Litli töframaðurinn

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

Rétt fyrir kvöldmatarleitið 30.janúar 2013 greindi Liverpool frá því að félagið hafi fest kaup á Brasilíumanninum Philippe Coutinho á spottprís frá Inter Milan. Þessi hárprúði ungi drengur hafði getið af sér orðspor í Evrópu sem mjög flinkur og efnilegur leikmaður en honum hafði ekki tekist að fóta sig hjá Inter. Hann hafði áður verið lánaður til Espanyol á Spáni þar sem hann stóð sig fínt en var inn og út úr liðinu hjá Inter sem ákvað að selja hann. Á rúmar átta milljónir punda. Á-T-T-A milljónir punda!

Skömmu eftir félagsskiptin lék Coutinho sínar fyrstu mínútur með Liverpool þegar hann kom inn á sem skiptimaður seint í sigurleik á West Bromwich Albion á Anfield. Þar fengum við stuðningsmenn Liverpool smá smjörþef af nýja Brassanum okkar með -inho endinguna í nafninu sínu. Hann átti heldur betur eftir að láta okkur rísa úr sætum okkar á meðan við horfðum á leiki.

Út þá leiktíð fór hann mikinn í liði Liverpool ásamt öðrum nýjum leikmanni Daniel Sturridge. Nýja viðbótin við liðið á þeim tíma gaf því nýjar áherslur sem áður hafði vantað; hraða, tækni, hnitmiðaðar sendingar og ég veit ekki hvað. Coutinho lék þrettán deildarleiki það sem af lifði leiktíðar og skoraði þrjú mörk og lagði upp önnur fimm, ásamt því að vera heilt yfir virkilega ógnandi í sóknarleik liðsins þar sem hann lék hvað mest úti á vinstri vængnum og cut-aði inn á völlinn.

Tímabilið eftir, s.s. síðasta tímabil, var hann enn þá betri. Leikur hans varð stöðugari og betri með hverjum leiknum sem leið og fór hann úr því að vera nokkurs konar lúxus sóknarmaður í mikilvægan leikmann í varnarleik, hápressu og uppbyggingu spils. Á seinni helming leiktíðar færðist Coutinho inn á miðja miðjuna við hlið Jordan Henderson fyrir framan Steven Gerrard. Undirritaður var nokkuð skeptískur á að sjá honum stillt upp í þeirri stöðu í fyrsta skiptið í heimaleik gegn Arsenal (minnir að það hafi verið fyrsta eða í það minnsta eitt af fyrstu skiptunum sem hann spilaði þá stöðu) en hamingjan hjálpi mér stóð hann sig vel.

Coutinho vann sig inn í hjörtu stuðningsmanna með því að pressa hátt, gera listaverk með boltann og þræða hnitmiðaðar sendingar í hlaupaleiðir samherja sinna. Hann lék 33 leiki á því tímabili, skoraði fimm og lagði upp sjö. Kannski ekki gífurleg tölfræðileg bæting á milli leiktíða en um það verður ekki deilt að framfarirnar í leik hans á þessum tíma.

Einhverja hluta vegna var Coutinho ekki valinn í landsliðshóp Brasilíu fyrir Heimsmeistaramótið sem haldið var þar í landi. Það urðu mikil vonbrigði fyrir Coutinho sem sagði að þá væri bara eitt í stöðunni fyrir sig, hann þyrfti að bíta á jaxlinn og leggja enn harðar að sér.

Hann mætti manna ferskastur í undirbúningstímabilið með Liverpool og lék sér hreinlega með mótherja liðsins í æfingaleikjunum. Þó mótherjarnir hafi ekki allir verið í einhverjum heimsklassa þá sýndi hann það fyllilega hve mörgum skrefum hann er á undan svo mörgum í þessari íþrótt sem við elskum. Luis Suarez var farinn og Coutinho, eftir frábærar frammistöður leiktíðina áður, átti að vera einn þeirra sem átti að sjá um að bera liðið uppi eftir bröttför Úrúgvæans.

Þegar alvaran fór loksins að koma í spilin og núlíðandi tímabil hófst fór aftur á móti að halla undan fæti hjá Brassanum. Honum, líkt og flestum leikmönnum liðsins, gekk afar illa að finna taktinn og á tíðum var hann nær óþekkjanlegur á vellinum. Sendingar hans klúðruðust oftar en venjulega, hann hljóp sig í ógöngur og gekk að mestu almennt illa að detta í gírinn. Kannski var það eitthvað hjá honum eða kannski var það vegna þess að Liverpool liðið var mjög hægt, fyrirsjáanlegt og klunnalegt í sóknaraðgerðum sínum. Illa virtist ganga að finna stöðu og hlutverk í liðinu sem hentaði hans hæfileikum að fullnustu.

Brendan Rodgers, sem er mikill aðdáandi Coutinho og eflaust hyggst hann byggja liðið í kringum hann, breytti til í leikkerfi sínu og virtist takast að fá meira úr liðinu í heild sinni með Coutinho sem miðpunkt þess. Hann færðist í frjálst hlutverk sem annar tveggja miðjumanna fyrir aftan Raheem Sterling í framlínunni og hraða leikmenn og virtist hann heldur betur finna taktinn þar. Hann er nú nær alltaf með boltann við fæturna og er statt og stöðugt að skapa pláss og færi fyrir samherja sína aftur.

Rodgers: “If you look at that type of player he is, you look at Modric,” he told reporters.

“He doesn’t have a big goalscoring record, but he is a world-class player, a continuity player. He can make passes and put the ball in behind and he gets the odd goal from outside the box. He is a top-class player who can create the game who is so important in opening up doors for the team. Toni Kroos is another of that type; a wonderful footballer and great passer.

“They maybe don’t get as many goals for what their technique is, but their role is to sit behind the ball and create goals for others. Their role is not to score 20 a season. Phil’s numbers will improve, but it is not the be all and end all if he doesn’t get 20 a season.”

Undanfarin misseri hefur aukinn stöðugleiki komið í hans leik og virðist hann vera orðinn nær ósnertanlegur af mótherjum sínum þegar hann tekur á rás. Hann lagði upp tvö marka Liverpool með stórkostlegum stungusendingum í síðasta deildarleik liðsins gegn West Ham. Hann skoraði einnig frábært mark gegn Bolton á lokamínútum leiksins í gær.

Coutinho er í feyknaformi þessa dagana. Daniel Sturridge er að komast aftur í gang og líklega færist Sterling við hlið Coutinho í holunni, það er því erfitt að búast ekki við því að hann haldi svipuðum dampi eða jafnvel gefi ögn í.

Við stuðningsmenn Liverpool höfum alltaf vitað af og lofsamað hæfileika hans, nú loksins virðist restin farin að viðurkenna snilli hans. Fólk hefur verið ragt við að viðurkenna hann sem ‘heimsklassa’ sóknartengilið/leikstjórnanda, getum við ekki farið að flokka hann sem slíkan? Ef ekki, hvað þarf að gerast til að við getum gert það?

Coutinho er nýbúinn að skrifa undir samning við Liverpool sem gildir til ársins 2020 sem eru frábærar fréttir fyrir félagið. Mikið hlakka ég til að fylgjast með litla töframanninum í næsta leik. Til að stytta biðina þá skelli ég myndbandi af nokkrum vel völdum atvikum úr leikjum hans með Liverpool:

https://www.youtube.com/watch?v=W2P9f_HrFs0

Athugið þetta myndband er alveg örugglega 18+

27 Comments

  1. Ég gagnrýndi frammistöðu Coutinho mikið fyrr í vetur en þegar maður horfir til baka þá var sú gagnrýni sennilega pínu ósanngjörn. Það er t.d. ómögulegt fyrir leikmann að senda góða stungusendingu nema að einhver taki gott hlaup inn fyrir vörnina. Það var ekki fyrr en að Sterling var settur í fremstu víglínu sem við fórum að sjá þessi hlaup sem Coutinho þrífst á. Balotelli og Lambert vilja báðir frekar fá boltann í lappirnar með bakið í markið fyrir utan vítateiginn. Coutinho hélt samt áfram að reyna þessar sendingar en fór líka kannski að reyna of mikið sjálfur og taka ótímabær skot.

    Coutinho hefur hinsvegar verið alveg magnaður undanfarnar vikur og vonandi heldur hann svona áfram. Ef hann fer að klára skotin betur (eins og gegn Bolton) að þá á hann alveg að geta skilað 20 mörkum á tímabili (mörk plús stoðsendingar).

  2. Skemmtilegt. Ég var einmitt að pósta svipuðu myndbandi af honum á facebook grúppu flokksins sem ég þjálfa…

    En ég held að við gleymum því oft hvað hann er ungur. Hann hefur ótrúlegt fótboltavit og útsjónarsemi miðað við aldur og stöðugleikinn kemur bara með árunum. Það sem Rodgers þarf að hafa í huga, og hann hefur það alveg örugglega, er að passa álagið á honum og vera fljótur að spotta þegar hann á off daga eða dettur niður í formi. Þá er bara að gefa honum smá frí til að fóta sig upp á nýtt.

    Það sem ég hef hins vegar áhyggjur af, og ekki bara með hann heldur líka með Sterling og Can, er að þeir slái svo hrikalega í gegn – sem þeir eru sannarlega byrjaðir á – að Real, Barca og Bayern fari að sniffa í kringum þá. Ég hef grun um að amk. Coutinho og Can séu í mikilli hættu á að fara innan fárra ára. Ég vona að ég hafi rangt fyrir mér með það.

  3. Þegar þú ferð frá því að vera með Suarez og Sturridge sem fremstu menn yfir í Balotelli og Lambert þá er ekkert skrítið þó að hæfileikar Coutinho nýtist ekki sem skyldi. Hann þrífst á því að spila men fljótum og vinnusömum mönnum sem eru sífellt að pressa og hlaupa í svæðin og það gekk fullkomlega í fyrra. Balotelli og Lambert eru allt öðruvísi sóknarmenn og ekkert hægt að spila eins upp á þá. Spilamennska Coutinho hefur auðvitað batnað mikið á síðustu vikum enda sóknarleikur liðsins orðinn líkari því sem gekk svo vel með í fyrra. Vonandi kemur Sturridge sterkur inn enda ljóst að hann og Coutinho ná ansi vel saman á vellinum.

    Hvort Real Madrid komi með 50 milljónir punda eftir 2-3 ár verður bara að koma í ljós. En það verður alltaf betri kostur en að ferill Coutinho einkennist að meðalmennsku næstu árin. Miðað við hvað manni sýnist búa í honum þá hef ég miklar væntingar. Galdramaður á velli og fyrst og fremst hrikalega skemmilegt að sjá hann spila.

  4. Hann er frábær leikmaður en ég ætla ekki að setja hann í flokk með þeim bestu strax. Fyrst verður hann að ná meiri stöðugleika. Ég set hann t.d. ekki í sama flokk og Eden Hazard, Christian Eriksen og David Silva sem eru óumdeilanlega best spilandi sóknartengiliðirnir í Úrvalsdeildinni í dag.

    Hinsvegar nær í þann flokk fjlótt ef hann heldur þessari spilamennsku áfram út tímabilið.

  5. Klárt mál að hann er hreinn snillingur dreingurinn.
    Ég og fleirri var að velta fyrir mér í upphafi leiktíðar og fram á vetur, hvað hefði komið fyrir, en eins og er búið að benda á þá er erfitt að koma með flottar sendingar ef það er einginn til að taka á móti þeim.
    Eins hefur vantað einhvern til að klára færin, ef Sturridge hefði verið heill þá veit ég að Coutinho væri með flestar stoðsendingar í vetur. Balo og co ekki beint verið þeir frískustu, en Sterling og Sturridge eiga eftir að njóta góðs af það sem eftir er tímabils.

  6. Minn uppáhaldsleikmaður í Liverpool í dag, hann er orðinn það góður að maður er hræddur við hvað hann er orðinn góður því þetta er ekta leikmaður sem Barcelona myndi nota. VIÐ ÆTLUM EKKI AÐ VERÐA FEEDER KLÚBBUR.

  7. Góður pistill og spurning hvort Coutinho séu ekki ein bestu kaup sem Liverpool hefur gert miðað við gæði og verð.

  8. Þið á kop.is eruð engu síðri snillingar en Coutinho, bara einfaldlega á annan hátt 😉 Allir meistarar!

  9. Einfaldlega rugl góður leikmaður. Það var eiginlega svindl í fyrra ef maður valdi ekki Luis the Vampire mann leiksins og það er eiginlega svipað á teningnum núna með Dirk Kátinho.

    Eitt annað – Jovetic dottinn úr CL hóp Man City. Þetta er topp topp leikmaður sem mér finnst að Liverpool ætti að reyna við af fullum krafti. Við erum að tala um konfektkassi og rósir.

  10. Sendingarnar hjá honum eru auðvitað ekkert annað en klámfengnar, t.d. sendingin á Henderson í seinni Arsenal leiknum á síðasta tímabili. Verst að Hendo skyldi ekki klára færið.

  11. Það sem breyttist við að hafa þrjá miðverði er að nú þurfa Gerrard eða Henderson ekki að ná í boltann til tveggja miðvarða. Með tvo miðverði, tvo afturliggjandi bakverði og Gerrard að ná í boltann voru komnir FIMM Liverpool leikmenn fyrir aftan fremsta sóknarmann andstæðinganna. Það þýddi að 10 útileikmenn andstæðinganna gátu dekkað hina 5 útileikmenn Liverpool. Ekki nema von að það gekk ekkert að skapa í upphafi leiktíðar.

    Núna kemur boltinn frá miðvörðum, kantmennirnir geta farið framar til að taka við boltanum (ekki hræddir við að skilja eftir einungis tvo varnarmenn aftast) og fleiri menn á miðjunni til að taka við boltanum. Því hefur losnað um Coutinho, og hann blómstrað.

    Helsta hættan við þrjá miðverði og 2 kantbakverði er að það opnist svæði á köntunum á bakvið bakverðina þegar þeir fara fram. United hefur oft feilað á því á þessu tímabili. Mér sýnist miðverðirnir okkar og miðjan ekki skapa mikið pláss fyrir sendingar í þau svæði þegar vængmennirnir fara fram. Það þarf mikla vinnu og einbeitingu allan leikinn til að slíkt gerist ekki, og í raun frábært að sjá þá gera þetta svona vel.

  12. Það er unun að hafa svona flinka töframenn í okkar liði, sem verða bara betri. Ég er hreinlega ekki viss um að Sterling væri orðinn svona góður nema vegna nærveru Coutinho, þótt hann sé aðeins tveimur árum eldri.

  13. Algerlega yndislega spennandi leikmaður.

    En hugsið ykkur bara, það væri hægt að skrifa nokkra svona pistla um ungu leikmennina hjá Liverpool.
    Sterling, Can og svo vonandi Marcovic og Moreno þegar þeir hafa fengið meiri tíma til að aðlagast Úrvalsdeildinni.

    Framtíðin hjá okkar ástkæra klúbbi er svo sannarlega björt.

  14. Ég hef ofboðslegar mætur á þessum dreng og það gleður mig ósegjanlega að hann hafi skrifað undir langtímasamning. Átti svo sannarlega skilið myndarlegan launapakka líka.

    Myndbandið er hrikalega skemmtilegt. Ótrúleg leikni, vision og fótboltahaus sem drengurinn býr yfir m.v. aldur.

    Eru þeir að byrja að grooma strákinn þarna syðra btw? http://www.mirror.co.uk/sport/football/news/neymar-liverpool-midfielder-philippe-coutinho-5113847 🙂

  15. Nú væri best fyrir Neymar að þegja og segja ekki orð um þetta meir, er skíthræddur um að stóru liðin fari í mjög náinni framtíð að sveima í kringum hann og þetta hjálpar ekki til þó skemmtilegt sé.

  16. Stórkostlegur fótboltamaður og hugsanlega mikilvægasti leikmaður LFC um þessar mundir.

    Mér finnst hvimleið þessi minnimáttarkenni sem lýsir sér í áhyggjum manna um að Couthino verði sóttur til einhvers annars “stærra” liðs.

    LFC er eitt stærsta félag heims, nánar tiltekið í 9 sæti á Deloitte Money League listanum; sjónarmuni á eftir Arsenal. Ekkert lið á samt meira inni af augljósum ástæðum þar sem liðið er að rétta úr kútnum (tilviljun) eftir langt hnignunarskeið. Ef tekst að halda liðinu á núverandi rönni verður það komið í topp 5 hvað varðar efnahag innan fárra ára.

    Það eina sem LFC þarf að gera til að halda sínum bestu mönnum er að ná árangri á vellinum sem að sjálfsögðu aðeins mögulegt ef leikmenn eins og Couthino spila fyrir félagið. Leikmaðurinn sjálfur hefur svarað fyrir sinn hatt með því að semja við félagið til 2020.

    Það hvarflar því ekki að mér að jafn árangursmiðaðir eigendur láti sér detta í hug að taka það besta innanúr félaginu þegar loks hillir í betri tíma. Suarez salan var sérstakt tilfelli og varla hægt að álasa FSG að velja að losa sig við jafn breyskan persónuleika fyrir böns of monní.

    Vitanlega verður alltaf eftirspurn eftir frábærum leikmönnum en mér finnst alveg eins hægt að snúa spurningunni við. Önnur lið ættu að óttast að Liverpool sæki hæfileikamenn í þeirra raðir. Neymar í Liverpool hljómar ágætlega t.d.:-)

  17. Vanmetnasti leikmaður ensku deildarinnar af öllum nema aðhangendum Liverpool.

    1- Hann er með boltatækni á borð við það besta sem hefur sést. Þá erum við að tala um leikmenn eins og Maradona- Ronaldinho – Ronaldo. Það er ótrúlegt að sjá hvað hann getur með boltann. Það sem hann aftur á móti hefur ekki sem allir ofannefndir leikmenn hafa er framúrskarandi skottækni.

    2- Hann er góður í hápressu. Sérstaklega núna eftir að liðið hrökk í gang.

    3- Hann hefur góðan leikskilning og góður að finna sendingar. Raunar eru sumar stoðsendingarnar göldrum líkastir. Eins og t.d sendingin til Sterlings gegn West Ham.

    4- Núna undanfarið hefur hann sýnt stöðugleika og er því síst við hann að sakast að Liverpool hefur átt í erfiðleikum oft með að skora úr þeim aragrúa af færum sem liðið fær. Mér fannst það fyrst og fremst gerast – ef það var önnur hálfgerð tíja að spila með honum.

    Mér finnst samt eins og þessi náungi sé aðallega einhverskonar sóknarmiðjumaður og ef hann er ekki notaður með réttum hætti þá týnist hann einfaldlega inn á vellum.

  18. Coutinho er nu meiri snillingurinn og frábært að hann hafi skrifað undir nýjan samning um daginn til 2020.

    Nú verður að fá Sterling að skrifborðinu og fá hann til að skrifa undir samsvarandi samning. Hans samningur rennur út sumar 2017 eða eftir tvö ár og því ekki seinna vænna en að fara að huga að þessum málum.

    En þetta lítur vel út hjá Liverpool í dag, sérstaklega þar sem liðið er mjög ungt og getur bara batnað.

  19. Stórkostlegur leikmaður… Þessar sendingar hans og yfirsýn fyrir spili eru eitthvað sem ekki margir aðrir leikmenn í heiminum hafa. Það að hann hafi skrifað undir nýjan samning núna eru frábærar fréttir fyrir okkur, algjörlega frábærar!

  20. Coutinho þarf að bæta nýtingu à færum, þegar það kemur verður hann einn besti leikmaður í heimi.

  21. Það eina sem ég get reiknað út í myndbandinu hjá #17 er að, ef þetta er Coutinho þá hefur hann sennilega ekki stækkað 1cm frá því árið 2005 því hann er yfirleitt hæstur á vellinum.

    En þessi samningur er stórkostlegur fyrir okkur núna. Ég veit ekki hvað oft maður hristir hausinn í hverjum leik þegar hann hlær að leikmönnun andstæðinganna. Ég er farinn að standa mig að því að vorkenna þeim heldur mikið!

  22. 19# Það að vera með minnimáttarkenni er alveg glatað og er ég ekki hrifinn af því, en því miður þá virðist ekki skipta neinu máli þó við séum eitt stærsta félag í heimi því hvert sem við lítum þá virðast vera á sveimi lið sem vilja gleypa allt í sig sem hægt er að gleypa, og ansi erfitt getur verið að eiga við það eins og við höfum svo oft rekið okkur á, og sérstaklega með okkar bestu menn, eðlilega.

    Því er ekkert skrítið að við séum í ákveðinni varnarstöðu (enþá) gagnvart okkar bestu mönnum og ég viðurkenni fúslega að ég er það svolítið. En ég hef trú á því að þegar við skilum okkur aftur í meistaradeildina að ári liðnu eða tveimur hef ég trú á því að leikmenn fari að hafa trú á því að búið sé að rétta úr kútnum og þeir bestu fari að vilja ganga til liðs við okkur og eða halda sér hjá okkur yfir höfuð 🙂

  23. Gaman hvað fólk er orðið duglegra við að rétta úr kútnum, nú og virðist hrökkva mun meira í kút. Vona bara að lesendur verði ekki kveðnir í kútinn.

Bolton 1 – Liverpool 2

Everton – á GamlaGarði