West Ham á morgun

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

Eins mikið og hann Sammy fer í mínar fínustu og fótboltinn sem hann hefur látið liðin sína spila í gegnum tíðina, þá verður að viðurkennast að oft nær kall uglan árangri. Þetta West Ham lið sem hann hefur sett saman er bara orðið fjandi sterkt og engin tilviljun að það sé að bæta sig á milli ára. Það er kannski ekki alveg jafn sterkt og staða þeess hefur sýnt á tímabilinu, og að sama skapi, þá er ég ekki á því að staða okkar manna gefi rétta mynd af styrk liðsins. Það sem meira er, það virðist vera fínasta jafnvægi í þessu West Ham liði. Eru með nokkuð öfluga vörn, nokkuð sterka miðju og sama má segja um sóknina. Ég er ekkert voðalega hrifinn af þessum markverði þeirra, þ.e. það sem ég hef séð af honum, nema þegar hann kláraði Everton út úr bikarnum um daginn, þá var hann í uppáhaldi hjá mér.

Þetta er ekki flókið, West Ham er í sætinu fyrir ofan okkar menn, eru með stigi meira en við og unnu okkur í fyrri leik liðanna, þegar leiknum lauk í rauninni á nokkrum mínútum ef mig minnir rétt. Síðan hefur ansi margt runnið til sjávar og sumt bara beint í ánna Mersey. Okkar menn eru til að mynda farnir að spila fótbolta annað veifið, það er ákaflega falleg og góð breyting verð ég að segja. Sammi kallinn hefur ekki verið mikið sakaður um það í gegnum tíðina að spila áferðafallegan bolta, en það verður lítið spurt um það, þetta snýst um að ná árangri. Því miður oft á tíðum því persónulega finnst mér bæði betra og skemmtilegra ef maður getur skemmt sér yfir vel spiluðum leik í leiðinni. En já, einu stigi yfir okkar mönnum eru þeir og hafa náð að troða tuðrunni oftar í mark anstæðinganna sem nemur fjórum mörkum. Þeir hafa einnig fengið 2 mörkum færra á sig, þannig að heilt yfir hafa þeir bara verið betri en okkar menn.

Við þekkjum aðeins til ákveðinna leikmanna hjá þeim. Andy Carroll hefur svo sannarlega verið að stimpla sig inn undanfarið og verð ég að segja eins og er að ég væri alveg til í að hafa hann hjá okkur í stað t.d. Balotelli. Ég viðurkenni það fúslega að ég sá á eftir Carroll og skil ekki ennþá af hverju ekki var hægt að nota hann en svo versla menn inn menn eins og Richie Lambert og áðurnefndan Mario Balotelli. Annar leikmaður hefur heldur betur slegið í gegn á þessu tímabili og það er hann vinur okkar Stewart Downing. Hann var færður inn á miðjuna og hefur blómstrað þar. Aftur verð ég nú að viðurkenna ákveðna hluti og í þetta skipti skal ég fúslega viðurkenna það að ég sé akkúrat ekkert eftir honum og tel hann vera á hárréttum stað á sínum ferli. Hann er ekkert alvondur leikmaður, en mjög takmarkaður samt.

Við þurfum að vera klárir í slagsmál, því þessir drengir sem við erum að fara að mæta þeir koma ekkert og láta labba yfir sig á Anfield. Það þarf að mæta þeim og það þarf að spila hratt á þá. Það er alveg útilokað að ég taki það í mál að Samúel frændi ykkar taki 6 stig út úr leikjunum við Liverpool þetta tímabilið, útilokað. Við þurfum á öllum stigum að halda í baráttunni okkar, því liðin næst fyrir ofan okkur eru að fara að tapa stigum í næstu leikjum, það er alveg á tæru. Þessi barátta er hvergi nærri búin, við getum svo sem alveg sagt að hún bara hefjist á morgun. Lið West Ham ætti að vera full skipað, allir þeir sem hafa verið á meiðslalistanum þeirra, þeir eru sagði klárir í þennan leik. Hjá okkar mönnum virðist allt stefna í að nýtt met verði sett í því að hafa meiðslalistann sem minnstan. Líklegast eru það bara Brad Jones (mikið áfall samt) og Jon Flanagan sem eru pottþétt frá (ásamt Kolo reyndar, veit ekki stöðuna á honum eða félögum hans af Ströndunum). Sakho er sagður tæpur og svo er það bara stóra spurningin, fáum við LOKSINS ða sjá hann Daniel okkar spila fótboltaleik? Það er orðið svo langt síðan ég sá hann á vellinum síðast að ég man varla hvernig hann lítur út. Nei, ég lýg því, ég er búinn að skoða endalaust af myndbrotum af honum og grenja úr mér augun.

En hvernig stillir Brendan þessu upp? Undanfarið hefur ekki verið neitt sérlega erfitt að giska á liðið. Núna snýst þetta talsvert um Sakho og hans þátttöku í næsta leik. Maður sá vel gegn Chelsea hvers lags yfirburðar traust Brendan ber orðið til Lovren. Miðvörður meiðist sem spilar lengst til vinstri af miðvörðunum (sem sagt stöðuna hans Lovren) og hann ákveður að setja frekar inn hægri bakvörð sem var nýstiginn upp úr meiðslum, sem sagt alveg út úr stöðu. Já, traustið til hans er greinilega mikið. Ég samt neita að trúa því að þetta verði reynt aftur ef Sakho er ekki klár, því það sáu það allir sem vildu sjá, að þó Glen Johnson sé búinn ákveðnum kostum, þá verður hann ALDREI miðvörður vinstra megin. Ég ætla bara að byggja spá mína á að Sakho verði heill, en annars kæmi Lovren inn í hans stað. Sem sagt öftustu fjórir þeir sömu. Það er kannski rétt að nota þennan vettvang og hrósa Mignolet blessuðum. Sá hefur átt erfitt tímabil, en hefur svo sannarlega stigið upp undanfarið, heldur betur. Long may it continue.

Þá er það miðjan og ég vil bara litlu breyta þar. Þar sem ég reikna ekki með að Sturridge sé orðinn það klár að hann geti byrjað leikinn, þá vil ég bara sjá Moreno áfram vinstra megin í kantbakverðinum og Markovic hægra megin. Lucas er auðvitað orðinn fyrstur á blað af öllum í liðinu (án gríns, þá yrði ENGINN settur fyrr á blað en hann í mínum huga) og Henderson þar rétt fyrir framan. Coutinho og Gerrard koma svo til með að bera uppi sóknarleikinn ásamt Raheem. Ég var að spá í að setja Lallana aftur inn, en ég reikna frekar með honum sprækum inn af bekk heldur en að hann byrji í staðinn fyrir Coutinho eða Stevie. Ekki miklar breytingar, enda hefur mér fundist vera góður balance í þessu liði, bæði fram og aftur.

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Markovic – Henderson – Lucas – Moreno

Gerrard – Sterling – Coutinho

°Sturridge á væntanlega á bekk og bara spurning hvort Balo eða Lambert verði fórnað. Ég held virkilega að þessi leikur gæti orðið algjör vendipunktur okkar á þessu tímabili. Tap í þessum leik myndi gera framhaldið ansi hreint erfitt, en góður sigur myndi setja okkur í ákveðinn gír, senda út ákveðin skilaboð og sýna það og sanna að við séum ekki búnir að segja okkar síðasta í þessari baráttu. Það er svo stutt milli hláturs og gráturs í þessum bransa, örfá stig skilja þessi lið öll að og alveg ótrúlega mikið af leikjum eftir.

Ég ætla að spá áframhaldandi góðri spilamennsku hjá okkar mönnum og að við förum að sjá æ oftar svipað lið og seinni hluta síðasta tímabils. Þá fórum við á 11 leikja sigurleikja “rönn”. Litlar líkur eru á því aftur, allavega ekki svo löngu, en með Studge inn á ný og nýju leikmennina í formi, af hverju ættum við ekki að getað spyrnt við fótum og sett hlutina af stað að nýju. Við sýndum það vel gegn Chelsea yfir tvo leiki að við getum þetta. Byrjum á því gegn West Ham og höldum svo veginn.

Koma svo…

18 Comments

 1. Sammála um að þetta er viss lykilleikur. Ef hann vinnst erum við klárlega komin í baráttu um meistaradeildarsæti og ef það markmið næst, þá er ég sáttur við tímabilið.

 2. Þetta verða 3 stig í hús og tippa ég á 3-1 og ekkert kjaftæði, en gæti ekki verið að Gerrard yrði hvíldur fyrir leikinn gegn Bolton á Miðvikudag? Enn annars flott skýrlsa

  YNWA

 3. Þetta verður erfiðir leikir en maðir gerir kröfu a 3 stig og ekkert kjaftæði. Höfum verið að gera alltof mörg jafntefli a Anfield og það bara ma ekki halda afram. Við þurfum 3 stig a morgun.

  Spai 2 -1. Carroll skorar, Gerrard setur eitt fyrir okkur og Sturridge kemur inn af bekknum og setur sigurmarkið.

  Djofull rosalega hlakka eg til að fa Sturridge, eins og að kaupa 50 milljon punda leikmann.

  Annars sammala að nu þurfa okkar menn að fara a smá runn og syna liðunum fyrir ofan okkur að við ætlum að berjast til enda um þetta 4 sæti.

 4. Mjög góð upphitun.

  Get ekki beðið sammála um að þetta sé gífurlega mikilvægur leikur. Með sigri eykst trúin en tap gerir þetta 4. sæti að fjarlægum draumi.

 5. Við vinnum þennan leik. 2-1. Skrifað í skýin að Downing sendir West Ham markið á pönnuna á Carroll.

 6. Þú hefur greinilega ekki fylgst mikið með West Ham í vetur því það sem ég hef séð af þeim er allt annar fótbolti en Sammi sopi hefur boðið uppá síðastliðin ár. Liðið hefur litið gríðarlega vel út og með betri fótboltamönnum eins og Sakho og Valencia er liðið ekki að spila eins mikið “kick and run” eins og svo oft. Að mínu mati á liðið fyllilega skilið að vera í 6 sæti.

 7. Ég vill sjá Lallana byrja þennan leik í Gerrards. Hann er fljótari og mun koma betur fyrir gégn varnaleik Big Sams.

  2-1 og Sturridge fær síðasta orðið 2 mínútur eftir skiftingu.

 8. KOMA SVOO !!!! takk fyrir upphitunina ég held að lallana komi inn fyrir gerrard og við vinnum 2-0 mð marki frá sterling og sturridge !!

 9. Sæll Elmar,

  Ég tek það reyndar fram að þeir hafi hreinlega verið betri en okkar menn á tímabilinu og þeir eiga alveg skilið að vera þar sem þeir eru. Ég hef horft talsvert á þá og á nokkra West Ham félaga og þó svo að fótboltinn sé ekki algjör kick and hope bolti, þá færðu mig seint til að kvitta undir það að þeir séu að spila neitt sérlega áferðafallegan bolta. Hefur skánað já, og það talsvert.

 10. VINNUM 4-0
  En mig langaði að segja frá því að Glen Johnson, Mario Balotelli, Fabio Borini, Dejan Lovren, Joe Allen og Jose Enrique eru með samtals með 450.000. pund á viku samtals hjá Liverpool. Með þessum pening mætti borga Aguero og Yaya Toure laun. Þetta eru um 25M punda á ári. Frá mínum bæjardyrum séð myndi ég vilja sjá John Flanaghan, Jordon Ibe, Sheyi Ojo, Coates, Ilori, Harry Wilson og Samed Yesil í stað þessara manna í hópnum. Byrjunarliðið myndi ekki veikjast neitt, okkar efnilegustu menn myndu fá tækifæri og þetta gæfi klúbbnum svigrúm til að fá til sín 2-3 toppleikmenn á fínum launum inn í staðinn. Gaman að setja upp reikningsdæmi. Liverpool selur þessa bankaræningja sem taka 450.000 pund á mánuði fyrir 35m punda. Það sparar launakostnað upp á 75M punda á 3 árum. Taka ungu menninga inn í hópinn í staðinn. Liverpool kaupir André ter Stegen varamarkvörð þýska landsliðsins, Marko Reus og Paul Pogba fyrir 110M punda. Liverpool stendur á sléttu á 3 árum. Við erum komnir með arftaka Gerrard á miðjuna og heimsklassamarkvörð og heimsklassa sóknarmenn með Sturridge og fáum að sjá helling af ungum mönnum koma upp í liðið.

  Pæling á laugardagsmorgni.

 11. Sælir félagar….
  Er sammála Steina að þetta er ALGJÖR lykil leikur í þessari baráttu um framhaldið… Við bara verðum að vinna og helst vinna sannfærandi ,Ef það gerist þá er það punkturinn yfir i-ið á þessu sjálfstrausti sem við höfum verið að sjá aukast í liðinu held ég…. ég horfi því á þennan leik sem 6 stiga leik engin spurning…. vil sjá Lallana byrja fyrir Gerrard og er viss um að Sturridge byrji á bekknum og Lambert missi sæti sitt þar….
  Spái þessu 3-1 Sterling, skrtel og Sturridge með mörkin… Koma svoooooo!!!!!!!!!!!!!!

 12. Damian, gæjinn sem spáir alltaf réttu liði langt fyrir leik segir að liðið sé einmitt svona eins og Steini spáir nema aðxLallana komi inn. Ekkert að því liði.

 13. Ég get nánast fullyrt að Andy Carroll og Stewart Downing eiga eftir að spila frábærlega gegn okkur. Mér lýst ekkert á þennan leik og ætla að spá 3-1 tapi, því miður.

 14. Byrjnarliðið og varamenn

  Mignolet,

  Can, Skrtel, Sakho,

  Markovic, Henderson, Lucas, Moreno,

  Lallana, Coutinho,

  Sterling.

  Varamenn: Johnson, Lambert, Sturridge, Allen, Borini, Ibe.

 15. Liverpool XI: Mignolet, Can, Skrtel, Sakho, Henderson, Lucas, Moreno, Markovic, Coutinho, Lallana, Sterling.

  Substitutes: Ward, Johnson, Lambert, Sturridge, Allen, Borini, Ibe.

  Verður geggjað að sjá Sturridge koma inn!

 16. Það verður allavegana soknarskipting i þessum leik.
  Ekkert Chelsea rútu kjaftæði.

Danny Ings keyptur og lánaður?

Liðið gegn West Ham