Komdu með Kop.is á Anfield!

Kop.is og Úrval Útsýn kynna ferð á leik Liverpool og QPR helgina 30. apríl – 4. maí n.k.!

Það er komið að því! Eftir þrjár (október ’13, febrúar ’14, október ’14) frábærlega vel heppnaðar ferðir Kop.is og Úrval Útsýnar á leiki á síðustu árum höfum við sett saman aðra ferð og í þetta sinn er verkefnið klárt: Við ætlum að kveðja fyrirliðann, Steven Gerrard, með virktum í næstsíðasta leik hans á Anfield!

Þátttaka og stemning hefur verið frábær í fyrstu þremur ferðunum og þegar eru menn komnir á lista fyrir þessa ferð. Við vonumst til að sjá sem flesta með í þetta sinn og hvetjum menn því eindregið til að bíða ekki með að bóka sér pláss í vorboða Kop.is í Liverpool-borg!

Til að panta pláss í ferðina er hægt að hafa samband við Sigurð Gunnarsson hjá Úrval Útsýn á siggigunn@uu.is eða Árna Stefánsson hjá Úrval Útsýn á arnistef@uu.is. Endilega skellið ykkur með – það er takmarkað sætaframboð. Vegna mikils áhuga getum við ekki haldið flugi og sætum í ferðina nema ákveðið lengi og því verður aðeins tekið við bókunum til föstudagsins 6. febrúar n.k. Hægt er að festa sér ferðina með kr. 40.000,- staðfestingargjaldi.

Síðast komust færri að en vildu og við mælum með að fólk bíði ekki of lengi með að tryggja sér miða!

Boðið verður upp á Kop.is-dagskrá yfir helgina og í kringum leikinn en ferðalöngum verður frjálst að nýta sér það eftir eigin óskum. Fólk getur kastað mæðinni í glæsilegri miðborg Liverpool, verslað smá og farið sýningartúrinn á Anfield með Kop.is-genginu. Endilega lesið borgarvísi okkar um Liverpool-borg til að sjá hvað hægt er að gera í þessari skemmtilegu borg, annað en að sjá frábæra knattspyrnu og óstöðvandi heimalið á Anfield.

Innifalið í ferðinni er meðal annars:

  • Íslensk fararstjórn.
  • Flug til Birmingham með Icelandair fimmtudaginn 30. apríl kl. 7:50.
  • Rúta til Liverpool (u.þ.b. 1,5 klst. löng) eftir hádegi á fimmtudegi. Komið verður síðdegis til Liverpool-borgar.
  • Sérstakt Kop.is Pub-quiz í rútunni þar sem veglegir vinningar verða í boði!
  • Hágæðagisting á nýuppgerðu lúxushóteli Titanic Hotel niðri á Stanley Dock, steinsnar frá miðborg Liverpool.
  • Aðgöngumiði á leikinn gegn Queens Park Rangers laugardaginn 2. maí.
  • Rúta til Birmingham og flug heim þaðan mánudaginn 4. maí kl. 13:25. Lent heima í Keflavík kl. 15:10 á mánudegi.

Máltíðir aðrar en þær sem eru nefndar, drykkir með kvöldmat og annað almennt sem ekki er nefnt hér að ofan er ekki innifalið.

Verðið er kr. 159.500 á mann í tvíbýli. Staðfestingargjald er kr. 40.000 á mann eins og áður sagði.

Eins og áður sagði hafið þið samband við Sigurð Gunnarsson hjá Úrval Útsýn í síma 585-4102 eða á siggigunn@uu.is eða Árna Stefánsson arnistef@uu.is til þess að panta ykkar sæti í þessa ferð.

Ferðaáætlun er í grófum dráttum sú að hópurinn flýgur saman til Birmingham á fimmtudagsmorgninum. Þar bíður okkar rúta sem flytur okkur yfir á Titanic lúxushótelið í Liverpool en þangað verðum við komin síðdegis á fimmtudegi. Pub-quiz Kop.is fer fram í rútunni með verðlaun í boði fyrir sigurvegara. Við komuna í Liverpool gefst mönnum kostur á að skoða borgina sem skartar sínu fegursta á vorin.

Í borginni verður boðið upp á almenna fararstjórn og ráðgjöf með hvernig best er að nýta tímann í þessari skemmtilegu borg. Kop.is-strákarnir munu mæla með góðum veitingastöðum og þeir sem vilja geta slegist með þeim í hópinn út að borða öll kvöld á bestu veitingahúsum borgarinnar. Þá verður stemningin á The Park tekin góðum púlsi bæði fyrir og eftir leik auk þess sem hægt er að fara með fólk í skoðunarferðina á Anfield sé þess óskað, en þó ekki hægt að lofa því fyrr en nær dregur þar sem túrinn er ekki alltaf opinn. Svo er hægt að kíkja á Bítlasafnið, Cavern Club og ýmislegt annað skemmtilegt í borginni.

Þess utan verður stemning í hópnum og stefnt að eins mikilli skemmtun og afslöppun og hægt er.

Á mánudeginum flytur rúta okkur svo aftur til Birmingham og í flugið heim eftir frábæra fjögurra nátta helgi!

Endilega sláist í för með okkur Kop.is-genginu í frábæra ferð til fyrirheitna landsins!

32 Comments

  1. mæli eindregið með þessari ferð!!!

    ég var í ferðinni í okt.´13 og á klárlega eftir að muna eftir henni það sem eftir er….

    ekki bara leiknum heldur öllu í kringum hann líka…

    menn að rífa sig úr að ofan á ólíklegustu stöðum, íslenskum trommara á cavern club, borðunum á bierkeller, sterling á djamminu og þemasvítunum sem við vorum á.

    ég var svo heppin að vera í kop stúkunni með heimamönnum sem var nottla bara rugl, var rifinn uppúr sætinu og var sagt að í þessari stúku situr enginn!!!

    á klárlega eftir að fara í KOP ferð aftur 🙂

    kv,doddi

  2. Góðan daginn,
    Mig langar að forvitnast, er hægt að taka árs gamalt barn með í þessa ferð?

  3. Frábært…. ´Við hjónin erum búin að fara eina ferð með þessum snillingum og mætum nú galvösk á ný. Treysti því að skólasjórinn Magnus Þór mæti galvaskur með til að taka við kvörtunum skilningslausra ósáttra foreldra frá Íslandi á meðan á fjörinu stendur ( hann skilur þetta) 🙂

    Annars: Það þarf ekki að hafa áhyggjur af því að leiðast með þessum gaurum. Ekkert nema gleðin í þessum ferðum.

    Hlökkum mikið til. Búinn að fynna til ferðatöskuna og byrjaður að pakka niður. 🙂

    Sjáumst kát, Steini og Drífa.

  4. Rannveig Ísfjörð – ég er hreinlega ekki viss. Sláðu á þráðinn hjá Úrval Útsýn, þeir vita það betur en við.

    Ég mæli alls ekki með að farið sé með ársgamalt barn á Anfield á leikinn, og er hreint ekki viss um að það sé leyfilegt, en að öðru leyti getur barnið alveg verið í Liverpool-borg.

    Spurðu Úrval Útsýn, þeir vita þetta pottþétt.

  5. Mjög glaður að sjá Bergstein og Drífu á leiðinni…en ég verð með órekjanlegan kryptonskan síma ef ég fer með…og læt annan svara í hann.

    Algerlega frábært móment!

  6. er þessi 40 þúsund kall í staðfestingargjald inní heildarkostnaðinum ?

  7. Sælir,

    Ég og félagi minn viljum ólmir fara í þessa ferð og ég var að senda póst á þá sem þið nefnið hér að ofan. Vitið þið hvort þeir séu að svara tölvupóstum núna um helgina?

  8. Vá hvað mig langar að koma með í þessa ferð.Mæli svo með þessum ferðum.

  9. Skemmtið ykkur extra vel enda ekki annað hægt þegar Liverpool er heimsótt 🙂 En þið meigið bóka mig fyrstan á blað í “vonandi” Kops ferðina á Wembley 30mai 🙂

  10. Væri alveg til í að koma með. Enn þar sem ég var á Anfield gégn Sunderland og Basel, ætla ég að bíða í næstu kop-ferð.

  11. Geggjað í síðustu ferð!

    Kemst ekki með núna, en ég ætla pottþétt aftur með Kop-urum seinna.

  12. Ég veit ekki hvort að það sé leiðinlegt að segja það, en ég var búinn að kaupa miða áður en ég vissi af þessari ferð.

    Vonast til að sjá einhverja á svæðinu.

  13. Helgi Freyr (#16) – verðið er kr. 159.500 eins og segir í pistlinum.

    Vilhjálmur (#17) – hittu okkur bara á Park eða í bænum. Það fer ekki lítið fyrir hópi Íslendinga enda afgerandi fallegastir (miðað við höfðatölu) hvar sem við stígum niður fæti á Englandi. 🙂

  14. fyrir forvitinn mann hvað kostar miði a anfield i ágætt sæti ehv þá er ég að tala um milliverð ?

  15. Verulega sem þetta verður skemmtilegt fyrir þá sem komast.

    Svo svarað sé um miða þá urðu þeir uppseldir daginn sem Gerrard tilkynnti að hann væri að hætta…sé á netinu að menn eru að bjóða miðann á þennan leik á verulega háar upphæðir, þó ekki eins og á Palace leikinn, þar er maður farinn að sjá verð upp að 700 pundum fyrir miða á lokaleikinn.

    En það verður þannig að Gerrard kemur bara inná í lokin í þeim leik og svo verður hann tekinn útaf með heiðursskiptingu á Brittania vellinum.

    Þetta verður síðasti leikurinn sem hann leiðir út sem captain á Anfield…og þið verðið þar þeir sem ætla með!

  16. Helvítis kop.is pub-quiz….ég æli í hvert skipti sem ég heyri Milan Jovanovic nefndan á nafn! :p

  17. Hæ, hvernig er með hjólastólaaðgengi á svona ferðum, bæði í að koma sér á Anfield og svo á leiknum sjálfum ?
    Langar að taka pabba með út leik en hann er sem sagt í hjólastól og þarf aðstoð við að ferðast.

  18. Sæll Jón Einar – ég held að það ætti ekki að vera neitt vandamál en það þarf eflaust að sækja um hjólastólapláss á Anfield. Endilega spurðu Úrval Útsýn að þessu, þeir sjá um öll svona atriði.

  19. Þá erum við félagarnir búnir að panta í okkar fyrstu ferð á Anfield 🙂

  20. Hæ,
    ég fékk svar frá Árna Stef hjá ÚÚ varðandi hjólastólamiða á Anfield, gott fyrir þá sem eru í hjólastól eða að fara með e-m sem er í hjólastól að vita:

    “Þeir eru seldir í upphafi tímabilsins og allt orðið fullt út tímabilið. Ef menn ætla í hjólastól á leik verður að íhuga það um sumarið og ganga frá því um leið og leikjaskráin er gefin út í júní/júlí til að eiga séns.”

  21. Þetta er reyndar ekki alveg rétt hjá Arna Stef / ÚÚ.

    Ferlið virkar þannig að þessir miðar fara í sölu tvisvar á tímabili, annars vegar í júlí fyrir leikina fyrir áramót og í nóvember fyrir þá leiki sem eru eftir áramót. (Sem er nokkurn veginn eins og members sale fyrir alla hina virkar).

    Áður en þú getur keypt hjólastólamiða þarft þú að vera búinn að skrá viðkomandi hjá Liverpool FC sem einstakling sem notar hjólastól. Þú þarft að senda þeim gögn frá lækni sem staðfestingu. Svo þarf líka að greiða fyrir membership aðild hjá Liverpool FC fyrir báða aðila (þeas aðstoðarmanninn líka).

    Liverpoolklúbburinn hefur nokkrum getað útvegað svona miða en það þarf þá að gerast mjög snemma, helst áður en við setjum ferðirnar okkar í sölu. (Júlí/lok október)

    Annars eru nánari upplýsingar um þetta eru hérna.
    http://www.liverpoolfc.com/tickets/accessibility

    kv.
    Mummi

  22. Vil bæta einu við, varðandi aðgengi að Anfield, bæði til og frá er lítið mál með hjólastóla. Langflestir af þessum svörtu leigubílum geta tekið við hjólastólum. Hurðirnar eru nógu breiðar.

    kv.
    Mummi

  23. Sérstaklega áhugaverð ferð og stór kostur að fara í gegnumBirmingham og losna við að fara til Man..

  24. Nú er ég og félagi minn búnir að tryggja okkur miða í þessu frábæru ferð. Ein pæling sem ég hef og hún er hvar sitjum við? 🙂

  25. Aron – þið sitjið á Anfield! Miðarnir koma í ljós þegar við komum út en þeir verða allir góðir, hafa verið það hingað til og fara ekki að klikka. Það er annars galdurinn við Anfield, hann er stór en ekki of stór svo að öll sætin eru góð!*

    * (Fyrir utan þessi örfáu, víðfrægu sæti bak við súlur. En við erum ekki í neinni hættu á að fá þá miða.)

Liverpool – West Ham 2-0

Gluggavaktin: janúar 2015