Mánudagspælingar

Það er mánudagur, mér liggur á að losna við nýjustu leikskýrsluna efst á síðunni og það er langt síðan ég skrifaði síðast mánudagspælingar. Þannig að hér eru ýmsar skoðanir Kristjáns Atla, í engri sérstakri röð:

Steven George Gerrard

sgalone

Fyrir tæpum þremur mánuðum staðfesti Steven Gerrard að hann væri á förum frá Liverpool. Hann hefur verið allan sinn feril hjá Liverpool, síðan hann var krakki, og hluti af aðalliði félagsins síðan 1998 eða í sautján ár í sumar. Hann hefur verið fyrirliði liðsins síðan 2003, lengur en nokkur annar fyrirliði í sögu LFC. Hann hefur leikið 704 leiki fyrir félagið, í öllum stöðum, skorað í þeim 183 mörk og er svo mikilvægur að jafnvel í vetur, þegar hann er orðinn gamall og ekki lengur með fast sæti í liðinu og hefur verið meiddur undanfarið er hann samt markahæstur á tímabilinu.

Þetta er góður tími fyrir mig að koma Gerrard-hugleiðingum frá mér af því að hann skeit illa á sig í gær. Hann brást liðinu, Rodgers, stuðningsmönnunum, öllum. Hann átti að breyta ótrúlega mikilvægum leik gegn erkifjendunum á Anfield og hann gekk fram með allt of miklu offari og fékk reisupassann eftir 40 sekúndur. Ég hef aldrei verið jafn hissa og jafn vonsvikinn yfir einum leikmanni á minni ævi. Aldrei. Þetta var ömurlegt og hann er réttilega búinn að biðjast afsökunar.

Í fyrra átti hann annað slíkt dæmi sem við munum öll eftir, ekki síst af því að allir andstæðingar Liverpool syngja lag því til heiðurs. Hann öskraði “This does not slip!” eftir sigur á Man City og nokkrum dögum seinna rann hann og gaf Chelsea forskotið á Anfield, mark sem var lykillinn að því að langþráður deildartitillinn slapp honum úr greipum einu sinni enn. Það er í alvöru ekki hægt að skálda svona atvik.

Þessi tvö atvik hafa orðið til þess að ég hef séð menn reyna að tala um að Gerrard sé frábær en eigi erfitt með að klára dæmið. Sem er eitt það alvitlausasta sem ég man eftir að hafa lesið. Ég ætla að vona að menn erfi þessi tvö hörmungaratvik ekki við hann því þessi leikmaður, umfram aðra, á það skilið að vera minnst sem hetju í sögu félagsins.

Ég hef lengi ætlað að skrifa fallegan og mikinn pistil um Gerrard en hef átt erfitt með að byrja hann. Til að setja það í samhengi þá þjáist ég ekki af ritstíflu. Aldrei. Það hefur aldrei gerst að ég eigi erfitt með að koma orðum á blað þegar Kop.is er annars vegar. Samt hef ég setið með þennan pistil í “Drafts” í þrjá mánuði núna. Þannig að hér kemur hann, sem hluti af pælingum. Ég og Steven Gerrard erum báðir fæddir í maí 1980. Þegar ég var í öðrum flokki FH var ég að lesa um hann á netinu og þegar hann braust í aðallið Liverpool spilaði ég í fyrsta sinn æfingaleik með aðalliði FH. Þar skildu leiðir, ég hætti að æfa fótbolta sumarið 1999 (nokkuð sem ég sé ennþá eftir, fyrst ég komst ekki í FH-liðið átti ég að fara í neðri deildirnar í stað þess að hætta alveg en maður getur ekki alltaf verið gáfaður) á meðan Gerrard virtust engin bönd halda.

Ég er ekki týpan sem á mér uppáhaldsleikmenn. Ég held með Liverpool og FH, ekki leikmönnum liðanna. Samt hef ég gert undantekningu fyrir tvo menn á ævinni: Paolo Maldini, sem ég sem ungur bakvörður dýrkaði meira en allt og svo jafnaldrann minn, manninn sem ég hef getað átt hálfgerðan Liverpool-feril í gegnum. Hafið þið einhvern tímann lokað augunum og ímyndað ykkur að þið séuð einhver annar? Söngvari rokksveitar? Íþróttahetja? Geimfari? Þannig hafa síðustu 17 ár verið hjá mér og Gerrard. Þegar hann klíndi boltanum í netið á Anfield gegn United sem ungur maður fagnaði ég ekki heldur öskraði „minn maður!“ Ég gerði það sama þegar hann gerði það aftur í bikarúrslitaleik gegn United 2003, gegn Olympiakos 2004 og í úrslitum Meistaradeildarinnar. Þegar hann bjargaði bikarnum fyrir okkur gegn West Ham 2006 varð ég stoltur eins og hann væri bróðir minn, eða sonur.

Í stuttu máli sagt, þá hef ég átt óheilbrigt, einhliða samband við Steven Gerrard. Hann hefur ekki hugmynd um hver ég er. Hann skiptir mig öllu máli.

Mig grunar að það séu ansi mörg ykkar að kinka kolli núna, fast. Ég held að ég sé ekki sá eini sem hefur átt óheilbrigt samband við Steven Gerrard.

Allavega, ég þarf ekki að skrifa Babú-færslu um feril Gerrard. Við þekkjum þetta öll. Það sem einkennir hann, nú þegar maður lítur yfir ferilinn, eru nokkur atriði:

1: Hann hefur verið besti leikmaður liðsins síðan 2001 og alveg þar til í fyrra að Suarez/Sturridge tóku við keflinu, og jafnvel þá var hann ekki síður mikilvægur en þeir.
2: Hann er ótrúlega fjölhæfur leikmaður. Liverpool hefur aldrei átt svona góðan miðjumann, aldrei átt svona góða tíu, aldrei átt svona góðan kantmann, fáa jafngóða bakverði og svo framvegis.
3: Hann hefur skorað gríðarlega mikið af miðjumanni að vera. Hann fær ekki nóg kredit fyrir hvað hann skorar mikið.
4: Gerrard er hluti af deyjandi tegund: stórstjarnan sem (eins og Maldini) eyðir öllum ferlinum hjá uppeldisfélaginu. Jú, hann er á leið til Kaliforníu en það telur það enginn með. Hann er að hætta að spila Evrópubolta.
5: Hugsið um hinar hetjurnar sem hafa leikið allan ferilinn með uppeldisfélaginu; Maldini, Totti, Giggs, Terry o.sv.frv. Það sem gerir Gerrard EINSTAKAN er að hann hefur verið einn af 3-4 bestu leikmönnum Úrvalsdeildarinnar í fimmtán ár, einn af 3-4 bestu leikmönnum Evrópu í svona 5-6 ár um miðjan síðasta áratug og besti leikmaður Liverpool í a.m.k. 13 ár. En hann hefur aldrei leikið í besta liði Englands, ekki eitt tímabil, hvað þá besta liði Evrópu.

Hugsið aðeins um síðasta punktinn. Bestur í Liverpool. Bestur í Englandi. Einn besti í heimi. Aldrei í besta liði sinnar deildar. Aldrei. A-L-D-R-E-I.

Það gerir hann einstakan. Það hefur reynt á hollustu hans en hún brást aldrei og þessi hollusta sem hann hefur sýnt Liverpool er einstök. Maðurinn hefði getað pikkað upp símtólið og gengið til liðs við Real Madrid hvenær sem er og hann gerði það aldrei.

Hann er besti leikmaður í sögu Liverpool FC. Meira að segja King Kenny Dalglish segir svo. Ég hlusta á það álit, tek mark á því. Við munum aldrei eignast annan Steven Gerrard. Hefur hann gert mistök? Já, oft og iðulega. En prófið þið að bera einn stærsta knattspyrnuklúbb heims á bakinu í fimmtán ár og segið mér svo að það sé auðvelt að vera alltaf maðurinn sem er litið til, alltaf sá sem á að redda. Ég ætla ekki að hengja Steven Gerrard fyrir örfá mistök, ekki þegar ég get frekar þakkað honum fyrir tuttugufalt fleiri atvik þar sem hann steig upp og bjargaði málunum.

Við munum sakna hans þegar hann er farinn. Svo mörg voru þau orð.


Vindum okkur í aðra og styttri punkta:

Raheem Sterling

25385BEB00000578-2937645-image-a-21_1422960633330

Það er á leiðinni ítarlegri pistill frá okkur um launamál Raheem Sterling og ég ætla ekki að ræða þau náið hér en mig langar að benda á þrjú atriði sem ég hef sterka skoðun á í þessu máli:

1: Raheem Sterling er okkar besti sóknarmaður, sérstaklega á meðan Daniel Sturridge er ekki orðinn alveg eins og hann á að vera. Hann er markahæstur ásamt Gerrard í vetur, steig upp og leiddi sóknina frábærlega á erfiðum tíma í vetur og ætti að mínu mati alltaf að vera byrjunarliðsmaður sem framherji eða í holunni, eða í versta falli sem kantmaður þó ég sé ekki hrifinn af því. Af hverju er Brendan Rodgers þá að nota hann sem vængbakvörð? Hann er iðulega beðinn um að leysa tvær, jafnvel þrjár stöður í sama leik. Rodgers virðist líta á hann sem leikmann sem er svo fjölhæfur að hann getur notað hann þar sem hann þarfnast hans í hverjum leik, í stað þess að byggja upp lið í kringum hann. Ég vil sjá hið síðara gerast. Mér er sama hvar hann kemur honum fyrir, Sterling á að vera í sinni bestu stöðu (frammi eða í holu) þar sem hann getur valdið andstæðingunum sem mestum skaða. Er það tilviljun að leikform hans hefur dalað á vikunum eftir að Sturridge kom inn aftur og hirti framherjastöðuna af honum? Nei. Þú notar ekki Raheem Sterling sem vængbakvörð. Ef hann er sá eini sem þú átt þarna breytirðu kerfinu til að hann geti spilað sína stöðu.

2: Menn tala um að Sterling sé ungur og eigi ekki skilin 150 þúsund pund í vikulaun. Á móti bendi ég á að hann er (a) búinn að vera í aðalliðinu síðan hann var sautján, og því langt því frá að vera jafn mikill nýliði og tvítugir menn eru venjulega, (b) þegar búinn að spila 120 leiki fyrir liðið og skora 22 mörk, þar af 10 á þessari leiktíð. Hann er búinn að vera lykilmaður í tvö og hálft af þessum þremur tímabilum og hefur spilað lykilhlutverk á HM með Englandi. Og punktur (c): það eru lið þarna úti tilbúin að borga honum 150 þúsund pund í laun. Ef einhver vill borga honum þau laun þá á hann rétt á að krefjast þeirra hjá Liverpool. Þetta er lykilmaður liðsins, besti sóknarmaður okkar, fjölhæfur með eindæmum og kvartar aldrei þótt hann sé látinn spila erfiðar stöður. Svo er hann enskur landsliðsmaður. Borgið honum.

3: Sterling á rúm tvö ár eftir af samningi sínum, Jordan Henderson á rúmlega eitt. Henderson er varafyrirliði liðsins. Samt virðast stuðningsmenn hafa litla þolinmæði gagnvart Sterling, eins og hann sé frekja að semja ekki strax við félagið, á meðan ástarsambandið við Henderson blómstrar. Hvernig stendur á þessu? Hlustið á umræður The Anfield Wrap eftir United-leikinn í gær þar sem þeir pirra sig á þessu og allt að því saka áhorfendur á Anfield um rasisma í garð Sterling. Hvað annað gæti valdið þessu? Hvað sem það er, hættið þessu. Þið getið ekki dásamað Henderson sem er líka að berjast fyrir launahækkun (og á sama rétt á henni og Sterling að mínu mati) og um leið skammað Sterling fyrir óhollustu eða græðgi. Þetta bara gengur ekki upp. Ég vil sjá báða þessa leikmenn í Liverpool-treyju áfram. Borgið þeim.

Daniel Sturridge

Daniel Sturridge er ekki sami leikmaður og hann var. Hann vantar hraðann sem hann hafði í fyrra, snertingin er ekki eins mjúk og örugg og leikmennirnir í kringum hann eru ekki að finna hlaupin hans eins vel og áður, hvort sem það er þeim eða honum að kenna. Hann er hægt og rólega að spila sig í leikform og verður sennilega ekki sami leikmaður og hann var fyrr en eftir gott undirbúningstímabil í sumar.

Menn hafa verið að stinga upp á því að Sturridge eigi að víkja úr liðinu á meðan hann er ekki upp á sitt besta. Maðurinn er, þrátt fyrir lélegt leikform, búinn að skora 5 mörk í 11 deildarleikjum. Hann skoraði aftur í gær. Hvað græðum við á því að taka hann úr liðinu? Hver er betri framherji þarna úti? Sterling, kannski, og svo búið. Ég myndi vilja hafa Sturridge og Sterling saman í hverjum leik út þetta tímabil, saman í sókninni með Coutinho fyrir aftan sig. Þannig náum við mestu út úr þeim og Sturridge fær dýrmætan spilatíma. Hvað í ósköpunum græðum við með að setja Sturridge á bekkinn og neita honum um þann spilatíma sem hann þarf til að verða aftur sá sem hann var?

Leikmannakaup síðasta sumars eru búin að sanna sig og margir hverjir hafa slegið í gegn fyrir rest. Meira að segja Lovren virðist annar maður þegar hann hefur komið inn undanfarið. En það stendur samt eftir að við seldum Luis Suarez fyrir metupphæð og keyptum Rickie Lambert og Mario Balotelli í staðinn. Þess vegna hefur Sterling leikið frammi á köflum og þess vegna verðum við að nota Sturridge þótt hann skorti hraða og leikæfingu. Þetta vandamál verður vonandi lagað í sumar.

Ungt lið

Talandi um að laga vandamálin í sumar þá vil ég ekki sjá aðra byltingu eins og síðustu tvö ár, og þrjú sumur af síðustu fjórum. Ég hef þrátt fyrir tapið í gær tröllatrú á þessu liði og stjóranum. Það var ekki alltaf svo í vetur en þeir hafa unnið mig á sitt band. Ég sé hráan efnivið í stórkostlegt lið þarna, efnivið sem þarf tíma til að slípast saman.

Ég horfði í gær á heimildarmynd um Detroit Pistons-liðið í NBA sem vann titilinn tvisvar á árunum 1989-1990. Það lið er merkilegt ekki bara af því að þeir unnu titla heldur af því að þeir stöðvuðu Michael Jordan og Chicago Bulls í að vinna titil þar til ársins 1991 að engin bönd héldu Jordan lengur. Í heimildarmyndinni sagði Jordan um Pistons að ef Bulls hefðu ekki mætt þeim og lent á vegg í nokkur skipti hefðu þeir ekki lært þær lexíur sem þeir þurftu að læra, hefðu þeir ekki bætt sig eins og þeir þurftu að gera og hefðu þeir ekki orðið eins granítharðir og þeir þurftu að vera til að geta orðið það stórveldi sem þeir urðu. Þegar Bulls loksins komust framhjá Pistons stöðvaði þá enginn og þeir unnu sex titla á átta árum.

Mér varð hugsað til Liverpool-liðsins þegar ég horfði á þetta. Við erum með í höndunum gríðarlega efnilegt lið og ungan stjóra sem lærir við hver mistök sem hann gerir. Það er allt til staðar, þrátt fyrir að liðið komist líklega ekki í Meistaradeildarsæti þetta árið. Þetta lið á að geta verið ótrúlega gott á næstu árum.

Það sem við erum að horfa upp á er Detroit Pistons-tímabilið. Það eru ákveðnir hlutir í vegi Liverpool í dag. Mikil samkeppni um topp fjóra, snjallir stjórar eins og Mourinho og Van Gaal og lið eins og Chelsea og Arsenal sem við eigum erfitt með að standast snúning reglulega. Svona hlutir eru ekki bara svekkjandi í núinu, samt, því þetta eru líka hlutir sem munu berja Liverpool-liðið saman, herða leikmennina og vonandi knýja þá til að teygja sig enn hærra og verða enn betri. Og þegar þeir loksins ná framhjá þessum hindrunum er ég bjartsýnn á að við munum sjá eitthvað alveg magnað.

Framtíðin er björt. Semjið við Sterling og Henderson, gefið Sturridge spilatíma til að ná sér á strik á ný, kaupið góðan sóknarmann og kannski hægri bakvörð í sumar (brotthvarf Gerrard og Glen Johnson ætti að losa um launaþakið fyrir þetta allt saman) og þá erum við með ótrúlega gott lið í höndunum.

Mitt glas er hálffullt og vel það. Ég hlakka til að horfa á þetta Liverpool-lið þroskast áfram.

together

33 Comments

 1. Svo innilega sammála. Liðið þarf tíma til að spila sig saman, og læra af mistökunum. Í sumar á að rugga bátnum sem minnst, kaupa í mesta lagi 3 leikmenn, en það verða þá líka að vera gæðaleikmenn. Já og allt tal um að Brendan Rodgers eigi að víkja er auðvitað bara bull. Sérstaklega eftir fyrsta tapleikinn í deildinni á árinu 2015, og mars er að verða búinn.

 2. Takk, Kristján, fyrir góðan pistil. Glasið mitt var tómt þangað til ég las hann. Þú bjargaðir heilsunni í dag og sennilega út vikuna.

 3. Ég vil 4 leikmenn inn í sumar.

  Markmann: Þó Mignolet sé að stíga upp núna þá þurfum við háklassa markmann. Á meðan Mignolet er jafn lélegur á boltann og hann er í dag verður hann aldrei sá markvörður.

  Miðjumann: Þó Joe Allen sé að standa sig ágætlega núna þá vil ég fá “alvöru” mann með Henderson. Ég vil mann sem getur setið og varist vel, ásamt því að vera góður sendingamaður. Xabi og Masch saman í einum leikmanni væri draumur.

  Framherji: Borini og Lambert fara báðir, Balotelli jafnvel líka. Sagan segir okkur að við getum ekki treyst á að Sturridge haldist heill heilt tímabil. Origi verður góð viðbót en hann er samt bara 19 ára. Okkur vantar einn klassa framherja.

  Hægri bakvörður: Ég hef ekki trú á að þetta 3-4-2-1 kerfi sé komið til að vera. Nú þegar Glen Johnson fer og Javier Manquillo hefur ekki alveg heillað þá vantar okkur alvöru hægri bakvörð. Þó Flanagan sé góður kostur þá sé ég hann ekki sem okkar aðal bakvörð. Hann gæti þó vissulega verið fyrsta back-up báðum megin, sem vinstri- og hægri bakvörður og þannig spilað líklega 20+ leiki á tímabili.

 4. Þetta er auðvitað mjög ungt lið og það er virkilega spennandi en ég vil samt sem áður fá alöru kanónur í sumar. Þó það væri ekki nema 2 alvöru leikmenn.

  Aftur á móti í sölu þá mega þessir fara mín vegna.

  1. Brad Jones. Alls ekki nægilega góður fyrir liðið okkar.
  2. Glen Johnson. Klárt mál að hann er að fara frítt.
  3. Steven Gerrard Hann er auðvitað að fara og þarf virkilega sterkan mann í staðinn.
  4. Jose Enrique. Einfaldlega of lítill fyrir þetta lið.
  5. Rickie Lambert. Draumadagar hans hjá liðinu eru að líða undir lok.
  6. Fabio Borini. Hefur einfaldlega ekkert fram að færa.
  7. Mario Balotelli Spurning með hann, væri til í að gefa honum séns áfram en á ekki von á því að svo verði.

  Af þessum lista eru ekki nema 2 leikmenn sem eru að spila með liðinu af einhverju viti og gera lítið annað en að æfa með liðinu, taka fyrir það laun og hafa ekkert fram að færa.

  Kaupa lítið inn en samt menn sem hafa sannað sig hjá alvöru liðum og styrkja liðið til muna.

  Svo er auðvitað algjört lykilatriði og það er að klára þessa samninga við Hendo og Sterling, annað er gjörsamlega galið, sérstaklega í ljósi þess að City menn verða að kaupa inn Enska leikmenn í sumar og þeir munu klárlega hringja í Liverpool með tilboð tilbúið í faxtækinu.

  Frábær pistlill hjá þér b.t.w

 5. Reyndar spilaði Terry leiki sem lánsmaður hjá Nottingham Forest. Stóðst ekki mátið enda hefur hann alltaf farið í taugarnar á mér og fleirum. Á það líka alveg skilið.

  Hinsvegar skil ég ekki vandamálið með að gefa Henderson og Sterling launin sem þeir biðja um. Við erum með haug af mönnum, á bekknum eða í láni annarstaðar sem við getum losað okkur við af launaskrá. Auk þess sem Gerrard, Johnson, Enrique og fleiri eru að fara í sumar.

  Vil losna við alla þessa orðróma um að City ætli að bjóða í þá í sumar. Afhverju ættu þeir ekki að fara þangað, fá þann pening sem þeir vilja og vinna titla? Þetta eru fáránlega heimskuleg vinnubrögð að hálfu klúbbsins.

  Að missa Sterling í sumar yrðu enn ein vonbrigðin. Þú ferð ekki alla leið með uppbyggingarferlið ef þú missir þinn besta mann á hverju ári. Nema þú viljir vera í eyðimerkurgöngu samanber Arsenal ár eftir ár.

  Það er kominn tími á að klára þetta uppbyggingarferli sem er í gangi. Ég sé þennan hóp berjast um titilinn eftir c.a. tvö ár ef við höldum öllum.

 6. Ætla að vera ósammála Kristjáni um að klúbburinn eigi að borga Sterling þessi laun. Akkúrat þetta vandamál er búið að grassera í PL í mörg ár, ungir leikmenn fá alltof há laun og þar af leiðandi missa þeir hvatann. Þetta er ein af þeim ástæðum af hverju enska deildin framleiðir alltof fáa leikmenn miðað við t.d. þá þýsku og spænsku. Ég er algjörlega sammála Rodgers þegar það kemur að þessum málum.

  (Rodgers warned that young British players are failing to fulfil their potential because their huge salaries cause them to lose their hunger for success in football. He said: “It’s a big problem with British players. Why? Because the reward is no longer there, they lose their hunger. Young players driving about, I say driving about, they buy a new Range Rover Sports before they have even got their driving licence.”)

  Fyrir mér er rugl að setja svona ungan leikmann á svipuð laun og hjá klassa/heimsklassa leikmanni sem skilar meira inn á vellinum. Er virkilega ánægður með að klúbburinn sé ekki að láta draga sig svona á asnaeyrunum. Eins og staðan er í dag að þá er Sterling ekkert annað en góður leikmaður og við vitum auðvitað ekkert hvort hann eigi eftir að yfirstíga þann þröskuld þrátt ég voni það svo innilega.

  Það sem fer mest í mig er að Liverpool virðist tímabil eftir tímabil vera á byrjunarreit og byrja upp á nýtt. Eftir hvert tímabil er sagt að við séum með ungt lið og liðið þurfi 2-3 ár til að þroskast.

  Annars virkilega flottur pistill.

 7. Takk fyrir pistilinn þetta er það eina sem ég hef lesið um fótbolta í dag. Gat bara ekki hugsað mér að fara í gegnum all hitt bara til að endurupplifa þennan hræðilega leik.

  Ég er sammála þér með SCS og vona að við fáum þá frammi á móti Arsenal. Vil líka sjá 4-3-3 á móti Arsenal með Lucas, Henderson og Allen/Can á miðjunni.

 8. Mikið er ég innilega sammála þér Kristján og TAW varðandi Sterling ( og Henderson) launamálin. Við þurfum að borga. Meðan launamál þessara leikmanna hangir á bláþræði hangir framtíð þessa efnilega Liverpool-liðs á bláþræði.

  Sterling mun vera eftirsóttur í sumar. Það er ekkert mál að finna tekníska og fljóta 20 ára stráka. En bendið mér á 20 ára teknískan og fljótan strák með leikskilning og þroska til að spila þrjár mismunandi stöður í hverju leik – og kvartar ekki- sem lætur sparka í sig í hverjum einasta leik – og kvartar ekki, með yfir 120 leiki á hæsta leveli – lykilmaður í meistaradeildarliði og landsliði. Raheem Sterling er enginn Michael Owen eða Richie Partridge. Sá leikskilningur sem Raheem Sterling er kominn með 20 ára gamall bendir sterklega til kynna að þarna sé á ferð leikmaður sem mun endast á hæsta leveli löngu eftir að hraðinn verður horfinn úr löppunum á honum. Að því leytinu til minnir hann mig á John Barnes eða Ryan Giggs. Þessi strákur er frábær fótboltamaður – hugsanlega mikilvægasti maður liðsins á þessu tímabili – fyrir það eitt á hann skilið 150þúsund kall í laun. En hann hefur potential í að vera ómetanlegur. Borgið honum, borgið! Haldið þið að Jose Mourinho hafi ekki áhuga á vinna með jafn ungum, hæfileikaríkum og fjölhæfum leikmanni og Raheem Sterling er?

  Jordan Henderson. Þrátt fyrir aðdáun Liverpool-stuðningsmanna á Jordan Henderson þá er gegnumgandi vanmat á þessu leikmanni hjá aðdáendum Liverpool. Í podköstum og Liverpool-síðum hér (Anfield Index og The Anfield Wrap) hefur maður heyrt að Jordan Henderson sé vissulega frábær og mikilvægur fyrir okkur – en að hann myndi aldrei komast í Man. City eða Chelsea. Þvílík helber vitleysa.

  Jordan Henderson er sú týpa af leikmanni sem getur límt saman stjörnumprýddan hóp stórliða. Þú getur keypt stærstu stjörnur veraldar en þú þarft samt að hafa einn Jordan Henderson í liðinu. Fyrirliða, heimamann – baráttuhund, hlaupara. Liðsmann sem er tilbúinn til að vinna skítverkin. Skoðum aðeins Man City. Túrbókrafturinn og hlauparinn á miðjunni Yaya Touré er orðinn gamall og þarfnast endurnýjunar. Frank Lampard er að fara til baka til New York. Fyrirliðinn þeirra, Vincent Kompany hefur ekki getað neitt í fótbolta um langa hríð og sjálfstraust hans er farið. Auk þess hefur liðið í heild sinni sýnt þess merki að það skorti ákveðin karakter þegar á móti blæs. Í öllu falli vantar þeim túrbókanínu á miðjuna, hlaupara, baráttuhund, liðsmann og leiðtoga. Þeir gætu vissulega keypt Paul Pogba – en hann verður hvort eðer farinn til Real eða Barca eftir nokkur ár. Í Jordan Henderson væru þeir komnir með framtíðarleiðtoga. Fyrirliða til næstu ára. Lykilmann í einu besta liði Englands, lykilmann í landsliði sem á aðeins eitt ár eftir á samningi. Reynið að segja mér að Manchester City séu ekki fullkomlega meðvitað um stöðuna á Jordan Henderson og séu byrjaðir að undirbúa tilboð sem Liverpool gæti aldrei jafnað?

  Og þá erum við kominn að næsta punkti. Stjóranum. Brendan Rodgers hefur unnið frábært starf með Liverpool. Vissulega gert sín mistök. Á sín pirrandi móment. Talar stundum of mikið, o.s.fr. En hann hefur náð frábærum árangri, byggt upp eitt frábært lið og annað ótrúlega efnilegt. Hefur byggt upp heilan her af þrælefnilegum leikmönnum sem á góða möguleika á að berjast um titla á næstu árum án þess að hafa kostað mikið.

  Og eigum við bara að búast við að hann verði stilltur og þægur og haldi áfram að vinna vinnuna sína ef besti leikmaðurinn hans (Raheem) og leiðtoginn (Jordan) verða seldir burtu því klúbburinn týmdi ekki að borga þeim samkeppnishæf laun? Haldið þið virkilega að Brendan Rodgers muni hafa þolinmæði í að bíða eftir að Jordon Ibe verði kominn á þann stað sem Sterling er núna, Ojo á þann stað sem Ibe er á núna og Emre Can verði búinn að stimpla sig inn sem áreiðanlegur leiðtogi svo við gætum kannski hugsanlega í besta falli aftur átt möguleika á árangri eftir tvö eða þrjú ár?

  Haldið þið að það myndi ekki freista hans frekar að halda áfram því starfi sem hann hefur unnið að seinustu tvö með Jordan Henderson, Raheem Sterling og böns of monní heldur en að byrja upp á nýtt hjá Liverpool án Jordan Henderson, Raheem Sterling og án böns of monní?

  Hvað haldið þið?

  FSG hefur unnið gott starf. Brendan hefur unnið gott starf. Framtíð klúbbsins hefur ekki litið betur út í áraraðir, en andskotinn það má lítið útaf bregða án þess allt fari í fokk.

 9. Frábær pistill og sammála öllu.

  Mögulega eru samningsmálin að trufla Sterling – ekki hjálpar að hann sé spilaður sem wing-back?! Það eina sem dugar er að taka upp veskið og borga.. City, Chelsea, United og hugsanlega Arsenal myndu vera tilbúin að nappa honum og borga þessa uppæð og betur til.

 10. Mikið er ég sammála þessum pistli. Eins og ég skrifaði í athugasemd við leikskýrsluna þá sárnar manni gráglettni örlaganna að einmitt þessi meistari Gerrard skuli lenda í öðru eins og í fyrra og núna aftur þegar hann er að kveðja félagið sitt.

  En kannski endar þetta vel og téður Gerrard endi ferilinn með því að bjarga 4 sætinu? Hann nær 6 síðustu leikjunum og ég veðja á að einbeitingin verði 100% hjá þessum frábæra leikmanni.

  Ég vil einnig taka undir að 150þ á viku er ekkert til að væla yfir þegar að einn efnilegasti leikmaður heims á í hlut. Pay peanuts get monkeys á hvergi betur við en í fótboltanum..

 11. Langar að deila einu með ykkur.

  Af einhverjum ástæðum þá er ég hættur að kippa mér upp við það þegar Liverpool tapar svona stórum og mikilvægum leikjum og hef verið að velta fyrir mér ástæðunni fyrir því.

  Hef grun um að ástæðan sé (þó það sé vont að segja það) að hausinn á mér sé búinn að sætta sig við að Liverpool,liðið sem ég er búinn að halda með,elska og styðja í gegnum súrt og sætt síðustu 45 ár, sé bara orðinn miðlungsklúbbur sem getur á góðu sísoni komist í riðlakeppni meistaradeildarinnar án þess þó að gera nokkrar rósir þar en er að mestu leyti að berjast um 5-8 sæti í deildinni og einstaka bikarúrslit kanski.

  En eins og ég segi þá finnst mér ekki gott ef ég (og kanski margir fleiri) eru búnir að sætta sig við að halda með einhverjum meðalklúbbi og þess vegna er orðið algjörlega bráðnauðsynlegt að fara að gera atlögu að titlum aftur áður en fleiri verða komnir í mín spor.

  Með Liverpool kveðju

  YNWA

 12. Kristján Atli, svakalegur pistill og orð í tíma töluð, takk fyrir mig!

  Babú, það sem þú taldir vera þrætur í umræðunni í gær varðandi Balo og Lawro, tel ég vera blásaklaus skoðanaskipti okkar á milli. Ég þræti bara við konuna ef svo ber undir.

  Takk báðir tveir og aðrir síðuhaldarar. YNWA

 13. Mæl þú manna heilastur Kristján Atli.
  Frábær pistill og þau komment sem fylgja.

 14. Nr. 10 Djonnson

  Kannast við tilfinninguna eftir stanslausa sigurgöngu fyrir og eftir árið sem Kristján Atli fæddist. :O)

  Verð þó að játa að ég sætti mig aldrei við tap fyrir MU eða Everton, það mun fylgja mér til dauðadags. Vona þó að við sláum MU út með fjölda Englandsmeistaratitla áður en sá dagur kemur!

 15. Já daginn eftir er þetta súr staða fyrir Slippy G.

  Hann var kóngurinn, drottninginn og gosinn á Anfield, liðið var smíðað utanum hann o.s.frv. Núna er hann sub. Hann hefur ekki lappirnar í þetta lengur eins og var, hann hentar ekki á þessu stigi ferilsins í kerfi Rodgers, það er gert grín að honum á öllum útivöllum og svo þegar kemur að “lokaleiknum” við Scum United, þá fær hann ekki að byrja.
  Uss hvað hann hefur ætlað koma fast inn og stimpla sig inn í leikinn.
  En …. nappaður í nammibúðinni gæskurinn og gone in 60 seconds.

  Fyrir mér er hann Legend og verður alltaf legend. Ég fyrirgef honum þetta alltaf, kannski sárt svona rétt á meðan því stendur en boy ó boy hvað hann á mörg móment í mínum 38 ára ferli sem LFC aðdáandi. Istanbul, Markið á móti Olympiakos, markið á móti West Ham í úrslitaleiknum o.s.frv…..

  Glasið mitt er búið að vera hálffullt í allan vetur og mjög sáttur með allt sem er í gangi. Eina sem er súrt er að það er brekka upp í 4 sætið sem við viljum a.m.k. vera. En vona að við getum snúið þessu okkur í skaut, við getum alveg unnið Arsenal og Chelsea. Koma svo drengir.

 16. Flottur pistill og góðar pælingar.

  Hef s.s. ekki miklu við að bæta nema það að auka 25.000 pund á viku eru 1,3 milljónir punda á ári (millivegurinn m.v hvað blöðin segja) og auka 50.000 pund á viku fyrir efnilegasta leikmann EU eru 2,6 milljónir punda á ári. Sem er svona rétt rúmlega eitt stk Illori, Aspas eða Alberto út samningstímann.

  Hvað færu mörg pund í kaupverð og launagreiðslur í trial and error við að finna leikmann í stað hans? Hvað ætli mörg pund séu búin að fara í kaup og laun á sóknarmönnum síðan Suarez fór? Pundið ekkert sérstaklega vel ávaxtað þar, ef við skoðum framlag og markaðsvirði þessara leikmanna í dag.

  Ef Liverpool ætlar að gera sig út fyrir það að kaupa bara efnilega leikmenn og (reyna) móta þá í alvöru leikmenn – en vill samt ekki borga þeim sömu laun og þeir myndu fá annars staðar þegar þeir verða lykilmenn í liðinu þá er þessi stefna meingölluð.

  Hvort sem mönnum líkar það betur eða verr, þá er okkar ástkæra íþrótt svona í dag. Ef þú ætlar að vera með og leika með stóru strákunum þá kostar það pening, og það frekar mikið af honum. Eflaust er hellings rómantík í því að fara aðra leið, vera klúbburinn sem rís gegn þessari peningageðveiki sem að fótboltinn er orðinn, en hún er ekki vænleg til árangurs.

  Hlutfall launa vs tekna hefur verið nokkuð stabíll (utan Olíu félaga, augljóslega) síðustu ár. Er það ekki bara eðlilegt að starfsmenn njóti aukna tekna og vinsælda fyrirtækisins? Þetta eru ekki bara leikmennirnir og umbarnir sem er um að kenna, þetta er kakan sem er alltaf að stækka. Ósýnilega hendin og allt það….

 17. Góðan daginn Liverpool menn,
  Ég vil taka það strax fram að ég er grjótharður manutd maður og hef verið í áratugi. Ég ætla ekki að tala um leikinn í gær heldur um Steven Gerrard. Hér á árum áður tók maður oft á tíðum þátt í hatri united manna á Liverpool en það breyttist allt saman hjá mér 16.maí 2001. Mér var boðið til Dortmund til þess að sjá úrslitaleik UEFA Cup á milli Liverpool og Alavés og satt að segja var ég ekkert sérstaklega spenntur svona fyrirfram en það sem gerðist var ólýsanlegt ! Stemmningin var einstök,leikurinn var á pari við þá bestu og kornungur leikmaður stal algjörlega senunni og maður fann á sér að ný stjarna var fædd í knattspyrnuheiminum, já þetta var Steven Gerrard. Auðvitað gat maður ekki annað en samglaðst þeim Liverpool mönnum sem voru með í för en ég notaði líka tækifærið og stríddi þeim með því að þessi ungi leikmaður yrði nú ekki lengi hjá Liverpool, Real Madrid eða einhver annar risaklúbbur myndi stela honum innan skamms. 2015 er hann ennþá að spila fyrir uppeldisfélagið og er einn af þeim leikmönnum sem ég ber mesta virðingu fyrir og það fer óendanlega í taugarnar á mér þegar united menn og aðrir keppast við að níða af honum skóinn og ég nota öll tækifæri sem bjóðast til að verja heiður þessa mikla snillings ! Gangi ykkur vel.

 18. Tek fram í upphafi að ég tjái mig sem stuðningsmaður Man.Utd.

  Varðandi leikinn í gær vil ég taka eftirtalin tvö atriði fram:

  1. Ég var himinlifandi með byrjunarlið Liverpool í leiknum. Þá er ég að tala um að Steven Gerrard var á bekknum og (ekki síður) að Raheem Sterling var ekki spilað framarlega á vellinum þar sem hann mun alltaf valda andstæðingnum vandræðum. Þetta voru mistök af hálfu BR.

  2. Leikir þessara liða eru alltaf magnaðir. Það sem ræður venjulega úrslitum er hvaða lið mætir grimmara og ákveðnar til leiks. Í þessum leik var það Man.Utd sem mættu ákveðnari til leiks og tóku eiginlega strax öll völd á vellinum. Þess vegna unnu þeir leikinn.

  Annars góður pistill hjá Kristjáni og ég er algjörlega sammála með launamálin. Sama hversu fáránlegt okkur áhorfendum þykir þetta þá er þetta bara veruleikinn í boltanum. Það þarf að borga bestu leikmönnunum samkeppnishæf laun, annars er voðinn vís. Og þá skiptir litlu sem engu máli hversu gamall leikmaðurinn er. Staðreyndin er sú að Sterling er algjör lykilmaður hjá ykkur og hann á þá að fá borgað sem slíkur.

 19. Mér finnst við alltof slappir á miðjunni, meira kjöt og stál. Meiri greddu og ákefð. Fá inn algjör naut í sumar á miðjuna, annars finnst mér við vera með flottann hóp. Hef aldrei fundist Sterling vera góðann eins og flestir vilja meina, það bara vantar mikið. fá 50- 70 kúlur í sumar fyrir hann. Allen, Lucas,Balotelli og nokkrir enn mega fara og inn koma alvöru menn….

 20. Steven Gerrard er besti leikmaðurinn í sögu Liverpool. “Fact” eins og Rafa myndi segja. Hann á allt hrós skilið fyrir frammistöðu sína með Liverpool öll þessi ár og þá ómetanlegu hollustu sem hann hefur sýnt klúbbnum og líklega meira til. Ég hef sjálfur staðið mig að því að halda jú vissulega með Liverpool en halda meira upp á Gerrard en aðra leikmenn alveg eins og Kristján Atli lýsir. Svekkelsi síðasta tímabils varð enn meira vegna þess hversu mikið ég vildi að Steven Gerrard myndi loksins, loksins vinna deildina. Hann átti það svo innilega skilið. Við munum sakna hans þegar hann er farinn, það er alveg klárt mál.

  En lofræður um feril Steven Gerrard, sem hann á svo sannarlega skilið að fá, finnst mér að megi bíða þangað til tímabilinu er lokið. Hann er nefnilega hvorki hættur né farinn. Frammistaða hans í gær var kannski ekki ástæðan fyrir tapi Liverpool enda liðið búið að vera grútlélegt og sundurspilað í fyrri hálfleik. En hann slátraði möguleika liðsins á að ná einhverju úr þessum leik með heimskulegri framkomu sinni. Frammistaða hans í gær hefur nákvæmlega ekkert að segja varðandi goðsögnina sem hann er, hefur ekkert að gera með Istanbul 2005, Wembley 2006 eða Olympiakos 2004. Sá leikmaður, fyrirliði og reynslubolti sem hann er á ekki að haga sér svona og fyrir það má gagnrýna hann harkalega enda er þá verið að gagnrýna hann fyrir frammistöðu í þessum einstaka leik en ekki leggja allan ferilinn undir. Það er algjör óþarfi að rifja upp afrekaskrá Gerrard eins og til að breiða yfir skít gærdagsins. Hann brást illilega í gær en það er búið og skiptir engu í hinu stóra samhengi áranna 1998-2015.

  Hvað varðar Sterling þá er hægt að berja hausnum við steininn varðandi launakjör fótboltamanna. Við vitum öll að þessir menn gætu verið með 50% lægri laun og samt haft það “bærilegt”. En svona er raunveruleikinn. Það væri stórslys að missa Sterling af því að Liverpool gæti ekki borgað honum samkeppnishæf laun. Ekki virðist liðið ætla að geta boðið honum Meistaradeildarfótbolta eða baráttu um enska meistaratitilinn, allavega ekki í augnablikinu. Það að klára samningaviðræður við Sterling og Henderson hlýtur að vera forgangsmál á Anfield af því að annars eru menn ekki að vinna vinnuna sína.

  Við þurfum að sjá áframhaldandi stöðugleika á Anfield. Til lengri tíma hlýtur það að skila meiri árangri. Meistaradeild eða ekki á næsta tímabili breytir engu um að ég er hrikalega spenntur fyrir næsta tímabili. Kynslóðaskiptin eru að klárast, kjarninn ætti að halda sér og vonandi ber okkur gæfa til að styrkja byrjunarliðið og þ.a.l. hópinn með skynsamlegum kaupum. Þá eru okkur allir vegir færir.

 21. Flottur pistill KAR og góðar umræður. Tek undir með mörgum en þó hvað mest með því sem Kristinn segir um Henderson, hann er ennþá vanmetinn leikmaður innan sem utan raða Liverpool.

  Framtíðina án Steven Gerrard óttast ég ekki og tíminn er réttur hjá honum að segja þetta gott. Það er ekki eins mikið mál að finna mann í stað Gerrard 35 ára og það væri t.a.m. með Gerrard 32 ára. Hann hefur tapað miklu af því sem skapaði goðsögnina og þetta tímabil hefur á köflum verið vont á að horfa. Utan vallar skilur hann auðvitað eftir sig stórt skarð en ég er ekki viss um að það sé endilega slæmt að hann gefi öðrum alveg eftir sviðið. Sérstaklega ekki þegar hann vill ekki vera aukaleikari eins og t.d. félagar hans í öðrum liðum hafa gert í lok síns ferils. Hann gæti nýst Liverpool eins og Lampard, Giggs og Scholes hafa gert sínum liðum en það er betra að hann fari alveg og gefi ungum mönnum svigrúm til að taka við í stað þess að vera áfram og ósáttur við sitt hlutskipti. Gerrard er sá maður á þessari öld hjá Liverpool sem kemst næst því að vera stærri en félagið og það er ekkert alltaf jákvætt, sérstaklega ekki þegar framlagið er ekki í takti við það innan vallar. Atvikið gegn Chelsea í fyrra og eitt skitið rautt spjald gegn United breyta engu um stöðu Gerrard meðal stuðningsmanna Liverpool, hvorki nú né til framtíðar.

  Núna er komið að næstu kynslóð að stíga upp og við eigum meira en nógu góðan efnivið, kannski hrynur þetta allt er Gerrard fer úr klefanum en ég leyfi mér að efast stórlega um það enda er það jú alltaf Rodgers sem stjórnar hjá félaginu og félög taka sjaldnast framförum á því að hanga of lengi á gömlu goðsögnunum. Mögulega hjálpar það Rodgers að Gerrard fari, hver veit? Það er ekkert endilega gott fyrir ungan stjóra að koma inn í félag með risa karaktera eins og Carragher og Gerrard í leikmannahópnum. Rodgers hefur reyndar unnið vel með báðum og gagnkvæm virðing er mikil en án Gerrard er engin í leikmannahópnum sem Rodgers þarf að tipla á tánum í kringum (ekki endilega að hann hafi verið að því).

  Owen var nýlega knattspyrnumaður Evrópu á besta aldri stuttu áður er hann fór árið 2004, Liverpool vann Meistaradeildina næsta tímabil á eftir. Carragher var talinn stærri karakter í klefanum en Gerrard, Liverpool var hársbreidd frá því að vinna deildina eftir að hann hætti. Ég er ekki að gera lítið úr þeim en það kemur maður í manns stað og í hruninu var Liverpool ekki nógu duglegt að endurnýja sína bestu menn með alvöru gæðum.

  Það sem ég hef áhyggjur af til framtíðar er að halda þeim leikmönnum sem við eigum nú þegar og stjóranum. Samningamál Henderson og Sterling gætu svei mér þá haft áhrif á áhuga manns á fótbolta til framtíðar, eða mig langar að trúa því. Þetta er samt tvíeggja sverð, Liverpool hefur samið við leikmenn til margra ára á allt of háum launum og stórséð eftir því. Kveðjugjöf Hicks og Gillett var hópur miðlungsleikmanna á löngum samningum á Meistaradeildarlaunum sem erfitt reyndist að losna við. Johnson og Enrique eru ennþá hjá Liverpool út á “of” góða og langa samninga. Hvaða hafa margir farið undanfarin ár sem hægt er að segja það sama um? Gerrard er ekki í þessum hópi en hann skilur eftir stórt pláss á launaseðlinum og hans tilviki sýndi FSG að það er sama hver á í hlut þegar kemur að samningsviðræðum, þeirra stefna er skýr.

  Hinsvegar skil ég ekki stefnu Liverpool ef ekki tekst að halda þeim leikmönnum sem springa út hjá félaginu og festa sig í sessi sem lykilmenn. Jordan Henderson á óþægilega stutt eftir af sínum samningi. Hann myndi henta allt of vel sem framtíðar maður Man City sem þarf að endurnýja hjá sér miðjuna. Chelsea og United myndu ekki hata það að hafa hann heldur og það er stórhættulegt að eiga ekki lengri samning við hann nema til eins árs. Þessi lið myndu borga honum á stundinni það sem Liverpool er að hiksta á. Sterling er svo eitt mesta efni í Evrópu og spurning hvort samningsviðræður við hann eigi ekki að miðast að hluta við þann pening sem sparast við að kaupa slíkan leikmann. Ég skil að FSG vilji ekki fara út í neina vitleysu en til að keppa við hin toppliðin er ekki bæði hægt að sleppa við kaupverðið og háan launakostnað. FSG vita vel hvað þeir eru að gera en eins og staðan er núna er þetta hættulega líkt módelinu hjá Arsenal og það er ekkert spennandi.

  Nýr samningur hjá Coutinho og Rodgers fyrir ekki svo löngu gefa manni von um að þessi mál séu ekki í eins vondum farvegi og maður óttast. Það gengur ekki að selja okkar bestu menn alltaf um leið og þeir springa út, slíkt hefur gerst núna án undantekninga síðan 2010 og árangurinn er í takti við það. Núna er unga kynslóðin sem við höfum verið að bíða eftir í 3-5 ár að koma upp og þá er eins gott að þeir verði ekki allir seldir á næstu 1-3 árum. Hvað þá að þeir fari á tombóluverði með nánast útrunninn samning.

 22. Það er erfitt að finna besta tímapunktinn til að negla niður efnilegustu mennina á langtímasamningum en krítískt að þróa þá hæfni.

  Í tilfelli Henderson gerði klúbburinn klárlega mistök með því að bíða svona lengi. Ef þeir hefðu gengið í hann sl. sumar (sem þeir höfðu allar forsendur til að gera) væri hann á 5 ára samningi á launum sem hentuðu klúbbnum vel og allir sáttir.

  Í tilfelli Sterling eru mistök klúbbsins ekki alveg eins augljós, en samt…gerði Sterling ekki nóg á síðasta tímabili til að réttlæta alvöru samningsboð strax?

  Eins og þetta er að þróast verður einfaldlega svakaleg pressa á klúbbnum í sumar og boltinn rækilega hjá þeim félögum Henderson og Sterling.

  Minn lærdómur af þessu er því sá að ef þú ætlar að byggja upp stórstjörnur verður klúbburinn að vera mjög næmur á tímasetningu næsta samnings, og helst að grípa gæsina rétt áður en hún springur út.

 23. Skemmtilegar og góðar pælingar.

  Gerrard: Lýsing þín var nógu góð. Þessi leikmaður er mér allt. Hefur verið uppáhalds leikmaður minn síðan ég byrjaði að horfa á fótbolta með viti 2003-2004 og það mun enginn annar leikmaður ná eins til mín og hann. Fyrir mér er hann fullkominn og mistökin gegn Chelsea og United breyta mig engu.

  Sterling/Henderson: Ég hef alltaf verið á móti ofurlaunun og mér finnst Sterling fara fram á of mikið. Hann er ungur og þó að hann striki nafnið sitt undir 90-100 þúsund punda launaseðils í 5 ár, þýðir það ekki að hann verði ennþá með það eftir 4 ár. Það er greinilegt að hann hefur dalað mikið eftir því sem líður á tímabilið. Ekki bara hættur að skora heldur virkar hann ekki eins hraður og á erfiðara með að taka menn á með allan sinn hraða, missir boltan klaufalega frá sér og kemur boltanum illa á samherja. Hann hefur átt marga góða leiki, en allt of marga lélega. Því finnst mér hann ekki eiga skilið 150 þúsund pund á viku. Það eru mörg lið sem gætu nýtt sér hans gæði og hans framtíð en fyrir mér á hann að spila sig upp í 150 þúsund pund áður en hann fer fram á þau. Henderson á hinsvegar sína ósk skilið. Hefur verið frábær (Einn og einn off leikur, eðlilega) og mér finnst hann hafa þroskast gríðarlega hratt og vel síðan hann fékk bandið. Maður sér það í öllum viðtölum, hvernig hann tjáir sig á vellinum og vinnur fyrir liðið að þetta er fyrirliðaefni, og þar sem Liverpool hefur fundið næsta fyrirliða á að negla það strax niður.

  Sturridge: Þarf hvern einasta leik út tímabilið. Hann á bara eftir að verða betri þegar líður undir lok. Ef hann helst heill út seasonið og næsta undirbúningstímabil kemur hann gríðarlega sterkur inn í næsta. Væntanlega búin að ná hraðanum upp aftur. Er viss um að hann ætlaði sér markakóngstitilinn í ár og verður líklega ennþá staðráðnari í að næla sér í hann á næsta ári. Held í vonina um að hann muni eiga eitt meiðslalaust tímabil fyrir okkur og hann verður frábær það ár.

  Ef Liverpool ætlar sér eitthvað á næstu árum verða þeir að halda í leikmennina sem við eigum núna. Liðið er ungt og það er óþarfi að halda þeirri stefnu áfram ár eftir ár að versla bara leikmenn með potienal. Við þurfum eitt sumar þar sem 2-3 tilbúnir reynslumiklir leikmenn koma og ganga beint í liðið/hópinn, miðjumann, hægribak og sóknarmann helst.

  Annað. Ég væri til í smá tilraunastarfsemi hjá Rodgers núna. Leikkerfið hefur ekki virkað sem best í undanförnum leikjum og virðast lið vera búin að finna leið til að verjast þeim. Ég væri til í að sjá annað kerfi með 4 manna vörn. Fá það besta úr Sterling, Lallana og Can út seasonið. Helst myndi ég vilja hafa 5 manna miðju, 2 djúpa og 3 fyrir framan.

  Annars er tel ég að meistaradeildarmöguleikar okkar séu litlir sem engir. Sigur á Arsenal þýðir að við erum aftur í baráttunni en ég sé okkur ekki sigra þar. En annað eins hefur gerst og það eru ennþá 6 stig í boði á Emirates og Stamford. Vonandi verða þeir í stuði á báðum þeim völlum.

  YNWA

 24. Dúddi: Ég þori að veðja köttinum mínum að Sturridge sé í raun ekki meiddur og muni vera í byrjunarliðinu á móti Arsenal. Við erum bara LOKSINS að læra að senda ekki leikmenn sem er nýstignir upp úr meiðslum til Roy Hogdson og co.

  Hvítar, hip problem, lygar hér og þar drepa engan en hjálpa okkur fyrir loka átökin. Skrtel bannið fyrirsjáanlegt svosem, en það kemur maður í manns stað.

  Nú er bara halda áfram, næst er leikur á móti Arsenal þar sem við gætum saxað verulega á forskot þetta. Það er næsta óhugsandi fyrir okkur að stoppa Arsenal liðið reyndar, sem er á gríðarlegri siglingu og með frábæran mannskap. Líklegt 0-2 tap en mikið yrði nú ljúft að geta saxað á muninn ( see what I did there Babu 😀 )

 25. Ef Skrtel verður dæmdur í bann þá reynir nú aldeilis á Dejan Lovren að sýna hvað í honum býr. Ég held að þessi staða í vörninni sé kjörin fyrir hann og væri spenntur að sjá hann spreyta sig þar.

 26. Verið að slúðra okkur við Falcao á láni næsta sumar, hvað eigum við meira að geta notað þennan þríkrossbandslitna leikmann sem hefur misst allann kraft?

 27. Flottur pistill en ég get nú samt ekki alveg fyrirgefið Gerrard þetta rugl á sunnudaginn og finnst hann bara ekki alveg skilið að spila mikið meira á þessari leiktíð. Enda liðið verið töluvert betra án hans en með honum.

  Ef City eða Chelsea eru tilbúin að borga þessi laun þá verður Liverpool bara að gera það annars verður Liverpool aldrei meira en bara uppeldisstöð fyrir klúbba sem hafa meiri peninga. FSG hefur marg oft sagt að þeir geti keppt við þá stóru en hafa ekki enn sýnt það í verki. Sterling og Henderson verða bara enn verðmeiri ef þetta nær að ganga í gegn http://www.pressan.is/Frettir/Lesafrett/englendingar-vilja-herda-kvotareglurnar-a-erlenda-leikmenn—harry-kane-er-fyrirmyndin–

  En ég get engan veginn verið sammála um að kaup sumarsins sé búinn að sanna sig. Einu kaupin sem sem mér finnst hafa sannað sig eru kaupin á Can og kannski Moreno. Lallana er næst dýrasti leikmaður í sögu Liverpool og ég myndi nú gera meiri kröfur á þann leikmenn að vera squat player í liðinu hann ætti að vera einn af burðarásum í liðinu og hann hefur nú verið tölvert langt frá því að ná þeim standard.

  Louvern er líka langt frá því að vera búinn að koma til baka enda er hann ekkert í liðinu en fær kannski tækifæri til þess núna ef Skrtle fer í bann. En alveg eins og Lallana þá er hann langt frá því að vera búinn að sýna að hann sé 20 milljón punda virði og vera dýrasti varnarmaður Liverpool. Hann ætti þá að vera fyrsta nafn í vörninni í hverjum leik.

  Markovic hefur meiri tíma til að sanna sig og lofar góðu.

  Lambert þarf nú varla að ræða veit ekki hvort hann hefur komist á bekkin í síðustu leikjum einu sinni.

  Balotelli þar síðan ekkert segja meira um.

  Þannig að mér finnst nú þessar gleði pillur sem Kristján Atli er að gleypa ansi sterkar 🙂

 28. Varðandi Gerrard, er ekki “kveðjuleikurinn” hans á næstunni? Veit einhver hvort hann verður sýndur eða ekki?

 29. Brendan þarf að spyrja sig hvernig ætlum við að skora?

  Sturridge er á 75% hraða, okkar langbesti slúttari en hann er ekki að sprengja upp neinar varnir í augnablikinu.
  Coutinho hefur lagað hjá sér langskotin, á hættulegar sendingar en hann er ekki mjög duglegur að koma sér í færi.
  Lallana er lúnkinn að koma sér í færi en er ekki að skora mikið.
  Sterling er að spila sem vængbakvörður, svipað og Markovic…það er einfaldlega ekki að koma mörg mörk úr þessum stöðum.
  Henderson hefur lumað inn einu og einu af miðjusvæðinu en Allen aftur á móti ekki neitt.
  Skrtel er eini varnarmaðurinn sem hefur skorað einstaka sinnum.

  Það sést alveg á þessu að við erum í bullandi vandræðum að skora mörk. Búið að vera eiginlega þannig allt tímabilið.

 30. Sælir félagar

  Það er engu við þennan pistil KAR að bæta. Ég get bara þakkað kærlega fyrir mig og þetta er þörf áminning til mín og annarra þeirra sem hafa andskotast á fyrirliðanum fyrir mistök hans. Takk.

  Það er nú þannig.

  YNWA

Liverpool 1 – Man U 2

Spion Kop