Sunderland á morgun

Já, það er komið að næsta leik, mikið lifandis skelfingar ósköp er ég feginn. Ég er fyrst og fremst feginn vegna þess að þá færist umræðan yfir á leikinn sjálfan, ekki um það hvort einstaka sögusagnir hafi verið réttar um einhverja ákveðna leikmenn sem áttu kannski að hafa íhugað að bíða jafnvel eftir símtali frá afabróður umboðsmanns á vegum dótturfyrirtækis sem vinnur teikningar fyrir nýjan völl hjá Liverpool. Umræðan á netinu er orðin svo (að mínum dómi) yfirgengilega leiðinleg, neikvæð og sýkt að ég er hættur að nenna að skoða vefsíður tileinkaðar mínu heittelskaða liði. Undanfarið hefur margt breyst og akkúrat núna hlakkar maður bara til næsta leiks, ekkert meira og ekkert minna. Sá tími sem gaman var að velta sér upp úr Transfer Speculations og slíku, jahh vonandi er hann ekki alveg liðinn, en hann er allavega ekki akkúrat núna hjá mér. Ég ætla að láta frekara röfl um leikmannagluggann, leikmannakaup og leikmannasölu, bíða betri tíma og nota annan vettvang í það (þ.e.a.s. ekki upphitun).

En að máli málanna, leiknum á morgun. Sunderland eru búnir að vera í algjörum jó jó gír á þessu tímabili. Standa í rauninni betur en stundum áður, eru í 14 sætinu, en það er ákaflega stutt á milli feigs og ófeigs þegar kemur að deildinni, sér í lagi það sem snýr að miðbiki hennar og niður í botnsætin. Sunderland eru með 20 stig eftir þessa fyrstu 20 leiki, en þeir eru engu að síður aðeins 3 stigum fyrir ofan Burnley sem sitja í 19 og næst síðasta sætinu. Okkar menn sitja 6 sætum ofar og með 9 stigum meira. Það verður því ansi hressilega mikið undir á morgun, bæði lið þurfa nauðsynlega á 3 stigum að halda því þau myndu setja Sunderland í fína stöðu, en þau myndu líka henda okkar mönnum enn harðar inn í baráttuna um þetta blessaða fjórða sæti. Auðvitað eru ennþá 7 stig í það sæti og 8 stig í þriðja sætið. Liðin sem sitja í þessum tveim sætum eiga einmitt innbyrðis viðureign. West Ham á svo útileik gegn Swansea, en aðeins 3 stig skilja þau lið að í 7 og 9 sætinu og svo á Arsenal ekkert létt verk fyrir höndum gegn Stoke. Líklegast má segja að Spurs eigi hvað léttasta verkið fyrir höndum sér, en þeir eiga Palace á útivelli. En við vitum reyndar alveg að svoleiðis leikir eru ekki beint gefnir fyrirfram.

Við erum því í bullandi séns áfram og það er mikið eftir af tímabilinu. Það er algjör óþarfi að láta eins og það sé bara búið núna og byrja bara að horfa til næsta sumar og uppbyggingar framundan eftir að Gerrard heldur á brott. Nei takk, það er mikið eftir og það er með hreinum ólíkindum að ef úrslitin færu á ákveðinn hátt í nokkrum leikjum þessa helgina, þá værum við 4 stigum frá fjórða sætinu, stigi á eftir Arsenal og tveimur stigum frá Spurs. Það er því erfitt að segja að þetta sé búið spil, því þótt þetta fari ekki allt nákvæmlega eins og við óskum, þá segir þetta okkur bara það hversu mikið getur breyst á einni leikhelgi. Þegar svona mörg lið eru svona nálægt hverju öðru í stigum, þá eru bara svo margir innbyrðisleikir sem gera það að verkum að þessi lið eru að tapa stigum.

En auðvitað byggist þetta fyrst og fremst á okkar mönnum, þeir þurfa að gera sitt og þar hafa menn ekki alltaf verið að standa sína pligt. Maður hefur séð ýmis jákvæð teikn á lofti, en það hjálpar bara akkúrat ekkert að missa svo menn eins og Lallana út í þetta langan tíma, bara akkúrat ekki neitt. Við erum ennþá með alltof marga leikmenn sem eru að spila undir getu, sumir langt undir getu. Það þýðir samt ekkert að hengja haus, menn verða að halda áfram að koma sér í gír, í rauninni allir í kringum klúbbinn. Það hefur verið ákveðið slen yfir liðinu, slen yfir stuðningsmönnum og að manni virðist, slen yfir stjórnendum. Það er komið nýtt ár og það þýðir að það eru ný tækifæri. Þetta Sunderland lið sem við erum að fara að mæta á morgun er ekkert lið sem kemur inn á völlinn með hvítan fána og leggst á jörðina og bíður eftir að einhver áhugasamur valtri yfir það. Nei, þetta er baráttulið og berst hart fyrir hverju einu og einasta freaking stigi sem í boði er. Við sáum það heldur betur á Anfield í byrjun desember. Þá tókst okkur að halda hreinu, aldrei þessu vant, en ekki tókst okkur að skora og því töpuðust þar 2 stig. Það má bara ekki gerast á morgun.

Þetta Sunderland lið er alveg ágætlega mannað. Seb Coates verður ekki með á morgun af augljósum ástæðum, en hann ku hafa spilað bara nokkuð vel þegar hann hefur verið í liðinu. Við þekkjum ManYoo mennina vel í vörninni og á miðjunni eru þeir með nokkra nagla sem kunna alveg að berjast. Adam Johnson er svo líklegast hættulegasta vopnið þeirra, enda flinkur með boltann og svo frammi eru þeir sprækir Wickham og Fletcher (Altitore er líka framherji hjá þeim, aðeins minna sprækur samt). En eins og svo oft áður, þá snýst þessi leikur nánast eingöngu um það hvernig okkar menn mæta til leiks, því ef allt væri eðlilegt, þá ætti að vera talsverður getumunur á þessum tveim liðum. En þannig virkar þetta bara ekki, þú þarft að mæta til leiks og þú þarft að hafa áhuga á því sem þú ert að gera og kannski ekki síður, einbeitningu til að klára það sem þú átt að gera. Það hefur því miður alltof oft verið í skelfilegu horfi, alls staðar á vellinum.

Hvað okkar menn varðar, þá er víst lítil spurning um það hver stendur þar á milli stanganna. Brad Jones er meiddur og því heldur Mignolet sæti sínu. Hann hefur fengið mikla og verðskuldaða gagnrýni í vetur, en ég var þó á því að í síðasta leik voru heilmikil batamerki á honum. Hann var meira að segja að láta í sér heyra. Þetta mark sem hann fékk á sig var auðvitað ekki ideal, en svo sannarlega hefði átt að dæma á trukkinn hjá Wimbledon þar. Þriggja miðvarða kerfið verður áfram og væntanlega með þá sömu þrjá og hafa spilað undanfarið, eða þá Can, Skrtel og Sakho. Kolo er á leið í Afríkumótið og því sé ég ekki Can vera að fara neitt úr þessari stöðu í bráð. Ég reikna með Spánverjunum tveim í wing back stöðunum, Hendo og Lucas inni á miðjunni og svo þeir Gerrard og Coutinho sitthvorum megin við Raheem. Eina spurningin í mínum huga var sú hvort Markovic kæmi inn í liðið í stað annars Spánverjans, en ég ætla að tippa á þetta svona. Lallana, Allen, Jones, Johnson, Sturridge og Flanagan eru allir meiddir.

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Manquillo – Henderson – Lucas – Moreno

Gerrard – Sterling – Coutinho

Reyndar vil ég fara að gefa Balotelli séns aftur, þ.e. að byrja leik og athuga hvort það sé ekki hægt að grafa niður á þessa hæfileika sem leynast í honum. Þeir hljóta að vera þarna einhvers staðar og við verðum hreinlega að fá að njóta smá af þeim. En ég reikna ekki með honum í þennan leik. Ef ég ætti að segja alveg eins og er, þá væri ég alveg til í að hvíla Henderson framan af leik og setja Raheem úr framherjastöðunni og tékka aðeins á Balo. Hann bara getur ekki verið svona slakur, það er líffræðilega ómögulegt.

Hvað um það, ég ætla bara að halda áfram að vera smá bjartsýnn og ég er bara viss um að við hefnum fyrir tapað stig á Anfield um daginn með því að hirða öll núna og í þokkabót erum við að fara að eiga hörkugóðan leik. Ég ætla að segja að Simon haldi hreinu á sínum gamla heimavelli og að við hendum inn þremur mörkum á þá. (Töflurnar sem ég tek fást í Lyfju). Eigum við ekki að segja að gamli hamri einu inn úr víti, young Raheem setji eitt og að Coutinho hitti nú rammann einu sinni á þessu ári. Hápressa, gleði, mörk og flahsback í það sem var að gerast fyrir ári síðan. Ég veit ég fer ekki fram á mikið.

31 Comments

 1. þakka þér fyrir þessa fínustu upphitun ég væri persónulega til í það að sjá balo detta þarna inn eins og þú talaðir um. það hefur farið virkilega í taugarnar á mér að sjá alla þessa lista og allar þessar fréttir um hann eins og hann hafi verið lélegustu kaup englands undanfarin 5 ár. ég ætla að vera djarfur og spá því að hann setji balotelli uppá topp og sterling fari í sitt gamla góða hlutverk og þeir skori sitthvort markið í 2-0 sigri. KOMA SVO !!

 2. Takk fyrir þessa gleðipilluupphitun Ssteinn, gaman að þessu. Ég á þó í besta falli von á jafntefli úr þessum leik. Sama hverjir spila. Sorrý að vera partýpooper :/

 3. Er dr*llusmeykur við þennan leik, einfaldlega vegna þess að okkar mönnum hefur gengið bölvanlega gegn svona liðum sem leggja mest upp úr baráttu og vinnusemi á kostnað fótboltans. Held að Sunderland passi ágætlega við þá lýsingu. Sé fyrir mér erfitt hádegi á morgun, spái 1-1, Sunderland kemst yfir eftir varnar/markmannsmistök (hvað annað, enginn sundbolti í þetta sinn), en SG jafnar úr víti. Held að menn verði sáttur við stigið í baráttuleik.

 4. Alltaf gaman að lesa upphitanir…ég er viss um (tjékkaði á töflunum) að Liverpool kokki upp eitthvað sniðugt í þessum leik og Borini af öllum mönnum skorar!!! 2-1 sigur

 5. Sælir félagar

  Takk fyrir hressilega upphitun Ssteinn og ekki veitir af. Ég ætla að taka þátt í gleðipilluátinu og spá okkur sigri, Þar mun varnarten . . . nei afsakið sóknartengiliðurinn Gerrard setja fyrsta úr víti, síðan setur Balo 2 og að lokum Coutinho 1. Mðrk Sunderland verða 2 sjálfsmörk og ætli Brendan skori þau ekki bæði. Nei ég segi svona, bara djók.

  Það er nú þannig

  YNWA

 6. Spái okkur sigri 0-4

  Án gríns.

  Eitthvað sem hvíslar þessu að mér. … mörkin koma frá Gerrard og Balotelli splæsir í þrennu.

 7. Mignolet

  Can – Skrtel – Sakho

  Manquillo – Henderson – Lucas – Moreno

  – Sterling – Coutinho

  Borini

  Ég myndi vilja hafa liðið svona. Mér fannst Liverpool spila stórvel þegar Gerrard var fyrir utan liðið gegn Swansea og þó hann hafi skorað 4 síðust mörk liðsins þa má ekki gleyma því að mörkin gegn Leicester voru úr vítaspyrnu og hin tvö voru gegn Wimbledon sem er fjögurra deildarlið og var sá leikur ekki betri en svo að Wimbledon hefði alveg eins getað unnið. Ég held að með því að setja Sterling niður í sóknartengilið og setjum Borini fremstan þá viðhaldið mikillri yfirferð og hraða án þess að missa mikið af gæðum á vellinum – Því sterling er klárlega með gæði á par við Lallana og tala nú ekki um hraða. -Það er líka möguleiki að setja Balotelli fremstan en ég valdi Borini vegna þess að hann er bæði rosalega duglegur og berst eins og ljón inni á vellinum.

 8. Eitt af því sem er jákvætt við að vera neðarlega í deildinni eru fleiri innbyrðis viðureignir liða fyrir ofan okkur. Líst vel á þetta byrjunarlið, snöggir vængir og snöggur framherji mataðir af coutinho og gerrard. 1-3

 9. Finnst nú bara ekkert upp a ayre að klaga i þetta skiptið finnst 20 m andskotans nogu hatt fyrir einhvern sem situr bara a bekknum. Enda er það nú sennilega ekki astaeðan fyrst hann er lanaður ut timabilið og inter borgar svo 15 m

 10. Góður draumur maður 🙂 Vonandi breytist hann ekki í martröð á morgun !

 11. Gagnmerk grein sem #14 vísar á. MoneyTalks þ.e. ef þú ert með fimmta dýrasta leikmannahópinn í PL getur þú reiknað með því að vera í fimmta sæti o.s.frv.

  Kemur auðvitað ekki á óvart en breytingin á PL er áhugaverð. Það var helvítið hann Roman Abramovich sem gerði út um möguleika Liverpool á titlinum þegar hann breytti jafnvæginu árið 2003 þegar hann kaupir Chelsea og fjárausturinn hefst. Eftir 2003 er Money Talks fylgnin 100%.

  Þá er líka áhugavert að PL endurspeglar sömu þróun og gildir um vestræn hagkerfi á sama tíma. Bili á milli ríkra og fátækra eykst stöðugt. Liverpool heyrir líklega í því samhengi til hinni efri millistétt sem er hart leikinn eins og allir vita. Tomkins varpar líka ljósi á hvað sumar fabúlasjónirnar um leikmannakaup, eins og fóru fram hér í athugasemdum við síðasta pistli (Babu), eru barnalegar þegar stóra myndin er skoðuð.

  Maður verður vitanlega hálf dapur í bragði við þennan lestur. Fimmta sætið og Evrópudeildin er sem sagt eitthvað sem maður þarf að venja sig við. FFP mun ekki jafna út möguleika liðanna heldur, a.m.k. í nánustu framtíð, auka bilið á milli þeirra sem voru ríkir þegar þær tóku gildi og þeirra sem lakar stóðu.

  Ljósið í myrkrinu er raunar Atletico Madrid sem er, með frábærri strategíu, óðum að nálgast Barca og Real. Þetta er því hægt og nú er bara að vona að Brendan og FSG verði undantekningin sem sannar regluna.

 12. Staðfest byrjunarlið:
  Mignolet
  Can—-Skrtel—-Sakho
  Henderson————Moreno
  —–Lucas—–Gerrard—-
  Markovic———-Coutinho
  ———-BORINI——–

 13. Borini í byrjunarliðinu!!!!!!!

  Maðurinn getur ekki neitt, endurtek ekki ekki ekki ekki neitt. Frekar vildi ég að við spiluðum með 10 leikmenn en hann inná. Hann hlýtur að vera með eh myrkt leyndarmál um BR sem hann hótar að uppljóstra fái hann ekki að spila.
  P.s. Ef hann skorar þrennu eða verður maður leiksins þá er þessi færsla ekki eftir mig….

  YNWA

 14. Steve Gerrard Gerrard,
  impossible with Lucas.
  They’ll slow the game down down down.
  Gerrard and Lucas!

  Og með Borini á toppnum hlýtur botninum að vera náð.

 15. Sæl öll,
  Missti næstum áhugann á að horfa á leikinn þegar ég sjá að Borini er í startinu. Vonandi treður hann sokk upp í mann.

 16. ég á bara ekki til orð! Borini???

  Hefur hann átt einn sæmilegan leik með Liverpool síðasta árið, hvað þá góðan?!

  Veit ekki hvað BR er að hugsa, en það eins gott að þeir vinna þennan leik því stuðningsmenn og breska pressan munu éta hann lifandi ef þeir tapa þessum leik.

  BR endilega stingdu skítugum sokki upp í trantinn á mér og Borini, megir þú eiga leik lífs þíns á eftir! Koma svo LFC!!!!!!!!!!!

 17. Ekki gleyma að Borini þekkir varnarmenn Sunderland vel enda var hann þar á láni

 18. Hvað gera menn án wiziwig?
  Er enginn séns á bloodzeed linkunum?

 19. Borini settur í byrjunarliðið á móti liðinu sem vildi kaupa hann síðasta sumar.
  Annars óttast ég Gerrard og Lucas meira.

  Þetta verður eitthvað.

 20. Hefur enginn annar en ég áhyggjur af rottuni innan herbúða Liverpool. Nákvæmlega rétt byrjunarlið lekur nánast undantekningalaust út deginum áður.

 21. Borini á eftir að detta í gang…annars hef ég áhyggjur af leik WBA og Hull á eftir, þar gæti maður misst áhugann á fótbolta fyrir fullt og allt.

 22. Ég er sammála Hafliða. Hef miklu meiri áhyggjur af Lucas-Gerrard miðjunni en nokkurn tímann Borini frammi. Þessi miðja er alltof hæg fyrir EPL og er ávísun á að keyrt verði yfir hana af öllum liðum í deildinni.

Vangaveltur um leikkerfi og leikmenn

Liðið gegn Sunderland