Tottenham á morgun

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

Á morgun kemur Tottenham í heimsókn á Anfield í mjög mikilvægum leik fyrir bæði lið sem vilja koma sér almennilega í baráttuna um eitt af fjórum efstu sætunum. Búast má við hörku leik þegar þessi lið mætast en skildi svipað vera upp á teningnum og í undanförnum leikjum liðana?

Síðustu viðureignir liðana

Í fyrstu viðureign liðana í stjórnartíð Brendan Rodgers hjá Liverpool bar Tottenham sigur úr bítum með tveimur mörkum gegn einu þar sem Gareth Bale, leikmaður Tottenham, átti þátt í öllum mörkunum. Hann lagði upp mark fyrir Aaron Lennon, skoraði sjálfur fyrir Tottenham og Liverpool. Eiginleg Spurs-grýla stríddi Liverpool sem átti oftar en ekki í basli með lið Tottenham undanfarin ár.

Rodgers og lærisveinar hans í Liverpool hafa heldur betur svarað fyrir þetta tap og hefur liðið unnið síðustu fimm viðureignir liðana síðan þá.

Í seinni viðureign liðanna á þeirri leiktíð landaði Liverpool 3-2 sigur gegn Tottenham á Anfield. Luis Suarez kom Liverpool yfir áður en tvö mörk Jan Vertonghen komu Spurs yfir 2-1. Þá tóku leikmenn Liverpool málin í sínar hendur og skoruðu þeir Stewart Downing og Steven Gerrard sitt hvort markið og færðu Liverpool öll þrjú stigin í jöfnun og spennandi leik.

Síðan þá hafa viðureignir liðana bara alls ekki verið spennandi. Stórskemmtilegar en alls ekki spennandi.

Í fyrri leik liðana á síðustu leiktíð mætti Liverpool á White Hart Lane sem hafði reynst þeim afar erfiður undanfarin misseri og þó Liverpool var á fínu skriði í deildinni voru menn kannski ekki alltof bjartsýnir fyrir þann leik. Liverpool hóf leikinn af gríðarlegum krafti og kom Luis Suarez Liverpool yfir eftir tæplega tuttugu mínútna leik. Þetta var bara rétt að byrja! Jordan Henderson bætti við marki rétt fyrir hálfleik og setti Liverpool í þægilega stöðu. Daniel Sturridge, Jon Flanagan og Raheem Sterling sáu svo um að koma Liverpool í 5-0 seint í leiknum. Liverpool hafði þá tekist að kjöldraga Tottenham á erfiðum útivelli.

5-0 sigurinn á White Hart Lane var alls engin tilviljun og seinna á leiktíðinni kom Tottenham á Anfield. Younes Kaboul varð fyrir því óláni að koma boltanum í eigið net eftir flottan kross frá Sterling fyrir markið eftir tveggja mínútna leik og Liverpool komnir á bragðið. Luis Suarez kom Liverpool í 2-0 um miðjan fyrri hálfleik og þeir Philipe Coutinho og Jordan Henderson gerðu út um leikinn í seinni hálfleik og Liverpool vann 4-0!

Gott form Liverpool gegn Tottenham var fast í minnum stuðningsmanna þegar Liverpool heimsótti White Hart Lane fyrr á þessari leiktíð en hversu margir það voru sem bjuggust við enn öðrum stórsigri Liverpool á Tottenahm veit ég ekki en sú varð raunin. Raheem Sterling kom Liverpool yfir á áttundu mínútu og skoraði Gerrard úr vítaspyrnu rétt í upphafi seinni hálfleiks og Alberto Moreno kláraði leikinn á 60. mínútu þegar hann opnaði markareikning sinn hjá Liverpool með frábæru marki. 3-0 sigur staðreynd sem hefði hugsanlega getað orðið stærri.

Líkur sækir líkan heim

Undanfarnar leiktíðir hafa Liverpool og Tottenham att kappi á mörgum vígstöðum. Liðin hafa verið að enda fyrir utan Meistaradeildarsætin sem er það sem bæði lið stefna að því að gera og virðast ætla að fara svipaðar leiðir til þess að ná því.

Á sínum tíma höfðu stjórnendur félagana beggja svipaðar hugmyndir um það hvaða leið þau ætluðu að fara þegar þau réðu nýja stjóra sumarið 2012. Andre Villas Boas, Roberto Martinez, Brendan Rodgers og Frank de Boer voru skoðaðir af báðum liðum og er hugmyndafræði þeirra á heildina litið nokkuð svipuð. Þeir vilja sækja og halda boltanum. Það er stefna sem bæði lið vilja tileinka sér.

Síðan þá, þó stjóraskipti hafa orðið hjá Tottenham þá er stefna þeirra sú sama frá því 2012, hafa félögin átt í hatrammi baráttu á leikmannamarkaðinum þar sem félögin eru að berjast mikið til um sömu leikmennina.

Eftir að Liverpool hafði mikið reynt við að fá Clint Dempsey og Gylfa Sigurðsson til sín þá rændi Tottenham þeim fyrir framan nefið á þeim. Liðin kepptust við að fá Willian sem á endanum fór til Chelsea. Núverandi stjóri þeirra, Mauricio Pochettino, var talinn afar líklegur til að vilja fá Adam Lallana með sér frá Southampton til Tottenham en Liverpool krækti í leikmanninn. Svona má endalaust telja áfram upp en af skiljanlegum ástæðum þá horfa félögin að miklu leiti á sömu staðina eftir sömu eiginleikum í leikmönnum – þau eru líklega ekki að deila ‘scouting’ neti sínu með hinu liðinu!

Félögin hafa bæði verið ögn á eftir keppinautum sínum í baráttunni um Meistaradeildarsætin undanfarin ár og hafa þau svipaðar hugmyndafræði um það hvernig best er að ná því. Hvorugt félagið eru einhverjir big spenders á markaðnum þó þau geti nú auðveldlega haft betur í baráttunni við flest félög. Lið þeirra hafa nú verið byggt á góðum ungum leikmönnum sem hafa ýmist verið keyptir frá öðrum eða komið í gegnum unglingastörf félagana. Félögin hafa sömuleiðis verið að selja nokkrar af sínum skærustu stjörnum fyrir himinháar upphæðir til spænsku stórveldana – Luka Modric og Gareth Bale hafa farið frá Tottenham til Real Madrid fyrir háar upphæðir á síðustu árum og Luis Suarez og Javier Mascherano fóru til Barcelona og Xabi Alonso til Real á síðustu árum, þessar sölur hafa (eða hafðu átt) að fara í það að byggja upp kjarna af öflugum ungum leikmönnum.

Í liði Tottenham er kominn flottur kjarni uppaldra leikmanna með þá Nabil Bentaleb, Ryan Mason og Harry Kane í fararbroddi. Brendan Rodgers var ekki lengi að nappa Alex Inglethorpe frá Tottenham þar sem hann var varaliðsþjálfari og hafði unnið með mörgum þessara leikmanna en hann er nú yfirmaður knattspyrnuakademíu Liverpool. Liverpool er sömuleiðis að keyra mikið á ungum og/eða uppöldum leikmönnum svo reikna má fastlega með að leikmannahópar þessara liða verði í yngri kantinum.

Líkleg byrjunarlið

Byrjunarlið Tottenham verður að ég held ekki mikið breytt frá sigri þeirra á nágrönnunum í Arsenal um síðustu helgi þar sem tvö mörk frá Harry Kane tryggði þeim 2-1 sigur. Kannski Fazio komi inn fyrir Dier eða Chadli troði sér inn fyrir einhvern en ég reikna ekki endilega með því.

Lloris

Walker – Vertonghen – Dier – Rose

Mason – Bentaleb – Dembele

Eriksen – Kane – Lamela

Hjá okkar mönnum þá er þetta ekki eins straight forward. Lucas settist í grasið gegn Everton, bað um skiptingu og rölti útaf með sjúkraþjálfara liðsins og verður líklega frá í einhvern tíma vegna meiðsla í læri. Það þarf því að fylla upp í stöðu hans með einhverjum hætti. Sömuleiðis fengu Coutinho og Sterling einhver högg og þurftu að fara útaf (ásamt því að virka mjög þreyttir líkt og fleiri leikmenn liðsins). Það má því væntanlega búast við nokkrum breytingum á liðinu.

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Ibe – Henderson – Gerrard – Moreno

Sterling – Sturridge – Coutinho

Ég býst við að liðið verði eitthvað á þessa leið. Ibe fær pottþétt að halda sæti sínu í liðinu og ef Sterling og Coutinho eru klárir þá byrja þeir báðir. Ég hugsa að Rodgers muni færa Gerrard aftar í þessum leik til að fylla skarð Lucas frekar en að setja Allen beint inn og ég held/vona að Sturridge muni byrja sinn fyrsta leik fyrir liðið í guð-má-vita-hvað langan tíma. Það væri líka hægt að færa Can á miðsvæðið og þá Lovren eða Johnson inn sem þriðji miðvörður en ég vil helst ekki sjá vörninni róterað enda hún loksins að smella. Ibe og Moreno á kantinum, Sterling og Coutinho dansandi fyrir aftan Sturridge í fremstu víglínu…ég bara slefa við tilhugsunina um sóknarleikinn sem við gætum séð með þessa leikmenn saman á vellinum.

Lykilmennirnir

Tottenham:
Tottenham horfir klárlega til þriggja manna sem þurfa að eiga góðan leik til að ná sigri á Anfield. Lloris í markinu þarf líklega að vera á tánum í leiknum en hann er frábær markvörður og verður það eflaust. Í nokkrum af síðustu viðureignum liðana hefur hann verið besti leikmaður þeirra – þó hann hafi fengið á sig 3-5 mörk í þeim öllum!

Christian Eriksen er maðurinn sem lætur hlutina tikka hjá Tottenham þessa dagana. Frábær leikstjórnandi með einn besta spyrnufótinn í deildinni, hann gerir Tottenham því að mikilli ógn í föstum leikatriðum ásamt því að hann er rosalega naskur við að koma sér í marktækifæri á mikilvægum augnablikum.

Maðurinn sem hefur borið uppi markaskorun Tottenham liðsins Harry Kane er líklega þeirra mikilvægasti leikmaður í dag. Hann er kominn með yfir tuttugu mörk í öllum keppnum á leiktíðinni og er sjóðandi heitur. Mér finnst hann virkilega flottur framherji, fannst hann nokkuð flottur í fyrra en bjóst aldrei við því að hann yrði einhver rosaleg markamaskína. Hann er að skora mikið úr alls konar færum, er sterkur í loftinu og með fínan skotfót. Verður líklega vandlega gætt og þarf að sýna hvers hann er megnugur.

Liverpool:
Liverpool mun þurfa að treysta á að vörnin haldi áfram að vera þétt og fái ekki á sig mörk. Það væri hægt að pick-a út hvern sem er úr þessari þriggja manna varnalínu en ég ætla að taka út Martin Skrtel. Slóvakinn var frábær gegn Everton og hefur verið það í síðustu leikjum, hann er í hjarta varnarinnar og á að sjá um að stjórna henni ásamt því að sópa upp og dekka framherjann. Harry Kane er sjóðandi heitur og mun hann þurfa að fylgjast vel með honum.

Raheem Sterling hefur verið í lykilhlutverki hjá Liverpool í rúmt ár núna þrátt fyrir ungan aldur. Hann er kominn með níu mörk á leiktíðinni í öllum keppnum en hann hefur þurft að leysa nokkur hlutverk fyrir liðið á þeim tíma sem Sturridge hefur verið meiddur og Rodgers gafst upp á hinum framherjum sínum en hann hefur í síðustu leikjum verið að leiða sóknarlínu liðsins með sóma. Hvort sem hann muni spiila í holunni eða í fremstu víglínu. Boltaræknin, hraðinn og allt það sem hann býður upp á mun gefa varnarmönnum Tottenham hausverk – ef hann verður með.

Liverpool er að fá langþráðan leikmann til baka úr meiðslum þessa dagana en Daniel Sturridge er að komast til baka úr meiðslum sem hafa haldið honum frá keppni í einhverja fimm mánuði. Hann kom inn á gegn West Ham og minnti heldur betur á sig þegar hann skoraði eftir aðeins nokkrar mínútur á vellinum. Hann hefur ekki verið að spila margar mínútur undanfarið en þær fara stigmagnandi og kæmi mér ekki á óvart ef hann byrji inn á gegn Tottenham og fái einhverjar 60-70 mínútur í leiknum. Hann er mikill lykilmaður hjá Liverpool enda frábær framherji sem býr yfir svakalegum hraða, frábærri tækni, klárar færi sín meistaralega, vinnur leiki og tekur virkan þátt í sóknaruppbyggingu liðsins. Hann er einn besti framherji deildarinnar og er með tvö mörk í þeim fimm leikjum sem hann hefur tekið þátt í á leiktíðinni.

Hvað mun gerast?

Saga síðustu viðureigna segir að Liverpool muni slátra Tottenham. Halda hreinu og skora að minnsta kosti þrjú mörk sjálfir. Það verður líklega ekki raunin á morgun reiknar maður með.

Tottenham hafa verið að finna dampinn og eru orðnir andlega sterkari og heilsteyptari en þeir hafa undanfarið verið. Pochettino hefur verið að ná hugmyndum sínum betur inn í liðið og eru þeir orðnir mjög sterkir og farnir að vinna mikið af karakter sigrum/stigum. Tottenham er það lið sem hefur unnið flest stig eftir að hafa verið undir í leikjum sínum eða fimmtán talsins sem er það mesta í deildinni og tólf þeirra hafa komið eftir að liðið skoraði á síðustu fimm mínútum leiksins. Þeir eru því afar seigir og eru ekki líklegir til að leggjast niður og bíða þess að deyja ef illa gegnur líkt og áður.

Liverpool er að loka glufunum í vörn sinni eftir ömurlegan varnarleik í upphafi móts. Liðið hefur nú haldið hreinu í fimm af síðustu átta leikjum sínum í öllum keppnum, sex ef þú telur ekki framlenginguna gegn Chelsea með og hafa aðeins fengið á sig þrjú mörk í þeim leikjum.

Liðið er líka enn að skapa sér fullt af færum þó það hafi vantað upp á að klára þau á tíðum en það hefur verið að takast ágætlega undanfarið og með endurkomu Sturridge er líklegt að það muni aukast.

Ég ætla að reikna með nokkuð jöfnum leik tveggja sterkra liða. Bæði lið vilja sjá meira af boltanum en hitt liðið og bæði lið munu því reyna að gefa mótherjanum eins lítinn frið á boltanum og mögulegt er. Liðin munu reyna að beita hröðum sóknum þegar þau vinna boltann og reyna að fóðra framherja sína.

Tottenham er mikil ógn í föstum leikatriðum með spyrnum Christian Eriksen og þarf Liverpool því að reyna að forðast það eins og heitann eldinn að gefa ódýrar aukaspyrnur á hættulegum stöðum. Tottenham þyrfti reyndar að gera það líka því Gerrard er nú ekki slæmur spyrnumaður fyrir Liverpool.

Liverpool vinnur 4-0! Nei, leikurinn fer 2-1 fyrir Liverpool. Sturridge og Sterling skora fyrir Liverpool og koma þeim í 2-0 en Kane minnkar muninn fyrir Tottenham.

52 Comments

  1. Ég er spenntur að sjá hvort hann muni spila Gerrard eftir einungis þriggja daga hvíld. Varnartengiliðurinn er mjög erfið staða og við sáum það fyrr á leiktíðinni að Gerrard á alls ekki auðvelt með að leysa þá stöðu í dag og hvað þá gegn mjög sterku liði Tottenham.

    Ég sé jafnvel fyrir mér að hann setji Gerrard á bekkinn og færi Can framar í stöðuna hans Lucas. Spurning hvort það væri sénsinn fyrir Lovren að reyna koma sér inn í liðið. Ég er sammála þér Óli að það getur verið hættulegt að riðla vörn sem hefur haldið hreinu í 480 mínútur í deildinni, en hversu mikið af því er Lucas að þakka? Það að setja Gerrard í þessa holu finnst mér búa til svipað skarð í varnarleikinn.
    Ég vil gjarnan halda Ibe og Moreno í liðinu þar sem bakverðir Tottenham eru einnig mjög hraðir og duglegir að hlaupa upp en á sama tíma geta verið mjög slakir varnarlega eins og Dany Rose sýndi gegn Arsenal.

    En þetta verður mun erfiðari leikur en síðustu þrír leikir. Held að við munum vinna 2-1 í spennandi leik. Sturridge og Sterling með mörkin.

  2. Gerrard á ekki heima í byrjunarliði núna frekar en oft áður á tímabilinu. Það er búið að sjást í mörgum leikjum og einnig í þeim síðasta. Hann er búinn að gera mikið fyrir Liverpool í tímans rás og nú þarf hann kóróna það með því að draga sig meira til hlés á síðasta sprettinum.

  3. Ég vil sjá Can á miðjunni að verja vörnina.
    Skrtel og Sakho ásamt Mignolet eru komnir með sjálfstraust og hljóta að geta coverað hann Lovren blessaðan, hann kostaði jú um 20 millur og hlýtur að geta hlaupið í skarðið fyrir Can.

    Ég vil alls alls ekki sjá Gerrard og Hendo saman á miðjunni á morgun. Það er ávísun á vandræði.
    Can og Hendo á miðjuna með Ibe og Moreno á köntunum.
    Frammi verður vonandi Sturridge með Coutinho og Sterling fyrir aftan.

  4. Ég er ekki frá því að Can á miðjuna og Johnson í hægri miðvörð sé málið. Vil ekki hreyfa við Sakho eða Skrtel og miðað við formið sem Can hefur spilað sig í og ógnina sem stafaði af honum fyrir utan teig á móti Bolton, þá finnst mér mjög spennandi tilhugsun að hafa hann og Henderson í þessum tveimur miðjuhlutverkum. Það er physical presence á miðjusvæðinu í meira mæli en við höfum haft þar síðan Momo Sissoko var og hét. Mun líka rugla Tottenham í ríminu – allt öðru vísi miðjuógnun en með Allen eða Lucas afturliggjandi. Og Gerrard blessaður, hann hvílir sig á bekknum fyrir næsta leik.

  5. Verðum að taka 3 stig svo einfalt er það.

    Spai 3-0

    Sturridge , sterling og Gerrard með mörkin

  6. Þetta verður djöfulli erfitt óttast ég og maður hefur töluverðar áhyggjur af standinu á hópnum eftir mikið álag og afar litla dreifingu á álagi.

    Vona innilega að liðið verði ekki eins og Óli setur þetta upp enda miðjan mun veikari svona. Gerrard er búinn að spila tvo leiki á nokkrum dögum og þyrfti hvíld í þessum leik. Líklega kemur Joe Allen bara beint inn fyrir Lucas.

    Ef Sturridge er ekki leikfær myndi ég setja Ibe eða Lallana inn fyrir hann.

    Svona myndi ég samt vilja sjá Rodgers leysa fjarveru Lucas næstu vikurnar

    Ef þetta er ekki tíminn til að nota þennan 20m miðvörð sem keypt var í sumar veit ég ekki hvenær það á að vera. Hann er búinn að fara í frystinn eins og t.d. Mignolet, Can, Markovic o.fl. hafa lent í og núna er spurning hvort ekki sé þorandi að prufa hann aftur. Ef ekki Lovren þá Johnson sem er kominn til baka eftir meiðsli.

    Þetta eru ekki heillandi kostir en með þessu færi Can á miðjuna sem ætti að styrkja okkur verulega þar. Sérstaklega m.v. Allen og Gerrard sem hafa alls ekki heillað þar í vetur. Ibe er svo að manni sýnist tilbúinn að leysa Markovic af í vængbakverðinum eða Coutinho/Sterling fremst á miðjunni.

    3-4-3 er síðan ekkert eini valkosturinn fyrir Rodgers, sérstaklega ekki með endurkomu Sturridge og hann getur t.d. farið svona inn í þennan leik

    Þetta væri líka góður séns

  7. Það eru algjer forréttindi að fá möguleikan á að lesa svona upphitanir og yfirferðir í lok leiks, finnst ég vera partur af flottri Liverpool fjölskyldu sem hefur fagmennskuna í fyrirrúmi.

    Hvað leik morgundagsins varðar þá er Harry nokkur Kane á algerri flugferð og vona að varnarmenn okkar leysi verkefnið betur en nallarnir gerðu um síðustu helgi, vona einnig að menn noti vonbrigðin frá Neverton leiknum og komi kolbrjæalaðir til leiks og haldi uppteknum hætti hvað Tottenham varðar, verður strempið en finnst 2-1 liggja í loftinu fyrir okkar mönnum. Y.N.W.A

  8. Þyrfti Moreno endilega að vera inni ?

    Gæti þetta ekki verið svona

    —————Mignolet
    —-Lovren—Skrtel—Sakho
    Markovic–Can–Hendo–Ibe
    —-Coutinho—–Sterling
    ————-Sturridge

    Jordan Ibe spilaði á vinstri kantinum hjá Derby, er það ekki.
    Hann er réttfættur og þannig myndi hann nýtast vel með skotfótinn þarna vinstra meginn.

    Þarna erum við með rosalegan hraða á báðum vængjunum, Moreno er vissulega fljótur en Ibe ætti léttilega að geta leyst af þarna megin líka.

  9. Eg er buinn að vera með þessa hugdettu i maganum ansi lengi. Afhverju ekki að prófa lovren i holding þegar að lucas er meiddur. Þa ruglum við ekki i vörninni, lovren er wc player. Hann varð ekkert lélegur a nokkrum man. Hann bara er ekki að fitta i miðvörð i lélegu liverpool liði. (Er að tala um fyrstu mánuði tímabils)
    Hann er frekar snöggur, tæklari, og finn a bolta, sennilega betri en lucas a bolta.
    Væri mjög til i að profa hann þarna.

  10. Teddi, það er greinilega eitthvað í vatninu um þessar mundir:

    http://www.reddit.com/r/LiverpoolFC/comments/2vbmvt/replacing_lucas_with/

    Þessi hugmynd er nú svosem ekkert að kveikja neitt svakalega í mönnum ef marka má svörin. En ég er svosem viss um að ef einhver hefði stungið upp á 3ja manna vörn með Can fyrir svona 3 mánuðum, þá hefði sá hinn sami nú fljótt verið skotinn niður á spjallborðum veraldarvefsins.

  11. Það verður spennandi að sjá hvernig BR stillir þessu upp. Ég held að það sé kominn tími á Can á miðjunni. Afhverju ekki að taka sénsinn, hann mun verða þarna næstu árinn, vonandi sem framtíðar fyrirliði Liverpool. Það verður að henda honum í laugina og Gerrard er búinn að vera frekar dapur undanfarið og er að renna sitt skeið á enda. ( respect )

    Flottar pælingar með byrjunarliðið hjá Babu. Langt síðan ég hef séð svona spennandi Liverpool lið á pappírunum og hópurinn er svo sannarlega breiðari en undanfarin ár sem er eitthvað sem við höfum allir verið að vonast eftir. Þegar það er hægt að stilla upp liðinu á nokkra vegu án þess að það veikist mikið á pappír þá erum við að tala saman.

    Ibe verður vonandi first team maður á næsta ári og svo bindur maður vonir við Origi. Ef Lallana og Marcovich standa undir pressunni þá erum við komnir með býsna flottan hóp uppá næsta ár að gera. Svo er aldrei að vita nema Dunn, Brannagan, Wisdom, Laughlin, Rossiter ofl gætu komið inn í hópinn.

    Í sumar myndi ég Vilja sjá sterkan DM og topp markmann. Kannski eitt vildcard í viðbót en halda í þá sem við viljum halda í. Þannig ættum við að geta byrjað næsta tímabil þar sem frá var horfið í ár og það er gríðarlega mikilvægt uppá að vera ekki í basli fram að áramótum eins og svo oft áður.

  12. Getur einhver útskýrt af hverju Liverpool keypti ekki Christian Eriksen?

    Hann kostaði 7,5 m er með – 40 þúsund pund á viku. Það vissu allir að hann var til sölu.

    Hvað er málið, hvernig gat hann farið fram hjá öllum njósnarateymum stórliðanna?

    Ég treysti á ykkur sem eruð með þessa frábæru síðu að upplýsa okkur.

    YNWA

    p.s frábær upphitun eins og venjulega þetta verður hörkuleikur sem verður að vinnast. Skelfilegt að Lucas sé meiddur.

  13. Orðrómar eru um að Liverpool og fleiri hafi fylgst mikið með Eriksen en flestir hafi sammælst um að hann væri ekki nógu stór karakter, driftaði oft út úr leikjum og jafnvel mætti ekki í stóru leikina. Hann sýndi frábæra tölfræði og svona en var ekki allur þar sem hann var séður.

    Þetta var það sem maður heyrði allavega á sínum tíma og útskýrir margt af hverju fleiri lið voru ekki að berjast um hann á sínum tíma á þessu verði.

  14. Ég verð því miður að fara aftur í Everton spánna og segja að við töpum leiknum ef Gerrard byrjar, en vinnum ef hann er á bekknum.

    Ég held að okkar lang besta lausn á meiðslum Lucas sé að færa Can upp á miðju og koma með Kolo inn í miðvörð, báðir eiga skilið byrjunarliðssæti í sínum stöðum og hafa nýtt sín tækifæri afar vel.

    Þetta stendur og fellur með Gerrard, eins og svo oft áður hjá okkur, en í þetta sinn á allt annan hátt.

  15. Sælir félagar

    Takk fyrir góða upphitun Óli. Ég vona samt af öllu hjarta að þú hafir rangt fyrir þér hvað uppstillingu varðar en er skíthræddur við að Gerrard eða Allen komi inn fyrir Lucas. Alla daga vil ég frekar einhverja af þremur síðustu uppstillingum Babu en þessa fyrstu þína Óli.

    En hvað um það. Þennan leik verður að vinna. Það má ekki gerast eins og í Everton leiknum að stjórinn sætti sig við jafntefli og spili upp á það. Það er ávísun á tap og yrði skelfileg niðurstaða. Við töpum leiknum með uppstillingunni sem Óli heldur að verði ofan á en vinnum með einhverri af seinustu þremur Babu’s. Fyrra tilvik 1 – 3 seinni tilvik 4 – 2.

    Það er nú þannig

    YNWA

  16. Ég man hvað maður bölvaði yfir því að klúbburinn hafi ekki keypt Eriksen í stað Alberto á sínum tíma. Báðir á sama aldri nema Eriksen var með um 30 landsleiki, Meistaradeildarleiki og leiki í efstu deild undir beltinu. Eitthvað sem Alberto hafði ekki en samt sem áður fóru þeir fyrir svipaðann pening.

    Einhverjir töluðu um að Eriksen væri verstur þegar illa gengi. Hvað er hann búinn að skora mörg mörk í uppbótartíma fyrir Spurs í vetur? Hann er sjálfsagt búinn að vinna 9-12 stig fyrir þá í vetur á lokamínútunum.

  17. Hvaðan hafið þið það að Eriksen hafa kostað bara 7,5 miðað við það sem ég hef flett upp kostaði hann 11 milljónir sem eru samt góð kaup .

  18. vinnum þetta 2-1 Er alls ekki viss um að Gerrard byrji þennan leik hefði viljað sjá Can fyrir Lucas en er nokkuð viss um að það verði ekki,held því miður að Allen komi inní byrjunarliðið og svo vill ég sjá Lallana koma inn bara gleði…. 🙂

  19. Flott upphitun Óli.
    Vona innilega að Gerrard byrji á bekknum og liðið verði svona:

    Mignolt
    Can-Skrtel-Sakho
    Ibe-Henderson-Allen-Moreno
    Sterling-Coutinho
    Sturridge

    Megum ekki breyta vörninni sem hefur verið að halda hreinu í síðustu leikjum. Í síðasta leik okkar við Tottenham keyrði Sterling á Rose í vinstri bakverðinum allan leikinn, sem réði engan veginn við hann. Með Sterling og Ibe pressandi á Rose og Dembele er leiðin okkar sigri á Spurs.

  20. Er þetta ekki tilvalið tækifæri til þess að breyta aftur í fjögura-mann vörn?

    Myndi vilja sjá þetta svona ef Sturridge byrjar:

    Mignolet, Johnson, Skrtel, Sakho, Moreno, Can, Henderson, Ibe, Coutinho, Sterling, Sturridge.

    Ef Sturridge byrjar ekki þá myndi ég vilja sjá þetta svona í þriggja manna vörn:

    Mignolet, Johnson, Skrtel, Sakho, Can, Henderson, Markovic, Moreno, Coutinho, Ibe, Sterling.

  21. Sterling ekki með í kvöld, svakalega fréttir en við eigum þó alltaf Sturridge svo gæti orðið fullkominn leikur til að láta hann byrja.

  22. tímabært að setja ibe í aðalstöðuna hans sterlings, markovich á hægri vænginn og sturridge uppá topp þetta er úrslitaleikur tímabilsins eins og staðan er núna ef við vinnum tel eg mjög góðar líkur á top 4 ef ekki þá sé ég það ekki hafast og coutinho verður að byrja !

  23. Ætli þetta verði þá ekki byrjunarliðið:
    Mignolet
    Can, Skrtel, Sakho
    Henderson Allen
    Markovic Lallana Coutinho Ibe
    Sturridge

    Held að það sé ljóst að Allen komi inn. Eina spurningin í mínum huga hvort Gerrard byrji eða Lallana komi inn.

    Þetta verður spennandi.

    YNWA

  24. Greinilegt að leikjaálagið er farið að taka sinn toll og meiðslalistinn lengist. Vissulega er alltaf gaman að horfa á Liverpool spila en maður verður hins vegar að vera raunsær, 48-72 tíma recovery milli leikja, viku eftir viku er einfaldlega alltof mikið álag.

    Eins og dagskráin er framundan þá held ég að Rodgers ætti alvarlega íhuga að nota Evrópudeildina í að gefa leikmönnum úr unglingaliðinu reynslu á alþjóðlegum vettvangi og nota leikmenn eins og Lovren, Lambert og Balo til þess að styrkja það lið. Leikirnir gegn Tottenham, Southampton og Man City eru algjörir lykilleikir uppá framhaldið. Jafnvel má líta svo á að jafntefli í einhverjum þessum viðureignum séu tvö töpuð stig. Svo má ekki vanmeta viðureignina gegn Burnley sem kemur 72 klst eftir leikinn gegn City.

    Það er ekkert lið í deildinni að fara í gegnum sambærilegt prógram og Liverpool er að fara í gegnum og það má heldur ekki gleyma því að liðið er búið að vera í mjög þéttu prógrammi. Leikurinn í kvöld 8 leikur liðsins á 24 dögum, sem er náttúrulega algjört bull í þjálfræðilegum skilningi. Þetta þýðir að leikmenn hafa að meðaltali haft 72 klst í recovery!!!

    Framundan eru 7 leikir á 22 dögum sem þýðir að leikmenn hafa um þrjá sólarhringa í recovery. Ég er ansi hræddur um að aukaleikurinn gegn Bolton hafi reynst ansi dýrkeyptur í ljósi meiðsla. Það hefði verið nauðsynlegt að fá 7 daga hvíld eftir West Ham leikinn í ljósi þess leikjaálags sem er á liðinu.

    En þetta er staðan og ljóst að BR þarf að halda vel á spilunum og velja réttu leikina í að hvíla menn.

    Ef Liverpool hefði alla leikmenn tiltæka fyrir leikinn í kvöld gæti maður leyft sér að vera bjartsýnn en eins og staðan er núna án Sterling og Lucas og með Sturridge og Markovic að stíga uppúr meiðslum er maður e.t.v. alveg eins bjartur. Ef Sturridge byrjar ekki þá hreinlega veit ég ekki hvaðan mörkin og ógnunin fram á við á að koma.

    Það breytir því hins vegar ekki að það væri virkilega sætt að ná þremur stigum í kvöld og minnka forskot Spurs í 1 stig og í leiðinni þagga niður í háværum Spurs stuðningsmönnum.

  25. Sterling out við verðum að sýna það að við getum þetta án hans.

    Ég tippa á
    Mignolet
    Can, Skrtel, Sakho
    Henderson, Gerrard, Moreno, Markovic
    Coutinho, Sturridge

    Ég væri líka til í að fá Balo á bekkinn

  26. Keli….
    Ætlar þú að spila einum færri???

    Tottenham eru betri en það 😀

  27. Svona verður liðið í kvöld

    Markvörður : Mignolet
    Miðverðir : Can, Skrtel, Sakho – ef það er að virka ekki breytta.
    R Wing back: Ibe
    L Wing back: Moreno
    Miðjumenn: Henderson og Allen
    Hægri sókn: Lallana
    Vinstir sókn: Coutinho
    Framherji: Sturridge

    Sterling og Lucas meiddir : Sturridge og Allen inn
    Gerrard alltof þreyttur : Lallana inn.

  28. Þetta er svo dauðafæri fyrir Tottenham.
    Ef þeir fengu að velja tvo leikmenn til þess að detta úr Liverpool liðinu þá væri það líklega
    Sterling og Lucas í dag.

  29. Slæmt að missa Lucas OG Sterling fyrir þennan 6 stiga leik. Nú þurfa þeir sem koma inn í staðin að stíga upp og minna á sig. Ætli það verði ekki Allen sem kemur inn fyrir Lucas og svo vona ég að Sturridge og Ibe byrji þennan leik líka.

    Ef við höldum hreinu þá ættum við að geta potað inn eins og tveimur mörkum.

    Allen sýndu nú að þú sért þess verður að vera í LIVERPOOL FC.

    KOMA SVO RAUÐIR ! ! !

  30. Sammála Ian Rush # 31 vardandi líklega uppstillingu ef Coutinho og Lallana eru bádir fit. Ef annar hvor teirra er hins vegar ekki fit á ég von á Ibe ásamt ödrum teirra fyrir aftan Sturridge

  31. Ég vill frekar sjá Lovren eða Manquillo enn Johnson í hægri-miðverðinum. Johnson er varnalega einn sá slakasti bakvörður í deildinni.

  32. Ég myndi villja sjá:
    Mignolet
    Lovren, Skrtel, Sakho
    Ibe, Henderson, Can, Moreno
    Lallana, Coutinho
    Sturridge

    Allgjör synd að bjóta upp vörnina sem hefur verið að standa sig en lykillinn að gengi varnarinna er Lugas, og þar sem hann er ekki heill þá myndi ég nota Can þarna. reikna með að þetta ?e hanns framtíðar staða.

  33. eða svona :
    Mignolet
    Lovren, Skrtel, Sakho
    Marovich, Henderson, Can, Moreno
    Ibe, Coutinho
    Sturridge

  34. Það stendur að leikurinn byrji kl 21 á síðunnu hjá ykkur. Hið rétta er að hann byrjar kl 20.00 bara svona ef einhver héldi að hann byrjaði kl 21.

  35. Afsakið þráðránið en þar sem við Liverpool stuðningsmenn á Akureyri erum orðnir heimilislausir þá ætlum við að prófa að hittast uppi í golfskála GA í kvöld. Endilega látið sjá ykkur. Fyrirvarinn var of stuttur til að hægt væri að hafa mat en við fáum drykki og nammi. Ákveðum vonandi framhaldið fljótlega. Takk takk.

  36. Takk fyrir greinargóðar upplýsingar Ólafur Haukur og Babu.

    Ég fór nærri því að gráta þegar Stefán Hrafn setti Eiriksson í samhengi við Alberto en til að gæta sanngirni þá voru þetta einu kaupin sem gengu upp hjá Tottenham það haustið. Bale peningunum var ekki vel varið.

  37. #35 Veitingastaðurinn Frón á Eyrarvegi (í útjaðri bæjarins á leið á Eyrarbakka) ætti að sýna leikinn

  38. Liðið er komið:
    Mignolet
    Can-Skrtel-Sakho
    Ibe-Gerrard-Henderson-Moreno
    Markovic-Sturridge-Coutinho

  39. God fokking djöfulsins, Gerrard breytir miðjunni okkar í slow-mo party.

    #9 / #10:

    Væri alveg til í að prófa Lovren sem CDM, virkaði ágætlega með David Luiz.
    Sömuleiðis að setja Can í CDM og gá hvort að Lovren meshi ekki í vörninni núna sem er orðin töluvert traustari.

    #4:
    Johnson hefur komið inná sem sub sem einn af CB-unum í þessu kerfi og það er hrottalegt, maðurinn er vonlaus varnarmaður.

  40. #40..
    Það er verið að sýna alla Liverpool leiki á Bryggjunni, hliðina á sportvitanum.. (Akureyri)

  41. Takk fyrir það Róbert, það er eitt af því sem við ætlum að skoða 🙂

  42. Það er alveg frábært að það sé boðið uppá WiFi í vélum Icelandair, ég er að fara til Boston sem eru einhverjir 5 tímar og að gera tekið upp ipadinn á eftir og séð Liverpool spila á eftir er alveg frábært.
    Vona bara að aðrir farþegar taki tillit til þess þegar ég fagna mörkum Liverpool.

  43. Villi…….

    Nkl bara fínt að byrja einum færri og svo kemur Balo inná og setur þrennu hóst hóst 😉

  44. Byrjunarliðið ca eins og maður bjóst við, var þetta ekki bara spurning um Allen eða Gerrard í stað Lucasar? Einnig rökrétt að byrja með Sturridge í fjarveru Sterling. Sjá svo til hvort það þurfi að skipta honum út af eftir ca 60 mínútur.

    Ef það á að nota Johnson á annað borð í núverandi kerfi, þá allan daginn frekar sem wingback en miðvörð. Á góðum degi er hann stórskæður fram á við, en hefur aldrei verið sérstaklega góður varnarmaður.

  45. Ég er ekki spenntur fyrir því að Gerrard sé varnartengiliður. Jú hann verður rosalegur sendingalega og það er væntanlega yfirfrakki á honum allan tíman – en það sem ég hef áhyggjur á því að hann er ekki nógu hraður og nægjanlega góður varnarlega..

  46. Sæl öll,
    Liðið hikstaði á móti Everton og náði ekki að skora. Tottenham á eftir að pakka í vörn og vera stórhættulegir í skyndisóknum og “föstum”-leikatriðum.
    Ég hef slæma tilfinningu fyrir þessum leik og óttast að við töpum honum 1-2.

Hype í kringum Ibe

Liðið gegn Tottenham