Fortíðarljóminn fjötur um fót?

Þegar ég les kommentin í kjölfar leikjanna okkar undanfarið þá hefur ansi mikið af þeim vísað í það að við eigum betra skilið en það sem við erum að horfa upp á og svo eru líka efasemdir manna um það hvort að stjórinn sé rétti maðurinn til að “snúa skipinu við”…

Ég velti fyrir mér þessu með að snúa skipinu við.

Mér finnst við ansi hreint vera uppfull af einskonar þjóðrembingi gagnvart liðinu okkar sem sjálfgefnu besta liði heims. Margföldum meisturum bara alveg hreint.

Árangur LFC þegar Rodgers tók við þessu skipi var þessi:

2010 (RB): 63 stig, markatalan 61-35 og 7.sætið
2011 (RH/KD): 58 stig, markatalan 59-44 og 6.sætið
2012 (KD): 52 stig, markatalan 47-40 og 8.sætið.

Þetta er það lið sem hann tók við, lið með 45,6% árangur. Hann tók ekki við gullaldarliðinu 1991 eða liðinu frá leiktímabilinu 2008 – 2009. Deildarárangurinn hingað til í vetur er 42,4% svo að hann er nú ekki svo langt frá 2011 – 2012 vetrinum í það heila.

Vorið 2012 var ákveðið af eigendum að Dalglish/Clarke/Keen combóið væri ekki hluti af framtíð félagsins þrátt fyrir fyrsta bikarinn í hús í 6 ár. Finna þyrfti yngri mann með “framtíðarsýn” og við munum öll að fleiri hundruð blaðsíðna bókin var kjarni ráðningarsamtalsins sem varð til þess að Rodgers var ráðinn.

Á meðal þess sem var rætt helst var t.d.

 • Tiki-taka eða “death by football” sem ég reyndar held að eigendurnir hafi einfaldlega ekkert pælt í sökum kunnáttuleysis um íþróttina en var því meir blásið upp af blaðamönnum.
 • Leikmannakaupanefnd sem átti að standa saman af fimm manna hópi sem stjórinn væri í. Ég satt að segja bara veit ekki hvort þessi nefnd er til og hver skipar hana, hitt er klárt að Brendan Rodgers hefur endanlegt ákvörðunarvald um alla leikmenn sem eru keyptir, svo að ég held að þessi nefnd sé ekkert merkilegri hjá okkur en öðrum liðum.
 • Hugmynd um Director of Football. Þetta sló Rodgers út af borðinu og hefur aldrei verið nefnt aftur.
 • Endurskipulagning unglingastarfsins þar sem stjóri aðalliðsins er í lykilhlutverki. Í raun ekki margt nýtt í hugmyndinni því bæði Rafa og Kenny lögðu mikið upp úr akademíunni. Ólíkt þeim samt þá fékk Brendan Rodgers leyfi til að ráða og reka alla þjálfarana sem honum sýndist. Í dag, rúmlega tveimur árum seinna hefur verið skipt um alla lykilmenn akademíunnar og í öllum tilvikum komnir menn sem Brendan valdi.
 • Þjálfarateymið var búið til úr stuttbuxna-Pascoe sem átti lag í haust sem ekki er lengur sungið og síðan kom Rodgers á óvart og réð Mike Marsh inn í sitt teymi, hann er í dag sá eini í efstu þremur liðunum sem var í þjálfarastarfi sumarið 2012.

Þessir fimm punktar hér að ofan eru þess eðlis hjá mér að minna mig reglulega á að…

…Liverpool FC ákvað 2012 að leggja af stað í nýja vegferð!!! Ég er á þeim aldri að muna eftir árum þar sem einn bikar þótti rýr uppskera. En ég man líka Souness/Evans tímann sem var samfelld vonbrigði enda stendur hún mér nær, svo kviknaði stutt von í þrjú tímabil undir Rafa en síðan þá er auðnin ein og leiktímabilin þrjú sem ég minni á hér að ofan voru algerlega ömurleg og bara ekkert merkilegri hjá okkar klúbbi en Newcastle, Everton eða Tottenham svo dæmi séu nefnd.

Það má enginn misskilja mig á þann hátt að ég sé ekki stoltur af fyrri sigrum. En á síðustu 20 árum höfum við þrisvar verið í topp tveimur sætunum. Hin 17 árin oft verið utan við topp fjóra. Það er ekkert í okkar DNA sem gefur okkur einhvern Guðs gefinn rétt til að ríkja yfir öðrum og við þurfum að hafa jafn mikið fyrir því að vinna leiki eins og Stoke, QPR eða Hull City.

Mér finnst ekkert sorglegra heldur en að hlusta á lýsingar þess hvað allt var frábært “hérna einu sinni”. Eiginlega sama í hvaða lífsformi það er, hvað þá hjá fyrirtækjum. Þegar veitingastaður, flugfélag, fiskiskip eða fótboltafélag vill helst tala um hvað það “hafi verið frábært” og er upptekið af þeirri staðreynd finnst mér það sterk vísbending um hvað erfitt er í núinu og hvursu lítil framtíðarsýnin er.

Oft er talað um það að fótbolti sé ekki þolinmóð starfsgrein og það má bara vel vera…eða hvað. Ég veit ekki hvað lið eins og t.d. Borussia Dortmund, Stjarnan eða Atletico Madrid myndu segja við því? Ef við tökum bara íslenska dæmið þá er skyndilega sprottið fram besta fótboltafélag landsins, ég man ekki hvort KR tókst einhvern tíma að vinna bæði hjá körlum og konum en það tókst hjá Stjörnunni í sumar.

Sigurhefð þessara þriggja liða hefur orðið til með þolinmæði og stefnumörkun til langs tíma, misjafnt “input” þjálfara auðvitað, en lykilþátturinn er stefnumörkunin og að allir rói í sömu átt. Ekki síst skiptir þar öllu máli að allir horfi framfyrir skipið til að taka á því hvað er framundnan en hlaupi ekki aftur í skut þegar aldan brotnar á stefninu, sitji þar og rói fram í ráðið þusandi um síðustu veiðiferðir og að skipstjóranum sé allt að kenna.

Stundum er sagt að við séum öfunduð af sögunni. Því hef ég ekkert alveg trúað alla tíð, því í dag öfunda ég stuðningsmenn liða sem vinna allt. Í gær datt ég alveg niður á það að vilja eignast “sykurpabba” til að liðið mitt verði sem fyrst samkeppnishæft og ég skil alveg þær raddir sem hafa fengið nóg.

Enda munum við örugglega betur tímann frá maí 2009 til maí 2012.

Þegar Rodgers tók við var sko ekki sjálfgefið að stjórar kepptust um stöðuna okkar og á þeim tíma og síðar hafa ótal nöfn sagt nei við því að klæðast búningnum. Upp á síðkastið hefur verið talað um að “treyjan sé þung” og látið eins og það sé bara gott. Það finnst mér ekki gott.

Liverpool Football Club er frábært félag…það vitum við öll. En ef að við teljum að fortíðin hjálpi okkur þá erum við á rangri leið að mínu mati. Sú leið hefur endað óskaplega illa hjá mörgum félögum sem hafa talið liðsbúninginn eða merkið skila einhverju. Spyrjið bara Leeds-ara, AC Milan menn þessa dagana eða vini mína Framara.

Mér finnst umræða um það að Rodgers sé ekki rétti maður til að “snúa skipinu við” benda til þess að við höfum pínulítið misst sjónar af stöðunni eins og hún var í maí 2012 þegar hann fékk stýrið í sínar hendur. Efasemdir um hann eru fyllilega skiljanlegar þrátt fyrir að ég vilji enn að hann haldi um stýrið. En það er ósanngjarnt að láta eins og hann hafi tekið við gljáfægðum spíttbát algerlega tilbúnum að rjúka af stað í átt að sólarlaginu.

Hann fékk hriplekt skip í hendur þar sem áhöfnin var sitt úr hverri áttinni og hafði þurft að skipta oft um kúrs, meðbyrinn frá í fyrra var kannski því að við áttum smá “ofur-bensín” sem gat nýst í beinu innspýtinguna en það bensín kláraðist. Fullt af nýjum hásetum voru teknir um borð í sumar og verið að brýna þeim framtíðarsýnina. Þeir ná litlum tökum í ólgusjónum núna og skipstjórinn verður að finna kúrsinn fram á við.

Hann græðir ekkert að líta til baka, ekki til maí 2014 einu sinni – hvað þá lengra.

Ég vona að við hættum að tala um aflann sem þetta skip fékk hérna einu sinni og horfum bara á það hvað mun veiðast í nútíðinni og framtíðinni. Því það að ergja sig á að ná ekki “fyrri hæðum” er pínulítil skekkja í hugsanagangi…þar sem við hugsum út frá því hvað okkur langar…en ekki byggð á raunstöðu félagsins okkar síðustu tíu ár svo dæmi sé tekið.

56 Comments

 1. Enginn er ómissandi. Brendan Rodgers þarf að velta því fyrir sér. Það á við um alla leikmenn. Það er búið að flækjast fyrir honum síðan tímabilið byrjaði.

 2. Sælir félagar

  Takk fyrir þetta Maggi, ágæt hugvekja og þörf svo sem. Ég vil þó benda á að hald mitt er það að þeir séu mjög fáir sem vilja reka stjórann vegna þeirrar glýju sem síðasta leikár setur í augu manna. Getur verið að það sé bara öfugt? Að þeir sem vilja halda honum séu með glýju frá síðasta ári? Ég bara spyr.

  Af kommentum undanfarinna leikja má ráða að þeir séu mjög fáir sem vilja reka BR hér og nú. Hitt er annað, sem er eðlilegt, að hann liggur undir gagnrýni enda er árangur liðsins frekar dapur svo ekki sé meira sagt. Staða liðsins væri enda öllu verri en ella ef lið eins og Tottenham, Everton, Arsenal, MU og svo mætti áfram telja væru ekki líka að gera frekar dapurt mót fram að þessu.

  Að gera kröfur á að liðið standi sig betur í samræmi við sögu þess er eðlilegur. Sú afstaða kallast metnaður fyrir hönd þess liðs sem á glæsta sögu. Ef ekki er gerð eðlileg krafa til þess að liðið standi undir þeim væntingum sem til þess eru gerðar þá er ekki úr háum söðli að detta.

  Þá verður liðið í miðjumoði og inn á milli í fallbaráttu og allir bara ánægðir með unna leiki og sætta sig við töp fyrir stóru liðunum. Viljum við vera í þeim pakka. Nei takk, ekki ég og ég fullyrði að flestir fylgismenn liðsins eru mér sammála.

  Það er rétt að ekkert lið lifir á sögunni einni saman. En hún er órjúfanlegur hluti þess. Hluti af sjálfsmynd stuðningsmanna og gerir það að verkum að þeir sem að klúbbnum koma þurfa að skila árangri til að menn sætti sig við framleg þeirra.

  Við viljum ekki að liðið okkar teljist ekki “eitt af þeim stóru”. Við viljum vera lið sem önnur lið óttast að tapa fyrir. Við viljum vera lið sem er í baráttu um titla. Ef þú Maggi telur að það sé ósanngjörn krafa, óraunsæ hugmynd og bjánaskapur þá telur þú líka að liðið eigi bara að vera til bara til að vera til. Búið. Engar kröfur um árangur. Ekkert.

  Ég er ekki að segja að þú gerir það Maggi og hafir engan metnað fyrir hönd liðsins. Ég veit betur. En samt – að segja að saga liðsins og árangur í gegnum tíðina eigi ekki að spila inn í þær kröfur sem gerðar eru ferðu villur vegar.

  Eins og ég áður hefi nefnt þá held ég að mjög fáir sem íhuga stöðu liðsins í alvöru viji að BR sé rekinn. Samt vilja menn að hann skili árangri og sýni fram á að hann sé rétti maðurinn til að leiða þetta lið á þann stall sem sagan krefst, sem stuðningmenn krefjast, sem þetta lið á að vera á.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 3. Einhverstaðar stendur að sagan sé skrifuð af sigurvegurum. Í fótbolta getum við horft til liða eins og Bayern, Real eða Ajax svo einhver dæmi séu tekin um slík lið. Ég leyfi mér að efast um að þessi lið, þeir sem stjórna þar eða stuðningsmenn þeirra séu ekki hreyknir af sögu liðanna og þeim árangri sem þau hafa náð, óháð því hvort horft er ár eða áratugi aftur í tímann. Að sama skapi finnst manni sú saga ekki vera einhvers konar akkeri um háls þessara liða heldur mun frekar hvati til að gera betur næst. Enda hafa þau oftar en ekki staðið undir þeim væntingum sem stuðningsmenn og aðstandendur gera til þessara klúbba, óháð því hvort á bakvið þá séu einstaka sterkir fjárhagslega vel stæðir einstaklingar eða önnur tekjulind.

  Ef við ætlum að bera okkur saman við þessi lið (er það ekki það sem við erum að gera með því að komast í CL?) er til eitthvað nærtækara en að horfa til þess tíma þegar Liverpool var á sama stalli og þessi lið?

  Mér finnst þetta allt spurning um það hversu miklum árangri við viljum ná, hvar ætlum við að setja markmiðið. Er árangurinn síðustu 10 árin það sem við ætlum að vera að miða við, eða horfum við á það besta sem við höfum náð og miðum okkur við það? Ef við horfum til síðustu 10 ára, þá skil ég ekki af hverju við viljum keppa við bestu lið Evrópu.

 4. Sigursælasta félag Englands frá upphafi á ekki að vera í miðjumoði. Punktur. Eigum að keppa um topp 4. Alltaf.
  Lið sem er hársbreidd frá titlinum 2014, endar í öðru sæti og spilar frábærlega á ekki að sætta sig við annað eins fall og núna. Drepleiðinlegur bolti og rýr stigasöfnun.
  Rodgers á að klára þetta tímabil, allt annað en topp4 á að þýða brottrekstur.

 5. Mjög góður pistill Maggi. Ég er samt enn hundfúll. Þetta var einn af okkar bestu leikjum á tímabilinu en við töpuðum samt í gær og það svíður virkilega. Segir meira en mörg orð um stöðu liðsins í dag.

  Ég vorkenni BR. Hann náði það frábærum árangri með liðið i fyrra að væntingarnar fyrir þetta tímabil voru gríðarlegar. Liðið er ekki að standa undir þeim, það er morgunljóst. Held að menn séu almennt sammála um það að það sé algerlega ótímabært að fara heimta afsögn BR. Hitt er svo annað mál að ég er ansi hræddur um að sæti hans fari að hitna ef spilamennsku liðsins fer ekki að batna og við förum að vinna leiki. Þessi kanar eru bissniss-menn og þeir eru án efa ekki sáttir við hvernig tímabilið hefur farið af stað, sérstaklega þegar horft er til þess hvað við versluðum mikið fyrir tímabilið.
  Vissulega höfum við ekki sömu fjárráð og Chelsea, City, United og jafnvel Arsenal. En við erum búnir að eyða meira en öll önnur lið en ég taldi upp hér að framan og auðvitað eigum við að gera þær kröfur að lið okkar sé í fremstu röð, þ.e. í topp 4!

  Það sem líka er ansi áberandi er að stuðningsmenn liðsins (þá er ég ekki að tala um okkur sófakartöflurnar heldur stuðningsmenn sem mæta á alla leikina) eru farnir að baula á liðið. Þessi hæga spilamennska og endalausu sendingar milli markmanns, bakvarðar og hafsenta eru vægast sagt farnar að fara í taugarnar á stuðningsmönnum.

  Það er líka gríðarleg pressa á BR að halda okkur í topp 4. Alveg sama hvað menn tala mikið um þolinmæði, uppbyggingu, „Nýja vegferð“ o.s.frv. þá er ég nokkuð sannfærður um það, hvort sem mér eða ykkar líkar betur eða verr, að BR fái reisupassann nái liðið okkar ekki að halda sér í topp 4. Þar eru peningarnir og það myndi hafa mjög slæm áhrif á fjárhag klúbbsins ef það markmið næst ekki. BR þarf að svara fyrir þessar 120 milljónir punda sem hann eyddi í leikmannakaup. Hlutirnir þurfa að fara að breytast á vellinum og það hratt! Ég er ekki að segja að þetta sé sanngjarnt eða rétt. Bara hvernig hlutirnir eru í raun og veru.

  Mér finnst líka menn með ansi miklar og kannski óraunhæfar væntingar til þess að allt muni reddast þegar Sturridge kemur aftur. Það er svo miklu, miklu meira sem er að hjá liðinu en framlínumennirnir. Henderson, Coutinho, Sterling, Allen og fleiri leikmenn eru bara engan veginn að spila af sömu getu og í fyrra. Ég efast um að einn af þessum leikmönnum kæmist í byrjunarliðin hjá Chelsea, City eða Arsenal eins og formið er á þeim í dag. Ég nenni svo ekki að ræða vörnina.

  En verðum við bara ekki að vona það besta? Sem betur fer þá erum við ekki eina svokallaða topp-liðið sem hefur farið illa af stað. City, Arsenal, United, Everton og Tottenham hafa öll verið í bullandi vandræðum. Það er nóg eftir af tímabilinu en byrjunin lofar því miður ekki góðu.

 6. Ég held að minnihluti aðdáenda hafi ætlast til þess að liðið myndi ná fyrri hæðum þetta tímabilið. Sérstaklega eftir að við seldum Suarez, en bjuggust menn virkilega við því að liðið stæði með 14 stig og -1 mark eftir 11 umferðir?

  Roy Hodgson var með 15 stig eftir 11 umferðir árið 2010, maður sem flest allir hér inni hraunuðu yfir þar á meðal ég. En ef maður gagnrýnir Rodgers að þá er manni sagt að líta á heildarmyndinna, alveg sama hversu slæm úrslit við náum. Ég vill samt taka það fram að ég er ekki að verja Hodgson, er einungis að benda á hugsanaskekkju.

 7. Einfalt. Liðið er í 11.sæti með 14 stig. Heilum 11 stigum frá Southampton, lið sem við kaupum tvo af “bestu” leikmönnum þeirra. Hvað er að frétta?

  LFC er með gríðarlegan fjölda stuðningsmanna – ennþá einn af stóru klúbbum veraldar. Eftir tímabilið í fyrra klikka eigendur og Rodgers á að hamra heitt járnið. Besti leikmaður liðsins seldur og kaupin eru arfa slök. Ef einhver ætlar að halda því fram að þetta sé eðlilegt í þessu ferli að byggja upp þá bið ég viðkomandi um að skrá sig á Vog hið fyrsta.
  Margir tala um að LFC hafi spilað “yfir” getu í fyrra og náð lengra en menn þorðu að vona. Liðið var besta lið PL en klúðraði titlinum grátlega. Eftir það taldi maður að eigendur liðsins hefðu eins og við stuðningsmenn grátið yfir þessu en hugsað ” djöfull verður þetta bætt upp á næsta ári”
  En nei. …leikmenn fengnir inn í afar misjöfnum gæðaflokki, amk enginn world class og amk tveir sem so far eru í rusl-flokki (Lovren og Balo)

  Er ekki einhver oliufurstinn sem er til í þetta ?

 8. Ég veit það ekki Maggi, en þetta tímabil er eins og ein ógeðsleg þynnka eftir síðasta tímabil. Allt tal um breidd, gæðakaup, fleiri leikir sem skipta máli er eitthvað hjóm finnst mér.
  Maður sér það núna að maðurinn á bak við LFC í fyrra var Suarez. Það er enginn sem fer í skóna hans og enginn að ætlast til þess. Fyrst þeir (Eigendur / Brendan) ákváðu að selja hann þá er það þetta sem tekur við. Og þetta er ekki gott. Á köflum er þetta algjör horbjóður sem boðið er upp á og ég vil meina að þetta sé að einhverju leiti Brendan að kenna. Að einhverju leiti hafa menn ekki stigið upp eins og þeir þurftu. Það er enginn einn sem dekkar Suarez skarðið en my god hvað það er stórt.

  Já ég hafði trú á því að Brendan vissi hvað hann er að gera, ég hafði trú á því að hann gæti mótíverað menn til að taka þátt í leiknum en ég er efins.

  Ég neita að trúa því að þetta sé það sem koma skal, það var vitað mál fyrir leiktíðina að Sturridge er meiðslapési og það var HM, það er nákvæmlega ekkert nýtt þarna.

  Þú talaðir líka um það í podcastinu að við ættum ekki að bera saman tímabilið í fyrra og núna út af Suarez, og þar er ég þér mjög ósammála. Suarez var ekki með í 6 leiki í upphafi tímabils og eftir það run vorum við á toppnum. Hann og Sturridge sköpuð að ég held um 60 – 80 mörk. Vörnin var hriplek og er það enn, nema núna skorum við eitt mark í öðrum hverjum leik að meðaltali. Stærðfræðidæmið er þ.a.l. vont og við munum enda um miðja deild, föllum fljótlega úr öllum keppnum og hvað þá …. ?

  Ég sem aðdáandi er að sjálfsögðu að gera kröfu á framför í liðinu m.v. það sem ég sá í fyrra og ég er klárlega ekki að sjá það. Og það er 120 milljón pundum seinna, sem er nú ekkert lítil fjárfesting.

  Þannig að núna þurfa lykilmenn og þrjálfari að spyrja sig, er þetta virkileg það sem á að bjóða upp á í vetur eða ætla menn að fara að spila á eðlilegri getu. Og hver stillir upp liðinu og mótiverar þá?

 9. Er svo sem alveg sammála að þessi fortíðarhyggja hjálpi ekkert en það er held ég bara svolítið mannlegt eðli. Við erum engu að síður ekki hér til að styðja WBA, við gerum kröfur og eflaust óraunhæfar. Við höfum verið sviknir af þessum kröfum í 25 ár (f. utan Istanbul) og fólk bara getur ekki meira.

  Liverpool aðdáendur hafa nú lengi vel sætt sig við meðalmennskuna eftir 9. áratuginn. Ég held að fólk sé loks núna komið með nóg og i raun miklu meira en nóg. Sennilega er nálægð titilsins á síðasta tímabili ekkert að hjálpa í dag. Algjört ólæknandi andleysi á öllum stöðum og ég gæti trúað að þetta fall verði stærra en nokkru sinni fyrr.

  Mikið vona ég að þessi pirringur fari að beinast alfarið að eigendum og stjórnun liðsins, helst sem allra fyrst. Helsta afrek núverandi eigenda er að vera góðir í samanburði við forvera sína.

  Af og til gerast einhver ævintýri í evrópuboltanum eins og sigur A.Madrid en þau eru fátíð og gerast aldrei á Englandi. Ég er nokkuð þreyttur á að láta selja mér einhverjar hugmyndir um að fara dortmund-leiðina, sem ég hvorki trúi á né langar að kaupa.

  Ég vil eigendur sem eiga ofgnótt peninga, átta sig á því að þeir eru allsráðandi í nútímafótbolta og eru ekkert hræddir við að eyða þeim heimskulega. Getum kallað það skref úr fortíðinni yfir í nútíðina.

 10. Flottur pistill Maggi og sammála hverju orði. Við púllarar eigum ekkert inni þegar kemur að fótbolta og liðið verður að berjast til síðasta blóðdropa sama hvort það er Hull eða Chelsea sem er að mæta þeim á vellinum. Það eru liðin ansi mörg ár síðan Liverpool var stórveldi og því miður er það ekki búið að vera það seinustu 15 árin að mínu viti. Ein og ein minni dolla læðst inn en aldrei sá stóri. Það er allt til alls til að hefja klúbbinn aftur upp til fyrri frægðar aftur á móti. Til þess þarf þó að leggja þessum fortíðardraugum. Ég var einmitt að ræða við einn United vin minn í dag um Rodgers og segja honum frá því að sumir séu komnir með efasemdir. Hann fór þó að minna mig á að 2005 fór stuðningsmenn United margir að heimta höfuð Ferguson. Þá var liðinn einhver smá tími milli titla. Árið eftir vann hann deildina. 1990 átti að reka Ferguson eftir 5 ár í starfi án þess að hafa unnið deildina. Árið eftir vann hann deildina.

  Menn eru rosalega óþolinmóðir þegar kemur að fótbolta. Ein ástæðan fyrir því að Tottenham verður aldrei stórveldi er óþolinmæði. Ég hef mikla trú á Rodgers og getu hans til að gera Liverpool aftur að stórveldi. Hann þarf bara að fá tíma, trú og stuðning. Ekki þetta endalausa væl. Það hjálpar ekkert.

 11. Það þarf ekkert að fara að tala niður einhverjar væntingar. Menn halda með Liverpool einu sigusælasta liði álfunar.

  Liverpool er ekki að spila fótbolta til að vera með, við erum í þessu til að vinna, ekkert minna. Þeir sem halda með Liverpool vita það.

  Þó að Suarez sé farin þá er það engin ástæða til þess að vera með allt niður-um-sig. Liðið hefur engan veginn náð sér á strik það sem af er vetri og Brendan Rodgers er ekki hafin yfir gagnrýni ekki frekar en leikmenn liðsins, sem jú hann velur hverju sinni.

  Vörnin hefur verið skelfileg síðan að Rodgers tók við, jafnvel þegar liðið var í toppbaráttu síðasta vetur þurfti það alltaf að skora 3-4 mörk til að ná í þrjú stig. Þess á ekki að þurfa til að vinna fótboltaleiki. Það er augljóst mál að Rodgers þarf að ná í þjálfara sem getur lagað þetta – fyrr næst ekki árangur.

 12. Ég hef nú engan sérstakan áhuga á að láta reka BR þó að Liverpool sé bara búið að vinna 4 af 11 leikjum í deildinni (og enn verri árangur ef Meistaradeildin er tekinn með). En þessi árangur í ár veldur því að maður velti því fyrir sér hvort BR sé nokkuð betri en þjálfari sem getur í mesta lægi stýrt liði í 6-10 sæti og að árangurinn í fyrra var einfaldlega drifkraftur og sigurvilji Suarzes sem skilaði liðinu svona langt en ekki “taktík” BR.

  En hvað sem því líður þá munu næstu vikur það leiða í ljós. BR getur allavega ekki skammast yfir lítilli breydd eða lélegum hóp í dag. Núna reynir á hann að ná því besta úr þeim góðu leikmönnum sem hann hefur.

 13. Mín tilfinning er ekki sú að margir vilji Brendan burtu og raunar öðru nær. Gott að fá svona grein sem minnir á það góða starf sem verið er að vinna.

  Rodgers nýtur mikillar virðingar og það er frekar að menn hafi áhyggjur af honum og þar með liðinu. Í þessum skrifuðu orðum er ég að horfa á Dortmund sem var raunar rétt í þessu að komast yfir með sjálfsmarki. En þetta stórkostlega lið er ekki svipur hjá sjón þessa dagana (í Bundesligunni þ.e.a.s.) sem sýnir hvað skammt er á milli feigs og ófeigs í þessum bransa.

  Ég held að 99% okkar vilji að Brendan stýri Liverpool í mörg ár til fyrri dýrðar. En svona gengur þetta ekki mikið lengur held ég.

 14. Ég skrifaði langan póst við leikskýrsluna og ætla ekkert að fara að endurtaka mig. Ég verð samt að koma einu að sem ég tók þar fram.

  Málið er að við erum búnir að skipta alltof oft um framkvæmdarstjóra og við erum töluvert brendir af þeirri reynslu okkar. Það er ákveðin hætta af því að menn sætti sig við meðalmensku vegna þess að þeir eru hræddir við að breyta einu sinni enn.

  Það er munur á því að vonast eftir að framkvæmdarstjórinn viti hvað hann er að gera og að trúa því.

  Málið er að ég hef nákvæmlega ekkert séð sem bendir til þess að Rodgers geti stýrt varnarleik hjá stórum klúbb. Já klúbburinn okkar er stór, risa-stór, jafnvel þó að einhverjir reyni að halda öðru fram. Hafið þið séð mynd af fyrsta marki CFC á móti okkur í gær…

  http://www.433.is/enski-boltinn/liverpool/mynd-skelfileg-varnarvinna-liverpool-gegn-chelsea/

  Sjáið þið staðsetningarnar á Lovren og Skrtel, já og bara öllum mönnum LFC í þessari hornspyrnu?

  Í dag er staðan þannig að svo virðist sem að Suarez hafi verið potturinn og pannan í velgengni Rodgers í fyrra. Brendan Rodgers getur ekki fyrir sitt litla líf boðið okkur upp á neitt nema Balotelli einan frammi aftur og aftur. Þetta er eftir að hafa eitt 120 milljón punda í sumar.

  Nú fyrst Suarez er farinn, hvað getur Rodgers gert fyrir klúbbinn okkar….?

  …lagað varnarleikinn?
  Hann er á þriðja ári með liðið og hefur kastað til meiri pening í varnarleik liðsins en aðrir stjórar. Hann er enn ekki nálægt því að laga nokkuð í varnarlínunni. EKKERT!

  …komist nálægt gæðunum í sóknarleik liðsins í fyrra?
  Hann keypti tvo target sentera til að fylla upp í skarð Suarez og virðist binda allt traust við mann sem helst ekki heill í viku. Já Sturridge er frábær en það er fáránlegt að LFC sé upp á hann einan kominn til að bera uppi sóknarleik liðsins. FÁRÁNLEGT!

  Ég er alveg til í að gefa Rodgers tíma fram að áramótum en ég mun passa mig á því að falla ekki í þá gryfju að sætta mig við meðalmensku vegna þess að ég sé orðinn leiður á stjóraskiptum. Maður verður jú að trúa á knattspyrnustjórann, ekki bara vona en efast.

 15. #14 verð að viðurkenna að mér hálfpartinn brá þegar ég sá þessa mynd, dísus kræst. Það eru fjórir leikmenn Chelsea dauðafríir við og inn í markteignum OG allir réttstæðir!!

  Þetta er náttúrulega ekki hægt!

 16. Julian Dicks hetja skrifaði flott comment undir leiksskýrslunni um leið og þessi pistill fór í loftið. Því er nú oft haldið fram að við séum á móti “neikvæðum” kommentum og “neikvæðri” umræðu – það gæti ekki verið fjarri raunveruleikanum. Það sem við erum á móti er óvönduðum og “lélegum kommentum”.

  Mig langar því að c/p kommenti hans frá því í síðasta þræði, því það týnist þar þegar nýr pistill er kominn í loftið og virk umræða þar (vona að það sé í lagi hans vegna).

  Engin er undanskilinn gagnrýni í sínu starfi, ekki ég, þið eða Brendan Rodgers. Þetta er flott komment og er sammála mörgu þar:

  “Liverpool enduðu í 2 sæti deildarinnar á síðustu leiktíð, hársbreidd frá því að taka titilinn. Rodgers eyddi um 120 milljónum pundum í kjölfarið og eftir sitjum við með lið sem ég þori að fullyrða að hafi engan mann sem kæmist í byrjunarliðið hjá , Chelsea, Man Utd eða Man City. Ég get jafnvel ímyndað mér að við ættum erfitt með að koma manni í Arsenal-liðið. Kannski einhver einn en ég á erfitt með að sjá hver það ætti að vera.

  Við biðum lengi eftir að geta lokkað til okkur leikmenn með CL sætinu sem við unnum í vor. Rodgers var svo sannarlega með öll tromp á hendi í sumar. Eitt skemmtilegasta lið evrópu, ungt og efnilegt og þáttaka í stærstu deild heims. Auk þess sandur af seðlum sem LFC hefur sjaldan eða aldrei komist nálægt með á leikmannamarkaðinn.

  Ég ætla ekki að dæma leikmenn of fljótt en við vorum í 2 sæti í fyrra og hljótum að stefna á að bæta okkur, ekki bara bíða og sjá hvað verður úr fjárfestingunum eftir 2-3 ár.

  Rodgers er á sinni þriðju leiktíð og hvort sem ykkur líkar það betur eða verr, hefur hann aldrei sýnt nein merki um það að við getum verið bjarstsýn á að hann nái tökum á varnarleik liðsins. Hann minnir um margt á Kevin Keagan að því leyti og að mínu mati flest öllu leyti. Þetta er þrátt fyrir að hann hafi keypt menn fyrir nánast metupphæð í allar varnarstöðurnar og markmannstöðuna. Í fyrra komst hann upp með það að vera fyrirmunað að geta stýrt varnarleik hjá stórum klúbb því hann var með frábært sóknarlið i höndunum.

  Þannig unnu líka PR vélin og helstu málpípur Rodgers á internetinu eftir söluna á Suarez.

  Frábær knattspyrnumaður fór en við sátum eftir með hið raunverulega verðmæti, Brendan Rodgers og hugarsmíð hans. Menn kepptust við að tala um hve litlu þessi sala skipti.

  ,,Við missum 30 mörk en vinnum þau til baka í varnarleiknum”.
  Ritsjórar þessarar síðu spáðu t.a.m. allir LFC titilbaráttu á þessari leiktíð og einhverjir titlinum.
  ,,Við missum einhver mörk en fáum þau til baka með bættum varnarleik” .
  ,,Sturridge á alltaf eftir að skila sínum 20 mörkum”
  ,,Sterling tekur álíka framfarastökk aftur”.

  Persónulega finnst mér ekkert athugavert við það að gera kröfu á að lið bæti sig á milli ára en það er dálítið skrítið hvað allir verða viðkvæmir þegar maður bendir á það að Rodgers er svo langa vegu frá því að standa undir þessum væntingum að það sé í raun ekkert nema eðlilegt að spurngarmerki séu sett við hann sem stjóra LFC.

  Sóknarleikurinn hvarf með Suarez. Punktur og basta. Lokað og læst. Rodgers naut þeirra forréttinda að hafa á að skipa besta leikmanni í heimi sem óð á eldi á tímanum. Suarez var ekki bara bestur heldur leiddi hann línuna með þvílíkum krafti að leikmenn í kringum hann urðu betri. Ef besti fótboltamaður í heimi er fyrir framan þig að pressa bolta aftur í kok á markmanni mótherjanna….hvað í andskotanum ætlar þú þá að gera…?

  Við fórum frá þessu og yfir í Balotelli. Reyndar keypti Rodgers tvo target sentera til að fylla skarðið sem Suarez skildi eftir sig í sóknarlínunni.

  Nú kalla menn eftir að liðið setji pressu á mótherjann en ekkert gerist….en hvað Rodgers, hugmyndasmiður og sóknargúrú er enn við völdin…?

  Já Sturridge er líka frábær og það býr margt í Sterling. En Sturridge er algjör meiðslapési og það er nánast glæpsamlegt að stórlið eins og Liverpool ætli að binda allar sínar vonir við mann sem alltaf er meiddur. Sterling hreinlega hverfur á fótboltavellinum þegar hann á að bera veikt liðið uppi. Hann sprakk út í fyrra vegna þess að hann fékk pláss á vellinum. Nei snilldin var ekki komin frá Rodgers, Suarez var snilldin.

  Að sjálfsögðu á Rodgers þátt í því, engin spurning. En hann er ráðalaus eftir að Suarez fór. Algjörlega og 100% ráðalaus. Enda bíður hann okkur upp á Balotelli einan frammi leik eftir leik. Allir eru pirraðiri á þessu en hann ber hausnum við steininn.

  Þetta er eftir að hafa setið með trompin sín og seðla á leikmannamarkaðunum í sumar.

  Við bíðum í 5 ár eftir að komast í meistaradeildina og Rodgers bíður okkur upp á varaliðið sitt á stærsta knattspyrnuvelli i heimi. Hann var kokhraustur eftir tapið vegna þess að varaskeifurnar hans stóðu sig ágætlega en var fljótur að setja besta manninn aftur beint á bekkinn og kvittaði þar með undir það að hann var eingöngu að hvíla lykilmenn sína.

  Ég er fúll. Drullufúll!

  Ég batt vonir mínar svo sannarlega við Rodgers og geri enn. Ég verð samt sem áður að spyrja mig að því hvort að ég raunverulega TRÚI því að Rodgers sé maðurinn sem snýr liðinu aftur við. Er hann maðurinn sem nær tökum á varnarleik liðsins og sjáum við einhverntíman aftur svipuð gæði fremst á vellinum. Ég veit að ég VONAST til þess en trú mín er að fjara út.

  Við erum allir orðinir lang-þreyttir á stjóraskiptum en það má ekki verða ástæða þess að við sættum okkur við meðalmennsku.”.

  Aftur, þetta eru ekki mín skrif heldur er höfundur Julian Dicks hetja.

  Ég get tekið undir flest þarna – en vil samt koma með smá input í umræðuna að við (flestir) gerðum kröfu um meistaradeildarsæti á þremur árum hjá Rodgers (raunhæft markmið, vera að taka við liði í 7 sæti). Hann skilaði því á tímabili tvö. Því fyndist mér fáránlegt að reka hann (eða tala um það) rúmum 6 mánuðum síðar, þremur mánuðum inn í tímabilið. Ég myndi í fyrsta lagi byrja að skoða hans stöðu í maí n.k. Sjá hvernig honum gengur að vinna sig út úr pressunni. Ég trúi, en ekki í blindni. Hans staða á alls ekki að vera óörugg að mínu mati á þessum tímapuntki né á næstu vikum og mánuðum.

  Eins og kom fram í síðasta podkasti og þræðinum þar á undan þá er ég LANGT frá því að vera sáttu við kaup Liverpool FC síðan FSG kom inn, en menn mega ekki gleyma því að þetta er transfer committee, ekki Rodgers. Hann getur ekki keypt leikmann upp á sitt einsdæmi (sbr Dempsey) og öfugt. Hann hefur vissulega lokaorðið (m.v. þær upplýsingar sem okkur eru gefnar) en njósnarar og nefndin í heild hlýtur að vera ábyrg fyrir þessum kaupum ekki einn einstaklingur.

  Annars vil ég koma því á framfæri að s.l. viku hefur mér þótt umræðan vera einstaklega góð yfir höfuð,Sigkarl, Guderian, Julian Dicks, Homer ofl. góðir pennar komið með flott skrif og menn tekist á með rökum. Meira svona takk.

 17. Menn eiga ekki að óttast það að skipta um þjálfara. Ég treysti því að Liverpool eins og önnur lið sé með ákveðna “formúlu” í gangi sem allir vinna eftir og BR sé aðeins einn hlutur af þeirri formúlu. Þannig að ef verið er að fara ráða annan stjóra sem gengur inn í þessa formúlu þá ættu stjórabreytingar ekki að hafa svo mikil áhrif.

  Nú greinarhöfundur talaði um Stjörnuna sem dæmi. Ef minnið svíkur ekki þá skipti Stjarnan um 4 þjálfara í leit sinni af Íslandsmeistaratitlinum. Þar var m.a. Talað um að þegar Logi tók við var að hans hlutverk var að styrkja vörnina hjá Stjörnunni. Þegar hans hlutverki var lokið og varnarleikur Stjörnunar orðinn skipulagðari, var fenginn annar inn sem menn höfðu trú á að myndi klára dæmið. Er það ekki bara hjá Liverpool í dag. Að núna sé kominn tími á að fá mann til að taka varnarleikinn í gegn og svo eftir nokkur ár verður annar stjóri fenginn til að klára dæmið.

  Við verðum að passa okkur á því að persónugera ekki störfin, þeir eru þarna aðeins til að klára ákveðið verkefni og þegar því er lokið, þá á að fá annan mann sem er betri á öðrum sviðum til að kára næsta verkefni og gæta af því að missa ekki niður þá vinnu sem hefur farið fram hjá BR.

 18. 4 stigum frá 4.sætinu. Sturridge verður með í næsta leik og næstu 4 leikir eru gegn Crystal Palace, Stoke, Leicester og Sunderland. Liðið er heppið að helstu keppinautar okkar eru einnig með skitu, þetta er ekki enn búið og við hljótum að sjá ný andlit í janúarglugganum.
  #bjartsýniskast

 19. Mér finnst menn full dramatískir hérna. Jú þetta hefur gengið illa hingað til en það er margt sem spilar inn í.

  Við erum í Meistaradeildinni sem er nýtt fyrir flesta hjá klúbbnum, þar með talið framkvæmdastjórann. Það hefur sýnt sig og sannað að þetta hefur mikil áhrif á deildina hjá flestum liðum.

  Við missum Suarez og Sturridge. Tvo markahæstu menn deildarinnar síðasta árs.

  Við veðjum á rangan hest frammi. Það kemur fyrir á bestu bæjum og ekkert óeðlilegt við það.

  VIð spiluðum langt langt umfram getu í fyrra og vorum langt á undan öllum markmiðum og vonum okkar, leikmanna og BR.

  Ég hef trú á stjóranum, hópnum og framtíðinni. Gefum BR tíma, hann á eftir að gera mörg mistök, fullt af þeim en þannig læra menn. Ég tel hann hafa hugsunarháttinn sem til þarf, aldurinn til að vaxa með klúbbnum og trúna sem þarf til að gera klúbb eins og Liverpool sigursælan að nýju.

 20. Fyrir mér er þetta ekki flókið, misstum að mínu mati þriðja besta leikmann jarðarinnar í sumar og okkar besti sóknarmaður er meiddur. Þegar Sturridge kemur til baka mun ég fyrst dæma liðið. Einnig komu að ég held 10 leikmenn til okkar í sumar, var einhver hérna sem hélt að þetta mundi smella strax? Þetta tekur tíma( aftur að mínu mati), ég á von að þetta byrja smella að einhverju leiti um áramót en við munum ekki sjá hvað býr í þessu liði fyrr en næsta tímabili. Þegar heimsklassa leikmenn halda áfram að segja nei við okkur munum við ekki nálgast neina titla , vonandi vaxa þessir nýkeyptu leikmenn hratt upp í það sem þeir eru ætlaðir.

  In Brendan I trust !!!

 21. Leitt þykir mér ef að þessi pistill eyðilagði umræðu þess síðasta, það var ekki meiningin.

  Heldur ekki að ræða Rodgers sem slíkan. Heldur miklu frekar þá tilhneigingu til þess að bera alla framkvæmdastjóra frá 1992 við gullöldina hjá klúbbnum…og þá ósanngirni sem ég tel í því.

  En auðvitað líka að velta fyrir sér framtíðarsýninni og það er fínn punktur að benda á Stjörnuna sem dæmi þar…sem réð aðstoðarþjálfarann í stað Loga. Kannski svarið sé að ráða Pascoe næst?

  Krafan okkar á að mínu mati að vera sú að leggja dóm á hæfileikana í nútíðinni og framtíðarskipulag allra fyrirtækja og stofnana, líka Liverpool FC. Nútíðin er ekki bara síðustu 10 vikur þó, heldur þarf að afmarka eitthvað lengra tímabil. Athugið, þetta er að sjálfsögðu bara mitt mat á því hvernig maður horfir á fyrirtæki en ekki einhver alheimssýn.

  Ég held að Síldarvinnslan sem dæmi sé ekkert að spá í hvað loðnuskipin þeirra veiddu árið 1992 eða bera núverandi skipstjóra sína við þær veiðar. Þeir skoða nútímann og það umhverfi sem fyrirtæki þeirra lifir í núna og spá í hver framtíðin verður.

  Ef pistillinn minn er um eitthvað afmarkað þá er hann um það og mér finnst gott og gaman að heyra lagt út frá þeirri vangaveltu, sem mér fannst ekki rúmast í athugasemdum við leikskýrslu tapleiks gegn Chelsea.

 22. Þetta sagði Maggi :
  Ég held að Síldarvinnslan sem dæmi sé ekkert að spá í hvað loðnuskipin þeirra veiddu árið 1992 eða bera núverandi skipstjóra sína við þær veiðar. Þeir skoða nútímann og það umhverfi sem fyrirtæki þeirra lifir í núna og spá í hver framtíðin verður.

  Ef þú ert skipstjóri og veiddir vel á síðustu vertíð. Missir síðan sinn besta mann úr áhöfinni, en færð til þín marga menn sem þú valdir og sagðir að þeir væru þess verðugir að vera í þinni áhöfn og gætu jafnvel fyllt upp í skarð þess sem fór(það var bara einn sem fór). Skipstjórinn fiskar illa, nokkrir góðir túrar á þeim miðum sem “allir” fiska. Síðan er einn skipstjóri, sem valinn var á skip suðurfrá sem aldrei hefur fiskað við Íslandsstrendur, fullt af köllum fóru frá útgerðinni yfir í önnur skip. Þessi fyrirverandi atvinnumaður, sem stýrir skipinu að sunnan er bara að gera góða hluti. Fékk góða menn í áhöfnina sína.

  Hvað er hinn að gera vitlaust, valdi hann ranga menn í áhöfn. Er hann búinn að missa “brúnna”. Það fór reyndar einn meiddur í land, en helvíti, það er bara einn. Eigandinn hlýtur að vera hugsa um hvort að skiptstjórinn sé búinn að missa það. Eru áhafnarmeðlimirnir hættir að hlusta á hann. Menn gera mistök, eiga lélega túra, en fá alltaf samt að koma með, stundum skildir eftir. En fá bara að koma með í næsta túr. Enginn regla í þessu, þú átt lélegan túr en færð alltaf að koma með í þeim næsta. Samt eru fullt af mönnum á bryggjunni sem þessi ágæti skipstjóri valdi en eru samt ekki nógu góðir til að koma með.
  Ég er farinn að efast um að skipstjórinn sé ekki að höndla þetta þegar illa gengur. Við erum ekki að fiska meira í dag heldur en að við gerðum fyrir mánuði síðan. Við erum ekki á uppleið. Lítið bara á töfluna, fyrir ofan okkur eru sex lið sem ættu ekki að vera þarna. Þau eru kannski bara með betri mannskap og betri “skipstjóra”.
  Ég lifi í voninni að þetta sé allt á uppleið.
  Eitt er víst að á skrifstofunni hjá útgerðinni er núna verið að tala um að kannski sé kominn tími á breytingu í brúnni. “kallinn er kannski bara búinn að missa þetta”. BR er ekki á sínu fyrsta ári og það eru ekki framför í spili liðsins, við erum ennþá veikir aftast, en skorum ekki til að bæta það upp. West ham eru búnir að skora meira en við, hvað keyptu þeir í sumar, Southampton keyptu greinlega rétt í sumar, Mori talar um þá sem keppinauta um titilinn.
  Við verðum fara laga hugarfarið hjá leikmönnum, það þarf engin að segja mér það að hinir séu bara að lesa Liverpool betur í dag heldur en að þeir gerðu á síðasta tímabil. Hvað komist þeir yfir dulkóðan okkar í sumar ? Við spilum mjög illa, gefum alltof mikið aftur, sækjum mjög hægt fram, verjumst illa í hornum og föstum leikatriðum. Hornin nýtast okkur illa. Mér finnst allt vera miklu verra núna heldur en á síðasta tímabili. Stundum held ég að það hlýtur að vera að við höfum selt fleiri en Luis í sumar.

  ÁFRAM LIVERPOOL.

 23. Fortíðarljóminn er ekki ekki dragbítur heldur þvert á móti helsti styrkur starfsmanna Liverpool.

  Fortíðarljóminn er að reynast stuðningsmönnum fjötur um fót. Við sveiflumst eftir sigrum, jafnteli og tapi en leikmenn, stjórar sækja styrk í þessa glæstu hefð. Enda náum við öðru sætinu í fyrra eftir að við töpuðum titlinum. Lið með minni sögu hefði þurft að greiða háar fjárhæðir(hóst, hóst Chelsea) til að gera það sem við gerðum með minni fjárhæðum.

  Eftir að hafa horft á skemmtilega leiki í fyrra þá er maður þyrstur í meira af skemmtilegum leikjum. Við höfum enga heimtingu á titli eða meistaradeildarsæti þegar miklu fleiri en fjögur liði eiga möguleika á þessu en mér þætti vænt um við spiluðum skemmtilegan fótbolta.

  Við stjórnum því hvort við spilum opna og skemmtilega leiki eða reynum að halda hreinu og drepum leikina.

  Í lagi Eyþór?

 24. Varðandi samanburð við Hodgson tímabilið, og stigafjölda eftir 11 leiki: að vissu leyti er hægt að bera þessi tímabil saman. En á sama tíma má líka segja að liðið hjá Hodgson var að spila alveg hræðilega leiðinlegan fótbolta, og það voru nákvæmlega engar vísbendingar um að það myndi neitt lagast, þetta var bara týpískur Hodgson bolti.

  Við vitum að Rodgers getur stýrt liði sem spilar blússandi sóknarbolta, af því að við sáum það á síðasta tímabili. Þess vegna er hægt að fyrirgefa öldudalinn sem liðið er í núna. Ég er sammála Eyþóri að það á ekki einusinni að íhuga nýjan stjóra fyrr en næsta vor (OK ef liðið tapar hverjum einasta leik út árið þá skulum við endurskoða það).

  Það sem ég hef mestar áhyggjur af varðandi Brendan er hvað hann virðist eiga sína uppáhalds leikmenn, sem fá að spila út í eitt. Ég ímynda mér að hann sé að sýna mönnum traust og þolinmæði, vitandi það að þeir eiga eftir að ná aftur fyrra formi. Það getur samt reynt ansvíti mikið á þolinmæði aðdáenda.

 25. Ég er svo sem sammála því að við erum kannski ekki alveg jafnfætis stóru liðunum í deildinni, Chelsea og Man City. Hins vegar geri ég mér alveg grein fyrir því að árangurinn í fyrra yrði varla jafnaður eða bættur í ár. Það sem angrar mig helst er að fallið niður er miklu meira en nokkur maður bjóst við. Lausnir virðast vera takmarkaðar og liðið lítur út fyrir að bíða eftir því að Sturridge komi og reddi sér. Við fengum marga nýja menn og hópurinn þarf tíma til að smella saman og allt í góðu með það en það sem mér finnst er greddan og löngunin til að sanna sig og gera gott mót. Vörnin er ennþá frekar vanhæf en það sem mér finnst mest koma á óvart er hvað miðjan er léleg. Ofurhetjurnar Sterling og Coutinho hafa verið stengeldir og líta út fyrir að hafa megað fara frekar á lán til Derby en Jordon Ibe.

  Auðvitað eigum við að gera þá kröfu að teljast til bestu liðanna í deildinni og vera með í hópnum um þá stóru. Árangur seinustu ára hafa svo sem ekki sýnt fram á það en með árangrinum í fyrra taldi maður að við værum komnir í þann hóp án neins vafa.

  Það sem fyrst og fremst vill er framför og þó svo að við tækjum smá skref afturábak á þessu tímabili þá sæi maður í hvað væri að stefna en það virðist ekki vera augljóst í augnablikinu

 26. Það sem gerst hefur:

  Nr 1. Fyrirliðinn okkar Steven Gerrard er einu ári eldri og er að vinna sig út úr stærstu vonbrigðum og mótlæti sem hann hefur lent í eftir fallið í Chelsea leiknum og vonbrigði HM. Þetta hefur hann viðurkennt og tjáð sig um í fjölmiðlum. Tankurinn virðist einfaldlega tómur hjá fyrirliðanum og ég er hræddur um að ástríða hans fyrir boltanum hafi dvínað. Gerrard hefur verið arkitekt liðsins í föstum leikatriðum nokkuð sem gekk vel í fyrra en er ekki svipur hjá sjón í dag. Þetta er að verða mjög stórt vandamál fyrir klúbbinn okkar og stjóran.

  Nr. 2. Luis Suarez fór og 30 mörk + glundroði.

  Nr.2 Sturridge er búinn að vera meiddur. Þessi hystería sem á sér stað núna á þessari síðu ætti sér ekki stað ef Sturridge hefði ekki meiðst. Við keyptum Balotelli “ódýrt” og það var enginn annar augljós kostur á þessum tíma utan þá leikmenn sem neytuðu að koma til Liverpool.

  Nr. 4 Rodgers hefur ekki ekki náð að stoppa í götin í vörninni. Sakho hefur verið meiddur og Mignolet hefur brugðist liðinu að undanförnu.

  Þetta eru allt atriði sem veldur því að liðið nær ekki þvi mómentum og sjálfstrausti eins og það nauðsynlega þarf. Mér finnst menn hinsvegar full svartsýnir á ástandið og mála það of dökkum litum.

  Við erum með unga og hæfileikaríka einstaklinga og liðið hefur alveg sýnt fram á glimrandi spil þar til kemur að síðasta vallarhelmingi. Það er eitthvað sem ég hef trú á að muni lagast bæði við endurkomu Sturridge og við það að nýju leikmennirnir komist inn í vélina.

  Einn stærsti kostur Rodgers fyrir þetta tímabil var talinn vera man managment skills, hvernig hann náði því besta út úr hverjum og einum. Suarez breyttist frá því að vera góður sóknarmaður í einn besta sóknarmann heims, Henderson blómstraði undir Rodgers á síðasta tímabili sem og Sterling, Gerrard, Sturridge og Coutinho.

  Ég held að Rodgers þurfi smá tíma með nýjum leikmönnum áður en liðið fer að funkera aftur eins og maskína.

 27. Fh hverju eru svona margir alltaf að réttlæta að það sé bara í lagi að liðið tapi á móti hinum og þessum og það megi ekki gagnrýna leikmenn og þjálfara fyrir slæma frammistöðu? Veit ekki betur en að þetta lið hafi endað í 2 sæti í deildinni og eytt yfir £100.000.000 í sumar. Við missum besta manninn en það er þjálfarans að finna mann í hans stað sem hann gerir á brunaútsölu nokkrum dögum fyrir mót. Hann ber fulla ábyrgð á þessu gengi sama hvað fólk vill meina. Er samt ekki á því að það eigi að reka hann en hann þarf að fara að breyta einhverju.

  • Dassi – hver hefur réttlæt tap og lagt bann við gagnrýni?

 28. Frábær umræða félagar.

  Já þau eru mörg vandamálin.

  Mjög góður puntkur sem menn benda á að við erum án Suarez og Sturridge, hugsum okkur city án Aguero og Yaya eða chelsea án Costa og fab nú eða madrid án Ronaldo og Benzema. Ekkert lið nær fyrri styrk við svona blóðtöku.

  BR og stjórnin hefur hinsvegar verið að byggja þetta lið upp í 3 ár og það er árangur af þeim leikmannakaupum sem liðið hefur stundað á þessum 3 árum sem gerir það að verkum að liðið sekkur jafn djúpt og það er að gera við fjarveru þessara tveggja höfðingja.

  Það er búið að kaupa fullt af leikmönnum en bara Sturridge sá eini sem algjörlega hefur stimplað sig inn sem lykilleikmaður. Coutinho get ég ekki sett í sama flokk þó hann hafi vissulega verið frábær á köflum.

  Á pappír held ég að við höfum ágætis öftustu línu og það eru fá lið sem eiga meira úrval af miðvörðum sem ættu að geta staðið vaktina. Þessir menn spila hinsvegar hræðilega saman og skiptir engu hvaða mixtúra af mönnum er notuð. Sakho sem ítrekað virkar óöruggur og gerir (að mínu mati) hættuleg mistök við og við. Hann spilaði hinsvegar miklu betur með franska landsliðinu í sumar og það vekur áhyggjur hjá mér. Það var langtum öruggari spilamennska en nokkurn tímann hjá liverpool. Klúbburinn þarf að skoða varnarleikinn frá öllum hliðum, ég sé ekki að hægt sé að hrauna endalaust yfir þessa leikmenn því þeir eru orðnir svo margir sem ekki hafa staðið sig….vandamálið hlítur að ná lengri t.d. þjálfun, leikkerfi, þjálfarar osfrv.

  “Magn > gæði” kaupstefna liverpool hefur mér fundist vera eitt af þeim atriðum sem einkenna klúbbinn síðustu árin (áratugina). Örfáir leikmenn koma upp úr akademíunni okkar og hreinlega veltir maður því fyrir sér hvort það þjóni tilgangi að vera með þessa blessuðu akademíu ef ekki verður breyting á. BR má þó eiga það að hann hefur notað mikið af ungum leikmönnum klúbbsins en þó finnst mér magninnkaup síðasta sumars benda til þess að menn eins og Ilori, wisdom, ibe, suso eigi erfitt með að rata inn í liðið á næstu árum.

  Ég held að menn hafi farið offari í sumar og ruglað balance liðsins með að kaupa of mikið af leikmönnum sem eru á svipuðu gæða leveli og aðrir sem fyrir voru hjá klúbbnum og fyrir vikið er erfitt að átta sig á því hvaða leikmenn mynda sterkasta byrjunarlið klúbbsins ásamt því að engin virðist almennilega vita lengur hvaða leikkerfi eigi að spila.

  Ég vil sjá menn reyna að vinna sig úr þessari vitleysu og helst undir handleiðslu BR. Þjappa þarf hópnum saman og mögulega þurfa einhverjir frá að hverfa. BR er kominn með hópinn sinn og ég held að einhver quick fix í janúar væri ekkert annað en að pissa í skóinn sinn og missa klúbbinn frá þeirri aðhaldsstefnu sem á að vera rekinn varðandi kaup og launakostnað. Menn eiga að horfa til klassaleikmanna ef það á að hræra í klúbbnum og ég horfi þá til fremstu víglínu (og reyndar til varamarkmanns/aðalmarkmanns).

  Ég er gríðarlega sammála því að passa þurfi upp á launakostnað en ef klúbburinn er ekki tilbúinn að borga samkeppnishæf laun til bestu leikmanna sem í boði eru þá mun klúbburinn okkar alltaf vera skrefi á eftir þeim bestu og sé ég okkur þá miklu frekar vera í eyðimerkurgöngu líkt og Arsenal hefur verið undanfarin ár. BR hefur ítrekað sagt að þeir þurfi að vera snjallir á markaðinum og fá unga og efnilega leikmenn því þeir bestu hafi ekki áhuga á liv borg. Ef þetta er raunverulega ástandið og góð laun dugi ekki einu sinni til þá sé ég bara ekki fram á að þessu klúbbur sé eitthvað að fara að breytast frá því sem nú er og hefur verið undanfarna áratugi, vissulega geta komið inn á milli hörkutímabil þar sem hlutirnir ganga upp en að vera á toppnum meðal þeirra sterkustu til lengri tíma er kannski bara óskhyggja.

  YNWA
  alexander

 29. Rosalega glaður með gæði þessarar umræðu. Frábært.

  Er algerlega sammála honum Daníel varðandi það hvernig BR virðist leggja ofurtraust á “sína” leikmenn og þar held ég að hann vanti einhvern inn í sitt þjálfarateymi til að hrista upp í honum. Ég tel að Rene Meulensteen hafi alveg hitt nagla á höfuð varðandi reynsluleysið í teyminu hans BR og yrði mjög glaður ef að inn í teymið yrði bætt “ref” sem að hefði gengið í gegnum það að vinna undir viðlíka pressu og nú er í gangi. Í bleika skýjaheiminum yrði hann Rafa minn bara leystur frá Ítalíu og gerður að D.o.F. (sénsinn að það tækist) en ég tel þetta vera atriði sem klúbburinn ætti að skoða.

  Því ég er hróplega ósammála því að þegar þú ert 1-2 undir setjirðu inná leikmann sem hefur á þremur árum gert 1 mark fyrir klúbbinn þinn og átt 2 stoðsendingar þann tíma. Þetta er vottur um þrjósku stjórans eða mögulega reynsluleysi og þetta myndi ég vilja taka á til framtíðar.

  Svo er það sem hann Alexander talar um varðandi stöðu klúbbsins á markaðnum. Hvers vegna í ósköpunum ætti Rodgers að ljúga að okkur þeirri staðreynd að við erum ekki í fyrsta sæti hjá stórum nöfnum. Það er bara það sem við höfum upplifað og séð undanfarin ár.

  Þar eru tvær ástæður stærstar tel ég.

  a) Við erum ekki í topp fjórum yfir sigursæl ensk lið síðustu tíu ár. Þar eru Pakistan-liðin tvö, Chelsea og Arsenal á undan okkur. Vegna bikarsigra og varanlegri þátttöku í CL. Þetta er t.d. gríðarlega ólíkt því umhverfi sem unnið var í á gullöldinni, þar er enn verið að hlæja að honum Ian Snodin sem sagði nei við Liverpool 1987 (það er ástæða fyrir því að þið munið ekki eftir honum flest, hann fór annað) og við verðum einmitt að átta okkur á því að þeir leikmenn sem alast upp í fótboltaheiminum í dag eru ekkert að rifja upp Rush, Dalglish og sigrana í Róm. Þeir horfa á Aguero, Fabregas og svei mér þá Van Persie. Svo er í öllum heiminum stórborgarsyndrom. Það er ekki bara Víkingar í Ólafsvík eða Skagamenn sem eiga erfitt með að lokka til sín fótboltamenn frá menningarborg. Það er líka í Englandi og Liverpool hefur því miður ekki seiðandi aðdráttarafl í bunkum…sem er ótrúlegt því borgin er mögnuð.

  b) Þegar aðdráttaraflið sem fylgir sigrum vantar, þá er bara ein lausn. Bönns of monní. Þeim hendum við ekki út…og ég er alveg sáttur við það í raun. Chelsea og City eru sterkustu dæmin um þá sem borguðu sig fram fyrir röðina, en við þekkjum þetta alls staðar frá svosem, sykurpabbar skila titlum. Það er auðvitað klárt að ef við hefðum t.d. boðið honum Gylfa mínum hærri laun en hann fékk hjá Spurs væri hann að setja hann úr aukaspyrnum á Anfield en ekki á Liberty Stadium (sorrí Steini, mér finnst enn fúlt við misstum af honum) og sennilega hefðum við líka náð eitthvað af hinum nöfnunum sem við misstum af ef við hefðum borgað þeim sambærileg, helst hærri laun en hin stóru liðin.

  Ekki það að þetta sé ávísun á gleði. Það eru að renna tvær grímur á United vini mína með t.d. Falcao og Di Maria sem kostuðu stjarnfræðilega peninga og virðast eiga erfitt með enska veturinn þessa dagana.

  Þegar þessir tveir punktar koma saman þá sýna þeir að mínu mati einmitt þann veruleika að LFC er ekki búið að vera sem fyrsti kostur á markaðnum fyrir risanöfnin nú um töluvert skeið. En í sumar sást klárlega að eigendurnir eru til í að gambla með býsna háar upphæðir og það fannst mér jákvætt. Þó að leikmennirnir sem þeir keyptu hafi enn ekki sprungið út þá fóru stórar upphæðir í að kaupa þá menn sem BR (og kannski nefnd) völdu.

  Punktmælingin mín er enn pínu að muna eftir flottum úrlausnum síðasta árs og ágætum metnaði í síðasta leikmannaglugga. Að sjálfsögðu þarf liðið að rétta úr kútnum og finna sinn kúrs fram á vorið en allar skyndiákvarðanir afþakka ég, sérstaklega út frá þessum tveimur punktum hér að ofan.

  Þrjóskan og reynsluleysið sem eru að mínu mati tveir stærstu ókostir BR þarf að vinna í…og mitt mat er að þar þurfi að koma til input í þjálfarateymið…sem er alls ekki sjálfgefið að sé eitthvað sem er í kortunum eða gleður stjórann. En ég tel hann þurfa einhvern sem “challengar” hans ákvarðanir sterkar en töffarinn í stuttbuxunum eða grái refurinn.

 30. #31 maggi

  Aðeins til þess að halda lengra með þetta þá er ég svosem ekki að halda því fram að það sé rangt að stærstu nöfnin vilji ekki koma til liverpool borgar, það bendir margt til þess að það sé rétt sbr transfer target sem ekki hefur tekist að klófesta undanfarin misseri þrátt fyrir vilja til að borga uppsett verð og bjóða sambærileg laun og samkeppnisaðilar.

  Annað mál er síðan að klúbburinn eyðir alveg fullt af peningum í leikmenn og ég velti því fyrir mér hvort ekki sé hægt að dreifa þeim peningum í færri nöfn og gera þeim mun betur í launamálum fyrir þau nöfn sem við viljum mikið fá? Ef slíkt dugar ekki einu sinni til þess að lokka heimsklassaleikmenn, erum við þá ekki bara pínu dæmdir til þess að vera alltaf einni skör neðar en toppliðin?

 31. Raunveruleikinn virðist vissulega vera sá að það sé erfiðara að draga menn til Liverpool heldur en til London. Nú hef ég að vísu ekki komið til Manchester, en er sú borg eitthvað meira spennandi heldur en Liverpool? Þeim hefur a.m.k. tekist að draga til sín stór nöfn upp á síðkastið. Kannski spilar þar inn í að United hafa jú átt meiri velgengni að fagna síðustu ár, og því geta þeir því frekar spilað út “þetta-er-svo-sigursæll-klúbbur” spilinu.

 32. P.s. auðvitað ætti það að vera fyrsta verk Brendans á morgnana að renna yfir það sem hefur verið rætt inni á kop.is.

 33. Svona í kjölfar viðtals Rodgers í gær/dag….

  FSG (Tom Werner): “We have the money to compete with any team in the world” ´2012.

  Ayre (talandi um muninn að vera kominn í CL): “Liverpool will target big signings in summer” ´2014.

  Rodgers – nóvember 2014, þremur mánuðum inn í tímabilið: “For one reason or another they are not here and gone elsewhere”. (samt eyddum við 120 milljónum punda í sumar. Betur heima setið en af stað farið kannski?)

  Ef þú ætlar að vera á markaðnum fyrir stóra leikmenn þá þarftu að átta þig á því að það þarf að borga premium. Ekki bíða, prútta, og tapa þegar það kemur samkeppni frá ríkari klúbbum. Við misstum af Alves útaf einhverjum 500 þúsund pundum eða hvað það var, við gátum ekki klárað David Silva hér um árið því við þurfum að styrkja aðrar stöður líka (það fór vel), við tókum þrjár eða fjórar vikur í að tala við ranga aðila með Mkhitarian, kláruðum ekki Costa af einum eða öðrum ástæðum þegar við sátum einir að borðinu sumarið 2013 og náðum að tapa fyrir Spurs af öllum klúbbum þegar við vorum á eftir Willian (áður en Chelsea stökk inn og stal honum).

  Við náðum ekki að klára Konoplyanka. Tókum nokkrar vikur í að semja við Salah, þar til honum var “stolið” á loka metrunum og svo mætti áfram telja.

  Auðvitað er ekkert endilega eftirsjá af Konoplyanka eða Salah. En það er ekki aðalatriðið í þessu. Klúbburinn verður að fara að ákveða sig hver stefnan hans er í leikmannamálum. Ætlum við að vera að keppa um fjórðasætis bikarinn á hverju ári og einblína á unga og efnilega leikmenn. Eða ætlum við að borga fyrir alvöru leikmenn þegar þeir standa til boða, til þess að loka þeim hratt og örugglega, eða ætlum við að halda áfram að kaupa best of the rest?

  Ég spyr bara því út á við þá vilja þeir (FSG, Ayre, Rodgers) meina að við getum keppt við önnur lið. Árangurinn okkar á markaðnum bakkar það ekki beinlínis upp.

  Svo finnst mér þessi umræða um að við verðum að horfa á launin líka vera orðin svolítið þreytt, þá meina ég vegna þeirrar eyðslu sem við höfum verið í s.l. áratug, magn kostar alveg jafnmikið og gæði og breiddin er gagnlaus ef í hana vantar raunveruleg gæði.

  Verðum við bara að horfa á launapakka hjá þeim sem við fáum ekki í stað þess að horfa á kaupverð og samanlögð laun hjá þeimsem fá tugi milljóna greitt fyrir að sitja á bekknum hjá okkur og skila engu til liðsins? Við erum með næst dýrasta leikmann í sögu klúbbins á bekknum leik eftir leik, ásamt auðvitað 20mp í Lazar ofl. Svo myndi ég skjóta á að Andy Carroll og Downing hafi kostað klúbbinn um 70-75 milljón punda (kaupverð+laun) þau tvö ár sem þeir voru hjá klúbbnum. Mikið held ég að Chelsea sjái eftir þeim launapakka+umboðsmannagreiðslur sem þeir hentu í Hazard til að vinna samkeppnina sem þá var um leikmanninn.

  Svo finnst mönnum það vera algjör vitleysa að borga nokkrum milljónum meira fyrir stærri leikmenn eða +xx þúsund pund í hærri laun til þess að landa þessum stærri leikmönnum sem þeir tala um á hverju ári en landa aldrei.

  Áður en menn fara að tala um launa strúktúrinn þá skulum við hafa það á hreinu að Liverpool var tilbúið að greiða Suarez samkeppnishæf laun, hann fór í um 200.000 pund á viku þegar hann skrifaði undir nýja samninginn.

  Við ræddum þetta að hluta til í síðasta podkasti, allt gott og blessað. En ef þetta eru óraunhæfar væntingar á leikmannamarkaðnum, að geta barist um góða leikmenn við góð lið, afhverju þá að byggja upp þessar væntingar með drottningaviðtölum á hverju ári?

  At the end of the day, money talks, bullshit walks. Þannig er boltinn í dag. Að tala um landfræðilega legu lands og borgar finnst mér ódýrt, endilega útskýrið það fyrir vinum okkar frá Manchester borg.

  Það hefur aldrei vantað afsakanirnar. Vel tímasett viðtöl, opin bréf, borgin óspennandi. Þetta er alltaf einhverjum öðrum að kenna. Ég bíð bara eftir því að hlýnun jarðar fari að spila inní þetta allt saman.

  “En við þurfum að stækka hópinn í sumar!!!”

  Uhhh …. ókey. Ég hefði alveg treyst Ibe, Suso, Toure, Branagan, Agger ofl. leikmönnum til þess að:

  Tapa þremur af fjórum leikjum í CL – Þessi eini sigur var … já… ekki sannfærandi gegn stórliði Lúdó.

  Skríða í gegnum fyrstu tvær umferðir CC – þar af í lengstu vítaspyrnukeppni sögunnar gegn stórliði Boro.

  Vera í raunverulegri hættu að vera dottinn úr tveimur stærstu keppnunum í nóvember mánuði.

  Það sem við þurftum raunverulega í sumar var gæði fyrir gæði. Við erum með fullt af fínum og mjög efnilegum leikmönnum. En við seldum okkar eina WC leikmann og keyptum ekkert sem kemst með tærnar sem hann hafði hælana. Þvert á móti þá keyptum við tvo target striker-a til að vera með Sturridge frammi. En ef hann meiðist…..hummm…. tökum Íslendinginn á þetta, þetta reddast!

 34. Mjög góð skrif hér að ofan. Ég tek undir það að okkur vantar yfirburðarmann/menn í liðið. Gerrard er á seinustu metrunum. Þegar maður lítur yfir liðið þá er enginn sem sker sig úr hópnum. Við þurfum bara að vera klókir í janúarglugganum og næla okkur í einn sóknarmann sem skilur okkur mörkum og reyna að kaupa öflugan varnarmann og losa okkur kannski við einn í staðinn. Ég er bjartsýnn á að þetta mun lagast hjá okkur þegar líður á vorið. Öflugir varnarmenn eru ekki mikið á lausu í Evrópu og ef víða væri leitað.

 35. Góðir punktar Eyþór.

  Andy Carroll var ekki á háum launum og kaupverðið beintengt við Torres söluna.

  En Downing er kannski gott dæmi. Við lentum í slag við Arsenal og Spurs um hann, enduðum á að borga hæst fyrir hann og settum hann á hærri laun en Spurs voru tilbúnir að borga. Hann kom í viðtal og lýsti hversu glaður hann væri með að vera kominn til LFC, sagði alla réttu hlutina.

  Svo seldum við hann, sumir sögðu ódýrt, en ástæða þess var að West Ham var þá tilbúið að borga honum laun. Hamrarnir mjög ánægðir með hann frá byrjun…og hann kominn aftur í landsliðið. Svona eru nú kaupin skrýtin á þessari eyri, ef Downing hefði t.d. farið til Arsenal hefði verið talað um metnaðarleysi okkar manna á þessum tíma.

  Alveg eins og núna þegar bent er á Di Maria og Falcao…sem mér heyrist á United vinum mínum að töluverður efi sé um. Hvað þá þegar tveir launahæstu leikmenn enska boltans eru nú varla að vinna fyrir sínum launum, þeir Van Persie og Rooney…eða hvað?

  Ég er algerlega sammála þér Eyþór, við eigum að sjá liðið ná þessum stóru nöfnum og mér finnst Rodgers einmitt vera að benda á það að samningatækni klúbbsins gagnvart “stærri” nöfnum í bransanum sé ekki nægilega góð og hana verði að endurskoða.

  Þar hlýtur að koma til spurning um þau grundvallaratriði FSG að menn þurfi að sanna sig hjá klúbbnum áður en þeir fá launahækkanir…þú verður að gambla með það…jafnvel þó gamble eins og Carroll og Downing hafi ekki virkað.

  Enda haugur af nöfnum sem hafa klikkað hjá stóru klúbbunum og þau sitja upp með tapað fé, það er bara þannig sem þetta rúllar.

  Og ég er á því að ef við hefðum tryggt okkur fjórða sætið í síðustu umferðinni í fyrra væri þolinmæðin gagnvart Lovren, Markovic, Balo og öllum hinum meiri…en það er svosem bara mín skoðun.

 36. Mikið rosalega er ég sammála bæði Julian Dicks og Eyþóri hér fyrir ofan. Ég reyndar skil ekki alveg hvað Maggi er að fara í pistlinum sínum að það eigi ekki að horfa til fortíðar heldur bara að horfa í núið. Maggi er í raun bara að staðfesta þarna í þessum pistli það sem Man U aðdáendur og aðrir andstæðingar Liverpool hafa sagt í töluverðan tíma. Það að Liverpool sé ekki stór klúbbur lengur. Ég ætla samt að halda áfram að berja hausnum við steininn og segja að Liverpool sé enþá stór klúbbur. Þrátt fyrir að liðið hafi ekki náð að vera í topp 4 í nokkrar leiktíðir þá hefur liðið alla vega unnið fleiri titla en Arsenal t.d. síðustu 10 ár.

  Mér finnst bara að Liverpool eigi alltaf að fara í alla leiki til að vinna og þannig hugarfar segir þá líka að Liverpool eigi að vera í baráttu um alla titla alltaf.

  Þá er það BR það virðist vera að hann sé bara ekki með þetta þegar það kemur að því að kaupa leikmenn enda er recordið ekkert spes hjá honum og meira að segja hefur hann í nokkrum tilvikum losað sig við leikmann sem var í versta falli jafngóður og sá sem hann fékk í staðinn. Dæmi Mignolet fyrir Reina, Louvren fyrir Agger, Luis Alberto fyrir Shelvey, Borini fyrir Kuyt.

  Síðan hafa bara mörg kaup sem maður skilur ekki alveg, Igor Aspas, Ilori, Allen, Lambert og síðan núna Lallana. Ég var ekki að skilja þetta Southamton blæti hjá BR í sumar og það virðist sem hann hafi ekki keypt réttu mennina þaðan miðað við gengi þeirra það sem af er tímabili. Í leiknum um helgina voru þessir menn á bekknum eða jafnvel ekki í hóp.
  Lallana 25 millur (næst dýrasti leikmaður í sögu Liverpool)
  Allen 15 millur
  Markovic 19.8 millur komst ekki í hóp þrátt fyrir að hafa átt sinn besta leik á móti Real.

  Það er hægt að tala um að liðið hafi peninga til að kaupa gæði en menn verða þá líka passa sig að eyða ekki fáránlegum upphæðum í miðlungsleikmenn. Það að halda því fram að Lallana sé 25 milljóna virði er svona svipað og að tala um að Caroll sé 35 milljóna virði. Louvren er síðan líka keyptur á fáránlegu verði miðað við að það voru umræður um menn eins og Hummels á jafnvel lægra verði en hann.

  Það er síðan ansi aum skýring að tala um að Liverpool sé svo leiðinleg borg að leikmenn vilji ekki fara þangað. Það er alveg ljóst að það er ekki vandamálið sérstaklega þegar leikmenn eru tilbúnir að vera að spila með einhverju krummaskuði í Rússlandi bara af því að þeir fengu næginlega vel borgað.

  Besta dæmið er náttúrlega uppáhaldsdæmið hans Magga eða Gylfi Sig. Það er alveg vitað að ástæðan fyrir því að hann fór til Tottenham var bara að þeir buðu honum helmingi hærri laun en Liverpool var tilbúið að borga. Án þessi að ég viti allt þá eru bara dæmin sem hrópa á það að Liverpool er bara ekki tilbúið að borga það sem menn vilja og því velja menn annað.

  Það er t.d ferlega sárt að horfa upp á það að ManU skulu vera komnir uppfyrir Liverpool þrátt fyrir að vera með verstu byrjun liðsins frá 96 eða eitthvað álíka.

 37. Sammála Maggi, með væntingarnar séu bjagaðar útaf síðasta tímabili. Þegar Brendan Rodgers var ráðinn sem stjóri sögðu flestir að raunhæfar kröfur til hans væru að koma liðinu í CL á þremur árum. Þriðja árið hans er nýbyrjað og það er farið að pressa mikið á hann – þrátt fyrir að hann hafi komið klúbbnum í CL á ári #2 og verið þremur stigum frá titlinum.

  Di Maria er reyndar búinn að vera frábær hjá United heilt yfir, en Falcao vildi ég aldrei til Liverpool (sbr tímalína mín á twitter þegar hann var orðaður við klúbbinn). Fannst áhættan þar ekki þess virði hjá rétt tæplega þrítugum leikmanni með 3 x krossbandaslit á CV-inu.

  Það er auðvitað ALLS EKKERT samasem merki á milli kaupverðs og getu, fleira sem spilar inn í. En hvenær kemur að því að við sem klúbbur förum að hugsa að kannski séu þessi kaupstefna (magn innkaup, sem við höfum verið í síðan á síðustu öld) ekki að virka. Eins og þeir segja stundum, less is more. Þurfum ekki alltaf 6-8 nýja leikmenn á hverju ári. Stundum geta leikmenn eins og Flangan/Warnock ofl. leyst hlutverk sem að kallar eins og Dossena eru keyptir til að leysa og þar með nýta peninginn í færri en stærri/betri leikmenn.

  Auðvitað eru þessir karlar hjá klúbbnum með þetta mikið mun betur á hreinu en við á litla Íslandi. En það er eitthvað sem er ekki að virka. Sagan sýnir það. En það er auðvitað einhverjum öðrum að kenna.

 38. Ætli BR sé ekki með gsm númerið hjá Clarke. Hann getur örugglega kennt okkur að verjast sem lið, þekktur fyrir að kunna að fá lið til að verjast vel.

  Það er eitt að skora lítið af mörkum eins og núna eftir að Suarez er farinn og Sturridge mikið meiddur, en annað er að við virðumst bara alls ekki getað haldið hreinu lengur. Ef við höldum hreinu þá erum við allavega með 1 stig, en því miður lekur vörnin eins og gatasigti og við fáum alltaf á okkur mörg mörk, nema heima á móti Hull 🙁

 39. Það sem Rodgers tókst að gera þegar hann kom var að breyta liðinu í passing-side. Liðið spilar betur boltanum. Árið 2009-10 var hlutfall heppnaðra sendinga 78,9% og 77% 2010-11 fer svo í 80,9% 2011-12,
  84,2% 2012-13,
  84,1%2013-14.

  Í dag er liðið að sýna fram á 84,3% heppnaðar sendingar. Liðið er þrátt fyrir allt að spila vel en skortir eins og margir hafa bent á gæði fram á við. Til að mynda stóðu þremenningarnir Gerrard, Sturridge og Suarez fyrir 49% allra sendinga innan liðsins á síðasta tímabili og 72% af mörkum liðsins.

  Afhverju eru allir svona hissa yfir genginu? Við erum búnir að vera með algjörlega nýja framlínu það sem af er tímabili.

  Það er of snemmt að dæma félagaskiptagluggan sem mistök. Sú leið var valinn að kaupa unga og efnilega leikmenn það er einfaldlega stefna FSG og þjálfarans. Þetta þýðir að engin high risk quick fix voru gerð og verða ekki í framtíðinni og ég styð það heilshugar.

 40. Leiðist að sjá tal um að það vanti Suarez/Sturridge og það sé ástæðan fyrir slæmu gengi. Við vissum að Suarez myndi fara í sumar og að Sturridge væri mikill meiðslapési.

  Ég gerði mér a.m.k. vonir um að við gætum krækt í gæðaleikmenn eins og Alexis eða Benzema í einhverskonar skiptidíl með Suarez. Þar sem hann var alltaf á leið til Barca eða Real. Það heppnaðist ekki eins og kunnugt er. Þess vegna er alveg gríðarlega svekkjandi að sjá Alexis vera að raða inn mörkum fyrir keppinauta okkar enda leikmaður sem hefði smellpassað í kerfið okkar.

  Er einfaldlega þannig komið að við séum ófærir um að keppa við önnur lið um leikmenn?
  Hvaða önnur lið voru t.d. á eftir Lallana, Lovren, Markovic, Balotelli, Moreno og Can?
  Vissulega voru Spurs e-ð að reyna við Lovren og Lallana enda fyrverandi stjóri þeirra við stjórnvölin hjá Spurs. Þá reyndu Bayern víst e-ð við Can sömuleiðis.
  Málið er samt þannig að mér finnst þessi kaup ekki bera þann keim að við séum komnir í Meistaradeildina.

  Það er algjörlega kominn tími á að fara í leikmenn í þungavigt. Er ekki betra að borga einum leikmanni 250 þúsund pund á viku, sem skorar umferð eftir umferð. Heldur en að borga 3-4 meðalleikmönnum samtals um 250 þúsund pund, sem sitja á bekknum og valda svo vonbrigðum þegar þeir fá sénsinn?

 41. P.S. Við erum náttúrulega að missa menn á borð við Suarez og Sturridge sem er gríðarlegt áfall. Það sem ég er að meina er að við hefðum dílað betur við það með almennilegum kaupum fyrir þessar 100m punda. Þess vegna skil ég ekki afhverju áherslan var ekki fyrst og fremst lögð á að fá heimsklassa framherja. Þegar Suarez var horfinn á braut og meiðsli Sturridge langt frá því að vera ný á nálinni.

  Félag eins og Southampton missti tvo af sínum markahæstu mönnum til okkar, Lambert og Lallana. Skoruðu í heildina 28 mörk sem er gríðarlega stór hluti m.v. markaskorun liðsins. Ofan á það hefur Jay Rodriguez ekki enn náð sér að meiðslum en hann skoraði alls 15 deildarmörk í fyrra. Þarna hafa Southampton misst um 43 deildarmörk í þremur leikmönnum. Næstu menn á eftir þeim í markaskorun voru Dani Osvaldo og Jose Fonte með 3 mörk hvor.

  Þeir hafa samt sem áður náð að díla við þetta á hreint ótrúlegan hátt. Skorað 23 mörk í deildinni og fengið á sig aðeins 5, fæst allra liða í deildinni. Undirbúningsvinna þeirra hefur einfaldlega verið upp á 110% og skilað gríðarlegum ávexti sem sést á stigatöflunni.

  Klárlega klúbbur sem veit hvað hann er að gera enda sést það á upprisu hans undanfarin tímabil. Það verður a.m.k. fróðlegt að sjá hvað klúbbur eins og Southampton getur gert ef hann heldur velli og nær að halda sér í CL baráttunni fram í lokaumferðina. Klárlega lið á uppleið enda með bestu akademíu Englands sem hefur skilað upp mönnum á borð við Walcott, Ox, Bale, Chambers, Ward-Prowse, Shaw og fleirum undanfarin ár.

 42. Alveg sammála þér Maggi, með þessa fortíðardýrkun. Hún gefur okkur ekki neitt. Auðvitað viljum við að liðið sé á toppnum, en það hefur bara ekki verið það síðan ´91. Ég er hinsvegar alveg pollrólegur og get alveg lofað okkur öllum að við endum á topp 4 í vor. Ég efast ekki eina mínútu um að Rodgers er rétti maðurinn í djobbið. Þótt það gangi brösuglega núna til að byrja með þá er hann búinn að sýna okkur að hann getur látið liðið spila góðan bolta þegar rétta blandan er fundin. Boltinn sem liðið spilaði á síðasta tímabili er sá langskemmtilegasti frá því að Evans var með liðið, en öfugt við Evans náði Rodgers að koma liðinu í alvöru toppbaráttu. Núna erum við 4 stigum frá topp-4 og 3 stigum á eftir Arsenal, sem er þó með bæði Özil og Sanchez – menn sem við vildum svo sannarlega fá en fengum ekki. Við siglum fram úr þeim fljótlega, engar áhyggjur. Mitt glas er bara alveg stútfullt drengir YNWA 🙂

 43. Brendan Rodgers var guð hér á síðustu leiktíð. Núna er hann djöfullinn að margra mati. Hann gerði sig vissulegan sekan um dómgreindarleysi þegar hann kippti út hafsent með gríðarlega mikið sjálfstraust eftir að hafa pakkað Ronaldo saman og átt þátt í því að Simone Mignolet átti sinn besta leik í búningi Liverpool. Já, ég er að tala um Kolo Touré.

  Hann setur Dejan Lovren inn á sem er með lítið sjálfstraust sem er bagalegt fyrir miðvörð og hann sýndi það með fáránlegum varnartilburðum á laugardaginn.

  Að gera aðeins eina “breytingu” fyrir Chelsea leikinn, þ.e.a.s. að byrja bara með Emre Can inn á eftir leikinn gegn Real er hneysa. Þar voru að lágmarki 4 ef ekki 5 leikmenn sem hefðu átt skilið tækifærið gegn Chelsea.

  Leikmenn vita að þeir þurfa ekkert að standa sig því þeir byrja alltaf inn á í næsta leik á eftir. Fyrst Rodgers eyddi öllum þessum pening í leikmenn sem ég vil kalla miðlungsleikmenn, þá verður hann að skapa samkeppni og nota breiddina. Engin er ómissandi.

  En það er ljóst að þó enginn sé stærri en klúbburinn er ljóst að Brendan Rodgers verður að fá vinnufrið sem og stjórn Liverpool. Þetta er langhlaup, ekki spretthlaup og til lengri tíma mun Rodgers leiða okkur þar sem við eigum heima, á toppinn!

  Gefum Rodgers þann vinnufrið sem hann þarf og hann mun sýna okkur þakklæti sitt í glæstum sigrum hjá besta knattspyrnufélagi veraldar.

 44. Brendan virðist lítinn lærdóm hafa dregið af leiknum gegn Real Madrid. Liðið spilaði góðan fyrri hálfleik. Innáskiptingar í seinni hálfleik bættu engu við nema síður væri.

  Borini virðist ekki eiga upp á pallborðið hjá Brendan þrátt fyrir allgóða frammistöðu og gríðarlegan baráttuvilja. Kolo Touré hefur ekki verið í náðinni heldur.

  Gerrard o.fl. hafa aftur á móti verið með fast sæti í byrjunarliði óháð frammistöðu. Balotelli getur leist aukaspyrnur og vítaspyrnur af mikilli prýði sé hann í liðinu. Sterling þarf meiri umhyggju en hann hefur notið. Hópurinn er góður en Brendan verður að breyta um takt svo liðið nái að blómstra.

 45. Það er ekkert nýtt hjá Liverpool að kaupa Balotelli í staðinn fyrir Costa. Við keyptum Diouf, Cissé, Bellamy, Collymore og jafnvel Suarez….allt leikmenn sem voru ekkert sérstaklega hátt skrifaðir hjá Elítunni þrátt fyrir hæfileika.

  Þetta er bara hlutskipti Liverpool….en það þarf ekki að vera það. Brendan var á góðri leið með að innleiða sóknarknattspyrnu sem bæði leikmenn og áhorfendur virtust njóta.

  Allir fóru allt í einu að halda með Liverpool. En svo kom blákaldur veruleikinn aftur í þessum leikmannaglugga, í staðinn fyrir að kaupa leikmenn sem myndu gulltryggja okkur í titilbaráttuna þá er keypt eins og öll árin á undan.

  Brendan verður legend á ný ef honum tekst að sannfæra einhverja snillinga um að koma….Balotelli er klárlega ekki málið.

 46. Hef afar lítið skrifað hér inni undanfarið en jæja það er kominn tími á að koma mínum hugmyndum á framfæri.

  Það hefur loðað annsi mikið við Liverpool á þessari öld að sætta sig við valkost B eða jafnvel valkost C.. og þessvegna aftast í stafrófinu þegar þetta snérist bara um að fá einhvern random leikmann til að fylla upp í tómarúm í stað þess að gefa yngri leikmanni sjéns.

  Svo þetta verði ekki mjög langt þá ætla ég að halda mig við leikmannaglugga undir stjórn Rodgers, með þessu er ég ekki að segja að Rodgers hafi staðið sig verr í leikmannakaupum en síðustu stjórar, heldur endurspeglar þessar leikmannagluggar alveg annsi marga leikmannaglugga aftur í tímann.

  Afhverju þarf Liverpool alltaf að eyða háum fjárhæðum í leikmenn sem eru ekkert betri en það sem við höfum fyrir? Í stað þess að kaupa miðlungsleikmenn frá miðlungsliðum á Liverpool að horfa til stærstu klúbba í Evrópu og skoða hverjir eru ekki að fá sanngjarnt tækifæri, sitja jafnvel á bekknum leik eftir leik eða fá amk ekki að spila í sinni uppáhaldsstöðu.

  Ég er samt á því að Balotelli séu ekki verstu kaup sumarsins, verstu kaupin eru klárlega Dejan Lovren. Var Rodgers ekki á þessum leik: https://www.youtube.com/watch?v=5acOnypFyDs ??

  Og afhverju var Lallana á 25m?? Hann var góður með Southampton, en hann var samt langt frá því að vera einhver yfirburðaleikmaður. Rodgers er alltof hrifinn af technical abilities but no end-product. Það hefði verið mikið nær að gefa Suso sjénsinn og nota peninginn annars staðar. Að mínu mati var 50 milljónum punda sturtað ofan í klósettið með kaupunum á Lovren, Lallana og Lambert.

 47. Já það verður að segjast í augnablikinu að það líti út fyrir að Rodgers hafi algerlega skitið í deigið í síðasta leikmannaglugga. Rodgers hrakti Daniel Agger burt frá Liverpool og við fengum bara 3m punda fyrir hann. Að kaupa Dejan Lovren á 20m punda virðist núna hræðileg kaup. Rodgers virðist líka á góðri leið með að hrekja Sakho frá Liverpool og er á fullu að leita að miðverði.
  Hann gat ekki haldið kjaftinum á sér saman með stanslausu tali um hvað Liverpool myndi aldrei gera sömu mistök og Tottenham. Við værum sko alvöru stórklúbbur og við hefðum plan annað en þeir.

  Það plan virðist hafa verið að borga algert yfirverð fyrir 3 Southampton leikmenn bara því þeir komu úr liði sem spilaði possession football. Þetta voru fyrstu 3 leikmennirnir sem voru á blaði hjá Rodgers og við eyddum miklum tíma í eltingaleik við. Alla þessa þrjá leikmenn skortir alvarlega hraða og sprengikraft, eitthvað sem er aðalvandamál Liverpool í dag nú þegar Gerrard er spilandi í algerri sjálfsvorkunn og allt liðið getur ekki pressað hátt uppi lengur því að hann er nær ekkert að verja vörnina.

  Stóra planið hjá Rodgers var líka að bæta upp fyrir Suarez missinn með að kaupa 2 eldfljóta unga spænska bakverði sem áttu að koma með mun meiri hraða og sóknarþunga upp kantana með stanslausum overlöppum. Það plan hefur fullkomlega misheppnast því hvorugur hefur skilað miklu sóknarlega (sérstaklega Manquillo með hræðilegar fyrirgjafir) og báðir verið hræðilega staðsettir í mörgum mörkum sem við höfum fengið á okkur. Svo hefur Moreno átt ótrúleg klaufamistök í jöfnum leikjum, nú síðast gegn Newcastle.

  Emre Can virðast ágæt kaup en afhverju reyndum við t.d. ekki að kaupa Alex Song frá Barcelona í sumar? Sá maður hefur gjörbreytt liði West Ham og hefði verið perfect í að sitja fyrir framan vörnina okkar í staðinn fyrir Steven Gerrard. Ætli Can hafi ekki frekar verið valinn því hann getur líka spilað vinstri bakvörð. Enn kaupir Rodgers fjölhæfa leikmenn í stað ódýrra proven gæðaleikmanna með ofurtrú á eigin man management skills að hann geti breytt þeim og mótað leikmenn eins og leir og gert frábæra eins og Suarez. Hversvegna leikmenn eins og Suso og Jordan Ibe fá enga sénsa á meðan við spreðum heilum 20m punda í Markovic sem hefur fullkomlega ekkert sýnt er bara Twilight Zone material.

  Í sumar áttum við að kaupa leikmenn sem voru proven quality í enska boltanum en núna lítur út fyrir að þú klúðraðir þessu algerlega herra Rodgers. Við áttum að kaupa alvöru karlmenn sem kæmu með sigurhefð, getu og sjálfstraust inní liðið til að lyfta okkur á hærra plan, menn með alvöru reynslu úr CL en þú klúðraðir því algerlega herra Rodgers. Það er engin tilviljun að Kolo Toure kemur inní liðið og brillerar gegn Real Madrid, reynsla skiptir hrikalega miklu máli í CL.
  Þrjóskan sem Rodgers hefur sýnt í að spila Balotelli stöðugt einum frammi er ótrúleg. Sama þrjóska og lætur hann nota Gerrard sem DMC í öllum leikjum þrátt fyrir að öll lið í heiminum viti í dag fullvel hhvernig eigi að pressa Liverpool og við séum fyrirsjáanlegri en andskotinn. ÞETTA ER EKKI AÐ VIRKA RODGERS!

  Rodgers hefur líka margoft afþakkað hjálp sem honum hefur verið boðið. Hann hefði getað Lois Van Gaal sem aðstoðarmann, sá maður er með gríðarmikið tengslanet í knattspyrnuheiminum og hefði klárlega getað hjálpað mikið við að ná í heimsklassa leikmenn til Liverpool. Eitthvað sem Rodgers hefur reynst í stökustu vandræðum með að gera. Jafnvel Rafa Benitez tókst að lokka Javier Mascherano til Liverpool með því að fara persónulega á einkafund til hans og sannfæra. Hvenær ætlar Rodgers að sýna okkur slík tilþrif á leikmannamarkaðnum?

  Rodgers segir í viðtölum að það sé stanslaust verið að vinna í föstum leikatriðum og varnarleiknum á Melwood æfingasvæðinu. Það hlýtur að vera eitthvað djók því maður hefur stundum ekki séð jafn pathetic og naive varnarleik í evrópskum fótbolta síðan Knattspyrnufélagið Falur var og hét ef menn muna eftir þeim bráðfyndnu teiknimyndasögum. Rodgers er algjörlega einráður með ráðningar á þjálfurum hjá Liverpool FC og þetta er afraksturinn á varnarleiknum ár eftir ár. Algjörlega pathetic. Hvernig væri að fá alvöru varnarþjálfara sér við hlið í stað “ég get séð um þetta all saman” syndrómið sem virðist hrjá Rodgers og fór líka algerlega með Rafa Benitez síðasta árið hans hjá Liverpool?

  Í fyrra snerist allt spil Liverpool í kringum Luis Suarez. Við vorum eins og hann með blússandi sjálfstraust, aggressívir og ógnandi útum allt. Suarez leiddi liðið. Í ár snýst allt spilið í kringum Steven Gerrard. Við erum eins og hann löturhægir, fyrirsjáanlegir og þreyttir. Liðið er að leiða Gerrard.
  Það er greinilega eitthvað mikið að andlega hjá liðinu. Við höfum nánast nákvæmlega sama lið og náði 2.sæti í fyrra en allir leikmenn sem voru að spila afburða vel í fyrra eru bara skugginn af sjálfum sér í ár. Allir. Kannski lagast allt þegar Sturridge kemur tilbaka ásamt þessari 30m punda marquee signing sem allir bíða eftir í janúar. (Isco?) Ég stórefa það þó. Það þarf nýtt hjarta í Liverpool, nýjan leiðtoga, og Rodgers þarf ráðrúm til að einbeita sér að því sem hann er frábær í og meiri hjálp við það sem hann miður góður við.

 48. Sæl öll.

  Jæja ég hef nú verið hálfdöpur undanfarið ekki endilega út af gengi minna manna heldur yfir því hvað margir stuðningsmenn eru fljótir að fara að heimta að reka mann og annan. Auðvita gengur ekki nógu vel þessa dagana en ég er eins og sumir hér, full bjartsýni og vonar. Kannski þarf ég að bíða út þetta tímabil þar til birtir upp en ég hef alveg þolinmæði í það. Ég treysti Brendan Rodgers og ég treysti stjórninni ég trúi því að þeir viti alveg nákvæmlega hvert þeir stefna með liðið.

  Frasarnir eins og Róm var ekki byggð á einum degi, og góðir hlutir gerast hægt verða nú teknir úr skápnum og rykið þurrkað af þeim og þeim fleygt vinstri , hægri.

  Vegna góðs gengis á síðustu leiktíð þá bjuggust allir við sömu flugeldasýningu og þess vegna eru vonbrigðin gífurleg.

  En kæru félagar nú verðum við bara að þjappa okkur saman og standa við bakið á liðinu okkar, ég er nokkuð viss um að þeim (drengjunum okkar) líður ekki vel með þessa stöðu og vilja líklega meira en við að þeim fari að ganga betur. Það vantar svolítið gleðina í liðið en ég trúi því að það komi og þeir fari að kynnast betur og njóta þess að spila. Á síðasta tímabili spiluðu þeir bara fyrir gleðina og gott gengi var bónus, nú þurfa þeir að standa undir þessu góða gengi og það er greinilega erfitt.

  Eins og einn sagði hér á undan þá eru bara 4 stig á milli okkar og liðsins í 4. sæti og ansi margir leikir eftir og ég ætla bara að trúa því sem hann Heimir Eyvindarson segir og okkar lið endar í topp 4 enda er glasið mitt stútfullt og meira í könnu við hliðina.

  Eitt sem er svolítið fyndið, á síðustu leiktíð var talað um Liverpool í öllum blöðum,fréttatímum alls staðar þar sem fólk hittist var talað um Liverpool og allt í einu var nágrannin orðin Poolari ( ég sem var alveg viss um að hann væri Man.Utd) og gamall skólafélagi sem var Evertonmaður var orðin Poolari. Núna þegar ég hitti nágrannann og ætla að spjalla við hann um okkar menn, svona eins og ég gerði oft í fyrra ….nei nei hann hefur engan áhuga á fótbolta og því síður þessu lélega liði sem Liverpool er.

  Ég hef haldið með Liverpool frá 1978 við höfum gengið í gegn um súrt og sætt , ég hef grátið með þeim og glaðst með þeim. Liverpool er svo stór hluti af mínu lífi í dag að ef ég hætti að halda með þeim þá gæti ég eignast þríbura og alið þá upp svo mikill tími myndi myndast. En ég á ekkert val ég er með Liverpoolblóð og ég get ekki hætt..ég vil ekki hætta.

  Elsku vinir verum nú bjartsýn og sendum bara jákvæða strauma og munið að rýna alltaf til gagns þá verður lífið svo mikið skemmtilegra.

  Þangað til næst

  YNWA

 49. Nr 50 – Ég missti nú athyglina af Lovren eftir svona 5 sek og augun voru bara á Suarez, þvílik hreyfing á manninum, ímyndið ykkur að spila á móti svona manni.

 50. Rosalegt að sjá Suarez í video ( nr 50 ) Sjáið hlaupið hjá honum í síðasta færinu. Balo er búinn að vera dæmdur svona 50 sinnum rangstæður í síðustu leikjum. Svona gera snillingar, hleypur inn í línuna rétt áður en boltinn kemur, og svo kominn einn inn.

  Annað sem ég var búinn að gleyma í Chelsea leiknum. Fyrstu 20 mínutur gengu Chelsea mennirnir á miðjunni framhjá Gerrard nokkrum sinnum, hann átti ekki séns. Það getu verið að Gerrard sé flinkur að senda boltann, en hann er enginn varnar sinnaður miðjumaður, þá vil ég frekar sjá Lucas með tveim góðum sókndjörfum miðjumönnum.

 51. Um leið og ég sá byrjunarliðið gegn Chelsea þá missti ég einfaldlega trúnna á okkar heittelskaða stjóra Brendan Rodgers.

  Þeir menn sem komu aftur inn í liðið eftir arfaslaka frammistöðu á öllu tímabilinu í stað leikmanna sem virkilega lögðu sig fram og spiluðu vel gegn Real Madrid áttu bara alls ekkert skilið að byrja leikinn og gaf þetta skýr skilaboð um það að við erum með breidd í hópnum, en Rodgers treystir henni ekki og þorir ekki að nota hana!

  Í besta falli fannst mér þetta kjánaleg ákvörðun og með fullri virðingu fyrir honum og því sem hann hefur gert fyrir okkur þá er þetta bara endastöðinn. Við þurum bara, að ég held annan mann til að stýra skipinu sem kemur með aðeins öðruvísi áherslur og er meira sannfærandi í sínum aðgerðum.

Tap gegn Chelsea

Ég skil ekkert í neinu