FC Basel – Allt undir á þriðjudaginn

Síðast þegar Liverpool átti svona mikið undir í lokaleik Meistaradeildarinnar var þann 8.desember 2004 nema þá voru okkar menn í ennþá verri stöðu í sínum riðli og urðu að vinna með tveimur mörkum. Basel er það lið sem stendur í vegi fyrir sæti okkar í 16-liða úrslitum núna og mögulega er þetta síðasta Meistaradeildarupphitunin í bili. Borgin þeirra á sér sögu, liðið þeirra á sér sögu og þessi lið eiga sér sögu.

Leikurinn 2002
Líklega fáum við ekki betra tækifæri til að hefna ófara okkar frá árinu 2002 heldur en einmitt núna því að rétt eins og við getum horft til draumatímabilsins 2004/05 þá er alveg eins hægt að horfa til ársins 2002 þegar Liverpool var í mjög svipaðri stöðu gegn einmitt Basel, bara á útivelli. Sá leikur var þannig að ég man ennþá hvar ég horfði á hann og gott ef það bættust ekki 40 ný blótsyrði við tungumálið það kvöld. Basel var ekkert nafn í Evrópskum fótbolta á þeim tíma og dugði þá eins og núna jafntefli gegn Liverpool til að komast áfram í 16-liða úrslit. Okkar menn sem voru klaufar tímabilið á undan að fara ekki alla leið voru í góðri stöðu.

Eftir hálftíma leik var staðan orðin 3-0 fyrir heimamenn og lausn Houllier í hálfleik var að taka afleitan Steven Gerrard af velli fyrir Salif Diao.

Já þú varst að lesa síðustu setningu rétt.

Jamie Carragher var næsta skipting útaf í seinni hálfleik fyrir El Hadji Diouf og það sem meira er þá svínvirkaði þetta, Liverpool náði að koma til baka með látum og Owen jafnaði leikinn 3-3 á 84.mínútu. Ef eitthvað er áttu okkar menn að klára þetta í restina.

Hér má sjá svipmyndir úr þessum leik frá sjónarhóli Hakan Yakin og Gerard Houllier. Gott ef ég er ekki ennþá pirraður yfir þessu.

Liverpool gerði einnig jafntefli á Anfield þetta ár og við töpuðum fyrir þeim á útivelli núna. Steven Gerrard er sá eini sem hefur spilað alla þessa leiki og það sem meira er þá hefur hann aldrei unnið Basel. Heldur betur kominn tími á að breyta þessu hjá okkar manni.

Basel
Gestaliðið kemur frá þriðju fjölmennustu borg Sviss en í þessum landamærabæ búa tæplega 200.000 manns. Borgin á landamæri að bæði Frakklandi og Þýskalandi og eru sum úthverfa borgarinnar innan landamæra Þýskalands og Frakklands. Ef allt svæðið í kring er talið með búa um 830.000 manns á svæðinu.

Fyrir tveimur árum mættu okkar menn Young Boys Bern frá Sviss og í upphitun fyrir þann leik fór ég aðeins yfir sögu og stjórnunarhætti Sviss. Þar kom m.a. fram að stærstu borgir Sviss eru ekki svo ýkja fjölmennar m.v. að þetta er 8 milljón manna þjóð en svæðin (“úthverfin”) í kring eru þeim mun fjölmennari. Þannig er þetta einnig í Basel.

Stórfljótið Rín rennur í gegnum borgina en það hefur í gegnum aldirnar gegnt mikilvægu hlutverki og eru miklir skipaflutningar allt frá Sviss í gegnum Þýskaland og niður til Hollands. Íbúar Basel tala Þýsku og er sú tegund Svissneskrar Þýsku sem þarna er töluð jafnan kölluð Basel Þýska.

Basel er mjög miðsvæðis í Evrópu og allar samgönguleiðir þangað er mjög góðar hvort sem það er úr lofti, á landi eða með skipi. Þarna hafa því margar alþjóðlegar keðjur höfuðstöðvar sínar og borgin er m.a. þekkt sem miðstöð lyfjaiðnaðarins í Evrópu, eins er þarna auðvitað blómleg bankastarfsemi sem á sér langa sögu. Borgin á sér mikla og langa sögu en er á sama tíma vel í takti við tímann og menningarlífið þar er með því líflegra í Evrópu. Lífsgæði í Sviss eru með þeim betri sem almennt gerast í heiminum og Basel ber það alveg með sér. Þetta gerir borgina t.a.m að mjög hentugum alþjóðlegum ráðstefnustað.

Basel er auk þess mjög mikil skólaborg og er þar m.a. starfræktur elsti háskóli Sviss og líklega víðar. Háskólinn í Basel var stofnaður árið 1460 eða áður en Basel varð hluti af Sviss og þar hafa margir mætir menn starfað eða stundað nám sitt. Má þar m.a. nefna félagana Paracelus sem er jafnan nefndur faðir nútíma lyfja- og eiturefnafræði og sjálfur Erasmus kom þarna við og kenndi, hann er ennþá að veita okkur styrki blessaður. Friedrich Nietzsche vann þarna einnig nokkur hundruð árum seinna.

Landfræðileg lega Basel er þannig að það kemur ekki á óvart að til eru heimildir um búsetu á þessu svæði frá því fyrir krist. Svæðið var undir stjórn hins heilaga Rómverska Keisaraveldis þar til það fékk sjálfstæði árið 1499 eftir mikla bardaga hermanna Keisaraveldisins og stríðandi fylkinga frá Sviss. Átökunum lauk með sigri þeirra Svissnesku sem hafa í gegnum tíðina verið nánst ósigrandi á heimavelli og friðarsáttmáli var undirritaður í hinni hlutlausu borg Basel. Sviss fékk við þetta ákveðið sjálfstæði frá Rómverska keisaraveldinu og Basel svæðið einnig. Tveimur árum seinna var Basel boðið að gerast ellefta kantónan í Sviss en landið er byggt upp af kantónum (einskonar sýslur) sem hefur hefur svo eigið stjórnkerfi og ákveðið sjálfstæði. Basel er eina kantónan sem hefur verið boðið að fyrrabragði að gerast meðlimur að Sviss en það var vegna landfræðilegrar legu. Basel var með góð tengsl við önnur lönd í Evrópu og hafði aðgang að kornökrum í Alsace (Frakklandi) sem voru Svisslendingum mjög mikilvægir.

Basel kantónunni var skipt í tvær kantónur árið 1833 eftir að ósætti hafði komið upp milli þeirra sem bjuggu í borginni og sátu í öllum helstu stjórnendastöðum Kantónunnar og hinna sem bjuggu í sveitinni í kringum Basel sem þó var mun fjölmennari hópur. Þessar Kantónur eiga í nánu samtarfi með margt í dag og fjórum sinnum hefur verið reynt að sameina þær aftur en án árangurs.

Basel stóð með öðrum kantónum í Sviss væri þeim ógnað hernaðarlega en partur af samningi þeirra við inngöngu var að vera hlutlaus aðili ef til átaka kæmi milli annara kantóna innan Sviss og þeir myndu þá frekar hjálpa til við að skakka leikinn. M.ö.o. Basel er hlutlaus aðili í Sviss! Meira hlutlaus er ekki hægt að vera.

Það er enda svo að stríðandi fylkingar hafa margoft útkláð sín deilumál í Basel og eins er borgin margoft valin sem fundarstaður alþjóðlegra fyrirtækja eða leiðtoga er velja þarf hlutlausan vettvang.

Hlutleysi Basel (og Sviss yfir höfuð) hefur líklega verið þeirra mesta gæfuspor í gegnum tíðina enda eru margir á því innan Svissneska hersins að Basel svæðið sé gjörsamlega óverjanlegt í hernaði. Borgin er handan Júra fjallgarðsins og liggur alveg við landamæri bæði Frakklands og Þýskalands.

Sem dæmi voru alvarlegustu atvikin í Sviss á tímum seinni heimsstyrjaldarinnar þegar flugmenn bandamanna hittu ekki á réttar borgir og létu sprengjur sínar falla í Sviss en héldu að þeir væru yfir Þýskum borgum. Öxulveldin voru hinsvegar með löndin allt í kring á sínu valdi.

Flugvöllurinn í Basel er svo mikill alþjóðaflugvöllur að hann er staðsettur í tveimur löndum, Frakklandi og Sviss. Hann er reyndar allur í Frakklandi landfræðilega en honum er skipt á milli beggja landa, annar þjónar Frakklandi og hinn Sviss. Þetta einfaldaðist mikið þegar Sviss gegn í Schengen árið 2008, þeir eru þó eins og við ekki í Evrópusambandinu.

Hvort ætlar þú að legja bíl í Frakklandi eða Swiss?

Til marks um alþjóðavæðingu borgarinnar þá eru um 35% íbúanna erlendir ríkisborgarar. Um 35% eru fæddir í Basel og 30% annarsstaðar í Sviss. Flestir eða 78% tala Þýsku, um 5,5% tala Ítölsku og aðeins rétt rúmlega 2% hafa Frönsku sem móðurmál. Margir þarna eru þó miklir tungumálamenn líklega.

Frægasti sonur Basel er án vafa Tennis stjarnan Rodger Federer en borgin er mikil íþróttaborg. Það er engu að síður knattspyrnufélag borgarinnar sem heldur þeim einna helst í umræðunni og hefur með góðum árangri undanfarin ár komið borginni rækilega á kortið. Það að slá Liverpool úr leik í Meistaradeildinni árið 2002 var ekki lítill liður í þeirri þróun.

FC Basel
Þann 12 Nóvember 1893 var sett auglýsing í Svissneskt dagblað þar sem óskað var eftir mönnum á æfingu með það að sjónarmiði að stofna knattspyrnulið í Basel, allir velkomnir. Þremur dögum seinna varð félagið til.

Félagið tók ekkert flugstart neitt í byrjun og vann sinn fyrsta titil í Sviss ekki fyrr en 60 árum seinna. En einn af fyrirliðum Basel á fyrstu árum félagsins hét Hans Gamper sem fór seinna til Katalóníu á Spáni þar sem hann stofnaði Barcelona. Búningar félaganna eru mjög svipaðir og hafa verið í gegnum tíðina og merki félaganna eru afar lík einnig og er talið að þar gæti áhrifa Gamper sem innleiddi þessa hluti frá Basel.

Basel er annað sigursælasta lið Sviss en þeir hafa átt tvö gullaldartímabil. Hið fyrra var frá 1967 til 1980 þar sem liðið vann deildina í sjö skipti. Einn af lykilmönnum liðsins á þessum árum var enginn annar en Ottmar Hitzfeld. Liðið komast í Evrópukeppni Meistaraliða á þessum árum en gekk brösulega þar og féll jafnan út í fyrstu umferð. Það breyttist reyndar tímabilið 1973-74 er Basel komst í þriðju umferð og tapaði þar naumlega. Til að komast svo langt unnu þeir m.a. sinn stærsta útisigur í Evrópu þegar Fram var lagt af velli 0-5 á Laugardalsvelli.

Heldur fór að halla undan fæti eftir sigurinn í deildinni 1980 og liðið féll 1988 og komast ekki upp aftur fyrr en 1994 og var í miðjumoði árin á eftir.

Árið 1999 var Christan Gross ráðin þjálfari liðsins en hann hafði stuttu áður eftirminnilega verið stjóri Tottenham. Nýir eigendur eignuðust liðið um svipað leiti og Gross leiddi Basel inn í nýtt gullaldartímabil. Titilinn unnu þeir loks aftur tímabilið 2001-02 eftir 22 ára bið. Reyndar unnu þeir bikarinn líka þetta ár og komust alla leið í úrslit InterToto keppninnar þar sem þeir töpuðu gegn Aston Villa af öllum liðum.

Christian Gross með allt á hreinu sem stjóri Basel

Þeir voru því á sínu fyrsta tímabili í Meistaradeildinni árið 2002 er þeir slóu Liverpool úr leik. Til að komast í riðlakeppnina höfðu þeir slegið Celtic úr leik með mörkum skoruðum á útivelli.

Þar með var Basel komið á kortið í Evrópu og hafa þeir verið nánast öllum liðum erfiðir síðan. Real Madríd var í miklu basli með þá í síðasta leik og Chelsea tapaði báðum leikjunum gegn þeim á síðasta tímabili.

Heimafyrir hefur Basel drottnað yfir öðrum undanfarin ár og hafa þeir núna unnið titilinn fimm ár í röð og eru langefstir í deildinni.

Þjálfari
Basel skipti um stjóra eftir síðasta tímabil en Murat Yakin sem var við stýrið frá 2012 stökk í peningahrúguna hjá Spartak Moskva. Murat Yakin er fæddur í Basel ásamt Hakan bróðir sínum en báðir eru þeir goðsagnir hjá félaginu og voru lykilmenn á upphafsárum þess gullaldartímabils sem nú stendur yfir hjá Basel.

Nýr stjóri er Portúgalinn Paulo Sousa sem var ráðinn í maí sl. Hann hefur þjálfað þrjú lið á Englandi en ekkert þeirra lengur en eitt tímabil. Fyrst var það QPR, þaðan fór hann til Swansea og að lokum fór hann örstutt til Leicester City. Sousa var að stýra Maccabi Tel Aviv á síðasta tímabili.

Stuðningsmenn Basel
Velgengni skapar oftar en ekki gríðarlega mikla stemmingu og Basel er sannarlega engin undantekning þar. Heimavöllurinn St. Jacob-Park tekur tæplega 40.þúsund manns og er jafnan þéttsetinn en öfugt við það sem maður hefði kannski haldið eru stuðningsmenn Basel sumir hverjir bölvaðir blábjánar og eru mun þekktari fyrir heimskuleg ólæti frekar en kröfutugan stuðning sinn.

Svona var klassinn yfir stuðningsmönnum Basel eftir sigur á Aarau þar sem liðið tyggði sér sigur í deildinni. Hversu langt ertu farinn af leið ef þú mætir með skíðagrímu á leik og fagnar titlinum með því að berja stuðningsmenn andstæðinganna? Þetta er svipað og ef KR-ingar myndu fagna titlinum í Grindavík með því að ráðast grímuklæddir á heimamenn.

Ólæti áhorfenda er reyndar meira vesen í Sviss en maður hefði haldið og spurning hvort þeir fái útrás frá þessu hlutleysi sínu á fótboltaleikjum? Stuðningsmenn Basel höfðu stuttu áður fengið bann frá leikjum í Europa League á síðasta tímabili.

Raunar voru þeir enn einu sinni á ferðinni í síðasta Meistaradeildarleik er fimm manns hlupu inn á völlinn.

Satt að segja hafa stuðningsmenn Basel verið til vandræða í langan tíma og aldrei meira en þegar Basel mætir öðru hvoru liðinu frá Zurich, Grashoppers eða FC Zurich. Það fer eftir því hvort liðið er í meiri baráttu við Basel hvort eru meiri erkifjendur.

Eitt er þó alveg ljóst, það heyrist vel í stuðningsmönnum Basel og Anfield þarf að vera í Evrópubúningnum til að þagga almennilega niður í þeim.

Yngriflokkastarf Basel
Basel hefur náð að skapa sér nafn í Evrópu fyrir gríðarlega gott yngriflokkastarf sem er grunnurinn að velgengni félagsins. Þeir bera algjörlega af í Sviss og leikmenn úr akademíu Basel eru farnir að skapa sér nafn víða um álfuna. Svissneskir landsliðsmenn eins og Alexander Frei, Marco Streller ásamt Degen bræðrunum komu úr akademíu Basel í byrjun aldarinnar en síðan hafa þeir tekið starfsemina upp á nýtt level og þróað leikmenn eins og Felipe Caicedo, Ivan Rakiti?, Zdravko Kuzmanovi?, Xherdan Shaqiri, Inler, Yann Sommer ásamt Eren Derdiyok. Frá 2001 hafa meira en 40 atvinnumenn komið úr akademíu Basel og spilað fyrir aðallið félagsins.

Hver er maðurinn?

Lið Basel
Basel hefur tapað báðum útileikjum sínum í þessum riðli, 1-5 gegn Real Madríd og 0-1 gegn Ludogorets. Þeir hafa hinsvegar sigrað síðustu fjóra leiki sem þeir hafa spilað gegn enskum liðum.

Real Madríd sigraði naumlega í Basel á dögunum með marki frá Ronaldo og mig grunar að liðið verði svipað á Anfield og það var gegn Real Madríd. Þá var það svona:
Lið Basel

Markmaðurinn heitir Tomáš Vaclík og er fæddur 1989. Hann er mjög líklega arftaki Peter Cech í landsliðinu en þessi fyrrum leikmaður Sparta Prag á 2 landsleiki nú þegar og hefur spilað með öllum yngriflokkalandsliðum Tékka.

Basel spilar jafnan með þriggja manna vörn þó túlkunaratriði sé hvernig staða Degen sé skilgreind, bakvörður eða vængbakvörður. Vinstra megin gegn Real var Behrang Safari en það er Sænskur leikmaður ættaður frá Íran sem kom frá Malmö árið 2007. Við hlið hans verður líklega Tékkneski landsliðsmaðurinn Marek Suchý sem gekk til liðs við Basel í sumar frá Spartak Moskva. Þriðji maðurinn í hjarta varnarinnar verður síðan líklega Svissneski landsliðsmaðurinn Fabian Schär en þessi 22 ára miðvörður komst í liðið árið 2012 og er mjög líklega undir smásjá stærri liða í Evrópu.

Hægri kanturinn er í eigu Philipp Degen sem var eitt sinn á mála hjá Liverpool sem rannsóknarefni og tilraunadýr fyrir sjúkrateymi félagsins. Ferill hans hefur náð ágætu flugi eftir að hann fór aftur heim til Basel. Vinstramegin og mun meira sóknarþenkjandi er ein skærasta stjarna liðsins um þessar mundir Shkëlzen Gashi en hann var markahæstur í Sviss á síðasta tímabili með Grashoppers og hefur skorað sex síðustu mörk Basel og átta mörk í átta leikjum ef allar keppnir eru taldar með. Klárlega sá leikmaður sem mestar gætur þarf að hafa á.

Djúpur á miðjunni er annar uppalin og spennandi leikmaður Fabian Frei og á hann nokkra landsleiki með Sviss. Fyrir framan Frei á miðjunni er Luca Zuffi sem gekk til liðs við Basel í sumar frá FC Thun. Pabbi hann var einnig leikmaður Basel á árum áður og landsliðsmaður Sviss. Við hliðina á Zuffi er svo landsliðmaður Egyptalands Mohamed Elneny en hann á 22 landsleiki þrátt fyrir að vera bara 22 ára. Leikmaður sem gekk til liðs við Basel fyrir síðasta tímabil.

Líklega kemur Marco Streller inn í byrjunarlið Basel m.v. leikinn gegn Real Madríd og verður á sínum stað í framlínunni. Þessi hávaxni leikmaður (1,95m) er ein mesta goðsögn í sögu félagsins enda uppalinn hjá félaginu og hefur skorað yfir 100 deildarmörk á löngum ferli. Hann komst í liðið ári 2000 og spilaði til 2004. Hann sneri svo aftur árið 2007 og hefur spilað með Basel síðan. Hann var þó ekki í liðinu sem gerði jafntefli gegn Liverpool árið 2002 enda jafnan lánaður á þessum fyrstu árum sínum hjá félaginu.

Frammi er síðan eitt allra mesta efnið í Svissneskum fótbolta og líklega bara álfunni, Breel Embolo. Hann er fæddur árið 1997 og ættaður frá Kamerún en uppalinn í Sviss. Hann skoraði í heimaleiknum gegn Ludogorets og lagði annað mark upp en þurfti að mæta helferskur í skólann daginn eftir. Leggið þetta nafn á minnið en vonum að hann skrifi það ekkert í sögubækurnar í þessum leik.

Breel Embolo í baráttu við Dejan Lovren

Það er því ljóst að þetta Basel lið veit alveg hvað það er að gera og hafa sýnt það gegn okkar mönnum áður á þessu tímabili. Á móti má alveg hafa það í huga að þetta lið er að rústa mun verri deild í samanburði við þá Ensku. Þjálfarinn þeirra er á sínum fyrstu mánuðum með félagið og þeir eru með 17 ára pjakk í framlínunni. Basel hafa ekki verið sterkir á útivelli og tapað báðum leikjunum í þessum riðli.

Mikilvægast af öllu er þó að þeir verða ekki lengur álitnir underdogs fyrir þennan leik og ef þeir eru vanir stemmingu á St. Jackob-Park þá vona ég að þeir hafi aldrei séð hvernig Bragi Brynjars og félagar ætla að taka á móti þeim á Anfield. Leikurinn gegn Real Madríd náði aldrei að verða eitt af þessum frægu Evrópukvöldum á Anfield, Ludogorets var aldrei að fara ná því. Þessi leikur hinsvegar gæti gert það. Núna er liðið með bakið upp við vegg og þarf alvöru stuðning.

Ef Liverpool nær ekki að sigra Basel í þessum leik hefur liðið ekkert að gera lengra í þessari keppni og fair play bara til Basel. Þeir hafa aldrei komist lengra en í 16 liða úrslit Meistaradeildarinnar þrátt fyrir að vera með áskrift að sæti í keppninni og góðan árangur m.v. sinn mælikvarða.


Liverpool
Brendan Rodgers tók við liði Swansea af Paulo Sousa árið 2010 er Portúgalinn fór til Leicester City. Þeir eru á svipuðum aldri og báðir með efnilegri þjálfurum í bransanum. Hvað sem öllum stuðningsyfirlýsingum líður þá er okkar maður bara undir töluverðri pressu fyrir þennan leik og spurning hvort hér sé hreinlega allt undir?

Gengi liðsins í deildinni sem og Meistaradeildinni er langt undir ásættanlegum væntingum, sama hvað hver segir og ef Liverpool er í 9. sæti í desember mun nær liðinu í neðsta sæti heldur en liðinu í 2. sæti þá er sæti stjórans alltaf heitt. Hvað þá ef liðið kemst ekki einu sinni upp úr sínum riðli í Meistaradeildinni. Brendan Rodgers er með einna lengstan starfsaldur hjá sama liði í öllum deildunum á Englandi sem segir okkur hversu reglulega lið skipta orðið um stjóra og því er ekkert út úr kú að hafa áhyggjur af stöðu Rodgers eins og staðan er núna hjá okkar mönnum, sérstaklega ef liðið vinnur ekki þennan leik.

Persónulega vill ég standa með Rodgers í gegnum þennan mótvind og það er ósanngjarnt að kenna honum um allt sem miður hefur farið í vetur. Eins held ég að FSG reki hann ekki á miðju tímabili en þessi næsta vika gæti sannarlega orðið gríðarlega stór hjá Rodgers. Liðið á leiki gegn Basel og United og má alls ekki við því að tapa stigum í hvorugum þeirra.

Rodgers hefur aðeins reynt að hrista upp leik okkar manna undanfarið, Lovren var loksins settur á ís þó fyrir hann sé bara kominn 34 ára Kolo Toure. Gerrard spilar ekki lengur alla leiki og er blessunarlega ekki lengur í stöðu varnartengiliðs. Þetta hefur þétt varnarleik okkar manna töluvert þó ekki hjálpi þetta sóknarleiknum neitt meðan hvorugur bakvörðurinn þorir ekki að sækja að neinu viti.

Stóra sárið núna og reyndar allt þetta tímabil er hinsvegar uppi á topp, ég man hreinlega ekki eftir mikið verri krísu hjá okkar mönnum en núna með Rickie Lambert þarna frammi. Hann er svo sorglega hægur að það er átakanlegt á að horfa, svei mér ef hann er ekki hægari en Emile Heskey í núverandi formi. Hann tekur alls ekki næga athygli frá varnarmönnum andstæðinganna og sóknarleikurinn með Lambert einan frammi er gjörsamlega steingeldur. Ekki hjálpar það þegar honum er ítrekað spilað allar 90 mínúturnar einn frammi með þriggja daga millibili þó alltaf sé hann sigraður fljótlega í seinni hálfleik.

Það er ekki við Lambert að sakast, hann gerir það vel sem hann á að gera og ekki vantar viljann. Hann er hættulegur þá sjaldan hann kemst í tæri við boltann í leikjum Liverpool og er blessunarlega farinn að taka þátt í mörkum okkar manna. Heilt yfir er þetta samt alls ekki nóg og mér leiðist óendanlega sóknarleikur Liverpool með styttu eins og Lambert frammi, þetta snýst voðalega mikið um það að sparka fram og vona það besta.

Það að Kolo Toure, Lucas og Lambert séu jákvæða breytingin á liðinu undanfarið segir allt sem segja þarf um það hvernig liðið var að spila. Það gerir Liverpool líka að því meðalmennskuliði sem það er orðið í dag.

Þetta er það fyrsta sem ég skrifa hér inn eftir leikinn gegn Sunderland, enn einn leikinn gegn vonlausum mótherja, nú á heimavelli, sem eiga í engum vandræðum með að loka á hugmyndasnauðan leik okkar manna. Copy/Paste af nánast öllum leikjum okkar í vetur.

Það er til lítils að stækka hópinn fyrir tímabilið, “fokka” alveg upp allri holningu liðsins og nota svo hópinn ekki þegar leikjaálagið fer að reyna á hópinn. Markovic var t.a.m. notaður í nokkrum leikjum og er svo alveg settur í frost, hví ekki að setja þennan mann með hraða mun oftar inná sem varamann? Fabio Borini er ekki einu sinni í hóp þó eini sóknarmaður liðsins sé 33 ára ættaður úr neðri deildunum og jafnan aðframkominn að þreytu. Lucas var alveg settur í frost þó Gerrard gæti ekki neitt í hans stöðu og spilaði allaf alla leiki frá upphafi til enda. Emre Can er núna á bekknum alla leiki o.s.frv.

Rodgers er aðeins farinn að nota hópinn meira undanfarið og gengið hefur aðeins skánað en að liðið hafi bara spilað einn leik sannfærandi í vetur er langt frá því að vera nógu gott og það sem verra er maður sér þetta ekkert lagast fyrr en í fyrsta lagi eftir áramót.

Það er auðvitað jákvætt þegar liðið fær ekki á sig mörk eins og í síðustu leikjum en hingað til hefur það ekki talist mikið afrek að halda hreinu heima gegn Stoke og Sunderland.

Þeir leikmenn sem voru keyptir í sumar koma vonandi einhverjir einhverntíma til en það er ekki hægt annað en dæma þennan sumarglugga með þeim allra verstu frá upphafi eins og þetta hefur nýst liðinu það sem af er vetri. Þetta er mun verra en maður óttaðist.

Svona var fyrsta byrjunarlið Rodgers í ágúst árið 2012.

Reina

Kelly – Skrtel – Agger – Johnson

Gerrard – Lucas – Allen

Downing – Suarez – Borini

Bekkur: Jones, Carragher (inn f. Downing), Adam, Shelvey, Henderson, Joe Cole (inn f. Lucas), Carroll (inn f. Joe Cole).

Þetta lið tapaði sannfærandi 3-0 gegn W.B.A. en ef ég á að segja alveg eins og er þá ég var að vonast til að lið Liverpool í desember árið 2014 yrði nú mun betra en þetta lið var. Þarna var Johnson mun ferskari en hann er núna, Lucas ekkert búinn að meiðast, Gerrard tveimur árum yngri og Suarez auðvitað frammi. Carragher, Henderson og Carroll m.a. á bekknum. Andy Carroll, dýrasti leikmaður Liverpool frá upphafi var LÁNAÐUR stuttu seinna þar sem hann passaði svo alls ekki inn í leikkerfi Rodgers. Meiðslavandræði hans síðan voru ekki vituð þá en væri afstaða Rodgers sú sama núna er hann notar Lambert einan frammi leik eftir leik? Hann er sama tegund af leikmanni og Carroll, bara eldri, hægari og lélegri. Ég er ekki að segja þetta vegna söknuðar af Carroll, mun frekar þeirrar stefnu sem gerði hann svona óvelkominn á Anfield.

Svona tippa ég á að Rodgers fari inn í leikinn gegn Basel:

Mignolet

Manquillo – Skrtel – Toure – Johnson

Lucas – Gerrard – Allen

Henderson – Lambert – Sterling

Tæki ég þá liðið 2012 allann daginn frekar.

Auðvitað hafa meiðsli Sturridge verið náðarhöggið fyrir þetta lið sóknarlega en að treysta á hann svona illa er verra. Balotelli sem hefur verið verri en enginn virðist núna ætla að næla sér í leikbann er hann kemur til baka úr meiðslum. Hann er Svartur frá Ítalíu af Gyðingaættum og þrír eldri miðaldra karlar ætla að vega það og meta hvort hann sé rasisti. Þeir eru búinir að ákæra hann og hafa unnið 99,7% af málum sínum hingað til enda skrípalingadómstóll.

Hversu ótrúlega dæmigert er þetta fyrir þetta tímabil okkar manna? M.ö.o. svarti sóknarmaðurinn sem kom í stað Suarez er líklega á leiðinni í bann fyrir rasisma innan við hálfu ári eftir að hann kom, það er ekki hægt annað en hlæja.

Vonlaus frammistaða Dejan Lovren hefur auðvitað verið áfall og ekki hjálpar það að risakaup síðasta tímabils Mamadou Sakho hefur ekkert getað leyst hann af. Eina pressan á Skrtel er frá Toure og það ætti öllum að vera ljóst núna að Simon Mignolet er ekki undir neinni pressu frá öðum markmönnum félagsins úr því ekki hefur verið skipt nú þegar.

Forráðamenn Liverpool eru að verða uppiskroppa með afsakanir fyrir þessu tímabili og maður er hættur að hlusta mikið á þær.

Spá.
Ég hef margoft sagt að ef Liverpool ræður ekki við Basel og Ludogorets á það ekkert erindi í 16-liða úrslit. Þeirri spurningu hefur verið svarað og Liverpool ræður ekki við þessi lið. Engu að síður eigum við þetta dauðafæri ennþá til að komast áfram þökk sé klaufasakap Basel manna í Búlgaríu og engu öðru. Liverpool hefur bara unnið einn leik í þessum riðli og það var í uppbótartíma gegn Ludogorets eftir mjög góða tilraun til að tapa þar stigum.

Það er ekkert sem gefur tilefni til bjartsýnni m.v. frammistöðu í þessari keppni og ég hef sannarlega þungar áhyggjur. Basel hvíldi 7 leikmenn um helgina og vann samt 6. deildarleikinn í röð. Þeir eru í mun betra standi en okkar menn sem virka mjög þungir um þessar mundir.

Leikurinn er samt á Anfield, þetta ætti að verða Evrópukvöld í anda þeirra kvölda sem hafa gert stuðningsmenn Liverpool heimsfræga og það gæti hjálpað okkar mönnum mikið. Getulega á Liverpool að vinna þennan leik leikandi og þeir hafa sýnt það áður að þeir eru sannarlega brothættir, verst að okkar menn virðast leita uppi nýjar aðferðir til að tapa stigum.

Ég óttast rosalega gríðarlegt vonbrigða 1-1 jafntefli en ætla að spá 1-0 þunglamalegum sigri, Raheem Sterling, okkar langbesti leikmaður í dag með markið.

Að því sögðu þá verð ég búinn að gleyma því í febrúar þegar Meistaradeildin hefst á ný hvernig Liverpool komst í 16-liða úrslit takist okkar mönnum að leggja Basel. Ég verð pirraður í a.m.k 12 ár aftur ef Liverpool tapar aftur svona viðuregin gegn Basel og endar í Evrópudeildinni.

Babú

54 Comments

  1. Tæplega tveir sólarhringar í þennan stærsta leik tímabilsins til þessa og um að gera að setja fókusinn á hann núna þegar maður er búinn að blása aðeins af sér vonbrigði helgarinnar. Eins gott að okkar menn landi sigri í þessum leik því ég nenni ekki að fara aftur í upphitanir fyrir leiðinlega fimmtudagsleiki í Evrópudeildinni.

    Basel er ekkert áhugaverðasta lið sem við höfum mætt og borgin þeirra er það ekki heldur og því kom smá rant um okkar menn í restina.

  2. Takk fyrir þetta Babu. Svakalega vel í lagt. Ég vil ítreka að ég vil sjá tígulinn á morgun og þetta lið:
    Jones; Moreno, Loveren, Kolo, Johnson
    Lucas, Lallana, Can, Sterling, Lambert og Borini frammi.

    Gerrard á að vera 20-25 mín leikmaður hjá okkur – ekki meira.

    Jones á alla daga að vera valinn fram yfir shaky Mignolet.

  3. Takk enn og aftur fyrir frábæra upphitun. Þessi setning grætti mig næstum því:

    “Basel er það lið sem stendur í vegi fyrir sæti okkar í 16-liða úrslitum núna og mögulega er þetta síðasta Meistaradeildarupphitunin í bili.”

    Djöfulsins andskotans klúður sem þetta tímabil er að verða; underdogs heima gegn Basel þar sem við störum fram á helvítis fimmtudagskvöldin í Evrópudeild eftir áramót, og gengið í Úrvalsdeildinni þannig að það er líklegra að ég vakni síðhærður á nýársmorgun en að Liverpool spili í Meistaradeildinni aftur að ári.

    Helvítis fokking fokk!

    Jæja, það þýðir lítið að gráta það fyrir þennan leik. Úr því sem komið er þýðir lítið annað en að framlengja drauminn aðeins lengur og klára Basel … hvernig sem menn fara að því. Ég þigg 1-0 þar sem þeir skora sjálfsmark snemma og við höngum á því út leikinn. Mér er sama þótt það sé ljótt, vinnið þennan leik bara. Fyrir sálartetur okkar stuðningsmanna, plís!

    Líst ekkert á þennan leik en er samt haldinn mikilli tilhlökkun. Þetta er Ísland í dag.

  4. Snilldarevrópupistill að vanda.

    Ég fraus aðeins þegar þú veltir upp byrjunarliðinum 2012 vs. 2014 hjá BR. Það var eins og köld tuska beint í andlitið. Undanfarið hef ég reynt að telja mér trú um það að grunnurinn hjá Liv sé svo góður að við munum fljótt ná vopnum okkar þegar þessi niðursveifla er gengin yfir. En eftir að hafa horft á liðin og hugsað þetta þá í raun er ég virkilega efins, er klúbburinn kannski bara nkvl það sem sumir hafa sagt….miðlungsklúbbur. Allavegana virðist engin eftirspurn vera eftir neinum leikmanni liðins nema þá Sterling.

    Vonum það besta á þriðjudaginn. Eitt er þó víst að ég held að menn verði að vera tilbúnir með einhverjar fleirri hugmyndir til þess að spila sóknarleik heldur en við höfum séð undanfarið. Mögulega þarf að setja pause á frystitaktíkina á borini enda glæpsamlegt að spila honum ekki í þeirri krísu sem við erum (þrátt fyrir að liðið vilji augljóslega svæla hann burt frá klúbbnum).

  5. Frábær samantekt. Kop.is stendur fyrir sínu! Vonandi að Brendan og leikmenn Liverpool taki það til eftirbreytni.

  6. Ef þessi pistill yrði þýddur á svissneska þýsku og sendur forráðamönnum Basel þá er ég nokkuð viss um að Babú nokkur fengi hið snarasta hlutlaus heiðursverðlaun fyrir merkilegt menningarframlag og eina bestu grein sem hefur verið skrifuð um fótboltaliðið Basel. (Spurning samt þetta með áhangendur Basel hvort það félli í kramið.. 🙂 )

    Takk fyrir frábæra upphitun.. auðvitað er maður með kú.. fyrirgefið .. hjartað í lúkunum fyrir þennan leik. Vonandi þarf maður ekki á handhnoði að halda þegar þessi ósköp verða yfirstaðin. Koma svo elsku knúsirúllurnar mínar þarna í borg bítlanna… gjörið svo vel og landið sigri. Ef þið vitið ekki af því nú þegar þá er því sem næst svarta myrkur hér upp á Klakanum allan sólarhringinn og geðheilsan getur bara þolað svo mikið af fótboltamótlæti.

    YNWA

  7. Spái þessum leik 0-0
    Lambert og Sterling með þessar tvær hefðbundnu marktilraunir okkar á Anfield 🙂

    Annars í mínum villtustu spái ég 1-0 – Coutinho

  8. Fràbær upphitun og í raun skuggalegt að sjà liðsuppstillinguna frà 2012 vs 2014. Liðið í dag er mun slakara og desperresjónin í að hlakka til Origi eftir fokking tæpt àr segir allt sem segja þarf. Spài 2-2 í þessum leik sem mun spilast nàkvæmlega eins og Ludo leikurinn. Lendum undir snemma leiks en komumst í 2-1 en Basel jafna à 90. Mín eftir klaufagang varnar og Migno í föstu leikatriði. Fowler minn góður làttu mig hafa rangt fyrir mèr! Videoið af stuðningsmönnum Basel er btw eitthvað það allra hallærislegasta sem èg hef à ævinni sèð.

  9. Coutinho byrjar vonandi leikinn. Þrátt fyrir gagnrýni þá hljóta hann og Sterling að fara geta spilað aðeins saman. Henderson er lykilmaður sömuleiðis. Ef Markovic myndi sýna afhverju var borgað 20 milljónir fyrir þá held ég að Liverpool geti spilað ágætis fótbolta. Lambert er auðvitað lurkur en hann er lúnkinn og ef hinir geta varist þá á Liverpool sjéns. En þetta er allt fullt af EF-um og ég er hreinlega feginn að vera ekki í skónum hans Brendan. Þetta er úrslitaleikur fyrir Liverpool sem hefur átt ca. 20 slappa leiki í röð hehe.

  10. Hef smá áhyggjur af þreytu lykilmanna eins og Sterling og Henderson, eins Lucas og Toure, og svo er stóra spurningin: hver verður frammi? Meikar Lambert enn einn leikinn með jafn stuttu millibili og nú er?

  11. Ég ætla allavega að horfa á þennan leik, en sleppa leiknum á Sjhitt-ford með HanaGal og rusli!!!!!!!!!!

    ÁFRAM LIVERPOPOL!!!!!!!!

  12. Svei mér þá ætli þessi leikur endi ekki með stórskemmtilegu 0-0 jafntefli

  13. Hreint frábær upphitun !

    Takk fyrir mig.
    :O)

    Ég vona að við hrökkvum í gang og BR komi okkur á óvart með nýrri og frumlegri taktískri snilld ! Draumar rætast í öfugu hlutfalli við lögmál Murphy´s. Þ.e. að vandamál koma upp á á versta tíma (búið!) en draumar rætast á besta tima ! (á morgun!)
    :OÞ

    YNWA

  14. Ef Liverpool spilar jafnvel og Babu “spilar” í þessari upphitun þá hef ég ekki nokkrar áhyggjur. Það er því miður ekki raunin, og eftir að hafa horft á 90 mínútna hörmung á heimavelli á móti sunderland þar sem við náðum ekki að skora þá er ég ekki mjög bjartsýnn.
    Þetta er samt Evrópukvöld á ANFIELD, og vonandi getur BR mótiverað menn fyrir þennan úrslitaleik ! Ég kaupi ekki að menn geti bara verið þreyttir fyrir svona leik.

    Ég vill GERRARD fyrir aftan TVO sóknarmenn LIVERPOOL. Var Borini skráður í CL hóp hjá okkur eða hvað ?

  15. Þökk sé okkar ástsæla stjóra er ekki von á nýjungum á morgun í uppleggi leiksins eða liðsvali.
    Hann virðist hafa passað sig á því að ofkæla menn all hressilega fyrir þennan strembna jólamánuð.
    Hvernig sem maður snýr þessu með þessa tvo sóknarmenn sem eru í boði fyrir þennan leik, þá finnst mér Rodgers hafa fyrirfram klúðrað þessu. Hann er gjörsamlega búinn að frysta Borini (sem hlýtur bara að hafa sofið hjá nýju kærustunni hans) því það er klárlega sakamál hvernig það hefur ekki verið hægt að gefa honum spilatíma frekar en að moðhausast með Lambert hverja einustu mínútu þarna frammi. Djöfullinn!!

    Ég tippa á sama liðið og gegn Stoke, nema aðeins þreyttari.
    Tap 0-2

  16. Rodgers má alveg troða sokk uppí alla og vinna þetta , En Basel munu gefa allt og meira til í þennan leik og ég tel þá líklegri til að hanga á jafntefli eða vinna þetta eins og staðan er í dag sem er vægast sagt sorgleg. EN það er enn rúm til að koma til baka og vinna þennan leik væri MJÖG gott.

  17. Það má bæta við að ef við verðum slegnir út þá mun aldeilis hitna undir sætinu hja rodgers , kanarnir eru ekkert að fara sætta sig við að vera dottnir út úr CL og í 9 sætinu eftir að hafa eitt hundruð miljonum punda í eitthverjar meðal pulsur og svo tala ég ekki um erkifíflið hann balotelli sem er að fara næla sér í leikbann fyrir eitthvað stupid shit ..FOKK ekki eins og það skipti samt eitthverju máli.

  18. Eftir smá vangaveltur þá hef ég komist að þeirri niðurstöðu að Henderson er hinn nýji Dirk Kuyt. Reyndar einungis bónus útgáfan af honum, þar sem að það virðist koma minna út úr honum en Kuyt. Mín vegna má Henderson missa sig. Hann er oft duglegur en alveg jafn oft klaufalegur. Ég hef nefnilega oft argað á sjónvarpið yfir þeim tveimur vinstri fótum sem hann hefur undir sér. Ég þori því nánast að hengja mig upp á það að Can væri betri kostur á miðjuna en Henderson!

  19. Sammál nr. 20 nema hvað Henderson er lélegri en Kuyt. Dirk Kuit skoraði þó nokkur mörk og mörg mjög mikilvæg fyrir okkur en Henderson virðist vera fyrirmunað að hitta markið.

  20. Henderson er markahæsti maður liðsins í síðustu fjórum leikjum. Það segir svo sem ekki mikið en ef einhver skal gagnrýndur fyrir að geta ekki hitt á markið er hann varla fyrsti valkostur.

    Ég spái þessum leik 1-0. Henderson skorar.

  21. Sælir félagar

    Þetta er ekki flókið. Ef BR kemur ekki með einhverja nýja hugsun inn í þennan leik með nýrri liðskipan og uppleggi þá er þetta einfaldlega tap eða í besta falli jafntefli. Þar sem jafntefli þýðir í reynd tap þá er BR kominn í verileg vandræði ef hann vinnur ekki þennan leik.

    Sá einhverstaðar hér á kopinu að fyrst Borini var uppi í stúku í síðasta leik þá þýði það að BR fær enga fjármuni til að styrkja hópinn sem hann er höfundur að. hann verði einfaldlega að seja til að kaupa. Þetta átti líka að þýða að hann er kominn að þolmörkum hjá eigendum og ef hann fellur á öllum prófum þá sé hans tími liðinn hjá klúbbnum. Ég er ekki góður í svona kremlólógíu en samt finnst mér þetta trúverðugt.

    Sem sagt BR er að berjast fyrir lífi sínu sem stjóri Liverpool. Hann verður því að hafa fleiri en eitt plan fyrir leiki og hafa þrek til að breyta uppleggi og hlutverkum leikmanna og gera afgerandi inn á skiptingar þegar leikir eru að fara í vaskinn. Til þess þarf hann að láta af þráhyggju og heimskulegum þráa sínum, taka til í hausnum á sér og hafa þrek til að taka áhættu. Þetta hefir sárlega vantað hjá blessuðum manninum en vonum hið besta.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  22. Sælir aftur

    Gleymdi að þakka Babu fyrir frábæra upphitun. Og svona í framhjáhlaupi þá var hinn margumtalaði snillingur Fonte að leggja upp mark fyrir RvP.

    Slæmt að missa af þessum snjalla varnarmanni(?!?)

    Það er nú þannig.

    YNWA

  23. Frábær upphitun! #takkBabú.

    Spái þessum leik 2-0 fyrir okkur, bæði í seinni hálfleik, fyrra úr víti (Gerrard) og ólíklegur markaskorari í uppbótartíma.

  24. Sammála öllu sem Sigkarl skrifaði.

    Ég segi að þessi leikur muni ákveða framtíð Rodgers. Ef hann sigrar ekki þá má hann taka poka sinn fyrir nýtt ár.

    Menn tala um að það sé ekkert sniðugt að að breyta um stjóra og að nýr stjóri þurfi 3-4 ár að byggja upp keppnishæft lið. Hvað er það búið að taka Van Gaal langan tíma að umturna þessu united liði? Þeir eru kannski ekkert að spila svakalegan bolta en þeir eru að ná úrslitum og eru komnir í 3 sætið.

    Þessi endalausa þrjóska og vanhæfni BR á markaðnum er orðinn óþolandi og að frysta Borini sem er eini framherjinn fyrir utan Lambert sem ekki er meiddur er fáránlegt. Hvernig haldiði að hann væri búin að standa sig ef hann fengi þessa 9-10 leiki í röð sem Balotelli fékk?

  25. Verð að segja að Rodgers er ekki nálagt því að vera rekinn hjá Liverpool. Menn trú á hugsjón og langtímaplan sem byggjist á að fjárfesta í ungum leikmönum.
    Það væri fáranlegt að reka hann og allt tal um það er að mínu mati stór skrítið.

    Ég hef fulla trú á liðinu og ég hef fulla trú á stjóranum.

    P.s sjá þetta Man utd lið í kvöld. Liðið drullar á sig á vellinum og eru næstum því þriðjabesta liðið á vellinum(ef við teljum dómaratríóið sem lið) en það nær í 3 stig gegn gangi leiksins og De Gea en og aftur að brilla(held að hann sé búinn að vinna 11 stig fyrir þá á tímabilinu). Svona er samt fótboltinn stundum falla hlutir með manni og stundum á móti og menn verða einfaldlega hafa trú á verkefninu og halda áfram.

  26. úff….ekki batnar þetta tímabil. Manjú að landa sigri á útivelli á móti Southampton. Þeir eru með 7 stiga forystu á okkur…….sjö fucking stig og við eigum útileik á móti þeim um næstu helgi.

    Well den tid den sorg. Næst er það Basel. Sammála mörgum hér að það er nákvæmlega engin ástæða til að vera bjartsýnn fyrir þann leik. Margir leikmenn okkar örmagna á meðan Basel-liðið er búið að pakka lykilmönnum í bómul fyrir þennan leik enda með c.a. 20 stiga forskot (eða eitthvað svoleiðis) á næsta lið í svissnesku deildinni. Ef BR gefur Borini ekki sénsinn í þeim leik, eða hefur hann ekki a.m.k. á bekknum, þá er eitthvað mikið að. Lambert er svo stórkostlega hægur og með svo gersamlega tóman bensíntank að það er eiginlega fyndið.

    Ég hef verið í BR klappstýruliðinu frá því hann tók við liðinu og er það enn, þ.e. ég vil alls ekki að honum verði skipt út á miðju seasoni. Það er hins vegar alveg deginum ljósara, hvort sem mér líkar betur eða verr, að það er farið að hitna verulega undir rassgatinu á honum. Ef liðið dettur út á morgun úr UCL og tapar svo á móti Júnæted um helgina………svei mér þá, er ekki viss um að hann lifi það af.

    Vil sjá BR taka áhættu á morgun. Hræra heilmikið í liðinu og gefa ungum gröðum strákum eins og Can og Markovic tækifæri. Hverju hefur hann að tapa?? Þetta verður ekki mikið verra en þetta er búið að vera undanfarið. Andstæðingurinn, Basel, for crying out loud! Það er ekki eins og við séum að mæta Barcelona eða Real Madrid! Anfield faktorinn mun gera útslagið. Vinnum þetta 2-0. Gerrard skorar bæði úr vítaspyrnum.

  27. Hvort væru menn til í að hafa Sam Allardyce á hliðarlínunni á morgun að ná í úrslit eða Brendan Rodgers?

  28. Takk fyrir frábæra upphitun!

    Spái því að við merjum þetta 2-1 og BR kaupir sér líflínu fram að leiknum við United.

    Áfram Liverpool!

  29. Sæl og blessuð

    Já þetta er eiginlega bara lurkur, allt saman. Frostavetur hjá okkur og kuldaskeið framundan að öllu óbreyttu.

    Hvar liggja hin taktísku mistök? Ekki fór á milli mála við vorum bjartsýn í sumar þegar fjölgaði í röðum og vonarstjörnurnar komu hver af annarri. Ekki sáum við það fyrir sem beið, en nú má ljóst vera að þetta var allt í senn, Ford Edsel, Betamax og Coce New.

    Okkur er þó vorkunn, með fáeinar mínútur af jútúbklippum til hliðsjónar og á þeim litu þeir margir hverjir bara ljómandi vel út. En nú erum við með sama beisik mannskapinn og í fyrra, Jónsson, Gerrard, Henderson, Kútinjó, Mignolet, Sterling, Túre, Allen … nema hvað nafni er fjarri og leikjaálagið er margfalt.

    Basel á morgun? Púff ég veit ekki. Er þetta ekki bara búið… enginn súbstans og ekkert vit í þessu.

  30. hef enga trú á liverpool lengur… lélegasta markmann ensku deildarinnar og eiginlega enginn sem getur skorað í þessu liði.. hendo og lucas eru t.d baðir hræðirlegir skotmenn og lambert er ekkert meira en miðlungsleikmaður… spái 3-0 tapi

  31. FRábær upphitun, Babu með enn einn pistilinn sem gefur þessari síðu svo mikið.

    Enn varðandi leikinn? Kemur ekki Basel Fullir sjálfstraust og hreinlega vinna okkur? Ég sé bara ekkert í spilunum að við séum að fara vinna þetta. Sá athyglisverða staðreynd í dag reyndar allveg skelfilega staðreynd um Liverpool.. Liverpool hefur 3 tilvikum átt fyrsta skot á Markramman sem dugir okkur til eiga 3 af 5 lengstu leiki sem lið hefur þurft til að eiga skot á markið… Sunderland sé versti tók okkur meira enn 60 mins. Þessi staðreynd segir meira enn 1000 orð.

    Í raun er þetta besti tímin fyrir Basel að mæta okkkur. Liverpool spilar oft á tíðum eins og hauslausar hænur ráfandi um eins og Zombies í leið til slátrunar. Ég sé bara ekkert jákvætt framundan. Holninginn-Stefnan-leikkerfi-Andinn-Heppninn Er hvergi sjáanleg hjá liverpool eins og í fyrra. Þótt liðið hafi slysast til að vinna 2 leiki og gera eitt jafntefli. Þá er þetta Basel lið sterkara enn mörg hver ensk lið! Basel tekur þetta 4-1 Aldrei í hættu hjá þeim

  32. Vinnum þennan 2-1, ég verð í Centunary stand á morgun að hvetja okkar stráka áfram ???? áfram Liverpool

  33. Ég er að spá í að breyta nafninu mínu í Svartur hér á síðunni því útlitið er svo svakalega svart. Það þarf svo mikið að breytast til að það verði eitthvað vití þessu liði að það hálfa væri nóg.

    Á síðasta tímabili þegar Liverpool var að spila hrikalega flottan bolta var maður samt mikið að ræða léleg leikmannakaup Rodgers en auðvitað kafnaði það í frábæru gengi liðsins. Kaupin hjá Rodgers í sumar sönnuðu síðan endanlega hversu arfaslakur maðurinn er þegar kemur að leikmannakaupum. Það er auðvitað hræðilegt fyrir lið í “hæsta” gæðaflokki að kaupa 9 leikmenn og enginn þeirra er að gera eitthvað af viti – þetta bara þolir enga skoðun.

    Hvernig haldið þið að færi fyrir framkvæmdastjóra í fyrirtæki sem réðin inn súpu af starfsmönnum sem allir væru með kannski 8 til 10 milljónir í vikulaun og enginn þeirra væri að valda starfinu. REKIN, REKIN, REKIN – það er nú staðreynd málsins.

    Það er ótrúlegt slys í gangi og leiðin til baka gæti orðið ansi löng og erfið og þá er ég að tala í árum en ekki mánuðum.

    Mikið rosalega vona ég að ég þurfi að éta þessi orð ofan í mig en finnst það ólíklegt.

  34. Oft þegar Liverpool er með bakið upp við vegginn og maður býst ekki við neinu af þeim
    þá allt í einu mæta þeir með blóðbragð á tönnunum og berjast um hvern einasta bolta og pressa menn um allan völl og gjörsamlega valta yfir andstæðinginn.

    Mikið ofboðslega ætla ég að vona að það Liverpoollið mæti út á völlinn í kvöld en ekki þetta hauslausa hænsapúddulið sem þóttist vera að spila fótbolta í síðasta leik.

  35. Vá, þvílík og önnur eins svartsýni. Held ég hafi sjaldan séð jafn mikið og leiðinlegt þunglyndi á þessari síðu. Og það eftir frábæra upphitun frá Babu. Sérlega gaman að fá fullt af fróðleiksmolum um andstæðinginn fyrir heimaleik.

    Svartsýnishausar: Liverpool hefur núna unnið tvo og gert tvö jafntefli í síðustu fjórum leikjum sínum. Liðið er á uppleið og getur hæglega unnið þetta Basel lið. Þótt það sé fátt sem bendir til einhverrar Suarez-spilamennsku þá ofbýður mér gjörsamlega svartsýnisrausið hérna. Eitt heppnismark gæti komið okkur áfram í þessu og það er allt og sumt sem þarf.

    Koma svo drengir, vinnum leikinn!!

  36. Frábær upphitun. Ég spái öruggum 3-0 sigur og loks sýnum okkar rétta andlit. Við erum með betri leikmenn, heimavöllinn og _munum_ vinna þetta.

    Hvernig er annars með Balotelli og þessi meiðsl? Er eitthvað concrete um hvenær maður má eiga von á honum í liðið aftur?

  37. Tek undir með Ívari Erni hér að ofan. Alveg merkilegt þetta svartsýnisraus, mikið þakka ég fyrir að þessir spekingar skuli ekki koma að því að berja liðinu bjartsýni og baráttu í brjóst.

    Þetta vinnst auðvitað, engin spurning um það, í það minnsta ekki fyrr en dómarinn hefur flautað af.

    Koma svo Liverpool!

  38. Ég ætla nú bara að vera flottur á því og spá 3-1, fjandinn hafi það ef það er ekki ástæða til að hlaupa úr sér lungun núna og berjast um alla bolta, þá hvenær?

  39. Mér sýndist eins og Borini væri í hópnum á BBC… er eitthvað komið á hreint með hópinn…?

  40. AVB til Liverpool ? Þetta er víst það heitasta í blöðunum í dag.

    Annars er ég sammála um að annað eins svartsýnis raus hef ég ALDREI séð fyrr á þessari síðu. Það mætti halda að við værum í fallsæti og dottnir úr öllum keppnum nú þegar.

  41. Það mætti halda af sumum kommentunum hér að Liverpool standi með annan fótinn í gröfinni en hinn á bananahýði! Rugl…

    Ég missi raunar af leiknum í kvöld en vitið þið kæru Púlarar mitt fótboltanef, sem sjaldan bregst, segir mér að við vinnum í kvöld.

    Ekki nóg með það; við vinnum ManU á sunnudaginn!

  42. Sumir tala hérna um Borini eins og hann sé eitthver 20 marka maður eða eh ? hann er ekki búin að geta jackshit ekkert frekar en tólið hann Balo eða Lambert þó skástur af þeim þremur.
    Sakna hanns nákvæmlega ekki NEITT.

  43. Það myndi alveg kóróna skelfilegt tímabil Liverpool að detta út gegn Basel í kvöld. Það sem myndi svo setja punktinn yfir i-ið væri mark frá Philipp Degen.

  44. Málið með Borini er:

    að þrátt fyrir að vera ekki 20 marka maður er hann þó með snefil af eldmóði sem vantar í liðið núna. Hann hleypur líka aðeins hraðar en Lambert…..

    Og virkilega vill gefa sig allan fyrir LFC sem því miður virðist ekki vera hægt að segja um alla hina snillinga sem eru núna á samningi….

    Þá hefur hann staðið sig jafnvel ef ekki betur en liðsfélagarnir í þau fáu skipti sem hann hefur fengið sjénsinn…

    Þess vegna hef ég saknað þess að hann hafi ekki fengið að uppskera eins og hann hefur verið að sá…

    Og þessi smá snefill af eldmóði og áhuga er einmitt það sem þarf í kveld….

    Og svo ég steli og stílfæri smá af klassískri setningu:
    Það er nú bara þannig
    :O)

  45. ég held að alla daga verði sterling betri kostur frammi í tígulmiðju en borini, jafnvel þó hann sé ekki tæknilega sóknamaður. Borini er ákafur, en ég sé ekki að hann verði topp sóknamaður.

    vill sjá þetta svona:
    Mignolet

    Johnson – Skrtel – Toure – Enrique

    Henderson – Lucas – Rossiter – Lalana

    Lambert – Sterling
    og þá með tígul miðju Rossiter í tíunni, það væri gama að sjá hvernig honum myndi ganga, síða skipta honum út fyrir Gerald í hafleik ef hann á vondann leik, og það verður að vera komin gerald inná fyrir sjötugustu mínutu.

    við vinnum þetta, við bara einfaldlega verðum og hananúúú…

  46. Confirmed #LFC team to face FC Basel:
    Mignolet, Johnson, Enrique, Lovren, Skrtel, Lucas, Allen, Henderson, Gerrard, Sterling, Lambert

Markalaust jafntefli gegn Sunderland.

Liðið gegn Basel