Crystal Palace á morgun

Um helgina fara fram 16-liða úrslit ensku Bikarkeppninnar í knattspyrnu. Það ber svo við í ár að flest af stórliðunum eru þegar fallin úr keppni, einungis Arsenal, Man Utd, West Ham og Liverpool eru eftir úr efri helmingi Úrvalsdeildarinnar. Okkar menn heimsækja á morgun lið Crystal Palace og trúið mér þegar ég segi að þeir eiga inni hjá okkur eins og einn rassskell eða tvo á Selhurst Park.

Þurfum við að rifja síðustu tvo leiki okkar manna á þessum velli eitthvað frekar upp? Nei? Ókei, gott.

Okkar menn hafa verið á miklu flugi undanfarið. Eru ásamt fjórum öðrum liðum með besta gengi Úrvalsdeildarinnar í síðustu 13 umferðum, eða með 28 stig af 39 mögulegum. Þar að auki fór liðið í undanúrslit Deildarbikarsins og í næstu viku hefst leiðin að Varsjá í Evrópudeildinni. Liðið hefur aðeins tapað tveimur leikjum af síðustu 21 í öllum keppnum, eða síðan síðasti leikur á Selhurst Park markaði fjögurra leikja taphrinu sem fór ansi djúpt með vonir okkar og væntingar fyrir þetta tímabil.

Svona velgengni hefur hins vegar sína ókosti; leikjaálagið undanfarið hefur þýtt að leikmenn eru aðeins að detta í meiðsli. Um helgina tognaði Lucas aftan í læri og verður frá í u.þ.b. mánuð og í sigrinum á Spurs sl. þriðjudag þurfti Steven Gerrard að fara af velli meiddur og er talið að hann gæti misst af restinni af febrúar líka. Þá hafa Phil Coutinho, Mamadou Sakho, Lazar Markovic, Joe Allen, Mario Balotelli og Adam Lallana allir glímt við smáhnjösk undanfarið en búist er við að þeir verði allir leikfærir á morgun. Raheem Sterling missti af sigrinum gegn Spurs en talið er líklegt að hann nái þessum bikarleik, auk þess sem Daniel Sturridge er loksins byrjaður að spila fótbolta aftur. Kolo Touré er hins vegar enn að fagna því að hafa verið valinn leikmaður mótsins er Fílabeinsströndin vann Afríkubikarinn og kemur ekki aftur til starfa hjá Liverpool fyrr en á mánudag.

Hvernig mun Rodgers þá stilla þessu upp? Ég ætla ekki að reyna að giska á hans gjörðir heldur segja þess í stað mína skoðun: hann á að rótera í þessum leik.

Já, við viljum komast á Wembley á afmælisdegi Steven Gerrard. Já, já, já. EN… það má ekki fórna langtímahagsmunum liðsins á þessu tímabili fyrir einn leik, bara af því að þetta er bikarinn og Wembley er í boði. Hér á einfaldlega að velja úr ferskustu aðalliðsmennina frá því á þriðjudag, hvíla hina og nota hópinn til að búa til réttu blönduna. Ef það er ekki nógu gott til að leggja Crystal Palace á útivelli (í þriðju tilraun) þá er það bara þannig.

Ég myndi vilja hafa þetta svona:

Mignolet

Lovren – Skrtel – Sakho

Johnson – Allen – Can – Markovic

Lallana – Balotelli – Borini

Hér eru Henderson, Moreno, Coutinho, Sterling og Sturridge hvíldir og við getum átt þá inn af bekknum ef þarf. Inn koma 20m punda miðvörður sem hlýtur einhvern tímann að fá séns aftur, margreyndur bakvörður sem ætti að smella í vængbakvörðinn hægra meginn, 15m punda miðjumaður sem þarf að fara að eiga góða leiki upp á framtíð sína hjá félaginu og tveir Ítalir frammi sem hafa sýnt smá lífsmark þegar þeir hafa fengið sénsa í síðustu leikjum.

Lovren átti góðar 20 mínútur gegn Spurs. Johnson er þaulreyndur og þekkir þetta allt. Can á miðjunni var lykill að sigri okkar á Spurs og Balotelli skoraði sigurmarkið þar. Ég verð steinhissa ef þessir fjórir byrja ekki í þessum fjórum stöðum á vellinum.

MÍN SPÁ: Þetta er bikarleikur og þeir eru alltaf erfiðir, sama hvaða liði við stillum upp eða hvaða liði við erum að mæta. Hersveit Alain Pardieu eru á góðu róli í deildinni, fimm stigum fyrir ofan fallsæti, og unnu Southampton á útivelli í síðustu umferð Bikarkeppninnar. Bættu við að þeim virðist líka ágætlega að spila á heimavelli gegn Liverpool og þá er ljóst að þetta er gríðarlega erfitt verkefni.

Ég ætla því að spá okkur 3-0 sigri. Eins og ég sagði í upphafi, við skuldum þeim rasskell eða tvo og það bara skal gerast núna. 🙂

Koma svo!

42 Comments

  1. Ætli Jordan Ibe sé ekki næginlega ferskur til að spila í 90 mín? Mér þætti það furðulegt ef hann fær ekki að spila á morgun miðað við frábærar frammistöður í síðustu tveim leikjum !

  2. Ég er nokkuð sammála, ég vil sjá róteringu á liðinu. Ibe ekki gjaldgengur svo það opnar eitt pláss, Moreno búinn að spila mikið undanfarið og væri í lagi að gefa honum smá pásu. Coutinho var tæpur fyrir síðasta leik, ég vil ekki sjá hann nálægt byrjunarliðinu.

    Held að byrjunarliðið sem KAR setur inn sé nokkurn veginn í áttina að því sem maður vill sjá. Þetta lið, með ‘lykilmennina’ á bekknum á að vera nógu gott til að leggja Palace af velli. Lallana, Balotelli og Lovren áttu fínar innkomur í liðið gegn Spurs og eiga að fá tækifæri til að láta kné fylgja kviði. Ég myndi líka alveg vilja sjá Markovic spreyta sig aftur í holu hlutverkinu.

    Ég vil fá Liverpool sigur á afmælisdaginn og ætla að spá því að ég fái þrjú Liverpool mörk gegn einu óþarfa marki frá Dwight Gayle – bara af því að það væri svo týpískt að hann skori enn og aftur á móti okkur!

  3. Verðum að klára þetta einvígi í einni viðureign. Megum ekki við öðru eins klúðri og gegn Bolton. Ég vil meina að þessi aukaleikur gegn Bolton hafi kostað okkur leikinn gegn Everton.

    P.S. Annars skil ég ekkert í þessum reglum í FA Cup. Leikirnir eru mun skemmtilegri þegar spilað er til þrautar. Minnkar líka álag og gefur minni liðum séns þegar þau eiga leik lífs síns gegn stóru liðunum. Sáum t.d. Cambridge standa í United á heimavelli. Þurftu svo að fara í annan leik á Old Trafford til þess eins að vera slátrað.

  4. Ég er á því að Sturridge ætti að byrja á kostnað Borini, bæði vegna þess að hann þarf að spila sig í gang og svo til að sjá þá Balotelli saman.

  5. Jordan Ibe er ekki gjaldgengur í FA Cup eftir að hafa spilað með Derby.

  6. Þetta eru 16-liða úrslit, takk fyrir að benda á þetta Freyr23. Ég er búinn að laga færsluna.

    Svo gleymdi ég að taka fram eins og menn hafa bent á hér að Ibe er að sjálfsögðu „bollabundinn“. 🙂

  7. Meistari Rodgers var spottaður í Róm í gær.

    Miralem Pjanic í sigtinu? Frábær leikmaður.

  8. Manquillo hefur nú líka alveg átt spretti og mætti alveg taka þátt á morgun. Nákvæmlega hvar er svo spurningin, hvort það væri í vængbakverðinum, eða sem einn þriggja í öftustu línunni.

  9. Ef uppstilling KAR verður rétt þá munu flestir Liverpool aðdáendur snúa sér að því að horfa á varalið Liverpool leika, snökktum skárra lið. Snökktum. Verður Rodgers svona stupid? Vonandi ekki. Það er eins og vitur maður mælti forðum og mótaði með þessum orðum: Er Southampton frá Skírisskógi Robin Hood? LOL.

  10. Sammála þessu byrjunarliði að flestu leiti – nema að ég vil sjá Sturridge byrja á kostnað Borini. Það þarf að nota svona leiki til að koma Sturridge í almennilegt leikform.

    Nú er leikjaálagið orðið það mikið að ég held að verði að reyna á breiddina á hópnum. Það er ekkert annað í stöðunni. Það væri því alveg eins sniðugt að setja Jose Einrique inn á kostnað Marcovic. Liverpool verður að vera með einhverskonar B- lið til að spila svona leiki. Við megum ekki við of mikið af meiðslum.

  11. Ég vill sjá sterkasta liðið inná vellinum ekkert vanmat takk fyrir , Vill sigur og EKKERT annað.
    Annars flott upphitun hjá KAR!

  12. Sælir félagar

    Hugleiðingar KAR um róteringu liðsins eru á rökum reistar. Mér líst vel á þetta hjá honum. Mín spá í tímahraki og að lítt athuguðu máli er 2 – 4.

    Það er nú þannig

    YNWA

  13. sælt veri fólkið nú er því miður komið að tapi hjá okkar mönnum eftir mjög gott gengi þá verða þeir slegnir niður á jörðina í þessum leik þið hlægið kannski af þessum ummælum núna en munið hvar þið heyrður það fyrst það var hér !. svo koma menn tvíefldir til leiks og á móti southampton og tökum þá 4-0

  14. Vona að liðið verði eitthvað á þennan veg. Þetta á alveg að vera nógu gott til að vinna Crystal Palace. Þarna eru líka nokkrir sem þurfa að berjast fyrir sæti í liðinu, þeir bara hljóta að geta sýnt eitthvað.

  15. Ég vona að leikurinn verði nýttur til að hvíla nokkra af þeim lykilmönnum sem hafa spilað hvað mest að undanförnu enda mikið leikjaálag framundan í evrópukeppni og EPL. Hins vegar býst ég ekki við að Rodgers breyti of mikið liðinu frá síðustu leikjum.
    Svona myndi ég vilja sjá liðið
    Mignolet
    Lovren-Skrtel-Sakho
    Manquillo – Hendo (taka hann út af e. max 60 mín) – Can – Markovic (rétt að láta hann spila þar sem hann er í banni á móti Besiktas)
    Lallana – Sturridge (taka hann út af e. max 70 mín)
    Balo

    Hvíla Sterling, Coutinho og Moreno. Vil ekki sjá Johnson á móti Palace þar sem Bolaisse hefur farið mjög illa með hann í síðustu tveimur viðureignum þessara liða.

    En svona held ég að Rodgers stilli liðinu upp
    Mignolet
    Lovren-Skrtel-Sakho
    Markovic – Henderson/Allen – Can – Moreno
    Sterling – Lallana
    Sturridge

  16. Takk fyrir þessa góðu upphitun Kristján.

    Ég er sammála að hvíla þá sem hafa verið keyrðir á varatankinum síðustu leiki. Við hljótum að eiga stráka sem geta komið inn í staðin og klárað crystal palace.

    Langaði að benda á þetta viðtal við Íslendinginn inná Liverpool echo.

  17. Ekkert rugl spila á því sterkasta sem völ er á menn eru á launum við þetta ef menn eru þreyttir þá er hægt að gefa frí á æfingum. Vil sjá Bolo og Sturrige saman frammi og Allen á bekknum okkar veikasti hlekkur. Ekkert væl bikarinn heim.

  18. Mér dauðlangar í bikar og FA Cup er stór bikar. Ég vona að við hvílum ekki of marga því að 1986,89,92,2001 og 2006 bikaranir lifa góðu lífi í minningum og er þessi íþrótt spiluð til þess að vinna bikara.
    Ég get ekki talaði öll árinn upp sem við enduðum í 4.sæti eða komust í meistaradeildinna en bikaranir eru það sem sitja eftir þegar maður lítur til baka yfir afrek Liverpool og gleðistundirnar sem tengjast þeim.
    Já við fáum miklu meiri penning á að komast í meistaradeildina og er það bara hið besta mál en tilhvers eru penningarnir? Jú til þess að styrkja liðið þannig að þeir geti fengið til sín betri leikmenn til þess að vinna bikara(svo afhverju ekki að vinna bikarinn bara strax)

    Það má vel vera að ég sé í algjörum minnihluta en ég tæki FA Cup fram yfir 4.sætið í deildinni en best væri auðvita að vinna bara FA Cup og ná 3-4.sæti í deildinni(og kannski evrópukeppnina líka og upplifa 2001 aftur sem var stórkostlegt tímabil)

  19. Ég skil mjög vel áhyggjur Kilroy was here. Ég deili þessum áhyggjum. Vanalega væri ekki snjallt að skipa um 6-7 leikmenn því við það veikist liðið of mikið, sérstaklega þegar leikið er gegn úrvaldsdeildarliði. Hins vegar eru margir leikmenn sem þurfa virkilega á hvíld að halda, ellegar meiðast þeir einfaldlega eins og Lucas og Gerrard lentu í.

    Ég er að mestu sammála Kristjáni Atla með uppstillinguna, nema hvað sóknarlínan mætti alveg vera beittari. Hægt væri að setja Markovic og Lallana undir Sturridge, sem má alveg spila 60-80 mínútur. Johnson getur farið út vinstra megin og Manquillo verið hægra megin, eða að Enrique fái sénsinn.

    Í öllu falli verður leikurinn mjög erfiður og alls ekki á vísan að róa með, sama hvaða liði verður stillt upp. Það er pottþétt sterkur leikur að hafa t.d. Coutinho og Sterling á bekknum og þeir geta þá komið inn og brotið leikinn upp.

  20. Alveg ljóst að Rodgers hefur það á stefnuskránni að komast í úrslitaleik…og í FA bikarnum erum við í sannkölluðu dauðafæri.

    Svo ég held að hann muni stilla upp sterku liði á morgun…og það lið sem Kristján stillir upp er alveg sterkt. Það er hins vegar alveg klárt að Palace má ekki verða einhver grýla og því myndi ég vilja sjá Hendo byrja inná með Can, bæði því liðið er sterkara þannig og auk þess held ég að þeir hafi gott af því að spila saman áður en við höldum til S’oton.

    Skil alveg pælingu með það að hafa Borini þarna inni en svei mér ef ég myndi ekki bara vilja sjá Enrique leysa Moreno af og Markovic verði með Lallana undir Balotelli…

    Að öllu sögðu, þá vill ég að hér verði lagt undir og við verðum í hattinum í næstu umferð. No matter what…

  21. Eg vil bara að okkat allra sterkasta lið hefji leik a morgun og ekkert helvítis vanmat.

    Can og Hendó a miðjuna og sterling og coutinho/Lallana fyrir aftan Sturridge.
    Þetta er alltaf að fara vera þrusu erfiður leikur og þvi vill eg okkar allra besta lið inna völlinn takk.

  22. http://lineupbuilder.com/?sk=63n3

    Mín uppstilling á morgun sem ætti að rúlla yfir þetta Palace lið. Sterling tæpur og ætti því að hvíla eða byrja á bekknum. Can ætti síðan að dreifa spilinu því hann er miklu betri fótboltamaður heldur en Henderson.

    Erum í dauðafæri komast lang í þessari keppni og ekkert helvítis varalið á morgun.

  23. Flott upphitun að vanda.
    Vill ekki breyta vörn þótt hún hafi gefið mörk á móti Spurs.
    Svona vildi ég sjá liðið:
    Mignolet
    Can-Skrtel-Sakho
    Markowitch-Lovren-Henderson-Moreno
    Lallana-Coutinho
    Balotelli

    Bekkurinn væri: Ward-Johnson-Manquillo-Allen-Sturridge-Borini
    Væri til í sjá Lovren taka stöðu Gerrards. Hann er örugglega ekki seinni en hann og með þokkalega sendingagetu. Can er alltaf fyrsta val mitt í 3 manna vörn og engin átæða til að breyta því .

  24. Ekkert kjaftæði, okkar sterkasta lið í þennan leik og reynum að drullast áfram í 8 liða úrslit. Við höfum hingað til ekki riðið feitum hesti frá þessum velli og eigum ekki að láta okkur detta í hug að þetta verði eitthvað auðveldara núna.

    Ég vill frekar spila á sterkast liðinu og komast í 8 liða úrslit heldur en að mæta með eitthvað varalið og detta úr keppni í einni af tveimur keppnum sem við eigum enn möguleika á að vinna.

    KOMA SVO RAUÐIR ! !

  25. Það eru reyndar ein mjög sterk rök með því að stilla upp sterkasta mögulega liðinu. Næsti leikur er ekki fyrr en á fimmtudaginn í Evrópudeildinni og þá ætti að vera hægt að hvíla mannskap fyrir Southampton leikinn um næstu helgi. En Rodgers er með eitthvað plan og líklega sjáum við 2-4 breytingar. Kannski verður þetta bara Lovren inn fyrir Gerrard og Markovic inn fyrir Ibe.

  26. Ég vil sjá lið með Balo og Sturridge saman. Ég spái rauðum 2-1 sigri en þetta verður mjög erfitt.

  27. Ívar Örn (#30) segir:

    „Næsti leikur er ekki fyrr en á fimmtudaginn í Evrópudeildinni og þá ætti að vera hægt að hvíla mannskap fyrir Southampton leikinn um næstu helgi“

    Ég vil einmitt ekki hvíla í Evrópudeildinni. Þar er Meistaradeildarsæti í boði fyrir sigur, ekki í ensku Bikarkeppninni, og því vill ég hvíla leikmenn í dag til að geta keyrt á okkar besta liði á Anfield gegn Besiktas og svo í Southampton þremur dögum síðar.

    Ég veit að mönnum þykir vænt um Wembley og þetta er síðasta ár Gerrard og allt það en ef ég á að velja á milli þess að komast áfram gegn Crystal Palace og að komast áfram gegn Besiktas vel ég alltaf Besiktas. Evrópudeildin er margfalt mikilvægari keppni, að mínu mati.

    Annars leist mér vel á uppástungu sem ég heyrði í The Anfield Wrap-þætti í gær. Svipað lið og ég skaut á í upphitun nema Lallana fyrir aftan Balotelli og Sturridge saman. Það gæti verið kominn tími á að prófa þá félaga saman, sjá hvað það færir okkur.

    Sjáum til, það styttist í leik. Rodgers stillir alltaf upp sterku liði í dag, en hann mun rótera eitthvað. Spurningin er bara hverjir verða þarna.

  28. BR gefur engin grið. Ef leikmaðurinn stígur í báðar þá er honum spilað.
    Mín spá er þessi:
    Mignolet
    Lovren Skrtel Sakho
    Markovic Henderson Can Moreno
    Coutinho
    Sturridge Sterling

    Lallana Allen og Balotelli koma svo inná.
    Rakinn sigur
    YNWA

  29. Leikmenn sem ég tel að verði að fá hvíld í þessum leik eru:
    Sterling, Moreno og Coutinho.
    Spila sínu sterkasta liði fyrir utan þessa menn, sem á að vera það sterkt til að klára CP.

  30. Mignolet
    Lovren – Skrtel – Sakho
    Markovic – Can – Henderson – Moreno
    ——————-Lallana——————
    ———–Sturridge – Balotelli———–

  31. Þetta kom ekki inn rétt Moreno auðvitað úti á vinstri vængnum, Lallana fyrir aftan þá Sturridge og Balotelli

  32. 2-3 af eftirfarandi mega fá séns í dag: Allen, Lovren, Manquillo, Borini, Rossiter, Lambert og Enrique, helst 3.

    Liðið væri þá svona:

    ——————-Simon————————-
    ————–Can – Skrtel – Sakho————
    Sterling – Gerrard – Henderson – Moreno
    ——————Coutinho———————-
    ———Sturridge—–Balotelli————–

    Mín vegna má gera 3 breytingar á þessu liði, ekki fleiri.

    Tökum þetta 0-2 í mögnuðum baráttuleik.

  33. Ágætt að West Ham sé dottið út, þá er í rauninni bara Arsenal og Manchester sem eiga að standa í vegi fyrir okkur.

  34. Doremi ekki það að West Ham hefði nokkurn tímann staðið í vegi fyrir okkur

  35. Kristján, helduru að það sé heillavænlegt að hafa Lovren og Johnson hlið við hlið í vörninni?

  36. Liðið er komið@LFC:

    2015-02-14 16:29:27 UTC

    Confirmed #LFC team v @CPFC: Mignolet, Skrtel, Can, Sakho, Allen, Henderson, Moreno, Markovic, Coutinho, Sturridge

  37. # 41 Takk, flott lið þó að Allen eigi heima á Endabraut númer 99. Þettaer leikur sem horfa ber á.

Hópferð Kop.is: Dagskrá ferðar

Liðið gegn C. Palace