Super Mario!

KOMDU MEÐ KOP.IS Á ANFIELD!
SJÁ UPPLÝSINGAR HÉR!

Bókin um Moneyball hugmyndafræðina sem gekk svo vel í hafnarbolta var gríðarlega áhrifarík og líklega er hægt að beintengja þá bók frá árinu 2003 við kaup Liverpool á Mario Balotelli nú. Eigendur Liverpool koma fyrir í myndinni sem gerð var um umrædda bók en þeir reyndu að fá þjálfarann sem á heiðurinn af þessari hugmyndafræði til Boston Red Sox áður en innleiddu þetta án hans og enduðu rúmlega átta áratuga eyðimerkurgöngu Red Sox, sjálfa bölvun Babe Ruth. FSG voru óhræddir við að brjóta upp normið, taka áhættu og gera hlutina öðruvísi en áður hefði verið gert. Það svínvirkaði og umrætt atriði í myndinni kemur einmitt inn á leikmannakaup Red Sox sem eru ekki svo ólík þeim sem Liverpool eru líklega að gera núna.

Soccernomics er knattspyrnuútgáfan af Moneyball eða það næsta sem kemst því og í báðum bókum er komið inn á að leikmaður með slæmt orðspor en heilan helling af hæfileikum getur orðið þyngdar sinnar virði í gulli hjá öðru liði sé hann meðhöndlaður rétt og einbeitt sér að því að nýta hæfileika hans. Eðlilega er einfaldara að reikna þetta út í hafnarbolta en knattspyrnan er að stíga inn á braut tölfræðinnar einnig og ef það er einhver knattspyrnuleikmaður í heiminum í dag sem er Moneyball/Soccernomics þá er það Mario Balotelli. Leikmaður sem léttilega hefur hæfileika á við leikmenn sem eru að seljast á +£50m en fæst á £16m. Afhverju er samkeppnin um hann ekki harðari og því er verðið fyrir þennan aðal sóknarmann Ítalska landsliðsins ekki hærra? Það er stóra spurningin, Mario Balotelli er líklega eini sóknarmaðurinn í heiminum sem kemur með meiri farangur en sá sem við vorum að selja… og sá beit andstæðinginn, ítrekað!

Mario Balotelli eru þannig leikmannakaup að við verðum að skoða hans sögu nokkuð ítarlega, uppvaxtarárin hans, ferilinn, vandræði innan sem utan vallar, álit knattspyrnustjóra á honum og auðvitað hvað hann getur komið með í lið Liverpool. Þegar þetta er sett í loftið er ekki búið að staðfesta kaupin á Balotelli þó kappinn sé staðfest mættur á Melwood. Ekkert er því öruggt og ég hef áður sett færslu inn of snemma í sumar, það væri auðvitað eftir öllu að þetta fari eins og með Loic Remy. Ef allt er eðlilegt ættu kaupin á Balotelli að vera tilkynnt á morgun.

Þeir sem voru að óttast einhverja lognmollu í sóknarlínu Liverpool eftir að Suarez fór geta farið að spenna beltin á ný, ef Balotelli fengi hlutverk í kvikmyndinni Twister þá væri hann helvítis hvirfilbylurinn.

Sjaldan hefur mynd útskýrt nokkurn skapaðan hlut betur, Balotelli sá bit Suarez og hækkaði það með þessu!
Sjaldan hefur mynd útskýrt nokkurn skapaðan hlut betur, Balotelli sá bit Suarez og hækkaði það með þessu!

Æskuárin
Balotelli er fæddur í Palermo á Ítalíu og bar reyndar ekki ættarnafnið Balotelli til að byrja með heldur Barwuah sem á uppruna sinn í Gana. Foreldrar hans eru innflytjendur frá Gana og bjuggu í sárri fátækt er hann fæddist. Þau fluttu snemma á meginlandið til Brescia og hafði sú ákvörðun mikil áhrif á líf Balotelli.

Mario var þjakaður af alvarlegum veikindum æskuárin sem á endanum varð til þess að foreldrar hans gátu ekki séð nægjanlega vel um hann og gáfu hann (eftir ráðleggingum yfirvalda) til fósturforeldra svo hann ætti möguleika á betra lífi. Fósturforeldrar hans Francesco og Silvia Balotelli voru fyrst bara með hann virka daga en fengu á endanum fullt forræði yfir honum er samband þeirra við foreldra Mario versnaði í takti við að hann varð nánari fósturforeldrum sínum.

Silvia er af Gyðingaættum en faðir hennar lifði af helförina í seinni haimsstyrjöldinni. Hann er því alinn upp af hvítum foreldrum en Balotelli hefur marg oft orðið fyrir barðinu á kynþáttaníði og byrjaði það strax er hann var bara barn.

Balotelli tilenkaði móður sinni markið sem kom Ítölum í úrslit EM 2012 og hljóp beint til hennar eftir að hafa skorað

(Raunveruleg) Móðir hans hefur þó eitthvað haldið sambandið við hann líka og flutti m.a. til Manchester þegar hann var að spila þar. Munum þó að taka öllu með miklum fyrirvara sem kemur í Daily Mail.

Balotelli var aðeins 3 ára þegar honum er komið í fóstur og átti þannig séð ekkert erfiðari æsku en önnur ítölsk börn, a.m.k. ekki eins erfiða og margur myndi ætla m.v. sumar lýsingarnar. Hann á þrjú alsystkini sem hann heldur sambandi við, yngri bróðir hans er tveimur árum yngri og fór á reynslu hjá Stoke (2011) og Sunderland (2012) án þess þó að fá samning, hann spilar nú á Möltu.

Yngriflokka stjarna
Okkar maður fór að æfa fótbolta fimm ára gamall fyrir hverfisliðið Mompiano. Hann vakti mjög snemma athygli fyrir einstaka hæfileika og fór snemma að spila upp fyrir sig. Hann vakti snemma athygli útsendara neðrideildarliðsins AC Lumenzzane sem er local lið Balotelli og þangað fór hann 9 ára. Haft er eftir formanni Lumenzzane, Ezio Chinelli að 11 ára hafi Balotelli sagst ætla að verða fyrsti svarti landsliðsmaður Ítala og við það stóð hann.

15 ára fékk hann tækifæri í byrjunarliðinu í Seria C leik gegn Padova og varð með því yngsti leikmaður sem spilað hefur í þriðju efstu deild á Ítalíu, Balotelli var mjög augljóslega ekki að fara dvelja lengi á þessu leveli en þjálfari Lumenzzane, Walter Spivoni sagði þetta um ástæðu þess að hann valdi hann svo ungan í liðið

“I was watching the juniors train and saw Mario on the pitch – after just five minutes I knew I had to have him in the first squad. He was incredible. His touch was fantastic.”

16 ára fór Balotelli á reynslu í La Masia hjá Barcelona og stóð sig frábærlega og skoraði 8 mörk á stuttum tíma þar. Hann fór hinsvegar ekki til Spánar og bar því við að vandræði hefðu verið með vegabréfið hans á Ítalíu sem gerðu það að verkum að hann gæti ekki farið þangað fyrr en hann yrði 18 ára. Hann var aldrei tæknilega séð ættleiddur af Balotelli hjónunum og vandamálið tilkomið þess vegna. Af sömu ástæðu spilaði hann aldrei fyrir nein yngri landslið Ítala fyrr en hann varð 18 ára og fékk formlega Ítalskan ríkisborgararétt. Hann er ættaður frá Gana en hefur aldrei svo mikið sem komið til Afríku og hann lítur á sig sem 100% Ítala og vildi bara spila fyrir þjóð sína (eðlilega). Hann fékk þó boð um að spila fyrir landslið Gana þegar hann var 17 ára sem hann hafnaði.


Inter Milan
Inter Milan nýtti sér þetta og í stað La Masia fór hann til Inter Milan og fór á mjög skömmum tíma úr því að spila fyrir U16 ára lið þeirra í að spila með U20 ára liðinu og vann með þeim titla á þessu eina ári hans í unglingaliðum Inter.

17 ára var hann kominn í byrjunarliðið hjá Inter, Roberto Mancini gaf honum tækifæri gegn Cagliari í desember og þremur dögum seinna var hann kominn í byrjunarliðið gegn Reggiana í bikarnum þar sem hann skoraði tvö mörk. Enginn var í vafa um að þarna væri stórstjarna framtíðarinnar á ferðinni. Mánuði seinna henti hann olíu á þann eld með því að skora tvö mörk í bikarnum gegn Juventus í 3-2 sigri Inter.

Balotelli varð einnig yngsti markaskorari Inter í Meistaradeildinni aðeins 18 ára gamall en Inter liðið var firnasterkt og vann tvöfalt þetta tímabil, bæði deild og bikar.

Lífið var þó ekki bara dans á rósum fyrir Balotelli enda skapar svona velgengni öfund annarra og 17-18 ára gamall fékk Balotelli að kynnast kynþáttaníði Ítala fyrir alvöru er hann spilaði með Inter. Massimo Moratti eigendi Inter sagði að hann hefði tekið Inter liðið af vellinum hefði hann verið viðstaddur leik liðsins gegn Juventus árið 2009. Þetta sagði hann í kjölfar stanslausra hrópa stuðsningsmanna Juventus að Balotelli. Juventus var dæmt til að leika einn leik fyrir luktum dyrum í kjölfarið en kynþáttaníðið hélt látlaust áfram, bæði innan sem utan vallar og var m.a. kastað banana að honum í miðborg Rómar sumarið 2009.

Balotelli leið skiljanlega illa hjá Inter og það hjálpaði honum ekki að Mancini fór og Mourinho kom í staðin. Mourinho er fyrir það fyrsta ekki mikið fyrir að vinna við unga leikmenn og er aldrei nógu lengi hjá neinu félagi til að þurfa taka ábyrgð á slíku veseni. Hann náði aldrei sambandi við Balotelli og skammaði hann látlaust fyrir leti á bæði æfingum sem og í leikjum. “He came close to a zero rating” sagði Motormouth eftir 1-1 leik gegn Roma 2009 og um hugarfar hans á æfingum sagði hann þetta.

“as far as I’m concerned, a young boy like him cannot allow himself to train less than people like Figo, Córdoba, and Zanetti.”

Mourinho tók hann úr hópnum eftir miðjan janúar og Balotelli var sífellt til vandræða. Hann fékk áfram að heyra það af pöllunum, sérstaklega frá stuðningsmönnum Juventus sem tóku upp þá mjög svo United-legu hegðun að syngja níðsöngva um Balotelli á leikjum Juventus sem voru ekki einu sinni gegn Inter. Þeir fengu tvær sektir áður en hluta af vellinum var lokað á heimaleikjum til að sporna við þessu.

Mourinho bannaði á tímabili Balotello frá æfingasvæðinu fyrir að leggja sig ekki nægjanlega mikið fram og mögulega hafði Jose eitthvað til síns máls

Mourinho átti áfram í eilífu stríði við Balotelli og er ljóst að þar hitti skrattinn svo sannarlega ömmu sína. Hámarki náði spennan milli þeirra fyrir Meistaradeildarleik gegn Chelsea er Balotelli reifst heiftarlega við Mourinho fyrir leik og var tekinn úr hóp í kjölfarið. Hann var gagnrýndur fyrir þetta háttarlag sitt af fyrirliðanaum (Zanetti), Materazzi og meira að segja sínum eigin umboðsmanni.

Vinsældir Balotelli meðal stuðningsmanna Inter voru á hraðri niðurleið þetta tímabil þó hann sýndi af og til frábæra takta inni á vellinum, hann fór þó endanlega yfir strkið er hann lét plata sig í að klæðast búningi AC Milan í Ítlaska sjónvarpsþættinum Striscia la Notizia er hann var ennþá á mála hjá Inter, Balotelli er stuðningsmaður AC Milan frá barnæsku.

Hann baðst afsökunar á þessu en það hafði lítið að segja, stuðningsmenn Inter bauluðu á slaka frammistöðu hans gegn Barcelona í undanúrslitum Meistaradeildarinnar 2010 sem Balotelli svaraði með því að grýta búningnum í grasið eftir að lokaflautið gall. Helvíti snjallt hjá stráknum sem þó viðurkenndi þremur árum seinna að þetta væri það eina sem hann sæji eftir í lífinu.

Stuðningsmenn Inter fullkomlega trompuðust að hætti Ítala og ætluðu að hjóla í Balotelli eftir leikinn og liðsfélagar hans voru ekki sáttir við hann heldur, Zanetti sagði þetta eftir atvikið “Mario needs to focus on doing what he can do on the pitch, he can’t allow himself to behave like this.”

Örlög hans voru ráðin hjá Inter og fór hann þaðan eftir að hafa setið á bekknum í úrslitaleiknum gegn FC Bayern. Mourinho fór á sama tíma en líklega ættu flestir að vera farnir að skilja núna afhverju Chelsea hefur aldrei verið orðað við Balotelli þetta sumarið þrátt fyrir að vanta sárlega sóknarmenn.

Mourinho segir að Balotelli sé auðveldlega mesta vesenið sem hann hefur kynnst sem þjálfari en hafði þó húmor fyrir honum líka og sagði fyndna sögu af honum er hann var stjóri Real Madríd

https://www.youtube.com/watch?v=JDEruS1D7VY

Balotelli virðist vera sérstök tegund af vitleysingi en ég leyfi 18-19 ára strák alveg að njóta vafans þó hann hafi ekki getað unnið undir stjórn Mourinho. Hann keypti t.a.m. Dider Drogba aftur, 36 ára gamlan í stað þess að nota Lukaku.


Man City
Flest okkar vissu ekki mikið um Balotelli þarna þó sögur af uppátækjum hans væru orðnar tíðar, þetta fór á allt annað level þegar hann gekk til liðs við Man City. Flest af því sem hann er sagður hafa gert utanvallar er reyndar lygi en innan vallar var hann sífellt til vandræða milli þess sem hann sýndi óumdeilda snilli sína.

Roberto Mancini var tekinn við Man City á þessum tíma og var aðalástæða þess að Balotelli fór til Man City (að hans sögn). Hann vissi nákvæmlega ekki neitt um liðið eins og hann kom inná í skemmtilegu viðtali við Noel Gallagher af öllum mönnum.

Að Balotelli sé eini maðurinn í heiminum sem Noel Gallagher hefur tekið viðtal við kemur ekki einu sinni á óvart, það er ekta Balotelli. Þarna neitaði hann einnig nokkrum furðulegum orðrómum um sig sem náð höfðu góðu flugi á samskiptamiðlum. Samt ekki nærri því öllum.

Mancini var ángæður með að landa Balotelli og þekkti hann ekki af öðru en góðu enda höfðu vandræði hans hjá Inter hafist eftir að Mancini fór. Hann sagði þetta um Balotelli

“His style of play will suit the Premier League, and because he is still so young there is a big chance for him to improve. He is a strong and exciting player, and City fans will enjoy watching him.”

Balotelli meiddist strax eftir að hann kom til City og byrjaði ekki að spila af viti fyrr en í október. Hann byrjaði með látum hjá City og eins var tími hans (innan vallar) hjá Inter ekki verri en svo að hann var valinn efnilegasti leikmaður Evrópu (Golden Boy Award). Hann sagði eftir að hann tók við verðlaununum að aðeins einn af fyrri sigurvegurnum væri örlítið betri en hann, þ.e.a.s. Leo Messi. Hann sagðist í sama viðtali ekki hafa hugmynd um hver Jack Wilshere væri en hann var einnig tilnefndur.

Utan vallar byrjaði Balotelli einnig með látum og ef þið sjáið Balotell einhverntíma undir stýri í Liverpool borg takið þá bara til fótanna. Hann var búinn að klessa Audi R8 í grennd við Carrington æfingasvæðið rétt rúmlega viku eftir að hann gekk til liðs við City. Lögreglan kom á svæðið og fann £5.000 í sætinu. Aðspurður um hvað hann væri að gera með allan þennan pening svaraði Balotellli “Because I am rich”

Bíllinn hans hefur 27 sinnum verið gerður upptækur vegna umferðalagabrota og hann er sagður hafa fengið sektir upp á £10,000 meðan hann bjó í Manchester. (Tökum þessu með fyrirvara).

Balotelli komst einnig í blöðin á Ítalíu eftir að hann keyrði ásamt bróður sínum inn á lóð kvennafangelsis í Brescia, þá langaði skyndilega að skoða hvernig kvennafangelsi væri. As you do.

Balotelli er með ömurlegt record þegar kemur að spjaldasöfnun og var búinn að láta reka sig tvisvar í bað á fyrsta hálfa árinu sínu hjá City, vel gert m.v. að hann var meiddur fyrstu þrjá mánuðina. Fyrsta rauða spjaldið kom mánuði eftir að hann byrjaði að spila með City (Nóv 2010) en í sama leik skoraði hann einmitt sín fyrstu mörk á Englandi.

Hann var að skora ágætlega af mörkum og skoraði m.a. í bikarúrslitaleiknum gegn Stoke og var valinn maður leiksins er Man City tryggði sér sinn fyrsta stóra bikar í 35 ár.

Nokkrum vikum áður hefði Balotelli fengið viðvörun frá Man City fyrir að henda pílum í unglingaliðs leikmenn félagsins. Ótrúleg meðferð sem yngriflokka leikmenn Man City fá ef þið hafið í huga feril Joey Barton líka!

Balotelli getur gert menn alveg snarbilaða og hefur verið gagnrýndur opinberlega af öllum sínum þjálfurum. Sumarið 2011 gerði hann Roberto Mancini alveg snarbrjálaðan í æfingaleik gegn LA Galaxy þegar hann gerði þetta í dauðafæri.

Þarna voru sögur af Balotelli afar tíðar, hvort sem þær voru sannar eða ekki en frægust er líklega sagan af því þegar það kviknaði í heima hjá honum sólarhring fyrir stórleik Man City og Man Utd. Félagar hans voru að leika sér með flugelda sem læstust í gardínum inni á baðherbergi heima hjá honum og húsið fylltist af reyk. Hann varð í kjölfarið sendiherrra Mancherster svæðisins í öryggisherferð vegna notkunar flugelda.

Balotelli var þrátt fyrir þetta í byrjunarliði City gegn United og fullkomlega slátraði þeim í 1-6 sigri á Old Trafford. Balotelli skoraði fyrstu tvö mörkin og var óstöðvandi.

Mörkunum fagnaði hann svona
mario-balotelli-why-always-me

Mánuði seinna eða í Nóvember 2011 fékk Balotelli sitt þriðja rauða spjald á Englandi, núna í leik gegn Liverpool eftir að hafa komið inná sem varamaður ef ég man rétt.

Hann braut reglur varðandi útivistarbann mánuði seinna er hann fór út að nóttu til á skyndibitastað meðan leikmenn City áttu að vera að hvíla sig fyrir leik gegn Chelsea. Nokkrum dögum eftir það lenti honum saman við Micah Richards á æfingu en Balotelli lenti á ferli sínum saman við Kompany, Kolorov, Richards og sjálfan Mancini til að nefna einhverja. Slíkt þykir reyndar alls ekki mikið tiltökumál á Englandi eða í fótbolta yfir höfuð.

Einhverntíma í millitíðinni gerðist þetta bara í alvöru

Með hverjum nýjum mánuði kom ný saga af Balotelli, nú fyrir að stíga viljandi á Scott Parker leikmann Tottenham, hann slapp með þetta í venjulegum leiktíma en var dæmdur í 4 leikja bann út frá myndbandsupptökum.

Balotelli heimsótti sitt gamla lið (Inter) í mars 2012 og gatecrash-aði blaðamannafund félagsins er verið var að kynna nýjan þjálfara, Andrea Stramaccioni. Fullkomlega óþarfi að bíða þar til fundinum líkur!

Hann var svo varla kominn úr banninu fyrir að stíga á Parker er hann fékk sitt fjórða rauða spjald hjá City eftir að hafa brotið tvisvar á Backary Sagna leikmanni Arsenal. Hann hafði áður í leiknum brotið gróflega á Alex Song en sloppið með það.

Hann hefur fengið 67 gul spjöld á ferlinum og 6 rauð spjöld, ÞETTA ER SÓKNARMAÐUR!
Hann var í banni í 11 leikjum í deild eða evrópu tímabilið sem City vann titilinn og Mancini var þegar búinn að gefast upp á honum og taka hann úr liðinu. Fyrir utan spjaldasöfnun var Balotelli afar misjafn leikmaður og uppátækjasamur, hann reifst t.a.m. við Kolorov um hvor ætti að taka aukaspyrnu og var ekkert á því að gefa sig, gangi honum vel gegn Gerrard komi svona staða upp.

Mancini setti þó Super Mario inná í örvæntingu í síðasta leik gegn QPR sem varð að vinnast til að tryggja titilinn. City var þá þegar með Dzeko og Aguero inná.

https://www.youtube.com/watch?v=VSidQMVneGk

Mario Balotelli er bara skráður fyrir einni stoðsendingu sem leikmaður Man City, hún kom þarna! Eina sem kom á óvart þarna er að það var ekki Balotelli sjálfur sem skoraði.

Man City sektaði Balotelli um tveggja vikna laun fyrir spjaldasöfnun og leikbönn eftir tímabilið og hann ætlaði til að byrja með að fara í hart við félagið vegna þessa en hætti á endanum við. Hann hélt uppteknum hætti tímabilið á eftir og síðasta atvikið sem fyllti mælirinn var þegar hann reifst við Mancini svo skilja þurfti þá að, Balotelli var ekki sáttur við að vera rekinn af æfingu eftir að hafa brotið á Scott Sinclair.

Samband Mancini og Balotelli var stormasamt svo vægt sé til orða tekið en þeir bera þó báðir ómælda virðingu fyrir hvor öðrum og settu á svið PR show er Balotelli var seldur til AC Milan í janúar 2013.

Hvað sem segja má um Balotelli hjá Man City þá var hann nú litlu verri vitleysingur en t.d. Carlos Tevez var hjá þeim. Balotelli neitaði aldrei að koma inná í leikjum.


AC Milan
Heimkomu Balotelli var gríðarlega vel fagnað í Milan borg, Balotelli er almennt vinsæll leikmaður og sérstaklega hjá AC Milan enda yfirlýstur stuðningsmaður liðsins. Kaupverðið var talið vera um £19m eða svipað og hann er að fara á núna.

Roberto Mancini sagðist hafa leyft söluna á Balotelli hans vegna, Mario væri eins og eitt af börnunum hans og að hann gæti orðið einn besti leikmaður í heiminum er hann kæmi aftur í Seria A.

Adriano Galliani, varaformaður AC Milan sagði að kaupin á Balotelli færi draumur að rætast hjá félaginu, forseta félagsins (Berlusconi) sem og stuðningsmönnum liðsins. Síðan hefur töluvert gengið á innan herbúða AC Milan þó Balotelli hafi reyndar staðið sig vel hvað markaskorun varðar í lélegu liði, hann byrjaði t.a.m. á því að skora 12 mörk í 13 síðustu leikjum tímabilsins og tryggði þeim sæti í Meistaradeildinni.

Síðasta tímabil var lélegt hjá AC Milan sem endaði í 8.sæti. Það skrifast klárlega ekki á Balotelli enda vandamál liðsins miklu stærri en bara hann. Satt að segja var hann þeirra besti leikmaður og er raunar erfitt að skila afhverju AC Milan er svona áfjáð í að selja hann núna m.v. stöðuna sem félagið er í núna. Peningavandræði er líklega aðalástæðan og hefur forseti félagsins, Barbara Berlusconi (dóttir Silvio) látið hafa eftir sér að skrað Balotelli sé hægt að fylla.

Aðrir eru afdráttarlausari, Christian Vieri fyrverandi landsliðsmaður Ítala segir Galliani vera að gera bestu leikmannaviðskipti í sögu AC Milan með því að selja Balotelli án þess að útskýra það frekar.

Balotello skoraði 14 mörk í 25 leikjum AC Milan á síðasta tímabili sem er það mesta sem hann hefur náð á einu tímabili. Hann var engu að síður með allskonar vitleysu áfram innan vallar og nældi sér í 10 gul spjöld sem er einnig það mesta sem hann hefur fengið á sig.

Balotelli tók að meðaltali 5,1 skot að marki í leik sem er það mesta í Seria A og aðeins Suarez (5,5 skot að meðaltali) var með meira í stóru deildum Evrópu. Balotelli er ekki bara oft brotlegur því að líklega er ekki brotið eins oft á nokkrum leikmanni og honum eða 101 sinni á síðasta tímabili. Það gera 3,4 brot að meðaltali í leik. Það var brotið að meðaltali tvisvar á Suarez í hverjum leik.

Pippo Inzaghi núverandi þjálfari AC Milan hefur ekkert á móti Balotelli og hugðist nota hann í vetur.

Allegri fyrrverandi þjálfari Milan var hinsvegar kominn með leið á barnaskap Balotelli og sagði honum að þroskast eftir leik liðsins gegn Napoli þar sem Balotellli klúðraði fyrstu vítaspyrnu sinni á ferlinum og lét reka sig af velli fyrir að rífast við dómarann. Skömmu seinna var hann nappaður reykjandi í lestinni sem Milan liðið var að ferðast með fyrir útileik gegn Fiorentina. Þetta var í apríl 2013 og sagði Cesare Prandelli landsliðsþjálfari Ítala að Balotelli þyrfti að læra að halda kjafti. Balotelli fékk rautt í landsleik nokkrum mánuðum seinna.


HM 2014 og Raiola
Eins hefur Balotelli átt erfitt uppdráttar á Ítalíu í kjölfar HM þar sem Ítalir saka hann um að hafa brugðist með því að skora aðeins eitt mark. Tala jafnvel einhverjir um að Mario sé ekkert Ítali heldur frá Gana. Ummæli Barböru Barlusconi sem og lítill stuðningur Ítalska Knattspyrnusambandsins fór heldur betur öfugt ofan í Raiola, umboðsmann Balotelli sem hefur í kjölfarið leitað að nýju félagi fyrir kappann, hann skaut á móti að AC Milan væri liðið sem stæði næst hjarta Balotelli en væri ekkert stærsta liðið sem hann gæti spilað fyrir.

Pardelli landsliðsþjálfari sagði eftir að hann hætti með liðið að Balotelli byggi í heimi sem væri fjarri raunveruleikanum.

Ítalska landsliðið dauðrotaði Raiola í kjölfarið fyrir hönd Balotelli

“I don’t judge people and I don’t know Prandelli, But his tactical plan was a losing one. How can you win playing just with one striker on the pitch? Even Costa Rica played with three strikers.”

Þetta er reyndar áhugaverður punktur því að ef ferill Balotelli er skoðaður hefur hann aldrei spilað fyrir mjög sókndjarft lið, a.m.k. ekki sóknarlið eins og Liverpool. Roberto Mancini fékk að velja alla þá leikmenn sem hann vildi og hann spilaði ekki sóknarbolta, svo mikið er víst. Balotelli hefur spilað undir hans stjórn hálfan atvinnumannaferilinn. Jose Mourinho vildi yfir höfuð ekki nota Balotelli (en gerði þó) og hann verður svo sannarlega aldrei sakaður um sóknarbolta. Að lokum er það svo Ítalska landsliðið og það hefur aldrei verið þekkt fyrir sóknarleik. Hver veit hvernig Balotelli finnur sig í liði sem sækir mun meira og skapar mun fleiri færi nær markinu en hann hefur kannski vanist áður?

Það er ljóst að Balotelli er ansi erfiður í umgengni og á líklega eftir að fara í taugarnar á mjög mörgum en alls ekki útiloka að Brendan Rodgers geti gert alvöru leikmann úr þessum strák. Að Mancini og Mourinho hafi ekki náð því þegar hann var um tvítugt segir ekki nokkurn skapaðan hlut. Jose Mourinho talaði um að hann væri “unmanageable”, Rodgers segir vonandi við slíku “Challenge accepted”.

Balotelli í Liverpool
Balotelli Melwood
Þrátt fyrir að Suarez hafi komið til Liverpool í kjölfar þess að bíta andstæðinginn og verja með hendi á HM þá vissum við lítið sem ekkert um hann. Mario Balotelli hefur hinsvegar haldið heilu dagblöðunum á floti nú þegar og alltaf verið milli tannana á fólki (pun intended).

Balotelli er nánast jafngamall upp á dag og Suarez var þegar Liverpool keypti hann og óhjákvæmilega eru þessir leikmenn (og karakterar) bornir saman nú þegar Balotelli kemur í stað Suarez. Þetta er þó ekki svona einfalt og þó báðum fylgi gríðarlegur farangur þá gætu þetta ekki verið mikið ólíkari leikmenn og einstæklingar. Daniel Sturridge og Raheem Sterling eru öllu nær því að fylla skarð Suarez innan vallar frekar en Balotelli tegund af leikmanni.

Hvaða álit sem menn kunna að hafa á Suarez þá var hann alltaf vinsæll innan hópsins, enginn lagði sig meira fram á bæði æfingum og í leikjum og raunar voru hans helstu vandamál tengd því. Utan vallar var hann rólegur fjölskyldumaður sem sést aldrei nokkurntíma út á lífinu og honum fylgir ekkert vesen nema þegar hann vill komast frá því liði sem hann spilar með, hann hefur alltaf verið með vesen þegar hann skiptir um lið sem helgast helst af því að ekkert lið hefur viljað selja hann. Balotelli er nánast 100% andstaðan. Suarez var draumur allra þjálfara og liðsfélaga sem leikmaður.

Á móti er Suarez bókstaflega einu biti í viðbót (eða álíka fáránlegu athæfi) frá því að fara í 1-2 ára bann frá fótbolta, hann er nú þegar í banni. Balotelli fylgir áhætta í hverjum leik varðandi spjöld og slíkt en vesenið á honum innan vallar flokkast sem nokkuð eðlilegt og minniháttar, sérstaklega í samanburði við Suarez sem er á síðasta séns og var raunar búinn með þann séns hjá Liverpool. Félagið tók áhættuna með hann, það var skrautlegt ferðalag en heldur betur þess virði. Balotelli hefur allt að bera til að eiga svipaðan tíma hjá Liverpool.

Innan vallar er Balotelli jafn líklegur til að skora og hann er að fá spjald, 67 gul spjöld er gjörsamlega fáránlegt fyrir sóknarmann og sum af rauðu spjöldunum hans hafa verið hrein og klár heimska, barnaleg brot. Utan vallar eru endalausar sögur af Balotelli þó raunar aðeins helmingurinn af þeim séu sannar.

Liverpool hefur heldur betur verið með vandræðagemsa í sókninni áður. Sterling var talinn vandræðaunglingur fyrir einu ári síðan og honum fylgdu sögur sem minntu helst á einmitt Balotelli. Sturridge átti að vera vesenisti líka sem aldrei hafði náð að nýta hæfileika sína og var talinn eigingjarn og sagður líta stórt á sig. Luis Suarez þarf ekki að ræða frekar þó vissulega vinni það með Balotelli að hann er ekkert að bíta fólk. Meira að segja Lazar Markovic er sagður skrautlegur líka en hann á eftir að vera eins og kettlingur í samanburði við sóknarmenn Liverool.

Nicklas Anelka er ennþá ein verstu mistök sem Liverpool hefur gert á leikmannamarkaðnum, hann var talinn erfiður og í stað þess að taka séns á honum var keypt El-Hadji Diouf sem toppar flesta, jafnvel Balotelli.

En sá sóknarmaður í sögu Liverpool sem líklega er helst hægt að líkja við Balotelli er Stan Collymore, mikið frekar hann en Suarez. Viðhorf Balotelli til æfinga eða er hann röltir áhugalaus um völlinn milli þess sem hann gerir eitthvað stórkostlegt minnir um margt á furðufuglinn Stan Collymore. Afskaplega óstöðugur leikmaður sem tekur ótrúlega kafla þar sem hann virðist óstöðvandi og með heiminn að fótum sér þegar vel gengur en endar alltaf á því að fá alla þjálfara upp á móti sér og vera látinn fara á 1-2 árum.

Collymore var reyndar svo skrautlegur að Balotellli virkar ekki mikið mál í samanburði en þrátt fyrir allt þá skoraði hann mikið af mörkum fyrir Liverpool og fór á svipað mikinn pening og hann var keyptur á. Það þrátt fyrir að vera keyptur á metfé öfugt við Balotelli sem er sagður vera hálfgerður þjófnaður á £16m. Balotelli er líklegur til alls en ég efa að hann sjáist með allt niður um sig á afskekktum bílastæðum og ætla rétt að vona að hann stundi það ekki að berja konur. Hvernig Collymore fékk vinnu í fjölmiðlum eftir ferilinn mun ég aldrei skilja.

Helsta ástæðan fyrir því að meður leyfir sér að vona að Balotelli springi út hjá Liverpool er auðvitað Brendan Rodgers. Það er þó ljóst að sálfræðingurinn Dr Steve Peters verður áfram á mála hjá félaginu í vetur og þyrfti líklega að koma í 100% starf núna.

Rodgers tjáði sig um Balotelli fyrir leik Liverpool gegn AC Milan í sumar og sagði þetta um hann þá:

“Balotelli is a big talent. I saw that in this time at Inter Milan as a young player and obviously going to Manchester City when we had a real close eye on him there.

“He’s got all the qualities. He’s 6ft 3ins, he’s quick, his touch is terrific and he can score goals.

“He went back to Italy to play and he’s still so young. If his focus is right, his concentration is right and he leads the lifestyle of a top player then he can play for any team in the world.”

Það er smá eins og Dr Peters og Rodgers hafi langað í alvöru áskorun eftir að Suarez var seldur en eins og Rodgers kom inná þarna þá hefur Balotelli allt til að verða stórstjarna, hann er það ekki eins og staðan er í dag. Rodgers var spurður enn frekar út í Balotelli á blm. fundi fyrir leikinn gegn City

https://www.youtube.com/watch?v=5tawCmX1AX4

Liverpool vantaði sóknarmann og leitin að slíkum manni í réttum klassa var greinilega erfiðari en vonast hafði verið eftir. Félagið er búið að spyrjast fyrir um öll stór nöfn í álfunni ef eitthvað er að marka (virta) fjölmiðla.

Sanchez vildi bara búa í London og fann spennandi félag þar, lítið við því að gera, hann hefði vissulega verið minni áhætta en Balotelli og heilt yfir meira spennandi kaup. Ég er ekki svo viss með rest af þeim sem orðaðir hafa verið við Liverpool. Loic Remy var svo gott sem frágenginn er það klikkaði, hann er aldrei meira spennandi en Balotelli. Wilfred Bony vildi mjög háa launahækkun ofan á það að hann kostaði helling, hann hefur ekkert gert á sínum ferli sem svipar til Balotelli. Samuel Eto´o er 33 ára og löngu kominn af hátindi síns ferils.

Falcao er vissulega miklu meira spennandi leikmaður en Balotelli á pappír en ekki þegar hann er að ná sér af krossbandsslitum og hvað þá á dýrasta lánssamningi sögunnar. Ofan á það vill hann ekki koma til Liverpool því hann hættir ekki að slefa yfir Real Madríd. Veri honum að góðu snobblífið í Monaco. Cavani væri einnig meira spennandi og öruggari kostur en hann er 27-28 ára gamall og á mála hjá PSG sem keypti hann fyrir stórfé fyrir stuttu síðan og borgar honum laun eftir því. Hann myndi kosta bróðurpartinn af þeim pening sem við fengum fyrir Suarez og hefur lítið endursöluvirði.

Balotelli fær risa tækifæri hjá Liverpool í liði sem gæti hentað honum frábærlega og hjá þjálfara sem gæti unnið með hann, ef ekki Rodgers þá enginn. Stan Collymore var hreinræktaður vitleysingur en hann talar um það í ævisögu sinni að enginn hafi náð meira úr honum en Martin O´Neill sem hélt mjög vel utan um hann. Munurinn þar var að undir stjórn O´Neill var Collymore stórstjarnan og stóri fiskurinn í lítilli tjörn, hjá Liverpool var hann bara partur af hópnum og fékk enga sérmeðferð. Þjálfunarfræðin er aðeins búin að breytast síðan Collymore var hjá Liverpool og líklega fær Balotelli meiri athygli og umönnun en aðrir hjá Liverpool, Rodgers kemur inn á það í viðtali fyrir leikinn að ekki þurfi að breiða teppi yfir alla leikmenn en vissulega suma.

Hvað hópinn hjá Liverpool varðar þá er Balotelli klárlega miklu meira spennandi en Rickie Lambert sem verður þá bara aftur 3-4 kostur hjá okkur sem er flott mál. Lambert verður 100% fullkominn atvinnumaður sem gefur allt í þetta en hefur ekki sama X-factor og Super Mario.

Balotelli getur leikið styttu í sóknarlínunni en samt krafist athygli 2-3 varnarmanna andstæðinganna. Með slíkan mann skapast tími og pláss fyrir aðra sóknarmenn Liverpool, það var lykillinn í fyrra og liðið hefur mun fleiri sem geta skapað usla frammi núna. Balotelli hefur líkamlegan styrk til að taka á móti boltanum hátt uppi og halda honum, hann er engu að síður ekkert frekar target sóknarmaður sem þrífst á háum boltum enda hefur hann einnig mikinn hraða og gríðarlega mikla tækni. Ég er gríðarlega spenntur að sjá Balotelli í liði eins og Liverpool því held að hann hafi aldrei spilað í liði sem spilar fótbolta í grennd við það sem Liverpool er að gera.

Sem vítaskytta hefur hann betri tölfræði en Steven Gerrard og hafði ekki klikkað á víti þar til í fyrra er hann mætti Pepe Reina, hann var búinn að skora úr 26 vítum í röð. Hann getur einnig tekið aukaspyrnur og hefur sett nokkur mörk úr þeim. Hann þarf engu að síður að bæta markaskorun sína og ætti að gera það hjá Liverpool rétt eins og Suarez og Sturridge gerðu. Hann fær ekki að taka vítin hjá Liverpool eins og hann hefur gert hjá sínum félagsliðum hingað til og það fækkar hans mörkum töluvert. Gleymist oft að á síðasta tímabili voru hvorki Suarez eða Sturridge að taka vítin fyrir Liverpool.

Balotelli hefur hæfileika til að leiða Liverpool alla leið, verkefni Rodgers er að kreista það besta úr honum. Fyrir £16m er hann það langbesta sem í boði er og ef við hugsum til þess að líklega fer Fabio Borini fyrir £14m þá er þetta engin áhætta. Hann yrði a.m.k. ekkert fyrsta £16m floppið sem keyptur hefur verið. Það er alveg ljóst að þú vinnur ekki í lottóinu án þess að kaupa miða og Balotelli er klárlega lottómiði.

Hjá AC Milan í fyrra var Balotelli reglulega að skjóta sex sinnum eða oftar að marki fyrir utan teig og hann fékk afar fá opin marktækifæri sem voru ekki af vítapunktinum. Þetta gæti útskýrt hversu oft skot hans voru blokkeruð eða fóru framhjá. AC Milan var að spila mjög illa og endaði í 8. sæti, eitthvað sem er jafnvel ennþá meira óhugsandi en Liverpool á sömu slóðum. Rodgers sér alveg klárlega fram á að geta bætt þessa tölfræði gríðarlega hjá Liverpol sem er að sækja á miklu fleiri og fljótari mönnum, Balotelli í grennd við markið hræðir lífið úr hvaða varnarmanni sem er. Hann er auðvitað fyrst og fremst sóknarmaður en getur vel leyst út á vængina líka sem og sem annar sóknarmaður. Lítil vinnusemi hans gerir það þó ólíklegt að hann spili í þeim stöðum fyrir Liverpool.

Gangi þessi kaup á Balotelli ekki eftir ætti það ekkert að vera neinn heimsendir fyrir Liverpool sem hefur nægjanlega breidd núna til að taka smá áhættu í leikmannakaupum. Rodgers sagði á blm. fundi að hann gat ekki tekið sömu áhættur fyrir 2 árum og hann getur leyft sér núna. Núna er vinnuumhverfið til staðar og hópurinn nógu góður fyrir nýja menn að koma inn og blómstra. Verði Balotelli með vesen eða nái hann ekki flugi verða FSG ekki lengi að losa sig við hann og fá líklega fullt verð tilbaka. Þeir sem ekki standa undir væntingum hjá Liverpool í dag stoppa afar stutt við.

Þetta var nokkuð vel orðað í ummælum á Tomkins Times:

Imagine having 7 grand to buy a car. You can buy a Nissan Micra, or alternatively someone is offering you an Aston Marton DB9 that has a faulty steering system. And you’re a mechanic. And you have a team of engineers to help you. Which one would you buy?

Liverpool er líklega ekki að fara kaupa fleiri stór nöfn í þessum glugga og Rodgers talar um að þetta verði stærsti gluggi félasins næstu árin. En er við setjum þetta upp svona, félagið hefur keypt Lallana (£23m) Lovren (£20m) Markovic (£20m) Moreno (£12m) Can (£10m) Origi (£10m) Lambert (£4m) Manquillo (lán) og Balotelli (£16m) = £115m.

Við höfum þegar selt Suarez (£75m) Reina (£2.5m) Kelly (£1.5m) Coady (£500k) = £79.5m

Nettó í dag eru þetta – £35.5m.

Mögulega eru nokkrir að fara á næstu dögum eins og Borini (£14m) Assiadi (£6m) og mögulega Agger/Coates. Liverpool gæti verið að fara í gegnum þennan glugga nokkurnvegin á sléttu.

Það er ágætt sumar hjá Ian Ayre og félögum. Suarez var auðvitað besta söluvara félagsins og lang stærsta stjarnan. Balotelli gæti unnið dágóðan slatta af sliku til baka sem og að þeir sem keyptir hafa verið undanfarið hafa flestir burði til að bæta sig verulega hjá Liverpool og verða þannig stór nöfn.

Balotelli verður vel tekið á Anfield og líklega verður hann vinsæll hjá okkur, stuðningsmenn Liverpool hafa ekkert á móti mönnum með karakter eða þeim sem fylgja ekki endilega norminu, svo lengi sem þeir standa sig inni á vellinum og leggja sig alla fram (þarna gæti skapast vesen). Eitt er það þó fremur en allt annað sem gefur Balotelli strax forskot hjá stuðningsmönnum Liverpool og það er þetta

Það er nokkuð ljóst að við þurfum að spenna beltin, Liverpool er að fara í nýja flugferð og Super Mario er einn af flugmönnunum, það er bæði spennandi og ógnvekjandi.

Mario_Balotelli_vs_Mario_Bros

Með fyrirvara um að þetta verði staðfest fljótlega, Velkominn til Liverpool Super Mario.

80 Comments

 1. Þetta var snildar lestur, var ekki alveg að átta mig á hvað hann er svakalegur hann Balotelli.

  Maður er alltaf að lesa hann sé vitlaus, veit ekki með það, camouflage Bentley og 5 ára samningur við Liverpool undir stjórn Rodgers. Virkar frekar snjall á mig.

 2. All publicity is good publicity, right? ehm..
  Skulum vona að á endanum reynist þetta rétt. Markaðsdeild LFC getur farið í langt frí. LFC mun eiga headlines í flest öllum fjölmiðlum alla daga vikunnar nú þegar Balotelli er mættur.

 3. Takk kærlega fyrir þennan frábæra pistil 🙂 Og Balotelli til Liverpool ????.. ALLTAF.. já takk.

 4. Nr. 7 Snjólfur

  Mikið til í þessu varðandi markaðsdeildina, James Horncastle sagði þetta í viðtali við Liverpool Echo

  Gazzetta [an Italian football paper] claim he made 788 headlines in 568 days. How many were about football?

  Rather than a top player, in Italy they now call him a pop player, more of a cultural phenomenon than a calcio one.

  Sjá hér

 5. Stórkostlegur pistill! Frábær.
  Þetta verður geggjað! Alveg klikkað! Það verður fjör og allt vitlaust!
  Og umræðan og spennan öll um Liverpool, Mario, sóknina, …….!
  Hefur einhver áhuga á einhverjum öðrum liðum? Uuuuuu. ……. nei, held ekki!

 6. Ég held að það sé einmitt málið að fjölmiðlar hafa oft á tiðum gert meira úr fíflagangi hans en efni er til. Hann hefur auðvitað gert margt heimskulegt á ferlinum sínum og á örugglega eftir að gera fleira heimskulegt hafi hann ekkert þroskast. Ef það er hinsvegar eitthvað til í þessum fregnum að samningur hans muni hljóða upp á gríðarlega launalækkun og bónusa standi hans sig vel, má vel merkja bættari hegðun, í það minnsta vilja til að bæta sig og sýna frekar hvað hann getur. Ég hef góða tilfinningu fyrir þessu. Var ekki einn af þeim sem gerði stanslaust gys af honum þegar hann var hjá City. Hæfileikarnir eru þarna, svo miklir að hann gæti náð hæðstu hæðum. Tel það vera áhættunar virði enda miðað við allt er ekki um mikla peninga að ræða. Vonandi munu menn sem efast þurfa að éta sín orð. Kannski þarf ég þess.

 7. Noel Gallagher tók viðtal við Mario og spurði hann út í margt af þessu sem hann átti að hafa gert, mikið af því var bara uppspuni.

 8. Flott grein hjá þér Babu.. Vonum bara ekki að þú jinxir þessi kaup 🙂 Margt áhugavert sem þú kemur að í greininni. Til dæmis að Balo hafi aldrei spilað í svona sókndjörfu liði eins og Liverpool er í dag. Ég hafði ekki pælt mikið í því enn bæði Manchini og Móri eru mestu varnasinnðu þjálfarar sem ég hef séð í Ensku úrvalsdeildini. Tony Pulis sæmir sig vel með þeim í heilagri þrenningu!!

  Þrátt fyrir allar þessar sögur um hann og þessi spjaldasöfnun hans í gegnum tíðinna þá held ég að þetta sé góð kaup. Hann tilkynnti í fyrra að hann væri leiður á þessum Kynþáttaníði sem virðist stórt vandamál enn í dag á Ítalíu og sagðist sakna Enska boltans að þessu leyti. Vonandi á hann eftir að taka svipaða byrjun og hann tók hjá Milan 12 mörk í 13 leikjum og oftar enn ekki að tryggja þeim dýrmæt stig.

  Miðað við Leikmannagluggan sem við höfum átt og hópinn sem við erum komnir með. Þá fynnst mér líklegt að næstu Glugggar munu ekki verða spennandi eða svona margir leikmenn. Mér sýnist allt stefna í að þetta verði bara 2-3 leikmenn enn verði þá dýrir og meira svona Proven Talent í hverjum glugga fyrir sig. Enn flest öll kaup voru í raun nauðsynleg. Er það ekki á næsta tímabili sem Meistaradeildsætið eyjur peningastreymið um 10 fald þegar nýji BT samningurinn gengur í gildi? Segjum að Falcao komi og tryggi okkur þetta sæti þá eru þessir vasapeningar strax orðnir litlir í samanburði við sætið sem tryggist.

 9. Það getur vel verið ( er að hugsa málið) að ég fari að kalla þig Babutelli eftir þennan pistil.

 10. Eg er bara ordinn drullu spenntur fyrir drengnum! Hef alltaf fylad hann, baedi sem leikmann og hann er fokking fyndinn!
  Hvet ykkur til ad elta hann a instagram, thad er mjog god skemmtun.

 11. Þetta verður rússibani hjá okkur sem mér finnst mjög spennandi. Takk fyrir Babu þú ert snilli eins og allir poollarar. 😀

 12. Þetta verður sennilega svipað og að vera með handsprengju í hendinni.

 13. Úffff…… Babú búinn að gera mann skíthræddann og ofurspenntan í senn!! -_- Þvílík snilldargrein um Super Marío. Milljón þakkir fyrir þessa snilldarlesningu… kop.is rokkar!!

  Koma svo Balotelli… það væri nú ekki ónýtt að sjá þig í rauðu treyjunni 4. Október… 🙂

  YNWA

 14. Collymore, Diouf, Bellamy, Cisse, Carroll…komast ekki i hálfkvisti við Balotelli. Ef maðurinn nennir ekki að æfa 20 ára hverjar eru þá eiginlega likurnar aðð hann nenni því síðar? Það er akkúrat ekkert heimsklassa við Balotelli nema kannski að hann er skotfastari heldur en Riise.

 15. þvílík bomba ein pæling hvað i andskotanum varstu lengi að skeifa þetta það tók mig örugglega korter að renna yfir þetta

 16. Vá Babú þetta er rosaleg grein hjá þér. Smá leiðrétting það var Yaya Toure sem skoraði markið í bikarúrslitaleiknum ekki Balotelli.
  Svo finnst mér rangt og ósangjarnt að tala um að Mancini hafi verið varnarsinnaður þjálfari hjá Manchester City , það er alrangt. Tímailið 2011-2012 skoraði City 93 mörk það er ekki að vera varnarsinnaðir. Meðal úrslita vannst sigur á Old Trafford 1-6 og White Hart Lane 1-5.
  Macini spilaði 3 kerfi þetta tímabil . lengst af 4-2-3-1 kerfið þar sem Balotelli&Dzeko skiptust á að vera fremstir og fyrir aftan voru oftast ,Silva,Nasri og Aquero og á miðjunni Yaya og Barry þar sem bara Barry hafði eingöngu varnarskildur.Einnig var kerfið 4-3-3 með Yaya Toure í holunni
  þegar þurfti að ná United undir lokinn og vinna síðustu 6 leikina þá breytti hann í 4-4-2 með Silva og Nasri á köntunum og Tevez og Aquero frammi,Balotelli var í banni í 4 af þessum leikum. Ekkert af þessu er varnarsinnað , ég man eftir nokkrum leikjum þar sem hann var með 4 framherja inná .
  Þó Liverpool hafi skorað NÆST flest mörk í deildinni á síðasta tímabili þá gefur það ekki einkaleyfi á að kalla sig sóknarlið og að menn hafi aldrei séð annað eins.

 17. LVG spilar 3-5-2 og ekki myndi ég kalla flokka hans fótbolta sem spennandi sóknarbolta, ef BR myndi spila 3-5-2 þá myndi ég búast við miklum sóknarbolta.

  Svona til samanburðar, þó svo að Mancini og hans lið hafi náð að skora 93 mörk, þá skoruðum við 119 mörk með Benitez 2007-2008 í reyndar öllum keppnum, en þrátt fyrir það þá voru menn alltaf að flokka hans bolta sem varnarsinnaðann.

  Annars mjög spennandi kaup og þá sérstaklega fyrst Balotelli tók á sig 50% launalækkun til að spila með okkur, þá efast ég ekkert um að hann hafi ekki bullandi áhuga á því að rétta úr kútnum. Hver betri en Brendan Rodgers og Steven Peters.

 18. Orti hæku af þessu tilefni

  Balo, Balo,

  Klíf þú hæstu tinda,

  En varlega, varlega!

 19. Erfitt, hvað það má ekkert segja um City án þess að Þröstur mæti með einhverjar yfirleiðréttingar.

  Allir sem horfðu á City undir stjórn Mancini sáu að þar var á ferðinni varnarsinnað lið, sem var leiðinlegt a horfa á. Markatalan breytir litlu þar um.

 20. #28 hef nù ekki sÿnst annad enn ad ef einhver gagnrÿnir okkar lid hér ad tá fá flestir hér mòdursÿkiskast 🙂 Tröstur er bara ad tala fyrir sitt lid .

 21. Já, maður er bæði spenntur og áhyggjufullur að fá Balotelli 🙂
  Vona að hann eigi eftir að taka sig á og fókusera á fótboltann.

 22. #28 sorry vinur en ég þekki City betur en þú .
  Allir sem vit hafa á fótbolta og vilja vita sáu að City spilaði blússandi sóknarbolta tímabilið 2011-12 .
  Lið með Aquero,Silva,Nasri ogToure fyrir aftan sóknarmann er ekki varnarsinnað lið það sjá allir sem vilja og þekkja þessa leikmenn eða heldur þú ennþá að Toure sé varnartengiliður ?
  Og meðan haldið verður fram einhverri vitleysu fram um mitt lið þá kem ég með ábendingar, eða vilja menn ekki fá umræðurnar á það stig ? Er það bara ein hlið umræðunar sem blifar allir hinir eru vitleysingar við poolarar vitum betur líka um öll önnur lið ?
  Þetta er allt í góðu við erum bara að tala um fótbolta er það ekki og það skemmtilega við einmitt enska boltann eru að allir hafi skoðanir, ég hreinlega neita að trúa því að þið farið á það stig að hafna umræðu um málefni sem kannski aðrir hafi aðra sýn á en þið.
  Svoleiðis viðhorf hefur maður séð stundum hjá ónefndum aðdáendum annars lið í rauðu .
  Please ekki fara þangað , þið eruð betri en það. 🙂 Enn ég skal hætta að koma hérna og verja/tuða um mitt lið ef þið viljið, það er ekkert mál . En þessi grein er um Balotelli og þessi skrif Babu er sennilega flottasta íslenska grein um Balla sem ég hef lesið , vel gert Babu

 23. p.s Ég var á vellinum þegar city varð meistari á móti QPR, Tevez var tekinn útaf og Balotelli kom inná og ég fann hvernig kliður fór um allan völlinn.
  Það hefur ekki komið fram nein staðar enn ef Balotelli hefði ekki komið inná þá hefðum við aldrei unnið leikinn.
  QPR voru með alla leikmenn inni í markteig og Balotelli gjörbreytti leiknum náði að opna varnarmúrinn og þið vitið svo hvað hann gerði í sigurmarkinu.
  Til hamingju með að vera að fá þennan snilling ég mun alltaf halda upp á hann.

 24. Er það tilfellið sem kemur fram á Teamtalk að Eto sé líka að koma ? Er þetta breytast í e-a vitleysu ? Er Tómas Ingi að fara út sem vara,vara,vara,varastriker líka ?

 25. Þröstur ekki hætta koma!! alltaf gaman að fá álit stuðningsmanna annarra liða 🙂
  Þótt þú nefnir þessi dæmi og telur upp góð og gild rök enn þá breytist ekkert mín skoðun á Mancini sem varnasinnaður stjóri. Sjáðu breytinguna sem varð á Y-Toure við að fá Pellegrini sem stjóra. hann hafði aldrei skorað meira enn 6 mörk enn skorar 20 á sínu fyrsta tímabili með Pellegrini Hvað breytist? sókndjarfari stjóri fyrir mér.

  2 stjórar með sama byrjunarlið á milli ára getur verið svart og hvítt sem spilandi lið á vellinum. Fyrir mér Var City svoleiðis í fyrra. svo mikið gerði Pellegrini fyrir City, PLús City spilaði þrælskemmtilegan bolta í fyrra 🙂 þetta er bara mitt álit hversu gáfulegt sem það er 🙂

 26. Sælir félagar

  Takk fyrir þetta Babú, ánægjulegur lestur og upplýsandi svo ekki sé meira sagt. Balo er auðvitað snillingur, skemmtanagildi hans er ótvírætt og þær nýju víddir sem hann mögulega gefur liðinu svakalegar. Ekkert nema tilhlökkun og spenningur í minum huga núna.

  Það er nú þannig

  YNWA

 27. Þröstur

  Mér finnst þetta svar þitt bara krúttlegt vinur (alltaf gott orð til þess að tala einhvern niður).

  “Sorry vinur en ég þekki City betur en þú”

  Þannig að skoðanir þeirra sem halda með liðinu (og sjá það í rósrauðum bjarma, vinur) eru alltaf réttari en aðrar?

  Manchester City undir stjórn Mancini var frábært fótboltalið og gríðarlega vel mannað. En spilaði hrútleiðinlegann fótbolta.

  Svo þetta

  “Lið með Aquero,Silva,Nasri ogToure fyrir aftan sóknarmann er ekki varnarsinnað lið það sjá allir sem vilja og þekkja þessa leikmenn eða heldur þú ennþá að Toure sé varnartengiliður ?
  Og meðan haldið verður fram einhverri vitleysu fram um mitt lið þá kem ég með ábendingar, eða vilja menn ekki fá umræðurnar á það stig ? Er það bara ein hlið umræðunar sem blifar allir hinir eru vitleysingar við poolarar vitum betur líka um öll önnur lið ?”

  Það var ekki nokkur maður (allavega ekki ég) að segja að þú mættir ekki tjá þig, eða að bara ein hlið umræðunnar mætti koma fram eða að Liverpool menn vissu allt, hvað þá að Yaya Toure væri varnartengiliður.

  Píslarvottarhátturinn þarf ekki að vera svona mikill. Sorry vinur en ég þekki fótbolta betur en þú.

 28. #35 Takk fyrir þetta .
  Ég virði þessa skoðun þína en kannski ef ég orða þetta eftirfarandi. Mancini er oftast og er í eðli sínu varnarsinnaður.
  Enn tímabilið 2011-12 þá var spilaður sóknarbolti hjá City og þræl skemmtilegur fótbolti sem hann einhverra hluta vegna hætti að láta liðið spila tímailið 2012-13. Ég er bara að segja frá því sem ég sá og mun aldrei skrifa undir að það hafi verið hundleiðinlegt að horfa á City undir stjórn Mancini. Það var nb Mancini sem breytti hlutverki Yaya frá því að vera varnartewngiliður hjá Barcelona yfir í box to box sóknartengiliður hjá City.

 29. # 28 Siggi
  “Erfitt, hvað það má ekkert segja um City án þess að Þröstur mæti með einhverjar yfirleiðréttingar.”

  Þetta er nú ekki beinlinis vertu velkominn alltaf gaman að fá skoðanir annara .
  Ég ætla ekki að breyta skoðun þinni um að City hafi spilað hrútleiðinlegan fótbolta undir stjórn Mancini.
  MEnn hafa mismunandi sýn á fótboltann , ég verð nátturulega bara að fara eftir því sem mér finnst og það sem ég sá var ekki hrútleiðinlegur fótbolti, einnig var það allmennt talað um þetta af fótbolti spekulöntum , þeir voru ekki að spila sama fótboltann 2011-12 og þeir gerðu 2009-10. Enn þetta er þín skoðun og það ber að virða. Og eitt að lokum ég sagðist vita meira um City en þú . Ekki að ég vissi almennt meira um fótbolta þú veist td meira um Liverpool en ég . Reyni ekki einu sinni að segja annað.

 30. Þetta verður bara betra og betra. Balo tekur á sig 50% launalækkun en á möguleika á góðum bónusum ef hann hagar sér vel og stendur sig vel. Þetta er klárt win win fyrir báða ef vel tekst til en jafnvel þó að Balo takist ekki að koma hausnum á sér saman er áhætta LFC lítil sem engin en hefur verið færð yfir á leikmanninn. Þetta er risk hedging af bestu gerð kæru vinur. Þetta er a.m.k. calculated risk og bara treyjusalan og auglýsingagildið er virði fúlgu fjár.

  Það hefur verið hreint ævintýri að fylgjast með hvað Meistaradeildin hefur gert LFC gott í þessum glugga. Á meðan flest virðist ganga upp hjá okkur virðist ManU færast nær brún örvæntingarinnar með hverjum deginum. 63m pund hefur félagið hóstað upp fyrir 2 efnilega leikmenn og nú herma sögur að verið sé að hlaða í 56m tilboð í Di Maria sem verður 27 ára í febrúar! Það gerir 119m fyrir tvo efnilega og einn góðan leikmann sem er líklega hærri upphæð en LFC hefur fjárfest í 8 leikmönnum sem virðast hver öðrum meira spennandi undir stjórn Brendans. Nettó munurinn er svo enn meira staggering!

  Ekki að ég sé að leyfa mér neina Þórðargleði (ég er að ljúga) en svona breytir velgengi aðstöðu til að gera góða hluti.

 31. Sko, þetta sest ekkert sérstaklega á sálina á mér. Það angrar mig bara þegar að fólk kallar annað fólk “vinur” enda eitthvað sem maður gerir við börn eða einhvern töluvert yngri en maður sjálfur er.

  Það er samt alveg rétt, þú mætir með yfirleiðréttingar og segir að allir hinir hafi rangt fyrir sér, og það er ekkert að því. Enda fylgistu meira með City en allir hinir.

  Og heldur ekkert að því að skjóta á það að þú komir eftir mörg þúsund orða pistil um Balotelli og takir út einhverja smá klausu um að Mancini hafi verið varnarsinnaður.

  Enda engin leiðindi í gangi, bara skoðanaskipti (og létt skot), þrátt fyrir að ég hendi ekki rauða dreglinum út.

 32. Jæja vinir. Ég ætla nú ekki í pissukeppni varðandi þekkingu á fótbolta, City eða hinum sókndjarfa þjálfara Mancini, en skoðum bara tölfræðina.

  2009-2010 (Mancini tók við í desember), þá skoraði City 67 mörk.

  2010-2011 skoraði City 60 mörk

  2011-2012 skoraði City 93 mörk

  2012-2013 skoraði City 66 mörk

  Eitt tímabil af þremur og hálfu skorar City lið Mancini fleiri en 67 mörk. Tvö og hálft tímabil af þremur og hálfu skorar liðið 60-67 mörk.

  Chelsea liðið skoraði 71 mark í fyrra, sem gerir Móra að mjög sókndjörfum þjálfara, enda með Hazard, Schurrle og Oscar bak við framherjan. Virkar þetta ekki svona? #logic

 33. Segi eins og Helgi J. í gær, jæja þetta er komið gott 🙂

  Fínt að fá hlið Man City manns á Balotelli og ég skil vel að það fari öfugt ofan í hann að tala um varnarsinnaðan fótbolta hjá liði sem skoraði 93 mörk. Liverpool skoraði flest mörk allra í deildinni tímabilið 2008/09 en það breytir því ekki að Benitez fær oftar en ekki sama stimpil.

  Það breytir ekki skoðun minni að mér finnst Mancini fyrst og fremst leggja leikinn upp með þeim Ítalska sið að verja markið, hjá City var hann auðvitað með yfirburðalið sem spilaði oftar en ekki frábæran fótbolta, Jose Mourinho getur líka soðið saman lið sem vinna stórt og skora mikið, engu að síður taldir frekar varnarsinnaðir stjórar. Benitez er í sama hópi, hann varði oftar en ekki stigið frekar en að fara all in með 2-3 mönnum fleira í sóknarleiknum líkt og Rodgers gerir. Benitez var reyndar aldrei með hóp eða fjárráð í líkingu við Mancini og Mourinho. Þetta þarf ekkert að vera neikvætt, ég saknaði þess stundum hjá Rodgers í fyrra að loka frekar sjoppunni undir lokin frekar en að halda áfram í bullandi sóknarleik.

  Man City skoraði “bara” 66 mörk árið eftir t.a.m. með allan þennan mannskap. Það að tala um stjóra sem varnarsinnaða er alls ekki það sama og að segja þá vera lélega, oftar en ekki vinna þeir til verðlauna og lið þeirra skora góðan slatta á leiðinni, það er bara nýlega sem sóknarsinnaðir stjórar eru fyrir alvöru komnir í tísku. Líklega er þetta samt bara huglægt mat hjá hverjum og einum.

  Einhversstaðar las ég meira að segja að Pardelli (landsliðsþjálfari Ítala) væri mjög sóknarsinnaður. Það segir manni enn frekar að þetta er mjög huglægt mat hjá hverjum og einum.

  Færslan er samt um Balotelli og þrátt fyrir að City hafi skorað svona mikið tímabilið sem þeir unnu titilinn undir stjórn Mancini þá breytir það því ekki að ég efa að hann hafi áður spilað í sóknarliði eins og Liverpool. Balotelli spilaði bara 23 deildarleiki þetta tímabil og 32 í heildina, oftar en ekki sem varamaður, t.a.m. í leiknum fræga gegn QPR. Leikbönn og annar trúðsháttur hans áttu auðvitað mesta sök á því.

  Balotellii skoraði ágætlega þetta tímabil og er að skora um 1 mark í hverjum 2 leikjum út ferilinn, reyndar tekur hann bæði víti og aukaspyrnur líka. Þessa tölfræði grunar mig að Rodgers sjái fram á að geta stórbætt hjá okkar manni nái hann því besta út úr Balotelli líkt og hann hefur gert með Suarez og Sturridge.

  Þakka annars góð viðbrögð við þessari færslu, mig langaði sjálfum að kynna mér Balotelli betur, þetta er einn af fáum mönnum í knattspyrnuheiminum sem gæti léttilega gefið út áhugaverða ævisögu fyrir 25 ára aldurinn.

 34. Kell og svo kemst maður að því þegar maður er á fertugsaldri að ég er búinn að vera að kalla alla vini mína vinur, þetta eru klárlega upplýsingar sem ég hefði þegið þegar ég var yngri.

 35. Þið eruð stundum alveg stórkostlegir, þið eruð alltaf að gera bestu kaupinn. Berið samann kaup annara liða og haldið því fram að þið fái einhverja 3 á 30 millur og það sé á pari við einhverja 3 á 90 millur hjá öðru liði. Ef Balotelli hefði farið í eitthvað annað lið þá væru þetta afleidd kaup. Balotelli er einn ofmetnasti leikmaðurinn í dag að mínu mati. Las um daginn einhvern pistil þar sem að þið voruð að bera samann hópana hjá toppliðunum og sá þar hjá nokkrum að menn settu úta Giroud hjá Arsenal, finnst hann reyndar ekkert spes sjálfum. En þeir eru með svipaða tölfræði. Reyndar hefur Giroud fram yfir Balo að hann hefur áhuga á því sem hann er að gera annað en letihaugurinn Balo sem nennir lítið að hreyfa sig og það síðasta sem hann mundi gera væri að bakka og fara í varnarvinnu.

  En verð að hrósa ykkur en og aftur fyrir flotta síðu.

 36. Takk Babu fyrir að gera mig en stressaðri en ég var fyrir. Var búinn að gleyma 50% af þessu rugli hjá Balotelli þar til þú komst með þessa færslu.

  Jæja gott fólk. Nú skulum við setjast inn í rússibanan og spenna á okkur beltin. Þetta verður svaka ferð en vonandi skemmtileg og spennandi líka 🙂

  Þessi klúbbur má eiga það að hann heldur manni alltaf á tánum..

 37. Algjörlega frábær grein!

  Dreymdi að Balotelli myndi ekki koma á síðustu stundu, er maður með LFC á heilanum eða hvað?

 38. Sælir félagar

  Ekki það að ég sé að amast við “aðkomumönnum” hér á síðunni en mér finnst samt að Þröstur síttífan mætti nota heimasíðu síns stuðningsmannaklúbbs til að ræða liðið sitt. Mér sem LFC stuðningsmanni leiðist umræðan um Sítti afskaplega, hefi engan áhuga á henni og mín vegna mætti hún deyja sínum drottni strax.

  Eins finnst mér að þó einhver pistla höfundur minnist á þetta lið (Síttí) sem á sér afar litla sögu og er eiginlega bara ný orðið til fyrir óheyrilega peninga þá þurfi sárir stuðningsmenn liðsins ekki endilega að þvælast hér. En ef það gerist þá þætti mér vænt um ef við Púllarar létum bara eins og ekkert hafi gerst og héldum bara áfram að tala um liðið okkar en ekki einhver Síttí lið.

  Það er nú þannig

  YNWA

 39. Nr. 45

  Vonandi var þessi færsla ekki kveikjan af þessum ummælum þínum? Ég veit ekki hversu mikinn meiri fyrirvara ég gæti mögulega sett á þessu kaup á Balotelli sem þrátt fyrir allt er ennþá gríðarlega spennandi leikmaður og með miklu meiri hæfileika en Giroud getur látið sig dreyma um.

  Geri svo ráð fyrir að þetta hentistefnu minni þitt gleymi alveg umræðunni hérna um t.d. Alexis Sanchez sem fór einmitt til Arsenal.

  Berið samann kaup annara liða og haldið því fram að þið fái einhverja 3 á 30 millur og það sé á pari við einhverja 3 á 90 millur hjá öðru liði.

  Settu fram dæmi frekar en þetta innantóma þvaður, já og helst taktu þátt í umræðum um þær færslur sem eru svona vitlausar að þínu mati.

  p.s. ef þú last einhverja gagnrýni á Giroud hér þá er hún ekkert í samanburði við hatur flestra Arsenal vina minna á honum síðasta tímabil.

 40. Við erum stórkostlegir haha, þegar Daglish keypti Henderson t.d. þá leið ekki einn dagur allt tímabilið að maður sá ekki einhver skítaskot frá hinum og þessum vinum mínum þar sem borið var saman Henderson við einhverja aðra leikmenn.
  Nú sést ekki til þeirra manna og meira segja einn allra versti af þeim er núna með hann í fantasy liðinu sínu og vill ekkert kannast við þetta.
  Held að þetta eigi við alla en ekki bara okkur 🙂

 41. Klárlega getur Balotelli brillerað, en er að benda á það að hann hefur aldrei gert það. Og ekki heldur Giroud sem er ekkert annað en meðalleikmaður.En Balotelli er hundlatur og aldrei séð hann sýna áhuga á því sem hann er að gera. Varðandi Sanchez þá voru flestir alveg að missa sig þegar hann var orðaður við ykkur en svo kom hann ekki þá var hann allt í einu orðinn óstabíll og ekkert varið í hann.

 42. Nr. 51

  Varðandi Sanchez þá voru flestir alveg að missa sig þegar hann var orðaður við ykkur en svo kom hann ekki þá var hann allt í einu orðinn óstabíll og ekkert varið í hann.

  Er þetta stóri dómur út frá einhverjum 1-2 vinum þínum eða bara innantómt þvaður, aftur? Umræðum um hann fækkaði eðlilega þegar hann fór af radar Liverpool en ég sá engar dramatískar U-beygjur í áliti á þeim leikmanni meðal stuðningsmanna Liverpool eftir að hann fór til Arsenal, við fórum bara að hugsa um aðra kosti. Eðlilega.

  Má vera að þetta sé ekki rétt, ertu með dæmi?

 43. #48 afhverju ertu að persónugera allt , þú uppnefnir mig ýtrekað , ég er ekki fugl þó að ég heiti Þröstur 🙂

  Hvaða nafn er Síttí ? Þýðir þetta eitthvað niðrandi eða ?
  Þú vælir yfir þráðráni og ég viðurkenni að ég stal einu sinni þræði en ekki í þetta sinn ég er einfaldlega að ræða efni pistilsins. Og svo kemur þú og minnist ekki einu orði á efni þessa pistils.
  Ert þú svo að segja að City aðdáendur megi ekki koma hingað inn að því að þér finnst þér ekki hafi neina sögu ? Heldur þú að City hafi enga sögu ertu að segja það ?
  Sorry Babu (þráðrán ?)enn ég varð að svara þessu
  Sigkarl sorry en þetta var dónalegt og hrókafullt innput frá þér .

 44. Liggur við að ég sé að drulla á mig yfir væntanlegri komu Mario Balo-fokking-telli. Ástæðan er einhverskonar blanda af spenningi og ofsahræðslu.
  Það er bara ekkert leiðinlegt að halda með Liverpool…aldrei!

  Svo annað. Má þessi þráður vera laus við sandkassarifrildi. Ókei bæ.

 45. Ég skil ekki alveg hvað er óeðlilegt.

  Nú er Balotelli að verða leikmaður Liverpool, þá hef ég um leið margfalt meiri áhuga á honum og trú á hans getu.

  Eins ef að leikmaður gengur til liðs við Manchester United, þá verð ég minna spenntur fyrir viðkomandi og hef minni trú á honum, þrátt fyrir að hafa áður haft mikið álit á leikmanninum. (sjá Juan Mata)

 46. Svo á eftir að sjá hvernig Alexis svo gengur, hann er óstöðugur í leik sínum þó kannski það fylgi því að vera ekki fastur maður í byrjunarliði.

  Þetta er nú einum þræði og svo eru fleiri komment sem menn geta fundið. Þarna t.d. er talað um að Liverpool se með betra lið en arsenal. Hvernig fá menn það út? Af því að þeir enduðu með 4 stigum meira en arsenal? Eruð þið ekki fljótir að gleyma því afhverju þið áttuð svona gott gengi á síðustu leiktíð? Mjög lítið leikjaálag tel ég vera stærsta ástðan fyrir því. Sát þarna í restina að mennirnir voru bara búnir á því. Spilað nánast á sömu 11 köllunum frá áramótum.

  En það var nú ekki ástæðan hjá mér að vera með einhver leiðindi, lýtur kannski þannig út en alls ekki ástæða hjá mér. Held bara að þið séuð ekki með næga breidd til að gera aftur það sama og á síðasta tímabili ef þið komist eitthvað áfram í mestaradeildinni.

 47. Ertu hissa á að Liverpool mönnum finnist okkar lið betra en liðið hjá Arsenal, sem við vorum fyrir ofan á síðustu leiktíð og slátruðum meðal annars 5-1. Er það óeðlilegt?

 48. Nr. 56

  Þetta er komið gott hjá okkur og umræða sem tengist þessari færslu ekki. Dæmið sýnir ekki U – beygjuna heldur bara skoðun á kaupunum á Sanchez, var umræddur aðili búinn að halda öðru fram áður? Sé annars ekki hvað er ósanngjarnt við þetta mat á honum en gott og vel. Höldum þessu meira um Balotelli.

 49. 59

  Mario verður legend hjá Liverpool
  (langaði aðalega bara að koma nafninu mínu á framfæri)

 50. Frábær pistill, takk Babú!

  Ég er vandræðalega spennt fyrir komu Balo til Liverpool, þó ég viti ekki hverju ég á að eiga von á frá honum – snilldartakta eða leti og áhugaleysi? Eða kannski bland í poka? Eins og fram hefur komið þá hefur hann fullt af hæfileikum og ekki er það verra að hann hafi áður sannað sig í ensku deildinni og evrópu. Hann er ungur en samt reynslumikill leikmaður.

  Ég, eins og flestir poolarar, hef fulla trú á BR og hans hugmyndafræði. Ef hann vill fá Balo í liðið segji ég bara “velkominn King Balo, hlustaðu nú á BR – ekki vera með óþarfa leiðindi og þegar þú klæðist treyju okkar fràbæra félags munt þú aldrei ganga einn!”

 51. Þetta er ofmetinn leikmaður og vandræðagemsi. Hann hefur t.d. aldrei skorað nálægt 20 mörkum í deild allan hans feril. Athyglina fær hann einungis út á fíflaganginn. Í raun er hann engu betri en menn eins og Giroud, Remy, Soldado ofl. Aldrei skilið “hype-ið” í kringum hann.
  Það hlýtur að vera ástæða fyrir því að stuðningsmenn Milan suður á Ítalíu séu áttir með söluna á honum, m.a. Galliani sjálfur.

 52. “aldrei skorað nálægt 20 mörkum allann sinn feril”

  -Um leikmann fæddann 1990

 53. Jæja þá eru United menn að fá Di Maria á um 70 miljónir evra. Vissulega frábær leikmaður en þetta er rosaleg upphæð fyrir 27 ára gamlan leikmann sem hefur aldrei spilað í ensku deildinni.

  Það er greinilegt að það eru til nægir peningar hjá þessu liði þrátt fyrir að vera ekki í CL.

 54. Frabær throun hja unæted. Flott ad their spreda gigantiskum upphædum i leikmenn. Hef miklu meiri tru a vinnuplani okkar manna.

 55. Di Maria eru frábær kaup hjá man utd, því miður 🙁 en góðu fréttirnar eru þær að hann er ekki miðvörður né spilar á miðjum vellinum en þar eru þeir veikastir en hann mun búa til færi og skora mörk fyrir þá
  Ég er samt á því að liverpool hafa styrkt sig meira í sumar með kaupum í stöður þar sem við vorum veikir í og auka breyddina.

 56. Di Maria er frábær leikmaður. Ég sé ekki að það skipti miklu máli hvað leikmaðurinn kostar Man Utd svo fremi að það séu til peningar. En eins og #66 segir þá er ekki verið að styrkja veikasta hlekkinn með þessum kaupum sem er í vörninni. En þeir eru nú kannski ekki hættir á Old Trafford…

 57. Liverpool midfielder Lucas Leiva is heading to Napoli on loan and a reunion with former boss Rafa Benitez, according to reports in Italy.,,,Jólin bara snemma í ár..!!!

 58. Það tekur því ekki að gera nýja færslu þar sem upphitun kemur í fyrramálið en meðan við bíðum eftir Balotelli er kannski rétt að huga að því sem við eigum nú þegar Lazar Markovic er líka karakter og með engu minni trú á sjálfum sér en Balotelli. Þetta viðtal við hann hljómar eins og tónlist fyrir mér, sérstaklega ástæða þess að hann gekk til liðs við Liverpool.

 59. Hef hingað til verið jafn spenntur fyrir Balotelli og Pirlo er í þessu myndbandi:
  https://www.youtube.com/watch?v=8BVcyCBMzNQ#t=91

  Ég vona að Super Mario troði skítugu æfingavesti upp í smettið á mér í vetur og sanni að hann sé þess verðugur að spila fyrir Liverpool.

  Takk kærlega fyrir skemmtilega grein og líflegar athugsemdir. Persónulega finnst mér í fínu lagi að stuðningsfólk annara liða álpist hingað inn og tjái sig, það er ekki eins og það sé eitthvað að gerast á þeirrar síðum:)

  Alltof langt í þennan mánudags leik.

  YNWA

 60. Hvernig væri að reyna við Petr Cech hjá Chelsea? Markvörður í heimsklassa sem er falur en ég tel markvarðarstöðuna veikasta hjá okkur.

 61. Voðalega eru stuðningsmenn annarra liða eitthvað spenntir fyrir því sem er að gerast hérna.

 62. Það er voðalega auðvellt að benda alltaf á markmanninn. sem útileikmaður geturu átt ömurlegan dag án þess að neinn taki eftir því . vörnin var klárlega veikasti hlekkurinn Með þessa vörn fyrir framan sig á síðasta tímabili þar sem var sífellt verið að rótera og stóð ekki steinn yfir steini þá geturu ekki ætlast til að markmaðurinn sé góður og hvað þá með mikið sjálfstraust ef þú þarft að hafa jafn miklar áhyggjur af varnarmönnunum þínum og sóknarmönnum hins liðsins. Drullu góður markmaður sem þarf aðeins að bæta úthlaupin sín. Þú getur nú ekki hafa horft á fyrsta leikinn ef þú ætlar að dæma hann slakastan eftir hann var jú ryðgaður en allt liðið var drullu lélegt. Það er nú aðalega honum að þakka að við fengum þessi stig. Svo vertu nú bara alveg rólegur

 63. Fyrir ykkur sem eruð svona gjörn á að afskrifa Balotelli þá vil ég minna á að einn besti leikmaður Man Und fyr eða síðar ber heitið Eric Cantona. Hann reyndist ekki eins erfiður og margir áttu von á og endaði sem goðsögn á Old Trafford.,

  Ég hef fulla trú á Balo. Galdurinn er að gera hann hluta af heildinni og láta hann finna í hjarta sér að hann sé Liverpoolmaður en ekki bara atvinnumaður á súperlaunum að vinna vinnuna sína inn á vellinum.

Komdu með Kop.is á Anfield!

Stórleikur eitt – City á Etihad