Man City á sunnudag

Það er skammt stórra högga á milli, en okkar menn taka á móti Manchester City á sunnudag og hefjast leikar kl. 12:00.

Liverpool-FC-vs-Manchester-City-FC-2014-Premier-League-Wallpaper

Þarna mætast því liðin sem börðast fram í lokaumferðina um sigur í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð og er formið á þeim nú ekkert svo frábrugðið forminu í fyrra þegar þessi lið mættust á Anfield. Liverpool er í efsta sæti “form deildarinnar”, hefur tekið 16 stig af 18 mögulegum í síðustu 6 leikjum á meðan City hefur eingöngu náð að hala inn 9 stigum úr jafnmörgum leikjum. Það segir þó ekki nema hálfa söguna, en City menn hafa tekið 14 stig af síðustu 16 í síðustu 6 útileikjum sínum og sitja á toppnum í útivallarformdeildinni, rétt fyrir ofan okkar menn.

form tafla

Það er ansi margt undir í þessum leik. Bæði lið eru að koma inn í þennan leik eftir mikil vonbrigði í Evrópukeppnum í vikunni og hvorugt lið má við því að tapa stigum. City er auðvitað að elta hitt olíu liðið, Chelsea, á meðan okkar menn hafa verið frábærir það sem af er árs og náð að spila sig all rækilega í topp 3/4 baráttu. Prógramið hjá Liverpool er þó nokkuð strembið og ljóst að við megum ekki við því að tapa mörgum stigum þar til sú feita syngur í maí.

Man City

City liðið er merkilegt nokk algjörlega laust við meiðsli og leikbönn og ætti því að geta stillt upp sínu sterkasta liði á sunnudag. Aguero er enn að spila sig í form, hefur ekki alveg náð sömu hæðum síðustu vikurnar og hann t.d. byrjaði tímabilið, en á slæmum degi er hann samt betri en allir okkar strikerar á góðum degi, utan Sturridge.

Þegar maður skoðar hópinn hjá þessu City liði þá finnst manni alveg ótrúlegt að þetta lið skuli ekki vera meira dóminerandi í ensku deildinni. Þetta er ekki lið eða hópur sem á að vera í basli heimafyrir með “litlu” liðin, og alls ekki lið sem rétt á að slefa upp úr riðlinum í meistaradeildinni.

Ekki nóg með að City liðið sé að koma inn í þennan leik með besta útivallarárangurinn, heldur virðast þeir vera hrokknir í gírinn (heima fyrir amk), hafa unnið síðustu tvo leiki samanlagt 9-1. Slátruðu Newcastle á heimavelli 5-0 og unnu öflugan 1-4 útisigur á Britannia.

Það er frekar erfitt að skjóta á liðið hjá þeim bláklæddu, en ég ætla engu að síður að reyna – segi að Pellegrini stilli þessu svona upp:

Hart

Zabaleta – Kompany – Mangala – Kolorov

Nasri – Fernandinho – Toure – Silva

Aguero – Bony

Held að hann brenni sig ekki aftur á því að spila ekki með Fernandinho á miðjunni, aðrir eru nokkuð sjálfvalnir. Silva, Aguero og Toure eru í algjörum heimsklassa þegar þeir eru í formi. Og Nasri er fínn leikmaður þegar hann nennir því, bara verst hvað hann virkar hrikalega …. skulum segja franskur.

Þessi Mangala gæi í vörninni hjá þeim. Talað um að City hafi borgað um 31 milljón punda fyrir kappann, en miðað við það sem ég hef séð af honum hefði ég séð eftir 3,1 milljón, hvað þá 10 sinnum hærri upphæð. Vörnin heldur því áfram að vera stæðsta vandamál City.

Að lokum tippa ég á að Bony fái að byrja sinn fyrsta leik. Hefur oftar en ekki reynst okkur virkilega erfiður.

Liverpool

Hvernig er best að undirbúa sig fyrir heimsókn frá ríkjandi meisturum? Veit það ekki, en ég er nokkuð viss um að það sé ekki best að spila 120 mínútur á fimmtudagskvöldi…. í Tyrklandi…. og flugi svo seinkað í þokkabót. Þetta er einmitt hættan þegar liðið þitt spilar í EL. Þar er spilað á fimmtudagskvöldi, og þú færð alltaf skemmri undirbúning en andstæðingurinn helgina eftir (nema hann sé í EL einnig auðvitað). Roy Hodgson trúir kannski ekki á þreytu og sport science, en flestir aðrir gera það. Hvað um það, það þýðir ekki að kvarta yfir þessu – það er of stutt í leikinn og það er of mikið undir.

Okkar menn eru aðeins verra settir en gestirnir þegar það kemur að meiðslum. Brad Jones, Johnson, Gerrard og Lucas eru allir frá vegna meiðsla og Henderson og Sakho eru eitthvað tæpir (þó svo að búist sé við að þeir verði leikfærir). Aðrir eru nokkuð heilir og mættu menn eins og Sturridge alveg fara að detta í gírinn, man ekki eftir honum jafn slökum og lötun eins og í síðasta leik síðan hann gekk til liðs við Liverpool.

Ég hef annars ekki miklar áhyggjur af varnarlínunni hjá okkur. Sakho spilaði ekki í Tyrklandi, Lovren hefur varla spilað leik í tvo mánuði og ætti því að þola tvo leiki á þremur dögum og Skrtel er bara Skrtel. Ég hef meiri áhyggjur af miðjunni, enda við án Gerrard og Lucas og Allen & Can spiluðu báðir 120 mínútur á fimmtudaginn.

Ég sé ekki alveg hvernig hann ætlar að stilla liðinu upp. Ef Rodgers byrjar með Sterling, Coutinho og Sturridge þá er ekki pláss nema fyrir tvo af Allen, Henderson og Can á miðjunni. Ég hallast einmitt að þeirri uppstillingu og að Can færi sig aftur í miðvörðinn á kostnað Lovren. Á móti kemur að það kæmi nákvæmlega ekkert á óvart þó svo að hann tæki Sterling úr liðinu og myndi reyna að þétta miðjuna aðeins.

Ég ætla að skjóta á þetta lið:

Liðið

Spá

Sigur og við erum í frábærum málum. Jafnteli eða tap og tímabilið er ekki búið, en þetta verður alltaf erfiðara og erfiðara með hverju stiginu sem við töpum. Það er ekki óskastaða að vera spila á fimmtudagskvöld og svo aftur í hádeginu á sunnudag, en það er aftur á móti engin afsökun heldur ef illa fer. Það voru notaðar um 100 milljónir punda til þess að styrkja hópinn, auka við breiddina í liðinu til þess að geta spilað sig út úr aðstæðum sem þessum.

Mikið væri ég til í annað ….. Coutinihooooooooo…… Ohhh dammit. Ég fer bara á bömmer þegar ég horfi á myndbönd frá því í fyrra. So close, yet so far.

Ég var búinn að skrifa niður að ég héldi að við myndum tapa þessum leik, en þá greip hjartað inn í – það fær að ráða í þetta skiptið….. Ég ætla að spá okkar mönnum 2-0 sigri! Ég held að trúin sé meiri hjá okkar mönnum að við getum náð topp 3/4 en trúin hjá City mönnum að þeir geti náð Chelsea. Sturridge kemur til baka og hættir að fara alltaf flóknu leiðina, margfalda með fjórtán og reyna svo að diffra áður en hann skýtur eða sendir helvítis boltann og skorar bæði mörk okkar manna!

7413__3252__together_lfc_(1280x1024)

YNWA

21 Comments

 1. Maður er að vona að Sakho og Henderson verði leikfærir, og þá eru þeir plús Markovic og Coutinho ferskir. Svo spiluðu hvorki Lallana, Ibe né Balotelli allan tímann, og gætu þess vegna komið við sögu. Hef mestar áhyggjur af miðjunni, því bæði Allen og Can spiluðu allan tímann á fimmtudaginn.

 2. Ég væri til í að gefa Sturridge frí. Byrja með Sterling og Balotelli og hafa Ibe til vara. 2 skapandi leikmenn og Lallana til vara. Vera bara með einn varnarsinnaðan miðjumann, hver svo sem væri heill og færa Can aftur í vörnina. Spurning hvort þetta lið myndi tapa 5-0 en ég held að þetta gæti verið sterkt sóknarlega og spái 3-2 fyrir okkur. Sterling, Balotelli og Ibe með mörkin.

  Sterling Balotelli
  Coutinho Markovic
  Moreno Allen Manquillo
  Lovren Skrtel Can
  Mignolet

 3. Vinnum thetta 2-1 med mørkum fra Kutnum og Sturridge! Menn mæta alveg dyrvitlausir i thennan leik eftir eufa dæmid.

  YNWA!

 4. Mikið væri ég til í að Lovren skoraði sigurmarkið í uppbótartíma!!!
  YNWA

 5. Ef Henderson og Sakho eru búnir að ná sér þá er hægt að stilla upp okkar sterkasta liði að Lucasi undanskildum. Því ættu að vera góðar sigurvonir á sunnudaginn.

 6. best að jinxa helginni…hálfleiksstaðan er allavega ágæt. Southampton er 1-0 undir gegn WBA og Man Utd tekst enn ekki að skora hjá Sunderland. Þeir eiga nú samt eflaust eftir að gera það…

  Tel annars nokkuð ljóst að byrjunarliðið verði nokkurn veginn svona. Væri til í að sjá Sterling settan á bekkinn fyrir Lallana. Leikurinn verður mjög erfiður og ég verð út af fyrir sig ánægður með jafntefli. Möguleikarnir eru þó sannarlega fyrir hendi.

 7. Smá spurning til ykkar sem eruð þrælvanir hérna í kringum Anfield. Er ekki nauðsynlegt að mæta á Park 1 1/2 til 2 tímum fyrir leik til að komast inn?

 8. Algjört lágmark Rúnar að mæta 2-3 tímum fyrir leik 🙂

 9. Ég væri til í að vera svona bjartsýnn að spá okkar mönnum 2-0 sigri en því miður þá er ég það ekki. Man CIty eru svakalega sterkir og ég held að þeir vinni þennan vell því þeir mega ekki við því að tapa sjálfir mörgum stigum í baráttunni við Chelsea í titilbaráttunni.

  Það eru tvö lið í deildinni sem eru klárlega betri en okkar menn,city og chelsea.

 10. Leikurinn á fimmtudaginn er mikið áhyggjuefni en vonandi vinnur það með okkar mönnum að þetta eru mest allt strákar sem eru rétt rúmlega 20 ára og þurfa ekki eins langan tíma til að jafna sig eftir leiki og eldri leikmenn. Það er töluvert annað fyrir Can og Sterling að ná síðasta leik úr sér heldur en t.d. Toure og Skrtel. Meðalaldur City er 2,5 árum meiri en Liverpool og kannski hjálpar það líka (megum reyna grafa eitthvað upp).

  Af öllum liðum í deildinni myndi ég hafa Can á miðunni gegn miðju Man City. Chelsea er hitt liðið og Can var á miðjunni í þeim leik (og skoraði). Joe Allen hefur staðið sig ágætlega undanfarið en mér lýst EKKERT á að stilla honum upp gegn Yaya Toure, frekar langar mig að sjá Can taka þann slag. Myndi því gefa Lovren strax séns á að spila úr sér vonbrigðin í Tyrklandi og hafa hann í vörninni með Sakho og Skrtel.

  Henderson er víst ekki 100% öryggur sem er gríðarlega mikið áhyggjuefni, án hans megum við ekki vera og allra síst gegn City. Markovic ætti að koma óþreyttur inn í sína stöðu og líklega spilar Moreno áfram vinstra megin.

  Coutinho er sjálfkjörin en ég er ekki eins viss með hinar tvær stöðurnar. Sterling og Sturridge eru líklegastir eru alls ekki öruggir eftir síðasta leik. Lallana gæti verið með Coutinho fyrir aftan sóknarmann og Rodgers gæti vel byrjað aftur með Balotelli og Sturridge saman frammi. Byrjunarliðið verður áhugavert að vanda a.m.k.

  Rosalega svartsýnn fyrir þenna og sleppi því bara að spá.

 11. Liverpool eiga reyndar leik á miðvikudagskvöld Babu.
  Vinnum City 1-0.

 12. Þetta verður svakaleikur er að reyna sannfæra vinnufélagan(þar sem við erum bara 2 hér ) um að taka pásu rétt yfir leiknum á morgun en fótboltaleikir eru ekki ofarlega á hans forgangslista…..en látum hann ekki stoppa okkur YNWA!

 13. Get nú ekki með nokkru móti verið sammála Babú nr. 10 hérna. Fyrir það fyrsta þá nefnirðu leikinn gegn Chelsea þar sem að Can skoraði hálfgert heppnismark (Lampard-mark) og við áttum ekki glætu nánast allan tímann. Miðjan var alveg sama gatasigtið þá og framan af tímabili.

  Að því sögðu þá er það algjört grundvallaratriði í því kerfi sem BR er búinn að vera að þróa sl. 2 mánuði að í vörninni séu menn sem geta borið boltann fram úr vörninni, skilað honum á öruggan og góðan hátt til miðjumanna, eða jafnvel tekið af skarið og keyrt fram sjálfir (líkt og Can hefur verið duglegur að gera). Þetta sást sérstaklega vel gegn Besiktas sem og aðeins gegn Southampton. Í báðum leikjum átti liðið í stökustu vandræðum gegn aggressívri pressu andstæðingsins. Gegn Besiktas mátti sjá að liðið gat með engu móti komið boltanum út úr pressunni sem Besiktas héldu upp (https://twitter.com/ManhattanDoc – fyrir þá sem nenna að skrolla aðeins niður þá er þarna ágætis greining á því af hverju Can ætti að vera í vörninni á þessum tímapunkti) Öllu skárra gegn þeim síðarnefndu, þ.e. Southampton, þar sem að Can var í vörninni. Það sást einstaklega vel gegn Besiktast hins vegar hve mikilvægir þeir eru í vörninni, bæði til að hjálpa Skrtel í varnarvinnunni og til að bera boltann upp.

  Can hefur einnig að mínu mati ekki ennþá átt góðan heilan leik þar á miðjunni, hvað þá sem djúpur miðjumaður. Jú, það hefur gengið ágætlega að setja hann á miðjuna þegar langt er liðið á leiki til að hrista upp í hlutunum og til að auka sóknarþungann. Eins og staðan er þó í dag í leikmannahópnum nýtist hans tæknileg geta langbest í vörninni. Innkoma Allen hefur mér fundist vera góð og sýna fram á að það skiptir ekki öllu hver sé fyrir framan vörnina, heldur aðallega að það sé einhver fyrir framan hana. Það var t.d. Gerrard ekki að gera. Lucas gerði það vel en Allen virðist líka alveg valda þessu hlutverki. Lykillinn að þeirra frammistöðum fyrir Besiktas leikinn var að þeir spiluðu með Henderson á miðjunni sem sá um hlaupin. Því var augljóslega ekki til að dreifa gegn Besiktas.

  Að mínu mati skortir ákveðna gagnrýna hugsun í stuðningsmenn okkar manna þessa dagana. Fólk vill sjá Balotelli einan frammi eftir nokkrar ágætar innkomur og Can taka stöðu allsherjarmiðjumanns. Vil benda fólki á að skoða þessar frammistöður í samhengi. Það er t.d. augljóst að Balo þarf að hafa ákveðnar týpur af leikmönnum með sér til að fúnkera vel. Eins og er fæst mest út úr honum sem skiptimaður. Varðandi Can vísast til þess sem var rakið hér að ofan.

 14. Vona innilega að Sturridge byrji inná og hrökkvi í gang og setji 2 mörk. Afturámóti hef ég smá áhyggjur af kappanum, er ekki frá því að hann hafi ofmetnast og í honum búi þónokkuð af hroka sem kemur í ljós í leikjum s.s. t.d. hvað hann einspilar og gefur boltann ekki nógu oft. Það ekki hjálpaði til að hann skildi skora mark á fyrstu mínútum sínum í fyrsta leik eftir meiðsli.
  Efast samt ekki um að Rodgers hnippi í kappann og lagi þetta.
  Í aðra höndina er ég svo svartsýnn fyrir leikinn en bjartsýnn á hina, eigum við ekki að segja bara. 1-1.

 15. Sæl og blessuð.

  Eitthvað kallar Nostradamusarspá mín um taplaust vor á túlkun og ritskýringar. Allt í lagi með það.

  Ég játa að þessi rimma verður þung og einhvern veginn finnst manni sem allt sé mótdrægt. Liðið hrökk svo sannarlega í gírinn en eftir síðasta leik er hætta á að vagninn detti að nýju í hlutlausan. Henderson er mænan í liðinu og það kemur svo berlega í ljós, Snati minn, hversu átakanlega erfiðir leikirnir eru án hans.

  Ef Sturridge fer að finna fjölina sína gæti sitthvað gott gerst en þetta verður svaðalegt.

 16. Flottar pælingar og þessi leikur í dag einn af 3 lykilleikjum sem eftir eru. 🙂
  Ég er bjartsýnn. Bæði lið koma inn hàlf vængbrotin eftir vikuna og erfitt að segja til um hvað er að fara að koma fram á grasinu í dag.
  City eru alla daga sigurstranglegri þannig er það nû bara og þess vegna eru sigurdraumarnir svæsnari fyrir andstæðinga þeirra.
  En maður vinnur ekki á draumum og held að BR hljóti að setja kjötstykkið hann Can á Toure í stað þess að hafa svona álf eins og Allen í hjarta miðjunnar. ( Fyrir utan það hvað Allen er sóknarlega misþroska)

  En ég er með fiðring à stöðum sem ekki er hægt að nefna fyrir þessum leik. Verður stórgóð skemmtun 🙂

  YNWA

 17. væri til að gefa Sterling frí, ofmetin blaðra að verða. Balotelli frá fyrstu mínútu og ekkert bras…

 18. Fékk martröð í nótt og vaknaði með andfælum.

  Dreymdi að ég hefði misst af leiknum og var að kíkja á kop.is til að lesa umfjöllun um leikinn en það var engin umfjöllun heldur aðeins grein frá Babú um keppni í skíðagöngu í Noregi.
  Þá læddist að mér illur grunur um að leikurinn hefði farið illa enda var það svo.
  Fann úrslitin á fotbolti.is og endaði leikurinn Liverpool -M. city 2-3.
  Að vísu hefur mig dreymt ansi oft úrslit í leikjum Liverpool í vetur en… draumarnir hafa aldrei ræst.
  Þannig að Liverpool vinnur í dag.

 19. Sælir félagar

  Þetta verður hörkuleikur þar sem dramatíkin (sú leiðindatík) mun hafa völdin. Ólíklegustu menn skora og aðrir, meira ætlaðir, klikka. Spái 4 – 2 og koma svo.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 20. #17. Ég er nokkuð viss um að Babú getur skrifað langhund um skíðagöngu í Noregi ef við skorum á hann. En kannski ekki á þessa vefsíðu.

  En að leiknum. Þetta verður erfitt. Slæmt að koma frá erfiðum og svekkjandi tapleik í Tyrklandi aðfaranótt föstudags og hafa lítinn sem engan undirbúning. Eins er erfitt að þurfa að spila nánast sama liði og þá, með 2-3 undantekningum.

  Ég er frekar svartsýnn og spái 1-2 tapi gegn City. En ég er bjartsýnn á framhaldið og þetta blessaða 4. sæti er fullkomlega raunhæfur möguleiki áfram sama hvernig fer í dag.

Tilkynning: Nýr heimavöllur stuðningsmanna á Akureyri

Liðið gegn City