Alex Inglethorpe og uppbyggingarstarf LFC

Fyrst það er enn dágóð bið í næsta deildarleik hjá okkar mönnum þá langar mig aðeins að ræða um einn ákveðinn aðila og þau áhrif sem hann og samstarfsmenn hans gætu haft á félagið til langs tíma.

Í nóvember árið 2012 var Alex Inglethorpe ráðinn til starfa hjá félaginu. Hann hafði þjálfað í unglingastarfi Tottenham í sex ár fyrir það og var Brendan Rodgers búinn að rita hann efstan á blað sem þjálfara sem hann vildi fá í sitt teymi. Hann var ráðinn sem þjálfari u21 árs liðs Liverpool og gegndi því starfi út síðastliðna leiktíð.

Síðasta sumar voru stjórnendur Liverpool það ánægðir með störf hans og metnað hjá félaginu að hann var gerður að yfirmanni akademíu félagsins. Hann átti þá ekki aðeins að sjá til þess að hugmyndafræði u21 árs liðsins héldist í hendur við aðalliðið heldur átti hann að sjá til þess að sú stefna skilaði sér í gegnum allt unglingastarfið og hann á að sjá til þess að notaðar séu sambærilegar þjálfunaraðferðir og Rodgers og hans menn nota í aðalliðinu.

Af hverju ætti maður svo sem að vera spenntur fyrir einhverjum í þessari stöðu? Það er ekki eins og þetta sé einhver ný og flott staða hjá félaginu eða eitthvað svoleiðis. Af hverju er maður þá svona spenntur?

Inglethorpe virkar afar metnaðarfullur maður og er vel hæfur í sínu starfi. Við getum horft til keppinauta okkar í Tottenham. Hann starfaði hjá þeim í sex ár við mjög svo góðan orðstír. Ég rakst á daginn einhvern veginn inn á spjallborð hjá Tottenham stuðningsmönnum þar sem þeir ræddu um unglingastarf sitt og þess háttar. Nafn Inglethorpe kom oft þar fram og virtist ríkja mikil ánægja með starf hans á þeim tíma sem hann var þar. Þeir sögðu hann eiga stóran þátt í að hafa mótað leikmenn eins og Nabil Bentaleb, Ryan Mason og Harry Kane sem allir eru að leika frábærlega fyrir Tottenham á leiktíðinni. Hann vann með þeim og fleirum í gegnum árin og telja Spursarar að þeir séu að sjá framlag hans núna. Þeir virkuðu afar ósáttir og leiðir með að Liverpool hafi nælt í hann frá sér og eru það að mér finnst alltaf fín meðmæli.

Hann hefur verið duglegur að koma fram í viðtöl þar sem hann er afar opinskár með stefnur og vinnubrögð akademíunar sem er afar gaman að lesa yfir. Í viðtali við The Bib Theorist lagði hann fram nokkrar af hugmyndum sínum og samstarfsmanna sinna um það hvernig málum unglingaliðana verður háttað á næstu árum. Ég ætla aðeins að koma inn á nokkra af áhugaverðustu punktunum í því viðtali.

Til að byrja með þá talaði hann um mikilvægi lánssamninga fyrir unga leikmenn félagsins. Þetta gerði hann afar mikið af og vel hjá Tottenham og var eitthvað sem manni þótti ábótavant hjá félaginu lengi vel. Hann sagði að oft er það þannig að maður tekur fyrsta lánsboði sem einhver ungur leikmaður fær ef hann hefur enga reynslu á bakinu því einhvers staðar þurfa menn að byrja. Það sem mestu máli skiptir þegar leikmenn eru lánaðir er að það sé gert á rétta tímapunktinum, þegar u21 deildin er ekki að skila nægilega miklu til leikmanna lengur og þeir þurfa nýja áskorun. Það skiptir líka engu máli þó u21 árs liðið veikist og geti ekki unnið titla og svoleiðis, það eina sem skiptir máli er að koma mönnum í aðalliðið.
Hann kom með einn afar áhugaverðan punkt sem hann tengir einmitt saman reynslu sína af lánskerfinu hjá Tottenham og því sem á að breyta hjá Liverpool. Ég ætla að leyfa tilvísun í hann að fljóta hér með:

“I’m convinced, and I know I’ve said it before, but these players have got to have a career before their Liverpool career. Now, that’s not the same for every single player but for some it is the truth. With players that I’ve worked with at Tottenham, who are just making their first steps into the Premier League now, some of them have followed that route, some of them haven’t – I’m talking about players like Kane, Bentaleb, Andros Townsend, Ryan Mason. Again it’s about finding the right opportunity at the right time.”

Leikmenn geta sem sagt þurft að fá kjöt á beininn annars staðar og byggja upp sinn leik áður en þeir koma sér fyrir í aðalliði síns liðs þar sem pressan og álagið er töluvert meira en kannski hjá liði í neðri deildunum. Sumir, líkt og Tottenham leikmennirnir sem hann nefnir, gætu þurft á slíku að halda en svo eru kannski aðrir líkt og til dæmis Raheem Sterling og Jon Flanagan sem þurfa ekki eins mikið á því að halda. Afar áhugaverð pæling sem helst mikið í hendur við það sem við sjáum í dag með Jordon Ibe sem fór á láni til Derby, Andre Wisdom hjá WBA, Sheyi Ojo hjá Wigan, Joao Teixeira hjá Brighton og þar eftir götunum.

Hann kom líka inn á það að hann er búinn að kortleggja næstu tvö árin þar sem hann er búinn að ákveða nokkra leikmenn sem hann vill senda út á lán á þeim tíma og þegar rétti tíminn er kominn þá munu þeir reyna að koma þeim fyrir í alvöru deildum. Félagið sé búið að draga upp nokkurs konar óskalista með liðum og þjálfurum sem það vill reyna að koma leikmönnum sínum til því umhverfið þar sé gott og þar mun hann læra svipaðar áherslur og reynt er að kenna þeim hjá Liverpool.

Þar sem viðtalið við hann var tekið fyrir einhverjum tveimur eða þremur mánuðum síðan þá kom hann með línu sem er afar áhugaverð í ljósi þess hve vel Ibe hefur komið inn í Liverpool liðið undanfarið:

I’m sure some of these guys will hugely benefit from being in a senior environment. Look at Jordon Ibe who is doing so well at Derby County: playing in front of big crowds, under a good manager, with a good team – I have a feeling that he’ll look a bit more attractive to our first team off the back of forty-fifty appearances that’ll come by the end of the season (if you add his Birmingham games too). Like most, he’ll be more attractive with that experience than without.

Þetta reynist vera bara hárrétt hjá honum!

Reynslan sem þessir ungu leikmenn eiga að öðlast með því að fara á lán í neðri deildir er ekki bara til þess að þeir fái mínútur í reynslubankann sinn heldur þurfa þeir kannski líka á því að halda að finna fyrir því hvernig það er að hafa fyrir hlutunum. Í mörgum neðri deildarliðum fá þeir ekki öll þau fríðindi sem þeir hafa hjá stóru félögunum, þeir eru komnir út í alvöruna og þurfa að þroskast hratt til að verða ekki fyrir þeim sem eru þarna í fúlústu alvöru. Þeir gætu því neyðst til að þroskast hraðar sem persónur og kannski fá smá innsýn í það hvernig þetta er neðar í fæðukeðjunni og læra að meta betur það sem þeir hafa í höndum sér.

Annar skemmtilegur punktur frá Inglethorpe, nú í viðtali við The Tomkins Times um karakter einkenni leikmanna:

Integrity and the ability to self-analyse. Can they correct their own weaknesses and not revert to type under adversity or pressure. I’ve got a thing for the “silver medallist”, the player who learns to overcome his problems. Carra is a very good example of this…Jamie might have even been a “bronze medallist at one point”! There is a real resilience in the local academy boys, it’s a general characteristic for most of the locals, a real toughness and inner steel.

Undanfarin ár hefur Liverpool eytt miklum tíma og fjármunum í að endurbyggja, endurskipuleggja og bæta unglingastarf sitt og hefur Rodgers tileinkað sér það, til dæmis með að fá Inglethorpe til félagsins. Inglethorpe hefur talað mikið um jákvætt og gott samband hans við Rodgers og gefur í skyn að hann hefði ekki yfirgefið Tottenham fyrir hvern sem er en Rodgers væri ekki hver sem er.

Inglethorpe og aðrir yfirmenn akademíunar hafa verið duglegir við að fá mikils metna, metnaðarfulla og færa útsendara, þjálfara og aðra starfsmenn í unglingastarfið. Þar má til að mynda nefna Michael Beale þjálfara u21 árs liðsins, Neil Critchley þjálfara u18 ára liðsins og hollenska þjálfaran Pepijn Lijnders sem tekur við u16 ára liðinu en hann var áður að þjálfa hjá unglingaliðum PSV og var í yfirmannsstöðu í unglingastarfi Porto. Það eru margir aðrir áhugaverðir starfsmenn innan akademíunar og er orðspor hennar að fara ört vaxandi með hverjum mánuðinum sem líður.

Unglingastarf Liverpool er stútfullt af frábærum ungum leikmönnum á öllum aldri og hefur þessi deild innan félagsins líklega sjaldan litið eins vel út í mörg ár. Undanfarin misseri hafa leikmenn eins og Sterling, Jon Flanagan, Jordan Rossiter, Jordan Williams, Joao Teixeira og Jordon Ibe troðið sér í aðalliðshóp félagsins – í mismikilvægum og stórum hlutverkum samt, og það er afar erfitt að reikna ekki með að strákar eins og Jerome Sinclair, Sheyi Ojo, Cameron Brannagan, Harry Wilson og eflaust einhverjir aðrir nái að troða sér í einhverju formi inn í aðalliðið á næstu mánuðum.

Það er afar erfitt að vera ekki spenntur fyrir framtíðarleikmönnum félagsins um þessar mundir og þar sem Alex Inglethorpe heldur um stjórnartauma akademíunar þá er maður vissulega mjög spenntur fyrir honum og hans starfi.

13 Comments

 1. Ég man lengi vel hvað mér fannst glatað að það voru nánast engir áhugaverðir leikmenn að koma upp úr akademíunni okkar, bara frá því að Owen kom þá var lengi algjör kreppa í gangi.

  Benitez átti náttúrulega góðan þátt í að reyna að endurlífga akademíuna og Rodgers/klúbburinn á hrós skilið fyrir framfarirnar sem hafa svo orðið frá því að hann og FSG komu til liðsins.

  Erum sennilega með mest spennandi akademíu sem er í gangi í BPL í dag.

 2. Klárlega vakning hjá stóru liðinum hvað þetta varðar sem væri gaman að skoða nánar og þá hvort þetta væri betra/verra núna en t.d. fyrir 10 árum / 20 árum.

  Man City eru að koma sér upp bestu aðstöðu í heiminum og þeirra módel er klárlega miðað við að þeir skili upp leikmönnum í framtíðinni. Þeir eru ekki komnir þangað ennþá en akademían hjá þeim er ógnvekjandi.

  Tottenham er eins og Óli kemur inná að gefa mönnum spilatíma sem komið hafa upp í gegnum unglingastarfið, m.a. hjá Inglethorpe. Áður en hann kom voru þeir að kaupa unga menn eins og Bale sem er ekki uppalinn en keyptur mjög ungur, keyptur út á potential á toppverði sem skilaði sér margfalt.

  Arsenal hefur verið með framleiðslu í mörg ár og hefur verið framar öllum öðrum liðum á Englandi hvað uppbyggingarstarfið varðar. Þeir hafa líka keypt unga menn á mikinn pening þegar það á við að þeirra mati. Walcott og Chamberlain eru dæmi um það.

  Man United eru að gefa ungum leikmönnum séns á þessu tímabili sem og því síðasta þó pressan á stjórum liðsins (Moyes/LVG) leyfi ekki mikla tilraunastarfsemi. Unglingastarfið þar er að manni skilst engu minna spennandi en hjá Liverpool og góðir menn að koma upp. 2-3 varnarmenn eru að fá mikinn spilatíma í vetur. Januaji er í lægð en engu að síður eitt mesta efni Englands og svo er Wilson mjög spennandi leikmaður. Ekki langt síðan þeir misstu frá sér Paul Pogba t.a.m. Við erum auðvitað ekki að fylgjast jafn stíft með starfinu hjá þeim en United er að gefa ungum mönnum séns og fá upp mjög spennandi leikmenn.

  Chelsea er fyrirbæri sem erfitt er að útskýra og ég man ekki eftir leikmanni úr akademíunni þeirra í fljótu bragði, ekki á þessari öld. Erfitt fyrir unga menn að komast í gegn þegar keypt er inn tvö lið sem auðveldlega gætu náð árangri. Chelsea eru samt alltaf meðal þeirra bestu í yngri flokkunum og versla mikið leikmenn á þessu leveli líka.

  Southamton er svo líklega besta akademía Englands á þessari öld og árangur þeirra er aðdáunarverður. Hjálpar þeim töluvert að geta gefið þessum leikmönnum sínum tíma og traust mikið fyrr en stóru liðin komast upp með. Þeirra lið væri áhugavert fengju þeir alla sína uppöldu leikmenn til baka á einu bretti.

  Benitez umturnaði stöðnuðu starfi akademíunnar eftir langa baráttu innanhúss um að fá að gera það. Hann réð tvo mjög spennandi menn úr La Masia, einnig Kenny Dalglish og félagið fór að keppa um efnilegustu unglingana. Þannig fengum við Sterling t.a.m. Þetta hefur ekkert allt gengið upp og auðvitað tekur gríðarlegan tíma að sjá starf í yngri flokkum bera ávöxt í aðalliðinu. Þetta er þó himin og haf frá fyrstu árum þessarar aldar er það kom ekki einn nothæfur leikmaður úr akademíu Liverpool og aðeins keypt Le Tallec og Pongolle sem framtíðarstjörnur. Eins og starfið er núna efa ég að framtíðin hafi nokkurntíma verið svona spennandi hjá Liverpool.

  Það er mikil einföldun held ég að horfa bara til Inglethorpe þó að hann sé að vinna mjög spennandi starf og er vel virtur. Benitez á stóran heiður í því að koma þessum bolta af stað ásamt þeim starfsmönnum sem hann fékk til félagsins. Hann var samt með hendur bundnar fyrir aftan bak því Hicks og Gillett misstu af mjög mörgum góðum bitum sem búið var að setja markið á til að kaupa á verði sem margfaldaðist nokkrum árum seinna.

  FSG hefur tekið þennan bolta á lofti og rúmlega það og leggur ofuráherslu á þessa deild og veitir það fjármagn sem þarf til að keppa við stóru liðin á þessum markaði. Þeir réðu líka stjóra sem vill vinna með ungum leikmönnum, móta þá eftir sínu höfði og nota þá í aðalliðinu. Sterling eða Ibe gæti hæglega borgað upp ca. 5 ár af starfi akademíunnar verði þeir einhverntíma seldir á toppverði. (vonum auðvitað að það sé ekki planið).

 3. sjúklega góður pistill… Takk fyrir þetta hef verið að sega vinum og vandamönnum hversu björt framtíðinn virðist vera hjá okkur og hef alltaf sagt að á næstu 5 árum munum við að minnsta kosti vinna deildina 2.. 😉

 4. Þetta er rosaleg frétt og eitthvað sem snertir streng í hjörtum okkar allra Liverpool aðdáenda sem muna eftir mjög vel eftir þessum hörmulega degi. Maðurinn sjálfur sem hleypti 5000 manns inná svæðið sem hrundi á gamals aldri loksins að viðurkenna hörmuleg mistök og þá algeru siðblindu að ljúga sig útúr vandræðunum.
  http://fotbolti.net/news/12-03-2015/yfirmadur-oryggismala-a-hillsborough-vidurkennir-lygavef

  Það var ekki lítið sem Margaret Thatcher, breska löggan og götublöðin gerðu í framhaldi til að níðast á syrgjandi ættingjum og minningu þeirra sem létust og Liverpool aðdáendum í heild.
  Þessi frétt á eiginlega alveg skilið sérfærslu hér á kop.is

 5. Ég væri til í að sjá okkur í samstarfi við neðri deildar félag á Englandi svo við getum sent leikmenn nokkuð frjálslega þangað, og kallað þá síðan tilbaka úr láni þegar við viljum. Chelsea gerir svipað með Vitesse Arnheim í Hollandi en vanalega koma þeir leikmenn ekkert aftur, en það er önnur saga.. Þetta gæti auðveldað fyrir þessa stefnu hjá félaginu og við gætum grætt helling á því.

 6. Ég hef engu við að bæta en af því að það eru svona fá comment vildi ég bara segja frábær pistill!

 7. Smá þráðrán en hversu hlægilegt er það að Pulis hafi unnið þjálfari mánaðarins og Kane leikmaður mánaðarins? Rodgers ósigraður á árinu og vann meðal annars Crystal Palace, Tottenham, Southampton og Man City(1 Mars reyndar). Ótrúleg þessi “dómnefnd” sem ákveður svona.

 8. Rétt Davíð! Ætli Coutinho hefði ekki fengið þessi verðlaun ef hann væri enskur?

 9. Smá svar við #6 og viðbót í færsluna:

  Þetta virðist strax vera komið í gang þó það sé kannski ekki beint í formi eins ákveðins liðs. Félagið er eins og segir hér að ofan búið að draga upp nokkurs konar óskalista með liðum og þjálfurum sem það telur henta best að senda leikmenn til.

  Við sjáum á síðustu tveimur leiktíðum hefur félagið sent tvo unga og góða leikmenn, þá Andre Wisdom og Jordon Ibe, til Derby undir stjórn Steve McClaren og er félagið held ég virkilega sátt með hve vel Derby hugsaði um þá og hjálpaði þeim. Derby er þar með komið ofarlega á þennan lista hjá Liverpool og Derby hlýtur að átta sig á því að þeir gætu því verið komnir í forgang með að fá góða leikmenn frá Liverpool að láni. Kæmi mér ekki á óvart ef einhver annar leikmaður okkar fer til þeirra á láni á næstu árum, jafnvel þó þeir komast í Úrvalsdeildina. Til dæmis gætu þeir hentað afar vel ef Liverpool skildi ákveða að lána til dæmis Origi, Ilori eða Teixeira innan Úrvalsdeildarinnar.

  Félagið sendi líka þá Kevin Stewart, Lloyd Jones og Jack Dunn á einu bretti til Cheltenham og gerðu fínt þar. Sérstaklega þeir Stewart og Dunn, sem skoraði 3 mörk í 5 leikjum, 4 mörk í 6 leikjum ef maður telur bikarinn með. Svo þeir voru ánægðir með það og við sjáum að Jones er strax farinn aftur á lán annað og nokkur lið horfa til Dunn sem stóð sig mjög vel og fer líklega annað fljótlega. Það eru fullt af útsendurum og þjálfurum liða í neðri deildunum sem mæta á varaliðsleiki og reyna að finna leikmenn sem hentar þeim að fá að láni.

  Malky Mackay góðvinur Rodgers er með Sheyi Ojo á láni hjá Wigan og hann er að standa sig frábærlega þar og ekki ólíklegt að við gætum séð einhverja leikmenn fara á lán þangað á næstunni. Sean Dyche hjá Burnley og Gary Monk hjá Swansea þekkja vel til Rodgers og kæmu eflaust vel til greina sem hugsanlegir lánþegar. Sama má segja um Mark Warburton hjá Brentford og Karl Robinson, sem áður þjálfaði í akademíu Liverpool, og er nú stjóri hjá Crewe.

  Liverpool virðist vera að búa sér til stórt og breitt tengslanet í deildirnar í kringum sig og er alls ekki ósennilegt að við gætum séð eitthvað samstarf á milli þessara og fleiri félaga í framtíðinni þó það verði ekki endilega skriflegt samkomulag við nokkur félög. Orðspor leikmanna Liverpool og gæða þeirra fer ört vaxandi og það verður án efa auðveldara að lána leikmenn á góða staði á næstu misserum, jafnvel innan Úrvalsdeildarinnar.

  Það er auðvitað ekki hægt að reikna með því og áætla að allir þessir efnilegu leikmenn nái að fóta sig í aðalliðinu. Sumir geta orðið fastamenn, aðrir frá einhver minni hlutverk en aðrir ekki nægilega góðir – þá er mikilvægt skref að Liverpool framleiði marga leikmenn sem eru þó nógu góðir fyrir þessar stærstu deildir í kring. Það er hellings peningur í því og tekjulind sem Liverpool hefur þurft að ná að betri tökum á lengi vel.

  Félagið setur hellings pening inn í unglingastarfið sitt, við sjáum það til dæmis bara í upphæðunum sem liðið hefur lagt í til að fá stráka eins og Sterling, Ibe, Ojo, Sinclair, Yan Dhanda og fleiri á unga aldri. Að fá svona stráka eykur líkurnar á að þeir brjóti sér leið í aðalliðið og ef félaginu tekst að selja frá sér leikmenn sem það elur upp á meiri pening til að auka fjármagnið sem kemur í akademíuna þá geta líkurnar á að fá fleiri Sterling-a í unglingastarfið til muna.

  Við sáum Man Utd gera þetta með afar góðum árangri í mörg ár. Phil Bardsley, Ryan Shawcross, Kieran Richardson og þar eftir götunum gerðu vel á lánssamningum, áttu einhverja leiki með aðalliðinu og þó þeir voru ekki nógu góðir fyrir aðallið Man Utd þá voru þeir nógu góðir í 1.deildina og Úrvalsdeildina. Þeir gátu því selt þá á mikinn hagnað sem skilaði fjármagni upp úr nær engu til félagsins.

  Segjum sem svo að Liverpool telji Wisdom, Teixeira og Ojo, sem allir eru á láni núna, ekki nógu góða fyrir sig en þeir sýna það og sanna að þeir eiga vel heima í Úrvalsdeildinni eða 1.deildinni að þá er kannski félagið búið að græða 10 milljónir punda á þeim samanlagt og það er hægt að fá þó nokkra Sterling-a í akademíuna fyrir það! Teixeira fékkst á 800 þúsund pund frá Sporting Lisabon en það hljóta að fást einhverjar 5-6 milljónir fyrir hann núna. Þetta gæti verið frábær leið fyrir félagið til að fá aukið fjármagn til félagsins.

  Því meiri metnað, pening og gæði félögin setja í unglingastarf sitt því mun líklegra er að það skili sér inn leikmönnum í aðallið þeirra eða geti aukið tekjur þeirra. Mér finnst algjör snilld að Liverpool hefur verið að fara all in í þetta undanfarin ár og það virðist vera farið að skila sér í dag.

  Ps. Í þessum töluðu orðum eru orðrómar um að Jerome Sinclair sé á leið til Malky Mackay og lærisveina hans hjá Wigan á láni. Þannig að tengslanetið er strax að sýna sig 😉

 10. Tek undir með AEG, rosalegur áfangi í þessari baráttu að sjá Duckenfield játa sínar lygar. Þessum vitnaleiðslum er þó (hvergi nærri) ekki lokið og ætli við tökum þetta ekki betur saman 15 apríl n.k.

 11. Þetta er lang besta leiðin til að standa í hárunum á fjársterkustu liðinum á Englandi að ráða til sín færustu þjálfarana til að ala upp unga leikmenn hjá félagin. Lið eins og Man Und, Man City, Chelsea, hafa ekki þolinmæði til að lýta til framtíðar. Þeir verða að sjá árangur strax og kaupa til þess leikmenn á uppsprengdu verði.

  Liverpool er búið að tryggja sér ansi marga þúsundkalla bara á Raheem Sterling og Jordon Ibe og ef fleirri bætast við eingöngu tveir til þrír sem búa yfir svipuðum gæðum og þeir úr unglingastarfinu þá erum við komnir með leikmannahóp sem er ívirði þúsund gullkistna.

  Í versta falli þyrftum við að selja þessa leikmenn – en ef það er á sanngjörnu verði er hægt að kaupa mikil gæði í staðinn ef Liverpool kann að hegða sér hinum almenna markaði sem þýðir að liðið mun viðhalda gæðum sínum inn á vellinum.

  Held samt að það verður alltaf takmarkið að halda þessum leikmönnum og taka það aldrei í mál að selja þá nema á mjög góðu verði. Arsenal hefði aldrei farið að selja sína leikmenn ef þeir neiddust ekki til þess vegna þess að þeir stóðu í miðjum byggingarframkvæmdum.

 12. Aðeins off-topic: Eygum við ekki að fara að bjóða í Nathaniel Clyne? Klárlega að verða sá besti enski hægribakvörðururin.
  En sjé bara að hann er linkaður við Chelsea og United.

Kop.is Podcast #78

Byrjunarliðið?