Byrjunarliðið?

Partur af síðasta Podcast þætti fór í vangaveltur um það hvernig við myndum stilla upp í nokkrum stöðum á vellinum. Sérstaklega þá í vörn og á miðju gefið að allir væru heilir. Núna eru flestir okkar leikmanna að verða heilir og langar mig að nýta þennan dauða tíma sem er núna til að skoða þetta. Helst er ég að velta fyrir mér stöðu Jon Flanagan og Glen Johnson sem báðir eru að koma til baka úr meiðslum og lenda í því að þeirra besta staða á vellinum er ekki lengur í notkun. Allen er farin að veita Lucas mjög harða keppni á miðjunni. Ibe kom eins og þruma úr heiðskýru lofti í beina samkeppni við Markovic. Lovren og Toure eru tilbúnir í slaginn og Mario Balotelli er farinn að gera gagn á vellinum á sama tíma og Sturridge kemur loksins til baka. Byrjunarliðið er því bara alls ekki eins augljóst í dag og það var fyrir stuttu, eða hvað?

Leikkerfið er augljóslega 3-4-2-1 og til gamans setti ég upp okkar besta byrjunarlið að mínu mati gegn okkar næst besta liði. Auðvitað væri þetta aldrei svona auðvelt því margir þeirra sem eru í A-liðinu væru færðir úr stöðu til að halda þeim áfram í liðinu. Ég sem sagt set þetta upp eins og ég myndi gera ef A og B-lið Liverpool ættu að mætast. A-liðið spilar í rauðu og B-liðið í gulu. Ekki horfa þó of mikið í myndina ég tek hverja stöðu fyrir sig í kjölfar myndarinnar.
A vs B liðið

Notum bara Football Manager tungumál fyrir hverja stöðu.

GK:
Mignolet er klárlega númer eitt og hann fær enga samkeppni frá Brad Jones eins og staðan er núna. Léleg breidd í þessari stöðu á vellinum en blessunarlega sú staða sem má best við lítilli breidd ef aðalmarkmaðurinn er góður.

DCR:
Emre Can er búinn að eigna sér stöðuna í augnablikinu og er ekki síður mikilvægur sóknarlega og hann er varnarlega. Vorum allir sammála um að hafa hann áfram í vörninni eins og staðan er í dag en það gæti breyst fljótlega að hans verði óskað á miðjunni. Hans hlutverk í dag er hálfgert miðjumanns hlutverk og það hentar vel í bland við það að Lucas og Allen hafa spilað vel á miðjunni. Dejan Lovren er samt loksins farinn að setja pressu á hann og þetta er líklega sú staða sem hentar Kolo Toure hvað best. Glen Johnson er þarna í B-liðinu hjá mér en væri fyrir aftan alla miðverðina og Can í goggunarröðinni. Haldi Rodgers áfram með þetta leikkerfi er aldrei að vita nema Ilori og/eða Wisdom henti vel í þessa stöðu líka. Það er ekki lengur sami dauðadómur á feril hjá Liverpool að fara út á láni. Góð breidd hérna.

DC:
Martin Skrtel hefur líklega aldrei verið að spila eins vel hjá Liverpool og hann er að gera núna. Hann hefur bætt sig engu minna en Mignolet á þessu tímabili og er líklega eitt fyrsta nafnið á blaðið þegar byrjunarliðið er valið. Lovren ætti samt að smellpassa í þessa sömu stöðu enda ekki sömu kröfur sóknarlega og í hinum tveimur miðvarðastöðunum. Sakho myndi líklega einnig líða best í miðjunni. Góð breidd hérna og allt annað orðið að sjá alla okkar varnarmenn í nýju leikkerfi.

DCL:
Mamadou Sakho ætti að vera fyrsta nafn á blað í þessa stöðu jafnvel þegar hann er meiddur. Okkar langbesti kostur í þetta hlutverk og samkeppnin er sama og enginn ef þú spyrð mig. Þeir geta auðvitað allir spilað vinstra megin en hann er sá eini sem er örfættur.

MR
Markovic er við það að eigna sér stöðuna þó enn sé hann mjög misjafn í sínum leik. Samkeppnin er þó orðin rosaleg við hann bæði frá varnarmönnum og sóknarmönnum. Jordon Ibe hefur komið inn með látum og spilað jafnvel betur en Markovic. Sterling og Lallana hafa einnig verið að leysa þetta hlutverk þegar líður á leikina undanfarið, Lallana var maður leiksins gegn Man City, m.a. í þessari stöðu. Manquillo er ekki lengur eina ógnin frá bakvarðasveitinni því Glen Johnson er kominn aftur úr meiðslum og hefði þessi staða verið í boði allan hans feril hjá Liverpool væri Johnson líklega mun hærra skrifaður, þetta hlutverk ætti að henta honum vel þó ég vilji ekki sjá hann byrja inná. Jon Flanagan er síðan kominn til baka úr meiðslum og ég hreinlega sé ekki hvar hann á að komast í liðið. Hann er alls ekki kantmaður og ekki miðvörður heldur. Johnson og Flanagan lenda því líklega í sama veseni og Manquillo, þeirra besta staða er ekki lengur í boði hjá Liverpool. Góð breidd hérna og ekki má gleyma að Henderson hefur einnig verið sóað á hægri vængnum í vetur, vonandi verður ekki aftur þörf á því.

ML:
Alberto Moreno er að eigna sér þessa stöðu og breiddin er engu að síður betri en mjög oft áður á vinstri vængnum hjá Liverpool. Ibe eða Markovic geta báðir spilað vinstra megin á móti þá hægri bakverði án þess að það komi niður á þeirra leik. Jose Enrique ætti síðan að henta betur þarna heldur en aftar á vellinum. Enrique er t.a.m. mun betri sendingamaður en Moreno og minni varnarskylda myndi henta honum betur.

DMCR
Jordan Henderson er fyrsta nafn á blað hjá Rodgers og líklega mikilvægasti leikmaður liðsins. Án hans má liðið ekki vera, ekki í langan tíma a.m.k. Hann er farinn spila mun stærra hlutverk í markaskorun liðsins og það var sá partur af hans leik sem þurfti að bæta. Lucas, Gerrard og Can geta auðvitað allir spilað sömu stöðu en Henderson er fyrsta nafn á blað.

DMLC
Ef allir væru heilir myndi ég hafa Lucas við hliðina á Henderson eins og staðan er í dag. Joe Allen hefur fyllt hans skarð mjög vel engu að síður og líklega er ekki langt í að Can slái þá báða úr liðinu.

AMCR
Raheem Sterling er fyrsta nafn á blað í stöðu sem er gríðarleg vel mönnuð hjá Liverpool, óþarfi að útskýra það nánar. Gerrard á ennþá slatta eftir á tanknum í þessari stöðu einnig og Lallana var keyptur á 25m. Jordon Ibe er bara ári yngri útgáfa af Sterling og ennþá meira spennandi. Þetta er síðan það hlutverk sem Markovic hefur spilað hvað mest á sínum ferli. Ofan á það á Liverpool mjög spennandi leikmenn í yngri liðunum og á láni sem spila þetta hlutverk.

AMCL
Coutinho er á góðri leið með að verða besti leikmaður liðsins og er einn af betri leikmönnum deildarinnar það sem af er þessu ári. Að keppa við hann um stöðu eru allir sömu og keppa um stöðuna við Serling. Svo má ekki gleyma að sóknarmennirnir eru stundum notaðir á kostnað sóknartengiliðs, samkeppnin í þessari stöðu er því rosaleg. Maður sér Coutinho og Sterling þó ekki haggað í bráð og hafa alla burði til að verða mun betri.

S:
Sturridge er okkar langbesti sóknarmaður en er þó að ganga í gegnum sinn versta kafla síðan hann kom til Liverpool. Hann mun vonandi ná sér af langtímameiðslum sínum og virðist ekki hafa misst hraða. Eins má ekki gleyma því að hann er að venjast nýju leikkerfi. Balotelli er farinn að veita honum smá samkeppni þó hann sé augljólega ekki sá vinsælasti innan hópsins eða hjá stjóranum. Lambert og Borini eru 4. og 5. kostur á eftir þessum tveimur og Sterling.

Hópurinn virkar mikið sterkari í dag en hann gerði um áramótin, þetta er miklu nær því sem við vorum að vonast eftir fyrir tímabilið. Eins og staðan er núna ætti næsta sumar að geta verið mun rólegra en það síðasta. Þetta veltur á því að ná 4. sætinu en við þennan hóp ætti að duga að setja allann peninginn í sóknarmann og kannski miðjumann. Ásamt því auðvitað að tryggja framtíð núverandi leikmanna sem við viljum ekki missa.

Hvað segið þið, segjum að Liverpool komist í úrslitaleik gegn Arsenal í bikarnum og allir leikmenn liðsins eru leikfærir. Við vitum að Rodgers er að fara spila 3-4-2-1. Hvernig væri byrjunarliðið að þínu mati?

14 Comments

 1. Það verður að fá markmann í sumar sem er fær um að veita Mignolet góða samkeppni.

 2. Nokkuð samála liðinu.

  Ég tæki samt Joe Allen fram yfir Lucas á miðsvæðinu. Betri boltatækni, betri bolta pressa og meiri vinnsla. Lucas er meira fastur fyrir framan vörnina og er snillingur að gefa ódýrar aukaspyrnur en er fín að vinna bolta. Allen er betri á boltan og er ekki þessi DM leikmaður og er liðið miklu sókndjarfara með hann inni.

  Svo er spurning um hvort að maður myndi ekki taka Ibe fram yfir Markovitch í R-Wing back. Allavega miða við þessa fáu leiki hjá Ibe þá hefur hann verið mjög góður í þeim á meðan að Markovitch hefur verið bæði góður og varla séns en bæði góðir kostir.

  En gamana að sjá breyddina í liðinu í dag og efast ég um að B-liðið okkar á síðasta ári hafi verið merkilegt með Aspas í stóru hlutverki.

 3. Sælir félagar

  Ég er eins og Ian Rush hér fyrir ofan nokkuð sammála liðinu og hefi sömu efsemdir um Lucas og Marko. Þetta er þó luxusvandamál og reynslan mun leiða niðurstöðuna í ljós. Það er rétt hjá Brekkusniglinum hér að ofan að okkur vantar alvöru markmann til að halda Minjo á tánum, þeim tám sem hann hefur verið á undanfarið. Einnig er alvöru senter nausynlegur til að halda pressu á Sturridge og Balo. Um hina tvo nenni ég ekki að ræða í þeirri stöðu.

  Annars eftir drullujafntefli MU og T’ham um helgina og sigur okkar manna á Svaninum Gylfa Sig þá verður maður bara sáttur og sæll.

  Það er nú þannig

  YNWA

 4. Ég er nokkuð sammála Babu með ‘besta liðið’ okkar, fyrir utan það að ég myndi hugsanlega skipta á Ibe og Markovic á hægri vængnum. Þeir sinna svipaðri varnarvinnu en mér finnst Ibe virka töluvert effektívari, áreiðnari og betri í þessu hlutverki en Markovic – sem ég myndi vilja sjá færast meira á miðsvæðið líkt og hann gerði gegn Tottenham um daginn.

  Á formi myndi ég vilja sjá Allen á miðjunni með Henderson, mér finnst jafnvægið á milli þeirra tveggja virkilega flott og skemmtilegt. Lucas stóð sig flott og Gerrard hefur mikið í sínum leik en Allen og Henderson finnst mér flottir.

  Moreno á vinstri vænginn skuldlaust. Enrique er bara ekki inni í myndinni finnst mér. Hann er fínn en ef hann verður með okkur á næstu leiktíð verð ég afar hissa. Markovic, Ibe, Can, Sterling osfrv geta leyst þessa stöðu en hún er eign Moreno sem er mjög svo flottur þarna.

  Sturridge á alltaf að vera upp á toppnum. Sterling er flottur þar en er ekkert eins og Sturridge. Hann á toppinn. Easy val.

  Við getum valið úr Lallana, Sterling og Coutinho í þessar tvær “tíu” stöður fyrir aftan Sturridge. Það er frábært úrval að mínu mati. Sterling og Coutinho eru líklega kostir eitt og tvö í þessari stöðu en frammistöður Lallana í þessu hlutverki eru virkilega jákvæðar og hann á alveg fair ákall á þessa stöðu.

  Skrtel og Sakho eiga tvær af þremur miðvarðarstöðum. Lovren er að bæta sinn leik helling frá því fyrr í vetur en Can á heima þarna eins og er allavega. Ég vil frekar hafa hann þarna en á miðjunni eins og er – sérstaklega með Allen og Henderson í góðu standi.

  Eitt sem ég velti fyrir mér og var að spá í að henda inn færslu um slíkt en hendi þessu frekar fram hér. Er 3-4-3 það sem koma skal, er Rodgers að hugsa það sem núna framtíðar útfærslu á þessu liði þar sem þetta virðist koma með mikið jafnvægi í liðið og fá helling úr leikmönnum sem ekki fundu sig í 4-2-3-1/4-3-3 fyrr í vetur?

  Ég er virkilega hrifinn af þessari útfærslu á liðinu. Mér finnst hún frábær á svo margan hátt. Eitt sem ég hef verið að velta fyrir mér núna fyrst slúðurpressurnar eru byrjaðar á fullu fyrir sumarið og það heyrist af útsendurum liðsins á hinum og þessum leikjum þessa dagana. Ef þetta er komið til að vera er þá ekki líklegt að Rodgers og leikmannakaupsnefndin hafi fundað um daginn og hreinlega rifið í sundur listann af þeim leikmönnum sem þeir vilja fá og drógu upp fyrir áramót?

  Þegar maður lítur á það hvernig liðið hefur breyst undanfarið þá hlýtur svo að vera ef þetta er hugsað til langstíma. Skyndilega eigum við fullt af “óþarfa” leikmönnum. Við gætum til dæmis bent á bakverðina í liðinu okkar, eru þeir bara hreinlega úreltir ef þeir geta ekkert annað? Þurfum við þá eftirmann fyrir Johnson? Getum við ekki sent Manquillo heim? Notum við þá ekki bara kantmenn eins og Ibe, Markovic og jafnvel Ojo í kantstöðuna frekar en að kaupa bakvörð, eða hreinlega kaupum kantmann í staðinn?

  Breytir þetta kannski öllum plönum sem félagið hafði varðandi það hvernig það á að fylla skarðið sem Gerrard skilur eftir sig? Kaupum við þá aðra týpu af miðjumanni sem hentar betur í þetta kerfi en 4-3-3, færum við Can framar og kaupum annan í miðvörðinn? William Carvalho leikmaður Sporting er eitthvað orðaður við félagið, stór og sterkur varnartengiliður – er hann kannski hugsaður sem þessi þriðji miðvörður eins og Can?

  Krotum við alla ‘kantframherja/kantmenn’ af listanum og fáum okkur tíu í staðinn? Þurfum við núna nýja týpu af framherja en okkur fannst við þurfa áður og svo framvegis.

  Mér finnst þetta afar áhugavert og það verður afar áhugavert að fylgjast með sumrinu eftir þessa leiktíð hvað þetta varðar því þetta er töluverð áherslubreyting frá því fyrir áramót… Ekki það að Liverpool reynir að sérhæfa sig í leikmönnum sem geta spilað margar útfærslur og margar stöður en engu að síður er þetta afar forvitnilegt.

 5. Ég myndi taka í úrslitaleikinn

  GK: Mignolet – hann á stórleik
  DR: E.Can – nautsterkur og í liði ársins að mínu mati
  DC: Skrtel – herra áreiðanlegur
  DL: Sakho – vonandi nær hann að verða tröll í hornspyrnum þá fær hann 10/10
  MR: Sterling – okkar besti hlaupari/sólari
  MC: Henderson – fyriliðinn getur skorað mikilvæg mörk
  MC: Allen – hann minnir mig á Xavi án gríns (má samt fá hláturskast)
  ML: Moreno – hentar honum töluvert betri þessi staða að hafa einhvern fyrir aftan sig
  MA: Lallana – öflugur spilari
  MA: Coutinho – ekta Brasilíumaður nú þurfum við bara að redda Argentínumanni
  ST: Sturridge – held að hann sé eitthvað stórskrítinn en hann er eiturgóður

  Á bekknum: Markovic – hann hefur hæfileika, Ibe – efnilegur, Lovren – grófur og mun finna sig, Gerrard – hann setur eitt úr víti í úrslitaleiknum, Toure – upp á móralinn, Lucas – segir bless og síðast en ekki síst B.Jones – sem meiðist í upphituninni.

 6. Nathaniel Clyne hjá Southampton passar frábærlega í þetta hægri wingback hlutverk. Hann verður klárlega einn sá besti í bransanum og ég vill ekki sjá hann sóa ferlinum í United treyju. 🙂

 7. Þú ert með Toure í gula liðinu! Er það ekki einhver misskilningur!!

 8. Fótbolti í dag er orðinn svo taktískur. Það er svo auðvelt að liggja yfir myndefni, greina það í tætlur og finna smæstu veikleika til að hamra á. Gott dæmi um það hvernig lið mættu okkur í upphafi þessarar leiktíðar – föttuðu það í sumar að taka Gerrard einfaldlega úr umferð og teppa þar með einn lykilinn að sóknarleik liðsins.

  Ég myndi allt eins búast við hinu sama varðandi 3-4-2-1 kerfið okkar núna. Við vitum að það hefur innbyggða veikleika og opnar inn á ákveðin svæði, en ennþá er ákafinn í okkar mönnum og hraði keppnistímabilsins það mikill að hin liðin virðast ekki hafa nægan tíma til að greina og bregðast við á besta hátt. Einhver mun líklega gera það í sumar hins vegar og við þurfum að hafa tilbúið plan B (en ekki þurfa að fatta það og þróa í tveir-leikir-á-viku álagi okt og nóv).

  Þess vegna finnst mér mjög líklegt að Rodgers hugsi með sér að 3-4-2-1 verði vissulega vopn í vopnabúri, en að hann vilji halda möguleikanum á hefðbundinni fjögurra manna vörn opnum (og þar með halda hefðbundnum sóknarbakvörðum í hópnum).

  Annað laustengt er að sá heimsklassamaður sem Emre Can gæti vissulega orðið, passar held ég frekar illa inn í umrætt 3-4-2-1 kerfi. Bæði sýnist mér það af reynslu þessa tímabils og svo má færa rök fyrir því út frá leikmannatýpunni sem hann er. Svona stórir og kraftmiklir menn sem hafa þann frábæra eiginleika að geta “brotist á milli línanna” eins og Rodgers kallar það, þurfa sína hvíld inn á milli og eru ekki endilega best til þess fallnir að vera í iðandi hápressu með linnulitlum smásprettum og tilheyrandi stefnubreytingum. Can er gríðarefnilegur box2box miklu frekar en varnarsinnaður miðjumaður eða hápressuvinnsluvél. Ég held hann hafi ekki eirðina í varnaragann auk þess sem það myndi að einhverju leyti stífla hans mestu styrkleika að þurfa að sitja fyrir framan vörnina.

  Ibe hefur burði til að verða margfalt betri í hægri miðjustöðuna en nokkurn tíma Markovic. Hann er a.m.k. jafn hraður, a.m.. jafn aggressívur, a.m.k. jafn agaður í varnarvinnu og sennilega svona tvöfalt sterkari á líkamann.

  Það beinir athyglinni aðeins aftur að Markovic, sem vissulega hefur stimplað sig inn, bæði fótboltalega og hugarfarslega. Hann er duglegri og samviskusamari en maður hefði gert sér vonir um og hefur vissulega átt fína leiki, en ennþá finnst mér eins og hann sé einu númeri of lítill í stærstu leikina. Það númer gæti hins vegar vaxið á hann á einu góðu undirbúningstímabili.

  Hvað varðar framherjastöðuna þá er Sturridge auðvitað okkar besti senter þegar hann er í formi, en miðað við núverandi spilamennsku kemur ekki síður út að hafa Sterling frammi, ekki síst vegna mannvals í 10 stöðunum þar sem Coutinho, Lallana, Markovic, Gerrard og Ibe geta allir valdið usla. Mér finnst þess vegna ekki gefið að Sturridge sé 1. kostur, því hápressan og vandræðin sem Sterling veldur með snerpu sinni og vinnslu kemur öllu í uppnám hjá andstæðingnum.

  Svo er ég á því að Allen í toppformi með Henderson á miðjunni sé jafnvel betri kostur en Lucas í toppformi. Það er bara miklu meiri bolti og flot í kringum Allen, og manni sýnist hann geta vaxið talsvert í viðbót, á meðan Lucas hefur staðnað í sínu hlutverki og þó hann sinni því með taktískum sóma er hann enn takmarkaðri framávið en Allen.

  Í sumar myndi ég halda að okkur dygði iðinn og snarpan sóknarmann sem nennir að pressa og hlaupa og betri varamarkmann. Spurning með miðjumann – fer eftir hvað Rodgers hugsar sér með Can.

 9. Og City tapar gegn Burnley. Ef Liverpool vinnur á mánudag þá eru 4 stig í annað sætið. Þetta verður eitthvað!

 10. Mín spá í augnablikinu er að Arsenal verði í 2. sæti, Liverpool í 3. sæti, og Manchester liðin berjist svo um 4. sætið.

 11. Mér finnst ákveðin sjálfvirkni í því hrósi sem Sterling fær í liðinu. Ég er kannski einn um það en mér finnst alltof oft koma grátlega lítið úr þeim hraða og þeirri tækni sem hann vissulega hefur. Hversu oft höfum við horft á hann steindrepa hraðann í sókninni með því að krisskrossa löppum fyrir framan 2 og stundum þrjá varnarmenn – í vonlausri aðstöðu til að komast áfram en reynir samt? Á meðan bíða menn fríir í krossum eða sendingum til baka. Hann hefur rosalega líkamlega hæfileika en mér finnst hann hafa staðnað í vetur í leikþroska. Hann byrjaði hræðilega með þessa tækni sína í vetur – skánaði um miðbikið – en mér finnst hann aftur byrjaður á þessum töktum sem hjálpa bara liðinu ekki neitt. Ekki misskilja – þetta er frábær leikmaður – en það vantar eitthvert lykilatriði í hausinn á honum, að mínu mati.

Alex Inglethorpe og uppbyggingarstarf LFC

Ferðalag til Wales framundan