Southampton á morgun

Eruð þið að trúa þessu? Það er komið að því kæru lesendur, nýtt tímabil að hefjast og eftir rað-gleðina síðasta tímabil, þá getur maður vart beðið eftir þessu. Maður hreinlega vildi ekkert hætta síðasta vor, svo skemmtilegt var þetta blessaða lið okkar. Maður fann það reyndar fyrst á eftir að það var kannski allt í lagi að taka sér smá pásu, bara til að slaka á brosvöðvunum og tilfinningarússíbananum, en afar fljótlega var maður farinn að bíða. Bíða eftir hverju? Jú, maður hreinlega beið eftir undirbúningstímabilinu. Jú jú, ég veit að það var eitt stykki HM þarna inni á milli og auðvitað telst það vera fótboltaveisla svona yfir sumartíman. Margur knattspyrnu unnandinn á líka sitt lið hérna á Íslandi sem heldur þessu öllu saman við. Ég verð þó að viðurkenna það fyrir mitt leiti að þetta HM dæmi var bara svona fín afþreying í bið minni eftir hinni einu sönnu alvöru keppni. Tilfinningarnar hjá manni eru bara svo miklu miklu minni með einhverjum landsliðum heldur en með þessu blessaða Liverpool liði okkar.

Meira að segja þegar maður horfir á þessa æfingaleiki, þá eru þeir bara svona pirrandi forréttur sem tekur of langan tíma að framreiða. Maður veit að maður er að fara að fá hroðalega góðan aðalrétt og þessi forréttur er hreinlega bara fyrir, maður nennir heldur ekki að vera að eyða tíma í að velja rauðvín eða drykki með þessu öllu saman, bara aðalréttinn á borðið og það strax. Á ég að segja ykkur eitt? Aðalrétturinn verður borinn fram klukkan 12:30 á morgun og ég get sagt ykkur það að ég er gjörsamlega banhungraður. Hvað með þig lesandi góður?

Það þýðir víst lítið að fara yfir gengi liðanna so far á þessu tímanbili, enda um að ræða fyrsta leikinn. Það er þó hægt að glugga aðeins í það hvað þessi lið hafa verið að bardúsa síðan síðasti leikur síðasta tímabils var flautaður af. Þá voru tveir bestu menn andstæðinga okkar á morgun þeir Adam Lallana og Dejan Lovren. Getið þið hvað, þeir eru báðir leikmenn Liverpool FC núna, þótt aðeins annar þeirra muni spila þennan fyrsta leik. Lallana er byrjaður að æfa eftir meiðslin, en það eru ennþá c.a. 2 vikur í að hann verði leikfær. Lovren verður aftur á móti í hjarta varnarinnar og mun þurfa að stíga hratt og vel inn í hlutverkið sitt, að stýra þessari óstýrlátu vörn Liverpool. En þessir tveir eru ekki þeir einu, Rickie Lambert er einnig kominn aftur heim í heiðardalinn. Hann fór ungur úr Akademíu Liverpool og bjóst líklegast aldrei við því að heimsækja Anfield aftur nema sem borgandi áhorfandi, eða mótherji Liverpool. Draumur hans er að rætast og ég efast um að hann eigi eftir að sofna fljótt í kvöld.

Ef farið er yfir lið Southampton, þá hafa risa stór skörð verið hoggin í leikmannahóp þeirra. Fyrir utan þessa þrjá sem við höfum nælt í, þá borguðu Man.Utd þeim rúmar 30 milljónir punda fyrir 18 ára vinstri bakvörð og svo nældu Arsenal sér í hægri bakvörðinn, sem er einnig ungur og efnilegur. Þar fyrir utan hafa Tottenham verið að míga utan í Jay Rodriguez og Morgan Schneiderlin, en Dýrðlingarnir virðast vera búnir að segja stopp á sölur. Sá síðarnefndi hefur ekki verið par sáttur við það og virðist ætla að þvinga fram sölu og maður hefur hreinlega vorkennt þeim svolítið í sumar með það hvað er verið að narta mikið í liðið þeirra. En það er nú ekki svo að þeir séu bara á mörkum þess að ná í lið. Þeir eru búnir að gera slatta af kaupum og mörg þeirra eiga eftir að koma mönnum á óvart spái ég, þeir verða langt frá því að verða eitthvað auðvelt fórnarlamb fyrir lið í vetur. Þeir eru búnir að næla sér í Fraser Forster, sem er flottur markvörður, Ryan Bertrand hefur komið að láni frá Chelsea, Gardos kom frá Steaua Bucharest, Tadic frá Twente, Pelle frá Feyenoord, Taider frá Inter Milano og svo voru þeir að versla Shane Long frá Hull City fyrir um 12,5 milljónir punda. Jú, þeir misstu marga lykilmenn sem hafa haldið spili þeirra uppi, en þeir hafa svo sannarlega fjárfest þeim peningum sem inn komu. Ekki má gleyma því að Ronald Koeman hefur svo komið inn sem nýr stjóri eftir að Tottenham rændu hinum.

En þá að okkar mönnum, og það hefur heldur betur verið nóg að gerast þar í sumar. Við höfum látið frá okkur menn eins og Luis Alberto (á láni), Iago Aspas (á láni), Andre Wisdom (á láni), Divock Origi (á láni), Pepe Reina og Martin Kelly. Þessar brottfarir hafa nákvæmlega ekkert veikt liðið frá síðasta tímabili, enda menn sem spiluðu annað hvort lítið eða alls ekki neitt með Liverpool. Stóra málið er auðvitað brotthvarf Luis Suárez til Barcelona. Það vita það allir sem eitthvað hafa fylgst með fótbolta, að þar fer einn allra besti knattspyrnumaður í heiminum í dag og svo sannarlega myndi hvaða lið sem er sakna slíks meistara. Við munum gera það, en stóra málið er að reyna að styrkja aðrar stoðir liðsins, og það er ég sannfærður um að við höfum gert. Við höfum verslað eftirtalda menn inn í liðið: Rickie Lambert, Adam Lallana, Emre Can, Lazar Markovic, Dejan Lovren, Divock Origi, Javier Manquillo og Alberto Moreno. Við erum í alvöru talað að tala um rosalegar viðbætur við liðið okkar og þar fyrir utan þá er Jose Enrique orðinn heill heilsu aftur og við erum allt í einu komin með 2 vinstri bakverði. Hvað er að frétta? Topp miðvörður, hægri bakvörður, vinstri bakvörður, miðjumaður, tveir framsæknir miðjumenn og framherji. Og Brendan segist ekki hættur, hann vill bæta við sig einum alvöru framherja í viðbót.

Ég hef í ansi mörg ár þusað um það í Podköstum okkar á Kop.is að það vantaði meiri hraða í Liverpool liðið. Ég hætti þessi röfli á síðasta tímabili því hraðinn sem kominn var í liðið var rosalegur. En ef við horfum á þessar viðbætur í sumar, þá eiga þær flestar það sammerkt að enn bætist við hraðann. Báðir bakverðirnir eru öskufljótir. Emre Can á miðjunni telst seint vera seinn og þeir Lallana og Markovic koma með skemmtilega vídd inn í þetta allt saman. Þá erum við ekkert byrjuð að ræða menn eins og Ibe og Suso sem gætu líka orðið hluti af hóp í vetur. En þó svo að maður sé spenntur fyrir nýjum mönnum, þá er ég þó spenntastur að sjá næstu skref í ferli nokkurra leikmanna sem stigu upp á síðasta tímabili og gæði leka hreinlega af þeim í hverju skrefi. Já ég er að tala um þá Henderson, Coutinho, Sturridge og Sterling. Þeir eru allir korn ungir og virðast eiga mikið inni engu að síður. Haldi þeir áfram á sömu braut, þá geta þeir tryggt þetta Liverpool lið í titilbaráttu næstu árin.

Maður brosti hringinn á síðasta tímabili, þrátt fyrir að hafa misst af titlinum á grátlegan hátt í restina. Eitt atriði fór þó talsvert í pirrurnar á manni og hefur verið komið nokkrum sinnum inná það áður hér á síðunni. Þegar búið var að loka á Suárez og jafnvel Sturridge líka, þá leit maður á skipanina á bekknum með það fyrir augum að henda inn trompi sem gæti breytt leiknum. Uhh, ohh, damn, þar sátu kannski 4 varnarmenn með Aspas greyinu og hinum gjörsamlega áhugalausa Victor Moses. Bara ekkert, bara tómt. Brendan fær allavega einhverja valkosti núna, því maður skildi það oft á síðasta tímabili af hverju hann gerði ekki fleiri skiptingar en raun bar vitni, hann hreinlega hafi ekki nægilega trú á að það sem hann hafði í hóp myndi gera eitthvað betur eða meira en þeir sem inná voru, þótt þreyttir væru. Núna verður breyting á.

Það er ekki létt verk að ráða í það svona í byrjun tímabils hverjir muni hefja leik, enda búið að prófa ævintýralega marga leikmenn í leikjum undanfarið og ansi mörgum skipt inná og útaf í hverjum leik. Það er þó ljóst hverjir munu pottþétt missa af leiknum vegna meiðsla. Lazar Markovic mun ekki verða klár í slaginn, og áður hefur verið fjallað um fjarveru Lallana. Markovic ætti þó að vera orðinn klár fyrir næsta leik, gegn Man.City. Jon Flanagan verður einnig fjarri góðu gamni, en hann ku vera nálægt endurkomu. Sömu sögu er að segja af Daniel Agger. Ekki þykir heldur líklegt að Fabio Borini verði í leikmannahópnum, enda ekki ólíklegt að salan á honum til Sunderland gangi í gegn næstu daga. Moreno verður svo ekki kominn með leikheimild og því heldur ekki með. Þá held ég að það sé orðið nokkuð upptalið, allavega það sem vitað er akkúrat núna.

Það er morgunljóst og liggur í sólgleraugum uppi hver byrjar í marki, en þar með er það upptalið þegar kemur að einhverju sem er alveg öruggt í uppstillingu þarna aftast á vellinum. Eins og staðan er í dag, þá erum við með 2 hægri bakverði og 2 vinstri bakverði (Robinson ennþá ekki farinn á lán). Ég var ansi hreint hrifinn af frammistöðu Manquillo gegn Dortmund og ég ætla hreinlega að giska á að honum verði hent beint út í djúpu laugina og að hann hefði leik og vinur ykkar allra, hann Glen Johnson verði aftur í vinstri bakk. Ég hreinlega held að Brendan treysti ekki Jose strax í deildarleik, enda leit hann hreint ekki vel út á undirbúningstímabilinu. Ég er á því að Sakho þurfi að vinna inn sætið sitt og að Skrtel og Lovren verði í miðvörðunum. Gerrard verður að sjálfsögðu fyrir framan vörnina og Henderson hægra megin við hann, en stærsta spurningin í mínum huga er hver byrjar með þeim þarna inni á miðjunni. Ég vona að Brendan hugsi Lucas fyrst og fremst sem backup fyrir Stevie, þar á hann heima og er afar sterkur sem slíkur. Hann er ekki þessi leikmaður sem á að spila þarna framar á vellinum. Ég held að þetta verði spurning um það hvort Emre Can byrji í sínum fyrsta Úrvalsdeildarleik, eða hvort Brendan byrji með Joe Allen. Ég ætla að giska á það síðara. Þrenningin fremst verður svo skipuð þeim Coutinho, Sterling og Sturridge. Svona ætla ég sem sagt að spá þessu:

Lið Liverpool er svona

Mignolet

Manquillo – Skrtel – Lovren – Johnson

Henderson – Gerrard – Can

Sterling – Sturridge – Coutinho

Sem sagt, sama lið og gegn Dortmund, en Allen kemur inn fyrir Can.

Þið getið ekki ímyndað ykkur hvað að er hrikalega ánægjulegt að vera farinn að skrifa upphitanir aftur, það fer um mann svona sæluhrollur. Mér er eiginlega nokk sama hversu margir lesa þessa langloku, þetta er bara ferlega gaman að setja niður hugsanir sínar, það er hreinlega bara bónus ef það eru einhverjir þarna úti sem hafa gaman af því að lesa þessa vellu. Þetta stefnir í algjörlega frábært tímabil, þrátt fyrir að nágrannar okkar séu nánast búnir að tryggja sér Meistaradeildarsæti áður en tuðru er sparkað. Ég get allavega ekki beðið eftir að flautað verði til leiks. Ekki ætla ég að reyna að leikgreina andstæðinga okkar frekar, enda ekki séð eina einustu mínútu undir stjórn Koeman. Þetta verður allt að koma í ljós en eitt er víst, ég er bara ansi hreint bjartsýnn fyrir þennan leik, hell yeah, ég er bara assgoti bjartsýnn á tímabilið sem er framundan. Ég er eiginlega á því að við komum til með að halda okkur í baráttunni í vetur, líkt og síðast, en breytingin sem verður á núna er að fleiri lið verða um hitunina. Búið ykkur undir spennu, hreinlega mikla spennu.

BRING…IT…ON

We Go Again


Uppfært
Tímabilið er annars byrjað á Englandi, það byrjaði ca. svona

62 Comments

  1. Það er líka svo gaman að því að nú er liði í nákvæmlega sömu stöðu og það var í vor þegar nokkrar umferðir voru eftir, þ.e. að með því að vinna alla leikina sem eftir eru verður liðið meistari.

  2. Sælir.

    Félagi minn er fyrir tilviljun staddur í Liverpool, er einhver hér sem getur ráðlagt honum hvernig og hvort sé hægt að næla í miða á leikinn?

  3. Það var mikið – upphitun komin og fyrsti leikur handan við hornið. Get ekki beðið.
    Líst alveg fáranlega vel á þetta lið okkar og spá leiknum á morgun 3-0 fyrir okkar mönnum.

    Ps. Þarf ekki að skipta Allen út fyrir Can í myndinni?

  4. Velkominn í úrvalsdeildina van gaaalinn, þar sem enginn leikur er gefins fyrirfram. Bí? einnig spenntur eftir því hvernig þú munt höndla bresku pressuna.

  5. Afsakið þráðránið EN Van Gaal-rúnklestin fer frábærlega af stað 🙂

  6. Það tók United ekki langan tíma að koma sér í neðsta sæti deildarinnar.

  7. Merkilegt að manu þyrfti að spila þennan leik. Hélt þeir fengju bara stigin gefins í ár?

  8. Gylfi stendur fyrir sínu.
    Auðvitað læðist lítið bros og smá hehehe hljómar en ekkert sem kom á óvart.
    En aðalmálið er morgundagurinn. Fyrsti leikur alltaf hættulegur og dýrlingarnir algerlega óskrifaðir eins og staðan er núna.
    En fjandakornið hvað þetta byrjar vel 🙂

    YNWA

  9. Munið þið hvað margir stuðningsmenn United móðguðust mikið þegar Brendan Rodgers sagði að Van Gaal ætti eftir að komast að því að hvað hver einasti leikur í ensku úrvalsdeildinni væri erfiður? Orð á borð við “hvernig dirfist Brendan sem aldrei hefur unnið neitt að segja þetta við Van Gall”

  10. Nú þá er bara næst á dagskrá að halda með WestHam í dag.

  11. Takk fyrir góða upphitun, ekki skemmdi fyrir að sjá Gylfa ganga frá van Gaal og félögum og síðan sjá Leicester jafna gegn Everton. Þessi forréttur var mun betri en ég bjóst við, sjáum til hvernig eftirbragðið verður 🙂

  12. Ég held að Liverpool eigi eftir að standa sig vel þrátt fyrir að Suarez eins og Bale fór frá Englandi til Spánar fyrir mikla peninga.

    Liverpool og Tottenham hafa keypt marga leikmenn fyrir þá upphæð sem fékkst fyrir S og B. Tottenham missti 3 stig fór úr 72 stigum í 69 stig þrátt fyrir að hafa keypt fullt af góðum leikmönnum.

    Munur á þessum tveimur liðum er að Liverpool hefur góðan þjálfara en Tottenham hafa haft efnilegan og lélegan þjálfara í þeim Boas og Sherwood. Þegar ég sá Gylfi í dag leggja upp og skora mark gegn Man Utd. þá varð mér þetta ljóst. Tottenham gat ekki verið sigursælt með Gylfa innanborðs en Rogers gat það.

    Þess vegna er ég sannfærður að Rogers geti keypt marga leikmenn á stuttum tíma vegna þess að hann nær árangri með þeim leikmönnum sem hann hefur til umráða.

    Áfram Liverpool.

  13. Á barastabara von á því að við séum að taka þetta á morgun og ætla ekki að ræða það meir, nema fín upphitun hjá SSteina, en smá löng sem er ok.

  14. Skil þig nú ekki alveg, Denni. Gat Tottenham ekki náð árangri með Gylfa innanborðs en Rodgers gat það?
    Gylfi stóð sig nú bara mjög vel þegar hann fékk tækifæri hjá Tottenham, þau voru bara of fá. Mér sýnist árangur Gylfa með Swansea í valdatíð Rodgers ekki hafa verið Rodgers að þakka heldur er það bara þannig að Gylfi þarf að vera aðalmaðurinn í liði. Sást það ekki í leiknum gegn Manu? Sést það ekki með íslenska landsliðinu? Spilið snerist einfaldlega í kringum Gylfa í leiknum áðan. Það er þannig sem hann fúnkerar best.

  15. Voða væri nú gott ef Tottenham myndi tapa fyrir West Ham. Arsenal þarf svo bara að klikka á eftir og þá verður helgin orðin vel upp sett fyrir stórsigur okkar manna á morgun og toppsætið verður okkar…sem við sleppum aldrei frá okkur út tímabiliið…

    Jinx?

  16. Loksins! Maður verður límdur við skjáinn á morgun.
    Annars frábær úrslit hjá Swansea í dag. Fannst reyndar koma rosalega lítið út úr Bony á meðan Gomis leit vel út. Gylfi náttúrulega að spila mjög vel.

  17. Mér fannst Bony ekki líta vel út og Gomis ekki merkilegur. Swansea verða í vandræðum á þessu tímabili held ég en við dæmum þá kannski þegar þeir spila við alvöru lið 😉

    Annars snýst þetta alltaf um hvað Liverpool gerir. Það breyttir litlu hvað önnur lið eru að gera ef við klárum ekki okkar verkefni.

  18. Tottenham náði ekki árangri af því að þeir voru ekki með eins góðan þjálfara eins og Liverpool.

    Gylfi er náttúrulega snillingur sem kann ekki að vejla lið ef hann velur Tottenham fram yfir Liverpool.

    Er búinn að kaupa miða á alla heimaleiki íslenska landsliðsins í undankeppni EM m.a. til að sjá Gylfa spila.

  19. Er með Gylfa í fantasy en sé eftir því að hafa ekki sett hann sem fyrirliða. Það var náttúrulega gefið mál að hann myndi rúlla upp scum.

    Annars frábær upphitun.

    Captain hjá mér er Sturridge 🙂

  20. Takk fyrir upphitunina Steini, hef alla trú á að liðið komi til leiks með áframhaldandi flugeldasýningu frá síðasta tímabili. Biðin er að sprengja spennustigið 😉

    Hlakkaði mikið í mér að sjá United hiksta í fyrsta leik en krakkar er samt ekki óþarfi að vera með skítkast þó maður sé að gera grín að þeim? Að kalla þá “manure “, “Van Gaal-rúnklestin”, er okkur ekki samboðið.
    Það hljóta samt allir Íslendingar að vera ánægðir með góða byrjun Gylfa 😉

  21. Ætlaði að prófa nýja fellihýsið um helgina en ég frestaði því um óákveðin tíma-LEIKUR Á MORGUN!

  22. Jæja þá er þetta byrjað. BTW bendi mönnum á commentið mitt í gær í smb við Man Utd. enough said.

    Annars var engin búinn að spá í byrjunarliði Southampton þannig ég ætla að rýna aðeins hvernig það gæti orðið:

    Forster

    Clyne- Fonte

    Cork- Davis

    Pelle

    Það verður engin waterboy hjá þeim heldur við keyptum hann víst líka.

    Game on ÁFRAM LIVERPOOL !!!! #YNWA

  23. Sælir félagar

    Takk fyrir langa og stranga upphitun SSteinn. Maður var orðin vel heitur þegar henni var lokið. v-G- r-lestin fór út af sporinu í dag og átti vægast sagt dapran leik á móti afar slöku liði Swansea. Ég þakkaði guði fyrir að Bony er ekki leikmaður Liverpool svo slakur var hann. Arsenal mátti þakka fyrir stigin þrjú og þurfti að fækka mönnum á vellinum svo þeir næðu sigri.

    Þetta segir manni að ekkert lið má ganga að neinu gefnu í þessari deild og því verða okkar menn að mæta til leiks á morgun afaar einbeittir og ákveðnir. Tel þó að þeir eigi að skila 3 stigum í hús á móti löskuðu liði Dýrlinganna.

    Það er nú þannig.

    YNWA

  24. #35, sammála algerlega frábært! Rodgers ýjar að því að hann gæti jafnvel verið í byrjunarliðinu á morgun!

    Hlakka gríðarlega til morgundagsins. Menn mega hafa sína skoðun á gæði okkar liðs, en okkur vantar ekki hraðann, það er alveg ljóst!

  25. Frábært að sjá að það sé loksins búið að ganga frá kaupunum á Moreno.

  26. Ætli BR sé að þjálfa dúfur í frítíma sínum eða e.t.v. búinn að ráða Mike Tyson í verkið? Þetta var ansi nákvæm sending til Old Trafford a.m.k… 🙂

  27. Eftir að hafa séð United reyna að spila fótbolta í dag tel ég að Gaal hafi gert stór mistök að prófa liðið áður en hann fer að kaupa fleiri leikmenn, af hverju ætti Vidal, Di Maria eða einhver annar góður leikmaður að vilja fara til félagsins þegar það sér að liðið er enn í sama tjóni og síðasta vetur?

    Leikmennirnir vita það sjálfir að það þarf miklu meira en 1-2 góða leikmenn í liðið svo að það geti spilað í CL á næsta tímabili. Kannski er ég fullfljótur að afskrifa United, en miðað við frammistöðuna í dag þá mun liðið ekki ná í fleiri en 1 stig um næstu helgi.

    Btw, ég sá einhversstaðar að Gaal tókst að slá met sem Moyes sá sér ekki fært um að slá.

  28. Sæl öll.

    Á morgun á morgun munum við sjá aftur rauðklæddu hetjurnar okkar hlaupa um grænar grundir Anfield og vonandi skora þeir fleiri stig en gestirnir og senda þá tómhenta heim. Ég ætla nú ekki að hlakka yfir hrakförum annarra því ég trúi því að málshátturinn What goes around comes around sé málið og því hlakka ég ekki yfir tapi Man. Utd og er svo sammála þeim sem sagði hér fyrr að það er fyrir neðan okkar virðingu að tala illa um önnur lið.

    Hlakka mikið til morgundagsins þó svo að ég verði að treysta á betri helmingin til að vita um afdrif þar sem ég verð að vinna en ég hugga mig við að ég er að fara mjög fljótlega á Anfield og þá skoða ég þetta allt með eigin augum.

    Nú datt mér í hug að þegar Gylfi skoraði og lagði upp mark gegn Man.Utd. hvernig ætli honum hafi liðið…þar sem hann er marg yfirlýstur stuðningsmaður Man.Utd ég hefði ekki viljað vera í hans sporum. En ég held hann eigi eftir að blómstra í Wales….

    Þangað til næst
    YNWA

  29. Sæl Sigríður og velkomin aftur, það er rétt að maður á ekki að hlakka yfir óförum annarra en man.utd. er auðvitað undantekning

  30. Veistu það Sigríður þetta er allt dagsatt hjá þér, what goes around comes around. Hefur þú ekki sjéð utd tröllin sem eru búin að fara offorsi hér á þessu spjalli í seinustu 3-4 pistlum og hvað nú? Það voru tveir utd menn hjá mér í dag með stórar yfirlýsingar fyrir leik(þeir myndu rústa þessum leik og LFC missi meistaradeildarsæti í ár út af þeim) Þarf að hitta þá aftur á morgun og ég mun mæta með Kötlu iðnaðarsalt til að maka í svöðusárin á þeim. Eins og ég sagði hérna um daginn. Menn eiga að bíða með að rífa kjaft þangað til í desember. Punktur

    YNWA

  31. #41 ég er sammála þér með það að What goes around comes around, en það virðist ekki hafa hjálpað okkur Liverpool mönnum síðastliðin 20 ár þegar United menn voru að hlægja af okkur, nema jú í dag og síðasta tímabil.

    Burt séð frá því er þetta liðið sem vann LFC um daginn 3-1, og Van Gaal er ekki að fara leggjast undir sængina og væla heldur geri ég ráð fyrir því að hann sýni sínum mönnum rassgatið í þetta skiptið og rífi liðið upp þetta tímabilið, Ekki vera of fljótir að Jinxa þetta þegar þeir eru í besta falli 3 stigum bakvið okkur.

    Liverpool þekkir ekkert á Southampton og vita ekkert hvað þeir eru að fara í á morgun þannig ég spái þessum leik 1-1 Jafntefli.

  32. Þvílík veisla!!
    Ég held ég myndi tippa á bara nákvæmlega sama byrjunarlið, ef ég gef mér það að Enrique sé ekki alveg í leikformi. Ef hann er það þá myndi ég velja hann í vinstri bak.
    Eins myndi ég vilja frekar Can í byrjunarlið í stað Allen, en finnst samt sem áður kannski skynsamlegra að hafa ekki of mikið af nýjum mönnum í fyrsta leik.

    Svo tippa ég á að leikurinn fari 1-3 fyrir okkar mönnum, Sturridge með 2 og Gerrard með 1.

    Ps. Who the fuck is Van Gaal?!

  33. Sæl öll!
    Maður er nú orðinn nokk spenntur fyrir morgundeginum!

    Deildin byrjaði vel – scummararnir gàtu ekki blautan – nær allir, reyndar að Ashley Young undanskildum! Lítill fugl hvíslaði að mér að hann hefði heyrt fiðurfélaga sína segja við hann “èttu skít”. Hans leikur batnaði ekki við það. Ég held að stuðningsmenn nágranna okkar séu með óbragð í munninum út af þessarri frammistöðu. En að alvörunni.

    Ég hef trú á okkar liði. Ungu mennirnir eru àrinu eldri og hinir eldri eldast hægar – hlutfallslega. Þeir verða bara betri og ná að bæta missi Suarez að einhverju leyti. Flæðið og hraðinn verður til staðar. Við náðum að búa nokkur færi fyrir Suarez til viðbótar við þau sem hann skapaði sjálfur einn og óstuddur. Ekki má heldur gleyma þeim færum sem hann skapaði fyrir aðra. Hann fékk oft gagnrýndur fyrir lélega nýtingu færa. Við munum skapa okkur færi áfram og vonandi nýta þau.

    Við erum með frábæran þjálfara sem hefur hugrekki og áræðni – sumir kalla það að hafa hreðjar!

    Rýnum til gagns!

    YNWA

  34. Sæl og takk fyrir upphitun. Er í London(Hammersmith). Er einhver sem getur vísað mér á vistlega krá sem sýnir leikinn hér? Ekki verra ef það er lfc knæpa.

  35. Maður er bara við það að hætta að sakna Moyes!

    Gaman fyrir Gylfa að klára leikinn fyrir Svansí. Nú er bara að spila eins á morgun og á móti Dortmund og þá er þetta fín byrjun á ensku deildinni.

    And now you’re gonna believe us!

  36. Sælt veri fólkið, nú er komið að því! Okkar menn munu vonandi klára leikinn á morgun. Mikið er ég orðinn spenntur og glaður að fá að horfa á þetta skemmtilega lið spila aftur. Ég hef ákveðið það að í vetur mun ég ekki ráðast á man utd félaga mína því ég man hvernig það var að vera í þeirra sporum. Það er nóg að gleðjast og pæla í Liverpool liðinu. Koma svo!!

  37. Vona að Agger byrji. Er ekki að grínast. Topp maður sem mun eiga sitt besta tímabil ever í vetur.
    #plísekkiseljaallamínauppáhaldsleikmenn

  38. Við erum hér nokkrir guðfræðingar og prestar sem erum að fara á Hólahátíð á morgun. Við þurfum að mæta í messu kl. 14. Veit einhver um góðan pöbb í Hjaltadal þar sem við getum áð fyrir helgihaldið?

  39. fjallaði þráðurinn ekki um upphitun fyrir leikinn? ekki er að sjá það á kommentum sem eru nær öll þórðargleði yfir þessum tapleik United. Verum þroskaðri og tölum um okkar lið og leikinn gegn Southampton.

  40. Sammála Steina hvað varðar byrjunarliðið en ég hallast frekar að því að Emre Can byrji í staðinn fyrir Allen. Hef séð þann gutta spila á undirbúningstímabilinu og hann lofar heldur betur góðu. Nautsterkur og flottur á boltanum. Miðjan okkar með Hendo og Can gæti orðið lykillinn að velgengi hjá okkur í ár, þeir eru vinnuhestar dauðans!

    Sammála mönnum um að Lucas sé frábært back-up fyrir SG8. Vonandi verður hann notaður sem slíkur í vetur.

    Hef alls ekki áhyggjur af markaþurrð í vetur, erum með hrikalega sóknarþenkjandi kantara í Sterling og Coutinho (eða í holunni) og ekki versna möguleikarnir með tilkomu spænsku bakvarðanna. Get hreinlega ekki beðið eftir því að sjá Moreno fljúga upp kantinn, sá lofar góðu! Auðvitað vitum við hvað Studge getur gert þegar hann er meiðslalaus, hann er náttúrulegur markaskorari og hefur sýnt það með yfirvegun sinni í færunum sínum.

    Hvað miðverðina varðar þá held ég að Skrtel sé öruggur með sína stöðu og ég hef fjallatrú á Lovren, hann er akkúrat týpan sem okkur vantaði. Ekki amalegt að eiga Sakho þarna líka ásamt Agger líka. Hef reyndar fundist Agger vera meiri ruslakall a la Hamann heldur en miðvörður. Hann er of veikur í skallaeinvígum en frábær að lesa leikinn og koma boltanum í leik upp á við.

    Draumur minn er að fá argentíska landsliðsmarkvörðinn frá Sampa og Reus og ég mun brosa hringinn.

    Hvað leikinn varðar í dag að þá hræðist ég fyrst og fremst óvissuna um lið Southampton og spilamennsku þeirra en treysti á BR og félaga til að undirbúa okkar menn í þennan fyrsta bardaga okkar á nýju tímabili.

    Get ekki frigging beðið!

    Y.N.W.A!

  41. Vill sjá Liverpool tefla þessu liði fram:

    Mignolet
    Manquillo Lovren Skrtel Johnson
    Gerrard
    Henderson Coutinho
    Sterling Ibe
    Sturridge

    Um að gera að leifa Ibe að spreyta sig strax, annars gæti hann helst úr lestinni, þvílíkt talent í drengnum.

  42. Þettta er að bresta á! vaknaði 7 í morgun vegna yfirspennu… búinn að fara 4 sinnum á klósetttið vegna spennu. Fæ alltaf niðurgang fyrir fyrsta leiks tímabilsins… Biðin loksins á enda eftir frekar leiðinlegt sumar..(já ég hata HM) enn ég Elska Liverpool Mun fleiri tilfinningar og taugar til þess enn einhvers landslið í heiminum! Jæja Góða skemmtun félagar framundan er Veisla! í 9 mánuði! 😀

  43. Slúðrið segir að Lucas byrji á kostnað Can/Allen. Ef svo er vona að honum sé sýndur stuðningur

  44. Veislan er að byrja, þetta verður eitthvað í vetur. Allherjar þakkir til allra Kopvefja, aðalmanna,gesta þeirra og þeirra sem eru að skrifa inn á kommentin, þetta bjargar geðheilsunni og rífur upp spenninginn. Lokastaðan í vor fer sennilegast mest eftir því hvað við verðum lengi inni í flestum keppnum einsog og við ætlum okkur. Gæti verið nauðsynlegt að fá styrkingu í janúar glugganum og þá vilja allir koma til okkar.
    Björn I

  45. Nei Steini, þetta er ekki langloka, miðað við hve lengi maður hefur beðið eftir upphitun þá er þetta steikarsamloka með bernaise. Sveimérþá, held ég fái mér steikarsamloku með bernaise í hádeginu og bjór, enda er þvílík veisla að byrja.

    Þrátt fyrir að við höfum keypt marga flotta í sumar, þá bíð ég spenntastur eftir að sjá Coutinho halda áfram að þróast í einn besta playmaker í deildinni.

    Einnig hlakka ég til að sjá Lovren spila, held að hann verði fljótur að stimpla sig inn, geri ráð fyrir að hann skori í dag – er hann ekki með 2 mörk í tveimur leikjum á Anfield? 🙂

    Annars er ég bjartsýnn fyrir þessa rússíbanareið sem framundan er, kominn í gallan og búinn að reima á mig skóna – we go again!

  46. Team is apparently: Mignolet, Manquillo, Skrtel, Lovren, Johnson, Gerrard, Lucas, Henderson, Coutinho, Sterling, Sturridge

    Erum við að tala um Gerrard og Lucas inná á sama tíma? Æjjæjj…

  47. Er að springa !!!!! Veislan loks að hefjast. Tökum þetta 5-0…… Já þýðir ekkert annað en að vera bjartsýn !

    Áfram Liverpool
    YNWA !

Góða skemmtun!

Liðið gegn Southampton