Real á morgun, í Madrid

Okkar menn heimsækja Evrópumeistara Real í Madrid annað kvöld í fjórðu umferð B-riðils Meistaradeildarinnar. Það eru tvær vikur síðan spænska stórveldið kom á Anfield og uppskar auðveldan 3-0 sigur og miðað við brösótt gengi okkar manna síðan þá er lítið annað uppi á teningnum en svipuð úrslit annað kvöld.

Um gengi Liverpool hefur margt verið pælt og ritað. Ég tíundaði mínar skoðanir á spilamennsku liðsins í ummælum við leikskýrslu helgarinnar og stend við þá punkta hér. Að mínu mati er margt að og á mörgum stöðum og það eitt að breyta byrjunarliðinu leysir ekki allt sem á bjátar. Það er þó góð byrjun að hætta að berja höfðinu í steininn með eftirfarandi atriði:

  • Balotelli einn frammi.
  • Tveir sókndjarfir bakverðir í einu.
  • Joe Allen og Phil Coutinho í byrjunarliði.
  • Of mikil ábyrgð á axlir 19 ára ungstjörnu.
  • Steven Gerrard að spila hverja einustu mínútu án undantekningar.
  • Dejan Lovren sem leiðtogi varnarinnar.
  • Simon Mignolet sem aðalmarkvörður Liverpool.

Það er lítið hægt að gera í bili í síðustu tveimur atriðunum, þar sem við verðum a.m.k. að bíða fram í janúar með að sjá nýjan markvörð í bleiku treyjunni og vegna meiðsla Mamadou Sakho er Lovren sjálfvalinn í liðið, a.m.k. út þessa viku. Eins er mjög erfitt að ætla að gera eitthvað í The Gerrard Conundrum þar sem aðeins einn varnartengiliður er í leikmannahópnum (Lucas Leiva) og Brendan Rodgers virðist gjörsamlega búinn að gefast upp á honum.

Fjögur efri atriðin er hins vegar vel hægt að laga með núverandi leikmannahópi. Jafnvel án Daniel Sturridge hlýtur Rodgers að fara að sjá að það hentar öllu liðinu betur að leyfa Fabio Borini eða Rickie Lambert að byrja frammi með Balotelli frekar en að láta hann þræla einan og í einangrun í fleiri leikjum. Síðustu vikur hafa verið skólabókardæmi um hvernig þú einangrar framherja og ég er efins um að Alexis Sanchez eða Marko Reus væru að gera mikið meira í þessu kerfi.

Ekki það að Balotelli sé undanþeginn gagnrýni, hans gallar eru margir og hafa verið milli tannanna á fólki nær stanslaust frá því að hann kom í ágúst en við getum þó samt verið sammála um að það er ekki að hjálpa honum að vera látinn spila einn frammi með steingelt uppspil á bak við sig.

Að sama skapi finnst mér Rodgers vera að nota Raheem Sterling of mikið, og vitlaust. Leik eftir leik, úti á kanti í maður-á-mann baráttu við bakverði sem hafa fengið þau skilaboð að hann skuli sparka niður um leið og hann ógnar er ekki það sem ég kalla skynsama notkun á manni sem gjörsamlega rústaði liðum eins og Manchester City, Arsenal og Manchester United í frjálsu hlutverki milli miðju og tveggja framherja fyrir aðeins örfáum mánuðum síðan.

Eins finnast mér greinileg þreytumerki á Sterling og sting ég því upp á því að hann fái að byrja þennan leik á bekknum, hugsanlega notaður sem hámarksleikmaður síðasta hálftímann ef úrslit leiksins eru enn í boði.

Þá finnst mér, miðað við frammistöður, að Joe Allen og Philippe Coutinho ættu að setjast á bekkinn og það strax. Ef Emre Can fær ekki séns á meðan Joe Allen er að spila svona getum við alveg gleymt því að Rodgers ætli sér að nota hann yfirhöfuð, og færi hann þá í þennan skrýtna flokk með mönnum eins og Sakho, Nuri Sahin og Fabio Borini sem hafa komið til liðsins undir stjórn Rodgers án þess að hann hafi nokkurn sýnilegan áhuga á að nota þá.

Að lokum er eitt atriði sem ég hef hugsað aðeins eftir helgina: á meðan vörnin er svona brothætt finnst mér glapræði að spila með tvo sókndjarfa bakverði, ekki síst á heimavelli besta sóknarliðs í heimi. Alberto Moreno byrjaði vel með liðinu en hefur dalað aðeins og verið að gera afdrifarík mistök. Glen Johnson átti sinn besta leik í langan tíma í vinstri bakverði gegn Swansea í síðustu viku á meðan Javier Manquillo var keyptur af því að hann er betri varnarbakvörður en aðrir slíkir sem við eigum.

Með þetta allt í huga ætla ég að stinga upp á eftirfarandi byrjunarliði á morgun, og í næsta leik þar á eftir:

LineUpvReal

Þetta lið býður upp á okkar bestu varnaruppstillingu í dag. Sakho er meiddur, Moreno er að gera mistök og því er betra að hafa besta varnarbakvörðinn okkar, Manquillo, hægra megin og hinn reynda Johnson vinstra megin. Eins fær Gerrard næga hjálp á miðjunni fyrir umsátrið sem bíður okkar eflaust á Santiago Bernabeau en um leið er hraði í þessari miðju og sóknarmönnunum sem ætti að bjóða upp á möguleika á skyndisóknum.

Ég gæti séð þetta lið fyrir mér standa af sér mesta fárviðrið framan af leik og taka svo sénsana síðasta hálftímann með því að setja Sterling og Coutinho inn ferska af bekknum, og jafnvel Moreno eða Allen líka, til að reyna að koma framar og ná einhverju úr þessum leik. Klassísk útivallarframmistaða í Evrópu, ef það gæti tekist.

MÍN SPÁ: Ekki það að neitt af þessu gerist. Ég er frekar svartsýnn á þennan leik, sé ekki fyrir mér að Rodgers breyti miklu af ótta við hvað þetta Real-lið getur gert okkur, og ef það gerist, og með hliðsjón af því að þeir unnu núverandi liðsuppstillingu okkar 3-0 á Anfield, yrði ég að spá Real 4-0 sigri á Bernabeau.

Mínu liði gæti ég alveg í bjartsýniskasti spáð 1-1 jafntefli, eða a.m.k. naumara tapi. En það er auðvitað löngu vitað að það er vitleysa að þykjast vita betur en knattspyrnustjórinn sjálfur. Ég er bara gaur heima í stofu að spila Football Manager. En maður má láta sig dreyma um að á mann sé hlustað. 🙂

Sem sagt, slæmt tap í spilunum á morgun og vonandi verða það síðustu töpuðu stigin í þessum riðli. Jafntefli hjá Basel og Ludogorets væri vel þegið, líka.

Áfram Liverpool!

29 Comments

  1. Mikið er ég sammála þér um það sem er að hjá liðinu. Ég myndi vilja ganga lengra með liðið í þessum leik. Lucas inn fyrir Gerrard, Kolo fyrir Lovren. Svo held ég að þetta væri góður leikur fyrir Markovich. Leikurinn við Chelsea er mikilvægari.

  2. Frábær upphitun.

    Ég met stöðuna þannig að við eigum að hvíla sem flesta lykilmenn fyrir þennan leik. Er nokkuð viss um að Real muni einnig hvíla nokkra enda þegar svo gott sem búnir að vinna þennan riðil. Hér þarf einnig að hafa í huga að þrátt fyrir stórtap í þessum leik á morgun þá eru örlögin enn í okkar höndum í þessum riðli.

    Leikurinn á móti Chelsea um næstu helgi er svona c.a. 10x mikilvægari fyrir okkur en þessi leikur á morgun.

  3. Ég skil ekki hvers vegna menn eru að kvarta undan Simon Mignolet sem aðalmarkverði Liverpool. Maðurinn er klárlega topp 20 aðalmarkvörður í ensku úrvalsdeildinni.

  4. Varðandi gengið okkar þá ákvað ég að skoða tímabilið í fyrra í von um að finna eitthvað jákvætt fyrir framtíðina. Svona var staðan 3/11/13:

    1. Arsenal 25
    2. Chelsea 20
    3. Liverpool 20
    4. Tottenham 20
    5. City 19
    6. Southampt. 19
    7. Everton 19
    8. Utd 17

    Markatalan var 17:10 í staðin fyrir 13:13 í dag. Sem sagt bara 4 mörk meira skoruð og 3 á okkur. Við vorum nýbúnir að tapa 2-0 fyrir Arsenal í leik þar sem við áttum ekki sjéns. Höfðum unnið WBA á Anfield í 9 umferð 4-1. Síðan förum við á 7 leikja „run“ vinnum 6 og gerum jafntefli við Everton þangað til við töpum óverðskuldað á móti City og Chelsea um jólin.

    Í dag:
    1. Chelsea 26
    2. Southamp. 22
    3. Man.City 20
    4. Arsenal 17
    5. West Ham 17
    6. Swansea 15
    7. Liverpool 14
    8. Tottenham 14
    9. Everton 13
    10.Utd 13

    Ef við skoðum leiki gegn sömu liðum (QPR/Cardiff) þá vorum við með 19 stig úr leikjunum í fyrra. Ef við skoðum hins vegar markatöluna gegn sömu liðum þá var hún 27-15!

    Þetta hjálpaði því ekki sálartetrinu! Það eina sem hægt er að finna jákvætt er að við eigum ennþá sjéns á 4 sætinu, 2 sæti í CL grúppunni og bikarkeppnunum. Enn þá þurfum við að byrja tímabilið gegn Chelsea næsta laugardag. Held að úrslitin gegn RM muni ekki hafa mikil áhrif á tímabilið nema þeir slátri okkur.

  5. Plís Kristján snaraðu þessu yfir á ensku og sjáðu til þess að Rodger les´etta

  6. On the spot..as usual….

    Vonandi sjáum við skynsamari nýtingu á góðum mönnum.

    Annanð sem ég hef verið að spá í er að kannski er Balotelli kallinn bara ekki framherji. Kannski ætti að draga hann aftur á völlinn.

    Verður erfitt sama hvað BR gerir…..

  7. Það er nú einnig áhugavert að í þessum samanburði #5 eru flest liðin sem ættu að vera í baráttu um topp fjögur sætin í verri málum en í fyrra. Fyrir ofan okkur er líka mikið af liðum sem þrýtur nær örugglega örefnið áður en tímabilinu lýkur. Topp fjögur er ennþá innan seilingar en liðið verður að fara að koma sér í gagn.

  8. Finnst að Rodgers eigi hiklaust að gefa Kolo Toure sénsinn á kostnað Lovren. Menn eiga ekkert að spila leik eftir leik þegar þeir gera lítið annað en að drulla upp á bak. Hann hefur ekkert nema gott af því að setjast á tréverkið og hugsa sinn gang.

    Óþolandi að hafa eytt um 60m punda í varnarmenn á þessu ári en vera svo samt sem áður með eina af döprustu vörnum deildarinnar. Hrein skelfing!

  9. Sargon þú ert vonandi ekki leggja til að Toure og skrtel byrja saman á móti Real Madrid ? síðan finnst mér galið að halda að lausnin á varnarvandamálum liverpool sé að breyta vörninnni enn einu sinni þurfum að fara leyfa vörninni að spila sig saman en ekki þessar endalausu breytingar

  10. Kristján Atli viltu semsagt að Brendan noti ekki Sterling á hvorki á móti Real Madrid né Chelsea, það er vissulega þreytumerki á honum. En á meðan Sturridge er meiddur þá er Sterling okkar hættulegst leikmaður og það væri agjörlega galið að nota hann ekki þessum leikjum

  11. Sælir félagar

    Takk fyrir leikskýrsluna KAR. Húna segir allt sem þarf að segja og ég hefi engu við að bæta. En svona í framhjáhlaupi þá er talað um að þrjóta “örendið” (ekki örefnið #8) það er að missa andann, standa á öndinni ná ekki andanum. Ekki að þetta skipti nokkru máli en ég vona bara liðið okkar þrjóti ekki örendið núna í upphafi leiktíðar né í þessum leik.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  12. Það er bara ekkert sem gæti hugsanlega bent á sigur okkar manna í þessum leik.
    Mín spá er kolsvört og er 7-0 fyrir Real.
    Vonandi hef ég vitlaust fyrir mér. Þegar sumarkaup uppá rúmlega 100 punda virðast vera flopp þá er ekki von á góðu.
    Þeir einu sem græddu á sölunni á Suarez voru Southampton fc þeir fengu 49 mills fyrir þrjá leikmenn sem hafa ekki sýnt mikið sem af er.

    Adam Lallana £25,000,000

    Rickie Lambert £4,000,000

    Dejan Lovren £20,000,000

  13. Couthino og Allen voru slakir í seinasta leik á móti Newcastle en voru þó nánast þeir einu með lífsmarki í fyrri leiknum á móti RM.
    Couthino var sennilega besti maður Liverpool í þeim leik og gæti verið sterkur leikur að hafa hann með frá byrjun. Annars nokkuð sammála þessari upstillingu, fínt að mæta með varnarsinnað lið á Bernabeu til að “takmarka skaðann”.

  14. Þegar Liverpool komst loksins loksins aftur í meistaradeildina hlakkaði mig til að sjá liðið etja kappi við bestu lið Evrópu og hafði fulla trú á því að okkar menn myndi keppa við þessi lið á jafnréttisgrundvelli. Það voru afar fá lið að spila betur en Liverpool á síðasta tímabili og ég hefði alveg haft trú fyrir leiki eins og gegn Real Madríd. Með og án Suarez.

    Þess vegna eru þessi hrútleiðindi í upphafi tímabilsins gríðarleg vonbrigði og ég hef aldrei á ævinni haft eins litla trú á Liverpool fyrir nokkurn leik. Eitthvert veðmálafyrirtækið setti 12/1 á sigur Liverpool í þessum leik sem þýðir að ef ég set 1.000 kr á sigur Liverpool þá tapa ég 1.000 kr.

    Þetta er fáránlegt en endurspeglar vel stemminguna núna og litla trú á okkar mönnum. Vanalega væri þetta klassískur grunnur fyrir glæstan sigur okkar manna en maður hefur ekki einu sinni trú á því núna.

    Ég er sammála upphitun KAR í flestum meginatriðum, þetta lið okkar er búið að spila mest allt tímabilið án Sturridge og auðvitað Suarez. Þá þýðir ekkert að henda bara Balotellli inn og ætla að spila svipaðan fótbolta. Ef þú missir alla þrjá sóknarmennina þína (ekki gleyma Aspas maður) þá þarf að horfa á hvað er hægt að laga annarsstaðar og Liverpool gat svo sannarlega bætt varnarleikinn. Hann er ennþá verri núna og samt er búið að eyða tæplega 50m í varnarsinnaða leikmenn. Miðverðirnir fá mestu gagnrýnina en fnykurinn af varnarleiknum nær alveg frá markmanni til framherja.

    Real Madríd krefst mikillar orku frá okkar mönnum og fjórfalt betri varnarleiks en félagið hefur verið að bjóða uppá.

    Einhvernvegin svona myndi ég vilja sjá liðið á morgun.

    Glen Johnson vill ég ekki sjá röngu megin þrátt fyrir góðan leik gegn Swansea og satt að segja myndi ég ekki gráta það að sjá Manquillo spila þennan leik frekar, hann er líklega fljótari og engu verri varnarlega. Moreno hefur rétt eins og allir aðrir varnarmenn liðsins gerst sekur um mistök en hann er fyrir því okkar langbesti vinstri bakvörður og þekkir spænska boltan vel. Hann spilaði gegn Real í fyrra og var í liði sem fór í úrslit í UEFA cup. Lovren og Skrtel eru svo því verr og miður sjálfvaldir eins og KAR kemur inná.

    Á miðjunni var það frekar Gerrard sem ég var í vafa með frekar en Can. Þá er ég að meina í stað Lucas. Gegn Real Madríd myndi ég halda að okkar eini varnartengiliður myndi spila en þar sem Lucas er í kuldanum og ekki má hvíla Gerrard held ég að þetta verði frekar svona. Can hefur svo kraft, hæð og hraða sem gæti komið að notum á miðjunni gegn Real og því hef ég hann þarna frekar en t.d. Allen sem var eins og fiskur á þurru landi gegn Newcastle.

    Henderson og Lallana væru svo að draga sig út á kantana og hjálpa bakvörðunum gríðarlega mikið enda hafa Real Madríd Bale og Ronaldo sitthvorumegin. Miðjan þarf að vera þétt og verjast sem ein held.

    Frammi hefði ég svo Sterling og Borini. Þeir gætu báðir dregið sig út á vængina og hjálpað til þar ásamt því að pressa varnarmenn Real. Balotelli vill ég ekki sjá nálægt þessum leik, mikið frekar Borini í 60-70mínútur hlaupandi úr sér hjartað. Sama á við um Sterling sem er þar fyrir utan okkar eini leikmaður með hraða og sprengikraft í grend við það sem Sturridge bíður uppá.

    Þetta er lið með mikla hlaupagetu og vinnusemi.

    Óttast 4-0 tap.

  15. Að mínu mati var liðið að spila fínan leik á móti Swansea í bikarnum um daginn og sá leikur sagði mér að Brad Jones sé að öllum líkindum sterkari markvörður en Simon Mignolet í dag.

  16. Ég er búinn að skoða liðsuppstillingar sem KAR og Babu hentu hér inn. Hvernig í ósköpunum getur liðið okkar verið svona slakkt á pappír eftir að hafa eytt rúmum 100m punda í sumar?
    Maður getur ekki annað gert en að hrista hausinn yfir þessu kjaftæði.

  17. Sammála þér Kristján að öllu leiti nema að ég vill ekki sjá Lovren í liðinu…. Kolo takk fyrir minn part… Er gríðarlega svartsýnn fyrir þennan leik og spái 6-0… góðar stundir

  18. Við byrjum 11 á móti 11 á morgun og ef þeir 11 sem byrja inná á morgun leggja sig 100% fram í þennan leik þá getum við alveg stolið stigi eða stigum. Það er ekki eins og við séum að fara að spila við eitthvað óvinnandi vígi, þó svo þeir séu núverandi Evrópumeistarar.

    Ég spái þessu 2-2 en vonast eftir þjófnaði 2-3 🙂

  19. Sæl og blessuð.

    Er ég sá eini hér inni sem trúir á kraftaverk? Er ekki kominn tími á “unreal” upplifun á Bernabeú?

    Þegar gangan verður seig, fara hinir seigu á kreik. Eigum við að trúa því að herfylkingar njósnara og skáta hafi ekki vitað betur en svo að þessir milljónatuganýliðar okkar kynnu ekki meira fótbolta en þeir hafa sýnt sófar?

    Hefðum átt að velja snæderlín frekar en lovren, bóní frekar en lambert, sigurdsson frekar en lallana … sakho frekar en sakho osfrv.

    Sjúddhefkúddhef.

    Neibb, kæru Kop-hangsarar – framundan er leikurinn sem segir okkur að nú höfum við losað okkur úr botnleðjunni og tökum hressileg sundtök með takkaskóna á fætinum upp á yfirborðið að nýju. Tjörnin er vissulega hálffull en ekki meira en það og við þurfum ekki langan tíma til að sýna hvað í okkur býr.

    Hugsið ykkur – engin mistök í vörninni. Ég ítreka og endurtek: ENGIN MISTÖK Í VÖRNINNI. Þetta stórkostlega og úthugsaða leikplan mun tryggja okkur a.m.k. jafntefli á móti hinum hvítklæddu heimamönnum enda virðist sem andstæðingum okkar sé með öllu fyrirmunað að skora mörk án þess að við gerum mistök í vörninni. Meira að segja eldflaugaþruman frá Everton sem þandi út möskvana svo að þeir virtust ætla undan að láta – voru mistök markvarðarins sem stóð of hokinn á línunni.

    Engin mistök í vörninni, og við erum nokkuð örugg um að markið haldist hreint.

    Og svo er það hitt – tvímenningur í fremstu víglínu – gæti gert okkur kleift að horfa á eftir þeim hnöttótta skoppa í einu sinni yfir marklínu þeirra konugbornu. Hversu póetískt væri það nú?

    Á þessum tímapunkti er rétt að rifja upp stóráfanga mannkynssögunnar, einkum og sér í lagi þegar Flotinn ósigrandi, spænska armadan hrökklaðist undan ensku byssubátunum á því herrans ári 1588 þvert á allar væntingar sófaflotaspekinga þess tíma. Nú horfum við upp á nýtt undanhald og nýja sigra sem koma munu öllum á óvart.

    Nema þeim sem trúa á kraftaverk.

  20. Meiri kraft og þunga á miðjuna , fara í 4-4-2, bakverðir fara ekki eins hátt. Hendo-Allen-Couthino saman er þetta búið spil. Lallana og Marko á köntum, Hendo og Gerrard/Can á miðjunni og Balo og Borini frammi. Mark og vörn eins nema Johnson út og Manquillon í staðinn……Sterling á bekk, enda ekkert getað,,,ofmetinn???

  21. Er sammála Kristjáni að flestu nema!!!! mér hefur fundist Couthino vera okkar besti maður í undanförnum leikjum fékk hæstu einkun á skysports í leiknum á móti real 7
    átti skot í stöng og fl tekinn útaf alveg óskiljanlegt af Brendan var okkar besti maður er svo ekki í byrjunarliði í næsta leik????

    hæstu einkun á sky sports á móti hull Coutinho On ’61

    Changed the game coming on after 60 minutes einkun 8

    og áttu góðan leik á móti svansea í deildarbikar
    en átti ekki góðan leik á móti newcastle átti þó hættulegasta færið okkar skalla
    hann á þetta ekki skilið miðað við síðustu leiki okkar getur verið að Kristján hafi farið mannavillt?

  22. Ég hef haft þá hugmynd í huganum að við töpum 4-0. Mitt svar við því er “tja, við töpuðum þó ekki 5-0”.

    Ég er hræddur við þennan leik engu síður en ég var hræddur við leikinn á móti Hull. Aftur á móti get ég skýlt mér á bakvið það að við erum að spila við Real Madrid í þetta skiptið.

  23. Það mikilvægasta í skyndisóknum Liverpool er að Sterling beri upp boltann. Þess vegna getur hann ekki verið frammi og verður að vera í frjálsu hlutverki á miðjunni. Í kvöld langar mig að sjá Rodgers stilla upp varnarsinnuðu liði og breyta úr 4-3-3 taktíkinni yfir í eitthvað varnarsinnaðra. 4-5-1 gæti t.d. verið mjög sniðugt. Sterling í holunni fyrir aftan Balotelli/Borini, Markovic og Lallana á köntunum. Henderson/Lucas og Can djúpir á miðjunni.

    Að vera þéttir til baka og sækja með skyndisóknum er eina leiðin til að spila þennan leik. Það verður að spila þetta eins og Benitez spilaði þetta.

  24. Ég veit ekki betur en Emre Can geti bæði leyst hafsent og varnarsinnaðann miðjumann.

  25. Ég vil sjá Lucas koma inn í liðið. Finnst skrýtið hvað hann er kældur mikið – á að passa eins og flís við rass í svona leiki. Hann og Can djúpir, Henderson eða Lallana, Sterling, Balo, Borini fyrir framan mígleka vörnina.

  26. Hvaða helvítis neikvæðni er þetta? Við erum alltaf að fara vinna þennan leik

  27. Jæja, þetta verður eitthvað skrautlegt á afmælisdaginn minn! Stefnir m.a.s. í að BR mæti með hálfgert deildarbikarlið í kvöld, ef eitthvað er að marka fréttir og spekúlanta.

    Þori ekki fyrir mitt litla líf að spá neinu, en ætla að njóta leiksins með góðum bjór og flatböku. Góð uppskrift að mini afmælisveislu þar.

Newcastle 1 – Liverpool 0

Kop.is Podcast #71