QPR leikur framundan

Þá hefjum við keppni eftir landsleikjahlé sem hefur verið býsna viðburðaríkt í raun.

Held við rifjum ekkert upp hvað á hefur gengið annað en þær ógeðslegu fréttir að Daniel Sturridge verður frá minnst tvær vikur og mögulega fjórar vegna kálfatognunar. Við bölvuðum og rögnuðum enska landsliðinu þegar hann meiddist síðast en staðreyndin virðist því miður vera sú að hann er mjög viðkvæmur blessaður kallinn og bara alveg ferlegt að hann sé frá.

Það hefur töluvert verið rætt um upplegg vetrarins og sóknarvandræði. Ég fer ekkert ofan af því að það er nær vonlaust að reikna með því að við náum upp svipuðum sóknargæðum og síðasta vetur þegar farið er einstaklingsvinnan hjá Suarez og síðan hlaupin hjá Sturridge í gegnum varnarlínuna. Ég viðurkenni bara að uppleggið í upphituninni minni fór með þessum fréttum í gær.

Því ég var handviss að verið væri búið að vinna mikið í samstarfi Balo og Studge í þessu lansleikjahléi. Þeir litu mjög vel út saman þær mínútur sem þeir fengu á White Hart Lane og Balotelli var keyptur til að vera með Sturridge.

En skiljum við þessa staðreynd sem ekki verður umflúin, við verðum að berjast gegn þessum vindi og hlusta eftir sæta silfursöngnum við enda hans!

Það eru jákvæðari fréttir af öðrum meiðslum. Joe Allen, Glen Johnson og Emre Can eru allir búnir að vera að æfa og verða leikfærir. Ég hef trú á að allir þrír komi við sögu í leiknum og það skiptir miklu að hafa fengið þá til baka fyrir komandi átök.

Miðað við blaðamannafundinn hans Rodgers (sem þið sjáið í færslunni ofan við þessa) þá er Lovren enn í séns að spila og á “meiðslalistasíðum” á netinu er sagt að Sakho verði heill…en af honum hafa ekki verið fluttar fréttir.

Hins vegar má ekki gleyma því að það er stórleikur framundan á miðvikudagskvöldið þegar “smáliðið” Real Madrid kemur á Anfield. Það var alveg augljóst í ferð okkar til Liverpool að allir aðdáendur eru með annað augað á þessum leik sem er sá stærsti býsna lengi og ég er á því að sá leikur hafi áhrif á koll Rodgers, þeir leikmenn sem standa tæpt og skipta hann máli gegn Real verða látnir hvíla á Loftus Road.

Mótherjinn

Geymum okkar lið aðeins.

Mótherjinn á sunnudaginn eru lærisveinar Harry Redknapp hjá Queens Park Rangers, botnliðið í deildinni. Bláhvítir drengirnir hafa þó verið að bæta leik sinn að undanförnu, hafa fært sig aftar á völlinn og beita skyndisóknum.

Heimavöllur þeirra er sá minnsti í deildinni, bæði leikvöllurinn og fámennasta stúkan en hann hefur þó ekki náð að skila þeim nægilega mörgum stigum, Harry hefur verið að ræða um það atriði undanfarna daga og er mikið að reyna að höfða til sinna manna, og áhangendanna, að nota stórleik eins og þann sem framundan er á sunnudaginn til að sparka stemmingunni í gang í Suður London.

Liðið þeirra er býsna dýrt og á pappírnum eru þeir sterkir. Landsliðsmenn í flestum stöðum, leikmenn með mikla reynslu af ensku úrvalsdeildinni. Green í markinu, Ferdinand, Caulker, Onuha og Traore líklegir í vörninni. Meiðsli Joey Barton, Jordan Mutch og Alexander Faurlin þýða að miðjan og sóknarlínan verður ekki eins sterk og þeir vildu en Sandro, Fer, Hoilett, Kranjcar og Charlie Austin eru allt leikmenn í úrvalsdeildargæðum. En þeir hafa ekki náð að smella saman í deildinni og við skulum bara vona að það verði ekki í sunnudagshádeginu sem það gerist!

Liðið okkar

Við skulum alveg hafa það á hreinu að eftir æfingu fimmtudagsins hefur margt í undirbúningi okkar orðið erfiðara. Ég er handviss um að 4-4-2 var uppleggið þangað til að staðfesting barst á meiðslum Sturridge og því verður fróðlegt að sjá hvað verður úr.

Í síðasta leik var aðeins ýtt við Balo með að setja hann á bekkinn og frammistaða Lallana var það góð að ég hallast því miður að því að okkar menn muni spila 4-2-3-1 með svipuðu uppleggi og við sáum gegn W.B.A. – það verði leiðin sem Rodgers og félagar muni fara á meðan við höfum ekki leikmann til að hlaupa með Balo eða Lambert. Ég væri alveg til í að sjá Borini hlaupa en með Allen heilan og Lallana í þeim gír sem við sáum síðast þá held ég að Rodgers muni fara þá leið.

Svo að ég held að svona verði raðað upp á sunnudaginn:

Mignolet

Johnson- Skrtel – Lovren – Moreno

Henderson – Gerrard – Allen

Sterling – Balotelli – Lallana

Ég held að Rodgers sé sammála mér um það að QPR sé lykilleikur í deildinni framundan og muni því stilla upp þeim bestu 11 sem hann hefur yfir að ráða í þessum leik og lagi leikkerfið að því.

Það er líka alveg möguleiki að hann hendi Borini inn í 4-4-2 ef Allen er ekki heill og það myndi ekkert hryggja mig mikið, en ég held að þetta verði liðið og alveg skiljanlegt að menn raði upp útfrá sínum bestu mönnum.

En öll þessi meiðsl hjá Sturridge hljóta að verða til þess að menn setji alvöru pressu í að sækja Origi í janúar, við verðum að fara að eiga lið í að spila 4-4-2 með hápressu í öllum leikjum, þangað til það verður munum við ekki sjá sömu gleðigæðin og við sáum í fyrra.

Samantekt

Í það heila þá heyrið þið að ég er töluvert stressaður, mun stressaðri en ég var í podcastinu síðast. Ég held að við verðum að sætta okkur við það að hvert einasta stig þessa stundina þarf að sækja með baráttu og grimmd í stað flæðandi fótboltagleði.

Harry karlinn hefur náð góðum úrslitum gegn okkur í gegnum tíðina, hann er undir töluverðri pressu og kemur með sína menn gíraða.

Að því sögðu þá hef ég trú á því að við séum með það mikil gæði að við náum að klára QPR þó við séum án Sturridge, en það verður hunderfitt. Ég spái 1-2 sigri í baráttuleik.

KOMA SVO!!!!!!!!!!!!!!!!!

24 Comments

  1. Með t.t.þ að Man U varð englandsmeistari eftir frækinn sigur á QPR er ljóst að við hefðum gott af því að taka 3 stig á Loftus.

  2. Þetta verður en einn erfiði leikurinn. Sturridge er ekki að fara að spila á næstuni og þarf einhvern einfaldega að taka að sér að skora mörk nokkuð reglulega, já ég er að horfa á þig Balotelli og ég veit að ég er búinn að láta mikla ábyrgð á þig Sterling en má ég láta aðeins meira á þig og í staðinn skal ég láta ljóta kallinn Roy Hodgson láta þig í friði.

    Ég held að QPR fari í 11 manna varnavegg og verðum við í vandræðum með að brjóta hann niður en ég hef trú að það takist og við sigrum 0-1 með marki frá Skrtel eða Lovren eftir hornspyrnu.

    Þegar liðið á í vandræðum þá tekur maður stigin alltaf fram yfir framistöðuna.

  3. QPR er lélegasta liðið í deildinni…það er ekkert flóknara. Sama í hversu miklum vandræðum við erum (1 leikmaður meiddur) þá er bara krafa um sigur og ekkert annað.

  4. takk fyrir upphitunina eg sem að var farinn að klægja i eistun við að sja balo og sturridge frammi ! það verður að bíða betri tíma sem betur fer er nokkuð “auðvelt” program i deildinni framundan. ég spái samt sem áður 3-0 sigri balo með 2 og skrtel með hitt

  5. Takk.
    “Barátta og grimmd í stað fljótandi fótboltagleði” – ekki viss um þetta.
    Fótbolti er nefnilega ekki baráttuíþrótt. Nelson má sýna baráttu og grimmd, við viljum spila okkar bolta, vera trúir okkar hugmyndafræði, “one touch footbal”. Vissulega fullir baráttuanda en vera creatífir og sókndjarfir.
    Hollendingar voru ekki trúir sinni hugmyndafræði (totaal voetbal) í leiknum gegn Íslandi – og töpuðu.
    Ég held að þetta sé tækifærið til að spila flott og byggja upp sjálfstraaust. Við eigum að spila okkar leik, vera trúir okkar bolta, creatífir, pressa hátt, sækja, spila boltanum, sýna sjálfstraust, combinera, hraðir, flottir – semsagt Liverpool style!!!

  6. Sturridge frá lengur meiddist á æfingu, eitthvað meiðsla ský yfir Anfield djö maður. Tökum þetta bara á morgun.

  7. Auðvitað fúlt að Sturridge sé enn meiddur en það breytir ekki því að LFC er með miklu sterkara lið en QPR og betri menn í öllum stöðum og því klár krafa að við vinnum þennan leik. Þetta er bara spurning um að menn mæti til leiks með hausinn í lagi og vinni vinnuna sína og ég hef enga trú á öðru en að svo verði.

  8. Keyptum við vitlausa menn frá Southampton eða hafa þeir bara gert svona frábær kaup í vetur? Eru gjörsamlega að slátra Sunderland 7-0. Þessi Graziano Pelle er frábær og ekki furða að Conte hafi tekið hann fram yfir Balotelli!

  9. Algjör must win leikur á mrg verðum þá með 2 stigum meira en spurs og arsenal og förum tímabundið upp í meistaradeildarsætið

  10. Vonandi heldur Risaeðlan áfram að gera upp fyrir hnakka með þetta blessaða QPR lið, Harry Redknapp kom með helling af útbrunnum leikmönnum inn í hópinn fyrir þetta tímabil og verður að teljast útbrunninn sjálfur! Allt einhverjir Enskir half-decent Leikmenn sem Hann virðist sækja í og við skulum bara vona að hrakfarir þeirra haldi áfram á Sunnudag kemur. Spái hvorki meira né minna en 6-1 Sigri!

  11. Þurfum við ekki að vinna með 4 mörkum til að ná 4. sætinu?

  12. Kominn tími á 4 marka sigur. 5-1. Henderson, Coutinho, Gerrard, Lallana og einhver úr vörninni okkar. Framherjarnir okkar halda áfram sínu striki.

  13. Skuldasigur og ekkért kjaftæði. Ef við vinnun ekki QPR þá eigum við ekki skilið meistaradeildarsæti.

    Balotelli fer í gang og setur öll í 3-0 sigri.
    (og brýtur svo á sér löppina í uppbótatíma).

    Skorum snemma sem drepur QPR gjörsammlega.

    Fokking bring it!

  14. #12 jú ég lýt allavegna ekki à markatölu eftir 8 umferðir bara stigalega séð 😉

  15. Ætla að spá því að við vinnum þennan leik 4-0 balo með þrennu og lallana 1 …
    nei ég er ekki að grínast

  16. Ég er áhyggjufullur! Vont að fara á þennan útivöll á þessum tímapunkti. Svo það verður bara að leita á náðir Fowler og biðja hann um að trekkja nýja villidýrið í gang… Koma svo Balotelli! Ekkert kjaftæði… þetta er þinn dagur…. þrennu takk fyrir og alls konar fögn og takta eins og þér einum er lagið… OK!? Takk og punktur. Allir sáttir… Liverpool vinnur þennan leik 0-4.

    YNWA

  17. Lykilatriðið er að byrja á þreföldu gasi og setja mark/mörk snemma.
    Treysti mínum mönnum til þess.
    YNWA

  18. Segi að Gerrard setji eitt úr víti.t. Annars verðum við frekar slappir í dag í spilamennskunni eins og svo oft áður.

  19. Ég er ótrúlega hjátrúarfullur þegar kemur að svona hlutum. Ég tel því skyldu mína að upplýsa Púlverskar systur og bræður um að síðasta sólarhringinn hafa flest ytri tákn verið Liverpool hagstæð eins og þau horfa við mér.

    Í fyrsta lagi liggur óvenjulega vel á Labrador rakkanum mínum en það bregst ekki að hann stríðir við þunglyndi fyrir tapleiki (hann er nú svosem yfirleitt þungur á brúnina blessaður enda ber hann þann kross að heita Torrez). Í annan stað hefur allur hljóðfæraleikur verið til fyrirmyndar þegar rennt í Gerry and the Pacemakers lög sem veit á gott. Loks held ég að núna þegar að Brendan hefur nokkurn veginn mannskapinn sinn sé LFC hreinlega svo miklu betra lið en QPR að allt annað en sigur er óhugsandi.

  20. áhugavert staðfest byrjunarlið:

    Mignolet, Johnson, Enrique, Skrtel, Lovren, Gerrard, Can, Henderson, Lallana, Sterling, Balotelli.

  21. Mignolet, Johnson, Enrique, Skrtel, Lovren, Gerrard, Can, Henderson, Lallana, Sterling, Balotelli.

    Gaman að sjá Emre Can byrja inná, hef fulla trú á þeim töffara.

  22. Enrique í startinu í dag, hvar er Moreno og Emre Can inni. Liverpool starting XI: Mignolet, Johnson, Skrtel, Lovren, Enrique, Gerrard, Can, Sterling, Henderson, Lallana, Balotelli.

Blaðamannafundur Rodgers

Liðið gegn QPR