AFC Wimbledon 1 – Liverpool 2

Bananahýði afstýrt, en bara rétt svo!

Byrjum á liðinu…

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Manquillo – Henderson – Lucas – Markovic

Gerrard – Coutinho
Lambert

Bekkur: Ward, Enrique, Toure, Moreno, Borini, Balotelli, Williams

Fyrstu 25 mínúturnar voru bara fínar, úrvalsdeildarliðið í cruise control, 1-0 yfir eftir 12 mínútur þegar Steven Gerrard skallaði inn góðu fyrirgjöfina sem Manquillo átti í þessum leik, 77 – 23 posession og við í góðum málum er það ekki?

Nei. Fremstu þrír hættu að pressa og miðjan okkar, Hendo og Lucas varð fullkomlega ósýnileg og sást varla aftur í leiknum. AkinfenwaAFC Wimbledon dúndruðu boltanum upp í loftið, músarhjörtun birtust í leikmönnum okkar og auðvitað var það í handritinu að Simon Mignolet safnaði í úrklippubókina sína fyrir veturinn yfir “Golden gaffe”, stóru mennirnir okkar björguðu honum ekki frekar en fyrri daginn og Eðal Snillingurinn og Liverpool aðdáandinn Akinfenwa jafnaði verðskuldað fyrir heimamenn. Er ekki málið að fá hann bara til Íslands í sumar einhverjir!?!?!?

Aftur að okkar leik. 1-1 í hálfleik og byrjun seinni hálfleiks var áfram sú sama. Heimamenn dúndruðu fram, vörnin okkar á mjög erfitt með þá leikaðferð, sérstaklega með ósýnilega miðjuna fyrir framan sig og mómentið var með þeim.

En eftir rúmlega klukkutíma leik kom sigurmarkið og fjórða markið frá Gerrard í röð…og hann er nú langmarkahæstur hjá klúbbnum í vetur með 7 mörk.

Eftir þetta fengum við fullt af færum til að klára leikinn en Lambert, Coutinho og Markovic fóru illa með góð færi. Heimamenn náðu alltaf að skapa hættu í sínum set piece atriðum og það var bara fínt að heyra flautuna óma þarna í lokin og staðfesta það að við erum komnir áfram og munum vonandi sjá Heskey, Gudjohnsen og Spearing í Bolton búningnum á Anfield helgina 24. og 25.janúar.

Það jákvæða

Þetta er enski bikarinn og hann er engum líkur…og við komumst áfram. Það er alltaf það sem maður vill sjá í hverri viðureign, ekkert endilega mikið annað. Við misstum algerlega allt úr liðinu í góðan hálftíma en sýndum fínan karakter síðasta hálftímann og áttum auðvitað að setja þriðja markið.

Frammistöður leikmanna sem hægt er að telja jákvæðar eru að mínu mati bara Sakho, Markovic og langbesti maður liðsins í dag, Captain Fantastic – Stevie G.

Stevie_WimbledonBikarúrslitaleikurinn á Wembley er á 35 ára afmælisdaginn hans og hann vill lyfta silfri 30.maí, það er alveg ljóst. Alan Shearer og Danny Murphy voru lýsendur kvöldsins hjá mér og þeir sendu klúbbnum býsna hraustar kveðjur fyrir leik, í hálfleik og eftir leik með að hafa ekki gert nóg til að halda honum í okkar herbúðum og það var fyrsta spurningin sem Brendan fékk í viðtalinu. Við eigum eftir að podcasta um þetta og allt það, en í kvöld leit ekki gáfulega út að við séum að gefa hann eftir!

Það neikvæða

Að því gefnu að úrslit skipta ekki máli kannski þá skiptir hins vegar frammistaða líka einhverju.

Og hjá mörgum okkar leikmanna eiga þeir að horfa á video af leiknum og slá sig aðeins utanundir. Það er okkur ljóst að Mignolet á mjög erfitt, vissulega mátti flauta brot í markinu en tæknin hans í úthlaupum er skelfingin hrein. Skrtel og Can lentu í miklum vanda með sína menn og sérstaklega var ég fúll að sjá hann Skrtel minn láta draga sig frá sínum manni út í eitt.

Ég elska Lucas Leiva alveg, hef verið varnarmaður hans. En síðustu tvær frammistöður hafa verið svo langt frá hans standard að ég bara get ekki varið þær. Hann tapaði minnst helming návígja sinna og átti mjög erfitt sendingarlega, var étinn í loftinu. Ég veit ekki hvort verið er að setja Emre Can rólega inn í stöðu en #21 verður að gera betur en í kvöld. Og sama má segja um Hendo, nú var hann inni á miðsvæðinu og komst aldrei í takt. Vissulega leitaði Gerrard oft til baka eftir boltanum en sama er mér…ef Hendo ætlar að verða miðjumaður-INN þarf hann meira.

Manquillo átti flotta sendingu á Gerrard en eftir það áfram sami vandi og í vetur, vondur sendingarlega og pínu villtur varnarlega, en vissulega mikill íþróttamaður og duglegur…en það er ekki nóg fyrir mig.

Talandi um það þá hef ég ekki talið Rickie Lambert flop í vetur þar sem ég hafði ekki stórar væntingar. En í kvöld var hann flopp. Hann er hægur vissulega en nú gat hann lítið haldið boltanum og tók mjög mikið af röngum sendingaákvörðunum. Mario kom inná í 15 mínútur og sýndi þrisvar sinnum meira en Rickie fram að því. Coutinho fílar örugglega ekki svona aðstæður, síðasta hálftímann var vissulega pínu meiri list í fótunum hans en svona leiki vill ég sjá gæðamann eins og hann klára!

Mest af öllu hræðist ég músarhjörtun sem birtust á þessum 30 mínútna kafla þar sem við vorum reknir í vörn af D-deildarliði og síðan þetta hryllilega afbrigði af set-piece varnarleik. Þar er sko ekki bara Mignolet að gera upp á hnakka, stóru mennirnir okkar virðast lítið ráða við að hjálpa til þar!

Samantekt

Komnir áfram í 32ja liða úrslit og fínn dráttur þar á pappírnum, sem var aðalmálið.

Sigur á WimbledonAllar fyrirsagnir morgundagsins og fram að næsta leik verða…hvers vegna er Liverpool FC ekki að gera allt til að halda Steven Gerrard?

Let’s face it…það er eðlileg spurning á svona kvöldi!

52 Comments

  1. Við fórum áfram en gerðum ekkert aukalega. Slök frammistaða gegn lélegu liðið

  2. Komnir áfram. Annað skiptir ekki máli.
    Þetta var bara annars eins og við var að búast miðað við sögu þessara liða. Wimbledon alltaf að fara að berjast eins og ljón og við stuðningsmenn að búast við auðveldum sigri.

  3. Sælir félagar

    Ásættanleg niðurstaða en ekki vel leikið hjá okkar mönnum. Andstæðingurinn á heiður skilinn fyrir baráttu og að skapa Liverpool liðinu veruleg vandræði á stundum. Framherji þeirra er svo kapítuli utaf fyrir sig en ég sá ekki hvort hann fékk bolinn hans Gerrards. Það verður gaman að fá Bolton í heimsókn á Anfield með tveimur fyrrverandi L’pool mönnum og einum Íslendingi. Elsta framlína boltans mætir okkar mönnum ef ég skil þetta rétt.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  4. Lélegur leikur en ég var ánægður með baráttuna, sérstaklega í seinni-hálfleik. Sakho klárlega maður leiksins, alvöru stríðsmaður. Leiðinlegt hvað Markovich er mikill klaufi upp við markið, vantar eitthvað uppá sjálfstraustið hjá honum. Gaman að sjá Gerrard í gömlu stöðunni sinni, glitti í gamla takta, djöfulli á maður eftir að sakna hans.

  5. Skrautlegt, ekta bikarleikur! Wimbledon menn börðust eins og ljón og höfðu merkilegt nokk mestmegnis orku í 90 mínútur. Fjármálastjórinn þeirra líklega fúlastur allra yfir að hafa ekki náð jafntefli.

    Ekki að tímabilið hjá LFC sé búið að vera neinn dans á rósum, en vandræðin væru enn meiri án Steven Gerrard, það er alveg ljóst. Þótt það sé farið að síga á síðari hlutann hjá honum, er hann líklega ennþá besti leikmaður liðsins ásamt Sturridge (og Sterling og fleiri gætu hæglega verið komnir í svipaðan flokk innan 1-3 ára). Það þarf augljóslega að spandera í einhverja fullmótaða kanónu á miðjuna í sumar.

  6. Ekkert að breytast þessi spilamennska okkar fyrir utan Swansea og Arsenal leikina. Finnst bara rugl að afsaka þessa frammistöðu. Wimbledon er lið í 4.deildinni… Lítur ekkert út fyrir að spilamennsan muni batna á næstunni.
    Maður spyr sig hvar gæðin í þessu liði séu? Jújú, við eigum nokkra efnilega, en hvar eru reyndu klassamennirnir sem við þurfum á að halda til að kenna þeim? Gerrard fer bráðum og hvað þá? Held að það sé hætta á að félagið lendi í erfiðum vítahring þegar hann fer. Engin stór nöfn verða eftir í liðinu til að laða að heimsklassaleikmenn, þá fer árangurinn að síga o.s.frv. Ég vona þó ekki en ég er bara mjög svartsýnn eftir það sem á hefur gengið á þessu tímabili.

  7. Svona er þessi frábæra bikarkeppni á Englandi. FA CUP er sögufræg fyrir hetjulega baráttu minni liða og er full af óvæntum sigrum.

    Þetta snýst bara um að komast áfram 10-0 , 1-0 eða 2-1 skilar þér sömu niðurstöðu. Liverpool voru kannski full kærulausir í restina að bæta ekki við nokkrum mörkum og endilega klára þetta en það verður ekki tekið af heimamönum að þeir gáfu allt í leikinn.

    Þeir sem hafa verið að tala um að Gerrard eigi að detta úr okkar liði og nýtist best á bekknum ættu að horfa á svona leik. Já það er byrjað að hægjast á honum en hann er með karakter sem er ekki hægt að kenna sem smitar út frá sér.

    Gerrard var besti maður vallarins og var ástæðan fyrir því að við fórum áfram.
    Einnig fannst mér Markovitch sprækur og var einn af fáum sem voru áræðnir og keyrði á heimamenn.

    E.Can var skelfilegur eins voru Manquillo, Lambert , Mignolet og Lucas að keppa við hann um að vera lélegasti leikmaður Liverpool í leiknum.

    Liðið komið áfram. Eiður og Heskey næstir á svæðið og vona ég að Liverpool klári þann leik og komi sér í 16.liða úrslit(svo 8, 4 og í úrslitaleikinn þar sem Gerrard skorar sigurmark á afmælisdaginn gegn Man utd)

  8. Það verður gaman að fá Bolton með Heskey og Eið Smára á Anfield í næstu umferð. Sigur var það eina sem skipti máli í þessum leik og það hafðist en eins og við var að búast þá seldi Wimbledon sig dýrt. Ekki gleyma því að það tók Man Utd. 64 mín að skora mark gegn Yeovil og Man City þurfti uppbótartíma gegn Sheff Wed á heimavelli. Þetta er enski bikarinn í hnotskurn.

    Þessi leikur að baki og næsta verkefni erfiður útileikur gegn Sunderland um næstu helgi.

  9. Bjóst aldrei við auðveldum sigri. Vörnin tæp eins og venjulega en fín barátta og Mignolet stóð sig vel í restina.

    Flott að vera komnir áfram og gaman að fá Bolton í heimsókn í næstu umferð.

    Þessi leikur hefði þó auðveldlega getað farið 5-2 eða 6-3 en við erum með alveg skelflega framherja (eins og allir vita) og því fór sem fór.

    Steven Gerrard sýnir enn og aftur að hann er ennþá okkar lang- lang- langbesti leikmaður með lang- lang- langmestu gæðin.

    Ef það var stórt áfall þegar við misstum frá okkur Suarez, þá mun það blikna í samanburði við það þegar Gerrard mun fara í sumar. Fjandinn hvað ég kvíði þeim degi er leiðtoginn okkar hverfur á braut.

    Áfram Liverpool!

  10. Ekkert sérstök spilamennska hjá okkar mönnum.

    Skil bara ekki hvernig í ósköpunum Rickie Lambert fékk að vera inná í 78 mínútur – það var bara ekkert að frétta af honum.

    Annars var þetta mark sem Wimbledon skoraði eins ólögleg og þau verða.

    En sigur er sigur og kemur okkur áfram. Næsti leikur takk!

  11. Fer ekki að verða fullreynt með Lambert? Get svo svarið að Balo og Borini eru báðir betri kostur en hann. En fínn sigur á móti lítilmagnanum, ekki mikill afgangur þó.

  12. Hversu sorglegt er það að 140 kg rumur er hættulegri sóknarmaður á móti 3 úrvalsdeildar varnarmönnum en Lambert á móti varnaönnum í 4. deild. Hræðilegur leikur fyrir utan Gerrard sem var lang bestur af Liverpool mönnum. Menn þurfa að rífa upp veskið þegar hann hættir í sumar það er alveg ljóst.

  13. Þessir leikir géta verið þeir erfiðustu.
    Glaður að komast áfram og annað skiptir ekki máli.

    YNWA

  14. Það er náttúrulega númer 1,2,3 og 17 að komast bara áfram, hvernig sem það gerist skiptir akkurat engu máli í svona bikarleikjum.
    Gerrard að sýna enn og aftur hvað hann er stór hluti af þessu liði, hann hefur eitthvað auka sem er hvorki hægt að kenna né læra. Hans verður sárt saknað.
    Lambert var náttúrulega gjöramlega glórulaust lélegur í dag og varla snerti boltann í fyrri hálfleik.
    Ég hef nú ekki verið mikill talsmaður Mignolet hingað til en að gagnrýna hann eftir þennan leik er bara fáfræði, Í markinu var klárlega brotið á honum, hann varði virkilega vel í fyrrihálfleik,skot úr teignum af ekkert svo löngu færi og svo gerði hann mjög vel í restina þegar hann henti sér með lappirnar á undan eftir fáránlegan skalla frá Toure.

    Sigur er sigur og ég tek þeim öllum fegins hendi þessa dagana!

  15. [img]http://www.squawka.com/news/wp-content/uploads/2014/09/4458804.jpg[/img]

    Þurfum að losa okkur við þennan mann asap.

  16. Skil ekki hvað Mignolet gerði slæmt í þessum leik til að uppskera comment eins og hjá númer #16 og 4 í einkunn frá .net. Það var klárlega brotið á honum og það var ekki bara einhver í bakinu á honum með hendurnar á hnakkanum að trufla hann. Gæjin er enginn smá smíði og ég get ekki ímyndað mér að hann hafi í alvöru bara ekki einu sinni snert boltan. Hann greip vel inn í nokkra og er farinn að virka öruggari í loftinu. Auk þess að verja nokkrum sinnum mjög vel.

    Annars góð barátta í Wimbledon liðinu einu og við var að búast. Gott að komast áfram. Flott að fá leik á Anfield en hefði viljað fá stórleik í næstu umferð. (Til dæmis: Chelsea – United eða Arsenal – City) en það má ekki biðja um of mikið 🙂

    Gerrard MOM. Geggjuð aukaspyrna. Vonandi verða þær mikið fleirri þegar líða tekur á sumarið.

    YNWA

  17. Skelfileg frammistaða vægast sagt. Eini leikmaðurinn sem gat eitthvað var GERRARD, og hann er að fara. Liverpool vinnur aldrei þennan bikar, það er bara raunveruleikinn í dag, við drullumst kannski til að vinna bolton, kannski !
    Þvílíkt miðlungslið sem við erum að verða, rétt hjá GERRARD að stökkva frá borði, og hætta að bera þetta lið á herðum sér. Metnaður hamborgararassana frá usa er að bjóða GERRARD ekki samning lífs síns og halda honum áfram síðan sem þjálfara og stjóra segir bara enn og aftur hvað þeir hafa lítið vit á þessari “eign” sem þeir keyptu.

    Þú kaupir kannski klassa leikmenn til Liverpool, en þú kaupir ekki Scouser í svona heimsklassa, þú býrð þá til, og notar þá til æviloka !

  18. Skýrslan segir það sem þarf um leikinn, sigur er það eina sem skiptir máli og fínt að gera það án þess að þurfa aukaleik til. Rosalega þreytandi að horfa á leik liðsins sem getur dottið niður á hvaða plan sem er, núna sama plan og 4.deildar lið Wimbledon lengi vel.

    Frammistöður leikmanna er svo annað og líklega öllum ljóst núna að þetta lið er með of marga farþega innanborðs.

    Það eru ekki bara mistökin sem skapa mörk hjá Mignolet sem gera hann að farþega hjá okkur heldur nánast allt við hans leik. Hann er ótrúlega svifaseinn, hann er í engu sync-i við vörnina virðist vera og ver allt of lítið aukalega. Hann kom alls ekki vel út í þessu úthlaupi í marki Wimbledon í dag en honum til varnar voru 4.deildar reglur hjá Jon Moss dómara í dag.

    Uppleggið fyrir þennan leik var þrír miðverðir, varnarbakvörðurinn Manquillo ásamt Markovic með mjög mikla varnarskyldu. Ofan á það var Lucas á miðjunni og Lambert frammi. Er þetta ekki aðeins of gott af varfærninni á móti þessu liði? Afar lítill hraði í þessu byrjunarliði.

    Þetta var að fúnkera ágætlega í byrjun en um leið og Ardley stjóri Wimbeldon og hans menn voru búnir að átta sig fóru þeir að skapa okkar mönnum vandræði og jöfnuðu síst gegn gangi leiksins. Lucas og Henderson voru frekar slakir í kvöld og þá sérstaklega Barsilíumaðurinn. Liðið virkaði reyndar allt úr sync-i. Coutinho og Gerrard eru ekki miklir hlaupagikkir en þeir sýndu báðir sín gæði gegn þessu líði í dag.

    Gerrard var ekkert að sanna neitt nýtt fyrir manni í kvöld og var að spila nákvæmlega þá stöðu og einmitt í eins leik og maður vill sjá hann gera næstu árin hjá Liverpool. Fyrra markið hjá honum var flott og svo er alltaf gaman þegar hann klínir þessum aukaspyrnum inn. Hann skar úr um þennan leik með flottum mörkum þó heilt yfir hafi mér ekki fundist sóknartríó Liverpool merkilegt síðasta klukkutímann í þessum leik.

    Helsta ástæðan fyrir því hversu erfitt þetta virtist vera var þessi 4.deildar klassa framherji okkar í dag. Guð minn góður. Rickie Lambert er augljóslega að spila kerfi hjá Liverpool sem henta honum illa en vandamálið er að ég sé ekki hvaða kerfi ætti að henta honum vel hjá Liverpool og því síður langar mig að sjá Liverpool spila það kerfi. Átakanlega sorgleg frammistaða hjá honum í dag. Gerrard og Coutinho eru mikið betri sóknartengiliðir þegar þeir hafa einhvern fyrir framan sig sem gefur þeim smá tíma og eykur sendingamöguleikana.

    Gerrard var bestur í dag að mínu mati en ég tek nú ekki undir allar þessar samsæriskenningar um að ekki hafi verið nógu mikið gert til að halda honum hjá félaginu og framtíðin sé ógnvekjandi án hans. Erum líklega allir með mismunandi pistil í maganum um þetta málefni og höfum hálft ár til að koma því frá okkur en Gerrard er 35 ára á þessu ári og úr því að síðasta tímabil fór eins og það fór sér hann líklega fram á að ekkert gerist á næstu árum hjá Liverpool sem hann hafi ekki gert áður. Hann langar líklega bara frekar að prufa að búa í Los Angeles eða New York í 1-3 ár og spila í aðalhlutverki þar í stað þess að vera í aukahlutverki hjá Liverpool að gera svipaða hluti og hann hefur gert í tæplega tvo áratugi sem aðalmaðurinn. Konan hans hefur líklega töluvert að segja um þessa ákvörðun hans líka.

    Gerrard veit mætavel að félagið vill sannarlega halda honum áfram, Rodgers hefur ekki talað um annað í nokkra mánuði og FSG bauð honum nýjan samning hvort sem það kom of seint eða ekki. Hann veit svo vonandi að það er enginn búinn að loka á endurkomu hans í náinni framtíð. Hann verður líklega ekki í aðalhlutverki mikið lengur sem er bara mjög eðlilegt fyrir rúmlega 35 ára leikmann í svona stórum klúbbi. Fyrir mér hefur Gerrard ekki verið spennandi það sem af er þessu tímabili spilandi 2-3 leiki á viku. Hefði svo mikið frekar viljað sjá hann spila svipað hlutverk og hann fékk í kvöld mun oftar og velja deildarleikina betur.

    Umræðan um að við eigum enga leiðtoga eftir að hann fer er svo svolítið eftir hentisemi. Auðvitað eru ekki margir leiðtogar hjá okkur núna enda óumdeilt að Gerrard er leiðtoginn í þessu liði. Þegar hann fer þurfa aðrir að stíga upp og svoleiðis er það alltaf þegar stór nöfn yfirgefa sviðið. Við höfum oft séð okkar menn spila vel án Gerrard þar sem yngri menn stíga upp og taka aukna ábyrgð. Henderson hefur verið fyrirliði hjá öllum liðum nánast sem hann hefur spilað með í flestum aldurshóum og er framtíðarfyrirliði Liverpool. Sakho var fyrirliði PSG 21 árs. Emre Can er Þjóðverji. Satt að segja hef ég aldrei séð eins efnilegt Liverpool lið, trikkið er að halda þeim öllum nógu lengi til að við sjáum þá verða góða í búningi Liverpool. Sjáum svo hvaða nöfn félagið kaupir á næstu árum áður en við afskrifum framtíðina alveg án Gerrard.

  19. Ég skil alveg Sterling yfir Balotelli, en Lambert yfir Balotelli? Það þykir mér mjög sérstakt. Lambert er sannarlega með hjartað á réttum stað, en á auðvitað bara að vera kostur til þrautavara.

    Skrölti var býsna öflugur í dag (reyndar sammála því að hann hafi oft látið draga sig úr stöðu, en vann aftur á móti marga mikilvæga skallabolta í teignum) og Sakho virkilega kraftmikill. Coutinho datt í gang í síðari hálfleik og hann og Markovic voru að verulegu leyti að bera spil liðsins uppi þegar við vorum með boltann. Gerrard gat þá verið á hreyfingu á síðasta þriðjungnum og komið sér í álitlegar stöður – nokkuð sem honum leiðist hreint ekki!

    Can frekar shaky, en er samt mjög spenntur fyrir honum. Það koma ekki margir leikmenn fram á hverjum áratug sem eru trekk í trekk að skila góðum frammistöðum á 21. aldursári og væntingar um slíkt eru jafnan óraunhæfar. Rosalega efnilegur leikmaður, ég held að þetta komi allt hjá honum.

    Munurinn í dag var aðallega fólginn í meiri baráttu/hungri (þá Wimbledon megin), betra líkamsástandi og auðvitað gæðum (Liverpool megin) og Steven Gerrard.

    Það á ekki að þurfa að koma neinum á óvart að góð lið lendi í einum og einum svona erfiðum bikarslag gegn liði sem er tugum sæta neðar í deildarkeppni. Það gerðist líka oftar en einu sinni og oftar en tvisvar með öguð og vel slípuð lið Rafa Benitez. Það versta var auðvitað þessi svefngöngukafli í fyrri hálfleik og svo afleit færanýting og klúðraðar skyndisóknir undir lokin. Ég held þrátt fyrir allt að við séum að sakna Daniel Sturridge meira núna en við munum sakna Steven Gerrard á næsta ári.

    Í næstu leikjum er líklega klókast að bregðast við fjarveru Adam Lallana með að reyna enn einu sinni að sparka Balotelli í gang, t.d. hægt að vinna með Gerrard og Sterling í tíunni – þá skiptingar eða rótering/hvíld milli þeirra. Upp á að þurfa ekki að breyta miklu til að spila Sturridge aftur inn í liðið, gæti samt verið sniðugra að vinna áfram með Sterling fremstan. En þá væri enn verið að seinka þeirri hvíld sem talað hefur verið um að hann eigi inni og þurfi á að halda. Stráksi fékk þó a.m.k. að slappa af í kvöld og er það vel.

    En sigur er sigur og algjör óþarfi að láta eins og þetta hafi verið fyrsti svona scrappy sigurinn í bikarleik – verður heldur ekki sá síðasti. 🙂

  20. Babu, af hverju er þá ekki gert meira til að fá leikmenn í sama klassa og GERRARD til liðsins ? Þessi Markovic, á að vera efnilegur, en ég bara ældi þegar hann klúðraði færi sem ég sjálfur hefði skorað úr 70 ára gamall. Þvílík meðalmennska, við hljótum að geta og mega gagnrýnt ARFAslakt Liverpool lið í dag alveg eins og við gátum mært þetta næstum því sama lið fyrir nokkrum mánuðum síðan. Er það bara metnaðarleysi fsg sem er að kosta okkur að missa BITIÐ í sóknarleik okkar, og KLASSANN í miðjuspili okkar ? Hvar eru þeir í dag sem segja að GERRARD sé orðin of gamall og fúinn fyrir þennan “fríska” og unga leikmannahóp ?

    Er fsg yfir alla gagnrýni hafnir, eins og ríkisstjórnin ?

  21. Hér er svo brotið á Mignolet í aðdraganda marks heimamanna (með smá auka photoshop húmor og í ca 1992 gæðum): http://imgur.com/4BGGXIh

    Maður fer ekki að ætlast til að markvörður grípi svona bolta með tvo 50 kg sementspoka hangandi á sér. Hlýtur það ekki að vera brot á vinnulöggjöf ESB? 🙂

  22. 23, Eyjólfur, þá getur hann bara kýlt helv boltann burt, eins og Maggi mark hér í denn, enginn vafi, bara burt með bolta helv.

  23. #24,

    Já, það hefði verið sannarlega verið öruggari kostur. En hefði samt leikið sér að því að grípa þennan bolta án þessarar truflunar.

  24. #25 þessi “truflun” er partur af leiknum, ekkert dæmt, þá er ekkert að þessu, bara kýla kvikindið burt þá er málið dautt, og “markvörðurinn ” lítur út sem markvörður. Við þurfum bara betri markmann, því miður, sá sem er á varamannabekk Bayern er miklu betri en okkar.

  25. Þoli ekki þetta rölf í Magga og co. um S.G. Maðurinn er að fara sættum okkur við það !!!!!!!! Hann valdi sjálfur að yfirgefa klúbbinn um leið og hann skyldi það að hann væri ekki lengur sjálfvalinn í byrjunarliðið, þ.a.l. vildi hann breyta um vettvang og fara til liðs sem tryggði honum meiri spilatíma í framtíðinni…… Hættum að gera drama úr öllum sköpuðum . Life goes on.

  26. Babu# 20 er alveg með e’tta finnst mér, spot on.

    Ég verð að segja frá því að þegar ég settist niður var búið að fara yfir byrjunarliðin, svo þegar c.a. 25 mín voru liðnar af leiknum talaði þulurinn á Stöð 2 Sport um að Lambert yrði að bjóða sig betur og taka hlaupin (eða eitthvað svoleiðis) og þá sagði ég upphátt við son minn “ha? er hann inná?”
    Og þetta var þrátt fyrir að Liverpool var með yfirburðar posession og talsverða sóknartilburði framan af 🙂

    Af hverju Ricky Rangstaða fékk að spila mínútu af seinni hálfleik er ofar mínum skilningi.

  27. Nákvæmlega Hafliði! (og Babu) ég sagði það sama þegar ég horfði á leikinn hér heima í stofu: “Ha, er hann inná?”

  28. Veit nú ekki alveg hvað er verið að ætla mér drama…ég er bara að benda á það sem Shearer og Murphy voru að segja. Danny Murphy er einn af betri vinum Gerrard og alveg klárt mál að þeir hafa rætt þessi mál.

    Og það hlýtur að vera eðlilegt að velta því upp eftir leik þar sem fyrirliðinn okkar vann leikinn fyrir okkur hvort að þetta ferli allt sé á góðum stað. Babú sló algerlega þá nótu sem ég tek í þræði um brotthvarf hans, við munum ekkert vita um hvort þetta er rétt eða röng ákvörðun fyrr en eftir tvö ár þegar við sjáum hvaða kúrs liðið okkar tók við brotthvarf hans. Það munu auðvitað koma leikir í vetur þar sem mótrökin munu koma upp um það að hann sé ekki nægilega sterkur til að vera í lykilhlutverki og þá verður þessi umræða ekki upp. En það hlýtur að vera eðlilegt að taka hana upp hér eins og ALLS STAÐAR þar sem um þennan leik er rætt á netinu…annars værum við bara að þykjast ekki heyra umræðu um liðið okkar og fela okkur á bakvið það að það séu bara allir alveg 1000% sáttir við þetta allt.

    Sem er fullkomlega fjarstæðukennt.

    Annars varðandi það að stíga upp þegar Gerrard fer. Vel má það vera – og það verður aldrei létt að ætla að fylla skarð manns sem hefur verið fyrirliði liðs í 12 ár. Hvað þá þegar um óumdeildan einstakling í heimaborg liðsins er að ræða. Það sem ég hef áhyggjur af er eins og lýsi í skýrslunni sem “músarhjörtum”. Það er eiginleiki sem mér finnst lýsa því ástandi þegar leikmenn tapa tæklingum reglulega, láta draga sig út úr svæðum og fara að bakka úr návígjum.

    Slíkt á ekki neitt skylt við fótboltahæfileika sem slíka, heldur andlegan styrk. Frá ca. mínútu 25 í gær kom um 30 mínútna kafli í leiknum þar sem nákvæmlega þetta gerðist hjá alveg hryllilega mörgum. Auðvitað var liðið í gær ungt og margir þarna að spila sinn fyrsta FA – bikarleik í svona aðstæðum og það að sjálfsögðu skiptir máli.

    En vandinn er sá að það voru mörg fótboltalið að horfa á leikinn í gær, Shearer og Lineker tóku um þetta gott spjall í lok leiks þar sem þeir bentu á það að Wimbledon hefðu bara horft á það sama og Leicester lögðu upp með. Að djöflast hressilega og “bull-ia” leikmennina okkar inn í skelina…og á meðan við lentum stanslaust í vandræðum með slíka framkomu andstæðinganna þá verðum við í vanda.

    Lykillinn að leysa það er auðvitað að fá meiri yfirvegun í varnarlínuna og öflugri vinnslu á miðjunni til að losa um þá pressu. Í gær fór það nákvæmlega eins og gegn Leicester og Burnley þar áður. Þetta birtist líka svo hryllilega oft í set-piece atriðunum okkar þar sem óöryggið virðist ríkja hjá öllum um hver á að dekka manninn eða koma boltanum almennilega í burtu…

    Svo að ég hef áhyggjur af því að of mörg músarhjörtu slái í liðinu þessa stundina, og þeim verður að breyta í ljónshjörtu sem fyrst…og það er ekkert tengt Gerrard, heldur hverjum og einum.

  29. Nr. 22

    Botna ekki alveg að taka Markovic einan út fyrir eftir þennan leik þó færanýtingin hafi ekki verið góð undanfarið. Þetta er ennþá ungur leikmaður og gríðarlega efnilegur. Hjálpar honum ekki að spila úr stöðu held ég en galið að afskrifa hann strax. Ef við miðum bara við þennan leik þá er Emre Can líklega vonlaus líka og kaup á honum ekkert nema meðalmennska.

    Sé svo ekki hvar nokkur maður er að banna gagnrýni á þetta lið í vetur eða FSG? Það kemur svo sannarlega ekki frá okkur sem höldum utan um þessa síðu, þvert á móti ef eitthvað er.

    Varðandi Mignolet þá er þetta alltaf brot á honum hvort sem hann getur slegið boltann frá eða ekki, þetta virkaði nokkuð einföld fyrirgjöf fyrir hann og var það líklega ef hann væri ekki með vaxtaræktartröll hangandi utan í sér.

  30. Maggi: Þú ert spot on.
    Það er nefnilega sá þáttur sem “böggar” mann mest – hvað lið geta „bull-iað“ okkur í tíma og ótíma. Carragher hefur komið inná þetta áður og þetta hefur ekkert með knattspyrnulega hæfileika að gera. Áhyggjuefnið er að það voru lið og aðrir “managerar” að horfa á þetta og kristaltært að Rodgers og hans teymi verða að vinna á þessum þætti fyrir næstu leiki. Klárt mál að menn koma til með að ráðast á þennan veika blett okkar.

    Annars hafa menn eitthvað slúður um leikmannakaup í janúar? Það er fátt um fína drætti en las í slúðrinu í gær að Shakiri og Berahino væru svona “líklegustu” skotmörkin. Að því gefnu að Borini seljist. Yrði gott statement að fá inn einn flottan leikmann fram á við, einhvern sem getur klárað/skapað.

  31. Ég var hundpirraður yfir leiknum í gær (eins og sést á Twitter) enda erfitt annað í miðri hringiðunni þegar Liverpool er í ströggli gegn fjórðudeildarliði.

    Daginn eftir er ég miklu rólegri. Svona horfir þetta við mér:

    Þetta var bananahýði og það má segja að Liverpool hafi runnið á hýðinu en náð að grípa í handrið og forðast að fljúga á hausinn. Við höfum oft séð svona leiki í janúarleikjum FA Bikarsins og það er af góðri ástæðu: stóru liðin hvíla leikmenn, litlu liðin eru að spila stærsta leik lífs síns og gefa gjörsamlega allt í hann, og verið er að spila á óslegnu, mosagrónu túni fyrir aftan lítinn sveitabæ.

    Sem sagt, þetta var ekki falleg frammistaða en aðstæður buðu ekki upp á það heldur og Liverpool vann að lokum. Punktur.

    Hvað réttmæta gagnrýni varðar myndi ég ekki skjóta á Rodgers og í raun ekki mikið á leikmennina heldur. Það eina sem situr í mér eftir þennan leik er að það er nákvæmlega einn leikmaður hjá okkur sem stígur upp í svona leikjum, heldur haus og klárar dæmið. Sá leikmaður er 34 ára og á förum frá félaginu. Burtséð frá öðrum leiðtogahæfileikum þá munum við sakna þess mest að Gerrard bjargi okkur ekki þegar illa gengur. Slíkt er ekki hægt að kaupa nema fara í metupphæðirnar (og metlaunin) og það gera FSG ekki, þannig að ég á ekki von á að við sjáum mikið af mönnum sem stíga upp með þessum hætti í FA bikarnum í janúar 2016.

    Annars er allt tal um hvers vegna Gerrard er að fara mjög þreytt. Menn eru að ímynda sér að FSG eða Rodgers hafi klúðrað einhverju. Kannski er það raunin en við bara vitum það ekki í dag og því óþarfi að láta eins og það sé eitthvað klúður að hann sé að fara. Það eina sem við vitum um málið er að Gerrard vill spila reglulega og þegar Rodgers sagði honum að hann yrði hvíldur af og til ákvað hann að fara. Ef að er rétt og eina ástæðan þá er ég sammála þeirri ástæðu. Gerrard á ekki að spila alla leiki, hann á að vera hvíldur og ef hann vill spila alla leiki er það best fyrir báða aðila að hann fari til Bandaríkjanna í sumar.

    Þetta er rétti tíminn fyrir hann og sennilega rétti tíminn fyrir Liverpool líka, jafnvel þótt allar líkur séu á að við munum sakna hans ógurlega.

    Allavega, áfram gakk. Næsti leikur er gegn Bolton á heimavelli og þar býst ég við betri spilamennsku (þið vitið, á alvöru grasvelli, ekki Hörðuvöllum) og að okkar menn tryggi sig inn í 16-liða úrslit keppninnar.

    Liðið verður ekki dæmt af þessari frammistöðu. Þetta eru alltaf skrýtnir leikir að spila en það hafðist. Job done.

  32. Ég veit ekki hvort einhverjum sé gert greiða með að láta SG fjara út á bekknum og í stöku bikarleik líkt og Giggs. Karlinn hættir á toppnum, eða svona hér um bil, með sæmd og kemur svo til baka eftir 2-3 ár og tekur einhverja stöðu hjá klúbbnum.

  33. Smá pæling varðandi Gerrard. Ekki misskilja mig, hann er og var frábær leikmaður fyrir LFC og það er skrýtið að sjá að hann er að fara. En eru menn ekki að missa sig í móðusrýkinni?

    Hann var góður í gær, á móti 4.deildar liði og dró líklega þennan blessaða vagn. En ég man ekki eftir neinum öðrum leik á þessu tímabili sem hann hefur verið e-h yfirburðarmaður á vellinum. Hann hefur frekar verið dragbítur ef e-h er þar sem hann er orðin hægur og ekki með sama kraft og áður enda eðlilega.

    Ég veit að hann er markahæsti maður liðsins (4 mörk úr vítum) en það segir reyndar meira um leiktíðina hingað til frekar en e-h annað.

    Er ekki bara flott að þessu sambandi sé að ljúka – þá geta menn hætt að bíða eftir því að Gerrard geri hlutina og stíga upp (vonandi) sjálfir?

  34. Það liggur enginn vafi á því að Gerrard er einn af allra bestu leikmönnum sem spilað hafa fyrir LFC – að mínu mati sá besti.
    Hann var upp á sitt besta 2005-2010 (með Torres frá 2007) og síðan frábær tímabil 2012-2014 (með Suárez). Þessi tímabil var hann með um 30-40 stoðsendingar og mörk samtals á hverju tímabili.
    Þetta tímabilð hefur hinsvegar alls ekki verið gott. Hann hefur skorað 9 mörk (4 úr víti) og með 1 stoðsendingu.
    Ég efast um að hann taki þráðinn upp á ný 35-36 ára gamall…

    Hitt er annað mál að í hvert skipti sem LFC hefur gert atlögu að titlinum spilaði þessi maður lykilhlutverk í liðinu. Það sem meira er þá nema með mjög öfluga hryggsúlu í liðinu:
    2008/09: Gerrard, Torres, Alonso, Mascherano
    2013/14: Gerrard, Suárez, Sturridge
    2015/16: Sturridge, Sterling, ?, ?
    Hér verður bara að fá einn tilbúinn snilling t.d. Vidal. Þá gæti kannski Coutinho, Markovic eða Lallana stigið upp.

  35. Sælir félagar

    Gerrard er einn besti fótboltamaður sögunnar svo langt sem það nær. Hann er að dala í samræmi við aldur og fyrri störf. Hann á enn til galdra í skónum sínum og svo verður áfram amk. um sinn. En það verður æ lengra á milli þeirra stunda sem hann nær þeim fram. Þetta er eðlilegasti hlutur í heimi og ekkert við því að segja. Auðvitað mun maður sakna hans en ég ætla ekki að stökkva á vælubílinn vegna tilvonandi brottfarar hans. Hafi hann fulla þökk fyrir framlag sitt alla tíð.

    AEn að hann hafi verið besti maður vallarins í gær er aftur á móti umdeilanlegt. Hann var bestur fyrir framan miðjuna en Sakho var að mínum dómi besti maður vallarins. Hitt er svo annað að gæði góðra leikmanna njóta sín illa á svona kargaþýfi eins og völlurinn var. Þar af leiðir að menn eins og Gerrard, Coutinho og Marko ásamt með Hendo nutu sín ekki sem skildi.

    Það er nú þannig

    YNWA

  36. hvað eru menn að skjóta á Mignolet hérna er bara orðin einhver kækur í mönnum hérna. átti 2 heimsklassa markvörslur og átti ekki síður sinn þátt í að koma okkur áfram en Gerrard hinsvegar hægt að setja stóra spurningu um varnarmenn liðsins.

  37. Ég held það alger óþarfi að rýna of milkið í þennan leik. Þetta er 1 umferð í FA-cup og svona leikir á svona velli er erfiðir fyrir þessu “stóru” lið. Þar sem litlu liðin leggja alltaf hjartað í leikinn og uppskera oft vel !

    Við erum komnir áfram sem er gott og næst er það Bolton !
    Flott að fá Eið og Heskey í næstu umferð !

  38. Afsakið þráðránið,veit einhver hvort Shakiri sé á leiðinni til Liverpool.? Eða er þetta bara slúður,sumir miðlar segja að það sé komið munnlegt samkomulag?væri ekki ónýtt ef satt reynist.

  39. Veldur mér gríðarlegum vonbrigðum að sjá ritstjóra kop.is setja heila færslu um auglýsingar hér á þessa síðu. Má þessi síða í alvöru ekki standa ein og sér og gegn markaðsöflum?
    Hvar liggja mörkin? Á að auglýsa spilavíti í netheimum, áfengisauglýsingar eða jafnvel nektarklúbbar?

    Mjög slæmar fréttir.

  40. Hendo #41 endilega borga þú þeim bara úr eigin vasa fyrir allan kostnað sem fer í þessa síðu. Ef þú gerir þér ekki grein fyrir tíma og öðrum kostnaði sem fylgir svona síðu slepptu því þá að setja úta þessa hluti.

  41. Hendo….

    Hvað er að því að auglýst sé eftir styrktaraðilum ? Þegar allt kemur til alls þá er fótbolti nú bara leikur markaðsafla sama hvort þér líkar það betur eða verr.
    Það er ekki eins og auglýsingar á kop verði notaðar í samskonar tilgangi og t.d á almennum fjölmiðlum, þar sem fyrirtæki, kaupa sér auglýsingar til að fá jákvæða umfjöllun um sig eða til að hafa politísk áhrif.

    Ég meina – ef pennarnir á kop.is létu Nings fara stjórna því hvernig þeir fjölluðu um Stevie G eða Rodgers gegn því að fá auglýsingu Þá yrði ég jafnpirraður og þú yfir því að það væri verið að auglýsa en þar sem þetta er væntanlega gert í þeim tilgangi að gera heimasíðuna sjálfbæra þá finnst mér þetta besta mál. Raunar finnst mér það stórsniðug hugmynd.

  42. Hendo:

    Ég held að þú ættir bara að setja upp þína egin síðu öllum öðrum að kostnaðarlausu. Gangi þér vel með það.

    Ekki get ég séð að styrktaraðilar geti haft áhrif ritstjórn kop.is – það er í raun algjör brandari að halda því fram.

    Ég hef notið þess að lesa þessa síðu í meira en 6 ár og fundist alveg magnað hversu faglega er haldið um hana.

    Flott hjá ykkur strákar! Vona að þið finnið góða bakhjarla sem eru til í að hjálpa ykkur með þennan frábæra vef. Um leið hvet ég lesendur til þess að styðja næstu bakhjarla og þannig auka verðmæti auglýsinga á þessum vef. Þannig styðjum við þessa frábæru síðu !!!

    Gangi ykkur vel !!!

  43. Æi 20 mills í Berahino, geðveikt efnilegur sko! hættum þessu bulli og kaupum alvöru. Núna hefði verið fínt að hafa keypt Bony í byrjun leiktíðar sem er líklegast á leið til City..

  44. Það er alltaf einn úr liðinu tekinn fyrir og allt sem miður fer er honum að kenna.

    Byrjum á Lucas, allt ómögulegt og ég veit ekki hvað og hvað. Þess ber að geta að síðan hann kom inn í liðið á nýjan leik höfum við varla tapað leik. Ok, hann er nú ekki beint að skapa mikið en hann má eiga það að hann vinnur mjög svo óeigingjarnt starf sem flestir kunna ekki að meta.

    Hendo, algjörlega hræðilegur og þvílikt sem menn gátu drullað yfir hann á sínu fyrsta tímabili. Meira að segja BR ætlaði að losa sig við hann. Hefur sannað sig sem lykilmaður í þessu liði okkar og hugsanlega framtíðar fyrirliði liðsins.

    Mignolet. Allt honum að kenna og við getum alveg eins skráð okkur í 2 deildina strax með hann í markinu. Hver man ekki eftir fyrstu tveim árum DeGea hjá ManU. Þvílikt sem drengurinn gerði af mistökum. En gamli hélt sig við hann og í dag er hann besti markvörðurinn í deildinni. Mignoelt er ungur markvörður, hefur átt mjög margar frábærar markvörslur fyrir okkur en er vissulega með sína galla.

    Aðrir sem hafa fengið að kenna á sófasérfræðingunum eru Lovren, Skirtle, Sakho, Gerrard, Johnson, Enrique ofl

    Held að þó menn eigi lélega nokkra vikur, mánuði þá skulum við fara varlega í að afskrifa menn. Downing er að eiga frábært tímabil með WestHam núna. Hann var afskráður og seldur eftir mjög stuttan tíma hjá klúbbnum.

  45. 40. “Downing er að eiga frábært tímabil með WestHam núna. ”
    Þannig að þú telur kantmaður sem kostaði 20mp hafi ekki átt skilið að vera afskráður þrátt fyrir að hafa farið í gegnum 28 leiki í PL án þess að gefa stoðsendingu eða skora mark?

  46. Hvað eru margir leikir síðan að allt var vitlaust hérna inni þegar að S.G. var “þröngvað” inní byrjunarliðið á “kostnað” liðsins að mati allmargra hérna. Núna er allt vitlaust þar sem að menn telja að hann sé algjörlega ómissandi og beri þetta lið á herðum sér. Hann valdi rétt með að hætta núna í vor og ég persónulega hef enga trú á að hann hefði skrifað undir nýjan samning í sumar þegar að hann hefði orðið þess áskynja að hann yrði ekki lengur með áskrift í byrjunarliðið og leiktíma hans yrði stjórnað meira í framtíðinni , hann hefði alltaf valdið þann kostinn að fara í Ameríkuna og spila mikið.

  47. jææjaaa .. virðist vera að LFC sé ekki að fara versla neitt merkilegt, nema kannski einhverja squad players, sökum FFP. Súrt ! Vonandi að menn geti fundið einhverja óslípaða demanta þarna úti, höfum nú séð annað eins.

  48. Haha já sammála Hendo Nr. 41 fáránlegt að sjá vinsæla vefsíðu sem rekin er í sjálfboðaliðastarfi bjóða upp á auglýsingar til að standa a.m.k. undir sér.

    Humarsalan, ReAct, JJ Lögmenn, Gaman Ferðir, Nam og fleiri góðir sem hafa auglýst hjá okkur undanfarin ár hafa stjórnað okkur pennunum gríðarlega bak við tjöldin. Kobbi hjá Humarsölunni vill ekki sjá neinn pistil hérna inni nema hann sé um leikmenn frá þeim löndum sem Humarinn er vinsæll. JJ Lögmenn vildu meiri fréttir af vandræðagemlingum sem komast reglulega í kast við lögin, þó ekki væri nema bara knattspyrnulögin og því auglýstu þeir þann tíma sem Suarez var hjá okkur. Þór og Bragi hjá Gaman Ferðum vildu bara sjá pistla sem væri gaman að lesa á meðan Einar Örn leggur upp með að hér komi inn fréttir af Standard Charted og öðrum fyrirtækjum sem eru sterk í Asíu, enda leggur Nam áherslu á Asíska matargerð. ReAct er svo eina ástæðan fyrir því að við skrifuðum um nýja búninga Liverpool ár hvert.

    Þetta er hreinn og klár skandall. Helvítis markaðsöflin.

  49. Þetta sýnist mér helst í “slúður-glugga-ekki-fréttunum” dagsins.
    1) Haukur Heiðar#41 eitthvað önugur yfir að Hendo#40 sé önugur …hálf öfugsnúið allt saman.
    2) Hjá okkur LFC fylgjendum er mest talað um leikmenn sem eru að fara frá okkur(eða farnir) en ekki þá sem eru hja okkur eða mestu efnin sem eru að koma upp. Baksýnisspegillinn.
    3) Ekkert að fara að gerast í leikmannamálum. Ef maður er með litlar væntingar þá eru lítil vonbrigði.

    Stóð mig að því að vonast eftir miklu (betri markmanni) og pínu svekktur með innkomuna hingað til (engin). Kannksi reddast þetta allt 🙂

Byrjunarliðið á Kingsmeadow – UPPFÆRT

Vilt þú auglýsa á Kop.is?