Hey Gerrard! Ayre! Brendan! Stuðningsmenn!

Hver er Steven Gerrard eiginlega? Hvað er svona merkilegt við hann? Hvað er Brendan að spá að vera alltaf að spila honum? Er þetta ekki bara einn af þessum gömlu góðu sem ætti bara að vera uppi í hillu? Af hverju spilar hann alla alvöru leiki? Hægir hann ekki bara á spilinu? Getur hann varist? Er hann í göngugrind? Á að gefa honum nýjan samning?

HELL…YEAH…

Pistillinn er búinn…

Eða hvað? Af hverju eru menn bara almennt séð að efast um þennan dreng? Nú kemur sér vel að þessi síða er BLOGG síða, því það sem kemur hér á eftir er mín skoðun og ég ætla að leyfa mér það að vera bara ósammála öllum þeim sem eru ósammála henni. Mér er nokk sama hvernig menn reikna sig út, fram eða tilbaka, ég bara get ekki séð nema eina niðurstöðu. Hvernig er hægt að komast að annarri niðurstöðu en að bjóða Stevie G nýjan samning? Peningar? Uhh, nei. Eitthvað annað? Uhh, nei. Setjum freaking vekjaraklukkuna aðeins í gang.

Hversu oft höfum við unnið enska titilinn síðan Stevie byrjaði að spila fyrir liði sitt? Einmitt.

Hversu mörg ár af síðustu 15 árum eða svo hafa allir þeir sem eitthvað vit hafa á fótbolta talið hann vera einn allra besta miðjumann heims? Einmitt.

Hvenær stökk hann á tækifærið og flutti sig yfir til liðs sem var að vinna titla reglulega? Einmitt.

Ef við horfum á fótboltann í dag og tölum um tryggð, hvaða leikmenn poppa upp í hugann hjá öllum sem eitthvað vita um fótbolta? Einmitt.

Svo eru menn bara í alvörunni að spá í það hvort eigi að bjóða þessum snillingi og LEGEND nýjan samning. Ef sá dagur kemur að ég horfi upp á það að svona gaurar fari frá félaginu og spili einhvers staðar annars staðar þessa loka metra síns ferils, þá fyrst færi ég að hugsa mig alvarlega um hvort maður væri hreinlega á réttri hillu lengur með stuðning sinn við fótboltafélag. Það myndi verða svo algjörlega þvert á allt sem þetta félag stendur fyrir að það hálfa væri hellingur. OK, ef menn telja hann ekki vera nægilega fit lengur, þá bara finna menn út úr því. Úr því sem komið er, þá á Steven George Gerrard ekki að spila eina einustu mínútu sem samningsbundinn leikmaður annars liðs en Liverpool Football Club. Flóknara er þetta ekki. Í framhaldinu skulum við svo bara rífast og skammast um hvert hlutverk hans ætti að vera akkúrat núna, á því hef ég líka sterkar skoðanir, þó ekki jafn ofboðslega sterkar eins og á þessu sem ég er búinn að fara yfir hér að ofan.

Sorry öll sem þetta lesið, ég bara verð virkilega pissed off þegar ég sé skrif eða álit þess efnis að Gerrard eigi ekki skilið að verða borgað það sem hann fer fram á. Í stóru myndinni skiptir akkúrat engu máli hvort hann sé lækkaður í launum um 50% eða ekki. Ég veit það líka fyrir víst að það er heldur ekki það sem hann er að fara fram á. Hann veit það sjálfur að hann er að fara að lækka í launum á hverju ári núna héðan í frá. Ég er reyndar alveg handviss um að þetta sé allt saman stór stormur í vatnsglasi. Síðan hvenær hafa leikmenn á þessum aldri verið farnir að ræða einhverja langtímasamninga 2 árum áður en þeir renna út? Horfum bara til “ná”granna okkar, þessa rauðu þið vitið. Hversu marga langtímasamninga gerðu þeir við Giggs? Hversu marga við Scholes? Hversu lengi héldu þeir samt áfram? Hvernig var þetta með Lampard hjá Chelsea? Terry? Á ég að halda áfram? Það er bara eins og að þetta sé að gerast í fyrsta skipti, þ.e. að menn séu ekki með kláran samning þegar byrjað er að líða á síðasta árið. Hvað þá þegar samband leikmanns og félags nær yfir 25-30 ár.

En næst kemur að umþráttunarefninu, veru hans í liðinu í dag. Það eru ansi misjafnar skoðanir uppi og hefur hann fengið ansi góðan skerf af gagnrýni. Margt af því er svo sannarlega verðskuldað, hann á sem sagt alveg jafn mikla gagnrýni skilið og hver annar, þ.e. þegar hann spilar illa. Við vitum líka alveg að Stevie er ekki lengur 25 ára gamall, það er nefninlega líffræðilega ómögulegt að vera á þeim aldri 10 ár í röð. Málið er bara það að það er samt talað um hann eins og að hann sé orðinn 85 ára gamall og hreinlega geti ekki hreyft sig. Ég fullyrði það að þrátt fyrir aldurinn, þá er hann fljótari en margur yngri maðurinn í þessari deild. Hann er ennþá algjörlega frábær sendingamaður. Við erum nefninlega alltaf að miða hann við Steven Gerrard á besta aldri, sem myndaði svo stórfenglegan dúett með Fernando Torres á sínum tíma. Þá var snerpan og krafturinn á pari við þá sterkustu og fljótustu í veröldinni. Málið er bara einfalt, þessir tveir þættir eru bara ennþá á pari við lungann af fótboltamönnum í dag og í rauninni betri en hjá þeim flestum. En hvað er þetta þá?

Þarna komum við að kjarnanum í þessu öllu saman. Stevie G hefur verið færður aftur í hlutverk varnartengiliðs hjá Brendan Rodgers, og það er augljóst mál hvað hann er að spá með því. Oft á tíðum var þetta tóm snilld, því Stevie var látinn detta djúpt, oft á milli miðvarðanna og var látinn hefja sóknir okkar manna. Þetta var að virka bara flott, alveg þar til að mótherjarnir áttuðu sig á þessu og hafa verið að setja yfirfrakka á drenginn. Með því hefur helsti kostur hans í þessari stöðu verið klipptur út og hann nýst okkur mun minna en áður. Stevie hefur aldrei verið frábær þegar kemur að þvi að vernda vörnina. Jú, hann hefur oft á tíðum notað kraft sinn, hlaupið menn uppi og komið með frábæra tæklingu og bjargað okkur. En það hefur hann gert úr stöðum ofar á vellinum. Vandamál hans sem varnartengiliðs liggur í því þegar við erum ekki með boltann, heldur þegar vernda á vörnina, gefa henni skjól. Ég er bæði viss og vongóður með það að Brendan sé að vinna í lausn á þessum málum. Þeir sem hafa verið að afskrifa Steven Gerrard geta átt sig.

GUllfiskaminni stuðningsmanna fótboltaliða er ótrúlegt og hló ég oft að því þegar ég heyrði suma Man.Utd stuðningsmenn vera að drulla yfir þá Giggs og Scholes undir lok fótboltaferla þeirra. Jú jú, menn mega alveg hafa sínar skoðanir, og meira að segja að gagnrýna leik allra leikmanna, en maður hefur orðið var við sama virðingarleysið núna gagnvart Stevie. Maður hefur meira að segja oft heyrt að hanns é ekki nægilega góður Leader og ætti hreinlega ekki að vera fyrirliði. Annað eins bull er erfitt að hlusta á, enda held ég að slíkir gagnrýnendur viti afar takmarkað út á hvað hlutverk fyrirliða gengur. Hlutverk Steven Gerrard sem fyrirliða Liverpool FC er ekki bara það að leiða liðið inn á leikvöllinn, nei svo sannarlega ekki. Hann er fyrirliði Liverpool alla daga ársins, allan tímann sem leikmenn eru á æfingasvæðinu og meira að segja allan tímann sem þeir eru ekki á æfingasvæðinu. Ég er hreinlega ekki viss um að Liverpool hafi áður haft annan eins fyrirliða áður og veit ég fyrir víst að þeir sem til þekkja hjá klúbbnum þarna úti, þeir eru sammála þeirri skoðun minni.

Stevie hefur spilað 684 alvöru leiki með Liverpool (æfingaleikir ekki taldir með) og er sem stendur þriðji leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins og á pottþétt eftir að komast upp fyrir Jamie Carragher í annað sætið (vantar 53 leiki uppá). Hann hefur skorað 176 mörk fyrir félagið og er sá sjötti markahæsti í sögu félagsins, vantar aðeins 7 mörk til að fara upp fyrir Robbie Fowler í fimmta sætið. Hann hefur verið valinn í lið ársins í deildinni í 8 sinnum síðan tímabilið 2000/2001. Á sama tíma hefur hann spilað 114 leiki fyrir enska landsliðið og skorað í þeim 21 mark. Enginn fyrirliði í sögu félagsins hefur verið jafn lengi í því hlutverki og Stevie og enginn hefur leitt sitt lið jafn oft út á leikvöllinn og hann. Ég veit hreinlega ekki af hverju ég er að telja þetta upp hér að ofan, það ættu gjörsamlega allir stuðningsmenn Liverpool FC að vita þessa hluti um Steven George Gerrard.

En á Brendan að nota hann minna? Það gæti alveg verið, ég er þó á því að Stevie sé það fit í dag og núna sérstaklega þegar hann er laus við landsleikjabullið, þá eigi bara að nota hann sé hann heill. Hann þolir alveg leikjaálag, það sýndi hann á síðsta tímabili og hann hefur sýnt það núna. Auðvitað má alveg hvíla hann í ákveðnum leikjum, t.d. eins og þessum deildarbikarleikjum sem notaðir eru til að prófa hópinn. Eins má alveg troppa Gerrard á bekkinn í stöku leikjum, hafi hann staðið sig illa. Hann er ekkert heilagur og getur alveg setið á bekk sé formið eitthvað niður hjá honum í það og það skiptið. Sættir hann sig við minni rullu inni á vellinum? Alveg örugglega, hann er Liverpool maður út í gegn og hefur haft hagsmuni félagsins að leiðarljósi. Hann er samt mjög metnaðarfullur leikmaður og vill leggja sitt af mörkum og vera í liðinu í öllum leikjum. En ég held að hann strunsi nú ekki burt í fýlu í hvert skipti. Ég væri til í að skoða hvaða stöðu Brendan lætur hann spila, væri enn og aftur til í að sjá hann framar á vellinum, í stöðunum fyrir framan djúpa miðjumanninn.

Ég reyndar mun aldrei skilja hvað stuðningsmenn annarra liða hafa svona almennt á móti fyrirliðanum okkar. Ég veit t.d. að almennt séð er mikil virðing borin fyrir eins félags manna eins og Scholes, og það langt út fyrir stuðningsmenn Man.Utd. Maður veit ekki hvort hann hefði verið þar alla tíð ef liðið hefði ekki verið jafn sigursælt og raun ber vitni. Stevie G hefur verið hollur sínu félagi, í gegnum einn svartasta tíma þess og yfir í flotta sigra. Það er heldur ekki eins og að hann hafi sofið hjá konu bróður síns, eða liðsfélaga síns. Nei, hann hefur verið góð fyrirmynd í gegnum ferilinn. Hann er mikill fjölskyldumaður, er róleg týpa og yfirvegaður. Hann átti það til á yngri árum að vera villtur inni á vellinum, farið í ljótar tæklingar, en hann hefur ekki reynt að enda feril mótherja síns vísvitandi.

Niðurstaðan? Látið Steven Gerrard fá samninginn sem hann vill og það bara helst í gær. Tryggið að þessi leikmaður spili aldrei fyrir annað félag. Notum hann skynsamlega, því hann getur vel átt 2-3 fín ár eftir. Nýtum okkur leiðtogahæfileika hans eins lengi og mögulegt er. Steven Gerrard verður þegar horft er tilbaka í sögunni, algjört LEGEND. Hey, hann er nú þegar orðinn algjört LEGEND. Í mínum huga er þessi leikmaður orðinn sá besti í sögu félagsins og mun ég berjast með kjafti og klóm gegn öllu yfirdrulli. Ég mun verða glaður með hvert ár sem hann gefur okkur stuðningsmönnum í rauðu treyjunni. Stevie…þú ert maðurinn.

29 Comments

  1. SSteinn alveg spot on með þennan pistil og svo sammála þessum orðum þínum
    (Notum hann skynsamlega, því hann getur vel átt 2-3 fín eftir)

  2. Auðvitað á hann að fá samning enda einfaldlega tímasóun að velta því fyrir sér hvort hann eigi að fá hann eða ekki. Hann þarf hinsvegar að sætta sig við minna hlutverk með árunum sem líða eins og allir leikmenn sem eldast. Hlutverk Xavi hjá Barcelona hefur t.d. minnkað umtalsvert undanfarin misseri.

    Ég væri svo alveg til í að leyfa honum að spila framar á miðjunni. Hann er í raun eini miðjumaðurinn okkar sem getur skotið tuðrunni. Þegar skottækni er klárlega akkilesarhæll manna eins og Lucas, Allen, Henderson og co. Þætti gaman að sjá hann spila framar enda stórhættulegur þegar hann nálgast markteig andstæðingsins.

  3. Þetta er svolítið margþætt og ekki hægt að ræða stöðu Gerrard í dag sem svarta eða hvíta. Það er stórt grátt svæði í þessu líka og Gerrard 34-35 ára er fyrir mér ekkert óumdeilanlegur byrjunarliðsmaður í öllum leikjum, ekki frekar en aðrir leikmenn.

    Samningur.
    Rétt eins og Steini segir þá skiptir FFP eða laun vs spilaðar mínútur engu máli þegar kemur að næsta samningi Gerrard. Ef að Gerrard vill klára ferilinn hjá Liverpool og er að óska eftir nýjum samningi þá semur FSG við hann. Ég stórefa að þetta snúist mikið um peninga hjá Gerrard á þessu stigi ferilsins þó FSG megi ekkert sína honum óvirðingu eða taka honum sem sjálfsögðum hlut, persónulega er mér alveg sama hvað hann fær í laun, hann á þau skilið.

    Hann sýndi félaginu mikla tryggð árin 2004-2006 og enn meira hræðilegu árin 2010-2013, sérstaklega fyrir þessi ár á hann skilið tryggð frá klúbbnum núna. Hann hafnaði nánast öllum stóru liðum Evrópu á tíma sem Liverpool var að missa sína bestu leikmenn. Öll þessi ár var hann alltaf okkar besti leikmaður. Reyndar held ég að það séu afskaplega fáir sem eru að mótmæla því að halda Gerrard hjá liðinu sama hvað það kostar.

    Þar fyrir utan er mikilvægt fyrir hópinn sem telur marga unga leikmenn í dag sem lítið hafa gert í boltanum að hafa eina svona lifandi goðsögn á svæðinu, uppalinn leikmann í þokkabót. Ferguson gerði þetta ágætlega hjá United þó persónulega sé ég á því að United hafi beðið 2-3 ár of lengi með að fá inn alvöru miðjumann fyrir Giggs/Scholes. Þeir virðast vera byrja frá grunni með nýja miðju eftir að þeir fóru í stað þess að hafa leikmenn fyrir sem tækju við.

    Leiktími
    Gerrard 34-35 ára á skilið nýjan samning um það er varla mikill vafi en höfum það samt alveg á hreinu að hann er ekki eilífur og þó hann komist nálægt því þá er Steven Gerrard ekki stærri en Liverpool F.C.

    FSG hafa sýnt það nú þegar að ekki einu sinni King Kenny er stærri en klúbburinn. Mestu mistök Bill Shankly var að brjóta ekki nógu fljótt upp liðið sem fyrst náði árangri fyrir hann á meðan Bob Paisley var alltaf hrósað fyrir að vita nákvæmlega hvenær vitjunartími sinna bestu manna væri komin og skipta þeim miskunarlaust út. Auðvitað mikið breyttir tímar en fræðin eru þau sömu ennþá. Það er aldrei auðvelt að skipta út stærstu stjörnunum en saga Liverpool er uppfull af vel heppnuðum svona dæmum, það kemur alltaf ný hetja á sjónarsviðið.

    Þegar við tölum um að Gerrard er ekki lengur 25 ára þá erum við að tala um að hann er ekki nærri því jafn góður núna 34-35 ára og hann var þá og hlutverk hans í liðinu á að minnka og breytast í takti við það. Eða er ég að skilja þetta eitthvað rangt?

    Hvað þetta varðar er ég ósammála þeim sem vilja hafa Gerrard í liðinu alltaf, sama hvað. Sérstaklega er ég á móti því að láta Gerrard spila 2-3 leiki á viku í þeirri stöðu sem hann spilar og satt að segja finnst mér sárt að sjá hann sem einn af okkar veikleikjum leik eftir leik. Chelsea leikurinn er nýjasta dæmið og grunar mig að aðrir varnartengiliðir fengju verri útreið fyrir svona cover fyrir varnarlínuna https://www.youtube.com/watch?v=Yag2wxPnOio

    Liverpool liðið er sorglega máttlaust á miðjunni oft á tíðum þegar það er að verjast og hreinlega öskrar á alvöru skriðdreka sem hreinsar allt upp milli miðju og varnar ásamt því að taka alvöru hjálparvörn með sókndjörfum bakvörðum Liverpool. Ef þið eruð á því að Gerrard sé besti leikmaðurinn til að skila þessu hlutverki þá gæti ég ekki verið meira ósammála.

    Þetta fer þó eftir leikjum og því finnst mér að kannski væri hægt að velja leikina betur fyrir Gerrard, hann er mjög góður gegn þeim liðum sem verjast gegn Liverpool þó þeim liðum fari fækkandi með hverjum varnarmistakaleiknum á fætur öðrum.

    Þetta minnir mig á það þegar maður var að pirra sig á því að Liverpool var að nota Mascherano og/eða Lucas í leikjum þar sem andstæðingurinn pakkaði í vörn, þá var svona ultra varnartengiliður oft ekki eins mikilvægur og hamlaði meira sóknarleiknum og þetta endaði oftar en ekki með einu stigi í leikjum sem áttu að vera nokkuð auðfengin þrjú stig. Fyrir stóru leikina var hinsvegar óhugsandi að hafa ekki svona Mascherano/Lucas týpu inná, þannig er þetta ennþá fyrir mér nema Liverpool skilur eftir opið í gegnum miðjuna oft á tíðum.

    Umræðan var svipuð í fyrra þegar Gerrard fór í þessa stöðu nema þá hrökk liðið í gang og vann nánast alla leiki og gagnrýni hljóðnaði. Núna er Gerrard árinu eldri og hefur ekki sóknarleikmenn til að hylma yfir lélegan varnarleikinn. Liverpool var á þessum frábæra kafla oftar en ekki að fá á sig 1-3 mörk. Auðvitað alls ekki Gerrard einum að kenna og ekki mál gleyma því að varnarleikur liðsins í heild var miklu betri frá fyrsta manni. Sóknarlega var Gerrard síðan frábær sem QB og borgaði þannig fyrir öll mistök varnarlega.

    Núna þegar verr gengur þarf að finna helstu veikleika og fyrir mér er varnarmaðurinn Gerrard sárgrætilega stundum þessi veikleiki. Lucas og Can gætu mögulega leyst það hlutverk sem hann spilar betur, hver veit?

    Hagi hlutverkið?
    Sóknarhæfileikar Gerrard eru mun betur faldir með Balotelli og/eða Lambert frammi en Gerrard er ennþá mikið vopn sóknarlega og þar er hann aldrei farþegi. Varnarleikurinn hefur aldrei verið einn af helstu kostum Gerrard og það hefur fyrir mér ekkert breyst með aldrinum. Hann var þó það mikill alhliða leikmaður að hann getur alveg leyst varnarhlutverk líka og hefur alltaf getað það. Það sem ég er að reyna að segja er að fyrir mér hefur hann aldrei verið í heimsklassa fyrir varnartilburði sína og ef við ætlum að keppa við þá bestu þurfum við þá bestu í hverja stöðu.

    Ef að hlaupagetan er að minnka hjá Gerrard þá finnst mér galið að setja hann í eina mestu hlaupastöðu vallarins, aftast á miðjunni. Hvað þá hjá eins sóknarsinnuðu liði og Liverpool. Ef við tökum vont dæmi og heimfærum leik Liverpool núna yfir á Swansea lið Rodgers þá er Gerrard að leysa hlutverk Leon Britton, væri hann ekki betri í hlutverki Gylfa Sig?

    Flottasta nýtingin á svipaðri tegund leikmanns var þegar Gheorghe Hagi ríkti sem konungur yfir Rúmeníu og Galatarsaray. Hann var leiðtogi liðsins, tók allar spyrnur og var hafður fremstur á miðjunni eða í holunni. Allir í liðinu höfðu miklar varnarsklydur nema hann, hans hlutverk var sóknarlega og hann var trúarbrögð hjá bæði félagsliði og þjóð.

    Það sem kom mér mest á óvart við feril Hagi hjá Galatarsaray var að hann var 31 árs þegar hann kom til þeirra og var að toppa um aldarmótin, þá 35 ára. Frekar myndi ég vilja sjá Gerrard spila svipað hlutverk hjá okkur þó það gangi auðvitað ekki upp í dag að einn leikmaður verjist sama og ekkert. Gerrard er miklu hættulegri nær markinu og gerir minni skaða varnarlega fyrir framan miðjuna heldur en fyrir aftan hana. Taka af honum þessa miklu varnarskyldu og leyfa honum að sýna frekar sýna helstu kosti. Ég get alveg tekið Hagi út og sett Frank Lampard í staðin. Hann er líklega betra dæmi og þó hann hafi alveg haft varnarskyldur þá var hann ekki djúpi miðjumaðurinn hjá Chelsea og var alltaf að skila sínum mörkum.

    Það hvort Gerrard sé okkar besti leikmaður í þessa holu stöðu er önnur umræða en ef Gerrard á að enda ferilinn hjá Liverpool sá ég hann alltaf frekar fyrir mér í svona hlutverki frekar en í vörn. Þessi skoðun hefur ekki breyst.

    Ég hef ekki skilið skort á alvöru varnartengilið hjá Arsenal síðan Flamini fór frá þeim og alltaf litið á þá stöðu eins og auglýsingaskilti fyrir helstu veikleika Arsenal. Song fór líka um leið og hann gat leyst þetta hlutverk sómasamlega. Liðin sem keyptu þá voru AC Milan sem þá var ennþá risalið og Barcelona sem var besta lið í heimi. Liverpool finnst mér vera nálgast Arsenal allt of mikið hvað þetta varðar og við höfum verið að óska eftir alvöru varnartengilið síðan Lucas meiddist. Er enginn annar Matic þarna úti? Fæst okkar höfðu heyrt á hann minnst þegar hann fór til Chelsea.

    Fyrirliðabandið.
    Ef einhver efast í alvöru ennþá um Gerrard sem fyrirliða þá hefur sá hinn sami afskaplega lítið vit á Liverpool og líklega aldrei heyrt samherja hans tala um hann. Bæði leikmenn sem eru ennþá með honum í liði og þá sem eru farnir frá félaginu. Það er bara El Hadji Diouf sem hefur hann ekki upp til skýjana og það segir allt sem segja þarf, hann er svo heimskur að hann valdi Papa Boupa Dioup framyfir Gerrard í Fantasy 11 liðið sitt yfir bestu samherja á ferlinum. Það skiptir engu hver er með bandið inni á vellinum meðan Gerrard er ennþá samningsbundinn félaginu, hann er alltaf fyrirliði félagsins. Staða varafyrirliða var nánast ekki rædd fyrr en Carragher kom upp sem annar leiðtogi liðsins. Henderson er flottur framtíðarfyrirliði og góð fyrirmynd yngri leikmanna en líklega værum við varla að tala um stöðu varafyrirliða ef Carragher hefði ekki nýlega verið leikmaður Liverpool.

    Niðurstaða
    Gerrard er ósnertanlegur hjá Liverpool og ennþá mjög mikilvægur innan sem utan vallar. Mikilvægi hans verður samt að fara minnka líkt og það gerði hjá leikmönnum eins og Giggs, Scholes og Lampard. Vilji Gerrard klára ferilinn í Ameríku eða einhversstaðar í Evrópu er það eitthvað sem við myndum virða en ALDREI hjá öðru liði á Englandi.

    Hann hefur ekki viljað fara hingað til og ég efa að hann sé eitthvað á þeim buxunum núna. Hlutverk Liverpool er að bjóða honum nýjan samning og sýna að félagið vilji halda honum áfram. Valið á að vera hans. Hann hefur oft talað um að hann vilji ekki vera farþegi og ætli að hætta þegar honum finnst hann ekki vera nógu góður, sá tími er ekki kominn.

    Gerrard sem varnartengiliður er hinsvegar eitthvað sem ég á erfitt með að kaupa í öllum leikjum og það verður ekkert auðveldara með hverju árinu sem líður. Annað 11-12 leikja run myndi þó aftur kæfa þær gagnrýnisraddir tímabundið. Ég sakna þess að hafa ekki Hamann, Mascherano eða Lucas (heill) týpu fyrir aftan miðjuna sem maður treysti fullkomlega fyrir því að hreinsa upp fyrir vörnina. Eitthvað grunar mig að Lovren og Skrtel myndu taka undir það.

    Þetta var svona mitt kalda mat og Gerrard gerir það vonandi (og væntanlega) hlæilegt í næstu leikjum. Aðalvesenið hjá mér er að hugsa mér Liverpool án Steven Gerrard. Hann er ári eldri en ég og sá “starfsmaður” félagsins sem hefur lengst verið á mála hjá Liverpool þann tíma sem ég hef fylgst með liðinu. Hann hefur verið okkar besti leikmaður nánast samfellt frá því að ég var unglingur. Steven Gerrard er leikmaður sem virkilega reynir á hugtakið um að enginn sé stærri en félagið og fær mann til að efast um það.

  4. Auðvitað á Steven Gerrard . Mikið rosalega hefur maður séð marga leikina með honum. En hann var bestur þegar hann var að skora yfir 20 mörk. Svo væri hægt að prófa hann sem spilandi þjálfa. Hann er með frábæra sendingagetu. Kannski þó ekki alveg strax.

    Fyrsti íslenski atvinnumaðurinn í knattspyrnu, Albert Guðmundsson þjálfaði Fimleikafélagið í Hafnarfirði þegar hann kom heim úr atvinnumennskunni. Albert var orðinn svolítið búttaður og alltaf með stóran vindil í munnvikinu eins og Winston Churchill forsætisráðherra Breta var svo þekktur fyrir. Albert var með þessa fínu sendingargetu, líkt og Gerrard. Þegar FH gekk ekki nógu vel í leikjunum, reimdi hann á sig skóna og fór inn í miðjuhringinn með sinn vindil og hélt sig þar. Gaf svo nákvæma bolta á framherja og kantmenn frá hringnum og FH sigraði.

  5. Sælir félagar

    Ég tek heilshugar undir með þeim (Ssteini og KAR) sem vilja halda í fyrirliðann okkar og sýna honum virðingu í hvívetna. Tryggð hans og sæmd sem fótboltamaður hefur alltaf legið hjá Liverpool. Því verður klúbburinn sð sýna sömu tryggð og sæmd og Gerrard hefur gert. Hann er orðinn spilandi goðsögn eins og Carra var og helsti munurinn á þessum tveim liggur í hæfileikunum án þess að ég sé að kasta neinni rýrð á minn mann alla daga Jamie Carragher .

    Takk fyrir þennan pistil Ssteinn og takk Steve Gerrard fyrir það sem þú hefir gert fyrir mig og alla aðdáendur fótbolta um allan heim og þó víðar væri leitað. Liverpool á að semja við manninn strax, fá honum nýtt hlutverk í liðinu eins og þeir áðurnefndir félagar tala um og lífið mun brosa við öllum. Ég meina ÖLLUM.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  6. Flottur pistill hjá þér SStein. Veit eiginlega ekki hvað er hægt að bæta við þetta eftir að Babu tók til máls. Nánast búið að koma öllu sem kemur í mínum huga fram í báðum skrifum ykkar. Gerrard er Herra Liverpool og væntanlega ekki til betri fyrirliði í dag, Eins leiðinlegt og það er þá eldist hann víst enn! Þessi maður á skilið að fá sammning og klára ferilinn hjá Liverpool ef hann vil. Rodgers þarf líka mannast upp og þora setja hann í svona Scholes/Giggs/Lampard hlutverk, Hvíla hann inn á milli og spara hann kannski fyrir stóru leikinna.

  7. Að sjálfsögðu á hann að fá samning sem tryggir hann hjá Liverpool þangað til að skórnir fara á hilluna, og eftir það á hann að fá vinnu hjá klúbbnum ef hann vill.
    Maðurinn er lifandi goðsögn og nær vonandi þeim langþráða draumi að ná þessum eina titli sem hann vantar í safnið á næstu þremur árum.

    En eins og Steini segir í pistlinum þarf svo að nota hann skynsamlega.

    Það er algert rugl að hann spili alla leiki allar 90+ mínúturnar.
    Liverpool þarf að huga að arftaka hans og það strax.

  8. Ég man ekki eftir að hafa séð nein skrif á þessari síðu þess efnis að Liverpool ætti ekki að endurnýja samninginn við Steven Gerrard. Hins vegar hef ég séð menn gagnrýna spilamennsku hans líkt og annarra vegna slæms gengis hjá liðinu og hann er jú fyrirliðinn. Ég vona að Brendan Rodgers nýti sér talent Gerrards rétt og ég er algjörlega sammála Babú í sinni frábæru færslu. Held að það sé samt komin tímamót þar sem endurskilgreina þarf hlutverk Gerrards og ég er á því að hann henti alls ekki sem DM. Held að hann ætti vera framliggjandi miðjumaður.

  9. Takk fyrir þennan pistil Ssteinn.
    Eftir rúm 40 ár í stuðningi við okkar ástkæra félag þar sem ég hef fengið að fylgja ótrúlegum snillingum og miklum sigrum þá eru tveir menn sem ég set á allra efsta stall. KD trónir þar á toppnum en SG kemur þar á eftir.
    Steven Gerrard hefur fylgt okkur gegnum súrt og sætt og er með gildin á hreinu.
    Mínútunum mun fækka eftir þetta tímabil en hann verður þarna og mun halda mönnum við efnið.
    Still going strong.
    YNWA

  10. Ég held án gríns að ég hafi ALDREI verið eins sammála nokkrum pistli eins og þessum á þessari síðu.

    Það eina sem ég væri til í að horfa til að skrifa öðruvísi er að ef að við eignumst aftur sóknarmenn sem ógna það mikið að SG fær aftur pláss fyrir quarterbackstöðuna sem hann lék í fyrra. En ef það er ekki að gerast á hann að fara ofar.

    Lykilmaður næstu tvö ár…þó að hann spili ekki alla leiki – og svo á hann alveg séns á að spila Scholes hlutverkið að koma inn í suma leiki síðar á ferlinum.

    Frábær pistill Steini!!!

  11. Algjörlega sammála Babu og spurði fyrir nokkru afhverju það mætti ekki setja Stevie framar á miðjuna með sína sendinga og skottækni. Youtube klippan hjá Babu var bara “shocking”!

  12. Sælir aftur félagar

    Ég átti að sjálfsögðu við Babu en ekki KAR í athugasemd #6 hér fyrir ofan. Mér þætti gott ef ritskoðunin vildi leiðrétta það. Annars bara góður.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  13. Gaman að lesa þetta. Ég vil allsekki láta Gerrard fara og hann á að fá nýjan samning til 2 ára en hann má stundum fara útaf ef lítið gengur með hann og eins vera á bekknum í byrjun en koma svo inná ef svo ber undir. Annað var það ekki

  14. Ég hef áður bent á það hér og er að spá í að gera þa bara aftur.
    Væri ekki besti staðurinn fyrir hann sem fremsti maður, hann spilar jú alla leiki og allar 90 mínúturnar og hann er trúlegast skotvissasti maður liðsins, í það minnsta sem fremsti maður fyrir aftan framherjana. Bara spyr.

  15. Er algjörlega sammála að Gerrard eigi að fá nýja samning. Hvað varðar DM hlutverkið hans. þá hef ég aldrei skilið hversvegna Rodgers stillir honum upp þar. Gerrard er bara ekki góður varnarlega séð og hefur aldrei sinnt því nógu vel að vernda vörnina. Hans hæfileikar nýtast framar á vellinum og er algjörlega sammála Babu í því að hann ætti að spila þetta svokallaða Hagi hlutverk.

  16. 100% sammála Steina í þessum frábæra pistli sem kemur í orð flestu því sem ég vil segja um fyrirliðann. Það yrði stórslys ef hann færi frá félaginu og ég hef enga trú á að FSG og BR láti það gerast. Haldið í manninn og notið hann þegar hann er heill því Gerrard er enn meðal þeirra bestu þó hann sé aðeins farinn að eldast.

  17. Frábær pistill og ég er sammála hverju einasta orði. Nýjann samning á manninn.
    Gerrard er mikilvægur fyrir liðið og þó að leikirnir sem hann spilar verði færri með árunum þá er hann ennþá jafn mikilvægur fyrir klefann, sérstaklega þegar liðið er orðið eins ungt og raun ber vitni.
    Ég, eins og margir aðrir, vil sjá Gerrard framar á vellinum og held að við höfum alveg menn til að taka við DM stöðunni. Þeir sem hafa eitthvað vit á Liverpool vita hvernig hugarfar Lucas hefur að geyma, hann tók auka æfingar trekk í trekk þegar hann var að ná sér af meiðslum og horfði á leiki í meiðslunum til að hafa hausinn í lagi þegar hann kæmi til baka. Persónulega finnst mér hann hafa spilað vel í þeim leikjum sem hann hefur spilað undanfarið og væri til í að sjá hann í DM stöðunni aftur. Svo er það Emre Can sem ég hélt að hefði verið keyptur inn sem DM. Ég held að ég hafi ekki séð einn leik þar sem hann er í þeirri stöðu og væri alveg til í að sjá hann prófaðann þar.
    Ef Rogers treystir hvorugum þeirra fyrir DM stöðunni held ég að það verði að kaupa öflugann mann í þessa stöðu til að vernda vörnina almennilega og þá er hægt að spara Gerrard meira og þá vonandi færa hann ofar á völlinn.

    En aftur, takk fyrir frábærann pistil eins og alltaf.

  18. Sammála pistlinum per se. Gerrard á nóg eftir sem leikmaður og vonandi verður hann starfandi fyrir félagið fram eftir öllum aldri. Drengurinn er fæddur leiðtogi og með einstaklega heilsteyptan persónuleika sem nýtist í öllum störfum.

    Hitt er annað mál að nú nálgast vandmeðfarið tímabil þ.e. þegar að augljósar breytingar eru að verða á högum Gerrards sem leikmanns. Við blasir að ekki hefur tekist að finna nýja stöðu fyrir Gerrard á vellinum. Það skrifast fyrst og fremst á Brendan Rodgers og er enn eitt dæmið um hvað stjórinn er ráðvilltur þessa leiktíðina. Afleiðingin er á hinn bóginn sú að Gerrard lítur ekki vel út og virðist á köflum útbrunninn. Það vekur upp gagnrýnisraddir sem magnar upp spennu og óánægju þar sem bakari er hengdur fyris smið. Það er augljóst að Gerrard er ekki ánægður með eitthvað og mér finnst vera spenna á milli hans og stjórans sbr. viðtal við Brendan fyrir Newcaste leikinn. Þá er einhver taktík í gangi s.s. að leka því að svo gæti farið að hann færi frá LFC um áramótin. Síðast í dag er orðrómur í gangi um að Inter hafi áhuga á Gerrard. Ítalir kunna öðrum betur að finna hlutverk fyrir leikmenn með þvílíka yfirburða tækni eins og Gerrard hefur þó að hlaupageta minnki. Pirlo er gott dæmi um það.

    En bottom line er að sjálfsögðu á Gerrard að fá nýjan samning. Punktur! Þessi strákur er gulls ígildi en á hinn bóginn er svakalegt að sjá hann verða að skugga af sjálfum sér af því að stjórinn veit ekki hvernig á að spila kappanum.

  19. Frábær pistill. Ég er sammála hverju orði, og tek svo undir frábæra viðbót Babú í ummælum. Ef Gerrard vill spila erlendis áður en hann hættir á að leyfa honum það með blessun klúbbsins en hann á ekki undir neinum kringumstæðum að spila fyrir annað enskt lið (get ímyndað mér hver viðbrögðin yrðu ef hann skoraði gegn okkur með Man City eins og Lampard gerði við Chelsea).

    Ef hann vill vera, semja við hann og ekkert kjaftæði. Ef hann vill sjá heiminn verður það mikill missir fyrir klúbbinn en hann hefur unnið sér þá ákvörðun inn.

    Hann á hins vegar ekki að þurfa að spila hverja mínútu í hverjum leik lengur og það að hann hreinlega þurfi þess ennþá er klúður af hálfu félagsins. Ef allt væri eðlilegt gætum við treyst á Henderson/Lucas/Allen/Can (eða aðra betri miðjumenn) án hans og Rodgers væri þá í þeirri lúxusaðstöðu að velja hvar og hvenær hann notar fyrirliðann sinn og hvar hann hvílir hann til að halda ferskum í stóru leikina.

    Því miður virðist þetta ekki vera staðan, Rodgers getur varla hugsað sér að spila án hans jafnvel þótt hann sé augljós dragbítur á varnarvinnunni eins og Youtube-myndbandið hjá Babú bendir vel á.

    M.ö.o.: Gerrard á að fá að klára ferilinn hjá Liverpool, óski hann þess (sem mig grunar að sé raunin) en Liverpool verður að fara að koma sér í þá stöðu að vera ekki svona háð honum.

    Ég hef trú á að þessi mál leysist vel. Hann skrifar vonandi undir samning á næstu dögum/vikum og fjandinn hafi það ef Rodgers splæsir ekki í nýjan varnartengilið í janúar eða næsta sumar (Lucas líklega þá sá sem fer í burtu í staðinn m.v. hvað Rodgers er lítið hrifinn af honum).

  20. Ég kalla eftir því að klúbburinn fjárfesti í alvöru DM eða leyfi Can eða Lucas að eiga þá stöðu.

    Okkar vantar mann fremst á miðjuna með creativity, auga fyrir spili og þennan hægri fót sem er á Stevie G. Hann og Coutinho geta skipt þessari stöðu með sér.

    Annars er ég hjartanlega sammála þessum pistli! Nýjan samning á kónginn!

  21. Enginn stærri en klúbburinn, það þíðir ekki að hafa fyrirliða sem að nennir bara að hlaupa í öðrum hverjum leik, eða taka af honum bandið og rótera honum með öðrum söknarmiðjumönnum.. Hann er bara ekki þessi hugsandi leikmaður sem að Varnarsinnaðir eldri menn v erða að vera til að geta spilað á þessum aldri. Því miður en hann var sá besti einu sinni og þvílíkur Liverpool maður..

  22. @Ben 22

    Það hefði t.d. verið magnað að fá Alex Song á láni frá Barca með möguleika á að kaupa hann. Hefur verið frábær í liði WH hingað til og verið maður leiksins í þeim leikjum sem Hamrarnir hafa þurft að verjast megnið af leiknum.

  23. djöfull væri ég til í shurrle í janúar en kemur podcast frá ykkur fyrir helgina ? 🙂

  24. Ég er sammála öllum sem segja að auðvitað eigi Steven Gerrard að klára ferilinn hjá okkur. Hann er búinn að gera svo margt gott fyrir okkur í gegnum árin að annað væri hrein og bein móðgun við hann og stuðningsmennina.

    í sambandi við stöðuna sem hann er að spila er alveg ljóst að hann er ekki að finna sig í henni. Lausnin er mjög einföld en það er að láta Lucas í þá stöðu, Hann er búinn að spila mjög vel að mínu mati í þeim leikjum sem hann hefur fengið að spila og svo má nú ekki gleyma því að fyrir þessi meiðsli sem hann er búinn að glíma við þá var hann einn af bestu mönnum liðsins. Gerrard myndi þá fara framar og myndi örugglega ganga betur í að finna sóknarmennina en þeir sem eru að reyna það í dag.

Ég skil ekkert í neinu

Kop.is Podcast #72