Ataturk…Istanbul…2015

Þeir sem voru búnir að bíða í margar vikur og jafnvel mánuði eftir ítarlegri og skemmtilegri fróðleiksgrein frá meistara Babú, þá verð ég að hryggja ykkur. Það er bara ekki að fara að gerast, ekki í þetta skiptið. Eflaust myndi ég fræðast talsvert um bæði Besiktas og Istanbul, enda fáir sem fara í skóna hans þegar kemur að slíkri snilld sem upphitanirnar eru. En ég þekki reyndar aðeins til í Istanbul, ekki mikið, en svolítið. Ég held að nafnið Istanbul sé eitthvað sem muni ávallt verða greypt inn í huga stuðningsmanna Liverpool, um aldur og ævi. Í rauninni má segja að það eigi ekki bara við um stuðningsmenn Liverpool heldur flesta áhugamenn um fótbolta. Það er sjaldnast sem menn muna eftir því hvar úrslitaleikir fara fram, sér í lagi þegar frá líða stundir. Þetta dæmi er þó einstakt því flestir eru sammála um að þarna hafi farið fram flottasti úrslitaleikur sögunnar, leikur sem bauð upp á gjörsamlega allt.

Já, við erum að fara þangað á nýjan leik, til sömu borgar, á sama völl. Það er ákveðin dulúð og rómantík sem eru bundin við orðin Ataturk og Istanbul. Það er talsvert öðruvísi að fara í úrslitaleik Meistaradeildar Evrópu, í fyrsta skipti í um tvo áratugi, eða að vera að fara í seinni leikinn í 32 liða úrslitum Evrópudeildarinnar tæpum 10 árum síðar. Það breytir þó ekki sjarmanum og veit ég af nokkrum félögum mínum úr Liverpoolborg, sem fóru með þetta alla leið, eru að fara í þetta ferðalag með eftirlíkingu af Big Ears í fararteskinu.

Big ears got through passport control and has also bought a round. Legend!!
Big ears got through passport control and has also bought a round. Legend!!

Þessi stund fyrir tæpum 10 árum er klárlega svona “manstuhvarþúvarst” stund. Sumir voru farnir út með hundinn í hálfleik, sturlaðir úr gremju og misstu af öllu saman. Sumir voru að fálma eftir gleraugunum sínum á gólfinu á Players. Sumir voru í trylltum stríðsdansi við allt og alla. Sumir voru í leigubíl á leiðinni út á flugvöll, nýfarnir af vellinum, hundsvekktir með að hafa eytt öllum þessum peningum fyrir þetta, FYRIR ÞETTA. Já fyrir þetta, þessa eina mögnuðustu stund í lífi stuðningsmanna Liverpool og einni mögnuðustu stund í íþróttasögunni. “Oh Istanbul…, Is Wonderful…, Oh Istanbul is Wonderful…” Þetta hljómar í hausnum á manni annað slagið og poppar upp á ótrúlegustu tímapunktum. Hvernig má það vera? Já, fótboltinn er magnaður og hefur alveg ótrúleg áhrif á þá sem dýrka hann og dá.

Mynd 2

Mér finnst samt ótrúlegt að það séu komin að verða 10 ár síðan þetta gerðist allt. Þetta voru einhverjir trufluðustu sólarhringar í mínu lífi, allt frá því við yfirgáfum klakann og þar til maður kom örþreyttur heim aftur á fimmtudagskvöldi. Þetta var ekki langt ferðalag í tíma talið, en það var langt í flugtímum og það var langt í huganum. Við ferðalangarnir frá Íslandi vorum að lenda á hótelinu okkar í miðbæ Istanbúl seint um kvöld á þriðjudagskvöldi. Auðvitað var farið beint út á Taksim Square þar sem hafsjór af fólki var, rauðklæddu fólki. Einhverjir tóku þetta alla leið og voru fram á morgun. Ég fór með honum Sverri Jóni vini mínum og reyndi að hitta á Scouse félaga mína, við fundum fljótlega leigubíl og ferðin var stutt, tók ekki nema 10 mínútur og kostaði tuttugu og eina milljón (fékk vægt sjokk að heyra töluna, en sem betur fer var þetta ekki í ISK). Fjörið var svo byrjað snemma morguns á miðvikudeginum og það sem maður sá, það er bara eitthvað sem ekki er hægt að lýsa eða koma orðum að. Liverpool stuðningsmenn út um allt gjörsamlega, upp á byggingum, í skemmtigörðum, bara alls staðar…syngjandi…glaðir…sem ein heild. M’er fannst ég vera í 70 þúsund manna fjölskylduboði, ættarmóti. Þarna skipti engu máli hvernig þú varst á litinn, hvernig bakgrunn þú hafðir, hvaða stöðu þú barst í þjóðfélaginu, frá hvaða landi þú varst. Það var bara einn, BARA EITT, þú varst í þessari geysilega stóru og flottu Liverpool fjölskyldu.

Pétur Árna, Einar Örn, Hjördís Karen, Siggi Reynis (með Víkingahjálm), SSteinn, Matty, Jón Óli og Hermann Stefáns á endanum. Á myndina vantar Sigga Hjaltested sem var vant við látin heima á Íslandi í prófalestri, hann hefur ekki enn náð því prófi.
Pétur Árna, Einar Örn, Hjördís Karen, Siggi Reynis (með hattinn), SSteinn, Matty, Jón Óli og Hermann Stefáns á endanum.
Á myndina vantar Sigga Hjaltested sem var vant við látin heima á Íslandi í prófalestri, hann hefur ekki enn náð því prófi.

Hún var stór, en ekki stærri en það að maður hitti alla sína kunningja þarna, þó svo að þeir væru að koma frá öðrum löndum. Vegard Heggem tók sömu rútu og við hinir á leið sinni á völlinn, bara sem einn af fjölskyldunni. Ferðalagið með rútunni á völlinn var líka ógleymanlegt. Íbúar Istanbúl voru á gangstéttunum alla leið, klappandi og veifandi á meðan keyrt var í gegnum borgina, og út úr henni. Já, út úr henni, því Ataturk er úti á freaking eyðimörk, aaaaleinn stendur þessi flotti leikvangur þar, úti í eyðimörk. Aðeins tveir vegir liggja í áttina að honum, annar var bara notaður af þessum örfáu AC Milan stuðningsmönnum, og komu þeir því í sínum rútum hinum megin frá. Okkar vegur var aðeins fjölfarnari, enda við í miklum meirihluta á vellinum. Við gáfumst upp þegar við sáum orðið völlinn og fórum úr rútunni og bættumst í rauða fljótið sem rann í átt að vellinum. Stórfengleg sjón þetta. Stærsti gallinn sem maður gerði samt í þessari ferð var að vera ekki nestaður í þetta dæmi. Maður var að fara þarna seinnipart dags, en áttaði sig ekki á því að það var eiginlega ekkert að fá þarna í kringum völlinn, hvorki vott né þurrt og þarna átti maður eftir að vera í næstum hálfan sólarhring. Inni á leikvanginum í hálfleik gat maður keypt poka af fræjum, ekkert annað.

Mynd 4

Ég ætla ekkert að fara neitt yfir leikinn sem slíkan, þess gerist ekki þörf. Stemmningin var bara ólýsanleg og maður trúði ekki sínum eigin augum og eyrum í hálfleik í stöðunni 0-3 þegar okkar stuðningsmenn byrjuðu að kyrja You’ll Never Walk Alone af áður óþekktum krafti. Hvað er að þessu fólki? Veit það ekki að við erum að skíta upp á bak? Er verið að gera grín? Þessar spurningar hurfu, á nokkrum sekúndum, það smituðust ALLIR af þessu og krafturinn varð bara meiri og meiri. The rest is history. Leikurinn og verðlaunaafhending var til klukkan langt gengin í tvö um nóttina. Ég ætla ekki út í rútuferðina tilbaka eftir þessum eina vegi sem rúturnar gátu farið, við skulum bara orða það þannig að við vorum komin upp á hótel um klukkan 05:00 um morguninn, sem passaði til, því rútan sem átti að flytja okkur út á flugvöll var væntanleg klukkan 05:30.

Hvað um það, ISTANBUL IS WONDERFUL… Og við erum mætt þangað aftur, allavega liðið okkar og sumir gallharðir stuðningsmenn.

Þá er kannski best að hita aðeins upp á hefðbundinn máta eftir þessa romsu mína. Kannski einhverjir hættir að lesa, enda kom þessi upprifjun þessum leik á morgun lítið við, en ég gat bara ekki setið á mér. Við sem sagt förum með 1-0 forskot í þennan seinni leik sem fer fram í Istan… Ok, Ok, sorry. 1-0 forysta eftir heimaleikinn er í rauninni tveggja marka forysta. Þeir þurfa alltaf að vinna okkur með tveim mörkum til að sigra viðureignina. Eins marks sigur þeirra þýðir í öllum tilvikum sigur okkar manna, nema 1-0 sigur þeirra, sem tryggir okkur í framlengingu og vítaspyrnukeppni. Þannig að það má segja að við séum með 2ja marka forskot. Það þarf ekkert að leggja fram lærð sýnidæmi til að sýna fram á það hvað mark hjá okkar mönnum myndi gera fyrir viðureignina, það færi langt með að klára hana, flóknara er það ekki.

Þetta Besiktas lið var ofur skipulagt á Anfield um daginn, það kom svo sem ekkert á óvart. Fróðlegt verður að uppleggið hjá þeim í þessum leik, því þeir bara hreinlega geta ekki bara setið tilbaka, þeir þurfa að skora mörk. Þeir vita þó vel af hraðanum sem býr í okkar mönnum, það væri algjört sjálfsmorð að keyra upp leikinn. Ég er því á því að Bilic komi til með að fara varlega inn í hann, hann vill klárlega ekki fá á sig mark, hvað þá snemma leiks. Ég er þó að vonast eftir hinu, þ.e. að þeir komi framarlega á völlinn. Þeirra hættulegasti maður, Demba Ba, er sagður meiddur. Svo eru tveir í banni hjá þeim, þar af sá sem var þeirra besti maður í síðasta leik, að mínum dómi

En að því sem máli skiptir, okkar mönnum. Ansi margir sem ekki ferðuðust með liðinu út af mis alvarlegum meiðslum. Við komum ekki til með að sjá Lucas, Gerrard, Coutinho, Henderson, Sakho, Enrique, Johnson, Flanagan, Markovic og B.Jones í þessum leik. Þetta gerir heila 10 leikmenn sem taldir eru sem hluti af aðalliðshóp Liverpool. Það er því ljóst að lítið má út af bregða, en þeir sem eftir eru ættu svo sannarlega að geta klárað verkefnið, næg gæði til staðar í liðinu engu að síður og út um allan völl.

Mignolegt verður að vanda í markinu og ég reikna með að varnarlínan verði þeir Lovren, Can og Skrtel. Ég efast um að Brendan hendi Manquillo inn í þessa mynd, líklegra væri að Kolo myndi fá að spreyta sig og væntanlega yrði þá Can annað hvort settur inn á miðjuna, eða hreinlega hvíldur fyrir átökin framundan. Miðað við úrvalið sem við erum með af heilum miðjumönnum, þá bara sé ég ekki hvernig Brendan ætlar að komast hjá því að færa Can inn á miðjuna með Allen. Fram á við erum við þó vel skipaðir, ætli Lallana og Sterling verði ekki sitt hvorum megin við Sturridge, finnst allavega ólíklegt að Balotelli væri látinn byrja þennan leik, þó svo að ég væri vel til í það. Það er erfiður leikur gegn City um helgina og ég væri alveg til í að sjá Sturridge sparaðann. En hvað um það, ég giska á að svona verði liðið:

Mignolet

Toure – Skrtel – Lovren

Ibe – Allen – Can – Moreno

Lallana – Sturridge – Sterling

Þrátt fyrir að það séu margir fjarverandi, þá er þetta engu að síður þræl öflugt lið. Breiddin er einfaldlega orðin það mikil að þrátt fyrir að 8-9 sterkir leikmenn séu frá vegna meiðsla og banna, þá er samt hægt að stilla upp svona liði. Ég er bjartur á leikinn, það er eitthvað “væp” í gangi í kringum þetta lið okkar og ég held að það haldi áfram. Þetta verður erfitt, fjandi erfitt, en þetta mun hafast og við munum sigra þá 1-2 á Ataturk (reyndar vanir að skora 3 mörk þarna). Sturridge og Can með mörkin og við rúllum áfram í 16 liða úrslitin.

Þetta er fimmtudagsleikur, í Evrópudeildinni og allt það, en ég er spenntur, fáránlega spenntu.

23 Comments

 1. Nokkuð sammála þessari uppstillingu .. hafa bara þétta miðju .. Can sem DM og Allen og Lallana sem offensive og láta þá stjórna spilinu. Fannst Balo koma ótrúlega vel inn á móti Besiktas síðast og virtist eins og þessir mótherjar hentuðu honum. GoOnYouReds !!

 2. Þann 21. okt 2012 gerðumst við félagarnir svo hugrakkir að fara á heimavöll Besiktas. Kennarar Kvennaskólans í Reykjavík fóru í skólaheimsóknir í Istanbul og slatti af mökum með. Ég, Nikulás Árni Sigfússon og Haukur Hannesson vorum með í för og upplifðum þar einn svakalegasta fótboltaleik sem við höfum farið á.

  Áður en við fórum út fékk Nikki þá flugu í höfuðið að upplagt væri að skella sér á leik. Hann fann einn svakalegan, Besiktas – Trabzonspor, tvö af fjórum stærstu liðunum. Ég hló bara, sénsinn að við látum drepa okkur á fótboltaleik í Tyrklandi. En svo fórum við út, nutum lífsins og slökuðum á. Og að endingu spurðum við okkur: „af hverju ekki?“

  Eftir að hafa keypt búning og smá bras að finna miðasöluna var komið að því að velja sæti. Við vildum vera nálægt góðri stemmningu og afgreiðslumaðurinn benti: „here sit the hooligans“ . Við litum snöggt í augun á hverjum öðrum og svöruðum samtaka: „yes“. Á meðan hann var að prenta miðana læddist efinn að okkur „will we be OK there?“ „Yes no problem“. Og þar með var það ákveðið, við vorum á leið á stórleik og sitja hjá harðasta kjarna stuðningsmannanna. Stuðningsmanna sem settu hávaðamet á móti Liverpool árið 2007. Á besta stað fyrir miðju vallarins.

  Eins og túrista er siður mættum við snemma á völlinn. Sætin vöktu furðu, mjó, óþægileg og hálflaus á steypuklumpi. Átti maður að sitja á þessu heilan leik? Svarið kom síðar. Í kringum okkur var setið á stangli en ská á móti okkur á bakvið annað markið var brjáluð stemmning (hægra megin við okkur). Við vorum plataðir, engir hooligans hjá okkur en allt að gerast hinu megin. En rétt fyrir leik kom strollan inn. Maður steig á pall fyrir neðan okkur, tók sér stöðu, benti og kallaði. Kórstjórinn var mættur!

  Stemmningin gjörbreyttist og geðveikin tók völdin. Allir stóðu upp og ekki bara það heldur var staðið upp í sætunum. Hendur upp í loft og allir öskruðu „wwwwwooooohhhhhhh“ – leikurinn var að hefjast. Þegar upphafspyrnan átti sér stað gripu menn um axlir sessunautar og hoppuðu stanslaust og öskruðu. BESIKTAS BESIKTAS BESIKTAS og ég veit ekki hvað. Þetta var geðveikt. Og upp í sætunum stóðum við það sem eftir var, þar kom svarið við hálf ónýtum setum.

  Kórstjórinn var svakalegur. Stóð allan tímann og snéri baki í völlinn. Stýrði söngnum og stuðningnum af festu og menn tóku sko undir. Ég man einu sinni eftir að hann hafi litið á völlinn. Þó nokkur töf varð vegna meiðsla leikmanns og að endingu snéri kórstjórinn sér við, leit með fyrirlitningasvip yfir báðar axlir, girti sig og hélt svo áfram að styðja sitt lið.

  Áður en lengra er haldið er vert að taka fram að ekki sást áfengi á nokkrum manni. Múslimar drekka ekki, allavega ekki þannig að aðrir verði þess varir. Það má líka segja að þeir þurfi ekkert á því að halda á svona leikjum, blóðhitinn er nægur. Jæja, fyrri hálfleikur olli vonbrigðum. Okkar menn slappir og líklega bara sanngjarnt að þeir voru 1-0 undir á hálfleik.

  Menn voru eðlilega svekktir en samt var allt rólegt í kringum okkur. Ennþá. Svo gerist það í hálfleiknum að fólk hrynur allt í einu niður í stúkunni ská á móti okkur (vinstra megin við okkur). Röð af lögreglumönnum vopnuð hjálmum, skjöldum og væntanlega einhverju meiru tók strauið upp í stúkuna. Við horfðum betur og þá höfðu brotist út slagsmál í stúkunni. Ja hérna, það kom stingur í magann. En þetta róaðist og lögreglan tölti niður aftur. Rétt í þann mund sem leikmenn gengu aftur út á völl byrjuðu smá barsmíðar aftur og aftur fór löggan upp. Það róaði mann aðeins að áhorfendur í öðrum stúkum púuðu bara á þetta rugl.

  En svo verð ég að viðurkenna að mér var virkilega hætt að standa á sama og þegar við heyrðum menn rífast rétt fyrir neðan okkur. Einhver vitleysingur gerðist svo djarfur að skammast í sjálfum Kórstjóranum. Hann svaraði að sjálfsögðu fyrir sig en rifrildið stigmagnaðist. Þegar Kórstjórinn gerði sig líklegan til að fara af pallinum og í átt að vitleysingnum, þurfti 2-3 menn til að halda aftur af honum. Nokkrir aðrir leiddu vitleysinginn út og sást hann ekki meir. Í hverju vorum við eiginlega lentir? Áttum við afturkvæmt?

  Sem betur fer lét Kórstjórinn þetta ekki á sig fá heldur hóf að stýra söngnum á ný. Ég bað til Guðs og Allah, já og Óðins og veit ekki hvað, um að Besiktas myndi snúa þessu við. Fljótlega í seinni hálfleik var ég bænheyrður og jöfnunarmarkið kom. Mark upp á líf eða dauða, þannig var upplifunin í bókstaflegri merkingu. Við myndum ganga heilir á húfi af vellinum!

  Og stemmningin maður. Hún fór upp á annað stig. Eða meira svona tólfta, af tíu mögulegum. Fljótlega fóru svo alvöru köll á milli stúka í gang. Við vorum í neðri stúku og reglulega höfðu verið köll í milli okkar og stúkunnar fyrir ofan okkur. En nú fór allt annað dæmi í gang. Mörgum Íslendingum finnst flott þegar Silfurskeiðin og Tólfan syngja yfir Laugardalsvöllinn. Miðað við Besiktas eru það hins vegar eins og veik köll hjá tveim börnum á yngstu deild leikskóla. Í Tyrklandi er þetta fullorðins.

  Eftir bendingu Kórstjórans stóðu allir upp í okkar stúku og settu fingurnar upp í loft. „Vvvvvvvvvvvvuuuuuuuuúúúúúúúúúú“ var kyrjað þangað til stúkan á móti gerði slíkt hið sama. Fyrst þarf sem sagt að tengja. Svo kölluðum við og þeir svöruðu. Þetta gert nokkrum sinnum og svo klappað fyrir hvor öðrum. Og þetta var gert yfir völlinn í alls fjögur skipti. Fyrst við stúkuna fyrir aftan markið hægra megin, síðan við stúkuna fyrir aftan markið vinstra megin og eftir það við heiðursstúka beint á móti okkur – já meira að segja jakkafataliðið stóð upp. Að lokum vorum það svo við á móti öllum hinum. Geeeeeððððððveikt!

  Besiktas sótti og sótti en náðu ekki að jafna. Á síðustu sekúndu uppbótartíma slapp hins vegar einn leikmaður Besiktas í gegnum vörnina. Markmaðurinn rak litlu tána í boltann sem rúllaði rétt fram hjá stönginni. Um leið var flautað af. Dauðafæri og svekktir leikmenn Besiktas hrundu niður á völlinn eins og þeir hefðu verið skotnir niður í hryðjuverkaárás. 1-1.

  Vonbrigði áhorfenda gríðarleg en samt klöppuðu menn vel og duglega fyrir leikmönnum. Total respect, ekkert tuð eða skamm, bara stuðningur. Rétt fyrir neðan okkur var hins vegar einn svo svekktur að hann tók það út á sætinu, lamdi og sparkaði duglega í það. Þegar leikmenn gengu framhjá stoppaði hann hins vegar, greip símann sinn og tók myndir alveg hinn rólegasti. Svo stakk hann símanum niður, alveg spakur, og hóf aftur að rústa sætinu. Það rennur ekki eins blóð í Tyrkjum og okkur, það er alveg á hreinu.

  Yfir heilan leik er þetta svakalegasta stemmning sem ég hef lent í. Staðið upp í sætunum allan tímann og öskrað. Við skildum ekki orð en drógum ekkert af okkur. Besiktas varð að mínu öðru liði, í raun ólýsanleg og einstök upplifun. Hrikaleg stemmning er það sem Liverpool er að fara að mæta. Að mínu viti er þetta erfiðasti útileikur sem hægt var að fá í þessum 32 liða úrslitum. Sama hvernig fer mun þetta verða reynsla fyrir okkar ungu leikmenn. Þeir munu fá að upplifa alvöru geðveiki. Ég held að eitt mark muni duga okkur en í svona látum getur allt gerst. Vonandi mun það hjálpa okkur að það er ekki spilað á heimavelli Besiktas heldur „we won it five times“ vellinum!

  Ef þú hefur nennt að lesa svona langt kæri Púlari, þá skaltu endilega gefa þér nokkrar auka mínútur í að skoða tenglana hér að neðan. Þetta eru stutt myndbrot en gefa góða mynd af stemmningunni. Sjón er sögu ríkari.

  Nokkur myndbönd þar sem við sátum, Kórstjórinn sést á nokkrum og mark Besiktas á einu.
  https://picasaweb.google.com/118275691716152084163/Besiktas?authkey=Gv1sRgCNml_YL6gpyhGw&feat=email

  Kallað á milli stúka fyrir leik (tekið úr stúkunni hægra megin við okkur)
  https://www.youtube.com/watch?v=CsYQEQTRsYc

  Leikurinn hefst (tekið úr stúkunni hægra megin við okkur)
  https://www.youtube.com/watch?v=SQkEB8ZUUMQ

  Kallað á milli (tekið úr okkar stúku sýnist mér)
  https://www.youtube.com/watch?v=0fZ5DicQA4Q

  Lokin á leiknum þegar leikmenn liggja út um allt
  https://www.youtube.com/watch?v=yjAaE75Sv18

  Og svo auka efni:

  Besiktas 2:1 Liverpool WORLD RECORD “132 decibel”
  https://www.youtube.com/watch?v=b8BJyIj-WbM

  Besiktas 141 decibel – geðveikt myndband
  https://www.youtube.com/watch?v=87fj4BMQjd8

 3. frábær upphitun held að þeir vinni 2-1 og við fljótum áfram á útivallarmarki á þessum guðdómlega velli. hugsanlega það versta sem gæti gerst væri framlenging

 4. Þetta verður erfíður útivöllur að sækja en ég treysti á við náum að landa sigur eða jafntefli. Ef náum skora fyrst þá er þetta nokkuð öruggt því Besiktas þarf skora þrjú til slá okkur útúr kepninni.

 5. Sæl og blessuð.

  Takk fyrir frábæra upphitun og aldeilis skemmtilega ferðasögu. Allt að gerast atarna hjá Tyrkjapabba. Istanbúl er borgin og Liverpool er liðið.

  Stend við spá mína (með pínu skekkjumörkum (framlenging gegn Chelsea)) að vorið verði taplaust. Þeir leika án burðarstólpa í liðinu, ef rétt er og skilið. Við erum vissulega ekki með nokkra öfluga en held að breiddin sé orðin það góð að ekki þurfi að örvænta. Áhorfendur eiga eftir að hafa mikið að segja og hrópa, m.v. ofangreint, en að endingu eru það leikmenn sem stýra gangi leiksins og okkar menn verða að halda einbeitingunni rétt stilltri.

  Held þetta verði leikurinn þar sem Ibe springur út eins og túnfífill á íslensku sumarsíðdegi.

 6. “Varstu í Istanbúl” “Ertu fàviti”

  Þetta er setning sem margir já MARGIR púlarar hafa heirt og skemmt sér konunglega yfir 😉

  Màtti bara til með að koma þessu að – AVANTI SVERRIR 😉

  Takk fyrir fr?bærar lesningar HÈR Á BESTU STUÐNINGSMANNA SÍÐU FYRR OG SÍÐAR kæru Liverpool bræður og systur 😉

  OKKAR TÍMI ER KOMINN – A V A N T I – LIVERPOOL

 7. Þetta verður vonandi skemmtilegur leikur á skemmtilegum stað líka 🙂

  Ég spái þessu 1-1 eftir að við komumst yfir með marki Lallana.

  Hlakka bara til 🙂

 8. ég er líka mjög spenntur fyrir þessum leik, reyndar er timinn kl 18 böggandi en hvað um það.
  eg vona að liðið verði eins og Steini setur það upp með Can a miðjunni en væri svo sem alveg til i að sja Balotelli byrja og hvila Sturridge.

  hvernig er það eru Sakho, Coutinho, Henderson og Markocvic klárir um helgina og hvað er langt í Gerrard ?

  spái þessu a morgun annars 1-1 og við áfram.

 9. Er ég einn um að vera farinn að hafa smá áhyggjur af breiddinni á miðjunni? Núna er nánast sjálfvalið að Can og Allen spili, fyrst Henderson, Lucas og Gerrard eru allir meiddir, og Rossiter er meira að segja meiddur líka. Það má ekki mikið út af bera í þessum leik til að það verði vandræði í City leiknum. Vona auðvitað að þetta sé bara eitthvað smotterí hjá Henderson.

 10. Stórskemmtilegur pistill

  Lucas, Coutinho, Henderson, Sakho, eru allt algjörir lykilmenn í liðinu sem Liverpool má illa við því að missa í meiðsli. Í raun er alveg stórmerkilegt hvað byrjunarliðið gæti orðið sterkt jafnvel þó svo að við erum án þessara fjögurra burðarstólpa.

  Ég man hvað það bitnaði svakalega á liðinu í fyrra þegar Henderson fór í bann. Yfirferðin sem hann býr yfir er nánast ómennsk. Hann er einn helsti drifmótor liðsins og var í raun alveg jafn mikilvægur og SAS í fyrra því vinnuseminn var lyginni líkust. Enda kom á daginn að Liverpool missti dampinn við það eitt að missa hann út úr liðinu.

  En þetta býður upp á möguleika. t.d að setja Lallana inn á miðjuna eða jafnvel Sterling og sjá hvernig það myndi ganga.

  Annars fannst mér þessi tillaga að byrjunarliði mjög góð. þó aðrir möguleikaar komi til greina eins og t.d

  Mignolet

  Toure – Skrtel – Lovren

  Manquillo – Lallana – Can – Moreno

  Ibe – Sturridge – Sterling

  Kannski ekki rétti tíminn til að fara í tilraunastarfsemi – en mikið væri ég samt til í að sjá ibe í 10 hlutverki – þvi ef hann færi boltann í lappinar þá er hann eins og skriðdreki sem er ekki hægt að stöðva öðruvísi en með því að taka upp byssu og skjóta hann.

  Manqillo er fínn á kantinum – þó hann sé fjarri því á sama stigi og Ibe fótboltalega. En hann gæti skilað góðri varnarvinnu og gert það sem hann þarf að gera sóknarlega til þess að það bitni ekki á liðinu, eisn og hann gerði t.d gegn Swansea.

 11. Jæja,
  Þessi leikur snýst í sjálfu sér einungis um að halda markinu hreinu og þá eru allir glaðir. Þessi varnarlína ætti að gera það með Can og Allen fyrir framan sig.
  Held að hvíld Coutinho og Henderson sé kærkominn. Fáum svo sennilega 4 nýja leikmenn í byrjunarliðið fyrir City (Markovic, Henderson, Coutinho og Sakho) Vonandi náum við að hvíla Sturridge eins og hægt er.
  Hef einnig velt fyrir mér að hvíla Can og setja Lallana í stöðu Henderson frjáls á miðjunni og færa Ibe upp og setja Manquillo í vængbakvörðinn.
  Þessi leikur snýst bara um að halda hreinu skiptir engu hverjir spila bara að komast sem auðveldast frá þessum leik og eyða eins lítilli orku í hann og kostur er!

  YNWA

 12. maður fær bara gæsahúð að lesa þetta 🙂 þvílíkt ævintýri sem þetta var. Við tökum þetta í kvöld ég er sannfærður um það, segjum 0-2 Lallana og Sterling með mörkin, YNWA 🙂

 13. Frábær pistill. Bara ein ábending: Er ekki rétt að tala um Istanpool í þessu samhengi?

 14. Skemmtilegir pistlar strákar, takk fyrir mig.

  Ef Can verður í vörninni mun ég ekki hafa áhyggjur af henni, ef hann verður á miðjunni mun ég ekki hafa áhyggjur af miðjunni, hvernig verður þetta?

  Erum við að fara að sjá tígulmiðju frá því í fyrra með Can sem djúpan og Lallana, Coutinho og Sterling í afgangnum af tíglinum eða verða Can og Allen saman á miðjunni og enginn miðjumaður til vara ef annar þeirra meiðist?

  Þetta er flókið, en ég vona að Rodgers finni útúr þessu eins og honum einum er lagið.

 15. Svona í tengslum við þetta Dunkin Donuts fíaskó, er ekki tilvalið að koma með pistil sem fjallar um Liverpool merkið, hvernig það varð til og hvernig það hefur breyst í gegnum tíðina? Bara að varpa þessu hérna út í kosmósið…

 16. Takk Steini.

  Frábært kvöld, í eina skiptið á ævinni sem ég hef svekkt mig á fótboltaþjálfaraferlinum, átti kost á að fara út en vildi ekki þar sem liðið mitt, bláhvíta stoltið ÍR, átti leik á föstudegi. Við horfðum saman á leikinn, ég var ekki svekktur í hálfleik en mjög svekktur eftir leik.

  Eftirminnilegt líka að við ákváðum að æfingin hæfist eftir leikinn…held við höfum byrjað 22:30 og hún var mjög súr!

  En að leik kvöldsins, alvöru karakterverkefni framundan, stór skörð höggvin í leikreynsluna og við erum að fara til Tyrklands þar sem biluðustu aðdáendur heims munu taka á móti okkur, þó þetta sé ekki “alvöru” heimavöllur Besiktas.

  Hérna þurfa Kolo, Skrtel, Allen, Lallana og jafnvel Lambert að stýra stráklingunum okkar, spái okkur 2-1 tapi en við komumst áfram á útimarki. Er fáránlega spenntur!

 17. Frábær pistill og ljómandi gott frí frá Evrópu upphitun. Enn eina ferðina sé ég enga sönnun fyrir því að Sverrir Jón og Ludwig hafi verið í Istanbúl þessum tíma og er því ennþá ekki að kaupa þetta. Man annars eftir íslenska fánanum í útsendingunni frá leiknum fyrir 10 árum.

  Kudos líka Nr.2 Guðmundur Magnús, stórskemmtileg lesing. Ataturk er blessunarlega ekki bara fótboltavöllur og áhorfendur lengst frá vellinum að því er virðist. Það hjálpar kannski því nógu ógnvekjandi eru rúmlega 70.000 samtaka Tyrkir líklega fyrir.

  Haldi Rodgers sig við núverandi leikkerfi áfram í þessum leik ætti liðið nánast að velja sig sjálft eins og Steini setur það upp. Ég yrði þó ekki hissa á að sjá 4-4-2 kerfið frá því í fyrra með Balotelli og Sturridge frammi.

  Istanbúl borgin er annars ónýt fyrir mér

  “Varstu í Istanbul? – Ertu fáviti”

 18. Ég verð víst að votta það að Sverrir hafi verið þarna, hann borgaði þennan leigubíl upp á tuttugu og eina milljón (skuldar mér öl í næstu ferð Sverrir fyrir að bakka þig upp).

 19. SSteinn við hljótum að græja þennan bjór í ferðinni í maí , en ef þið skoðið myndina þá stendur Lúlli upp við tréið en ég er mjög líklega að sækja bjór til að hafa með í rútuferðina.

 20. Liðið.

  Mignolet-Kolo,Lovren,Skrtel-Ibe,Moreno-Can,Allen-Sterling,Sturridge,Balotelli.

  Líst vel á þetta.

Mánudagspælingar

Liðið gegn Besiktas