Liverpool heimsækir Newcastle

Í hádeginu á laugardaginn munu leikmenn Liverpool ferðast til Newcastle þar sem Alan Pardew og lærisveinar hans hjá Newcastle United taka á móti þeim.

Newcastle – síðustu ár

Ekki er langt síðan Newcastle féllu úr Úrvalsdeildinni ásamt West Ham United (2008-2009 tímabilið) og kom það svona nokkuð á óvart enda hafði Newcastle árin þar áður verið mjög solid eða jafnvel gott lið sem endaði sjaldan fyrir neðan miðja deild.

Newcastle endurhlóðu batteríin í 1.deildinni. Einhverjir leikmenn fóru frá þeim en þeim tókst að halda sínum mikilvægari og/eða traustustu leikmönnum eins og Fabricio Coloccini, Kevin Nolan, Jose Enrique, Tim Kruul og Joey Barton svo eitthvað sé nefnt. þarna gátu þeir líka komið Andy Carroll betur inn í liðið og hann spilaði afar vel í kjölfarið fyrir þá. Liðið var enn með Úrvalsdeildarlið þrátt fyrir að vera í 1.deildinni og fór að sjálfsögðu beina leið upp sem sigurvegari í 1.deildinni.

Leiktíðina eftir byrjuðu Newcastle með gífurlegum krafti og fóru leikmenn eins og Kevin Nolan og Andy Carroll hamförum fyrri part leiktíðar. Chris Hughton hafði tekið við liðinu í 1.deildinni og virtist ætla að ná ágætum árangri með liðið í efstu deild. Eins og við var að búast fór svo að halla undan fæti hjá Newcastle sem voru í 5.sæti deildarinnar þegar best var en nokkrir tapleikir og lélegt gengi varð til þess að umdeildur brottrekstur Hughton frá félaginu leit dagsins ljós.

Inn fyrir Hughton kom umdeild ráðning. Alan Pardew, núverandi stjóri þeirra, var ráðinn en síðasta starf sem hann hafði haft var hjá 2.deildarliði Southampton en saga hans og árangur úr Úrvalsdeildinni var ekkert til að fylla stuðningsmenn Newcastle af spenningi. Það var svo sem fljótt að breytast því fyrsti leikur hans með liðið endaði í 3-1 sigri á Liverpool þar sem að Andy Carroll gjörsamlega át upp Liverpool liðið. Ég man eftir að hafa horft á þann leik – ásamt reyndar nokkrum öðrum leikjum og heillast mikið af Carroll og sannfært mig um að þennan leikmann vildi ég fá í okkar raðir!

Félagaskiptaglugginn hjá Newcastle í janúar 2011 var nokkuð stór. Þeir nældu í franska kantmanninn Hatem Ben Arfa sem hafði árin áður verið mikið orðaður við stærri lið í Englandi og Evrópu en meiðslatímabil þar sem hann náði ekki að halda dampi fældi lið eflaust frá. Hann var hvalreki fyrir Newcastle að mínu mati og átti þar nokkuð fín ár þó að stöðugleika hafi kannski vantað í hans leik á köflum. Þeir nældu einnig í Cheick Tiote sem hefur verið gífurlega mikilvægur fyrir þá. Það stærsta sem Newcastle gerði í glugganum var að samþykkja 35 milljóna punda tilboð Liverpool í Andy Carroll sem varð jafnframt dýrasti leikmaðurinn í sögu Liverpool og gott ef að hann var ekki dýrasti enski leikmaðurinn á þeim tíma – en ég nenni ekki að fletta því upp til að staðfesta það 🙂

Newcastle endaði tímabilið 2010-2011 í 12.sæti deildarinnar sem er bara nokkuð fínt því liðið var nú eftir allt nýkomið upp úr 1.deild. Pardew og Newcastle sem höfðu fengið slatta pening frá Liverpool fyrir Carroll ákváðu að styrkja sig sumarið eftir. Þeir nældu í mjög góða leikmenn eins og Yohan Cabaye, Demba Ba og Davide Santon sem kostuðu alls ekki mikið samanlagt og reyndust frábær kaup fyrir þá. Cabaye tók skarð Kevin Nolan sem fór frá félaginu og varð herforinginn á miðjunni hjá þeim á meðan að Demba Ba fór hamförum í framlínunni og skoraði, skoraði og skoraði. Liðið spilaði mjög vel og vann inn slatta af stigum. Demba Ba datt í smá markaþurrð og Newcastle festi kaup á Papiss Cisse, framherja frá Freiburg í Þýskalandi, í janúar 2012 sem tók þá bara við keflinu og fór að raða inn mörkum fyrir þá.

Þeir voru í Meistaradeildarbaráttu fram í rauðan dauðan og enduðu í 5.sæti deildarinnar, fjórum stigum frá Meistaradeildarsæti og enduðu meira að segja fyrir ofan Chelsea, Everton og Liverpool. Þeir áttu frábært tímabil og Mike Ashley, eigandi félagsins, og aðrir stjórnendur félagssins hafa líklega skemmt sér of mikið í gleðinni eftir að leiktíðinni lauk og skelltu sex ára samning á Pardew og yfirnjósnara félagsins.

Sumarið sem fylgdi var ekki alveg eins sterkt fyrir Newcastle og í raun var aðeins Vurnon Anita miðjumaður frá Ajax keyptur sem skilaði einhverju af ráði frá sér. Liðið náði ekki að byggja á leiktíðinni sem leið og þátttaka í Evrópudeildinni gæti hafa tekið sinn toll af liðinu. Pardew reif upp veskið í janúar glugganum og fékk inn sterka leikmenn eins og Moussa Sissoko, Yanga-Mbiwa, Yoan Gouffran og Massaido Haidara, sem allir eru franskir og var kominn sterkur franskur kjarni í liðið. Chelsea virkjaði klásúlu í samningi Demba Ba sem yfirgaf félagið fyrir sjö milljónir punda.

Liðið hrapaði niður töfluna og endaði í 16.sæti, mjög langt frá þeirra vonum og væntinum eftir frábært tímabilið þar áður. Papiss Cisse týndi markaskóm sínum og fékk liðið Loic Remy á láni frá nýföllnu liði QPR og bar hann uppi ´soknarleik liðsins á síðustu leiktíð.

Newcastle byrjaði tímabilið sæmilega, náði þeim stigum sem það þurfti til að halda sér uppi fyrir áramót og festi sig við miðja töfluna. Þeir í sjálfu sér voru bara í deildinni en hvorki líklegir til að fara í fallbaráttu af einhverri alvöru né að vinna sig ofar. Þeir voru bara þarna.Newcastle varð fyrir miklum missi þegar Yohan Cabaye gekk til liðs við PSG í Frakklandi og munaði miklu um hann á miðsvæðinu hjá þeim.

Newcastle endaði í 10.sæti í deildinni og held ég að þetta hafi verið leiktíð sem Newcastle menn eiga örugglega ekki eftir að muna mikið eftir. Seinni helmingur leiktíðarinnar var vægast sagt lélegur hjá þeim, þeir skoruðu varla mark, spiluðu illa og gekk illa að hala inn stigum.

Í sumar seldi félagið Debuchy til Arsenal og fékk til sín nokkra áhugaverða leikmenn. Remy Cabella, Daryl Janmaat, Siem De Jong, Emmanuel Rivere, Ayoze, Facundo Feyrera og Jack Colback, sem áður var hjá erkiféndunum í Sunderland, bættust við hópinn. Í dag er Newcastle með tíu stig og verið sæmilegir það sem af er liðið leiktíðar. Þeir hafa heldur betur hrokkið í gang síðustu tvo leiki en þeir hafa lagt bæði Manchester City og Tottenham á útivelli.

Hvarnig gæti þetta spilast?

Liverpool hefur fatast flugið frá því á síðustu leiktíð, það er ekki mörgum blöðum um því að fletta. Sóknarleikurinn er orðinn hægari og það er ekki eins mikil óreiða sem skapast af sóknarleiknum líkt og það gerði í fyrra þegar enginn hafði hugmynd um hvernig Liverpool hugðist sækja og allt fór í óreiðu sem endaði með því að alltaf losnaði um einhvern sóknarmann Liverpool. Liðið fékk mikið af vítaspyrnum vegna snilli, stefnubreytinga og hraða sóknarmanna sinna og Gerrard átti afar auðvelt með að finna kolla í föstum leikatriðum. Ekkert af þessu hefur gengið upp það sem af er liðið leiktíðar.

Í sjálfu sér á Newcastle í mikið af sömu vandræðum það sem ég hef séð af þeim í vetur. Það er ekki mikið flæði í sóknarleiknum og framherjar þeirra eru ekki beint upp á marga fiska. Varnarlínan er ekki brjálað sannfærandi heldur en Kruul er magnaður í markinu hjá þeim. Þeir eiga þó til leikmenn sem gætu poppað upp á dýrmætum tíma með mark eða stoðsendingu, s.s. Ameobi, Cisse, Sissoko og Cabella.

Bæði lið hafa að því virðist reynt að þétta sitt lið. Gera það erfiðara að brjóta þau niður og reynt að halda betur holningunni á liði sínu en eru ekki með neinar flugeldasýningar frammi á við. Newcastle hefur eins og segir lagt bæði Tottenham og Man City í vikunni á útivelli og mæta eflaust fullir sjálfstrausts í leikinn á meðan að Liverpool mistókst að vinna Hull og vann dramatískan sigur á Swansea í miðri viku sem mun eflaust gefa okkar mönnum eitthvað.

Ég sé fram á að Newcastle komi í leikinn með miklum krafti en Liverpool mun leitast eftir því að hafa boltann og reyna að stýra hraðanum í leiknum. Ég get séð fram á að Newcastle muni pressa mikið á Liverpool liðið og jafnvel gefið af sér klaufaleg brot á hættulegum stöðum fyrir vikið því í Liverpool liðinu eru leikmenn eins og Balotelli, Lallana, Coutinho og Sterling sem eru góðir í að vinna aukaspyrnur (nei, er ekki að tala um dýfur!).

Liverpool á að hafa meiri gæði í sínum röðum til að gera út um leikinn og hef ég trú á að það gæti orðið niðurstaðan í leiknum. Leikmenn eins og Coutinho, Sterling og Lallana gætu verið liðinu mikilvægir í að búa til pláss og opnanir á liði Newcastle.

Það koma alltaf mörk í viðureignir þessara liða. Síðastliðin þrjú tímabil hefur Liverpool unnið þrjá leiki í þessari viðureign, Newcastle einn og tveir hafa endað með jafntefli.

Mögulegt byrjunarlið Liverpool:

Það er nær bókað að Gerrard og Sterling koma aftur inn í byrjunarliðið eftir að hafa verið hvíldir gegn Swansea í bikarnum. Sömuleiðis má reikna með að Skrtel, Moreno, Balotelli og Mignolet komi aftur inn í byrjunarliðið frá síðasta deildarleik.

Stóra spurningin er hver færi í sóknina með Sterling og Balotelli sem mér finnst líklegastir til að byrja. Coutinho heldur líklega sæti sínu í liðinu eftir flottar frammistöður í síðustu leikjum og það verður þá annað hvort hann eða Allen á miðjunni með Gerrard og Henderson. Ef Coutinho er á miðjunni þá er spurning hvort Lallana eða Markovic komi inn á annan vænginn eða þá að Rodgers verðlauni Fabio Borini fyrir flotta frammistöðu gegn Swansea og leyfi honum að fá tækifæri í sókninni með Balotelli.

Ef Allen kemur inn í byrjunarliðið á miðjuna með Gerrard og Henderson þá reikna ég með að Coutinho færist bara ofar á völlinn og verði þá annað hvort í holunni fyrir aftan Balotelli eða úti á vinstri vængnum.

Ætla að tippa á að þetta muni líta svona út, þó helst vildi ég sjá Newcaslte-banan Borini koma inn í liðið og sjá Liverpool færast aftur yfir í tígul-miðjuna.

Mignolet

Johnson – Skrtel – Lovren – Moreno

Henderson – Gerrard – Allen

Sterling – Balotelli – Coutinho

Spá

Ég get ekki séð Newcastle vinna þriðja stóra leikinn í röð, jafnvel þó þeir séu á heimavelli. Þetta verður bras og erfiður leikur en ég held að Liverpool muni vinna 2-1 sigur. Balotelli og Coutinho held ég að verði á blaði hjá Liverpool, vonandi að kviknað sé almennilega á báðum leikmönnum núna sem munu vonandi láta mikið af sér kveða um helgina. Sénsinn að Liverpool haldi hreinu, Cabella skorar fyrir Newcastle.

29 Comments

  1. Ég vona að menn fyrirgefi að upphitun komi í fyrra lagi þessa helgina, er að fara að flytja og verð eitthvað netlaus næstu daga! 🙂

    Það er annars nóg að ræða fyrir leikinn. Nær Monsieur Pardew að leggja þriðja Meistaradeildarkandídatan í sömu vikunni? Er Liverpool hrokkið í gang? Opnast flóðgáttir hjá Balotelli?

  2. Newcastle menn eiga eftir að vera of spentir í þennan leik. Klaufaleg varnamistök og lélegar tæklingar eiga eftir tapa þeim leikin þar sem okkar menn taka þetta léttari enn okkur bjóst við.

    Spái 1-3 sigri, þar sem Kútinjó, Super Mario og Gerrard (víti) skyla mörkunum.

    YNWA

  3. Flott upphitun , ég hlakka til að horfa á þennan leik af þremur ástæðum:

    1. Newcastle hafa, out of nowhere, unnið þrjá leiki í röð núna. St James’ Park er einn skemmtilegasti völlur Englands og hann verður gjörsamlega skoppandi í hádeginu á laugardag. Þetta verður alvöru slagur.

    2. Það verður áhugavert að sjá hvernig okkar menn bregðast við að hafa unnið Swansea í lokin. Vonandi er sjálfstraustið allt annað og við fáum að sjá betri spilamennsku.

    3. Talandi um spilamennsku, þá er ég sammála þér með byrjunarliðið. Ég myndi helst vilja sjá demantamiðjuna, Coutinho fyrir framan Hendo/Allen/Gerrard, með Sterling og Balotelli í framlínunni. Annars get ég alveg séð Borini fyrir mér fá séns eftir frammistöðuna á þriðjudag, gleymum því ekki að hann var einmitt mikill Newcastle-skelfir með Sunderland og skoraði í báðum leikjunum gegn þeim á síðustu leiktíð.

    Allt í allt, stefnir í hrikalega flottan knattspyrnuleik. Nú sjáum við hvað er spunnið í liðið okkar.

  4. Fín upphitun skil samt ekki af hverju margir eru að biðja um að við spilum Ballotelli og Borini saman upp á topp eftir góða frammistöðu Borini í vikunni. Borini var að spila á hægri kantinnum á móti Swansea og gerði það betur heldur en hann hefur nokkum tíman gert frammi með liverpool, sömuleiðis voru flestar góðu frammistöður hans með sunderland úti á kantinum.

  5. takk fyrir frábæra upphitun en þetta er mögulega versti tími á öllu tímabilinu til að mæta newcastle samt sem áður held eg að við vinnum þennan leik 3-0 með 2 mörkum frá sterling og lovren heldur uppteknum hætti og skorar með skalla 😉

  6. Ég ætla að gerast svo djarfur að spá því að við höldum hreinu í öðrum deildarleiknum í röð og að við vinnum þetta 0-2. Balo með eitt og Gerrard eitt úr víti. 🙂

  7. Sælir félagar

    Frábær upphitun og takk fyrir það. 1 – 2 er það sem ég legg upp með í þetta sinn og það nægir mér ef svo fer.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  8. Erum að fá Newcastle á frábærum tímapunkti. Þeir voru lengi vel án sigurs í deildinni og mér fannst e-ð svo týpískt að Pardew yrði rekinn, nýr stjóri tæki við og hans fyrsti sigur kæmi gegn okkur. Þeir hafa hinsvegar náð nokkrum sigrum í röð núna og hafa hugsanlega ofmetnast fyrir vikið. Ég er nokkuð sigurviss fyrir þennan leik enda hafa Newcastle ekkert með það að gera að vinna fjórða leikinn í röð.

    Vinnum öruggan 4-1 sigur.

  9. ALLTAF Borini í byrjunarliðið hann skoraði á móti newcastle fyrir sunderland og plús það þá koma hann inn á í 6-0 sigri okkar manna og viti menn hann skoaraði þar líka 😉 3-0 fyrir LFC

    YNWA

  10. Leikir þessara lið eru alltaf tilhlökkunarefni , enda stórskemmtilegir og mörg mörk í boði og oftar en ekki hefur Liverpool hirt stigin 3 sem í boði eru. Ég sá Newcastle vinna um síðustu helgi og dáðist að þeim , ungir og fljótir og allir tilbúnir í baráttuna. Held að það sama verður um helgina gegn hægu spili okkar manna.
    Okkar helsta von er Sterling sem fékk hvíld í vikunni ! Held að við komum illa útúr helginni.
    Spái 3-1 tapi og Sterling með markið.

  11. Fín upphitun. Það er alltaf þannig að maður fer spenntur inn í helgina þegar LFC á leik. Maður veit aldrei hverju maður á von á, 1-30 mörk í leik eru hin nýju viðmið (víti tekin með:)

    Dramatíkin er aldrei langt undan. Hvað gerir nýjasti ásinn okkar, Balotelli..?

    Engin getur spáð fyrir um það. Kannski tekur hann upp á því að bíta Pardew…bara til að sýna Suarez að maður á alltaf að taka út milliliði og fara beint í rótina !!

    Eða kannski tekur hann sína fyrstu þrennu. Þetta er alveg fifty-fifty sko….
    :O)

    En Við verðum að fá sigur og það er það sem skiptir öllu máli.

    ??? Y Never W Alone ???

  12. Eigum, megum og segjum að við vinnum þennan leik.

    Borini + Kúti litli væru vel að því komnir að byrja. Tel þó víst að Brendan byrji á því að verja markið og vilji vinna sig inn í leikinn. Sterling með fernu !

  13. Hvorugt liðið að spila glimrandi sóknarbolta, eigum við ekki að segja að gömlu tímarnir á móti Newcastle koma og við vinnum 4-5 í fjörugum markaleik? Ég er til í veislu!

  14. 13 LFC#123

    Ég er til í fernu hjá Sterling, hann myndi raða inn stigunum fyrir mig í fantasy. Ég ætla að treysta innsæi þínu og smella captain á hann, ég veit hverjum ég á að kenna um ef hann fær fá stig! 😉

  15. Spái 5-1 sigri. Allt hrekkur í gang og verður talað um þennan leik sem liðið hrökk í gang alla leiktíðina. Balotelli með 2 mörk, Sktrel 1 , gerrard 1 og 1 sjálfsmark

  16. Full ítarleg umfjöllun um Newcastle fyrir minn smekk en tek hattinn ofan af þér Ólafur Haukur fyrir að nenna þessu 😉
    Upphitunin er annars góð – Það er einhver smá svona jákvæðnispúki í mér fyrir helginni – spái 1-4. Gerrard víti, Coutinho, og Balotelli 2. Allir sáttir ?

    Ynwa

  17. Þótt Borini hafi skilað þessari fínu frammistöðu á móti Swansea þá finnst mér hann ekki eiga að byrja.

    Ég vil sjá byrjunarliðið eftirfarandi:

    Mignolet
    Maquillo – Skrtel – Lovren – Moreno
    Gerrard – Henderson
    Lallana – Coutinho – Sterling
    Balotelli

    Fínt að eiga Borini á bekknum til að koma jafnvel inn í 4-4-2 með Balotelli frammi. Ég vil ekki sjá Allen á í starting því við eigum svo miklu betri leikmenn en hann til að láta byrja.

    0-2 sigur, Balo og Sterling með mörkin!

  18. Topp 5 atriði til að laga okkar leik…

    Mignolet byrjar með dóttur Schmeichel og tengdó tekur hann upp á sína arma

    Sakho og Balotelli hætta að pæla í hárinu á sér og byrja að fá áhuga á hvor öðrum…hamingjan mun skila sér inn á völlinn.

    Flanagan nær sér af meiðslunum og leggur landsliðskóna á hilluna

    Sturridge fer í mál við Hodgson og Rodgers verður lögfræðingurinn hans

    Gerrard mun færa sig enn aftar á völlinn í sweeperinn svo hann þurfi ekki að dekka nokkurn mann.

  19. Jæja þá er enn einn leikurinn hjá LFC þar sem þeir eru vel inní öllum keppnum: CL baráttu, Kapítalbikarnum, berjast um áframhald í CL. Það sem þetta er skemmtilegt annað en síðustu ár með leiki bara í deild 3 helgar í mánuði 😀

    Sé ekki hvernig BR stillir öðruvísi upp en neðangreint lið segir:
    Mignolet
    Maquillo – Skrtel – Lovren – Moreno
    Gerrard – Henderson
    Lallana – Coutinho – Sterling
    Balotelli

    Þarna hvíldu/spiluðu lítið Mignolet, Skrtel, Moreno, Gerrard, Lallana og Balotelli tel þetta besta lið sem við höfum fram að ráða þessa dagana. Svo mun G.Johnson kom inn gegn Real á kostnað Manquillo

    YNWA

  20. Aðeins ótengt, en ef Brendan Rodgers ætlar ekki að framlengja samning Steven Gerrard um eitt ár þá má Rodgers fá pokann. Ég Plokka úr mér bæði augun ef Gerrard spilar fyrir annað lið!

  21. Smashing upphitun Óli

    Mignolet hefur verið það ósannfærandi hjá okkur undanfarið að Brad Jones ógnar í alvörunni stöðunni hans. Umræður um nýjan markmann í janúar verða sífellt háværari og gagnrýni á hann eykst með hverjum óöryggisleiknum. Það er ekki bara þessi mistök sem við sjáum og getum bent á sem orsökina fyrir marki sem liðið fær á sig heldur virðist traustið milli varnar og markmanns ekki vera neitt og svona hægur markmaður og lélegur á boltann getur bara ekki hentað þessum leikstíl sem Liverpool vill spila.

    Hann á alls ekki teiginn og er afleitur þegar kemur að krossum. Hann sópar enganvegin upp fyrir varnarmennina og virðist mikið frekar vera bundinn við marklínuna. Hann á af og til góðar markvörslur og varnartilburðir okkar manna hjálpa honum oft alls ekki en ég er að verða kominn með alveg nóg að reyna finna afsakanir fyrir frammistöðu Mignolet heilt yfir.

    Mögulega verður þetta einhverntíma toppmarkmaður en hann er það ekki í dag, minnir mig meira á Brad Fridel eða David James er þeir voru leikmenn Liverpool. Þá er ég samt alls ekkert að gráta söluna á Reina, hann var engu skárri seinni árin sín hjá Liverpool og bjargaði sjaldnar stigum en Mignolet gerir, hinsvegar sakna ég 2007 útgáfunnar af Reina markmanni mikið.

    Southall er kannski að tala sem bitur Everton maður en ég get ekki nefnt marga markmenn í EPL sem ég myndi treysta eitthvað síður en Mignolet, einhverjir af okkar helstu keppinautum eiga jafnvel tvo betri markmenn.

    Vörnin ætti að velja sig sjálf í þessum leik og Johnson verður líklega áfram í liðinu eftir góðan leik gegn Newcastle. Ef við miðum við hans stöðugleika myndi ég þá ekki búast við miklu í þessum leik. Miðvarðaparið er annars ásamt Gerrard (varnartengiliðinum) í svipaðri stöðu og Mignolet. Það er kominn tími til að skrúfa fyrir míglegan varnarleikinn ef þeir vilja halda sætum sínum í byrjunarliðinu.

    Persónulega myndi ég vilja prufa Coutinho aftur á miðjunni með Henderson og Gerrard fyrir aftan. Sóknarleikurinn er ekki nægjanlega merkilegur með Gerrard, Henderson og Allen/Can. Coutinho er hinsvegar mikið öflugri lykill á varnir andstæðinganna og hann virðist vera að koma mikið til eftir afleita byrjun hans á tímabilinu. Lallana myndi ég þá setja í holuna.

    Frammi myndi ég spila með tvo sóknarmenn, hafa Raheem Sterling og einhvern af Lambert, Borini eða Balotelli með honum uppi á topp. Ef það bara má ekki prufa Sterling áfram frammi með Balotelli eins og var gert gegn Real Madríd (af öllum liðum) þá að hafa hann í holunni og gefa Borini séns í byrjunarliðinu með Balotelli.

    Þeirra samstarf skilaði marki í síðasta leik sem er stórbæting á hlutfalli allra sóknarmanna Liverpool það sem af er þessu tímabili og allt í lagi að sjá hvort þeir geti þróast enn frekar. Borini hefur vinnusemi og kraft sem gæti hjálpað til við að gefa Balotelli, Sterling og Coutinho smá tíma. Hann veit líka alveg hvar markið er og meðan Sturridge er meiddur sakar ekkert að gefa honum tækifæri. Þó ekki væri nema leyfa honum einu sinni á hans ferli hjá Liverpool að spila sig í leikæfingu.

  22. Ég er bara hræddur um að það verði erfitt að fá klassa marvörð í janúar. Lið vilja sjaldan missa góðan markmann á miðju tímabili og því gæti það þýtt sky-high verðmiði. Tel því líklegt að við verðum að treysta Mignolet (já eða þá Jones) út tímabilið.

    Annars hafa Þjóðverjar verið að dæla út góðum markvörðum síðustu árin og er farið að tala um golden generation marvarða þar í landi með Neuer í broddi fylkingar. Ég mundi vilja að það yrði leitað þangað í kjölfarið. Og reyndar í fleiri stöður ef því er að skipta en það er efni í aðra umræðu.

    Spái sigri á morgun og ekki orð um það meir.

    YNWA

  23. Sælir félagar.

    Hvert fara menn á Selfossi til að glápa á leiki?

  24. Góðan dag. Veit einhver um bar sem sýnir Liverpoolleiki í Stokkhólmi?

  25. Takk fyrir þessa upphitun. Alan Pardew er vitanlega reyndur stjóri með einhverja 700 leiki sem slíkur en mér hefur hann ekki þótt stíga í vitið. Pardew getur verið hrokafullur og sjálfumglaður með eindæmum og það er líklegt að hann vilji sýna Geordies hvað hann er rosalega klár stjóri. Von mín er því sú að hann telji að fínn árangur Newcastle undanfarið sé kominn til að vera og ætli sér að að sækja á Liverpool. Það myndi henta okkur afskaplega vel í dag að fá tækifæri til að breika á Newcastle og þá eru 90% líkur á að við vinnum þennan leik.

    Örfá orð um Mignolet karlinn. Mikilvægasti punkturinn hja Babú hér að framan er að traustið á milli markvarðarins og varnarmannanna er allt of lítið. Það verður að skrifast á Mignolet fyrst og fremst því að hann er gölluð vara. Góður nútíma markvörður er hugsanlega mesti íþróttagarpurinn á vellinum sbr. markmenn eins og Manuel Neuer og Hugo Loris svo ég nefni einhverja tvo. Mignolet með góð viðbrögð og oft góðar staðsetningar. Hann er á hinn bóginn ekki góður í fótbolta og ræður ekki yfir teignum en það síðarnefnda gerir að verkum að varnarmenn okkar fara á taugum þegar boltinn berst inn í teiginn. Á köflum er hrikalegt á þetta að horfa og leikskipulag Liverpool hentar svona takmörkuðum keeper álíka vel og brjálað veður rjúpnaskyttu. Ef Pardew velur öruggu leiðina þ.e. að láta liðið liggja til baka og koma svo fram þegar færi gefst og dæla boltum inn í teiginn tel ég aðeins 50% líkur á að við vinnum þennan leik eða gerum jafntefli.

    Að þessu sögðu blasir við að nýr markmaður eru forgangskaup helst í janúar. Að venju vil ég að fyrst sé litið til Bundesligunnar þar sem er að finna heilt legíó af góðum markmönnum. Það gerði t.d. Barcelona og keyptu Ter Stegen frá Borussia Mönchengladbach á sama verði og við Mignolet. Besti markmaðurinn spilandi í Þýskalandi (fyrir utan Neuer) er að mínum dómi Bernd Leno hjá Leverkusen sem er stókostlegur íþróttamaður og aðeins 22 ára gamall. Annar frábær markmaður er Ron-Robert Zieler hjá Hannover. Þeir sem á annað borð fylgjast með Bundesligunni eru væntanlega sammála mér að himinn og haf er á milli þessara tveggja og svo Mignolet þegar kemur að kröfum til nútíma markmanns. Segi bara sisona.

  26. Slæmt flæði, óöryggi, lítið sjálfstraust, lélegur varnarleikur og markvarsla og svona ýmislegt kemur í veg fyrir að maður spái 5-0 þannig að ég vonast eftir 2-1 baráttusigri. Sterling og Coutinho með mörk.

  27. Tökum bara smá verslunarferd til Þýskalands í janúar, Reus og markmann

Bournemouth næsti mótherji

Liverpoolklúbburinn með fánadag á Akureyri