér eru nokkrar aðstæður sem geta komið til:

  1. Ekki næst samkomulag og Sterling verður seldur á lítinn pening (miðað hvað hefði verið getað orðið).
  2. Samkomulag næst en Sterling verður samt seldur. Í þessu tilviki fengi hann ca. 50.000 pundum meira á viku í þann tíma sem hann væri enn hjá klúbbnum en hækkunin á söluverði ætti að vera mun meiri en þessi hækkun á launakostnaði.
  3. Sterling fær launin sem hann vill og verður áfram og verður frábær leikmaður.
  4. Sterling fær launin sem hann vill og nær aldrei að taka skrefið í að verða frábær leikmaður.

  OK, þetta coverar ekki alla möguleika en svona í grófum dráttum. Í þeim tilvikum þar sem Sterlign verður seldur geri ég ráð fyrir að það þyrfti að kaupa nýjan leikmann og það þarf ekkert að fara út í óvissuna sem fylgir kaupum á nýjum mönnum, fyrir utan það að peningurinn sem fengist fyrir Sterling færi allur (og líklega meira til) í að kaupa þennan nýja mann.

  En ef þessir möguleikar eru skoðaðir þá tapar Liverpool mest að mínu mati í útkomu 1, svo 4, svo 2 og loks 3. Ef þetta er skoðað svona þá finnst mér augljóst að Liverpool þarf að láta eftir þessum kröfum.

  Auðvitað væri besta útkoman ef hann myndi sætta sig við launin sem Liverpool býður og hann yrði svo heimsklassaleikmaður, en það er alltaf einhver áhætta sem þarf að taka og fyrir mér er ávinningurinn mun minni af því að reyna að halda launum hans í lágmarki heldur en það sem tapið af því gæti orðið (vona að þetta skiljist).

  Að lokum vil ég bæta við að ég óttast ekkert svakalega að missa Sterling (þó það væri ömurlegt að sjá hann verða heimsklassaleikmaður hjá Real Madrid eða eitthvað) en ég hef miklar áhyggjur af stefnunni hjá klúbbnum ef það kemur að því að hann fer.

 8. Mer finnst sterling alls ekki eiga skilið 150 þus pund og finnst hann i raun ekki ómissandi leikmaður eins og td suarez var og því segi eg bara að við seljum hann i sumar ef hann samþykkir ekki nýjan samning, fáum góðan pening fyrir hann og kaupum mann i staðinn sem virkilega vill spila fyrir okkur.

 9. Það er aðeins of mikil einföldun að Sterling vill 150 þús. og klúbburinn bjóði bara 100 þús. Hver er framtíðarstefna félagsins með leikmanninn? Hann er að spila sem vængbakvörður, er það komið til að vera? Er leikmaðurinn ánægður með það? Á Sturridge skilið 150 en Sterling 100…mér fyndist það ætti að vera öfugt. Á Sterling að samþykkja 100 sem er það sama og Balotelli sem er ekki að gera neitt. Þetta er flókið spil og hjálpar ekki að fólk er farið að gagnrýna hann fyrir að draga þetta á langinn.

 10. Skoraði eitt mark og lagði upp annað í gær, þetta er maður sem við megum ekki missa. Verðum að halda sama leikmannakjarna næstu tvö til þrjú árin og bæta við leikmönnum heldur en hitt og þá fer þetta að rúlla.

 11. finnst allveg vanta smá umræðu um charity leikinn sem er eftir annaðhvort klukkutíma eða 20 tíma ? getu einhver sagt mér klukkan hvað þessi leikur er og er hann ekki sýndur á lfc tv ?

 12. Svefnormur, leikurinn er klukkan þrjú í dag og er sýndur á LFC TV.
  Ég var einmitt að skoða það áðan og langaði að spyrja mér fróðari menn aðeins út í það.
  Þeir eru að selja 24 st. passa á LFC TV, sem gerir manni kleift að sjá leikinn en málið er að ég er upptekinn frá hádegi og frem eftir degi. Þannig að ég var að spá hvort einhver gæti sagt mér hvort það sé hægt að horfa eftirá á leikinn inn á síðunni?
  Veit einhver hvernig það virkar?

 13. ‘eg er áskrifandi að Lfctvgo en kemst ekkert inná þetta heilvíti? Þarf að borga aukalega eða?

Spion Kop

Opinn þráður – Góðgerðarleikurinn