Bolton 1 – Liverpool 2

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

Jæja okkar menn fóru í kvöld í stutt ferðalag til Bolton og slógu þar heimamenn útúr FA-Cup í annari tilraun eftir 0-0 jafntefli í fyrri leiknum.

Rodgers stillti upp mjög sterku liði í kvöld.

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Markovic – Gerrard – Allen – Moreno

Lallana – Sterling – Coutinho

Á bekknum: Ward, Johnson, Borini, Henderson, Sturridge, Lambert og Manuqilo.

Allan fyrri hálfleikinn var Liverpool langtum betra liðið á vellinum, en á einhvern ótrúlegan hátt tókst okkar mönnum ekki að skora frekar en í fyrri leiknum á Anfield. Sterling átti skot í stöng þar á meðal og markvörður Bolton varði nokkrum sinnum. Ekki bætti það að dómari leiksins var arfaslakur, rændi okkur marktækifærum og leyfði Bolton mönnum að brjóta oft á Sterling.

Í seinni hálfleik hélt þetta áfram eins. Um miðjan hálfleikinn refsuðu Bolton svo okkar grimmilega þegar að Clough fékk boltann inní vítateig, Skrtel mætti honum og Clough datt við það sem virtist vera lítil eða engin snerting. Víti dæmt og Eiður Smári mætti á staðinn og skoraði. 1-0 fyrir Bolton.

Stuttu seinna fékk Danns varnarmaður Bolton sitt annað gula spjald í leiknum og var réttilega sendur útaf (brotin voru bæði klár gul spjöld). En bara mínútu seinna hefði Eiður geta gert útum leikinn þegar hann fékk frían skalla af 2 metra færi, en sem betur fer varði Mignolet.

Okkar menn héldu áfram að sækja. Hendo skaut í stöngina og svo Can í slána en ekkert fór inn og ég var farinn að sætta mig við að þetta myndi hreinlega ekki ganga upp í kvöld.

Við rauða spjaldið hafði Emre Can verið færður framar á völlinn og hann spilai frábærlega. Hann sá snilldarhlaup frá Raheem Sterling inn fyrir vörnina og vippaði boltanum yfir alla vörnina á Sterling, sem að skoraði frábært mark. 1-1 og nokkrar mínútur eftir. Sjáið þetta!

Okkar menn vildu sennilega helst af öllu sleppa við framlengingu og það tókst því að Phil litli Coutinho skoraði sigurmarkið með algjörlega frábæru langskoti. 2-1 og okkar menn komnir áfram.

Maður leiksins: Þetta var að mörgu leiti ágætt í kvöld, en færanýtingin var afleit einsog svo oft áður. Vörnin var ekki í miklum vandræðum fyrir utan vítið en á miðjunni fannst mér Allen og Gerrard ekkert sérstakir og það er alveg klárt í mínum huga að Lucas og Henderson eru talsvert sterkara miðjupar. Lallana var ekki nógu góður og var skipt útaf snemma, en Sterling og Coutinho skoruðu mörkin sem að skiptu máli. Borini átti ágætis innkomu og barðist einsog óður maður, en Sturridge var áttavilltur í sinni innkomu.

En ég ætla að velja Emre Can mann leiksins. Hann var í vörninni til að byrja með og steig ekki feilspor, var svo færður framar þegar við urðum einum fleiri og spilaði þá stöðu líka frábærlega. Hann átti skot í slá og svo þessa ótrúlegu sendingu á Sterling. Þvílíkur leikmaður sem þessi 21 árs gamli strákur er orðinn. Hann getur orðið algjör lykilmaður í þessu liði næstu árin.

Okkar menn eru því komnir í 16 liða úrslit og spila á útivelli gegn Crystal Palace á laugardag eftir viku. Draumur okkar um að sjá Gerrard lyfta bikar á Wembley í sínum síðasta leik á Englandi lifir því enn.

61 Comments

 1. Þetta, dömur mínar og herrar, er það sem fótbolti gengur út á! Mikið elska ég þessa íþrótt! Vissulega hefði ég þegið öruggan og þægilegan sigur okkar manna, en þetta var samt hrikalega skemmtilegt!

  Best að taka nú nokkrar öndunaræfingar.

 2. YEEES. Shit hvað maður er sáttur að sleppa framlengingunni. Stórkostlegt mark hjá Coutinho og sendingin hjá Can í marki Sterling er alger viðbjóður ;).

  En Can er klárlega maður leiksins(ásamt Coutinho). Þvílíkur leikmaður sem hann er að verða.

 3. Skiptir ÖLLU að hafa klárað í venjulegum leiktíma, uppá næsta leik. Hjúkk 🙂

 4. Búinn með öndunaræfinguna.

  Ánægður, þrátt fyrir allt. Gaman að sjá Eið Smára skora, þótt vítið hefði verið (vægast sagt) soft.

  Can gjörsamlega frábær. Sá hann fyrir mér sem DM, en ég held að box to box verði frekar málið er fram líða stundir. Okkar besti maður í kvöld.

  Algjör klassi hjá Eiði Smári að spyrna boltanum út af þegar Bolton áttu séns á skyndisókn, eftir að okkar menn höfðu haldið áfram í sókninni með samherja liggjandi meiddan.

  Úff… 🙂

 5. Vá mínir menn. Hafði alltaf trúna. Hjartarð tók kipp með negluna frá Couinthino.
  Skýrslan verður góð!

 6. Þetta var nú meira. Bolton börðust alveg nógu mikið til að eiga eitthvað meira skilið.
  Mér finnst LFC meira að segja átt nokkuð fínan leik. Vantaði auðvitað upp á klárunina í 84 mín. En frábært að klára þetta eins og þetta var komið, hvað þá í venjulegum leiktíma.

 7. Sælir félagar. Sá ekki leikinn. En get ég sótt hann einhversstaðar? 🙂

 8. Sælir félagar

  Ekki get ég sagt að ég sé fullur af hamingju eftir þennan leik. Þó býsna ánægður með að liðið skuli hafa “komist áfram”. Það er merkilegt til afspurnar að maður skuli þakka fyrir að hafa unnið þennan leik. Allir bestu leikmenn liðsins komu til leiks nema Lucas og þó vorum við í vandræðum jafnvel eftir að við vorum einum fleiri hálfan seinni hálfleik. Can bjargaði andliti liðsins með frábærri stoðsendingu á Sterling sem var búinn að vera í tómu rugli fram að því.

  Dómgæslan er kapítuli útaf fyrir sig og væri eðlilegt að kvarta undan svona dómara hvernig sem leikurinn fer. Að bjóða uppá dómara af þessum kaliber í alvöru leik hafði nærri kostað Liverpool sigurinn. Það er hneyksli útaf fyrir sig. Hitt er svo annað að lið eins og Liverpool telur sig vera á að klára svona leiki nokkuð auðveldlega þrátt fyrir arfaslakan dómara.

  Það er nú þannig

  YNWA

 9. 3 stangar skot og 2 glæsileg mörk ! maður vissi allan tímann að við myndum jafna í 1-1 en þvílíkt skot hjá coutinho og sleppa við framlengingu !! jájája

 10. Fannst þetta bara fínn leikur. Liverpool hafði 95% control á öllu, fengu fín færi og í 19 skipti af hverjum 20 hefði leikurinn endað 1-0 eða 2-0 og næg orka eftir fyrir Everton um helgina. Akkúrat eins og maður á að spila leiki á móti neðri deildar liðum í álagstörn. En…vítaspyrnan gefur þeim auðvitað búst, sló okkur aðeins út af laginu og hefði getað kostað sigurinn. En það hefði líka verið alveg fáránleg óheppni ef svo hefði farið.

  Can fannst mér maðurinn sem steig upp síðustu 15, mikill klassi yfir honum þarna fyrir utan teig. Tók sér tíma í aðgerðir, leitaði að besta möguleikanum, ógnaði með skotum og sendingum og gerði útslagið með flottum bolta á Sterling.

  Sanngjarn sigur og gott að vera komin áfram.

 11. Þetta var einfaldlega mjög flottur leikur hjá Liverpool. Liðið var miklu betra allan leikinn og áttu þetta einfaldlega skilið.
  Tvisvar dæmdir ósangjart rangstæðir í fyrirhálfleik þegar leikmenn eru að sleppa í gegn, fá á sig ótrúlega soft víti(að mínu mati aldrei víti) en halda svo einfaldega coolinu og fóru ekki í panic mode.
  Klárlega rautt spjald þegar hann tók Allen niður(en Allen náði báðum spjöldunum á hann í leiknum) og svo fannst mér alltaf að markið hlaut að koma. Sterling með stangarskot í fyrri, Henderson í þeim síðari, Sterling svo aftur með stangarskot og svo kom að því að sterling kláraði frábærlega og Couthinho maður leiksins sá til þess að menn hafa orku fyrir Everton leikinn.

  Mignolet 7 flottur leikur og gaman að sjá hann koma út úr markinu og gera vel.
  Sakho 7 solid og lítið útá hann að setja, hann er að vera skrímsli númer 2 hjá okkur.
  Skertel 7 skrímsli númer 1 og solid leikur og óheppinn að fá dæmda á sig víti
  Can 8 flottur varnarlega og flottur sóknarlega(frábær sending á Sterling í markinu)
  Markovic 6 náði sér aldrei í gang í leiknum og fór meiddur útaf. Ef heill þá á hann alltaf að byrja Everton leikinn
  Moreno 7 flottur leikur og tók virkan þátt í sóknarleiknum og solid varnarlega
  Gerrard 8 mér fannst hann kóngurinn á miðjuni og stjórnaði sóknaraðgerðum liðsins eins og herforingi.
  Allen 7 eftir erfiða byrjun komst hann í gang og vann boltan og kom honum vel frá sér(fékk svo tvo gul á sama leikmanninn með því að vera hugrakur að fara í boltan).
  Lallana 6 var nokkuð líflegur framan af en týndist svo og sást ekkert í þeim síðari áður en hann var tekinn af velli
  Couthinho 9 maður leiksins og réðu Bolton menn ekkert við hann, stórkostlegt sigurmark
  Sterling 8 var ógnandi allan tíman og skoraði flott mark.

  Henderson 7 flott inná koma var settur á miðjuna en eftir að Markovitch meiðist þá fór hann í smá tíma í Hægri wing back.
  Borino 6 solid inná koma. Var næstum því búinn að skora á loka sek
  Sturridge 7 var ekki alveg með fyrstu snertinguna í dag en með hann inná þá eru liverpool alltaf líklegri til þess að skora.

 12. Fannst þetta flottur leikur. Coutinho er alveg magnaður. Ég finn alltaf fyrir spennufiðringi í maganum þegar hann fær boltann þar sem hann gerir oft alveg magnaða hluti. Á bara eftir að verða betri og betri. Sammála mönnum hér einnig með Can en hann er að stimpla sig hvílíkt sterkt inn. Mér fannst liðið heilt yfir leika vel enda fóru nokkur skot á rammann.

  Ekki skemmdi að sjá hvað Eiður var flottur í þessum leik. Fínar sendingar og staðsetningar. Virtist einnig njóta þess að spila 🙂

 13. Ian Rush varstu að horfa á einhvern gamlan leik með liverpool missti alveg af því að Gerrard væri stjórna leiknum eins og kóngur gerði í rauninni ekkert að viti allan leikinn.

 14. Eins gott að Mignolet varði frá Eiði í stöðunni 1-0…algjört dauða dauða færi

 15. Djöfull tók þetta á taugarnar!

  Frábært hjá okkar mönnum að klára þetta og komast áfram, þó erfitt væri… gríðarlega erfitt.

  Þetta var erfitt hjá okkur meirihluta leiks og okkar menn skelfilegir fyrir framan mark andstæðinganna.

  Stangar- og sláarskot ásamt fáránlegri dómgæslu var heldur ekki að hjálpa.

  En… sumir eru með töfra í fótunum… og Coutinho er einn af þeim. Stórkostlegt sigurmark!

  Emre Can einnig með stórfenglega sendingu á Sterling sem loksins náði að slútta almennilega… eins og striker 🙂

  Frábært að vera komnir áfram í þessari skemmtilegustu fótboltakeppni í heimi. Dásamlegt.

  Svona sigur mun án efa berja mönnum pung í brjóst fyrir komandi átök – og ekki veitir af, enda algjörir lykilleikir framundan.

  Og eigum við svo eitthvað ræða hversu mikið efni við eigum í Emre Can. VÁ segi ég bara, VÁ!

  FA Cup er stórkostleg keppni og við erum í bullandi séns!

  Áfram Liverpool!

 16. Gaman að sjá að þú hafir fundið rósrauðu gleraugun, Dude #18. (Aðeins að stríða þér :))

  En já, þetta var ekta bikarslagur. Vorum auðvitað betri á öllum sviðum og hefðum átt að klára þetta innan 45-60 mínútna – og hefðum án efa gert með hreinræktaðan striker frammi.

  Can og Coutinho frábærir. Held ég setji þá sem joint MOTM, frekar en bara Can eins og í athugasemd #5.

  Það skemmtilegasta við þetta er samt aldur kappanna sem eru að bera liðið uppi. Potentiallinn er kominn langt fram úr öllu sem ég hef séð á þeim ca 25 árum sem ég hef fylgst vel með Liverpool. Mjög spennandi tímar.

 17. Fannst Gerrard langt frá því að vera stjórna einu eða neinu. Eins leiðinlegt og það er að segja það þá á hann bara að koma inn af bekknum. Fannst hann of hægur og bitnar það oft á flæði leiksins hjá okkar mönnum. Svo fannst mér hann óvenju mistækur í sendingum í kvöld.

  En alger höfðingi sem þarf að fara sparlega með fram að vori.

 18. Eyjólfur #19:

  Rauðu gleraugun eru alltaf á. Enda vill ég alltaf aðeins það besta fyrir mitt ástkæra lið 🙂

  Verð þó að segja að mér finnst fjandi furðulegt að sjá það sem þú skrifar í athugasemd #5. Þar segir þú: “Gaman að sjá Eið Smára skora”.

  Mér persónulega fannst bara algjörlega ömurlegt að sjá Eið Smára skora á móti okkur, nú sem fyrr.

  Óska Eiði Smára hinsvegar alls hins besta, gegn öllum nema okkur 🙂

  Áfram Liverpool!

 19. Verður Gerrard yfirleitt í liðinu ef Liverpool kemst í úrslit FA Cup? Gersamlega slokknað á fyrirliðanum okkar og síðustu leikir hans benda til þess að hugurinn sé kominn til LA nú þegar.

 20. #21

  Að sjálfsögðu vill maður ekki sjá Eið Smára skora gegn Liverpool, en fyrst leikurinn vannst, var skemmtilegt að það skyldi hafa verið hann, af öllum mönnum. Class act. 🙂

 21. Þessi mörk voru bara algjör snilld hjá og jeremías góður þvílíka sendingin frá Can. Sá á eftir að verða góður maður. Enda Bæjararnir enn með spæleggið á enninu 🙂

  Þetta er að fara gerast drengir.

 22. Djöfulsins snilld, þetta var eitthvað svo týpískt, að við myndum detta út á röngum vítaspyrnudómi hjá annars ARFASLÖKUM dómara leiksins.

  Annars langar mig að setja hérna inn eina pælingu sem ég setti á Twitter fyrr í kvöld;
  Mohammed Salah er farinn á lan frá Chelsea, Henrik Mkhitaryan vill komast frá Dortmund eftir tímabilið, Gylfi Þór er farinn frá Tottenham aftur til Swansea. Ætli þeir sjái eftir ákvörðunum sínum að eltast við peninga frekar en að spila undir frábærri stjórn Rodgers?

 23. Flottur leikur og Boltonmenn oft á tíðum fullharðir í flestum samstuðum, en feingu leifi dómarans að strauja menn niður og þá sérstaklega Sterling(var orðinn smeikur um að þeir næðu að meiða strákinn)
  En heilvíti soft víti fanst mér, kom útá eitt þar sem þetta var soft fyrra gula hjá Danns en reyndar dökkgult það seinna.

  Hörku leikur og Fowler minn góður hvað Coutinho bjó til helling, held að 90% af sóknarleik hafi komið úr kollinum á honum. Ef hann fer að skora meir þá fer hann að detta í að verða heimsklassa.
  Og Sterling ef þú ert að lesa, þá endilega settu nafnið þitt á blaðið sem bíður þín 🙂

  YNWA

 24. Sæl öll,

  frábær sigur og Liverpool útspilaði Bolton í báðum leikjum þó að þetta hafi verið tæpt. Ég er sammála öllu sem kemur fram í skýrslunni nema einu. Eiður hefði ekki getað gert útaf við leikinn þar sem Liverpool skoraði 2 mörk (búhú smámunasemi). Dómarinn í þessum leik hlýtur að vera sendur í frí því hann var algjörlega úr takti við leikinn og Bolton fékk að tuddast allan leikinn. Á einhvern óskiljanlegan hátt var Dervite ennþá inni á vellinum eftir fyrri hálfleik. Það var alveg ótrúlegt að fylgjast með því hvað leikmenn Bolton komust upp með að brjóta á Sterling og Coutinho.

  Vonandi er Liverpool að komast í þann gírinn (líkt og í fyrra) að þeir þvingi andstæðinginn aftur á eigin vítateig og gott “run” sé framundan.

  Eins fúll ég var út í BR í haust að þá er hann, frá því í enda nóvember búinn að róa mig og ég er mjög spenntur fyrir endasprettinum í mótunum. Stemmningn í liðinu að fá Sturridge til baka á þessum tímapunkti ætti að virka á það sem heimsklassa leikmannakaup. En BR verður að leggja mikla áherslu á að vinna EL því það verður mjög erfitt að ná 4. sætinu. Vonandi nær BR að eyða þessu rugli í enskum leikmönnum að sunnudagsleikir eru eitthvað verri en aðrir. Mér er alveg sama á hvaða degi liðið spilar og að fá að sjá þá tvisvar í viku, næstu vikurnar, finnst mér vera forréttindi.

  Gerrard var bara að spara sig í kvöld fyrir kl 17:30 á laugardaginn. Þetta heitir reynsla því hann vissi að “kútarnir” í liðinu myndu klára þetta eins og leikurinn spilaðist.

  Sakho 24 ára (25 ára 13. feb),Coutinho 22 ára, Can 21 árs og Sterling 21 árs. Forgangsmál að Sterling skrifi undir því þessi kjarni, finnst mér, lýtur, vægt til orða tekið, vel út!

 25. Vááá.. Óþarfa mikill spennutryllir sem þeir buðu uppá í kvöld. Það eina sem ég vildi ekki var framlenging, takk Coutinho (er farinn að bera óþægilegar tilfinningar til þín).

  Það besta sem gat gerst í kvöld var að klára þetta á 90 mín og það tókst. Í staðinn er Sterling með 203 marbletti, Markovich er líklega úti og nokkrir með þreyttar lappir á æfingu á morgunn. Eitthvað sem hefði verið hræðilegt að afbera ef við værum ekki í næstu umferð.

  Minn maður leiksins er Emre Can. Hann spilar eins og kóngur hvar sem hann er. Framtíðinn er björt.

  Nýjan samning á Sterling helst strax í kvöld.

  YNWA

 26. Snilldarcomment á RAWK:

  “Clooney’s missus is putting together a campaign for us to give back Milan’s stolen treasures.”

 27. Mignolet – Ótrúleg breyting á manninum undanfarið og þessi leikur beint framhald af því. Honum var vorkun af afleitum varnarleik Liverpool en hann var ekkert að gera aukalega heldur og hroðalegur í föstum leikatriðum. Það er eins og hann hafi fengið sér bjór með Dale Carnegie sjálfum í desember og hefur eftir það trú á öllu sem hann gerir. Talaði þessi stjörnuíþróttasálfræðingur okkar loksins við hann?
  Solid leikur upp á 7.

  Skrtel – Ágætur leikur hjá honum þó álagið væri ekki mikið. Skrtel var of seinn í boltann er Bolton fékk vítið, bauð því miður upp á þetta og sóknarmaður Bolton gerði vel að sækja það. Erum fúl þegar þetta fellur ekki með okkur en fögnum þegar dæmið snýst við.
  Gef Skrtel 6 fyrir leikinn.

  Sakho – Eins hjá honum, lítið álag og solid leikur heilt yfir. Það er furðu mikið eftir á tanknum hjá Eiði Smára en Sakho var alltaf með stjórn á sínu í dag. Okkar langbesti varnarmaður að mínu mati.
  Set 7 á Sakho.

  Can – Minn uppáhaldsleikmaður í liðinu og besti maður vallarins í dag. Hann er í þjálfunarbúðum í vörninni núna og verður á rúntinum milli staða næstu 1-2 árin en alltaf í liðinu. Eftir það eigum við vonandi fullmótaðan heimsklassa box-to-tank miðjumann sem getur orðið eins góður og honum langar. Hef séð honum líkt við Ballack, Yaya Toure og undir lokin Lotar Matthaus er hann var farinn að spila box-to-box miðvörð í dag. Svei mér ef hann er ekki efniviður í leikmann í svipuðum klassa og þetta tríó. Það eru ekki nýjar fréttir fyrir Þjóðverja reyndar m.v. það sem látið hefur verið með hann þar. Emre Can var ekki það fyrsta sem mér datt í hug þegar ég sá þessa sendingu en vá, þvílík sending. Hann er svo sá eini í liðinu held ég bara sem virkar nokkuð góður skotmaður af lengra færi en 4 metrum.
  Maður leiksins og 8,5 í dag.

  Markovic – Þetta var allt saman verulega erfitt og bitlaust hjá Markovic. Hroðalegur dómari leiksins var ekkert að vernda hann reyndar og endaði með því að hann fór meiddur af velli. Leikur til að gleyma en ekkert Jose Enrique lélegt neitt.
  Ekki meira en 5,5 í dag.

  Moreno – Miklu meira að frétta á vinstri vængnum og fínn leikur hjá Moreno sem er einn af þeim leikmönnum sem fagnar nýju leikkerfi Rodgers hvað mest.
  A.m.k. 7 á Moreno í dag.

  Joe Allen – Spurning hvort það sama sé að gerast með Allen og kom fyrir Riise, liðið er að vaxa og bæta sig meira en hann ræður við? Hann reyndar var ekki svona átakanlega lélegur held ég en þetta fer að verða komið gott í bili. Farþegi í allann dag sem er mikið áhyggjuefni gegn Bolton.
  Gef honum 3,9 fyrir þennan leik sem er fall í áfanganum enda hans annað fall gegn Bolton. Óheppinn og ef hann bætir sig ekki spilar hann aftur tvisvar við Bolton á næsta tímabili.

  Gerrard – Hef ekki tölu á því hversu oft ég hef tuðað yfir Gerrard á miðjunni hjá okkur, sérstaklega í vetur og þetta var einn af þeim leikjum sem var bara sárt að horfa á. Virkaði gríðarlega þungur og hægur oft á tíðum og leikmenn Bolton fór auðveldlega í gegnum miðjuna er þeir sóttu. Þetta var að ganga litlu betur sóknarlega. Klárlega leikur til að gleyma og ég sé ekki hvern hann ætti að slá úr byrjunarliðinu fyrir sinn síðasta derby slag. Þó hann komi auðvitað alltaf inná. Lucas og Henderson vil ég frekar á miðjuna og Coutinho og Sterling fyrir framan.
  Ekki sáttur við minn mann í dag og set 4,5 á þessa frammistöðu.

  Lallana – Hann virkar bara ekki í 100% leikæfingu og hefur raunar ekki gert það í vetur. Finnst alltaf eins og að við eigum þennan leikmann ennþá inni og trúi því að hann komi til. Hefur verið misjafn undanfarið og þetta var klárlega off dagur í takti við Joe Allen.
  Gef honum 4 sem er þó meira en ég gaf Allen.

  Coutinho – Hann er farinn að skora fyrir utan núna og þá er þetta bara komið. Vonandi eru þessar aukaskotæfingar að skila sér hjá honum því hann hefur allt annað sóknarlega til að verða svindlkall. Þá er ég að tala um leikmann sem væri í litlu minni metum hjá okkur en Suarez þó gjörólíkir séu auðvitað. Frábært sigurmark og frábært að hann hafi skrifað undir nýjan samning, vonandi fylgja fleiri félagar hans á eftir.
  Þetta hafðist að lokum og það í venjulegum leiktíma þökk sé Coutinho, gef honum 8 í dag. Næstbestur og alltaf að ná meiri stöðugleika í sinn leik er hann spilar sína stöðu.

  Sterling – Sendingin hjá Can var svo góð að ég áttaði mig ekki strax á því hversu gott markið var hjá Sterling. Það eru ansi margir sóknarmenn sem myndu senda þennan bolta vel framhjá rammanum ef þeir á annað borð næðu honum. Þessi 20 ára sóknarmaður er núna með 6 mörk í síðustu 11 leikjum og verður það nú bara að teljast ágætt þó hann eigi klárlega innistæðu fyrir meiru. Hugsið ykkur Sterling, Coutinho og Sturridge þegar þeir fara að gefa hverjum öðrum meiri tíma í sókninni. Skotin verða strax nákvæmari og mörkunum mun hratt fjölga, ekki bara frá Sturridge heldur líka þeim tveimur, þessi leikur dæmi 1.
  Set 7,5 á Sterling í dag.

  Einar Örn segir annars það sem þarf um leikinn, þetta fór í óþarflega mikið vesen en hafðist og það er lykilatriði. Frábært að klára þetta á 90 mínútunum og endapunkturinn í leiknum gæti verið mjög jákvætt sjálfstraust boost fyrir liðið.

  Að lokum fannst mér þessi dómari þannig að ég held að nú sé mál til komið hjá Bretum að fara kaupa inn dómara erlendis frá rétt eins og þeir kaupa inn leikmenn. Þessi var hlæilega lélegur ásamt sínum aðstoðarmönnum og það þrátt fyrir ná rauða spjaldinu réttu og að vel sé hægt að réttlæta vítið.

  Gerrard fannst mér ekki nógu háv+ær inni á vellinum og Rodgers verður að fara röfla miklu meira í fjölmiðlum eftir leiki yfir dómgæslunni. Það er brotið á Sterling í hverjum einasta leik án þess að hann fái nokkuð. Fyrirliðinn á meðan leik stendur og þjálfarinn eftir leik verða beita þeim brögðum sem hægt er til að þrýsta á að hann fái meiri vernd. Er ekki að biðja um Mourinho eða Wenger grátur en það er millivegur.

  Sóknarleikur Liverpool virkaði síðan á köflum hraðari en línuverðirnir náðu að hugsa enda rangar niðurstöður nokkrum sinnum í dag. Mætti halda að þeir væru timbraðir.

 28. Mér fannst Bolton komast upp með fáranlega mikið og þetta víti var brandari. Sóknarme

  Það er nú bara þannig að þegar minna liðið kemst yfir í svona viðreignum – er rosalega erfitt að jafna leikinn því þá er pakkað saman í vörn . Svona er boltinn. Viss heppni og óheppni á báða bóga.

  Mér finnst rosalega sterkur karakterí liðnu að ná að vinna þetta því það er hægara sagt en gert.

  Það er ekki hægt að kalla þetta heppnissigur. Við vorum mikluj betri. 🙂

 29. Babú ég hef reyndar aldrei séð þennan dómara dæma í ensku og efast um að hann sé PL dómari. Aðstoðardómari 1 var hins vegar reyndur og mun betri en kollegi sinn hinum meginn. Nennum ekki að pirrast okkur yfir dómurum þegar við vinnum leikinn, en þeir voru slakir.
  Gerrard var svo rosalega slakur í dag, finnst eiginlega furðulegt hve háa einkunn þú gefur honum. Hægur en með innkomu Henderson þá varð hann mun betri. Ég held að Gerrard byrji gegn Everton á kostnað Adam Lallana.

 30. Sá ekki leikinn en er búinn að sjá svipmyndir. Það eitt að Eiður hafi klúðrað eina möguleikanum til að gera útaf við leikinn veitir mér næstum því meiri ánægju en að Liverpool hafi sigrað.

 31. Nr. 33

  Nei óþarfi að pirra sig um of en það kemur á endanum í bakð á okkur ef öll lið fá að brjóta svona ítrekað og augljóst án okkar fremstu mönnum. Hef ekki séð þennan dómara áður en hann fer bara í hópinn í vetur og löngu kominn tími á að Rodgers láti aðeins til sín taka.

  Hefði betur skilið ef þetta væri Rodgers frekar en Lennon.

 32. Hef lítið við þennan leik að bæta. Allt komið fram hérna.

  Ég er svona frekar að spá í stöðu Balotelli. Það var varla verið að spara hann fyrir Everton því hann var ekki í hóp. Ekki var reynt að selja hann í janúar, jafnvel ekki í skiptidíll og því spyr maður hvað menn séu að pæla á Melwood? Er hann meiddur? eða veikur? eða á að frysta hann fram á sumar og selja svo? Eða á að láta vera utan hóp einn daginn og inn í hóp hinn daginn? Ekkert að þessu mun verða til þess að það kvikni á honum. Þessi kaup og hvernig maðurinn er meðhöndlaður eru eitt versta klúður síðan ég veit ekki hvenær!

 33. Þessi stoðsending hjá Can á Sterling.

  Ég er búinn að horfa á hana að minnsta kosti 9x og nú ætla ég að skrolla upp horfa á hana einu sinni enn.
  Ég mæli með því að þið gerið það sama!

 34. Björn Torfi #26

  Ég held að sá sem NAGI sig mest í handarbökin fyrir að hafa ekki valið Rodgers sé nú búsettur í Barcelona.

 35. Frábær leikur að hálfu okkar manna, hefði verið samt betra að klá þetta heima strax. Það fór að fara um mann ónotahrollur og blóðþrýstingurinn upp úr öllu. En er það ekki það sem maður vill, spenna og aftur spenna!!!!!!!!!!!!!!!!

  ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!!

 36. Það er alltaf eins með FA cup sem gerir þessa leiki svo skemmtilega að það er dramtíkin, það var einsog þetta myndi falla með Bolton og lukku disirnar væru á þeirra bandi.

  En nei Coutinho var á öðru máli og smurði hann í slánna og inn.
  Ég vil meina að uppgangur Liverpool undanfarið er Coutinho auðvitað hefur innkoma Sakho og Can haft mikið að segja, en það sem Coutinho gerir á vellinum er magnað hann veldur andstæðingum okkar endalausum vandræðum með snilli sinni. Og svona á að gera þetta undirritar framlengingu á samningi í vikunni og skýtur okkur í næstu umferð í bikarnum.

  Coutinho er líka að sýna það og sanna að enski boltinn á vel við hann, maður er alltaf hræddur um að suður amerískir leikmenn aðlagist ekki enska boltanum.

  Einsog sagt, could Coutinho do it on a cold Wednesday night in Bolton? The answer is yes.

  Hvað varðar kafteinin okkar sem spilaði sinn 700 hundraðasta leik í kvöld, þá var þetta staðfesting að hann er ekki lengur á blað hjá Rodgers í fyrstu 11, og það eru ekki nema 3 dagar í Merseyside slaginn og Sturridge, Lucas, Henderson annaðhvort voru á bekk eða ekki í hóp í kvöld, ég sé ekki fyrir mér að Gerrard byrji leikin um helgina það eru aðrir 11 á undan honum á blað ég held að þaðvsé staðreyn, enda fannst mér kallinn eiga erfitt uppdráttar í kvöld og það var Coutinho sem var maðurinn í kvöld.

  Ég allavega fagna því að Eiður virðist vera komin vel á ról en ég fagna ekki markinu en það kom mér á óvart úthaldið hjá honum, hann var kallaður Ice Man hjá Chel$ea og hann var ískaldur á púnktinum. Það er fínt fyrir Lars að vita að Eiður er í formi fyrir komandi átök með landsliðinu.

  Hvað varðar Balo kallinn þá er frammistaða hans greinilega á æfingasvæðinu það slöpp að hann kemst ekki í hóp, hann þarf að koma sér í stand því sannarlega eru hæfileikar til staðar og það er undir honum komið að fara nýta þá, en einsog alltaf þá pæla allir í Balotelli en gleyma Dejan Lovren þar eigum við 20 mill punda mann sem Brendan virðist nánast vera búinn að droppa í varaliðið svo lélega hefur ferill hans farið að stað hjá LFC.

 37. Ja magnað að Lennon sé pirraður dómarinn gaf þeim víti og leyfði þeim að sparka stöðugt í Sterling allan leikinn

 38. #39

  Coutinho upp á sitt besta er auðvitað bara rugl; nánast svindl. Það er leitun að jafnspennandi, efnilegum og ekki síst skemmtilegum leikmanni í fótboltaheiminum í dag: http://gfycat.com/BountifulAthleticFairyfly

  Einhver mest skapandi leikmaður sem ég hef séð. Hlakka fáránlega mikið til að sjá hann vaxa og dafna hjá Liverpool. Strákurinn, ásamt hinum ungu köppunum, er algjör lykill að því sem gæti gerst hjá Liverpool næstu árin. Ég er sérlega glaður með að hann hafi skrifað undir samning til 2020. Sannkallaður töframaður!

 39. Er 1000% sammála skýrslunni og Babú. Engu við að bæta.

  Þó var ég pirraður yfir því að mér finnst liðinu stundum vanta “grit” eins og Bretinn segir, sem er svona andstæðan við “soft” án þess að verða grófir. Í 75 mínútur fannst mér við láta ýta okkur of mikið útúr návígjum, boltinn færast of hægt á milli manna sem auðvitað kannski réðst af því að leikmenn á miðjunni (lesist Allen og Lallana) voru á off-degi. En í lokin skinu gæðin í gegn og frábært að klára þetta í venjulegum leiktíma.

  Svo treysti ég því að enginn sé að velta sér upp úr leikmönnum sem ekki voru í hóp í þessum leik. Við bara hljótum að láta það vera að búa til neikvæðni byggt á slíkri umræðu er það ekki?

 40. Missti því miður af leiknum en fylgdist með à livescores og umræðunum hérna og ég verð að segja að ég get ekki menn eins og Dude. Röflið, neikvæðnin, ragnið og yfirheilt óþolandi tuðið à meðan leik stendur og komandi svo à þennan þràð og allt fràbært. Ragnar Reykàs og Dr jekyll and ms Hyde eru varla verri en hann. Þetta er bara þreytandi. Get your grip son.

 41. Er úti á sjó og sá ekki leikinn frekar en flesta aðra, en frábær úrslit og gott að strákarnir fái þessa tilfinningu að þeir geti komið til baka þó stutt sé eftir . Ég verð væntanlega í London 14 .feb. Ætli það sé möguleiki að fá miða á Crystal Palace -Liverpool?? Er einhver hérna sem veit hvernig er best að snúa sér í svona löguðu.

 42. Sáttur mjög en það virðist vera ansi erfitt að setj’ann í netið en það hafðist. Djö,,,, er Coutinho GÓÐUR.

 43. Tvö stórkostleg mörk !! Mikið rosalega var ég ánægður með að Sterling og Coutinho skoruðu mörkin í kvöld. Fengu ENGA vernd frá ferlega slökum dómara , Bolton menn fengu að sparka þá niður trekk í trekk, þvílíkt bull !! Þeir fara því heim með fullt af marblettum en líka ánægðir með flott mörk. Ekta bikarleikur sem gat alveg spurngið í andlitið á okkur , en komnir áfram og það er það eina sem skiptir máli .

 44. Virkilega flottur útisigur og það var svo sem vitað að þetta yrði enginn rólegheitar dagur á ströndinni.

  Þetta átti aldrei að vera víti fyrir það fyrsta, slakur dómari leiksins hefði átt að spjalda fyrir dýfu þar.

  Emre Can, hvað er hægt að segja? Þessi kaup á honum eru einfaldlega frábær, þvílíkur leikmaður, þvílíkur leikskilningur, kraftur og nákvæmni í þessum unga leikmanni!

  Markið hjá Kútnum okkar var svo milljóna punda virði, það er alveg á hreinu.

  Mig langar svo að sjá Hendo taka nokkrar skotæfingar, ef hann gæti hitt á rammann einstaka sinnum í öllum sínum færum þá verður hann orðinn world class leikmaður. Hann er vinnuhestur dauðans en það vantar upp á að hitta á rammann. Hann er það hreyfanlegur og kemur sér oft í ágætis skotstöðu.

  Mignolet er heldur betur búinn að stíga upp og það segir sig sjálft að þegar vörnin er góð fyrir framan, þá kemur sjálfstraustið hjá markmanninum líka. Þetta helst í hendur.

  Núna er það baráttan um borgina og svo eftir hana léttur 3-0 sigur á móti smurfs.

 45. Þetta var virkilega dýrmætur sigur. Ég spáði þessu í podcastinu á mánudag, að við yrðum í lúmskum vandræðum með Bolton. Það kom líka á daginn; lélegur Championship-dómari leyfði þeim að sparka undan Sterling, Coutinho, Lallana og Allen sem fengu enga vernd, sérstaklega í fyrri hálfleik, og sókn okkar því eðlilega bitlaus eftir því.

  Ekki það að dómgæslunni einni sé að kenna. Sóknin okkar var bara heilt yfir bitlaus í 160 mínútur gegn Bolton, eða þar til Rodgers henti bókstaflega öllu fram í lokin í gær og það svínvirkaði.

  Um frammistöðu liðsins og leikmanna þarf ekki að fjölyrða mikið, leikskýrsla Einars er góð og ummæli Babú líka.

  Hér er samt smá tölfræði sem ég tók saman eftir sigurinn í gær. Þetta eru síðustu 19 leikir liðsins eða síðan liðið stöðvaði fjögurra leikja taphrinu í nóvember:

  Leikir: 19
  Sigrar: 10
  Jafntefli: 7
  Töp: 2

  Markatala: 29 – 17 (+12). Haldið hreinu 7 sinnum, þar af 4 sinnum í síðustu 7 leikjum.

  Þetta er mjög gott gengi og myndi skila 74-75 stigum yfir heilt tímabil (þessir leikir eru þó í öllum keppnum). Við erum hér að tala um tvo og hálfan mánuð sem er ekki lítið úrtak, þetta er næstum þriðjungur tímabils og liðið hefur bara tapað tvisvar í öllum keppnum, á útivelli gegn stórliðum (og annar þeirra bara í framlengingu).

  Það er hins vegar ákveðinn stígandi í liðinu og ef við tökum bara seinni 9 leikina af þessum 19, eða frá áramótum, er gengið enn betra:

  Leikir: 9
  Sigrar: 5
  Jafntefli: 3
  Töp: 1

  Markatala: 12-6 (+6). Haldið hreinu 4 sinnum.

  Þetta gengi myndi skila 76 stigum yfir heilt tímabil. Það er topp-4 form á þessu tímabili og flest öllum nema kannski síðustu tveimur.

  Þetta er náttúrulega í öllum keppnum. Ef við tækjum bikarana út er liðið að skila 7 sigrum, 3 jafnteflum og 1 tapi í síðustu 11 deildarleikjum með markatöluna 18-9 (+9) og halda hreinu í 6 af 11 leikjum. Þetta gengi hefur skilað 24 stigum af 33 mögulegum sem gerir 83 stig yfir heilt tímabil, eða stigi minna en liðið náði á síðustu leiktíð!

  Þannig að það er aðallega í Evrópu (2 Basel-jafntefli) og bikar (jafntefli, tap, höldum hvergi hreinu) sem liðið er að lenda í miklum erfiðleikum og fá á sig mörk. Eins skekkir 3-0 tapið gegn United markatöluna talsvert.

  Þetta er samt að hafast. Lenda undir gegn Wimbledon og Bolton en vinna samt sem er jákvætt, náðu í undanúrslit í annarri og komnir í 16-liða úrslit í hinni. Synd með Meistaradeildina en bikargengið í vetur er fínt í oft vandræðalegum viðureignum.

  Deildin er hins vegar á blússandi stórsiglingu, það er ekkert hægt að orða það öðruvísi. Og Everton eru næstir.

  Bring on the blueshite!

 46. Maggi segir: Svo treysti ég því að enginn sé að velta sér upp úr leikmönnum sem ekki voru í hóp í þessum leik. Við bara hljótum að láta það vera að búa til neikvæðni byggt á slíkri umræðu er það ekki?

  Ertu að spauga Maggi? Tókuð þið ekki góðan hálftíma að ræða Balotelli í síðasta podcasti og nefndu það einnig að það væri eitthvað skrítið ef svona leikur væri notaður til að koma honum í gang?

  Það hlýtur eitthvað að vera í gangi með manninn. Hann var úr hópi í þar síðsasta leik síðan í hóp í leik á móti Chelsea og kemur inn á og síðan aftur úr hóp! Það sjá líka allir að það er eitthvað furðulegt í gangi í smb allt með Balotelli. En ef það á ekki að ræða hér vegna óþarfa neikvæðni þá fer ég bara á annan vettvang þar sem menn prumpa ekki glimmeri.

 47. Held það hafi verið afar mikilvægt fyrir liðið að komast áfram í gær. Þetta var erfið viðureign gegn Bolton, hún hefði kannski ekki átt að vera það enda Liverpool mikið betra lið, og það að liðið hafi séð hana út og klárað leikinn þrátt fyrir að hafa lent undir er afar jákvætt. Það er afar mikilvægt að ná slíkum sigrum og er mikill karakter að koma í liðið aftur.

  Til allrar hamingju sluppu leikmenn við framlengingu svona rétt fyrir erfitt og stíft leikjaprógram. Framfarir liðsins í síðustu leikjum hafa verið gífurlegar og eru framfarir ákveðinna leikmanna afar stór þáttur þar. Can hefur verið frábær hvort sem er í vörn eða miðju, Sakho og Skrtel balancera hvorn annan vel, Henderson og Lucas frábærir á miðsvæðinu og Coutinho og Sterling eru heldur betur að finna taktinn.

  Þetta er frábært og gefur vonandi aukið boost fyrir leikinn gegn Everton og sigur þar gefur vonandi enn meira boost fyrir margar mikilvægar innbyrðisviðureignir í baráttunni um Meistaradeildarsæti á næstu leiktíð.

 48. Nú ætla ég að vera minna jákvæður en aðrir hér á síðunni hafa verið síðustu 2-3 vikurnar. Nú eru eftirfarandi leikir framundan:

  07.02.2015 Everton – Liverpool
  10.02.2015 Liverpool – Tottenham
  14.02.2015 Crystal Palace – Liverpool
  19.02.2015 Liverpool – Besiktas
  22.02.2015 Southampton – Liverpool
  26.02.2015 Besiktas – Liverpool
  01.03.2015 Liverpool – Manchester City
  04.03.2015 Liverpool – Burnley

  Þetta eru 8 leikir á fjórum vikum og það sem meira er að Liverpool má ekki við því að tapa leikjum í þessarri hrynu ef þeir ætla að ná markmiðum sínum. Sem þýðir einfaldlega að þeir geta ekki leyft sér að hvíla leikmenn sem þeir hefðu helst þurft að gera í gær (spurning hvernig hefði þá farið? )
  Persónulega hef ég áhyggjur af eftirfarandi:
  – Griðarlegt álag hefur verið á Sterling & Coutinho undanfarið og ekkert lát er á því, enda mikilvægir. Hvað ætli Coutinh sé búinn að spila mörg % mínútna síðan 1.nóvember?
  – Hvað gerum við ef einn af varnarmönnum okkar dettur út, hversu mikið veikir Lovren vörnina?
  – Sturridge er ekki í spilstandi of þarf tíma og mun ekki spila alla þessa leiki
  – Gerrard veikir liðið að mínu viti og mun samt spila 3-5 leiki af þessum.

  Kannski hljóma ég undarlega og er of svartsýnn en hvað segið þið, er ég of svartsýnn?

 49. Ég veit að menn eru að missa sig yfir Lucas sem ég reyndar skil ekki og ég hef séð e-h tölfræði þar sem LFC gengur mun betur með hann innanborðs en utan. Reyndar er sá samanburður marklaus þar sem þetta var sept – des þar sem allt liðið var að spila undir getu og hefur ekkert með Lucas að gera. Skal þó viðurkenna að hann hefur stigið aðeins upp enda ekki úr háum söðli að falla.

  En þegar við horfum svo á Emre Can þá hljóta menn að sjá hversu mikinn klassa vantar í þessa holding midfielder stöðu. Can er stór og sterkur, nokkuð fljótur, fáránlega góður á boltann og getur gefið úrslitasendingar ásamt því að þruma á markið. Það er ekki spurning að hann á að vera þarna frekar en Lucas allan daginn.

  Vandamálið er bara að þá þarf e-h til að leysa miðvarðarstöðuna sem hann skilur eftir sig og hefur spilað eins og engill í. Kannski að Kolo Toure geti tæklað það, eða þori ég að segja Lovren?

 50. Ef þú hlustaðir á podcastið þá er það sem ég segi nákvæmlega í samræmi við það sem ég skrifa hér.

  Balotelli var ekki í hóp, því þjálfarinn valdi hann ekki. Ekki frekar en t.d. Enrique eða Lovren…og örugglega af því hann var ekki tilbúinn í þennan leik.

  Hins vegar berst ekki ein frétt um neitt annað en það að drengurinn sé að mæta á æfingar og allt sem um hann skrifað innan liðsins er að hann sé bara vel metinn í hópnum og vandinn ekki mikill…auk þess sem að nú er alltaf að fréttast eitthvert hvísl um að alls ekki hafi verið greidd þessi upphæð í einu lagi (16 millur) sem rætt er um heldur einhverjir bónusar.

  Það sem þreytir mig er tilhneiging umræðu um það að vilja varpa einhverju öðru ljósi á en þessum staðreyndum á þetta mál allt og þá einmitt nota lýsingu eins og “mesta klúður síðan ég veit ekki hvenær” í leik þar sem við unnum án hans þátttöku.

  Hins vegar held ég að ég sé nú ekki að óska svo glatt eftir glimmerprumpi með því….Balotelli er ekki að ná sér á strik en liðið leikur vel án hans…og ef hann nær sér ekki á strik seljum við hann í sumar án mikils taps, ef nokkurs.

  Og nú ætla ég bara ekkert að spjalla meira um hann Balo karlinn svo glatt. Hef trú á að allir sem hlustuðu á podcastið eða lesa þennan póst viti þá mína skoðun 😉

 51. Eiríkur Már #46:

  Ég fer ekkert í felur með það að ég var hundfúll yfir þróun leiksins alveg þangað til að jöfnunarmarkið kom á 86. mínútu – og lét ég þá skoðun mína í ljós hér á síðunni.

  Gladdist svo mjög þegar við jöfnuðum og ennþá meira þegar við komumst yfir og unnum leikinn – og lét ég þá skoðun mína í ljós hér á síðunni.

  Ég bara verð að varpa fram þeirri spurningu hérna; er það svo óeðlilegt að bölva þegar illa gengur en gleðjast þegar vel gengur? Mín skoðun er að það sé fullkomlega eðlilegt.

  Svo eru auðvitað til menn sem skipta ekki skapi, eru bara alltaf jafn glimmerprumpandi glaðir, hvort sem það gengur illa eða vel.

  En ég hef bara ekkert út á það að setja, hvort fólk sé prumpandi glimmeri eða ekki, enda erum við ekki öll eins.

  Það sem ég hins vegar get ekki, er fólk sem getur ekki haldið sig við málefnið – og málefnið á þessari síðu er Liverpool; leikir liðsins, leikmenn liðsins og allt annað sem tengist klúbbnum.

  Málefnið er EKKI fólkið sem er að tjá sig hér á síðunni – og af gefnu tilefni langar mig að lokum að benda á reglu #2 fyrir umræður á kop.is, sjá hér: http://www.kop.is/reglur/.

  Áfram Liverpool!

 52. Frábær sigur og sálfræðilega sterkt að klára hann með þessum hætti. Can og Coutinho bestir. Ég sé Can og Henderson eigna sér central miðjustöðurnar á næsta tímabili.
  Maður hefur smá áhyggjur af breidd hópsins og því að í raun hafi ekki verið treystandi á að hvíla fleiri menn í gær. Það er mikið álag framundan.
  Svo væri ég til í að ræða meira um leikmenn eins og Balotelli og væntingar til hans. En núna skilst mér að hann sé bara squad player, ekkert óeðlilegt að hann sé utan hóps og að það hafi í raun aldrei verið gerðar neinar væntingar til hans. Þannig að ég sleppi því þá algjörlega að ræða hann 😉
  Að öllu gamni slepptu þá hefur Rodgers oft fryst menn í langan tíma og þeir komið sterkari inn eftir það. Kannski verður Lovren dæmi um slíkan mann já eða Balotelli?

 53. Þetta er einmitt grunnur á skoðunarskiptum ekki satt Maggi. Sem betur fer höfum við öll ólíkar skoðanir og þess vegna leita margir hingað inn til að lesa og taka þátt í líflegum umræðum.

  Áður en ég henti þessari umræðu af stað var flest komið fram um þennan leik. Smárinn góður miðað við aldur, flott sending hjá Can, Mignolet allur að koma til og allt það. Þar sem þetta er ekki facebook síða þar sem er ekkert mál að henda inn sér link á málefni þá langaði mig að vekja athygli á þessu. Menn eru greinilega ekki sammála um gang mála á Balotelli eins og heyrðist í podcastinu. Í þessum umrædda þætti var líka lagt fram að Balotelli ætti að vera notaður í þessum leik og hann sást ekki einu sinni á bekknum!

  Miðað við nafnið sem maðurinn hefur skapað sér, kaupverð (hvort sem það er 16 mills eða minna) þá hlýtur það vera umræðuefni afhverju hann er ekki notaður á móti 1 deildar liði í bikarleik. Þetta er engin Jordan Ibe, ungur og efnilegur að bíða eftir tækifæri heldur maður sem hefur spilað með Inter, City og A.C Milan.

  Ég er ekki að sjá að finnst hann spilaði ekki á móti Bolton að Balotelli fái einhver tækifæri í gríðarlega mikilvægum leikjum framundan. Þetta Balotelli mál allt er algjört klúður að mínu mati. Vissulega eru einhverjir ekki sammála mér en ég vona svo sannarlega að Balotelli og Rodgers prove me wrong.

 54. Sælir félagar

  Kem hér inn bara til að þakka góða umfjöllun (skýrslu) og málefnalegar umræður. Mér finnst Dude#58 komast dálítið að kjarna málsins í umælun sínum. Það á að fara í boltann en ekki manninn, svo maður vitni í margtugginn frasa. Það er Dude að benda á en að öðru leyti ætla ég ekki að blanda mér í þær umræður ef einhverjar veða.

  Skoðanakúgun með einhverja tilbúna rétthugsun að leiðarljósi er ekki góð. Hún er reyndar bara býsna slæm. Pössum okkur á því og verum sammála/ósammála um leiki og leikmenn og látum þar við sitja.

  Það er nú þannig.

  YNWA

Liðið gegn Bolton

Litli töframaðurinn