VandræðaPési eða bara Pési?

Nú má búast við því að Silly Season fari að detta í sitt árlega “overspan” og væntanlega verða okkar menn þar miðdepillinn þetta árið, ásamt kannski nágrönnum okkar í Man.Utd. Er það gott eða vont? Það er vont fyrir sálartetrið á meðan þessu stendur, en samt er þetta nú partur af þessu og í rauninni vill maður frekar vera þátttakandi í því fremur en að standa fyrir utan og horfa upp á liðið sitt utan umræðunnar og ekkert að gerast. Það er alveg morgunljóst að Brendan er að reyna að bæta við sig öflugum framherja, spurningin er bara hver það verður og hvort náist að klára það á þessum dögum sem eftir eru af ágústmánuði.

Í dag er Twitter hreint út sagt logandi vegna meint boðs okkar manna í Mario Balotelli. Ja eitt er víst, sá strákur er umdeildur og það mjög. Margir hafa afar gaman af uppátækjum hans og aðrir hrista bara hausinn yfir allri vitleysunni. En ég held að flestir séu sammála um eitt þegar kemur að þeim strák, hann er stútfullur af hæfileikum. Ég hef lesið talsvert um það á Facebook og Twitter að Brendan hafi náð að hemja einn vitleysing vel, þ.e. Luis Suárez. Ég er ekki alveg að botna þann málflutning. Luis Suárez er draumur allra knattspyrnustjóra utan vallar. Hann er pollrólegur, aldrei úti á lífinu og mikill fjölskyldumaður. Í rauninni þá er hann algjör engill utan vallar. Á æfingum eru fáir jafn ákafir og leggja sig jafn mikið fram og hann, aldrei neitt vesen með hann þar. Meira að segja í leikjum, þá leggur hann sig allan fram og stundum aðeins of mikið. Hann er ekki að fá mikið af spjöldum, meiðist nánast aldrei og skorar mörk. Hann er reyndar með einn galla, hann bítur fólk annað slagið. En að bera hann saman við einhvern vandræðaPésa, það er svolítið út úr korti að mínu mati.

Ég er þó alls ekki að segja að Brendan geti ekki höndlað mann eins og Mario, síður en svo, ég tel að hann geti það og að því að maður hefur heyrt, hefur sá drengur náð að þroskast örlítið síðan hann fór frá City (utan vallar allavega). Mario er algjört skólabókardæmi um kaup sem FSG standa fyrir. Talað um 17 milljónir punda, sem er ódýrt fyrir þetta hæfileikaríkan mann, gott endursöluverð á honum og ungur í þokkabót (ný orðinn 24 ára). Tikkar í nánast öll boxin. Í mínum huga er spurningin ekki um virðið á honum, hegðun utan vallar eða hæfileika. Nei, ég tel þetta snúist um hans leikstíl inni á vellinum. Hann virkar oft á tíðum algjörlega laus við allan áhuga á leiknum, latur og kærulaus. Það er það sem ég hef mestar áhyggjur af, sér í lagi þegar horft er til leikstíls Liverpool undir Brendan. Sjáið þið Balo fyrir ykkur í hápressunni? Ekki ég. En ef Brendan telur sig geta notað hann og breytt honum eftir sínu höfði, þá er engin spurning um að þessi drengur gæti sprungið endanlega út. Hef ég trú á því? Nei.

Aðrir sem nefndir eru til sögunnar eru menn eins og Radamel Falcao. Það er ekki nokkur spurning um að hann er stútfullur af gæðum, en er hann raunhæfur möguleiki? Nei, ég held að því fari fjarri. Hann er að spila fyrir lið Monaco og er þar á ofur samningi og í þokkabót þá er það skattaparadís. Liverpool gætu alveg ráðið við kaupverðið eitt og sér, en launapakkinn? Í ofanálag þá er talið um að hugur hans sé löngu kominn til Real Madrid og öll skref fram að því eru jú einmitt það, milliskref og viljum við slíkt? Einnig hefur verið talað um hann á lánssamningi. Eitt slíkt tímabil myndi kosta okkur í kringum 22 milljónir punda alls. Ég held að bæði Rodgers og FSG séu með meiri framtíðarsýn en það að eyða svona háum fjárhæðum í skammtímaúrbót.

Edison Cavani er svo annar, en hann spilar fyrir olíufélagið PSG í París. Hann var keyptur á um 65 milljónir Evra fyrir ári síðan og er með ansi hressileg laun. Þar fyrir utan er hann að verða 28 ára gamall og ekki beint týpa sem maður sér fitta inn í leikstílinn okkar, hann er reyndar duglegur á vellinum og fínn slúttari, en maður sér hann einhvern veginn ekki fyrir sér miðað við hvernig liðið hefur verið að spila. Allavega finnst mér hann vera ansi langt frá því að réttlæta verð og launapakka miðað við það hvernig það er allt í dag.

Samuel Eto’o er svo einn sem hefur verið ansi oft orðaður við okkur undanfarið, sá er í aðeins öðrum flokki en hinir áður upptöldu, enda er hann samningslaus og í leit að liði. Sá kann að skora mörkin, um það er enginn vafi, en hann er líka orðinn 33 ára gamall og hann er ekkert að fara að spila frítt, þótt það væri bara þetta eina ár. Ég gæti trúað að menn væru með hann uppi í bakhöndinni ef allt annað bregst, þeir eru alveg til verri til að vera varaskeifa í framlínunni en Samuel kallinn. Persónulega hef ég aldrei verið neitt voðalega hrifinn af honum sem leikmanni, en ég gæti alveg skilið þetta “move” ef réttur maður fæst ekki inn og bíða þyrfti fram í janúar eða fram á næsta sumar. Þetta yrði allavega ódýrari tilraun en að kaupa einhvern gaur á 15-20 milljónir punda og á samningi til 4-5 ára.

Vonandi fáum við bara eitthvað nice surprise í restina og inn komi spennandi leikmaður sem bætir einhverju við liðið. Helst af öllu vildi maður fá mann sem yrði lykilmaður næstu árin og síst vill maður sjá einhverja skammtímalausn fyrir næstu 6-12 mánuði. Markaðurinn í dag er þó ekki einfaldur og mikið vatn á eftir að renna til sjávar fram að 1. september nk. Ég vil Pésa og er eiginlega nokk sama hvort það sé Pétur Pan, Pétur Panodil eða Vandræða Pétur, ég vil bara góðan Pésa.

35 Comments

 1. Sælir félagar

  Balotelli er sá sem ég hefi helst áhuga á af þeim sem SSteinn nefnir. Ég hefi ekki neinar áhyggjur af því að BR og SG geti ekki höndlað drenginn. Hæfileikar hans er engum vafa undirorpnir og verðið er hlægilegt. Ef tekst að höndla drenginn (sem ég er viss um að er hægt) þá er þetta bara tær snilld.

  Það er nú þannig.

  YNWA

 2. Úps, eitthvað Auto Complete slys í gangi hérna í vinnunni!

  Carlos Vela minnir mig allavega á Luis Suarez nema hvað hann er bara með svona 80% af hæfileikum Suarez – sem er samt alveg helvíti gott! Þar fengjum við allavega inn svipaða týpu af leikmanni.

 3. Falcao gæti komið í lok gluggans þar sem hann vill væntanlega bíða þar til á síðustu stundu með að fara ef Real Madrid ákveði að bæta við, ef þeir koma ekki með boð þá gæti ég alveg séð hann fyrir mér enda í Liverpool búning.

  Annars lýst mér ágætlega á Balotelli, varðandi varnarframlag þá er það ekki merkilegt, en Henderson, Can og Allen á miðjunni ættu að geta bætt það upp þar sem ég held að þeir muni spila meiri rullu í liðinu en Lucas.

 4. Hvað með að fara aftur til Þýskalands?

  Er ekki hægt að fá menn eins og Draxler eða Volland?

  Annars hef ég engar áhyggjur svo lengi sem slúðrið snýst um Falcao, Cavani eða Balotelli.
  Þegar það breytist hins vegar í Eto’o, þá er ég farin að efast. Enda þó gæjinn sé 33 á pappír vita allir að hann er líklegast nær fertugu eða jafnvel meira.

 5. Ég horfi helzt til Falcao . Hef fylgst með honum síðan hann var gutti hjá Los Millonarios í Buenos Aires. Hann er baneitraður í vítateignum, s.s. stórkostlegur klárari og skiptir það engu máli hvort það sé með hausnum eða fótunum. Einn af bestu skallamönnunum í bransanum að mínu mati. Baráttan hans er svo til fyrirmyndar enda virkilega hugrakkur og vel á sig kominn líkamlega. Stórkostlegur leikmaður og hin týpíska nía.

  Vona svo innilega að okkar menn slái til og festi kaup á honum enda myndi hann smellpassa einsog flís við rass í þetta púsluspil Rodgers.

 6. Af þeim öllum myndi ég Vilja mest Falcoa, semsagt ef ég hugsa órökrétt..
  EN hann er já með Huge launapakka og er klárlega með stefnuna á Real, nenni ekki að fá einhvern sem ætlar bara að vera í 1-2 ár og fara svo þangað þegar hann verður legend hjá Liverpool. Og náttúrlega bara djók þetta með láns dílinn og við að borga 20-22mill fyrir hann í 1 ár? Never.
  Næsti, klárlega Cavani, aðalega því mér finnst hann töffari. En hann er líka drullu góður og kann alveg að skora, getur líka spilað allar stöður framarlega.
  Svo er það Balló minn..Ef Brendan treystir sér í hann þá treysti ég mér í hann. Hef samt áhyggjur af leti hans eins og þú komst inn á líka, en væri alveg til í að prufa þetta dæmi.

  Við endum samt pottþétt með Darren Bent eða eitthvað álíka flippað.

 7. Veigar Pál fyrir “nokkra hundraðþúsund klall”, þegar hann vetður búinn að snýta Inter Milan……

 8. Er Reus alveg úr sögunni? Eða Aubameyang, við þurfum einhvern snöggan og duglegan eins og Suarez, með annan hvorn þessara sé ég okkur berjast við City og Chelsea.

 9. Hann er heimsklassa slútari fyrir lítið.Hraður teknískur og sterkur semsagt gerður fyrir enska enda var hann góður þegar hann nennti og fékk að spila fyrir city. Einnig er hann góður að leggjan fyrir liðsfélagana. Hefur komið eitthver Ballotelli skandall eftir að hann fór til Inter? Held að þetta sé ekki spurning. Það á að kaupa þennan dreng og gera eitthvað trillitæki úr honum.

  https://www.youtube.com/watch?v=GYwTKQX1VnI

 10. Alltaf ná þessi “best-of” myndbönd að heilla mig. Ef hann kemur vill ég að hann verði með kamb og ekkert kjaftæði!

 11. Eitt í viðbót varðandi Balo, hann er búinn að prófa að spila fyrir nokkur stór lið og virðist ekki dreyma um að spila fyrir eitthvað sérstakt lið, lifir bara í núinu. Hann hefur það framyfir Falcao, og auðvitað reynsluna af því að spila á Englandi.

 12. Falcoa og Ballotelli verða afgreiddir báðir á einu bretti til LFC og veislan verður fullkomnuð 🙂

 13. Það væri auðvitað frábært að fá Falcoa til Liverpool, tel það þó mjög óraunhæft og tek undir SSTeinn að hann væri bara að koma til Liverpool í 1-2 ár.

  Ég myndi líka alveg elska að fá Balotelli í Liverpool…frábær leikmaður þegar hausinn er í lagi og virkilega skemmtilegur karakter. Ég er viss um að Stevie G hjálpi honum að klæðast í vestið!

 14. Falcao ekki spurning, hann er klassa fyrir ofan hina pésanna. Her trú á ad hann komi á lokadegi gluggans. Koma svo opna veskid og vid vinnum deildina!

 15. Mér sýnist þetta Balotelli slúður bara að vera að aukast með kvöldinu!

 16. SSteinn ég er ekki viss um að það sé rétt hjá þér að Falcao sé óraunhæfur kostur.

  Ef eitthvað er að marka Tony Barrett þá er Falcao okkar kostur númer eitt en við erum víst að bíða eftir að sjá hvort hann fari til Real eða ekki. Fari hann ekki til Real þá er Liverpool tilbúið að borga einhverjar 20-22 milljónir fyrir að fá hann.
  “Liverpool are willing to pay what Monaco want for Falcao if he doesn’t end up at Madrid. (Tony Barrett)”

  Hann talar einnig um að Liverpool sé að skoða Balotelli en AC vilji ekki lána heldur bara selja. Liverpool hinsvegar vill hann helst í láni með einhverskonar buy option.

  Eins og komið hefur fram þá efast engin um hæfileika Balotelli en ég er sammála Steina að hann virðist ekki vera þessi vinnuhestur sem Brendan Rodgers vill að leikmenn sýnir eru. Þú veist að Balotelli mun seint spretta til baka til að sinna varnarvinnu.
  Einnig er spurning hversu mikið þú vilt rugga bátnum. Balotelli getur tekið upp á öllu. Einn góður á twitter sagði að besta leiðin til að lýsa Balotelli væri að ef það kæmi upp kjaftasaga á Twitter að hann hefði tekið með sér gíraffa á æfingu þá myndi maður alveg trúa því.

  En Rodgers á að hafa kannað stöðuna á Falcao, Cavani og Benzema en án árangurs .. http://t.co/mEhygc5TBz

 17. Myndi elska að sjá Balo hjá Liverpool, aðallega til þess að sjá hvað BR gæti mótað úr honum. Falcao væri náttúrulega rugl en innst inni myndi ég frekar vilja að hann færi til Real og við fengjum Benzema í staðinn, held að hans playmaking hæfileikar myndu blómstra hjá Liverpool (allir þekkja slúttið hjá honum)

 18. Ég held að það sé fullljóst að FSG/Henry eru meira en færir um að taka high roller/high risk – high reward veðmál þegar staðan býður upp á slíkt. Upphæðin sem Balotelli myndi kosta næði varla upp í high risk flokkinn einu sinni. Ég gæti alveg trúað þeim til að fara þessa leið.

  Spáið í hvað það myndi þýða ef Daniel Sturridge missir kannski af 15-20 leikjum á næsta tímabili. Það myndi líklega minnka líkurnar á topp 4 um tugi prósenta, m.v. núverandi hóp.

  Það þarf einn frambærilegan striker í viðbót. Hvort það þarf endilega að vera Mario Balotelli skal ósagt látið. En öryggisins vegna þarf einhvern; hedgefund manager skilur það. Þetta gæti hæglega orðið munurinn á toppslag og leðjuslag um 4.-5. sæti, ef heilladísirnar brosa ekki við okkur í vetur.

 19. Hej. Kannski er eg bjartsýnn eda vitlaus en skil ekki afhverju liverpool skoðar ekki einn mann. Okey hann er ekki vinsæll lengur hjá okkur eftir að hann fór. Torres er ódýr og góður. Honum hefur ekki gengið vel hja che en hæfileika hefur hann.10 – 15 mill og malid dautt

 20. Úff Páll, Torres er dauður sem fótboltamaður og búinn að vera það í töluverðan tíma.
  Hæfileikarnir eru bara alls ekki til staðar lengur og allur neisti farinn úr drengnum hvort heldur að hann sé að spila fyrir Chelsea eða landsliðið.
  Mér dettur nú einna helst hamstur í ljónabúri þegar hann gengur inn á fótboltavöll,slíkt er sjálfstraustið.
  Torres er fortíðin.
  Og eigið góðan dag 🙂

 21. Nokkuð gott að það sé kominn 21.ágúst og fyrst núna er einhver að minnast á að fá Torres aftur, sem þýðir að næsti leikmannagluggi verður líklegast algjörlega laus við slíka umræðu.

 22. Hann skoraði 30 mörk í 54 leikjum með AC, tel það nú nokkuð gott.
  Enda er þetta heimsklassa framherji ef hausinn er á réttum stað.

 23. Órói í Bárðarbungu og núna í morgunsárið er órói varðandi Balotelli. Kemur hann, kemur hann ekki…….. óvissustig!

 24. #32 hahahahah – þetta er snillingur. Hamar – má ég kynna höfuð á nagla. Fliss. En daaajöfull verður nú hressandi að fara að verja glórulausar ákvarðanir Balotelli í vetur.

  Hef reyndar meiri áhyggjur af samkomulagi hans og Sturridge, en sjáum til…

 25. Hræddur um að Balo sé svona karakter sem gæti eyðilagt móralinn í liðinu

 26. Að selja Borini á 14 m punda og kaupa Balotelli á 16 m punda (nettó 2 m) er no brainer fyrir mér, þrátt fyrir alla áhættuna sem honum fylgir. Treysti Rodgers og Dr. Steven Peters til að halda hausnum á honum í lagi. Rodgers er orðinn þekktur fyrir að ná því allra besta fram úr sýnum leikmönnum (Henderson, Sterling, Sturridge ofl.) og ég sé ekki af hverju hann ætti ná því allra besta úr honum líka. Ef allt fer til fjandans með Balotelli þá ætti endursöluverðið á honum að vera gott enda leikmaðurinn einungis 24 ára gamall. Finnst hann vera algjörlega áhættunar virði.

Barcelona tjá sig um kaupverð á leikmanni

Liverpool að kaupa Balotelli (uppfært)!