Samningsmál helsti höfuðverkur framtíðarinnar?

Tryggð Steven Gerrard við Liverpool allann sinn feril verður ekki síður það sem hans verður minnst fyrir heldur en þau verðlaun sem hann hefur unnið eða augnablikin sem hann skapaði. Hann fór í gegnum tíma þar sem félagið fór í mestu lægð sem það hefur farið í sögunni. Hann vildi vinna til verðlauna með Liverpool, hann vildi vinna lið eins og Real Madríd og Barcelona með Liverpool, ekki verða nógu góður með Liverpool til að geta spilað með þessum liðum.

Hann er sá eini af samherjum sínum sem getur sagt þetta. Af þeim sem voru nógu góðir þá fór Alonso til Real Mardríd með fyrstu vél, Mascherano til Barcelona, Suarez fór sömu leið og Torres fór í Olíubaðið hjá Chelsea. Arbeloa flækist með inn í þessa mynd og fór heim til Madríd á lítinn pening er búið var að kaupa mann í hans stöðu. Áður hafði hann séð á eftir bæði McManaman og stórvini sínum Michael Owen fara sömu leið (Real).

Það er ekkert óeðlilegt við þetta svosem en vonandi er planið til framtíðar að komast í auknum mæli hjá þessu. Liverpool á að stefna að því að ala upp leikmenn sem hafa það markmið helst að leiðarljósi að vinna lið eins og Real og Barca með Liverpool, ekki spila með þeim. Allir þessir leikmenn sem ég taldi upp (utan Suarez og Macca) tóku þátt í því sem leikmenn Liverpool að vinna bæði þessi lið sem og flest öll hin stórliðin í Evrópu.

Auðvitað hefur ýmislegt gengið á undanfarið ár og barátta við þessi lið verið nokkuð fjarlægur draumur (þar til í fyrra) en eins og staðan er núna eru líklega ansi margir leikmenn á mála hjá Liverpool sem verða sannarlega samboðnir þessu liðum sem etja jafnan kappi í 8 – liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Aðal keppikefli næstu ára hjá Liverpool verður að halda þessum mönnum og fá þá til að springa út sem leikmenn Liverpool og njóta þeirra krafta áfram eftir það.

FSG/Ayre/Rodgers eru að verða búnir með allar afsakanirnar í bókinni fyrir því að Liverpool hefur ekki blandað sér af meiri krafti í baráttuna um þá bestu á leikmannamarkaðnum. Vandræðagangurinn þar oft verið sjúklega pirrandi. Núna eru að verða komin 4 ár af uppbyggingarstefnu og liðið hefur vissulega verið á réttri leið. Sá eini sem FSG hefur selt er Suarez en á móti er hann sá eini sem alvöru eftirspurn var eftir. FSG féll því eiginlega á fyrsta prófinu en hann var vonandi sérstakt tilvik því farangurinn sem honum fylgdi var svo mikill að hann réttlætti að einhverju leiti sölu á einum besta sóknarmanni í heimi, fyrir hann fékkst líka toppverð. Eins má ekki gleyma að Suarez er 7-8 árum eldri en menn eins og Can, Sterling og Markovic.

Sala á Raheem Sterling eða álíka leikmanns á mála hjá Liverpool nú verður ekki eins auðveldlega fyrirgefin. Slúðurfréttir dagsins herma að hann hafi hafnað öðru sinni samningstilboði Liverpool og ef satt reynist eru þetta vandræðalegar fréttir fyrir félagið. Þeir eru að verða komnir með hálft ár af samningsviðræðum við 20 ára leikmann félagsins. Hvað er rætt á þessum fundum?

Samningur Sterling rennur út sumarið 2017 og tíminn er því að verða óþægilega naumur. Umboðsmenn Sterling vita alveg hvað þeir eru með í höndunum og vonandi klúðrar félagið þessu ekki. Óþarfi að fara á taugum strax en þetta er klárlega áhyggjuefni, ef þetta er svona erfitt núna hvernig verður þá að semja við hann sem 22 eða 23 ára stórstjörnu? Sterling er heldur ekki fyrsti samningurinn sem Rodgers hefur talað um sem síðan tekur svipað langan tíma að klára og það tekur vanalega fyrir félagið að ganga frá leikmannakaupum. Er seinagangur Liverpool meiri en annarra liða eða fylgjumst við bara svona náið með okkar mönnum?

Sterling er bara sá fyrsti í röðinni, það eru margir á mála hjá Liverpool núna á barnasamningum að taka út þroska með tilheyrandi mistökum og óstöðugleika. Leikmenn sem eru við það að taka næsta skref á ferlinum.

Skoðum aðeins nánar hvaða leikmenn þetta eru. Ég flokka þetta eftir huglægu mati hjá sjálfum mér. Staða á samningum tek ég frá þessari síðu, veit ekki hversu áreiðanlegt þetta er.

Ómissandi leikmenn.
Sterling (´94) – samningur til 2017. Mikilvægi hans til framtíðar þarf ekki að ræða, erum með gullmola hérna og höfum vitað það í 4-5 ár. Öll lið í Evrópu koma til með að vilja hann og banka uppá hjá umboðsmönnum hans. Það gæti haft áhrif á áhuga manns á fótbolta ef Sterling verður svo bara stórstjarna hjá öðru liði bestu árin sín í boltanum. Annað áhyggjuefni er að Sterling er uppalinn í London sem verður vonandi ekki skýring á heimþrá seinna meir.
Sakho (´90) – samningur til 2017. Hann er kannski ekki ómissandi strax en er á góðri leið þangað. 24 ára miðvörður með alla þá hæfileika og þá líkamsbyggingu sem maður vill sjá hjá Liverpool. Gætum lent í veseni ef PSG vill fá hann aftur.
Moreno (´92) – samningur til 2019. Sá líklegasti sem ég hef séð hjá Liverpool til að leysa stöðu vinstri bakvarðar síðan ég fór að fylgjast með liðinu fyrir alvöru. Við ættum að þekkja það hversu erfitt er að fá góðan vinstri bakvörð. Áhyggjuefni að hann er Spænskur enda fljótir að fá heimþrá ef gott tilboð kemur frá liðunum þar.
Flanagan (´93) – samningur til 2015. Hann er auðvitað ekki ómissandi en þarna eigum við uppalinn leikmann sem getur spilað báðar bakvarðastöðurnar. Mikilvægt að halda tengingu við heimamenn með því að fá upp heimamenn. Ég skil ekki afhverju samningurinn hans fékk að fara svona langt án endurnýjunar en hef svosem engar áhyggjur af því að hann vilji fara.
Emre Can (´94) – Óþekkt með samninginn hans, líklega 4 ár. Kaupin á honum voru líklega þjófnaður og ef hann er ennþá leikmaður Liverpool eftir 5-6 ár verður félagið komið aftur á meðal þeirra bestu. Ef ekki hefur hann því miður sterka tengingu við Bayern, Þjóðverjar segja jafnan ekki nei við þá og Can hefur nú þegar gert það einu sinni.
Henderson (´90) – samningur til 2016. Afhverju það er bara rétt rúmlega ár eftir af samningi Henderson skil ég ekki, hann er framtíðarfyrirliði Liverpool og þetta er klárlega smá áhyggjuefni. Það blikka viðvörunarljós ef félagið nær ekki að ganga frá þessum málum mikið fyrr. Einhver af þessum leikmönnum tekur Owen eða McManaman á þetta ef félagið er ekki á tánum. Það er sannarlega næg efirspurn eftir Henderson. Meðhöndlun Rodgers á honum hefur reyndar verið undarleg frá því hann kom og ætlaði að skipta á honum og Clint Dempsey. Hvar er sá kappi í dag? (btw. sá díll var jafn heimskulegur þá og hann hljómar núna).
Coutinho (´92) – samningur til 2018. Finni Coutinho taktinn og stöðugleika eins og allt stefnir í fer pressa fá umboðsmönnum hans klárlega að aukast. Þetta er strákur sem er að springa út hjá Liverpool, það er frábært en aðalatriði er að njóta krafta hans meðan hann er á hátindinum.
Jordon Ibe (´95) – Óþekkt með samninginn hans. Þetta er bara ungur Raheem Sterling, sjáum hvað verður úr honum en ég vona að hann verði samherji Sterling á næstu árum, ekki arftaki hans.
Markovic (´94) – samningur til 2019. Maður fattar ekki hvað hann er gamall en þennan leikmann er gott að eiga á samningi næstu 4 árin.
Sturridge (´89) – samningur til 2019. Sturridge er 50/50 dæmi, ef þetta er bara enn einn Harry Kewell má hann fara strax í sumar og félagið ætti að skoða það ef hann meiðist enn og aftur núna á næstu mánuðum. Haldist hann heill eigum við Sturridge á samningi fyrir hans bestu ár (vonandi).
Origi (´95) – óþekkt með samning. Augljóslega ekki ómissandi strax en höfum hann með hérna enda engu minna efni en Sterling, Ibe, Can, Markovic o.s.frv.

Liverpool er ekki að fara halda öllum þessum leikmönnum næstu ár, líklega springa þeir alls ekki allir út og vonandi fæst þá gríðarlega há upphæð fyrir þá sem fara. En þarna eru við með gríðarlega spennandi efni í alvöru lið næstu árin. Félagið er svo síður en svo hætt að kaupa leikmenn og í yngri liðunum eru leikmenn sem eru engu minni efni, bara 1-3 árum yngri. Aðalmálið næstu árin verður að ég held að halda þessum leikmönnum, mun frekar en að geta keypt stóru nöfnin sem fara á uppboð hverju sinni.

Benitez byggði liðið ekki ósvipað upp og margir af þeim sem hann keypti 20-23 ára hafa verið lykilmenn undanfarin ár. Carra, Gerrard og Riise voru allir á góðum aldri. Hann bætti við mönnum eins og Reina, Agger, Skrtel, Johnson, Lucas, Alonso, Mascherano, Kuyt, Torres o.s.frv. Allt leikmenn sem komu vel undir 25 ára og hafa verið lykilmenn í mörg ár og/eða farið á góðan pening. Rodgers er svo sjálfur á frábærum aldri til að halda utan um þetta næstu árin, vonandi er það ekki útdautt að stjórinn endist hjá sama liði í mörg mörg ár.

Samningsstaða annara leikmanna.
Það eru ekki margir eldri en 25 ára í hópnum og fæsta af þeim er hægt að flokka sem ómissandi að mínu mati. Eins eru nokkrir ungir sem gott er að eiga en alveg hægt að skipta út.

Mignolet (´88) – samningur til 2018. Hann er aðeins 26 ára og ferill hans hjá Liverpool er á krossgötum núna í sumar. Hann hefur verið að bæta sig og haldi hann því áfram á hann kannski framtíð hjá félaginu. Á móti þarf mann í staðin fyrir Jones og spurning hvort farið verði í alvöru nafn sem slær Mignolet út líka. Yrði ekki söknuður af honum í dag a.m.k. en höfum í huga að menn eins og James og Fridel fóru á svipuðum aldri með ekki ósvipað orðspor og áttu flottan feril í kjölfarið.
Lovren (´89) – samningur til 2019. Vonandi snýr hann dæminu við næst þegar hann fær séns og verður hjartað í vörninni með Sakho næstu árin. Langar að sjá hann spila í vörn sem hefur eitthvað smá cover og sjálfstraust.
Skrtel (´84) – samningur til 2016. Rodgers vill hafa leikmenn með reynslu áfram og nýr samningur fyrir Skrtel hefur þegar verið til umræðu og er líklega formsatriði ef ekki er búið að ganga frá því nú þegar.
Toure (´23) – samningur til 2015. Efa að hann sé hugsaður mörg ár til viðbótar enda 92 ára gamall blessaður. Hver veit hversu mikið hans reynsla hafði að segja utan vallar í herbúðum félagsins í geðveikinni á síðasta tímabili?
Enrique (´86) – samningur til 2016. Það fer eftir því hversu hár þessi samningur er hvort hægt verði að losna við hann. Leikjafjöldi skiptir stundum ekki máli upp á að öðlast leikreynslu. Enrique er að ég tel gott dæmi um þetta.
Johnson (´85) – samningur til 2015. Fréttir í dag segja að hann fái nýjan þriggja ára samning. Það er líklega á töluvert lægri launum en hann er með nú þegar en Johnson gæti verið fínn rotation leikmaður í 3 ár. Veit samt ekki hvort þetta er rétt hjá mér en mér finnst hann meiðast mánaðarlega.
Manquillo (´94) – samningur til 2016. Mjög skrítið að fá svo ungan leikmann á láni svo líklega er klásúla um kaup á honum með í pakkanum. Liverpool á ekki að vera stoppistöð fyrir unga leikmenn A.Madríd sem vantar leikreynslu.
Lucas (´87) – samningur til 2017. Hann er nánast ómissandi. Hann er á góðum aldri og með mikla reynslu. Eftir þetta tímabil verður hann leikreyndasti leikmaður félagsins og Rodgers vill líklega halda honum áfram.
Allen (´90) – samningur til 2017. Hræðilegt tímabil sem Allen er að eiga hjá Liverpool og ótrúlega gagnslaus leikmaður. Ekki góður varnarlega, ekki með mikla yfirferð, alltaf meiddur og getur ekkert hjálpað sóknarlega. Meira að segja á síðasta tímabili skapaði hann ekkert sóknarlega.
Lallana (´88) – samningur til 2019. Einn af fáum sem keyptir eru sem tilbúnir leikmenn. Ætti að vera flottur leikmaður hjá okkur næstu árin.
Balotelli (´90) – samningur til 2018. Hann er á síðasta séns í 987. skipti á ferlinum og hefur ekkert lært. Rodgers er ennþá að reyna fá hann til að skilja það að pressa andstæðinginn og úr því að hann hefur ekki náð því nú þegar er jafngott að afskrifa hann strax og reyna losa sig við hann. Balotelli hefur aldrei staðið undir þessu fáránlega orðspori sem fylgir honum. Hann hefur sýnt góða takta af og til en aldrei til að réttlæta þetta hype sem er í kringum hann. Hype-ið var líka að mestu til utanvallar út frá gróusögum sem flestar áttu ekki stoð í raunveruleikanum. Hjá Liverpool hefur hann ekki gefið tilefni til að búast við nokkru af honum. Ódýr Emile Heksey ef þú spyrð mig. Skemmtilegur karakter samt og ég myndi dýrka hann ef hann gæti eitthvað, en þessi panic tilraun sprakk með látum í andlitið á Rodgers og co.
Borini (´91) – samningur til 2017. Ágætur sem 3-4 kostur og aldrei fengið að sanna sig alveg hjá Liverpool. Hann fer mjög líklega í sumar. Borini líður líklega fyrir það hversu vel mannaðir kantarnir eru hjá Liverpool.
Lambert (´82) – samningur til 2016. Verður líklega leikmaður Liverpool út næsta tímabil líka. Það er hægt að telja leikina sem ég skil notkun á Lambert í byrjunarliði í vetur á einum putta.

Á láni og líklegir til að spila eitthvað meira eru leikmenn eins og Wisdom og Ilori. Þeir gætu líka farið fyrir ágætan pening og flokkast sem Moneyball leikmenn. Sama má segja um Aspas og Alberto sem kostuðu báðir sitt og spila aldrei aftur deildarleik hjá Liverpool, komst ekki í sín lið á Spáni um þessar mundir þó framherjar okkar manna í vetur hafa stundum fengið mann til að sakna Aspas. Coates er í svipuðum málum á meðan Texeira er að standa sig ágætlega og gæti farið fyrir smá pening. Hann fer aldrei í liðið hjá Liverpool enda 22 ára og spilar best mönnuðu stöðu liðsins.

En svona horfir þetta við mér. Rodgers talaði um að eftir síðasta sumar gæti félagið farið að einbeita sér að því að fá frekar góða leikmenn sem kosta mikið frekar en að kaupa magn. FSG hefur frá því þeir eignuðust félagið verið að hreinsa upp skít eftir bæði fyrri eigendur og síðan sig sjálfa. Það voru ekki góð viðskipti að eyða rúmlega 100m í leikmenn sem hentuðu Dalglish til þess eins að losa sig við hann og hans stefnu ári seinna og ráða Rodgers.

Það hefur tekið tíma en ég get tekið undir með Rodgers að núna er hann líklega komin með alvöru grunn sem hægt er að byggja á til framtíðar og ekki er eins mikil þörf á að losa sig við marga leikmenn í einu. Flestir þessara leikmanna hafa komið á hans vakt. Satt að segja hef ég aldrei séð Liverpool liðið eins efnilegt og hef meiri áhyggjur af því fyrir næstu ár að halda því sem við eigum nú þegar en því sem reynt verður að kaupa.

18 Comments

  1. Skemmtileg samantekt. Þessi hópur, plús ígildi Paul Pogba, Alexis Sanches og Petr Cech ætti að geta unnið hvaða mót sem er eftir 1-2 ár. Það vantar ekki meira upp á en það. Vonandi sjáum við a.m.k. tvo í sumar.

    Varðandi Allen, þá hentar hann best (og kannski eingöngu) í taktík sem stefnir að 70% + ball possession, death by football, og þar sem Rodgers virðist hafa bakkað alveg helling með þá stefnu sína frá því að hann kom fyrst þá… Greyið Allen, verandi skiljanleg kaup á þeim tíma, hefur svolítið verið skilinn eftir og ætti sennilega bara að halda aftur heim til Wales.

  2. Takk fyrir þessa vinnu sem þú lagðir í þetta Babú, fróðleg lesning

  3. Fór aðeins að skoða listann yfir verðmætustu leikmenn í PL á þessari síðu.
    LFC á engan leikmann yfir þá 25 verðmætustu leikmenn sem taldir eru upp þarna…

    United, Arsenal, Chealse og City eru með 5-7 hver og svo slæðist Everton inn þarna með Lukaku…

    http://www.transfermarkt.com/premier-league/marktwerte/wettbewerb/GB1/pos//detailpos//altersklasse/alle/plus/1

    Veit ekki hvernig þetta er reiknað út en sá “ódýrasti” yfir topp 25 er Santi Carzola á 26 milljón evrur…

  4. Veit ekki hvort þetta sé kaldhæðni eða prentvilla með Toure kallinn…. Fæddur á því herrans ári 1923, eins og afi heitinn 😉

  5. Sko, hann er orðinn frekar gamall og lúinn en ég get ekki talað um það enda jafnaldri hans 🙂

    Tók því létt grín, hann er hress og tekur því alveg.

  6. Pínulítið tengt þessu, þ.e.a.s. framtíðarpælingar efnilegra.

    Ég fengið sterklega á tilfinninguna að Hendo sé í öflugri “captain” þjálfun þessar vikurnar. Þjálfun sem virðist ganga vel, þar sem unnið með “fundamental” atriði. Samskiptin við Costa eru gott dæmi. Viðeigandi glíma tekin á vellinum, annars konar viðeigandi tekin utan sjónmáls, sjónarhornum, skoðunum og skýrum leiðtoga-skilaboðum út á við komið til skila eftir á í gegnum yfirlýsingar við fjölmiðla. En að sama skapi gert lítið úr sjálfum árekstrinum.

    Ég vil sjá samskonar “slútt”-þjálfun á Sterling með Sturridge sem “trainer”.

  7. Fáranlega góður pistill og akkúrat það sem ég hef verið að segja vinum og vinnufélögum, hvort sem það eru fokking United menn eða mínir bræður í Liverpool fjöllunum. Ég horfi mikið á yngri flokka leikinna og það eru margir þar MJÖG efnilegir og ég hef líka verið að benda á að Liverpool er sennilega með eitt yngsta og efnilegasta lið deildaranar, sennilega bara í Evrópu. Þannig að það eru bjartir tímar framundann. Hef rosalega mikla trú á þessu liði og Brendan Rodgers, er sammála honum um að við verðum í titilbardagagnum á næstu tímabilum og titlarnir munu koma í hús á færibandi. FA, Carling, Deildinn og Meistaradeildinn 😉

  8. Það eru nú fleiri en Allen sem ekkert erindi eiga í liðið. Borini verður líklegast seldur, Kolo fer á free transfer, Mignolet er númeri eða tvemur of lítill og Manquillo og Enrique hafa lítið sem ekkert gert við fjöldan allan af tækifærum.

    Flannó kom flottur inn í liðið á síðasta tímabili en eins og með Johnson þá eru þetta stórundanleg meiðsli sem þessir drengir verða fyrir. Lifa þeir á fransbrauði? Ættu þeir að gerast leikarar í stórslysamyndum?

    Það er þó áhyggjuefni að ekki sé búið að klára þetta með Sterling og sömu sögu er að segja um Henderson. Þetta eru leikmenn sem við komum til með að byggja liðið í kring um. Enskir strákar sem þekkja klúbbinn og kúltúrinn.
    Þó að Lucas sé búin að sanna ágæti sitt enn og aftur þá kæmi mér ekki á óvart ef að Rodgers myndi selja hann í sumar og treystir alfarið á Can – sem er leikmaður sem verður í heimsklassa ef rétt er haldið á spöðunum.

    Einnig finnst mér Markovic vera gífurlega spennandi leikmaður – vinnusamur, með frábæra tækni, hraða og áræðni.

    Varðandi leikmannakaup þá finnst mér við sárlega þurfa að kaupa gæði framyfir magn. Rodgers gerði frábærlega þegar hann gjörsamlega endurskipulagði fjármál klúbbsins og losaði sig við leikmenn sem litlu skiluðu til liðsins en voru á háum launum sbr. Maxi, Kuyt, Downing og Joe Cole. Þá vissulega megi deila um það að losna við Pepe Reina (sem er reyndar óskiljanlegt frá mínum bæjardyrum séð).
    Það sem er vandamálið er hins vegar þessir leikmenn sem við erum að kaupa sem squad players og vonast eftir því að meðal þeirra leynist eins og einn demantur sem verði lykilmaður. Leikmenn eins og Aspas, Illori, Alberto, Assaidi, Borini og Allen (sem átti nú örugglega reyndar að verða byrjunarliðsmaður). Þarna liggja einhverjar 50 milljónir punda í leikmönnum sem koma varla við sögu (að Allen undanskildum). Ef við hefðum t.d. ákveðið að keppa við hin liðin á svipuðum standard þá hefðum við án ef keypt 2 gæðaleikmenn með reynslu og borgað þeim alvöru laun. Get t.d. séð fyrir mér að leikmenn eins og Willian og Matic/Fabregas (til að nefna einhverja) hefðu bætt meiru við en allir hinir upptaldir til samans.

    Þetta er nákvæmlega vandamálið með þessa kaupstefnu klúbbsins. Menn eru alltaf að kaupa “næstum-því” frábæra leikmenn – í stað þess að kaupa bara frábæra leikmenn og gefa þá strákunum sem eru að koma upp úr unglingastarfinu (sem við erum jú að moka peningum í) sénsinn. Ef menn ætla ekki að keppa við “stóru” liðin í launum, þá held ég því miður að menn keppi ekkert við þau almennt.

  9. Góð grein að vanda. Ég held að í sjálfu sér sé hægt að bera þetta lið saman við liðið sem hrundi saman undir stjórn Rafa Benítez árið 2010, sem Roy Hodgson kom og eyðilagði síðan.

    Smá upptalning:
    Lykilmenn:
    Pepe Reina, Glen Johnson, Daniel Agger, Jamie Carragher (32 ára), Martin Skrtel, Steven Gerrard, Javier Mascherano, Lucas Leiva, Fernando Torres, Dirk Kuyt.

    Ungir og efnilegir:
    Emiliano Insúa, Stephen Darby, Martin Kelly, Daniel Ayala, Jack Robinson, Ryan Babel, Jay Spearing, Damien Plessis, Dani Pacheco, David N´Gog, Nabil El Zhar.

    Suma af þessum ungu efnilegu erum við að sjá, eins og við fengum að sjá Ryan Babel, Jay Spearing og Emiliano Insúa og Jack Robinson átti að vera framtíðarlausn í vinstri bakvörðinn.

    Vandamálið er það að allir sem eru taldir upp í greininni sem efnilegir, geta feilað, nema hugsanlega Sakho og Sterling, sem eru nú þegar komnir á háan stall sem leikmenn, fastamenn í landsliði og slíkt. Þó geta meiðsli sannarlega gert skráveifu. Sturridge er orðinn eins og Owen í stöðugum meiðslum. Can og Markovic geta bæði lent á “framfaravegg” eins og Babel og jafnvel Insúa lentu í og við þekkjum kannski ágætlega með nánast allt U-21 landsliðið okkar nema Gylfa Sig. Menn ná upp á ákveðið stig en ekki lengra – og verða þar með ekki heimsklassa leikmenn. Síðan eru fjölmargir leikmenn ekki orðnir nógu góðir fyrir aðallið Liverpool t.d. Rossiter, Ilori, Wisdom og margir fleiri. Þeir gætu allir endað eins og ungu efnilegu leikmennirnir árið 2010.

    Svo eins og Babu segir, ómögulegt að vita með þessa stráka eins og Coutinho, Origi, Moreno ofl., kæmi mér ekkert á óvart að þeir yrðu með okkar liði í 3-5 ár þangað til þeir eru orðnir nógu góðir fyrir Real Madrid og Barcelona. Þá hefst uppbyggingin upp á nýtt hjá okkur og við verðum hrikalega ánægðir með 4. sætið…

    Ég vona bara innilega, og trúi kannski einna helst að leikmenn eins og Lovren, Henderson, Lallana, mögulega Sakho, verði lykilmenn í liðinu næstu árin og ekki verði pikkað mikið í þá. Þeir séu á þeim stað sem passar fyrir þá og að þeir geti náð hvað lengst á sínum ferli með Liverpool, kannski svipað og Skrtel og Johnson hafa gert.

    Góð pæling Babú, ég held bara að því miður sé fótboltinn orðinn eins og landslið Qatar í handbolta, money talks og við erum því miður ekkert með betri stjórnendur hjá Liverpool heldur en hjá flestum öðrum liðum á svipuðu kalíberi. Kannski náum við í einn og einn titil á næstu árum, en varla meira en það – og Englandsmeistaratitillinn verður ekki í augsýn næstu árin :/

  10. Lið Benitez 2009 og 2010 var með lykilmenn á hátindi ferilsins öfugt við liðið nú þar sem flestir leikmanna liðsins ættu að vera töluvert frá þeim stað. Eins eru þeir ungu leikmenn sem eru á mála hjá Liverpool nú mikið líklegri til að skapa sér nafn í boltanum heldur en þeir unglingar sem voru á mála hjá Liverpool 2009 og 2010. Tíminn leiðir í ljós hvort þetta er rétt en ég hef meiri trú á hópnum nú heldur en Emiliano Insúa, Stephen Darby, Martin Kelly, Daniel Ayala, Jack Robinson, Ryan Babel, Jay Spearing, Damien Plessis, Dani Pacheco, David N´Gog, Nabil El Zhar. Engu að síður fúlt hversu lítið varð úr þessu hópi sem vissulega var efnilegur 2009.

    Unglingaliðið sem vann 2006 er svo annað mál og líklega væri gott að fá 2-4 upp úr akadeímunni sem ná að verða atvinnumenn á hæsta leveli, hvort sem það er hjá Liverpool eða annarsstaðar. Síðan 2006 höfum við fengið Sterling, Flanagan, Wisdom, Kelly og núna Ibe upp. Sumir af þeim voru keyptir en þetta er betri árangur en áratuginn þar á undan.

    Reyndar væri gaman að skoða byrjunarliðið hjá þeim liðum sem hafa spilað til úrslita um unglingabirkarinn sl. 20 ár og sjá hversu margir hafa náð að verða atvinnumenn. Myndum finna þar menn eins og Owen og Carragher.

  11. Miðað við þau viðtöl sem ég hef séð við eigandann þá er stefna félagsins að halda öllum sínum bestu leikmönnum með kjafti og klóm og byggja upp lið til framtíðar. Þar að leiðandi er ég ekki sammála þessari fullyrðingu þinni “Liverpool er ekki að fara halda öllum þessum leikmönnum næstu ár” þó það sé klárlega raunsætt mat hjá þér. Í það minnsta er reynt með öllum tiltækum ráðum að kaupa menn unga, bæta þá og gera helst að stórstjörnum.

    Hvort það takist er aftur á móti annað mál. Ég held t.d að Sterling muni spila hér í nokkur ár til viðbótar og sama á við um lungan af þeim leikmönnum sem voru keyptir í sumar. Það stendur og fellur á árangri en ef liðið spilar eins og það hefur verið að gera undanfarið er ég sannfærður um að við komumst í meistaradeildina og þá lýta málin allt öðru vísi út.

  12. Sælir félagar

    Þakka Babu fyrir fróðlegan og ekki síður skemmtilegan pistil. Ég hefi (eins og Babu í pistlinum) fyrst og fremst áhyggjur af samningsmálum leikmanna og kaupum á leikmönnum. Þetta er helsta áhyggjuefnið að mínu viti.

    Ef BR fær frið og mannskap þá mun hann ekki bregðast í því að koma liðinu álkeiðis í baráttu um meistaratitla. Hinsvegar hefi ég áhyggjur þegar það gengur ekki að klára samninga við menn eins og Sterling og Hendo. Það á bara ekki að vera vandamál að klára svoleiðis hluti við menn sem við(!?!) viljum afgerandi halda.

    Það sama á við um menn sem verið er að kaupa. Það á ekki að vera vandamál að kaupa dýra leikmenn ef við viljum einarðlega fá þá. Þá er einfaldlega að borga það sem þeir kosta. Það verður nefnilega aldrei hjá því komist að mjög góðir og afburðagóðir leikmenn eru mjög dýrir. Því eiga menn ekki að vera að veltast með það ef það er búið að finna menn sem eru til sölu fyrir rétta upphæð þá verður einfaldlega að borga þá upphæð fyrir þá.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  13. Ég er 100% sammála þér með áhyggjur af þeim sem sitja þessa fundi af hálfu Liverpool FC. Það er mjög skrítið hvernig þeir vinna og hvað lengi þeir eru að því, virkar mjög illa á mig. Á meðan liggja “hrægammarnir” frá Spáni og bíða bara og hlægja að okkur, vitandi að þeir munu ná í þessa leikmenn fyrr en seinna.

    Merkilegt, nú var Real Madrid að kaupa einn góðan miðjumann frá Cruzeiro í Brasilíu á tæpar 10 mill punda. Ég hefði verið til í að fá Silva til okkar á þennan pening, algjör bónusdíll.

    Vonandi getum við samið við Sterling, og það væri enn betra ef það væri hægt að setja klásúlu í samning okkar efnilegu leikmanna að þeir væru ekki falir fyrir minna en stjarnfræðilega upphæð.

  14. Ég held að vandamálið sé fyrst og fremst að Liverpool FC er staðsett í Liverpool sem er staðsett á Englandi.

  15. Eg hef lesið þessa síðu (sem er algjör snilld og þeim sem standa að henni til MIKILS sóma) daglega undanfarin ár án þess að taka þátt i umræðum. En nú get eg ekki orða bundist #8 – að skrifa united með stórum staf. Hvað er það?.??

Liverpool 0 – Bolton 0

Chelsea á morgun