Danny Ings keyptur og lánaður?

Það eru allir miðlarnir í Englandi með sömu sögu nú í morgunsárið: Liverpool vilja kaupa Danny Ings í janúar og lána hann aftur til Burnley út tímabilið.

Sjá: Liverpool Echo, BBC Sport, The Guardian, The Telegraph og ESPN.

Sem sagt, Liverpool vilja Danny Ings.

Hér er það eina sem ég hef um þetta að segja: Ings er samningslaus í sumar og má þá fara frítt hvert sem hann vill. Þar að auki má hann byrja að semja við lið núna strax þar sem það eru innan við 6 mánuðir eftir af samningnum við Burnley (Uppfært: Bent er á í ummælum við þessa færslu að enskir leikmenn megi ekki semja við lið innanlands fyrr en að tímabili loknu í vor.). Sagt er að Burnley (og Bournemouth) fái svokallað uppeldisfé ef hann fer „frítt“ í sumar og að það fé verði líklega í kringum £2-£3m.

Hér er mín spurning: af hverju í ósköpunum ætti Liverpool að vilja borga meira en það til að kaupa hann í janúar og lána hann svo til Burnley fram á vorið? Af hverju ekki bara að semja við hann beint um að koma „frítt“ í sumar, fyrst okkur liggur ekkert á að fá hann fyrr?

Eitthvað passar ekki hérna. Annað hvort er Liverpool að kaupa hann og fá hann núna eða semja við hann beint um að koma á samningi í sumar. Hitt meikar ekkert sens.

Annars hef ég lítið séð til Ings, missti m.a.s. af megninu af leik okkar gegn Burnley í desember, þannig að ég veit ekkert hvort þetta eru snilldarkaup eða ekki, ef af verður.

Við sjáum myndband:

Það eru tæpir fjórir dagar eftir af glugganum (lýkur á mánudag, þar sem mánaðarmótin koma um helgi). Sjáum hvað setur.

34 Comments

  1. Fannst þetta afar einkennilegt líka, en svo mundi ég að þetta er Liverpool.

  2. Úff. Er hann að koma inn þá sem fjórði/fimmti striker á næsta tímabili? Gef mér að Balotelli verði seldur, Borini líka og kannski Lambert. Origi, Ings og nýr heimsklassa maður komi inn. Þá er þetta:
    1. Sturridge
    2. Nýr maður
    3. Ings
    4. Origi
    5. Lambert

    Origi mun þurfa ár til að aðlagast þannig að þetta er kannski ágætt sem þriðji strækar til að vera með Origi. Munum aldrei tapa pening á þessum kaupum held ég, en hvort gæðin séu næg fyrir Liverpool er ég ekki viss um.

  3. Númer 1 hittir naglann beint á höfuðið.
    Þetta er Liverpool sem við erum að tala um og þar er margt sem meikar ekkert sens þegar kemur að leikmannakaupum.

    Annað hvort semja menn um kaup á honum og fá hann núna eða semja við hann og fá hann frítt.
    Þetta ætti eki að vera flóknara en það.

  4. Ensku liðin mega ekki byrja semja við leikmenn sem verða samningslausir á englandi fyrr en í sumar þegar samningurinn er búinn. Hins vegar mega lið semja við menn erlendis frá þegar þeir eiga 6 mánuði eftir af samningstíma, en ensk lið mega ekki byrja bjóða leikmönnum sem spila á englandi samning fyrr en samningstíma lýkur.

    Hitt er svo annað mál hvort menn séu ekki að brjóta þessar reglur og semja á bakvið félögin.

  5. Metnaðurinn alveg að drepa menn hjá LFC þessa dagana…

    Meira hef ég ekki um þetta mál að segja.

    Homer

  6. Vona innilega að liverpool hjóli í þennan mann, fékk að sjá hann spila í fyrra í FA-bikarnum gegn Southampton, þetta er strákur með ótrúlegan hraða og gífurlega ákefð og hreifanlegur. Held að hann myndi fitta mjög vel inn í liðið okkar. Þetta er ungur strákur sem er með gífurlega mikið potential og held ég að hann myndi reynast okkur vel.

  7. Sammála því að þarna er líklegt að menn séu nálægt sannleika.

    Áhuginn á Ings er ekki nýr, vorum að skoða hann í fyrra held ég að sé nokkuð klárt og beðið eftir að sjá hvurnig gengur í PL. Hann tikkar í mörg box hjá Rodgers, ungur, öskufljótur og duglegur.

    Ég held nú samt að staðreyndin sú sé stærst að hann er mjög ódýr. Okkar félag ætlar sér að spila eftir FFP-reglunum og þar erum við nú þegar til rannsóknar fyrir að hafa eytt meiri peningum en við öflum. Já…veit það er afskaplega skrýtið að það séu Liverpool og West Ham sem verið er að skoða varðandi það en staðreyndin er því einfaldlega sú að við verðum að hafa jafnvægi í bókhaldinu og það þýðir að við þurfum að fá inn tekjur til að geta keypt.

    Því held ég að það skipti hér töluverðu máli fyrir okkur að ef að við eigum að geta keypt þurfum við að byrja á að selja. Ekki virðist neinn vera á útleið og því enginn heldur að koma inn…

    Las frábæran pistil frá Tomkins þar sem hann fór yfir hvað það þýddi fyrir félagið að vera undir smásjá FFP á sama tíma og það er að fara að eyða óheyrilegum upphæðum í völlinn…eftir lestur á honum dofnaði von mín um stóru kauptékkana töluvert og því koma mér svona fréttir ekki mikið á óvart.

    Ég held að Danny Ings sé fínn leikmaður sem eigi skilið að komast í stærra lið en Burnley. En auðvitað er hann ekki svona “kitl í magann spennandi”…en það kitl fékk ég ekki með t.d. Sturridge eða Coutinho á sínum tíma…og vonaðist eftir Falcao í sumar.

    Svo hvað veit ég…

  8. Held að flest allir stuðningsmenn öskri á að fá senter í liðið og það sem fyrst. Skil heldur ekki að lána hann út tímabilið ef það er rétt hjá blaðasnápum Englands. Betra að lána Borini og fá Ings strax, að mínu viti, ef við erum á annað borð að fara að fá Ings í okkar raðir.

  9. Erfitt að meta Danny Ings enda leikmaður sem maður hefur afar takmarkað séð af. Margt spennandi við hann samt og hann er á aldri sem mér lýst vel á að Liverpool sé að vinna með. 22 ára og tilbúinn í að taka næsta skref, hann er kominn yfir það að vera bara efnilegur. Ings held ég að getið verið frábær sem 2-3 kostur á eftir Sturridge og Origi, mun meira spennandi en það sem Liverpool er að vinna með núna. Gefum því út þetta tímabil hvort Balotelli verð með í þeirri upptalningu.

    Maggi Nr. 8
    Eru ekki allar framkvæmdir við völlinn undanskildar FFP?

  10. Jújú Maggi segir að við verðum að fá tekjur inn til þess að geta eytt peningum sem er gott og vel.
    En ég held að fáist líka ansi mikill peningur í kassann ef það yrði keypt inn virkilega stórt nafn sem myndi hjálpa okkur í að komast í CL þar sem að peningurinn er.

    Einnig myndi stórt nafn selja varning tengdan sér fyrir fáranlegar fjárhæðir.
    Tökum t.d Falcao og Di Maria sem dæmi.

    Þessir 2 leikmenn voru með um 30% af öllum seldum treyjum í heiminum fljótlega eftir að þeir fóru til United.

    Það kaupir engin treyju með Danny Ings á nema mamma hana og konan.

  11. Hafði enga trú á honum þangað til ég sá youtube videoið. Núna er ég sannfærður. Danny Ings er frábær leikmaður 🙂

  12. Ég varð alveg spenntur fyrir Ings en dofnaði um leið og ég heyrði þetta lána bull.

    Það er á hreinu að þessu liði er nauðsynlegt að vera með hraðann framherja a la Sturridge en og LFC er ekki með annan til að koma inn ÞEGAR hann er meiddur, sem er ansi oft.

    Þá finnst mér þó fjandanum skárra að vera með leikmann á bekknum sem er úr svipuðu móti, þó hann sé ekki endilega af sama kaliberi og sturridge.

    Svo gæti alveg gerst að hann springi bara út í kringum sterling, kútinn og hina……

    En að vera ekki að fara fá hann núna er alv. glatað

  13. Hann vill ekki fara ì jan heldur hjàlpa sìnu liði að halda sér ì deildinni . Það að hann hugsi um félagið sem hjàlpaði honum à þann stað sem hann er nùna finnst mér fràbært . Flott ef við fàum leikmann sem er heill ì höfði ????

  14. Held að þetta sé rétt hjá siffa. Ensk lið geta ekki boðið leikmönnum innan Englands að koma frítt til þeirra fyrr en það er sirka 1 mánuður eftir af samningnum ef ég man rétt. En ef Liverpool vill fá leikmann erlendis frá þá meiga þeir tala við hann núna (6mán fyrir)

  15. Smá samanburður:

    Danny Ings í vetur: 19 leikir, 7 mörk, 3 stoðsendingar.

    Saido Berahino í vetur: 22 leikir, 14 mörk, 0 stoðsendingar.

    Charlie Austin í vetur: 20 leikir, 13 mörk, 2 stoðsendingar.

    Ég þekki engan þeirra þriggja nóg til að geta tjáð mig um hver er betri eða verri, en ef þið skoðið tölfræðina og takið svo með í reikninginn að vegna samningsstöðu er Ings miklu, miklu ódýrari en hinir tveir væru, þá er nokkuð augljóst hvers vegna Liverpool er að versla hann en ekki annan hvorn hinna tveggja. Það er verið að horfa í verðið.

    Hvort sem það er vegna þess að FFP er að hefta okkur á leikmannamarkaði eða vegna þess að peningarnir eru ekki til skal ósagt látið, en þetta er allavega hillan sem Liverpool er að versla í akkúrat núna.

    Vonum að þetta séu snilldarkaup, gangi þau í gegn. Leikmenn hafa áður komið til Liverpool vegna þess að þeir voru ódýrari en aðrir kostir (Sami Hyypia, til dæmis) og slegið í gegn. En oftar en ekki spila 3m punda leikmenn eins og 3m punda leikmenn, ekki 30m punda leikmenn…

  16. Líst mjög vel á þennan gutta. Hann er aggresívur, tekur menn á án þess að hika og er hrikalega fljótur með bolta.

    BR virðist ekki hafa mikla trú á Borini og Balo. Þetta eru flott kaup til framtíðar enda ungur strákur hér á ferð sem gæti orðið virkilega góður með Kútinn fyrir aftan sig og Sturridge við hliðina á sér.

  17. Ef við gefum okkur að Rodgers vilji fá Ings, hvaða skoðun sem við höfum á því, þá er fyrirkomulag kaupanna alls ekki skrýtið heldur beinlínis eina leiðin til að tryggja sér undirskrift hans.

    Það skiptir engu máli hvort þú borgar „bætur“ í sumar eða semur um upphæðina núna við Burnley. Upphæðirnar sem eru í umræðunni er mjög sambærilegar við það sem við þyrftum að borga ef við fáum hann eftir að samningurinn rennur út í sumar, þannig að það er alls ekki málið að verið sé að borga óþarflega mikið fyrir mann sem er að renna út á samningi.

    Með því að taka af skarið núna komast menn líklega fram fyrir röðina af liðum sem myndu bjóða honum samning í sumar. Með öðrum orðum er þetta aðferðin til að tryggja sér samning við hann, sem engin trygging er fyrir að myndi nást ef við bíðum fram á sumar.

    Það að lána hann aftur til Burnley er svo algerlega nauðsynlegur hluti af pakkanum til að fá Burnley til að svo mikið sem íhuga að taka þátt í þessu. Þeir eru búnir að sætta sig við að hann fer frá þeim í sumar, en eru aldrei að leyfa honum að fara í janúar. Hann hefur sannað sig sem markaskorari í úrvalsdeildinni, og þeir þurfa á honum að halda til að eiga einhvern minnsta séns í að halda sér í deildinni. Þótt hann sé samningslaus í sumar myndu þeir ekki selja hann á 10 milljónir punda, þar sem áframhaldandi vera í deildinni er mun verðmætari fyrir Burnley, og að selja hann jafngildir því að sætta sig við að falla um deild.

    Í stuttu máli: við getum verið sammála eða ósammála því að fá Ings til Liverpool, en í ljósi aðstæðna er ekkert skrýtið við fyrirkomulag kaupanna.

  18. Jújú Danny Ings er fínn leikmaður, sérstaklega í liði eins og Burnley. Hann er á fínum aldri og verður kanski/eftilvill góður í framtíðini.

    Er hann það sem Liverpool þarf? Nei.

    Annar leikmaður sem kanski verður góður og tíminn einn leiðir það í ljós. Liverpool þarf heldur menn sem eru góðir í dag, ekki kanski á morgun eða hinn.

  19. Er Rickie Lee ekki að fara í skiptum fyrir Danny Ings? Allavegna meikar það sense 🙂

  20. Ég er orðlaus yfir því að liðið sé ekki búinn að kaupa framherja. Á að stóla á Sturridge það sem eftir er að vetri. Segja má að hann er eini senterinn sem við höfum. Aðrir í hópnum eru ekki í þeim gæðum sem við viljum í okkar lið. Sterling er vængmaður og góður þar.

  21. Til að það sé á hreinu (eins og nokkrir hafa einmitt verið að kommenta á hér að ofan) að Liverpool eða önnur lið innan UK mega EKKI byrja að semja beint við Ings núna en lið utan UK mega byrja á því þegar 6 mánuðir eru eftir af samningnum. Kannski réttast að Kristján Atli leiðrétti þá fullyrðingu sína í greininni sjálfri til að valda ekki misskilningi.

    Ings er einnig innan við 24 ára og um það gilda aðrar reglur innan Bretlands hvað varðar free transfer. Leikmaðurinn er ekki “alfrjáls” þó samningslaus sé þar sem að Burnley í þessu tilviki eru áfram með hans licence. Ef lið ná ekki samkomulagi þá fer málið fyrir tribunal committee sem ákveður sárabætur. Sáum þetta glögglega í máli Tom Ince og einnig þegar Sturridge fór frá Man City til Chelskí.

    Í máli hins síðarnefnda þá vildi City fá 10 millur fyrir hann en Chelskí bara borga 3 millur. Niðurstaða nefndarinnar var að greiðslan væri beinar 3,5 millur með hækkunum miðað við leikna leiki og leik með landslið upp að samtals 6,5 millum ásamt 15% af næstu sölu á honum sem reyndist vera til LFC. Það er því ekkert endilega sjálfgefið að nefndin myndi meta Ings á litlar 2-3 millur og að þar með myndi borga sig að bíða til sumarsins.

    Tottenham og kaupverð upp á 7 millur var nefnt í grein Guardian þannig að hugsanlega eru þetta einfaldlega mjög klók vinnubrögð hjá LFC fyrst við á annað borð að þeir vilja Ings. David Moyes og Real Sociadad haf líka verið nefndir en þeir mega byrja samningaviðræður og slík sala væri án greiðslu. Burnley er harðir á því að vilja ekki missa Ings núna í janúar enda þeirra markahæsti maður og lykilatriði fyrir þá að halda honum til að eiga séns á að halda sæti sínu í PL. Þetta gæti því verið úthugsað og vel framkvæmdur díll ef okkur tekst að leysa þetta á þennan hátt og stelast fram fyrir röðina.

    Ings er væntanlega hugsaður í staðinn fyrir Borini sem yrði þá frekar seldur í sumar heldur núna í janúar. Persónulega hef ég lítið fylgst með honum en hann virkar fjölhæfur, flinkur og fastur fyrir á þúvarpinu. Skorar mörk með skalla og báðum fótum, bæði pot og langskot ásamt flinkum sprettum og markarecordið ágætt. Er enn ungur og Englendingur á undirverði. Margir áhugaverðir kostir við hann en auðvitað er þetta spurning um gæði og hversu mikið hann getur bætt sig. Ef Rodgers vill hann þá er ég alveg spenntur fyrir því að sjá hann í rauðri treyju.

  22. Stebbi #20 segir flest af tvi sem ég vildi segja um málid. Ings er einfaldlega ekki til sölu í jan, Burnley vilja alls ekki missa hann. LFC borgar ekkert miklu meira fyrir hann núna heldur en í sumar en komast fram fyrir Spurs ofl. med tví ad taka af skarid nuna. Eg er hrifinn af tvi sem eg hef sed til Ings og tel hann vera mun betri kost fyrir LFC heldur en Balo, Borini eda Lambert. Tel hann vera tilbúnari fyrir EPL heldur en Origi og tví kostur nr. 2 midad vid nuverandi leikmannahop. Vardandi samanburd Kristjans Atla # 18, ta tel eg ad hann henti okkar spilamennsku mun betur en Austin og er betri leikmadur en Berahino.

  23. Ég er alveg til í að sjá Liverpool taka séns á Ings. Maður fór fyrst að heyra af honum í fyrra þegar hann og Vokes voru “poor man’s SAS” hjá Burnley, skoruðu og lögðu upp fyrir hvorn annan trekk í trekk. Maður varð svolítið spenntur fyrir því að sjá hvort þeir héldu dampi í Úrvalsdeild og satt að segja þá finnst mér Ings líta vel út miðað við það sem maður hefur séð til hans.

    Hann hefur þetta ‘framherja eðli’ sem okkur vantar svo sárlega í þetta lið þegar Sturridge er frá. Þ.e.a.s. hann tímasetur sig vel, tekur hlaup eða bíður á réttum tíma, les för boltans vel og er góður í að klára sénsana sem hann fær. Ef við einföldum þetta þá ætti hann að fá fullt af færum með leikmenn eins og Lallana, Sterling, Coutinho, Henderson o.s.frv. í kringum sig og hann ætti að skora vel af mörkum.

    Ég væri alveg til í að skipta á honum og Borini í hópnum – eiginlega líka Lambert og Balotelli, þar sem enginn þeirra virðist nægilega góður eða henta liðinu nægilega vel.

    Það er aftur á móti afar fúlt að lána hann aftur til Burnley út leiktíðina því við þurfum á honum að halda núna. Lán er kannski ekki svo slæmt því eins og segir þá er hann samningslaus í sumar og eflaust mörg lið sem hafa augstað á honum, þar á meðal Tottenham sem er sagt hafa mikinn áhuga, og þar sem ekki má semja við leikmenn annara enskra liða þá virðist Liverpool tilbúið að punga út 1-2 milljónum aukalega til að gulltryggja þjónustu hans fyrir næstu leiktíð. Við þyrftum líka alltaf að rýma fyrir honum í liðinu og losa okkur við einn af Balotelli, Lambert og Borini sem virðist ekki í myndinni eða gæti orðið erfitt að gera í janúar.

    Vinskapur Sean Dyche, þjálfara Burnley, og Brendan Rodgers gæti svo hugsanlega spilað þarna inn í. Rodgers og Liverpool tilbúið að aðstoða Dyche og Burnley við að halda sæti sínu í deildinni með því að lána hann til baka gegn því að fá ‘forgang’ á leikmanninn.

  24. Echo skrifar: “He ticks a lot of the boxes for owners Fenway Sports Group .”

    Sem er einmitt mitt vandamál. Brendan Rodgers er vonandi sama um hvað eigendurnir vilja, hann á að koma með lista yfir sína leikmenn sem hann vill, en ekki öfugt. Eigendurnir eiga svo að bakka hann upp. Rodgers á ekki að kóa með eigendunum af þeirra lista.

    Að því sögðu veit maður aldrei, kannski slær hann í gegn. Leikmannakaup heppnast í 50% tilfella, og heppnuð kaup eru svo oft huglæg.

  25. Held að Ings sé eins og staðan er í dag betri en þeir sóknarmenn sem eru fyrir hjá félaginu, fyrir utan Sturrige. Hann viriðst hafa góða tilfinningu fyrir hvar markið er þrátt fyrir að snúa baki í það og skorar mörk af öllum tegundum.

    Ætla að tækla þessi kaup ef af þeim verður, eins og öll önnur.
    Bíð hann velkominn til Liverpool og gef honum séns til að sanna sig verðugann í rauðu treyjunni.

  26. Ings vs Borini = Já takk
    Ings vs Lambert = Hví ekki
    Ings vs Sterling sem 9 = Oft
    Ings vs Origi = Trygging ef Origi þarf tíma

    Annars fékk stamparinn geðprúði, Costa, 3 leiki, staðfest…

  27. Maggi, þessar FFP reglur eru bara þarna til þess að fara “framhjá” þeim. Eigendur liða geta dælt peningum inní klúbbana framhjá þessu eins og við erum búnir að sjá með chitty. Það er bara gerður samningur um eitthvað, styrk/auglýsingar og borgað fyrir það til þess félags sem “þarf” peningin.

    Ef að BR hefur ekki mikla trú á Borini eða Balo, þá spyr ég bara, AF HVERJU var hann að kaupa þá ????? eða þessi andsk innkaupa nefnd ???? Hverjir eru svo í þessari “nefnd” einhverjir sem vilja klúbbnum allt vont og illt ? Fergie ?? Newille systur ? WTF ! !
    Svona nefnd er þvílíka ruglið að það hálfa væri nóg, að reyna að uppfæra einhverja ameríska drullu upp á enskt fótboltalið er bara BS.
    Er það ekkert skrítið að það virðist ekkert annað lið vera eftir INGIS ? eða á cel$ski kannski eftir að koma inn og klára málið á 15 mínútum ? meðan þessi “nefnd” er að hugsa málið ?
    Við höfum hingað til klúðrað öðru eins með seinagangi. Ingis er langt frá því að vera einhver leikmaður sem við þurfum núna, sést það ekki best á því að ef við kaupum hann þá ætlum við að lána hann aftur ???

    Því fyrr sem þessi ekki janúar gluggi er lokaður, því betra, því þá getur maður hætt að láta sig dreyma um eitthver snilldarkaup hjá vanhæfri nefnd sem kaupir leikmenn fyrir LFC.

  28. Vona að þetta gangi í gegn. Mér líst vel á þennan strák og eins og hefur komið fram tikkar hann í öll box fsg.

    Ánægður með fögnin hans. Hann er ekki að ærast úr gleði þó hann skori eins og Borini gerir. Hann þekkir þetta greinilega vel að koma tuðrunni í netið, horfir bara á áhorfendur “just another day at the office”.

    Finnst við þurfa svona powerhouse-aggresívan-striker með hraða og það skemmir ekki ef hann gæti potað nokkrum inn og opnað svæði fyrir Sturridge, eins og Suarez var svo iðinn við að gera. Hann hefur greinilega meira vit á þessari attacking postition, hlaupum, staðsetningum og fleirra eins og sést vel á þessu stutta video-i en Borini og Balo til samans.

    Ég er alltaf til í að gambla við litlar fjárhæðir. Ef hann springur út þá er það frábært. Ef ekki, þá töpum við litlu sem engu og gætum jafnvel selt hann frá okkur nær 10m/punda línunni.

  29. Alltaf skárri en Borini,Balo, Lambert.

    Held að Ings geti nýst ágætlega en við þurfum framherja núna, borga fyrir kappann og leyfa Burney að velja einhvern úr Borini, Balo, Lambert til að fá að láni út leiktíðina.

    Fá svo alvöru kanónu í framherjastöðuna í sumar, liðið öskrar á gæðaframherja. Ef slíkur leikmaður hefði td verið tilstaðar í Chelsea einvíginu værum við á leið í bikarúrslit.

  30. Já það er sem sagt óheimilt að kaupa leikmann og lána hann í sama glugga til úrvalsdeildarliðs. Þetta segir fréttatilkynningin frá Burnley!

Opinn þráður – Costa ákærður

West Ham á morgun