Be?ikta? á Anfield

Annað kvöld taka okkar menn á móti Be?ikta? í 32-liða úrslitum Evrópudeildarinnar. Þessi fyrri leikur einvígisins fer fram á Anfield en liðin leika aftur í Istanbúl viku síðar. Liverpool og Be?ikta? hafa mæst í tvígang áður í Evrópukeppni; þau voru saman í riðli í Meistaradeildinni veturinn 2007-8 og þá unnu Tyrkirnir 2-1 sigur á heimavelli áður en Liverpool hefndu sín með mögnuðum 8-0 sigri á Anfield, en það var og er enn stærsti sigur sem hefur unnist í riðlum Meistaradeildarinnar.

Hafi verið getumunur á liðunum þá er hann eflaust minni í dag. Við skulum skoða mótherjana aðeins betur.

Be?ikta?

Klúbburinn Be?ikta? Jimnastik Kulübü var stofnaður árið 1903, eða fyrir tæpum 112 árum síðan. Þetta er eitt fornfrægasta knattspyrnufélag Tyrklands, klúbbur sem hefur unnið tyrknesku deildina 13 sinnum, lent í 2. sæti 14 sinnum og auk þess unnið tyrkneska bikarinn 9 sinnum. Þeir hafa verið fastagestir í bæði Meistara- og Evrópudeildum Evrópu í mörg ár en hafa þó aldrei náð lengra en í 8-liða úrslit í báðum keppnum, tölfræði sem gefur okkur kannski nokkuð skýra mynd af því hvað við er að eiga. Þeir eru þaulreyndir og sterkir þátttakendur í Evrópu en aldrei sigurstranglegir.

Be?ikta? gera út frá brúnni eilífu milli austurs og vesturs, hinni ótrúlegu borg Istanbúl, (áður Konstantínópel, þar áður Nýja Róm, þar áður Ágústa Antonína, þar áður Býsantíum, þar áður Lýgos). Það er efni í doktorsritgerð frá Babú að gera þessari mögnuðu borg almennileg skil en þar sem ég er enginn Babú læt ég nægja að vísa á þessa mögnuðu bók eftir Orhan Pamuk, eina Nóbelsskáld Tyrkja, en fyrir þá óþolinmóðari er líka hægt að horfa á Taken 2 sem gerist einmitt í borginni á bökkum Bosfórus.

Hvað um það, á síðustu leiktíð endaði Be?ikta?-liðið í 3. sæti tyrknesku Spor Toto Süper Lig-deildarinnar og náði auk þess í 32-liða úrslit bæði tyrknesku bikarkeppninnar og Evrópudeildarinnar. Í ágúst á síðasta ári léku þeir gegn Arsenal í umspili um sæti í Meistaradeildinni á yfirstandandi vetri og eftir 0-0 jafntefli á Atatürk-vellinum í Istanbúl skaut Alexis Sanchez Skyttunum áfram með eina markinu á Emirates-vellinum í seinni leiknum. Ég horfði reyndar á báða þessa leiki og að mínu mati stóðu Be?ikta?-menn fyllilega í enska stórliðinu og voru klaufar að ná ekki mörkum á báðum völlum.

Í Evrópudeildina fóru þeir og drógust í riðil með Tottenham, Partizan Belgrad og Asteras Tripolis. Þeir fóru taplausir í gegnum þennan riðil, héldu tvisvar hreinu í sex leikjum, náðu 1-1 jafntefli á White Hart Lane og unnu Spurs svo 1-0 í lokaleiknum á Atatürk til að tryggja sigurinn í riðlinum.

Heima fyrir eru þeir svo efstir í deildinni eftir 20 umferðir af 34, hafa aðeins tapað þremur leikjum og eru með 47 stig, fyrir ofan meðal annars dýrustu lið sem Fenerbahçe og Galatasaray hafa nokkurn tíma stillt upp.

Lesið þetta aftur: Þeir hafa lagt Tottenham, staðið fyllilega í Arsenal í tveimur leikjum og eru efstir í deildinni sinni heima fyrir. Bara svona ef einhver skyldi vera að pæla í að vanmeta þetta lið.

Þjálfari Be?ikta? er Króatinn litríki Slaven Bili?, Englendingum að góðu kunnur en hann var vanur að gera þeim skráveifur sem þjálfari króatíska landsliðsins, auk þess sem hann lék fyrir bæði West Ham og Everton á litríkum ferli sínum sem leikmaður í fremstu röð. Þetta er því þjálfari sem þekkir enska knattspyrnu og getur frætt sína menn um hverju þeir eiga von á þegar þeir mæta á Anfield.

Af leikmönnum ber auðvitað helst að nefna Demba Ba sem er sennilega eini leikmaður Be?ikta? sem allir stuðningsmenn Liverpool geta nefnt án þess að hugsa sig um. Ba hefur náð að skora gegn Liverpool með bæði West Ham og Chelsea (ég fæ enn martraðir) auk þess sem hann lék gegn okkur með Newcastle. Honum þætti eflaust ekkert leiðinlegt að bæta Be?ikta? á listann yfir lið sem hann hefur hjálpað með marki gegn Rauða Hernum.

En hvað með restina af liðinu? Það er ekki hátt risið á tyrkneska landsliðinu þessa dagana og því segir það kannski lítið að tína til einhverjar tyrkneskar stjörnur eins og Gökhan Töre, Kerim Frei, Olcay ?ahan og varnarjaxlinn Serdar Kurtulu?. Þetta eru þekktir leikmenn í heimalandinu, burðarásar Be?ikta?-liðsins og þaulreyndir kappar sem munu refsa okkar mönnum ef þeir fá færi á því, en eru þeir betri eða verri en Emre Can, Jordan Henderson eða Adam Lallana? Það verður bara að koma í ljós.

Þeir hafa verið að spila 3-4-3 eða 3-5-2 kerfi á köflum með þá Töre, Frei og argentínska leikstjórnandann Jose Sosa fyrir aftan Demba Ba og Cenk Tosun en það var einmitt Tosun sem skoraði sigurmarkið gegn Tottenham í desember sem tryggði þeim sigur í riðlinum.

Þetta er fyrst og fremst gríðarlega þétt og sterkt lið með góða taktík, sigurvenju í vetur og snjallan þjálfara. Þá luma þeir á tveimur eða þremur mönnum – Demba Ba, Töre og Jose Sosa – sem geta breytt leikjum fái þeir tækifæri til þess. Þeir lentu þó í áfalli um helgina þegar aðalmarkvörðurinn Tolga Zengin meiddist og verður frá í mánuð, og missir þar með af báðum leikjunum gegn Liverpool.

Þetta verður engu að síður alvöru einvígi gegn alvöru andstæðingum og ekki skemmir að okkar menn fá að spila í andlegu heimili okkar, Atatürk-vellinum, á ný (meira um það í næstu viku).

Látum þetta nægja um andstæðingana í bili. Skoðum aðeins okkar menn og hvernig þeir koma inn í þennan leik.

Liverpool

Hjá okkar mönnum er það helst að frétta að UEFA staðfesti í vikunni fjögurra leikja bann yfir Lazar Markovic, en hann var eins og menn muna rekinn út af fyrir litlar sakir með beint rautt eftir fínan leikaraskap Basel-leikmanns á Anfield í desember. Þar sem hann var rekinn út af með Benfica í undanúrslitum Evrópudeildarinnar í fyrravor, og þar sem bæði brotin flokkast sem “violent conduct” eða ofbeldisfull hegðun, er þriggja leikja bannið að þessu sinni þyngt upp í fjóra leiki sem þýðir að ef Liverpool fer einhverja leið í þessari keppni getur Markovic ekki spilað fyrr en í 8-liða úrslitum í fyrsta lagi.

Fáránlegt. En hvað um það, hann er í banni og þá eru þeir Lucas Leiva, Steven Gerrard, Brad Jones og Jon Flanagan ekki leikfærir, þó sá síðastnefndi sé víst farinn að æfa og nálgist leikstand óðum. Vafi leikur á hvort Raheem Sterling verði klár í slaginn en að öðru leyti hefur Brendan Rodgers úr fullum leikmannahópi að velja.

Spurningarnar eru þá tvær: fyrst, getur Sterling spilað og næst, mun Rodgers rótera eða halda áfram að keyra á sínu sterkasta liði?

Það er ómögulegt að spá fyrir með einhverri vissu þannig að ég ætla einfaldlega að giska á að hann geri tvær breytingar: Jordon Ibe kemur inn fyrir Lazar Markovic og Raheem Sterling leysir Daniel Sturridge af ef hann er orðinn heill, þar sem ekki veitir af að vernda Sturridge örlítið í miklu leikjaálagi þessa dagana:

squad-2

Mín spá

Þetta verður bara gríðarlega erfitt. Tyrkir eru alþekktir fyrir frábæra stemningu á heimaleikjum og fyrir að vera erfiðir heim að sækja, en hafa hins vegar sögulega átt erfitt uppdráttar í Englandi. Sú saga passar ekki alveg við Be?ikta? sem hafa staðið á sínu á Emirates og White Hart Lane í vetur og því má búast við að þeir gefi ekkert eftir á fimmtudagskvöldið.

Að mínu mati er sigur á Anfield algjör lykill að því að leggja Be?ikta? í þessu einvígi og ég treysti Rodgers og þeim leikmönnum sem hann getur teflt fram til að finna leiðina að sigri. Ég ætla að spá því að við höldum hreinu og förum með myndarlega 2-0 forystu til Tyrklands. Raheem Sterling er ennþá nokkuð óþekkt stærð á meginlandinu og hann kynnir sig fyrir Tyrklandi með fyrra markinu og Adam Lallana heldur svo áfram að poppa upp með mikilvægu mörkin og bætir því síðara við.

Evrópa. Anfield. Flóðljósin. Áfram Liverpool!

YNWA

26 Comments

  1. Þessi liðsuppstilling verður örugglega nærri lagi. Physioroom talar um að Sterling komi aftur 22. feb., en það er kannski bara af því að leikurinn við Southampton er þá, verandi næsti deildarleikur sem hann getur náð.

    Svo er spurning um að gefa Coutinho smá frí, en á hinn bóginn á hann einmitt til að sýna stjörnuleik akkúrat þegar maður heldur að hann sé alveg búinn á því.

  2. Fyrir mér er það Leikurinn á móti Southampton sem skiptir öllu máli.
    Væri alveg til í að sjá Balo, Borini, Johnson, Toure og Lovren byrja þennan leik, á kostnað Skrtel, Sakho, Moreno, Coutinho eða Sterling. Henderson mætti þess vegna fá hvíld. Tveimur og hálfum sólarhring eftir að flautað verður til leiksloka á fimmtudaginn mun mikilvægasti leikur tímabilsins hingað til fara fram í Southampton. Það er einfaldlega leikur sem má ekki tapast.

    Í ljósi þess verður að sjá til þess að sem flestir leikmenn sem munu standa vaktina þá fái nauðsynlega og langþráða hvíld fimmtudaginn. Þessi keppni er bónus ekki forgangsatriði á þessum tímapunkti. Helst myndi ég vilja sjá 2-3 leikmenn úr unglingaliðinu inní hóp.

    Liðið er búið að fara í gegnum fáranlega þétta leikjatörn og framundan eru fjölmargir mikilvægir leikir þar sem hvíld á milli leikja er jafnan 3-4 dagar. Meiðsli Lucasar, Sterlings og Gerrards má hugsanlega rekja til of mikils álags að undanförnu og hætta er á að fleiri fylgi í kjölfarið ef ekki sé róterað nægjanlega.

  3. Vert að benda mönnum á þetta af liverpool.is
    http://www.liverpool.is/News/Item/17546/Besiktas-leikurinn-ekki-syndur-a-spot?utm_source=dlvr.it&utm_medium=twitter

    Leikurinn við Besiktas í Evrópudeildinni sem fram fer fimmtudagskvöldið 19. febrúar verður ekki sýndur á Spot.

    Salurinn á Spot er upptekinn þetta kvöld og því verður heimavöllur okkar ekki opinn að þessu sinni. Við biðjumst velvirðingar á þessu en hvetjum alla að sjálfsögðu til að mæta á sunnudaginn þegar okkar menn heimsækja Southampton í gríðarlega mikilvægum leik í deildinni.

  4. Það má ekki gleyma tíunni þeirra eða Olcay ?ahan. Hefur verið frábær í vetur og átti einnig frábært tímabil í fyrra. Þetta er nefnilega virkilega sterkt lið.
    Held samt að við vinnum heimaleikinn sannfærandi 2-0.

  5. P.S. Menn þurfa að hafa góðar gætur á honum ásamt svo mörgum. Hugsa líka að Demba Ba fari fullur sjálfstraust í þetta einvígi eftir sigurmarkið gegn okkur í fyrra á Anfield.

  6. Spot er ekki með leikinn útaf helvítis Borgarholtsskóla sem er með ball á þessum tíma..

  7. Þetta verður fróðlegt.

    Liverpool þarf aðeins að fokusera á einn hlut, að spila sinn leik á sínum raunverulega styrkleika. Ef það tekst þá eigum við að fara með sigur á hólmi, því aðeins bestu liðin á Englandi eiga roð við okkur þegar við erum á fullu skriði sem og bestu liðin í heiminum.

    Mig langar dálítið sjá Sterling byrja með Lallana fyrir aftan framherjann og stilla Balotelli fremstum.

    Mér finnst sniðugt að reyna að geyma Coutinho og Sturridge upp á sunnudagsleikinn gegn Southamton.

  8. Takk fyrir flotta upphitun.

    Nú er ég bara alls ekki viss um hvort ég vilji að Liverpool einbeiti sér að Evrópukeppninni og FA cup og treysta á að komast í CL að ári með bikar í annarri kepninni eða báðum, eða að ég vilji sjá þá hvíla leikmenn í þessari keppni til að eiga þá ferska gegn Southampton. Í fljótu bragði væri ég til í að sjá nokkra leikmenn hvílda á morgun, en ef við vinnum ekki á sunnudaginn þá eigum við bara að einblína á bikarana.

    Hvílum Sterling, Coutinho, Can og Sturridge á morgun:

    ——————————Mignolet——————————-
    ——-Lovren—————-Sakho—————–Skrtel——-
    Johnson —————————————————Moreno
    ———————-Allen ————-Henderson—————-
    ——-Ibe———————————————–Lallana—–
    ——————————-Balotelli——————————-

    Ég er samt alls ekki að missa mig úr spennu að sjá Balo einan á toppnum, en hann hefur skánað til muna finnst mér. Ef Allen spilar eins og í síðasta leik þá ættum við að vera með mjög solid lið sem ætti að geta unnið og haldið hreinu, fer ekki fram á meira 🙂

    3-0, ekkert vanmat, held að okkar lið sé dottið í gírinn.

  9. besiktas eru búnir að leggja fram frestun á leiknum um 24 klst þar sem fluginu var aflýst vegna veðurs ef það gengur i gegn þá er eins gott að leikurinn við southampton verði færður til mánudags!

  10. Slaven Bilic og Demba Ba eru að halda blaðamannafund á Anfield í þessum töluðum orðum þannig að þeir hafa komist eftir allt saman. Game on á morgun.

  11. Framúrskarandi upphitun sem ég var bara að klára að lesa.

    Það er kominn tími á að Liverpool standi undir nafni í Evrópu og eins og ég hef áður komið inná gef ég lítið fyrir reynsluleysi leikmanna í Evrópukeppnum. Bestu lið Englands eru flest betri en þau lið sem Liverpool er að keppa við í Evrópu og nú þegar við erum aðeins farin að þekkja okkar menn aftur er krafan ekkert nema sigur. Þar fyrir utan er megnið af leikmönnum Liverpool reyndir landsliðsmenn víðsvegar um Evrópu. Liverpool liðið í dag er ekkert það sama og skeit upp á þak í Meistaradeildinni fyrir áramót gegn liðum sem eiga aldrei að slá Liverpool úr leik á svona stóru sviði.

    Besiktas eru ekki beint þekktir fyrir góðan árangur á útvelli þó á móti sé heimavöllurinn klikkað góður. Liðið þeirra er eins og KAR kemur inná að mestu byggt upp á þjóðþekktum leikmönnum í Tyrklandi, en Ísland vann landslið þeirra vel sannfærandi ekki alls fyrir löngu. Þeir sem maður helst þekkir nafnið á eru Töre sem eins og margir landar sínir hefur ekki meikað það erlendis og er ennþá efnilegur 23 ára og kominn heim til Tyrklands. Flottur leikmaður og allt það en Liverpool á 4-5 betri leikmenn í sömu stöðu. Ef einhverjum finnst þetta hroki í mér spyr ég hver af Sterling, Gerrard, Markovic, (Ibe) eða Lallana er lægra skrifaður í boltanum? Hinn sem maður þekkir (hrollur) er Demba Ba. Hann veit sannarlega hvar markið er og hefur reynst okkur erfiður en einhvernvegin hef ég minni áhyggjur af honum með Besikas liðið á bak við sig en Chelsea liðið. Hann veit auðvitað vel hvar markið er eins og aðrir sóknarmenn. Muniði þegar það þótti fáránlegt að borga 12m fyrir Daniel Sturridge í stað þess að reyna frá Ba á 7m ? Orðum þetta svona, ef við eigum að hræðast Ba þá þurfa þeir að svitna yfir Sturridge hinumegin.

    Árangur Besiktas er góður, Arsenal gekk illa að brjóta þá þó þeir hafi alltaf verið með það einvígi ágætlega undir control og þeir stóðu sig einnig vel gegn Tottenham. Þeir unnu m.a. heimaleikinn gegn þessu Spurs liði

    Vorm
    Walker – Kaboul – Chiriches – Rose
    Stambouli – Paulinho
    Townsend – Dembélé – Chadli
    Soldado

    Þetta er nú ekkert besta byrjunarlið Spurs enda þeir komnir áfram fyrir leik en sýnir að þetta Besiktas lið er ekkert lélegt, ekki frekar en önnur lið í þessari keppni. Þjálfarinn kann að byggja upp liðsheild og virðist vera að gera það hjá Besiktas núna.

    Liverpool liðið er farið að minna á liðið sem við sáum í fyrra og fyrir ári síðan hefum við nákvæmlega engar áhyggjur af Besiktas á Anfield. Liðið skuldar góðan leik í Evrópu og það er fínt tækifæri að hefja leik á morgun.

    Umræðan um að rotation sé óþarfi hefur að mér finnst dúkkað upp undanfarið og ég skil hana ekki, hópurinn var stækkaður í sumar einmitt fyrir leiki eins og þennan (átti bara að vera í Meistaradeildinni). Liverpool hefur spilað 2 leiki á viku í nokkrar vikur núna og á STÓRLEIK á útivelli um helgina. Ég myndi aðeins nota hópinn í þessum leik (og setja inn menn sem kostuðu 15-25m pund).

    Setja Lovren inn fyrir Can eða Sakho. Þjóðverjinn hefur verið aðeins misjafn undanfarið og má alveg fá smá hvíld, Sakho er annars með svipaða meiðslasögu hjá Liverpool og Sturridge og er að verða svipað mikilvægur aftast á vellinum og Sturridge er fremst. Þar fyrir utan þurfum við að koma Lovren í gang hjá Liverpool því annars má bara afskrifa þessar 20m sem fóru í hann. Myndi stilla upp Lovren – Skrtel – Sakho. Svo mætti alveg skoða að setja Toure líka inn og hvíla bæði Can og Sakho. Það er þó kannski fullmikið enda ekki ástæða til að róta of mikið í vörninni í einu milli leikja.

    Henderson er annar sem þyrfti að fá hvíld en nánast vonlaust er að útvega, góð úrslit í þessum leik myndu kannski gera það mögulegt í seinni leiknum. Allen spilaði vel í síðasta leik og ætti að vera sjálfvalinn í þennan leik líka enda Lucas og Gerrard báðir meiddir.

    Ibe ætti að koma inn fyrir Markovic en spurningin er hvort Rodgers keyri á Moreno áfram eða setji Johnson eða Manquillo inn.

    Coutinho myndi ég hafa á bekknum með Sterling ef hann er leikfær og hafa Lallana í holunni fyrir aftan Balotelli og Sturridge. Sturridge mætti á blaðamannafund fyrir þennan leik með Rodgers og hefur ekkert spilað í Evrópu ennþá. Held að það sé 100% öruggt að hann byrji þennan leik og það kæmi ekkert á óvart ef Balotelli fengi sénsinn með honum frammi.

    Svona myndi ég skjóta á liðið
    Mignolet
    Lovren – Skrtel – Sakho
    Ibe – Allen – Henderson – Moreno
    Lallana
    Balotelli – Sturridge

    Það styttist alltaf í næsta stórsigur þar sem liðið okkar springur út a la síðasta tímabil, slíkt er kannski ekki líklegt gegn liði sem Slaven Bilic er að stjórna en alls ekkert útilokað.

  12. Verð að hrósa pistlahöfundi fyrir að hafa nennt að skrifa alla þessa tyrknesku stafi!

    Annars með allt tal um að hvíla menn, þá finnst mér að gameplanið ætti 100% að vera að reyna ná góðum sigri á morgun með sterku liði og tefla eins sterku liði og við getum svo á móti southampton um helgina.

    Svo má bara taka Chelsea á þetta í seinni leiknum á móti Besiktas, hvíla menn og hlaða í 10 manna vörn til að eiga lykilmenn ferska á móti City.

    Var annars að renna yfir EL hópinn okkar skv. uefa síðunni.. og það eru _11_ leikmenn í hópnum sem eru fæddir 1994 eða seinna!

  13. 0-3 tap enda bara viðeigandi að byrja “seinni hálfleik” á Ataturk þremur undir en vinna samt!

  14. “Spot er ekki með leikinn útaf helvítis Borgarholtsskóla sem er með ball á þessum tíma..”

    Flott viðhorf Jón Bragi, kannski er eitthvað meira til í lífinu en fótbolti.

  15. Nr. 14

    Þarna er aðalástæðan fyrir því að ég saknaði Evrópudeildarinnar ekki nokkurn skapaðan hlut á síðasta tímabili. Góð samantakt og mjög í línu við það sem við höfum verið að ræða í allan vetur sem og á síðasta tímabili. Þessi keppni er jafnan þvílík hraðahindrun fyrir félög sem vilja keppa í Meistaradeildinni. Þetta meira en mest allt sýnir hversu mikilvægt það er fyrir Liverpool að komast aftur í Meistaradeildina núna strax í stað þess að spila í þessari orkusugu frá byrjun á næsta tímabili. Það er meira en ólíklegt að liðið bæti ekki árangurinn í deildinni ef liðið tekur þátt í EL frá upphafi.

    Only two sides, Manchester City in 2010-11 and Tottenham a year later, have competed in the Europa League while ending a season in the coveted Champions League qualification places.

    Lang flestum liðum gengur mun verr í deildinni heima fyrir þegar EL leikirnir bætast við

    Sides finishing fourth to seventh in the table have fallen an average 3.2 places the following season with the additional Europa workload

    Liverpool getur svo sannarlega tekið undir þessa tölfræði þó reyndar hafi árangurinn batnað þessi tvö tímabil sem Liverpool hefur tekið þátt undanfarin ár. Ekki er þó hægt að fagna því enda fór liðið bara úr 7. sæti í það 6. árið 2011 þrátt fyrir að ná í færri stig. Árið 2013 fór Liverpool svo úr 8.sæti í það 7. þrátt fyrir að spila í EL. Vúhú.

    Á síðsta tímabili (án EL) fór Liverpool úr 7. sæti í 2. sæti og fékk 84 stig í stað 61 stiga tímabilið á undan. Það að spila ekki í Evrópu var alls ekkert eina ástæðan fyrir þessum bætta árangri (þó það hafi klárlega hjálpað) og við viljum að Liverpool sé með hóp til að geta spilað í Evrópukeppnum, en til að halda slíkum hóp þarf liðið að spila í Meistaradeildinni, ekki Evrópudeildinni.

    Vonandi á þessi tölfræði BBC ekki eins mikið við í ár enda hópurinn settur saman til að takast á við Meistaradeildina og breiddin mun betri en hjá flestum enskum liðum sem tekið hafa þátt í EL undanfarin ár.

  16. Ágæt alltaf umræðan um EL og tengsl við annan árangur.

    Að mínu mati mun þurfa býsna öfluga samsæriskenningasmiði sem munu kenna þátttöku í henni um ef við endum ekki í 4.sæti.

    Ef hægt verður að benda á eitthvað þá er það sú staðreynd að liðið réð fullkomlega alls ekki við CL þátttöku á sama tíma og það tók þátt í deildinni. Við fengum 15 stig af 36 mögulegum á meðan á þátttöku okkar þar stóð, heildarárangur upp á 41,67% sem myndi þýða 48 stig yfir heilt keppnistímabil sem er u.þ.b. meðalstigatala liða í 14.sæti í EPL undanfarin ár.

    Svo að ég myndi nú bara segja að vonandi tekst okkur að komast í 4.sæti ÞRÁTT FYRIR að hafa verið í CL í vetur. Er alveg handviss um það að árangur okkar fram á vor verður mun betri en þessi 41,67% árangur.

    Eða er það kannski þá það sem við teljum gott, að keppa bara um titilinn annað hvert ár og vera svo bara fyrir neðan 6.sætið hitt árið…eða sætta okkur við það að liðið okkar ráði ekki við það að keppa í 4 keppnum á hverju tímabili?

    Ég held að allar keppnir, hvað þá í Evrópu, styrki félagið í átt að þeirri leið sem það vill stefna. Ég vill allan daginn vera frekar í CL en á sama hátt allt kvöldið þá vera í EL frekar en að hafa bara einn leik í viku. Klúbburinn, liðið og stjórinn verða að læra að höndla það álag sem fylgir því að vera stórlið…á hverju tímabili.

    Stend við það að ég vona innilega að liðið vinni þennan bikar og myndi fórna 4.sætinu í dag ef ég gæti verið 100% viss um að Gerrard lyfti bikar í Varsjá 27.maí 2015. Ég veit allt um mátt peninganna en ég sem stuðningsmaður vill allan daginn fagna titlum umfram þátttöku í Playoffs í meistaradeild.

  17. Liverpool ætti að vera með hóp núna til að höndla álagið ágætlega í öllum keppnum núna enda byggt upp fyrir þáttöku í Meistaradeildinni. Auðvitað reynir Rodgers að spila til sigurs í öllum keppnum, vonandi þó með því að nota hópinn sem hann hefur úr að velja.

    En rétt eins og við sögðum í fyrra þá getur verið betra að taka bara frí frá EL til að komast í Meistaradeildina (og vonandi ná að halda sér þar). Þau lið sem komast í Meistaradeildina komast jafnan í þannig fjárhæðir að erfitt er að koma þeim úr þessum Meistaradeildarsætum.
    Hvert ár sem lið spilar í Meistaradeildinni eykst bilið á liðin sem eru að spila í Evrópudeildinni eða engri Evrópukeppni. Ég er því auðvitað ekkert að vonast eftir að Liverpool taki bara þátt annað hvert ár.

    Þessi keppni er fín reynsla fyrir marga yngri leikmenn Liverpool núna en við vitum öll að Liverpool heldur ekki sínum bestu mönnum með því að spila ár eftir ár í EL. Sama hvað við reynum að tala þessa keppni upp.

    Auðvitað myndu allir fórna 4. sætinu fyrir að vinna keppnina enda tryggja báðir kostir þáttöku í Meistaradeildinni á næsta tímabili sem er litlu minna aðalatriði en sjálfur verðlaunabikarinn í EL. Ég myndi á móti alls ekki fórna 4. sæti fyrir það að spila í undanúrslitum eða úrslitum og tapa.

    Ég vil sjá Liverpool liðið lyfta bikurum, alltaf gaman þegar góður árangur næst í þessum minni keppnum en það er sigur í stóru keppnunum sem skiptir mestu máli. Stefna eigendanna er að vinna deildina eða Meistaradeildina. Það sem ég er að velta fyrir mér er hvort EL sé hraðahindrun á átt að því takmarki eða nauðsynlegur partur af ferðalaginu. Tölfræðin er ekki beint með EL í vil að mínu mati.

  18. Sælir getur einhver bemt mèr á hvar hægt sè a? horfa á leikinn á Akureyri ?

  19. #16 Róbert

    Ég er í Borgarholtsskóla og það var byrjað að selja þessa miða fyrir um viku og ég frétti að í gær var búið að selja um 30 miða, ekki mikil spenna fyrir þessu.

  20. # 21 Sportvitinn á Akureyri er heimavöllur okkar Liverpool manna hér fyrir norðann.

  21. Spurning hvort Besiktas leikirnir séu að koma á vondum tíma en við erum að tala um 4 leiki á 10 dögum + ferðalag til Tyrklands og væntanlega til baka aftur.

    Þar að auki eru deildarleikirnir við Southampton og Shitty, tveir algerlega crúsíal leikir.

    Vonum það besta, Brendan græjar þetta, vonandi róterar hann vel í þessum leikjum og hvílir lykilmenn í kvöld og fimmtudag eftir viku.

    4 stig úr þessum tveimur deildarleikjum og áfram í Evrópuboltanum væru svakalega góð úrslit.

    YNWA

  22. #23 Sportvitinn er hættur. Það er verið að skoða heimavallarmálin þessa dagana en engin niðurstaða komin ennþá. Ég fer sjálfur á Bryggjuna í kvöld en ég hugsa að leikurinn sé sýndur á fleiri stöðum.

  23. Staðfest lið Liverpool: Mignolet, Can, Skrtel, Sakho, Allen, Henderson, Moreno, Ibe, Coutinho, Lallana, Sturridge.

    Substitutes: Ward, Manquillo, Lovren, Lambert, Sterling, Borini, Balotelli.

Kop.is Podcast #77

Byrjunarliðið gegn Besiktas