Hver vill taka ábyrgð? Vinsamlegast réttið upp hönd!

Mikið varð ég brjálaður í gærkvöldi þegar Dejan Lovren tók upp boltann, lagði hann á vítapunktinn og blastaði honum svo yfir markið. Auðvitað, maður verður brjálaður þegar liðið manns fellur úr leik í hvaða keppni sem er. Af hverju Brendan? Hvernig dettur þér til hugar að láta mann taka fimmta vítið sem virðist vera með sjálfstraust langt undir frostmarki? Er stjórinn svona firrtur að hann hafi ekki séð hvernig Lovren hefur verið í vetur? Jú, ætli það ekki, ætli hann viti ekki nokkuð vel um allt sem snýr að Lovren blessuðum. Eftir að hafa sofið á þessu, hugsað meira um þetta og skoðað hlutina í samhengi, þá held ég að ef eitthvað er, þá ætti maður að bera meiri virðingu fyrir Lovren eftir gærdaginn heldur en minni. Af hverju? Er von að menn spyrji?

Það er nú bara þannig að þegar kemur að vítaspyrnukeppnum þá ræðir stjórinn við leikmenn og kemst að því hverjir það eru sem treysta sér í dæmið, menn sem sagt stíga upp og ákveða að þeir séu tilbúnir að leggja hálsinn á höggstokkinn. Þetta voru nú engar grín aðstæður þarna í gær, ég held að allir sem horfðu á leikinn hafi heyrt hvernig andrúmsloftið var á leikvanginum. Af öllum mönnum í liðinu, þá stígur Lovren upp, vitandi það að klúður hjá honum myndi heldur betur grafa gröf hans enn dýpri hjá stuðningsmönnum, en með því að skora úr vítinu, líklegast bætast bara í hóp nokkurra annarra vel heppnaðra víta. Já, hann steig upp, setti haus sinn að veði og klikkaði svo reyndar. Án gríns, virðing mín fyrir honum jókst í gær. Það nefninlega telur að taka ábyrgð.

Það leiðir mig að öðrum leikmanni, reyndar ungur að árum, en það er ekki að hindra hann í því að halda félaginu í limbó þegar kemur að samningaviðræðum. Raheem Sterling. Ef þú ert að verðleggja þig hátt, fara fram á ævintýralega mikil laun, áttu þá ekki að vera einn af þeim sem býðst til að taka víti í svona aðstæðum? Þú ert jú sóknarmaður og ert aðeins vanari því að standa andspænis markinu en einhver sem spilar í öftustu línu. Jú, þú ert ekki með reynslumeiri mönnum svona almennt séð, en gleymum því ekki að Emre Can steig upp, skoraði úr sínu víti. Ekki er hann nú reynslumeiri en Sterling, jafnaldri hans meira að segja. Ég verð hreinlega pirraður við tilhugsunina og eins spenntur og ég er almennt fyrir Raheem Sterling sem leikmanni, þá finnst mér að hann ætti núna að fara að hripa undir þennan samning sinn og taka smá ábyrgð. Í ofanálag var hann annar af tveim slökustu mönnum vallarins í gær, hann og Sturridge virtust lítinn áhuga hafa á því sem fram fór á vellinum og hvað þá að vera hluti af liði.

Nei, eins skringilega og það hljómar, þá hækkaði Lovren í áliti hjá mér í gær en Sterling datt niður tvö þrep. Nú er að hysja upp um sig brækurnar og takast á við næsta verkefni og það væri fínt að vaða inn í lagi gegn City með blekið nýþornað á nýjum langtíma samningi við Raheem Sterling og hann tilbúinn að taka á sig skuldbindingar sem honum tilheyra og stíga hressilega upp.

28 Comments

 1. Sæll Steini, takk fyrir þetta innlegg. Var nýbúinn að pósta á leikskýrsluna þegar þessi pistill kom þannig að ég læt sama komment flakka hér.

  “Ég komst þannig að orði eftir leik „WHY LOVREN, WHY“ og þá meinti ég ekki að hann væri fífl og asni fyrir klúðrið, heldur set ég spurningarmerki við að láta mann sem vafalítið er góð vítaskytta (veit ekkert um það) en er með sjálfstraustið í lágmarki taka mikilvægustu spyrnuna.

  Spyrna 1 og spyrna 5 eru þær spyrnur sem mesta pressu hafa og þeir sem eru bestu vítaskytturnar og/eða hafa sjálfstraustið í botni eiga að taka þær, ekki maður sem hefur ekki náð sér á strik hjá félaginu, er að berjast fyrir að standa undir háum verðmiða + hefur ekki verið fastamaður í byrjunaliðinu síðan fyrir jól. Þarna set ég spurningarmerkið.

  Ég get skilið vel þann punkt að kanski var þetta bara fínt að detta út núna til að eiga meiri orku í það sem eftir lifir, þ.e.a.s. bikar og 4. sæti. En ég get engan veginn verið glaður yfir því að Liverpool tapi leik, bara get það ekki.

  Svo fannst mér merkilegt að skifta Balo út en ekki Sterling í gær, ekki Það að Balo hafi verið að sýna einhverja meistaratakta, en hann gerði þó meira en Sterling, og þurfti svosem ekki mikið til.

  En jamm og jæja, nóg um það. Nú er fókusinn á það sem eftir lifir.

  Áfram Liverpool YNWA”

  góðar stundir

 2. Ætla svosem ekkert að verja Sterling, en kannski reyna að finna samhengi í hlutunum.
  Sterling kemur ungur inn í klúbbinn og hefur staðið sig vel undanfarið við að taka ábyrgð á sóknarleik liðsins þegar allt virtist vera að fara úrskeiðis hjá félaginu.

  Can er keyptur frá Leverkusen en upp yngri flokka og landslið hefur hann verið fyrirliði, og maður hefur séð á honum leiðtogahæfileika hans, t.a.m. eftir sigurmark Balo í fyrri leiknum gegn Besiktas.
  Sama pæling virðist hafa verið í kaupunum á Sakho, þ.e. hann er búinn að vera fyrirliði þrátt fyrir ungan aldur og þannig taka á sig mikla ábyrgð.

  Það er alveg spurning hvort Sterling hafi barasta verið feginn þegar Sturridge kom til baka úr meiðslum eða hvort hann hafi einfaldlega verið of þreyttur til þess að treysta sér til þess að taka víti. Það þarf jú líka pung í það að viðurkenna að þú hafir einfaldlega ekki orkuna í að taka vítið.

 3. Er reyndar sammála Steina varðandi að Lovren á alla virðingu skilið fyrir að hafa þó tekið vítið vitandi að hann yrði tekinn af lífi ef hann klúðraði. Og það getur vel verið að Sterling hafi afsalað sér vítaréttinum, en þessi ákvörðun hver tekur vítið/vítin á náttúrulega að vera stjórans.

  Persónulega miðað við mannskap vildi ég að Skrtel hefði tekið vítið. Hann hefur verið á góðu skriði, er fínn skotmaður og með taugar í það.

 4. Þetta er skemmtilegt sjónarhorn, ég var ekki búinn að hugsa þetta svona, en viðurkenni að eftir að hafa horft á leikinn í gær sást mjög vel veikleikinn hjá okkar mönnum.
  Joe Allen er svo mikill farþegi í þessum hóp að það hálfa væri nóg, sköpunin var lítil sem engin og menn virtust sárlega sakna Henderson á miðjunni og Coutinho í skapand.
  Ég er afskaplega hrifinn af Can og framtíðin er svo sannarlega björt fyrir klúbbinn, en mikið er ég sammála þessum pistli, menn verða að stíga upp og taka ábyrgð!

 5. Hjartanlega sammála þessu Steini.

  Lovren sýndi kjark á meðan aðrir sýndu kjarkleysi. Maður sem fer frá a 120-130.000 pund á viku hefur hreinlega ekki leyfi til að fela sig á bak við reynsluleysi. Sterling er t.d búin að spila jafn lengi í Ensku deildinni og Lovren. Þeir sem töpuðu leiknum í gær voru Sturidge og Stearling með ömurlegri frammistöðu. Vörnin okkar var fín og ekkert hægt að gera við þessu frábæra marki sem Arslan setti. Lífið heldur samt áfram og nú er það Man C um helgina

  YNWA

 6. Ég er sammála. Virðing mín fyrir Lovren eftir þetta er orðin töluvert meiri en hún var fyrir vítið. Ég vil að leikmenn Liverpool hafi “balls” og það að Lovren með nær allan Liverpool stuðningsmannaskaran á bakinu á sér, viljandi höfuð hans á priki og þar fram eftir götunum skuli stíga upp til að taka fimmtu og síðustu spyrnu liðsins í vítaspyrnukeppni fyrir framan smekkfullan leikvang af blóðheitum og vel stemmdum Tyrkjum sýnir að hann hefur pung.

  Þetta hefur ekki verið auðveld ganga að punktinum hjá honum. Alls konar hugsanir hljóta að hafa komið í hausinn á honum. Drauma félagsskipti hans til Liverpool hafa verið langt frá hans væntingum, þau hafa verið langþráð m.v. hintið sem hann gaf á Twitter áður en hann fór til Southampton og hann var tilbúinn að fórna stað sem honum virtist líða vel á til að koma á Anfield. Svipuð vandamál og félagar hans sem fóru sömu leið og hann í sumar eru líka að glíma við.

  Hann leggur restina af þeirri þolinmæði sem hann á eftir hjá stuðningsmönnum Liverpool á línuna þegar hann tekur vítið. Hann hefur engu að tapa en allt að vinna, hann veit þegar hann stígur upp á punktinn að hann getur unnið sér inn stig ef hann skorar en tæmir einfaldlega kvótann sinn ef hann klúðrar.

  Lovren sýndi pung, því miður klúðraði hann og hann þarf svo sannarlega ekki á því að halda. Ég vona að hann finni taktinn, þetta er fínn varnarmaður og virkar fínasti náungi og það er leiðinlegt að sjá leikmann liðsins í svona miklu móki. Vonandi spyrnir hann sér í botninn og bjargar ferli sínum hjá liðinu.

 7. Það sást úr flugvél að Lovren var eins og dópaður umrenningur, engan vegin tilbúinn að gera eitt né neitt. Fékk hann borgað fyrir þessa spyrnu?

 8. Ég hef, kannski ólíkt sumum hér inni, staðið frammi fyrir þeirri spurningu hvort ég treysti mér til að taka vítaspyrnu í bráðabana í bikarúrslitaleik á Íslandi, fyrir troðfullum Laugardalsvelli. Og ég get alveg sagt ykkur að það er meira en að segja það að taka svoleiðis ábyrgð á sig.

  Að gagnrýna mann sem stígur upp og tekur þá ábyrgð er bara einfaldlega ekki í boði, sama hvernig vítaspyrnan fer.

 9. Frábær skrif og skemtilegur vínkill á þetta sem ekki margir tóku á þetta….

 10. það er líka önnur ákvrðun hjá BR sem ég skil ekki. Hann byrjar með Balo og Sturridge frammi, í útileik í Evrópu verandi marki yfir ? Hvernig stendur á því að Lallana byrjar ekki þennan leik og Sturridge/Balo er einn frammi. Balo/Sturridge hefði svo getað komið inn þegar hálftími var eftir ef okkur hefði vantað mark. Alveg makalaust.

 11. Held að Lovren verði bara betri leikmaður eftir þetta.. sem er vel.

 12. Aðeins að koma því að í umræðuna afhverju Balo var tekinn útaf en ekki einhver annar, þá var kallinn á gulu og mikið böggast í honum. Að mínu mati átti að taka hann fyrr útaf meðal annars þessvegna.
  BR hlýtur að hafa ráðið röðinni á vítaskyttunum og setur þarna óþarfa pressu á Lovren.
  Að lokum, virðing og mikið þakklæti til koppara og síðuhalda er aldrei of oft talið upp.
  Takk fyrir mig.

 13. Vel sagt Steini og ég er algjörlega sammála þér.

  Eitthvað sem er nauðsynlegt fyrir menn að skilja áður en þeir froðufella í munni. Maður ber einmitt virðingu fyrir manni sem er viljugur að taka heilmikla ábyrgð og standa/falla með henni.

  Ég vona innilega að Lovren finni sjálfstraustið sem fyrst og byrji að spila á þeirri getu sem hann hefur yfir að ráða. Hann virkar allavega sem sterkur karakter á mann.

 14. HVað vítaspyrnukeppnina snertir þá vissi ég að við myndum líklega tapa henni út af þeirri einföldu ástæðu að annars stórgóður markvörður okkar er alveg skelfilegur þegar kemur að því að verja víti.

  Lovren var ágætur í þessum leik. Það sem mér fannst vandamálið er nákvæmlega sem þú segir- það vantaði hápressuna og því bökkuðum við óþarflega mikið og endaðiu það með marki.

  Þeir ættu að skoða hvernig íslenska landsliðið í fóbolta spilar varnarbolta ef þeim langar allt í einu að breytast í varnarlið þegar þeir spila alþjóðlegan bolta. Persónulega hefði ég viljað að þeir spiluðu bara sinn bolta en færu ekki að bakka svona. Þeim er það ekki eiginlegt.

 15. Ég tók þessu þannig að Lovren stóð upp til að taka ábyrgð, Brendan gerði ráð fyrir því að hann gæti klikkað undir pressu og var að vonast til að við þyrftum ekki allar 5 spyrnurnar til að vinna. Setti því Lovren á seinustu spyrnuna og vonaðist til að vera búinn að landa þessu áður en til hennar kæmi.

 16. Ég get ekki sagt að ég sé fúll útí lovren yfir því að hafa klikkað á þessu víti…. mómentið var einhvernveginn með besiktas í þessum leik frá a til ö og lovren sem og aðrir í vörninni komust alveg skammlaust frá sínu hlutverki í þessum leik.

  Get ekki alveg komist yfir það hvað sóknin var geld í þessum leik… kannski var það af því að miðjan var strípuð eða eitthvað… vantaði of marga pósta(gerrard,henderson,coutinho). hver veit.

  en svo ég droppi nú nettari bombu þá er mér alveg sama þótt við séum dottnir útúr þessari keppni… að drösla liðinu til langtíburtistan og annara útnára… þá held ég að það sé betra að reyna komast í topp 4 og F.A bikarinn heim

 17. Nú væri eina rétta í stöðunni að hafa Lovren inná í næsta leik og stuðningsmennirnir myndu kyrja nafn hans og stappa í hann stálinu á meðan leiknum stendur. Hann á skilið mikla virðingu fyrir það hugrekki að taka 5. vítaspyrnuna.
  YNWA

 18. Ok þetta Twitter dæmi hjá Lovren er bara æðislegt.
  Alvöru stuðningur hjá alvöru stuðningsmönnum 🙂

 19. Lovren brenndi af viljandi til að bjarga liverpool ferlinum, snillingur þessi maður!

 20. Flottur pistill og mikið er ég sammála því sem þar er. Þessi rimma tapaðist ekki á þessari síðustu spyrnu, heldur var það leikurinn heima ,því að það er þekkt að lið frá Tyrkland og Grikklandi eru alltaf hundléleg á útivöllum en svo með gríðarsterka heimvelli með svakalegum stuðningi áhorfenda. Það er auðvitað fúlt að detta úr keppni og sérstaklega með svona lélegum leik í gær , en hópurinn þarf að standa saman í gegnum þetta, VINNA sem lið TAPA sem lið !!

 21. Sælir félagar

  Sammála SSteini og öðrum þeim sem taka í sama streng.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 22. Að mínu mati hefur nú ekki vantað sjálfstraustið hjá Lovren, allavega ekki í kjaftinum á honum. Hann hefur bara verið að spila illa greyjið enda voru væntingarnar til hans sennilega þær mestu af þeim sem keyptir voru í sumar. Ég vona innilega að hann finni sig betur á komandi vikum og ég hef alveg trú á honum.

  En afhverju er enginn að tuða yfir því að Allen tók víti? Ef hann hefði klikkað hefði hann líka verið afhausaður. Fyrirfram hefði ég sennilega frekar valið Lovren en Allen til að taka víti.

 23. Sammala, eg hef alltaf haft miklar mætur a Lovren og hann mun nytast okkur mjøg vel a næstu arum. Klassaleikmadur!

Besiktas 1 – Liverpool 0 (Besiktas áfram eftir vítakeppni)

Tilkynning: Nýr heimavöllur stuðningsmanna á Akureyri