Liverpool – Swansea 4-1

Okkar menn tóku á móti Swansea á þessu annars ágæta mánudagskvöldi. Rodgers stillti upp þessu liði:

Mignolet

Can – Skrtel – Sakho

Manquillo – Henderson (c) – Lucas – Moreno

Lallana – Sterling – Coutinho

Bekkur: Ward, Lambert, Markovic,Gerrard, Toure, Balotelli, Borini

Manquillo, Moreno og Can komu sem sagt inn í stað Gerrard, Toure og Markovic. Einnig kom Borini aftur á bekkinn (úr banni) í stað Ojo og David Ward tók sér sæti á bekknum í fjarveru Jones.

Ég hafði svo sem ekki mikið út á liðið að setja, sem segir kannski meira en mörg orð um stöðu mála. Í liðinu voru markvörður, fjórir varnarmenn og sex miðju- og vængmenn. Þrír sóknarmenn á bekknum.

Monk stillti þessu svona upp hjá gestunum:

Fabianski

Richards – Fernandez – Williams – Taylor

Britton – Shelvey

Dyer – Gylfi – Routledge

Bony

Fyrri hálfleikur

Liverpool byrjaði betur. Á 12 mínútu átti Sterling flottan bolta á Moreno, sem sendi hann inn í teig aftur til baka á Sterling sem átti viðstöðulaust skot úr miðjum teignum, Fabianski varði, en hélt ekki boltanum. Frákastið barst til Lallana að lokum sem skaut yfir úr dauðafæri.

Við áttum ágætis 10-15 mínútur eftir það þar sem að pressan var að virka vel og við að ná ágætis sóknum án þess þó að skapa okkur einhver dauðafæri. Coutinho var sérstaklega sprækur, var ávalt að finna svæði til að athafna sig á og vann vel til baka.

Það var svo á 32 mínútu sem að Moreno kom okkar mönnum yfir. Fyrst átti Sakho frábæran bolta upp vinstri kanntinn á Moreno. Spánverjinn keyrði inn á völlinn, lagði boltann á Lallana og hélt hlaupinu áfram inn á teig. Lallana átti frábæran bolta á milli Williams og Taylor þar sem hann spottaði gott hlaup Henderson. Fyrirliði kvöldsins sendi boltann í fyrsta á Moreno, sem skaut reyndar beint á Fabianski, en skotið var af markteig og lak því inn, 1-0, frábær sókn og verðskulduð forysta!

Ef að Markovic brotið gegn Basel var rautt spjald þá átti Jonjo að hafa farið útaf á 40 mínútu fyrir glórulaust olnbogaskot á Can. Fínn sprettur hjá Jonjo sem lék á einhverja fjóra Liverpool menn.

Swansea menn náðu upp smá pressu síðustu fimm mínútur hálfleiksins eða svo, án þess að skapa sér einhver færi þó.

Fyrri hálfleikur var því virkilega fínn, verðskulduð forysta. Varnarleikur liðsins var góður, miðjan traust og fín pressa og ákafi í sóknarleik liðsins. Swansea menn voru í sjálfu sér ekkert inn í þessum leik utan þessar síðustu 4-5 mínútur fyrri hálfleiks þegar þeir náðu upp smá pressu. Á meðan okkar menn gáfu þeim engan frið og virkuðu frískir.

Síðari hálfleikur

Jæja piltar, eigum við ekki bara að taka Chelsea á þetta. Halda áfram að vera aggressívir, gefa andstæðingnum ekki séns og bæta við svona eins og einu til tveimur mörkum? Neibb. Við erum Liverpool, við skulum snúa þessum leik algjörlega á haus.

Fyrstu 25 mínúturnar í síðari hálfleik voru nánast bara copy/paste frá því á síðstu leiktíð. Vantaði bara SAS á toppnum.

Það byrjaði á 50 mínútu þegar að Sterling pressaði Williams til að senda til baka á Fabianski, Lallana kom á hörkuspretti í pressuna og fékk hreinsun Fabianski í sig og inn fór boltinn. Besta leiðin til að lýsa þessu marki er bara að þetta var svona mark sem Liverpool myndi fá á sig. Í raun engin hætta, Fabianski gat sett hann hvert sem hann vildi, en tók versta kostinn – í bakið á Lallana og inn. Verður að hrósa Sterling og sérstaklega Lallana fyrir frábæra pressu, þó heppnisstimpill hafi verið á þessu marki. 2-0.

Hve oft höfum við samt séð þetta (Arsenal nú síðast), Liverpool skorar og fær svo á sig mark í næstu sókn. Það gerðist einmitt mínútu síðar. Routledge átti sendingu inn á teig á Bony, Sakho vann skallaeinvígið en skallaði boltann fyrir markið, þar sem að herra Sigurðsson kom hlaupandi og skoraði af stuttu færi. Spurning með varnarvinnu Can þarna í aðdragandanum en skalli Sakho var slakur og á versta stað. 2-1.

Swansea fékk kraft við þetta mark og unnu boltann nánast strax til baka, Bony tók skot fyrir utan teig sem Mignolet varði, Can náði að hreinsa í horn rétt áður en hvítklæddur náði frákastinu. Manni leist ekkert á blikuna þarna, en upp úr þessu horni fékk Moreno boltann fyrir utan teig, tók frábæran sprett upp völlinn, fékk Henderson upp hægra meginn við sig og Sterling til vinstri. Spánverjiinn valdi fyrri kostinn, út á hægri kanntinn þar sem að Henderson tók hann viðstöðulaust í boga innfyrir vörn Swansea, frábær bolti, á Sterling sem skaut í fyrsta. Inn vildi boltinn ekki, en hann hafnaði í innanverðri stönginni. Frábær skyndisókn!

Á 60 mínútu átti Coutinho FRÁBÆRA hælsendingu í fyrsta á Lallana, 25 milljón punda maðurinn átti þó eftir að leika á tvo Swansea menn áður en hann lagði boltann frábærlega í fjærhornið framhjá Fabianski, 3-1. Stórkostleg sókn og þessi hælsending hjá Coutinho… Ef Coutinho nær stöðugleika í sinn leik, þá er hann heimsklassa!

Á 68 mínútu fengum við horn eftir frábæra sókn. Þessar hreyfingar og hlaup í og við teig andstæðingsins voru algjörlega frábær. Henderson tók hornið á nærstöng, þar sem að Jonjo Shevley kom og skallaði boltann í eigið mark, 4-1!

Lallana fór svo útaf á 76 mínútu, átti frábæran leik! Inn kom Lazar Markovic. Sterling fór útaf á 82 mínútu (eftir að hafa slegið til leikmanns Swansea nokkrum mínútum fyrr) og inn kom Balotelli.

Gomis átti skot í tréverkið á 84 mínútu, en Swansea ógnuðu ekki mikið fyrir utan það. Balotelli átti fínt færi á 89 mínútu eftir þríhyrning við Markovic sem Fabianski varði vel. Lítið gerðist eftir það og við lönduðum öruggum og góðum sigri, líklega næstbesta frammistaða okkar í vetur, aðeins Tottenham leikurinn betri.

Lokaorð og maður leiksins

Fyrri hálfleikur hjá okkar mönnum var með því besta sem maður hefur séð á þessari leiktíð. Ekki það að liðið hafi spilað svona flottan bolta heldur var jafnvægið í liðinu afskaplega gott, Swansea sá í raun aldrei til sólar. Vorum hættulegir fram á við og traustir til baka.

Síðari hálfleikur var eins og endursýning frá því á síðasta tímabili. Fjögur mörk skoruð, hefðu getað verið átta. Við gáfum eftir á miðjunni en á móti þá var sóknarleikurinn hjá okkur algjörlega frábær! Hreyfingar og pressa fremstu manna, þá sérstaklega Henderson, Lallana, Coutinho og Sterling var eins góð og við höfum séð á þessu ári. Varnarmenn Swansea réðu ekkert við þá og var færasköpunin eftir því.

Ég kallaði eftir því fyrir leik í upphitun að það væri komið að því að við myndum vinna leik nokkuð þægilega. Ég þakka fyrir mig. Þetta var líklega einn af tveimur bestu leikjum okkar á tímabilinu. Vörnin var heilt yfir góð (sérstaklega þó í fyrri hálfleik), miðjan nokkuð þétt og sóknarleikurinn frábær.

Það er frekar erfitt að velja mann leiksins. Fyrir mér voru þrír leikmenn sem stóðu upp úr. Það voru Coutinho, Lallana og Henderson (einnig var Moreno öflugur). Coutinho var algjörlega frábær, hann gæti athafnað sig á frímerki. Lallana skoraði auðvitað tvö góð mörk og Henderson lagði upp eitt mark og var virkilega öflugur og út um allan völl. Ég ætla að velja tvo í þetta skiptið, svo tæpt var það. Coutinho og Lallana fá verðlaunin í þetta skiptið.

Við erum búnir að vera HÖRMULEGIR það sem af er tímabili, samt erum við ekki nema fimm stigum frá fjórða sæti. Það er í raun ótrúlegt! Næst er það Leicester á Anfield, í umferð þar sem að Southampton tekur á móti Arsenal og Spurs á móti Chelsea. Það væri ansi hressandi að klára þann leik og komast nær Southampton og/eða Arsenal.

“Þetta var bara Swansea, rólegir….” Þetta var líka bara Burnley í síðustu viku, þið vitið – liðið sem sótti stig á Ethiad. Það er ekkert gefins í þessari deild, allir leikir eru virkilega erfiðir. Við erum búnir að vera ágætir í þremur af síðustu fjórum leikjum. Þetta virðist vera að batna. Vonum að 2015 verði okkur gæfuríkt, innan vallar sem utan.

Hrikalega mikilvæg stig í hús og það sem ánægjulegra er, frammistaðan var frábær!

YNWA

65 Comments

 1. Flottur leikur þar sem Liverpool var miklu betri aðilinn frá fyrstu mínútu.
  Fjögur mörk þrátt fyrir að vera ekki með framherja fyrr en á loka mínútunum.
  Meira svona takk.

  Átti satt bezt að segja ekki voná þessu á mánudagskveldi með Arnar Björns sem lýsanda????

  Lallana og Coutiniho eiga einn ískaldan inni já mér????

 2. djöfull skemmti maður sér yfir þessum leik liverpool velkomnir í gamla formið!

 3. Frábær leikur, Sterling óheppinn og heppinn að fá jafnvel ekki í rautt. Skrifa það á að hann er enskur landsliðsmaður 🙂

  Lallana Coutinho og Henderson FRÁBÆRIR

 4. Coutinho er í Barca/Real caliberi á svona dögum, magnaður. Virkilega gaman að sjá liðið spila, erum greinilega að finna taktinn aftur!

 5. Frábær frammistaða, stórskemmtilegur leikur og glæsileg úrslit. Ekki hægt að enda þetta rysjótta knattspyrnuár mikið betur.

  Get ekki gert upp á milli Lallana og Coutinho upp á MOTM. Can, Henderson og Moreno líka flottir. Orkan á miðjunni og frammi var með hreinum ólíkindum á köflum. Dugnaður og elja Lallana skilar okkur þarna marki af þeirri gerð sem við höfum ekki séð síðan ónefndur leikmaður yfirgaf okkur í sumar. Hann og Kúturinn voru stórkostlegir í kvöld og þótt Raheem hafi ekki átt sinn besta leik, tengist þetta allt. Gerir liðinu líka auðveldara að vera aðeins þéttara fyrir aftan.

  Hlutirnir eru á réttri leið, það er ekki spurning. Samt mögulega (líklega?) nokkrum vikum of seint, en það kemur í ljós í vor! Takk fyrir Liverpool árið!

 6. Kútur, Can og Lallana menn leiksins, en Lucas ,Hendo og Moreno að spila vel líka. Allt liðið að kunna betur á hvorn annan. Vonandi er þetta það sem koma skal

 7. Mjög solid frammistaða og eitt það besta sem við höfum séð á tímabilinum. Mikilvægt að komast uppfyrir Swansea í 8. sætið á skoruðum mörkum. Það er að komast meira jafnvægi á leik liðsins og yfirvegun og sjálfstraust mun meira. Ekki gallalaus leikur en svona frammistaða skilar 3 stigum gegn flestum liðum. 5 stig í CL sæti sem er alls ekki ógerlegt. Leicester á Anfield á nýársdag ætti að geta skilað okkur áleiðis.

 8. Eina sem ég get sagt er bara MJÖG MJÖG FlOTTUR LEIKUR HJÁ LIVERPOOL :).

 9. Frábært að sjá loksins starting XI án Gerrards, það munar bara svo miklu á hraðanum. Allt gott um kafteininn auðvitað, en hann er orðinn 34 ára og hefur ekki hraðann í svona spilamennsku. Þetta hefði orðið annar leikur ef Gerrard hefði byrjað í stað Lallana. Just sayin’

 10. Jæja hvar eru fýlukallarnir núna?
  Rodgers út, kaupinn í sumar ömurleg o.sfrv

  Maður er búinn að vera að tala um glasið hálf fullt í allan vetur. Að Markovitch er auðvita bara 20 ára, Lallana og Can misstu af undirbúiningstímabilinu og svo af byrjun tímabils(Can í restina), Morenoa og Manquillo tveir ungir spánverjar að koma inní nýja menningu og nýtt lið og það tekur smá tíma. Maður þarf að hafa trú á sínu liði og þeir hafa verið að sýna það undanfarinn að liðið er að skána.

  Man utd leikurinn já 3-0 tap en maður sá samt alltí einu lið sem var að búa til færi og ná að spila boltanum
  Arsenal leikurinn 2-2 við réðum honum í 90 mín og ótrúlegt að við náðum ekki að vinna(máttum þakka fyrir að jafna undir lokinn) en færinn og miðjan var okkar.
  Burnley leikurinn 0-1 sigur. Ekki merkilegur leikur og eiginlega bara lélegur en þetta voru leikirnir sem við vorum að tapa í byrjun tímabils en núna með smá hörku og dugnaði tókst að klára þennan leik(þetta Burnley lið er svo ekki alls slæmt, spyrjið Man City).

  Svo var það leikurinn í kvöld 4-1 og maður fannst liðið einfaldlega rosalega solid bæði í vörn og sókn. Vorum alltaf hættulegir fram á við og þetta eina mark sem Gylfi skoraði(þess má geta að Gylfi var skelfilegur í þessum leik og var þetta hans eina framlag í leiknum, samt gott framlag ef þetta er það eina sem þú gerir).

  Mignolet – nokkuð solid þótt að spyrnugetan sé ekki að gera sig.
  Skrtel – frábær
  Sakho – stundum tæpur á sendingum en flottur
  Can – flottur leikur og gott að vita að hann getur leyst þessa stöðu svona vel
  Moreno – flottur leikur og ótrúlega duglegur
  Manquillo – solid leikur
  Lucas – sást ekki mikið og er það oftast hans bestu leikir
  Henderson – var eins og að hann losnaði við 10 kg lóð af bakinu, líður lang best á miðjuni og segjir mikið að maður saknaði Gerrard ekkert í þessum leik.
  Coutinho – frábær leikur og maður leiksins
  Lallana – frábær leikur en maður vissi að þetta bjó í kappanum
  Sterling – alltaf ógnandi og flottur leikur

  Eina neikvæða sem var í leiknum var þegar Sterling sló til Swansea leikmansins í restina og var það ótrúlega heimskulegt í stöðuni 4-1 að eiga það í hættu að fá leikbann. Shelvey sem var lélegasti maður vallarins í kvöld á þá líka að fá bann og það lengra ef þeir dæma Sterling.

  Rodgers – setti leikinn rétt upp. Lokaði vel á Gylfa og Bony(alltaf 2-3 menn í kringum þá þegar þeir fengu boltan) og náðum oft á tíðum að sundurspila Swansea sóknarlega.

  Flottur endir á þessu erfiðatímabili.

 11. Frábær skemmtun, góður endir á rússibanaári.

  Það er kannski að bera í bakkafullan lækinn að hrósa sérstaklega kútinum og Lallana en djöfull voru þeir flottir.

  Hendo var líka verulega drjúgur í sinni stöðu, er Gerrard að fara að hvíla meira?
  Að minnsta kosti má hann klárlega setjast oftar á bekkinn á næstu vikum og draga svo fram gamla takta inn á milli.

  Verst ef menn setjast á veskið og halda að þetta sé komið. Það þarf að styrkja aðeins.

  Nú þurfa menn að mæta Leicester með hausinn rétt skrúfaðan á og fylgja þessu eftir.
  Það myndi negla inn sjálfstraustinu sem sárlega hefur vantað.

  Eins og Agger sagði í viðtali á LTV fyrir leik, þegar það er momentum og sjálfstraust í liðinu þá mætir lukka gamla líka á svæðið og allt verður auðveldara.

  Í mörgum þessum PL leikjum er það lukkan eða ólukkan sem gerir útslagið og nú er komið að okkar lukku. Megi ólukkan flytja sig yfir á ónefnt nágrannaþorp.

  YNWA

 12. Eyþór, Henderson var reyndar með tvær stoðsendingar í dag, fyrri á Moreno og svo hornspyrnan. En fínast skýrsla og sammála öllu 🙂

 13. Flottur sigur hjá Liverpool, hvað ætli Sterling og Shelvey fái langt bann fyrir að slá til mótherja? Mig grunar 3 leiki hvor

 14. Mjög flottur leikur í kvöld og góður sigur í alla staði , vel spilaður og 4 mörk !! Coutinho langbestur , virkilega gaman að sjá hann í þessum ham. En overall flottur sigur !!

  Sterling heppinn að fá ekki rautt, hann var í hörkubaráttu við risan í vörninni í kvöld og var orðinn þreyttur og pirraður, hefði viljað sjá hann fyrr útaf fyrir Balo.

 15. Að horfa á Coutinho á sínum degi minnir mann á hversu frábær íþrótt þetta er.

 16. Sá ekki allan leikinn, en það sem ég sá af honum þá var liðið að dóminera, vá!

  Ég bjóst við einhverju miðjumoði þar til ég sá byrjunarliðið, þessi uppstilling hentar leikmönnum mjög vel – mundi gekki gera það ef Moreno og Manquillo væru ekki svona duglegir (box2box allan leikinn er það ekki?)

  Annars snilld að sjá að við erum að fá heppnina aftur með okkur í lið og spilamennskan skánar með hverjum leiknum.

 17. Fráær leikur virkilega gaman að horfa á hann takk fyrir mig Liverpool! Meira svona!

 18. Mikið er ég ánægður eftir þennan leik. Hef mikið lesið kommentin á þessari síðu í vetur og hugsað með mér, hvort að allir stuðningsmenn liverpool sem skrifa hérna á vegginn séu á aldursbilinu 13-20 ára. Það er búið að drulla yfir liðið, það á að vera búið að reka Rogers og ég veit ekki hvað. Auðvita hefur maður ekki alltaf verið sáttur við spilamenskunna en það eru nánast öll liða að strögla reglulega nema kanski City og Chelshi sem reyndar hafa verið að sýna smá brotleikamerki upp á síðkastið. Ég vil byðja menn um að vera jákvæða eftir síðustu tvær vikur. Við töpuðum óverðskuldað fyrir Man U og jafntefli við Arsenal, þar sem liðið fór loksins að sýna sitt rétta andlit. Leikurinn í kvöld var góður að mestu leiti, fyrir utan markið sem við hleyptum inn. Varðandi leikmannakaup Rodgers, þá þarf að sýna mönnum smá þolinmæði. Þá er einnig óþolandi þegar menn eru að gaspra stöðugt um það af hverju þessi og hinn spiluðu ekki í þessum og hinum leiknum. Sem dæmi voru allir voða hissa af hverju Lallana var ekki að spila um daginni eftir að hafa staðið sig vel í einum leik, spilaði ekki næstu tvo nema örfáar mínútur sem skipti maður, allir allveg vitlausir út í Rodgers en málið var að hann var með brákað viðbein. Einnig voru margir brjálaðir yfir að hann væri ekki að spila Moreno, hann hafði nú samt gefið mjög svo tvö ódýrmörk í vetur með mjög barnalegum varnaleik, hann var engu að síður að fá tækifærið í kvöld og stóð sig mjög vel. Emre Can gæti hreynlega verið varnamaðurinn sem okkur vantar þrátt fyrir að vera miðjumaður, allavegna gott að vita að hægt sé að nota hann í mörgum stöðum á vellinum. Allavegna nóg af rausi erum ekki langt frá topp 4 svo stiðjum okkar lið og verum jákvæð.
  You never walk alone

 19. Sá einungis seinni hálfleikinn. Hann var frábær og okkar besti leikur á leiktíðinni. Nú er stærsta prófið að sýna stöðugleika og spila eins í næsta leik.

 20. Örn #14 reyndar fá menn ekki assist fyrir sjálfsmörk (bara í fantasy) þannig að hann vara “bara” með eitt assist… en annars magnaður leikur maður fann bara á sér frá byrjun leiks að þetta yrði stórsigur (ekki misskilja mig ég elska Gerrard og tel hann enþá einn okkar besta leikmans) en djöfullsins rólegheit og yfirvegun virðist vera á liðinu með hendo og lucas saman á miðjunni og þessi sjúklega hreyfing á mönnum í framlínunni.. voru nánast fimm frammi í hverri sókn með þá morene og Manquillo í wing backs og svo fannst mér Markovic ná vel saman við Manquillo en Ballotelli var klárlega ekki með sjálfstraustið með sér greisstrákurinn….

 21. Horfði ekki á leikinn og úrslitin glöddu mig mikið. En þetta er bara einn leikur. Við erum ekkert að fara að tala um 4. sætið?, eða aðra “titla”. Gerum okkur bar grein fyrir því að við verðum að vinna hvern einasta leik sem eftir er tímabilsins til þess að geta grobbað yfir einhverju. BR er enn á hálumm ís og kaupin í sumar voru léleg, hvað sem einhver Rush segir hér í kommentum.

 22. Frábær sigur. Erum að ná jafnvægi og mjög spennandi tími framundan.

 23. Sælir félagar

  Ég hefi svo sem engu við frábæra skýrslu Eyþórs að bæta. Þessi leikur veitti manni mikla ánægju og er vonandi ávísun á framhaldið. Takk fyrir mig.

  Það er nú þannig

  YNWA

 24. Bíddu nú við, var ég að horfa á endursýndan leik frá síðustu leiktíð eða var þetta bein útsending?

  Mér fannst við hreint út sagt frábærir í kvöld, ekki fullkomnir en þessi leikur var stórt skref fram á við hjá okkar mönnum. Liðið hefur leikið ágætlega eftir að Rodgers setti upp þetta nýja leikkerfi en úrslitin hafa ekki verið nógu góð og herslumuninn vantað. Í dag gekk þetta frábærlega upp, við pressuðum stíft mest allan leikinn, spiluðum boltanum vel og vorum clinical.

  Það er kominn hraðinn og ákefðin sem við höfðum á síðustu leiktíð og það er mjög jákvætt að sjá, vonandi að liðið haldi dampi og verði enn betri þegar nýtt ár gengur í garð.

  Við erum fimm stigum frá 4.sætinu og keppinautar okkar um Meistaradeildarsætin eiga erfiða leiki fyrir höndum á nýársdag og vonandi verðum við komnir enn nær eftir þá umferð.

 25. #23, Kristján E held þú ættir aðeins að bíða með að dæma öll kaupinn í sumar sem léleg. Reyndar horfðir þú ekki á leikinn og sást því ekki að margir sem voru keyptir í sumar (eða eru á láni voru mjög góðir) Can, Moreno, Manqillo voru bara allveg hörku góðir og svo var Lallana maður leiksins. Einu slæmu kaupin að mínu mati voru Lovren ég er samt ekki tilbúinn að afskrifa hann. Þeir sem hafa spilað íþróttir, vita að sjálfstraust er ansi mikilvægt sérstaklega þegar spilað er á hæsta leveli, það hefur horfið hjá Lovren og fleirum en sem betur fer er það að koma til baka. Varðandi kaupinn á Balotelli, þá voru það alltaf kaup sem annaðhvort urðu góð eða slæm, því miður virðast þau vera slæm. Brendan tók áhættu og hann viðurkendi það frá degi 1. Ekki það að ég búist við miklu frá Balotelli en ég vill samt fá að sjá hann spila með Sturige.
  Verum jákvæð í garð okkar liðs.
  You never walk alone

 26. frábær leikur í alla staði…. En hvenær er von á podcasti kæru Kopparar!!!!!
  Kv… einn á podcastþörfinni 🙂

 27. Hef sagt þetta áður. Liverpool er í kappi við sjálft sig í því að ná að sýna sína raunverulegu getu. Það gerðu þeir svo sannarlega í þessum leik og ef þeir ná svona dampi það sem eftir er leiktíðar þá eru aðeins tvö lið sem mér finnst betri heldur en við. Það eru Man City og Chelsea. AÐ skipta þessu bakvarðardúet inná og setja Henderson á miðjuna og Can í vörnina -þá var eins og allt í einu þá small allt saman.
  Núna snýst þetta um stöðugleika það sem eftir er leiktíðar. Næsta markmið er því að ná að spila svona sannfærandi á útivelli. Það væru svo sannarlega skýr skilaboð til andstæðingana um að við erum komnir á siglingu.

 28. Ég held bara svei mér þá að þetta furðulega 3-4-2-1 kerfi sé að smella hjá Brendan. Það vantar bara alvöru hreyfanlegan stræker í fremstu stöðuna (Lambert og Balotelli uppfylla augljóslega ekki þau skilyrði). Virkilega gaman að horfa á liðið í svona formi.

 29. Mér er það óskiljanlegt að nokkur maður hafi viljað Shelvey rauðspjaldaðan. Líklega verðskuldaði brotið brottrekstur en, saltkjöt og baunir, það hefði skemmt leikinn. Maðurinn er skemmtikraftur, miklu frekar en knattsperkill, og hann gerir alla leiki skemmtilegri áhorfs; sjáið bara síðustu leiki liðanna sem leiddu saman hesta sína í kvöld.

  Bravó, Shelvey!

 30. held því miður að sterlingur fái langt bann fyrir hægri krókinn sinn þar sem enska knattspyrnusambandið virðist vera með einelti í gangi á lfc

 31. Er komið eitthvað áreiðanlegt slúður um nýjan markmann? Janúar að detta í garð og þessi útspörk hjá vini okkar eru ekki beint til útflutnings…eru að kosta mörk, Fabianski er til vitnis um það!

 32. Jæja þetta var hressandi og óvænt þægilegur sigur. Sannarlega kominn tími á einn slíkan og flott að enda erfiðan seinni hálfleik ársins á þessu. Margt jákvætt í dag (sem og undanfarið) sem margir hafa verið að óska eftir mest allt tímabilið.

  Ennþá er ég langt frá því að vera sannfærður um þetta leikkerfi til langframa þó svona leikur sé auðvitað meira sexy en t.d. sá síðasti. Frábært að fá bæði Can og Sakho þarna inn og það þéttir verulega varnarleikinn okkar. Can er algjör skriðdreki og rosalega spennandi leikmaður. Ég hef óskað eftir því að sjá hann sem varnartengilið allt þetta tímabil og þó hann sé ekki að spila þá stöðu þarna eru hann og Sakho að hjálpa Lucas mjög mikið. Sakho og Can hafa mikið meiri hraða en Toure og Lovren og geta hjálpað mun ofar á vellinum. Lucas er góður í skítverkunum en hefur eins og við sáum í dag nákvæmlega engan hraða. Þeir náðu nánast alveg að slökkva á Gylfa í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik og því svekkjandi að það var einmitt “okkar maður” sem skoraði þeirra mark í dag. Sakho var nú óheppinn í þeirra marki enda búinn að éta Bony í loftinu.

  Mignolet hefði alveg mátt við því að halda hreinu og verður nú svosem ekki kennt um markið en það er bara spurning hvort hann fari núna strax í janúar eða hvort við þurfum að hafa hann fram á sumar. Hann var á tímabili með um 20% heppnaðar sendingar. Tottenham, United, Chelsea og jafnvel City hafa allt of mikið forskot á okkur í þessari stöðu á vellinum.

  Reyndar þurfum við að lækka standardinn aðeins tímabundið og fagna því að Liverpool fékk bara á sig eitt mark í dag enda óraunhæft að fara fram á að fara úr því að fá á sig 2-3 mörk í leik niður í ekki neitt. Ég gæti trúað því að Mignolet og Skrtel fagni því að hafa Sakho, Can og Lucas að hjálpa sér varnarlega frekar en Toure, Lovren og Gerrard.

  Miðjan fannst mér mikið betri í dag heldur en undanfarið og vill hafa Henderson áfram þar inni sem fyrsta kost, fram yfir Gerrard líka. Hann var góður á báðum endum í dag. Kerfið var að ganga betur upp í dag heldur en í síðasta leik og mun meiri hjálp frá öllum öðrum stöðum á vellinum sem einfaldar verkefnið. Það eru ekki öll lið sem halda boltanum svona vel gegn Swansea og éta þá svona illa á miðjunni líkt og Liverpool gerði í dag.

  Moreno var mjög sprækur líka og ætti að vera okkar langbesti kostur í stöðu vinstri vængbakvarðar. Hann bauð upp á möguleika á kantinum í allann dag og teygði á vörn gestanna. Fyrsta markið var hans eign og mjög vel gert þó afgreiðslan hafi reyndar ekki verið neitt sérstök. Hann hefur aðeins minni varnarskyldur svona sem hentar vel en þessi hraði sem hann býr yfir nýtist vel bæði í vörn og sókn. Manquillo var líka góður hinumegin. Hann er varnarsinnaðari sem er líklega nauðsynlegt upp á jafnvægi í liðinu en í næsta leik myndi ég t.a.m. frekar taka Manquillo út fyrir Markovic frekar en Moreno.

  Lallana var að spila sinn besta leik í dag og þetta var að falla vel fyrir hann. Pressan var góð í fyrra markinu hans og þetta klárlega eitthvað sem er að skila sér af æfingasvæðinu. Seinna markið var síðan eitt af betri mörkum Liverpool á þessu tímabili. Þar fyrir utan réðu þeir ekkert við hann allann leikinn og hann átti stóran þátt í sjálfsmarki Shelvey. Svei mér ef við eigum ekki alvöru leikmann þarna m.v. það sem hann sýndi í kvöld.

  Besti maður vallarins og það nokkuð vel afgerandi var síðan Coutinho. Þegar hann spilar svona stoppar hann ekkert og er ennþá mjög erfitt að skilja þessar stirbusa tilraunir Rodgers með framherja fyrr á þessu tímabili. Rétt eins og á síðasta tímabili er Coutinho frábær þegar hann hefur alvöru hreyfingu fyrir framan sig. Hann er ennþá allt of óstöðugur leikmaður en það líður töluvert minni tími milli góðu leikjanna þegar hann hefur einhverja til að senda á fyrir framan sig. Næsta verk hjá honum er að bæta skotfótinn sinn svona 80% og þá erum við komin með mann í heimsklassa. Hann hefur sannarlega getuna í að verða það.

  Loksins þegar Rodgers hefur þrjá kosti að velja úr sem sóknarmenn setur hann Sterling upp á topp. Það sem hann hefði mátt gera þessa breytingu löngu áður en Liverpool féll úr leik í Meistaradeildinni blessaður maðurinn. Þetta eru engin eftirá fræði heldur eitthvað sem búið er að óska eftir síðan Sturridge meiddist. Mjög pirrandi en jákvætt að hann er loksins farinn að nota hann frammi frekar en að berja hausnum við steininn með Lambert/Balotelli einan upp á toppi leik eftir leik í leikkerfi sem hentar nánast engum. Sterling er það næsta sem við eigum (heilan heilsu) af alvöru sóknarmanni og það er hann sem skapar mest öll þau vandræði sem varnarmenn andstæðinganna eru að glíma við gegn Liverpool. Hann þarf auðvitað að bæta helling í sínum leik sem sóknarmaður en Raheem Sterling er a.m.k helmingi betri frammi heldur en Balotelli, Lambert og Borini til samans. Hann er stóra ástæðan fyrir því að sóknarleikur Liverpool er loksins farinn að líkjast því sem við sáum á síðasta tímabili.

  Mjög sáttur við þennan sigur og frammistöðu liðsins. Fannst fyrir leik eins og liðinu væri stillt upp með átta varnarsinnaða leikmenn og þrjá sóknartengiliði. Ekki spennandi á heimavelli en þetta skákaði alveg uppleggi Swansea og liðið skoraði 4 mörk. Liðið mætti spila með 11 varnarmenn inná fyrir mér ef þetta yrði alltaf raunin.

 33. versta við þennan leik er að skrtel fékk gult spjald og tryggir þar að leiðandi lovren byrjunarliðsæti í næsta leik vegna banns

 34. Enginn spurning hver er maður leiksins

  Adam Lallana’s Man of the Match performance:

  2 goals
  1 key pass
  100% (5/5) tackles won
  100% (2/2) take on success

 35. Mér fannst henderson vera frábær í kvöld og sendingin sem hann átti á sterling þegar hann skaut í stöng var geðveik. Þessi leikmaður á eftir að verða frábær fyrir okkur í framtíðini.

  Þetta er klárlega að koma hjá okkur.

 36. Litlu við þetta að bæta félagar, en loksins loksins í kvöld var virkilega gaman að sjá liðið spila. Minnti mann rækilega á síðasta tímabil og þá tilhlökkun að sjá liðið sitt spila einu sinni í viku eða sjaldnar. Man….

  Ég held samt að maður kvöldsins sé Rodgers. Í alvöru, hann fer í leikinn með 2 varnarmenn, 2 vængbakverði, 8 miðjumenn og einn markmann. Stillir upp kerfi fyrir PACE boltann sem er svo skemmtilegur. Brendan, ég ét hatt minn fyrir þig.

  Gleðilegt ár Púllarar nær og fjær, meira svona 2015 takk.

 37. #38

  Ekkert MOTD fyrir einn leik, held ég. Verður líklega með í næsta þætti.

  En hér eru highlights: http://www.reddit.com/r/footballhighlights/comments/2qr0ta/liverpool_vs_swansea_city_premier_league_29dec2014/

  Hér er leikurinn í heild sinni: http://www.reddit.com/r/footballdownload/comments/2qqxcc/request_liverpool_vs_swansea_29122014/

  Loks er svo MNF/Monday Night Football: http://www.reddit.com/r/footballhighlights/comments/2qqo01/monday_night_football_premier_league_round_18/

  Í MNF (post match) er leikurinn greindur af Carragher og Neville, ásamt viðtölum.

 38. Flottur sigur og glæsileg spilamennska. Maður hafði það á tilfinningunni að Henderson, Lucas og bakverðirnir hefðu nánast getað beðið fyrir aftan miðlínuna á meðan Lallana, Sterling og Coutinho tættu vörn Swansea í sig.
  Ég er á Skrtel vagninum öllu jöfnu, en það var hressandi að sjá Can þarna í vörninni því hann virðist í fyrstu sýn ekki vera gjarn á að sofna í miðjum leik, hreyfanlegur og sterkur.

 39. Sá þetta snilldarcomment á reddit: “Swansea will be launching a complaint, stating that the referee’s failure to send off Jonjo Shelvey affected the match’s outcome.”

 40. Sá líka á Reddit að liðið hefur bara tapað einum leik á þessu tímabili þegar Lucas hefur spilað: 1-0 á móti Real Madrid.

  Eldsnögg yfirferð yfir leikskýrslur leiðir ekki neitt í ljós sem afsannar þetta, a.m.k. ekki ef bara byrjunarliðin eru skoðuð.

  Sjálfsagt má tengja margt annað við þetta: hann hefur spilað meira núna síðustu vikur þegar liðið hefur verið að spila með 3 miðverði, Lovren með sitt óöryggi hefur lítið spilað á sama tíma, nú og svo er ekki eins og að liðið hafi verið að vinna leikina þó þeir hafi ekki tapast.

  Samt áhugavert.

 41. Ætli það verði eftirmál af atvikinu þar sem Sterling slær til Fernandes, eða þar sem Shelvy olnbogar Emre?

  Ég gef allavega Fernandes smá hrós fyrir að láta sig ekki falla með tilþrifum þegar Sterling slær í hann, heldur fór hann frá boltanum, held að Sterling hafi verið ljónheppinn í þessu atviki.

  http://www.dailymail.co.uk/sport/football/article-2890675/Raheem-Sterling-lucky-not-sent-swing-Swansea-s-Federico-Fernandez-Liverpool-s-4-1-win-say-Gary-Neville-Jamie-Carragher.html

 42. Frekari hugleiðingar – mun líklega endurbirta þær í áramótafærslu/ársuppgjöri, ef slíkt lítur dagsins ljós. Munu enda vart hljóta mikla athygli svo neðarlega í leikskýrslugrein. Er rétt að klára smá verkefni fyrir svefninn, reit þessa samantekt samhliða því.

  Mér finnst stórskemmtilegt að leikmenn sem á köflum hafa skilað stórgóðum frammistöðum séu 20 ára (Sterling, Can og Manquillo), 22 ára (Coutinho og Moreno) og 24 ára (Henderson og Sakho). Daniel Sturridge er 25 ára og Lallana 26, svo þeir tveir eru rétt að nálgast dæmigerð bestu ár knattspyrnumanna í nútímafótbolta.

  Félagið hefur m.ö.o. ekki eytt stórfé í leikmenn sem næst kannski að kreista 2-4 góð ár út úr, þá takandi massífar afskriftir/afföll sem trade-off fyrir tiltölulega þekkt og örugg gæði. Auðvitað þarf alltaf að gera sitt lítið af hverju, en þetta er samt mikið meira spennandi plan, að mínu mati, þrátt fyrir smávegis Las Vegas yfirbragð. Gríðarlega spennandi að horfa kannski á 1/3 svona kaupa skila sér, samanborið við 2/3 af MJÖG dýrum leikmönnum á toppi ferilsins. Eru þetta ekki nokkuð raunhæf hlutföll í þessu samhengi?

  Raheem Sterling er einhver allra efnilegasti ungi leikmaður heims í dag, það er ekki flóknara. Hlaut enda evrópsku “Golden Boy” verðlaunin í ár. Síðustu vikur þeirrar rússíbanareiðar sem 2013-14 tímabilið var, sýndi hann þvílík flashes af gæðum að maður hefur sjaldan séð annað eins frá 19 ára gutta; markið gegn City o.s.frv. Raheem kostaði okkur 600.000 pund + QPR fær prósentur (fjórðung, ef ég man rétt) af söluverði. Gæti reynst ein bestu kaup í sögu félagsins, hvort sem hann dokar lengi við eða fer á næstu misserum.

  Ef Philippe Coutinho spilaði jafnan eins og gegn Swansea, væri hann auðveldlega 35M punda virði (var keyptur á 8.5M). Vissulega vantar hann stöðugleika í leik sinn (og skotfótinn í lag), en það eru auðvitað engar stórfréttir með svo ungan leikmann. Þegar hann á sína bestu leiki, virðist gjörsamlega ómögulegt að ná boltanum af honum, hann líður hjá 2-3 leikmönnum eins og þeir séu ekki til staðar og gefur einhverjar fallegustu stungusendingar sem maður hefur séð. Litli Brassinn okkar!

  Ég hef lengi sagt að Adam Lallana muni “reynast okkur happafengur” (orðrétt úr athugasendum mínum síðustu mánuði). Þarna er á ferð leikmaður með frábær fundamentals, mjög skemmtilega fætur og toppklassa fótboltahaus. Ekkert unglamb, en klár í slaginn. Býr yfir rosalegri vinnusemi sem nýtist vel í pressuna. Lykilatriði að eiga svona menn á lager af Liverpool ætlar ekki að þurfa að breyta um leikstíl.

  Lazar Markovic hefur undanfarnar vikur aðeins náð að sýna hvað í honum býr. Var kastað beint út í djúpu laugina gegn Real Madrid o.s.frv. Ótrúlega naskur á spil, þríhyrninga og fleira. Hefur alla burði til að verða heimsklassaleikmaður, en á vitaskuld langt í land.

  Emre Can er þvílíkur skriðdreki; sá hann reyndar kallaðan Rolls Royce á RAWK. Við erum að tala um strák sem fór meiddur af velli með U-21 liði Þjóðverja (það kemst nú ekki hver sem er í það lið!) eftir að hafa gefið þrjár stoðsendingar í viðkomandi leik og gjörsamlega eignað sér miðjuna. Hér eru highlights af þeirri frammistöðu: http://www.101greatgoals.com/gvideos/motm-individual-highlights-liverpools-emre-can-bagged-3-assists-in-germany-u21s-8-0-win/

  Held að ég orði þetta svona: Can er bæði hrikalegur og hrikalega efnilegur. Svona leikmaður sem getur leyst 2-3 stöður á vellinum er að mínu mati gulls ígildi upp á meiðsli, róteringar og dýpt. Endar líklega sem DM eða CM, en maður veit aldrei.

  Alberto Moreno er 22 ára vinstri bakvörður sem hefur þegar fengið nokkra leiki með spænska landsliðinu (auk fjölmargra með U-21). Öskufljótur og stórhættulegur fram á við, en þarf e.t.v. að bæta sig varnarlega. Þess vegna er wingback hlutverkið mögulega mjög hentugt fyrir hann. Gæti jafnvel fetað slóð Gareth Bale og orðið vængmaður. Mikið efni og spennandi að sjá hvað verður úr stráksa.

  Daniel Sturridge er svo annað skólabókardæmi um áþekkan business. Tólf milljón pund, takk fyrir. Þjófnaður um hábjartan dag. Verst hvað blessaður drengurinn er meiðslagjarn. Það þarf að nýta hann af miklum klókindum. Verst að hann skuli margsinnis á ári lenda í klónum á risaeðlunni Woy. Annars væri maður bjartsýnni fyrir hans hönd.

  Ekki er nóg með ofantalið, heldur hafa þessir leikmenn verið að fá tækifæri undanfarið og flestir að grípa þau með ágætum. Maður myndi nú ekkert slá hendinni á móti að geta sáldrað ca 120M punda (nettó) í einum glugga í heimsklassamenn frá Real Madrid og viðlíka félögum, en sá er einfaldlega ekki veruleiki LFC í dag. Með góðum rekstri og árangri í takt, þarf það samt ekki að taka meira en örfá ár – jafnvel misseri. Ég sé enga vænlegri leið að því marki en núverandi kúrs.

  Fyrir utan þessa leikmenn á félagið svo nokkra stórefnilega í yngri liðum sínum auk nokkurra frambærilegra manna í láni hjá öðrum félögum. Glasið er klárlega hálffullt, en þá mögulega hugsandi í misserum frekar en mánuðum.

  Góðar stundir, kæru Kopverjar, og takk fyrir samfylgdina á árinu. Hlakka til áframhaldandi skemmtunar og tilfinningarússíbana á komandi ári!

 43. Besti leikur okkar manna í langann tíma. Nú er maður að kannast við liðið. Hlakka til næsta leiks!!!!!!!

  ÁFRAM LIVERPOOL!!!!!!!!!!!!

 44. #49 Flott mail hjá þér. Sérstaklega þessu: “Þegar hann á sína bestu leiki, virðist gjörsamlega ómögulegt að ná boltanum af honum, hann líður hjá 2-3 leikmönnum eins og þeir séu ekki til staðar og gefur einhverjar fallegustu stungusendingar sem maður hefur séð. Litli Brassinn okkar!”

  Held að minn uppáhaldsleikmaður Philippe Coutinho sé nú verðlagður um 25M pund og verður 60M pund eftir 2-3 ár! Glimrandi leikur hjá honum í gær. Nú hafði hann loksins marga möguleika á að gefa á fljóta menn. Flott hælsending á hinn öskufljóta Lala-la-lana sem afgreiddi boltann snildarlega í fjærhornið eftir að hafa farið framhjá 2 varnarmönnum. Sterling átti stóran þátt í markinu því hann dróg varnarmennina til sín.

  Þetta var æðislegur leikur. Maður á ekki nóg af lýsingarorðum, stórkostlegur, frábær. Flestir að spila á fullu gasi. Gaman að sjá krossana hans Hendó, Moreno nýtti sitt færi en Sterling skaut í stöng. Óheppni hjá honum. Sterling er klassaframherji. Þetta er eins og hjá Suarez fyrsta árið skýtur í stangir og markmaðurinn er að þvælast fyrir honum. Markmaðurinn er segull hjá sumum en þá er bara skjóta framhjá zoninu hans! Þetta kemur hjá Sterling.
  Mikið er vörnin að gera skemmtilega hluti. Sakho er minn uppáhaldsleikmaður þar. Sendingagetan og leikskilningurinn í fínu lagi. Stundum upphafsmaður sóknar, góð samvinna hans og Moreno. Ég ber miklar væntingar til Can, mun fljótari nú og skilaði sinni stöðu með prýði. Skrtel alltaf klassi.

  Brendan á hrós skilið fyrir liðsuppstillinguna. Kom Swansea á óvart. Stönginn inn.

  Eitt að lokum. Vona að Brendan hafi dregið Gylfa afsíðis og boðið honum að koma. Það vantar mann sem skorar úr aukaspyrnum reglulega og getur einnig sett ‘ann í vinkilinn með skoti fyrir utan vítateig. Það væri ekki heldur slæmt að hjá Blikum bættust við þær 125 kúlur sem þegar hafa fengist. Það bætist alltaf við í hvert skipti sem Gylfi er seldur!!

 45. Couthino var besti maður vallarins að mínum dómi og hreint augnakonfekt að horfa á hann spila.

  Gríðarleg batamerki á liðinu eftir að Can og Sakho komu inn í liðið. Stóri munurinn frá því fyrr í vetur er hvernig boltanum er spilað út úr vörninni. Bæði Can og Sakho eru öruggir á boltanum, góðir spyrnumenn og fljótir að leysa pressu. Þ.a.l. er boltinn kominn inn á hættusvæðið miklu fyrr og hraðar sem gefur jafn tæknilega sterkum mönnum eins og Couthino, Lallana og Sterling möguleika á að nýta styrkleika sína. Þegar Sturridge loks verður heill heilsu er þessi sóknarlína Liverpool hrein martröð að eiga við.

  Vandamálið er áfram markverðirnir. Sjaldan eru markverðir markverðir menn á ágætlega við um þá Brad og Simon.

  Það besta af öllu er auðvitað að nú lætur mann sig dreyma um að Rodgers takist að troða sokki í kjaftinn á okkur sem efuðumst um hæfni hans. Ég skal tyggja lopann með gleði.

 46. Það besta af öllu er auðvitað að nú lætur mann sig dreyma um að Rodgers takist að troða sokki í kjaftinn á okkur sem efuðumst um hæfni hans.

  Ég hef nú ekki verið á Rodgers out vagninum en sé hann ekki troða sokki upp í einn né neinn þo Lierpool fari loksins aftur að vinna leiki núna.

  Það að Liverpool sé aftur farið að spila í ætt við þann fótbolta sem liðið var að spila á síðasta tímabili er eitthvað sem flest okkar hafa beðið eftir allt þetta tímabil og eftir að Liverpool skeit á sig svona hressilega í Meistaradeildinni (og deildinni) er Brendan Rodgers ekki með neinn sokk til að troða upp í menn á þessu tímabili. Við erum í engu öðru en damage control og 4. sæti er markmiðið.

  Það að 4. sæti sé markmiðið fyrir áramót er eitt og sér töluverð vonbrigði. Frekar ólíklegt markmið meira að segja.

 47. Ég sagði nú flest það sem ég ætlaði að segja um þennan leik í skýrslunni.

  En það er engin tilviljun að liðið sé farið að spila mun betur síðustu vikurnar. Stór ástæða að baki því er Sterling á toppnum held ég, sjáið bara annað mark Lallana, hlaupið hjá Sterling dregur Rangel inn og opnar fyrir Lallana. Á stóran hluta í markinu þrátt fyrir að snerta aldrei boltann.

  Í fyrra vorum við með 3-4 að taka þessi hlaup, Suarez, Sturridge, Sterling og Coutinho. Hingað til höfum við verið með einn, og hann var á kanntinum 90% af tímabilinu hingað til. Lambert og Balotelli gera það ekki, þeir koma stutt og vilja boltann í fætur í 95% tilfella. Ekkert við þá að sakast – það er þeirra stíll og ekki það sem okkur vantaði í sumar.

 48. Frábær skýrsla og mörg góð komment hérna.

  Nokkrir punktar sem mér finnst hægt að draga út úr þessu. Í fyrsta lagi þá er það engin spurning að Sterling er okkar langbesti kostur (á meðan Sturridge er meiddur) upp á toppi. Frammistaða nýliðanna í þessum leik, Lallana, Moreno og Can er mikið gleðiefni og ég bind miklar vonir við þessa leikmenn í framtíðinni sem og Markovic. Líka frábært að sjá Coutinho í þessum ham.

  Ég elska Gerrard og hann er fyrir löngu orðinn Legend hjá okkur. Það er hins vegar staðreynd að það er farið að hægja á honum og hann dregur niður hraðann í spilinu hjá liðinu. Mér finnst ekki sjálfgefið að hann byrji leikinn nk. fimmtudag.

  Frábær sigur í gærkveldi og full ástæða til að fagna honum. Þetta tímabil er samt engu að síður so far búið að vera mjög dapurt og við erum klárlega í damage control. Allt fyrir neðan 4. sætið í lok leiktíðar væru gríðarleg vonbrigði og gæti haft alvarlegar afleiðingar í för með sér fyrir okkur upp á að halda lykilmönnum.

  Tökum samt einn leik fyrir í einu, líkt og við gerðum í fyrra. Bring on Leicester!

 49. Mundi nr2 #56

  einsog ég sagði áður þá fær maður ekki assist frá sjálfsmarki (reyndar geri maður það í fantasy annars ekki)

 50. Búið að ákæra Shelvey, fær frest til að andmæla til kl 6 á morgun. Ekkert gert í þessu hjá Sterling.

 51. Mjög furðulegt að shelvey skuli fá bara refsingu en ekki sterling en reyndar þá var aðstoðardómarinn oní þessu og horfði á hvað gerðist hjá Sterling og gerði ekkert í því og þá hefur sambandið tekið því þannig að þeir aðhafist ekkert frekar.

  En engu að síður þó ég sé ánægður að okkar maður fái ekki bann þá þykir mér furðulegt að hann hafi komist upp með þetta.

 52. #61,

  Já, þetta er virkilega vel sloppið hjá Raheem, verðskuldaði að mínu mati rautt spjald. Reglan var alltaf þannig að brot sem dómaracrewið setti í skýrslu (hafði sem sagt séð) voru utan seilingar FA fyrir eftir á refsingar. Það ákveði var veikt fyrir ekki svo löngu, en er sjaldan beitt á þann hátt (þá bara fyrir mjög slæma hluti, held ég). Grunnlógíkin er sú að þegar dómarar leiksins sjá eitthvað og ákveða að gera ekkert í því, hafi þeir tekið sína ákvörðun og reglan sé sú að þeir dæmi leiki, en ekki menn að horfa á upptökur inni á kontór.

  Annars styttist vonandi í að Raheem fái fleiri skiptingar og jafnvel að hvíla einn og einn leik. Ef Daniel Sturridge kemur heill til baka, ætti ekkert að vera því til fyrirstöðu. Ímyndið ykkur svo í framhaldi af því sama lið og gegn Swansea með Sturridge uppi á topp og Sterling í hægri wingback í stað Manquillo? Úff… 🙂

 53. Can var frábær í gær í þessari 3 manna varnarlínu.

  Hér er mögnuð tímasetning á auglýsingu á meðan á leiknum stóð.

  “The power of German engineering”

  [img]http://giant.gfycat.com/FamiliarEmptyAmberpenshell.gif[/img]

 54. Mönnum er tíðrætt um slátt Sterlings – það var vissulega fólskulegt en meira svona fálm en beinlínis högg eins og frá Shelvey. Sumir vildu sjá Sterling fara í bann. Hvernig stendur á því að Costa hafi þá ekki fengið rautt og verið ákærður í að minnsta kosti þrisvar. Hann er algjör fauti en……

  Annars frábær leikur. Liðið hefur spilað mjög skemmtilegan fótbolta þó svo úrslitin hafi ekki verið sanngjörn miðað við gang leikjanna.

  Rýnum til gagns.

  YNWA

Liðið gegn Swansea

Podcast #74 / Áramótauppgjör Kop.is – 2014